Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Reykjavíkurborg - Frávísun, skylda til að bera ágreining undir borgarráð áður en kært er til ráðuneytisins

Tinna Jóhannsdóttir                                       15. maí 2001                                      FEL01010125/16-0000

Bjargarstíg 14

101 REYKJAVÍK

 

 

Þann 15. maí 2001 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi:

 

úrskurður

 

Með erindi, dags. 26. janúar sl. kærði Tinna Jóhannsdóttir til félagsmálaráðuneytisins þá ákvörðun Reykjavíkurborgar að krefja hana um greiðslu gatnagerðargjalds að fjárhæð kr. 1.004.484 vegna stækkunar húseignar kæranda að Bjargarstíg 14 í Reykjavík.

 

Kæran var send Reykjavíkurborg til umsagnar með bréfi dags.2. febrúar sl. og var veittur frestur til 1. mars sl. til að skila inn umsögninni. Ekki barst svar innan greinds frests og var erindið ítrekað með símbréfi þann 5. mars sl. Að fengnum þeim skýringum frá skrifstofu borgarritara að erindið hefði lent hjá röngum aðila innan borgarkerfisins var fresturinn framlengdur til 21. mars sl. Barst umsögnin í símbréfi þann dag. Í bréfi ráðuneytisins dags. 22. mars sl. var kæranda veittur frestur til 2. apríl til þess að koma á framfæri athugasemdum við umsögn Reykjavíkurborgar.  Sá frestur var framlengdur til 18. apríl sl. að ósk kæranda. Viðbótarathugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu þann 20. apríl.

 

Málavöxtum er lýst í bréfi kæranda dags. 26. janúar sl. Þar kemur fram að eftir að kærandi keypti húsið Bjargarstíg 14 í maí 2000 var sótt um leyfi til að stækka húsið. Umrædd húseign er byggð árið 1907 en einu samþykktu teikningarnar eru frá árinu 1922 og sýna þær útlínur húss sem er nokkuð stærra að grunnfleti en húsið er í raun, eða 44,5 fermetra. Kveður kærandi stækkunina hafa orðið meiri en hún hafði þörf fyrir, en taka þurfti tillit til byggðamynsturs á svæðinu, nýtingarhlutfalls samkvæmt skipulagi, auk krafna skipulags- og byggingarlaga og heilbrigðiskrafna. Að lokinni grenndarkynningu var samþykkt að leyfa stækkun. Álagt gatnagerðargjald vegna stækkunarinnar er kr. 1.004.484. Á kvittun er það nefnt "almennt gatnagerðargjald" og er innifalið í því ein mæling fyrir staðsetningu og hæðarafsetningu byggingar og ein staðsetning lóðarmarka.

 

Ekki hefur verið borin fram í máli þessu krafa um frávísun. Engu að síður telur ráðuneytið nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvort því sé heimilt að taka málið til úrskurðar. Í 13. gr. reglugerðar um gatnagerðargjald nr. 543/1996 er svohljóðandi ákvæði:

 

„Verði ágreiningur um ákvörðun og/eða innheimtu gatnagerðargjalds, skal hann borinn undir viðkomandi sveitarstjórn eða byggðarráð, eftir því hver háttur er hafður á í viðkomandi sveitarfélagi. Aðili máls getur skotið ákvörðun sveitarstjórnar eða byggðarráðs um álagningu og/eða innheimtu gatnagerðargjalds til úrskurðar félagsmálaráðherra. Kærufrestur er þrír mánuðir frá því að aðili fékk vitneskju um álagningu gjaldsins. Kæruheimild þessi skerðir þó eigi rétt aðila til að höfða mál fyrir dómstólum.”

 

Ráðuneytið telur ljóst að framangreint reglugerðarákvæði, sem á sér stoð í 6. gr. laga nr. 17/1996, leiði til þess að kærandi verður fyrst að bera ágreininginn undir borgarráð Reykjavíkur til ákvörðunar, áður en félagsmálaráðuneytinu er heimilt að taka málið til úrskurða, sbr. úrskurð ráðuneytisins frá 13. janúar 1999, varðandi Langholtsveg 1 í Reykjavík. Ber því að vísa máli þessu frá ráðuneytinu. Tekið skal fram að ráðuneytið lítur svo á að kærufrestur samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 17/1996 byrji ekki að líða fyrr en niðurstaða borgarráðs liggur fyrir í málinu, með hliðsjón af ákvæðum 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo fremi að kærandi leiti réttar síns innan borgarkerfisins án ástæðulauss dráttar.

 

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Vísað er frá félagsmálaráðuneytinu stjórnsýslukæru Tinnu Jóhannsdóttur vegna ákvörðunar byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar um álagningu viðbótargatnagerðargjalds á viðbyggingu að Bjargarstíg 14, Reykjavík.

 

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

 

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta