Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Egilsstaðabær - Álagning b-gatnagerðargjalds á iðnaðarhús

Véltækni hf.28. maí 199897090045

Valdimar Benediktsson framkv.stjóri122

Lyngási 6-8

700 Egilsstaðir

 

 

Þann 28. maí 1998 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

 

Með erindi, dagsettu 15. september 1997, kærði Valdimar Benediktsson framkvæmdastjóri Véltæknis hf. til félagsmálaráðuneytisins ákvörðun Egilsstaðabæjar um álagningu B-gatnagerðargjalda á fasteign fyrirtækisins að Lyngási 6-8, Egilsstöðum.

 

Erindið var sent til umsagnar bæjarstjórnar Egilsstaðabæjar með bréfi, dagsettu 16. september 1997. Umsögn barst með bréfi, dagsettu 10. október 1997. Ráðuneytið óskaði eftir frekari gögnum um málið frá Egilsstaðabæ með bréfi, dagsettu 17. október 1997, og bárust þær upplýsingar með bréfi, dagsettu 2. desember 1997. Ráðuneytið taldi rétt að gefa kæranda kost á að tjá sig um framkomin gögn frá Egilsstaðabæ og var það gert með bréfi, dagsettu 15. janúar 1998. Athugasemdir Sveins Sveinssonar hrl., fyrir hönd kæranda, bárust ráðuneytinu þann 26. febrúar 1998 með bréfi, dagsettu 19. sama mánaðar.

 

I.Málavextir.

 

Með reikningi, dagsettum 18. september 1996, krafði Egilsstaðabær Véltækni hf. um kr. 1.028.757.- í B-gatnagerðargjöld. Skömmu áður hafði bundið slitlag verið lagt á Lyngás. Hafði kærandi uppi mótmæli við sveitarfélagið og lauk viðræðum aðila með því að með bréfi, dagsettu 4. september 1997, var kæranda tilkynnt endanleg ákvörðun sveitarfélagsins um að fyrrgreindur reikningur skyldi standa.

 

II.Málsástæður.

 

Kærandi heldur því annars vegar fram að sveitarfélaginu sé ekki stætt á að krefjast gjaldsins fyrr en það hafi lokið við frágang götunnar. Samkvæmt 4. gr. laga um gatnagerðargjöld nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975, megi innheimta gjald samkvæmt 3. gr. laganna af öllum fasteignum við þær götur sem bundið slitlag hefur verið sett á og þar sem gangstéttir hafa verið lagðar, enda sé eigi lengri tími en fimm ár liðin frá því að slitlag var sett eða gangstétt lögð.

 

Ljóst sé samkvæmt þessu að sveitarfélagið hafi ekki verið heimilt að krefjast gjaldsins þar sem gangstéttir hafi enn ekki verið lagðar við Lyngás. Framkvæmdinni sé því ekki lokið.

 

Hins vegar telur kærandi að um of háa gjaldtöku sé að ræða og í raun dulbúna skattlagningu. Samkvæmt upplýsingum sem kærandi hafi aflað sér megi ætla að kostnaður við að leggja bundið slitlag og gangstétt við hans hluta götunnar (244 fermetrar) sé tæplega 300.000.-

 

Í umsögn Egilsstaðabæjar frá 10. október 1997 segir m.a. svo:

“Um leið og tekin er ákvörðun um lagningu bundins slitlags er fasteignaeigendum við viðkomandi götu tilkynnt um fyrirhugaðar framkvæmdir og áætlaðan kostnað þeirra skv. gjaldskrá. Þegar lokið er lagningu bundins slitlags er sendur út reikningur byggður á reglugerð Egilsstaðabæjar um gatnagerðargjöld frá 1986, með breytingum 1989. Þá er 1/4 hluti gjaldsins gjaldfelldur, en eftirstöðvar má greiða með þremur jöfnum greiðslum, en síðasti hluti er þó ekki greiddur fyrr en lagningu gangstéttar er lokið, eins og kveðið er á um í 7. gr. reglugerðarinnar. 10% staðgreiðsluafsláttur hefur verið veittur þeim sem greitt hafa allt gjaldið.

Varðandi gatnagerðargjöld fasteignarinnar að Lyngási 6—8 þá höfum við átt í viðræðum við Valdimar varðandi þau gjöld. Hann hefur haft áhyggjur af því að gangstétt yrði ekki lögð á tilsettum tíma og hefur því ekki verið tilbúinn að greiða gjaldið án þess að hafa einhverja tryggingu fyrir því að svo verði gert. ...

Við útreikning á b-gatnagerðargjaldinu eru notaðar einingartölur skv. 4. gr. reglugerðarinnar og skv. byggingarvísitölu...“

 

Í viðbótarbréfi Egilsstaðabæjar frá 2. desember 1997 kemur meðal annars eftirfarandi fram:

Upplýsingar 1.

Hingað til hefur verið innheimt við slitlagsgerð, B-gjöld samkvæmt gjaldskrá sem staðfest er í ráðuneytinu. Sá háttur hefur verið hafður á að innheimta gjaldið þegar götuhluti sem aðallega er notaður af lóðarhafa er bundinn slitlagi. Oft á tíðum eru lóðir með aðliggjandi götur á fleiri vegu, en fyrir það höfum við ekki innheimt sérstaklega. Við höfum heldur ekki innheimt B-gjald þegar við leggjum á aðkomuæðar, sem þó verða að teljast hluti gatnagerðarinnar. Hvað varðar Lyngás, þá var gatan fullgerð í fjórum áföngum, sá fyrsti fyrir hálfum öðrum áratug. ...

Upplýsingar 2.

Fyrsti hluti Lyngáss var bundin slitlagi 1981 og var þá innheimt af þeim hluta hússins við Lyngás 5-7 sem að þeim götuhluta snýr. (Nokkrum árum síðar var skipt um nafn á þeim götuhluta og heitir hann nú Tjarnarás). Annar hluti var gerður 1994 og var þá innheimt af Lyngási 12. Þriðji hluti var gerður 1994 og var þá innheimt af Lyngási 9 - 11 - 13 - 15. Fjórði hluti var gerður 1996 og var þá innheimt af Lyngási 4 og 6 ásamt þeim hluta Lyngáss 5 - 7 sem ekki hafði verið innheimt af áður.

Hlutar 1 og 3 eru lagðir olíumöl, en hluti 2 og 4 klæðningu.

Upplýsingar 3.

Gatan var hönnuð upp á nýtt þ.v.s. sá kafli sem tilheyrir fjórða hluta, því eins og áður var nefnt þá lá hún áður um hluta lóðarinnar Lyngás 6. Gatan var síðan grafin upp að hluta til og höfð jarðvegsskipti samhliða því að endurnýja í henni lagnir fyrir frárennsli. Í ljósi þess að gatan var grafin upp að hluta, var valin sú leið að nota klæðningu í stað olíumalar, þar sem það er ódýrara í upphafi þó dýrara sé í lengd. Ávallt má búast við að fylling sem hefur verið hreyfð án þess að fá lengri tíma til að standa geti aflagast. Kostnaður bæjarfélagsins verður því sá sami í lokin eins og um endingarbetra slitlag væri að ræða.

Upplýsingar 4.

Í bókhaldi Egilsstaðabæjar hefur kostnaður við hverja götu ekki verið rekjanlegur, þ.e. haldið sundurliðuðum, þó í dag horfi það til betri vegar. Kosnaður við gatnagerð og lagningu bundins slitlags hefur verið færður upp hjá bæjartæknifræðingi ... og fundinn út meðalkostnaður við slíkar framkvæmdir á Egilsstöðum undanfarin 12 ár. Liggja því fyrir neyslutölur (sic.) um meðaltalskostnað, sem notaðar eru til hliðsjónar við álagningu gjaldsins og við gerð fjárhagsáætlana. Vísa má til Hæstaréttardóms frá árinu 1991 bls. 615, en þar segir m.a. að tvær meginreglur gildi um hámark álagðra gatngerðargjalda. Byggjast þessar meginreglur á lokaákvæði 4. gr. og 5. gr. l. nr. 51/1974. Í dóminum segir svo að gjaldið megi nema allt að meðalkostnaði við lagningu bundins slitlags. “Verður að skýra þetta ákvæði svo, að “meðalkostnaður“ sé heildarkostnaður sem jafnað er niður eftir reglum byggðum á 5. gr.“ Jafnframt kemur fram að gjaldið beri að miða við raunverulegan, en ekki áætlaðan kostnað. Þegar ekki liggur fyrir nákvæmlega bókfært hvað hver og ein gata kostar verður að miða við reynslutölur. Í því sambandi má benda til sératkvæðis í tilvitnuðum Hæstaréttardómi í 2. mgr. á bls. 625, en þar er áréttað það sjónarmið að rétt sé að líta til meðalkostnaðar við götur í sveitatrfélaginu þegar gatnagerðargjald er álagt. Heildarkostnaður skv. reynslutölum Egilsstaðabæjar við lagningu bundins slitlags á Lyngás nemur kr. 7.523.363.-, en álagt B-gjald nemur kr. 5.809.543.- og því er ljóst að Egilsstaðabær er ekki að afla sér “skatttekna“ með lagningu bundna slitlagsins.“

 

Með bréfi Egilsstaðabæjar fylgdi samantekt um heildarkostnað við götuna eftir að henni verður lokið með slitlagi, gangstéttum, kantsteini, grassvæðum, niðurföllum og brunnlokum ásamt lagfæringu undirbyggingar vegna slitlagsgerðarinnar ásamt hönnun og eftirliti. Er annars vegar sýnt dæmi reiknað samkvæmt “verðbanka Hönnunar“ með lágmarksálagningu 10% og hins vegar dæmi reiknað samkvæmt meðaltals reynslutölum Egilsstaðabæjar.

 

Í greinargerð kæranda vegna umsagnar Egilsstaðabæjar frá 10. október 1997 segir meðal annars svo:

“Í ofangreindu bréfi bæjarstjóra segir m.a.: “...en eftirstöðvar má greiða með þremur jöfnum greiðslum ...“

Svar:

1. Óþarft ætti að vera að samþykkja skuldabréf fyrir gangstéttarhlutanum ókomna eins og bæjarstjóri fór fram á við Valdimar Benediktsson, sbr. t.d. bréf bæjarstjóra til Véltækni hf. dags. 12. maí 1997, þar sem bærinn hefur lögveðsrétt í húsi Véltækni hf. ... ef ekki er greitt innan þeirra tímamarka sem þeim þóknast að skammta skuldurum. Krafist er rúmlega milljónarfjórðungs fyrir gangstéttarstubbinn, sem svo kemur aðeins öðrum megin götunnar, en innheimt er gjald af lóðarhöfum beggja vegna. ...

Í ofangreindu bréfi bæjarstjóra segir m.a.: “...lagningu gangstéttar er lokið...“

Svar:

2. Mörg dæmi eru þess að bæjarfélagið hefur ekki staðið við lokafrágang gatna og gangstétta, þess vegna þorði V.B. ekki að staðgreiða reikninginn eins og til stóð, auk þess sem heildarupphæðin flaug skýjum ofar. T.d. greiddi Valdimar Benediktsson sín gatnagerðargjöl við heimili sitt að Hörgási 8 árið 1977 ... en gangstéttin er ókomin enn, þrátt fyrir kvartanir við alla sveitar- og bæjarstjóra sem stjórnað hafa síðan.“

 

Síðan segir svo í athugasemdum kæranda vegna bréfs Egilsstaðabæjar frá 2. desember 1997:

“Í bréfinu segir m.a.: “...gatan fullgerð í fjórum áföngum, sá fyrsti fyrir hálfum öðrum áratug...“

Svar:

7. Langur og sundurslitinn verktími við svona smágötu sýnir vel skipulagsleysi og hringlandahátt í yfirstjórn framkvæmdanna. A-hluti götunnar átti að teljst fullgerður þegar Véltækni h.f. fékk lóðinni úthlutað árið 1978, ... enda greiddi Véltækni h.f. fullt A-gjald og legu vegarins var búið að breyta löngu áður og kemur þessu máli ekkert við. Hönnun og öll tæknivinna á að tilheyra A-gjaldinu. Hæðarkvótar og öll staðsetning götu og gangstétta á þá að vera skipulögð og frágengin, en í þessu bæjarfélagi hefur mikið verið hringlað með hæðir gatna og staðsetningar eins og fjöldi dæma sanna. ...

8. Ekki verður séð að sú upptalning sem kemur fram í kaflanum Upplýsingar 2 komi málinu nokkuð við, nema þá e.t.v. til að sýna að ekki er unnið af mikilli alvöru við gatnaframkvæmdir, heldur líkist það íhlaupverkefnum. Rétt þykir að benda á að gatan er einungis um 206 metra löng.

Í bréfinu segir m.a.: “Hlutar 1 og 3 eru lagðir olíumöl, en hluti 2 og 4 klæðningu.“

Svar:

9. Er lagt að jöfnu til gjalda á lóðarhafa, sem fá Ottadekk klæðningu á (sínar götur) og á þá sem fá malbik sem hefur margfalt meiri endingu, (endurlagning veldur rekstrartruflunum fyrirtækja og þar með kostnaðarauka) er mér þá hugsað til Hörgsássins þar sem ég á heima og klæðningin var orðin meira en ónýt á allri götunni og var loks endurnýjuð nema götuendinn við hús númer 8 (heimili Valdimars Benediktssonar). Sá hluti varð óvart útundan en verður kannski lagfærður um leið og gangstéttin (áðurnefnda) verður steypt þar.

Athugasemdir við kaflann: Upplýsingar 3:

Í bréfinu segir m.a.: “Gatan var hönnuð upp á nýtt...“

Svar:

10. Ég bendi á að hönnun tilheyrir A-greiðsluhluta og aðeins nokkrir m2 í beygju á götunni lágu inni á lóðinni nr. 6 og búið að færa veginn löngu áður en Véltækni h.f. fékk lóðina og sú færsla hafði engin áhrif á framhald gatnagerðarinnar.

Í bréfinu segir m.a.: “Í ljósi þess að gatan var grafin upp að hluta,...“

Svar:

11. Hvers vegna eru framkvæmdir ekki skipulagðar betur en svo að þurfi bráðab. aðgerðir og svo endurtekningu verkanna innn skamms tíma. Nær væri að skipuleggja verkin betur, vanda vinnubrögðin og leyfa tímanum að vinna sitt verk (hann tekur ekki kaup).

Athugasemdir við kaflann: Upplýsingar 4:

Í bréfinu segir m.a.: “...kostnaður við hverja götu ekki verið rekjanlegur...“

Svar:

12. Ég frábið mér að greiða kostnað af ónákvæmni í bókhaldi Egilsstaðabæjar.

Í bréfinu segir m.a.: “...raunverulegan en ekki áætlaðan kostnað...“

Svar:

13. Í ábendingum, fyrra dæmi, er reiknað samkvæmt verðbanka Hönnunar með lágmarksálagningu 10% ... Markaðurinn hefur sýnt að í tilboðum fara svona jarðvinnuverk niður í það að kosta helming af því sem verðbanki Hönnunar gerir ráð fyrir og er hann því engin viðmiðun, nema ef vera skyldi til að finna hærri tölu (þ.e. þegar búið er að bæta við 10%) en verðbanki Egilsstaðabæjar gefur.

Í bréfinu segir m.a.: “...ekki að afla sér “skatttekna“...“

Svar:

14. Ég hafna algerlega þeim forsendum sem þeir gefa sér til að finna út hærri tölu en innheimt gatnagerðagjald. Ef fyrstu framkvæmdinni í Lyngásnum væri t.d. sleppt þá liti dæmið öðruvísi út og bærinn væri búinn að innheimta meira í gatnagerðargjöld vegna Lyngássins en sem nemur meintum kostnaði. Þá er sú aðferð sem notuð er í 4. gr. reglugerðar Egilsstaðabæjar um gatnagerðargjöld, þ.e. að miða við rúmmetra í húsi og fermetra á lóð í stað lengdarmetra lóða við götu, varla nokkuð annað en skattur.“

 

III.Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Í 1. mgr. 3. gr. laga um gatnagerðargjöld nr. 51/1974 er svohljóðandi ákvæði:

“Sveitarstjórnum er heimilt að ákveða með sérstakri samþykkt, sem ráðherra staðfestir, að innheimta sérstakt gjald, sem varið skal til framkvæmda við að setja bundið slitlag á götur í sveitarfélaginu og til lagningar gangstétta.“

 

Jafnframt segir svo í 4. gr. laganna, sbr. lög nr. 31/1975:

“Gjald skv. 3. gr. má innheimta af öllum fasteignum við þær götur, sem bundið slitlag hefur verið sett á og þar sem gangstéttir hafa verið lagðar, enda sé eigi lengri tími en fimm ár liðinn frá því að slitlag var sett eða gangstétt lögð. Má gjaldið nema allt að meðalkostnaði við þessar framkvæmdir.“

 

Um álagningu gatnagerðargjalda í Egilsstaðabæ gildir ennfremur reglugerð um gatnagerðargjöld í Egilsstaðahreppi, Suður-Múlasýslu, nr. 358/1986, sbr. reglugerð nr. 241/1989.

 

Um innheimtu B-gatnagerðargjalds áður en lagningu gangstétta er lokið.

 

Innheimta svokallaðra B-gatnagerðargjalda í Egilsstaðabæ byggist á 3. gr. laga nr. 51/1974 og 4., 6. og 7. gr. reglugerð um gatnagerðargjöld nr. 358/1986, en B-gatnagerðargjaldi er ætlað að standa undir kostnaði við að setja bundið slitlag á götur og leggja gangstéttir.

 

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 51/1974 er svohljóðandi ákvæði: “Sérstakt gatnagerðargjald skv. 3. gr. skal gjaldkræft, þegar lagningu bundins slitlags og gangstéttar við hlutaðeigandi götu er lokið. Þó skal sveitarstjórn heimilt að ákveða í samþykkt, að greiðslu slíks gjalds sé dreift á tiltekið árabil, eftir því sem nánar er tiltekið í samþykkt.“ Í 7. gr. reglugerðar nr. 358/1986 eru nánari ákvæði um með hvaða hætti ganga skuli frá greiðslum á B-gjaldi, en þar segir meðal annars svo: “Lokagreiðslu skal þó ekki innheimta fyrr en endanlega hefur verið gengið frá viðkomandi götu.“

 

Í dómi Hæstaréttar frá 1991, bls. 615, var fjallað um kröfu sveitarfélags á fasteignareiganda um greiðslu gatnagerðargjalda. Í því máli hóf sveitarfélagið innheimtu á hluta B-gatnagerðargjalda áður en lagningu gangstétta var að fullu lokið. Héraðsdómur taldi að það ásamt öðru leiddi til þess, að sýkna bæri fasteignareigandann af kröfu sveitarfélagsins. Hins vegar gerði Hæstiréttur ekki athugasemdir við þetta fyrirkomulag á innheimtu gjaldanna og dæmdi fasteignareigandann greiðsluskyldan.

 

Jafnframt má benda á dóm Hæstaréttar frá 1984, bls. 573. Þar var fjallað um álagningu samskonar gatnagerðargjalds og fann Hæstiréttur ekki að því þótt þessi gjöld væru á lögð og innheimta þeirra hafin áður en þeim framkvæmdum lauk, sem voru tilefni álagningarinnar.

 

Með hliðsjón af framangreindum hæstaréttardómum telur ráðuneytið að heimilt sé að hefja innheimtu B-gatnagerðargjaldsins eftir að slitlag hefur verið lagt en gangstétt ekki, en þó aðeins á þeim hluta gjaldsins sem er lagður á vegna lagningar bundins slitlags, þ.e. vegna þeirra framkvæmda sem þegar er lokið. Ekki er því heimilt að innheimta gjald vegna lagningar gangstétta fyrr en framkvæmdin hefur farið fram, en einnig er skýrt í 7. gr. framangreindrar reglugerðar að ekki beri að innheimta lokagreiðslu vegna B-gatnagerðargjaldsins fyrr en endanlega hefur verið gengið frá götu.

 

Um fjárhæð gjaldsins.

 

Af hálfu kæranda er meðal annars haldið fram að “hans hluti götunnar“ sé um 244 fermetrar og beri honum einvörðungu að greiða kostnað við að leggja bundið slitlag og gangstétt á þann hluta.

 

Af þessu tilefni skal sérstaklega tekið fram að við álagningu gatnagerðargjalda á grundvelli laga nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975, og viðkomandi reglugerðar er tekið mið af viðkomandi framvæmd, þ.e. lagningu bundins slitlags og gangstéttar á götuna. Ekki er gert ráð fyrir að reiknað sé hvaða hlutfall hver lóð “eigi“ við götuna eða að viðkomandi fasteignareigandi greiði einungis fyrir þann hluta götunnar sem er við lóðarmörk hans.

 

Aðferð við álagningu B-gatnagerðargjalda kemur fram í 4. gr. reglugerðar nr. 358/1986 og telur ráðuneytið að sú reglugerð uppfylli skilyrði laga um gatnagerðargjöld nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975, sbr. sérstaklega 5. gr. laganna, en í því ákvæði laganna segir meðal annars svo: “Við ákvörðun gjalda skv. 1. og 3. gr. laga þessara skal miða við lóðarstærð og/eða rúmmál bygginga, eftir því sem nánar er ákveðið í samþykkt. Gjöld mega vera mismunandi eftir notkun húss ...“

 

Ráðuneytið telur því ekki ástæðu til að gera athugasemd við innheimtu Egilsstaðabæjar á B-gatnagerðargjöldum af fasteigninni að Lyngási 6-8 á grundvelli framangreindrar reglugerðar, svo fremi sem sveitarfélagið getur sýnt fram á kostnað við gatnagerð sem nemur ekki hærri upphæð en álögðum gjöldum.

 

Í þessu samhengi er rétt að taka sérstaklega fram að á grundvelli ákvæða um sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga í 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 og 78. gr. stjórnarskrárinnar hefur ráðuneytið ekki heimild til að fjalla um hvernig sveitarfélög framkvæma verkefni sín umfram bein fyrirmæli í lögum. Ekki er í lögum kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að bjóða út verk af því tagi sem hér um ræðir, þó almennt megi ætla að hagkvæmara verð fáist með þeim hætti. Ákvörðun um hvort verk af þessu tagi séu boðin út er því alfarið í höndum viðkomandi sveitarstjórnar.

 

Ráðuneytið telur ástæðu til að gera alvarlegar athugasemdir við að kostnaði vegna gatnagerðar hafi ekki verið haldið sérgreindum í bókhaldi Egilsstaðabæjar. Er slík aðgreining mikilvæg forsenda til að unnt sé að staðreyna að ekki sé innheimt hærra gjald en sem nemur raunkostnaði sveitarfélagsins við gatnagerð. Þar sem framangreind aðgreining er ekki með skýrum hætti fyrir hendi telur ráðuneytið hins vegar ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá aðferð Egilsstaðabæjar við útreikning kostnaðar sem fram kemur í gögnum málsins, sbr. sérstaklega lokaákvæði 4. gr. laga nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975, og dóm Hæstaréttar frá 1991, bls. 615. Er þar um að ræða útreikning sem byggður er á reynslu sveitarfélagsins sjálfs á framkvæmd þessa málaflokkar. Einnig telur ráðuneytið að þeir kostnaðarliðir sem sveitarfélagið tilgreinir, þ.e. “afrétting götu, efni til afréttingar, olíumöl, jöfnunarlag, gangstétt, kantsteinn, grassvæði, niðurfallafrágangur, brunnafrágangur, mælingar, eftirlit og hönnun“ falli innan marka laganna, sbr. sérstaklega dóm Hæstaréttar frá 1991, bls. 615, en í þeim dómi segir meðal annars: “Fallast ber á það ... að ýmsan viðbótarkostnað hafi verið heimilt að greiða af hinum álögðu gjöldum. Allir þeir kostnaðarliðir, sem að framan eru raktir, teljast slíkur viðbótarkostnaður, enda eru graseyjar hluti gatna víða um land, uppgröftur, sem lítið kostar tiltölulega, eðlilegur hluti malbikunarframkvæmda eftir lögum nr. 51/1974 og stjórnunarkostnaður óhjákvæmilegur hluti framkvæmdanna. Þá verður ekki talið, að óheimilt hafi verið að áætla nálægt verklokum nokkurt fé til ólokinna minni háttar framkvæmda og óvissuþátta.“

 

Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið ekki vera tilefni til að gera athugasemdir við álagningu B-gatnagerðargjalds á fasteignina að Lyngási 6-8 á Egilsstöðum umfram það sem að framan greinir.

 

 

Dregist hefur að kveða upp úrskurð þennan vegna dráttar á skilum á gögnum í málinu og síðan vegna mikilla anna í ráðuneytinu meðal annars vegna sveitarstjórnarkosninga.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Hafnað er kröfum Valdimars Benediktssonar, fyrir hönd Véltækni hf., um að ákvörðun Egilsstaðabæjar um álagningu B-gatnagerðargjalda á fasteignina Lyngás 6-8 á Egilsstöðum verði úrskurðuð ólögmæt.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

Ljósrit:  Bæjarstjórn Egilsstaðabæjar.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta