Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. SRN17050111

Ár 2017, þann 18. október, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli SRN17050111

 

Kæra X

á ákvörðun

Þjóðskrár Íslands

 

I.         Kröfur, kæruheimild og kærufrestir

Með kæru sem barst ráðuneytinu þann 29. maí 2017 kærði X (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 4. maí 2017 um að skrá lögheimili hans í Mexíkó frá og með 31. mars 2016. Krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og lögheimili hans verði skráð að X þar sem hann búi ásamt eiginmanni sínum.

Um kæruheimild vísast til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og er kæran fram komin innan lögmælts kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga.

 

II.        Ákvörðun Þjóðskrár Íslands

Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

„Vísað er til bréfs Þjóðskrár Íslands til þín, dags. 10. apríl 2017, þar sem þér var tilkynnt að Þjóðskrá Íslands hefði borist upplýsingar sem bentu til þess að þú uppfylltir ekki skilyrði laga um lögheimili nr. 21/1990 til að geta átt lögheimili hér á landi.

With reference to Registers Iceland letter to you, dated April 10th 2017, where you were informed that Registers Iceland had received information that you no longer meet the statutory requirements for legal domicile in Iceland.

Var þér gefinn þriggja vikna frestur til að færa sönnur á að þú hefðir rétt til skráningar lögheimilis á Íslandi. Engin svör bárust.

You were given three weeks notice to prove that you have the right to be registered with legal domicile in Iceland. No answers have been received.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum þykir sýnt að þú uppfyllir ekki lengur skilyrði laga um lögheimili til að geta átt lögheimili á Íslandi.

With regard to these information and documents Registers Iceland deems that you do no longer meet the statutory requirements for registration of legal domicile in Iceland.

Hefur lögheimili þitt verið skráð í Mexíkó í þjóðskrá frá og með 31. mars 2016.

Your legal domicile has been registered to Mexico in the Population Register from March 31st 2016.

 

III.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum málsins barst Þjóðskrá Íslands tilkynning frá eiginmanni kæranda, þann 29. mars 2017 þar sem stofnuninni var tilkynnt að kærandi hafi flutt til Mexíkó í lok mars 2016 og væri ekki búsettur á Íslandi. Með bréfi Þjóðskrár Íslands þann 10. apríl 2017 var kæranda sent bréf þar sem hann var upplýstur um að stofnuninni hafi borist greind tilkynning og honum gefinn þriggja vikna frestur til að færa sönnur á að hann ætti rétt á lögheimilisskráningu á Íslandi. Bárust Þjóðskrá Íslands engin svör frá kæranda. Í kjölfarið skráði Þjóðskrá Íslands lögheimili kæranda í Mexíkó frá og með 31. mars 2016 á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.

Ákvörðun Þjóðskrár Íslands var kærð til ráðuneytisins með bréfi kæranda mótteknu þann 29. maí 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 9. júní 2017 var Þjóðskrá Íslands gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi stofnunarinnar mótteknu 19. júní 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 28. júní 2017 var kæranda kynnt umsögn Þjóðskrár Íslands og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 15. ágúst 2017 var kæranda tilkynnt að málið væri tekið til  úrskurðar.

 

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi upphaflega komið hingað til lands árið 2014. Á þeim tíma hafi hann kynnst núverandi eiginmanni sínum. Í mars 2016 hafi kærandi ákveðið að fara til Mexíkó þar sem hann hafi ekki alveg vitað hvort hann væri reiðubúinn að búa á Íslandi fjarri fjölskyldu sinni og giftur X. Þá hafi vegabréf kæranda verið að renna út og hann þurft að fara til baka til að endurnýja það. Þá hafi kærandi einnig eignast tvær litlar frænkur sem hann hafi ekki séð. Þegar kærandi kom til Mexíkó hafi hann verið í stöðugum samskiptum við eiginmann sinn og fljótlega hafi komið í ljós að einungis væri um að ræða erfitt tímabil sem þeir myndu yfirstíga. Röð atvika hafi orðið til þess að kærandi hafi ekki komið til Íslands aftur fyrr en 20. maí 2017. Kveðst kærandi upphaflega hafa ætlað að koma til landsins fyrir jólin 2016 en ákveðið að vera í Mexíkó fram yfir jólin þar sem hann sæi fram á að vera ekki með fjölskyldunni í nánustu framtíð þar sem hann væri að flytja alfarið til Íslands. Kveðst kærandi hafa misst náinn frænda sinn og ekki getað farið sökum jarðarfarar og þurft að vera með fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum. Tveimur til þremur vikum síðar hafi lítil frænka kæranda látist og í kjölfarið kveðst kærandi ekki hafa getað hugsað sér að fara frá fjölskyldu sinni. Þá lýsir kærandi yfir vanþekkingu sinni og kveðst ekki hafa vitað að hann mætti ekki dvelja eins lengi og hann vildi í öðru landi. Vonast kærandi til þess að þessi misskilningur sem átti sér stað af hans hálfu verði ekki túlkaður honum í óhag. Um hafi verið að ræða þekkingarleysi þar sem kærandi hafi ekki vitað að hann mætti ekki dvelja erlendis nema í ákveðinn tíma í senn.

 

V.        Umsögn Þjóðskrár Íslands

Í umsögn Þjóðskrár Íslands kemur fram að stofnunin starfi samkvæmt lögum nr. 54/1962 um þjóðskrá og almannaskráningu og annist almannaskráningu hér á landi samkvæmt 1. gr. laganna. Á meðal hlutverka stofnunarinnar sé að sjá til þess að lögheimili einstaklinga sé skráð eftir því sem kveðið er á um í lögheimilislögum nr. 21/1990.

Í 1. mgr. 1. gr. lögheimilislaga segi að lögheimili manns sé sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Í 2. mgr. 1. gr. sé nánar útskýrt að maður teljist hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 73/1952 um tilkynningar aðsetursskipta segi að hver sá sem fer til útlanda og hættir að eiga lögheimili hér á landi skuli tilkynna það viðkomandi sveitarstjórn áður en hann fer, og meðal annars upplýsa fullt aðsetur sitt erlendis. Einstaklingum beri þannig að tilkynna breytingar á lögheimili sínu til stofnunarinnar , sbr. 10. gr. laga nr. 21/1990, sbr. 2. – 5. gr. laga nr. 73/1952. Telur Þjóðskrá Íslands óumdeilt að kærandi hafi verið búsettur erlendis á umræddum tíma, sbr. það sem fram komi í kæru, þ.e. frá 31. mars 2016 til 20. maí 2017. Telur Þjóðskrá Íslands að ákvörðun stofnunarinnar frá 4. maí sl. þar sem lögheimili kæranda var flutt til Mexíkó sé rétt skráning. Sé kærandi fluttur aftur til landsins beri honum að tilkynna um flutning sinn til landsins.

 

VI.       Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 4. maí 2017 um að skrá lögheimili kæranda í Mexíkó frá og með 31. mars 2016

Samkvæmt 1. gr. laga um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 54/1962 annast Þjóðskrá Íslands almannaskráningu samkvæmt lögunum. Er meginmarkmiðið með almannaskráningu samkvæmt lögunum að skráning á hverjum tíma sé rétt og lögum samkvæmt. Byggist almannaskráning á þeim gögnum sem talin eru upp í 4. gr. laganna. Samkvæmt lögunum er það eitt af hlutverkum Þjóðskrár Íslands að sjá til þess að lögheimili einstaklinga séu rétt skráð samkvæmt lögum um lögheimili nr. 21/1990.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. lögheimilislaga er lögheimili manns sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. telst maður hafa fasta búsetu á þeim stað þar sem hann hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og svefnstaður hans er þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika. Samkvæmt 10. gr. lögheimilislaga gilda ákvæði laga um tilkynningar aðsetursskipta nr. 73/1952 um breytingu á lögheimili samkvæmt lögheimilislögum eftir því sem við á. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um tilkynningar aðsetursskipta skal hver sá sem fer til útlanda og hættir að eiga lögheimili hér á landi tilkynna það viðkomandi sveitarstjórn áður en hann fer og m.a. upplýsa fullt aðsetur sitt erlendis. Samkvæmt 10. gr. lögheimilislaga ber einstaklingum þannig að tilkynna breytingar á lögheimili til Þjóðskrár Íslands, sbr. 2. – 5. gr. laga um tilkynningar aðsetursskipta.

Ráðuneytið telur óumdeilt að kærandi hafi dvalið í Mexíkó frá lokum mars 2016 fram til 20. maí 2017. Með vísan til þess sem rakið hefur verið tekur ráðuneytið undir það með Þjóðskrá Íslands að stofnuninni hafi verið rétt að skrá lögheimili kæranda í Mexíkó á þeim tíma enda hafi hann ekki uppfyllt skilyrði lögheimilislaga fyrir lögheimilisskráningu á Íslandi. Það eitt að kæranda hafi ekki verið kunnugt um gildandi reglur getur ekki breytt framangreindri niðurstöðu. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest. Þá áréttar ráðuneytið að sé kærandi fluttur aftur til Íslands ber honum að tilkynna um flutning sinn til landsins.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta