Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Seltjarnarneskaupstaður - Fyrning gatnagerðargjalda, gildi ákvæðis í lóðarleigusamningi, réttaráhrif tómlætis

Lögmenn Klapparstíg                                       20. september 2001                 FEL01050030/122

Halldór Þ. Birgisson hdl.

Klapparstíg 29, 2. hæð, pósthólf 917

121 REYKJAVÍK

 

 

 

 

Hinn 20. september 2001 var kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi:

 

úrskurður

 

Með erindi, dags. 22. júní 2001, en mótteknu 15. ágúst s.á., kærði Halldór Þ. Birgisson hdl., f.h. Borgarplasts hf., ákvörðun Seltjarnarneskaupstaðar um álagningu gatnagerðargjalda að fjárhæð kr. 3.892.440 á húseignina Sefgarða 3 á Seltjarnarnesi. Krefst kærandi þess að ráðuneytið felli álagninguna úr gildi og að Seltjarnarneskaupstað verði gert skylt að fresta innheimtu gjaldanna þar til niðurstaða ráðuneytisins liggur fyrir.

 

Ráðuneytið óskaði eftir umsögn Seltjarnarneskaupstaðar með bréfi, dags. 20. ágúst sl. Í bréfinu tilkynnti ráðuneytið að það túlkaði kröfugerð kæranda svo að hann teldi kæru til ráðuneytisins fresta aðför. Teldi ráðuneytið rétt að verða við þeirri beiðni, með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ekki var þó talin þörf á formlegum úrskurði þessa efnis þar sem upplýst var að Seltjarnarneskaupstaður hyggði ekki á innheimtuaðgerðir fyrr en niðurstaða ráðuneytisins lægi fyrir. Umsögnin barst í bréfi, dags. 28. ágúst sl.

 

I. Málavextir

Hinn 23. apríl 1966 var undirritaður lóðarleigusamningur milli hreppsnefndar Seltjarnarneshrepps og Hafsteins Guðmundssonar um lóð úr landi jarðarinnar Bygggarðs undir prentsmiðju. Áttunda grein samningsins var svohljóðandi:

 

"Leigutaki skal sjálfur leggja frárennsli frá húsunum í sjó fram, enda verði það lagt á fullnægjandi hátt, að dómi heilbrigðisnefndar og verkfræðings hreppsins.

Leigutaki skal og sjálfur annast vatnslögn fyrir starfsemi sína úr vatnsleiðslu hreppsins. Ef vatnsnotkun leigutaka veldur vatnsskorti í íbuðarhverfum, að dómi leigusala, er leigusala heimilt að skylda leigutaka til að setja upp vatnsgeima, sem fullnægir daglegri notkun starfsemi leigutaka (sic).

Framangreind ákvæði skulu gilda, þar til götur og tilheyrandi lagnir hafa verið lagðar um hverfið, og skal þá leigutaki skyldur til að greiða gatnagerðargjöld samkv. þágildandi gjaldskrá.

Hús og mannvirki á landinu eru að veði fyrir gjöldunum ásamt dráttarvöxtum, sem hvorutveggja má taka lögtaki samkv. lögum 16. des. 1885, um lögtak og fjárnám án undangengins dóms eða sátta.

Leigutaki semur sjálfur við Rafmagnsveitu Reykjavíkur um afnot af rafmagni, og verða þær ráðstafanir, er nauðsynlegar kunna að vera til að fullnægja orkuþörf leigutaka, leigusala að kostnaðarlausu."

 

Kærandi eignaðist fasteignina Sefgarða 3 á árinu 1999 við samruna félaganna Borgarplasts hf. og Guðna Þórðarsonar ehf. Síðarnefnda félagið hafði eignast fasteignina árið 1987, en skömmu áður hafði hún verið seld Landsbanka Íslands á nauðungarsölu. Á seinni hluta tíunda áratugarins var leitað eftir því við Seltjarnarneskaupstað að malbikaður yrði gangstígur aðliggjandi lóðinni. Tilefni þeirrar beiðnar virðist m.a. hafa verið að Borgarplast hf. sótti um umhverfisvottun og var við úttekt talið að hætta gæti verið á umhverfisslysi við núverandi aðstæður, þ.e. þegar olíubílar staðnæmdust á umræddum stíg til að fylla á olíugeymi fyrirtækisins.

 

Á grundvelli ofangreinds samningsákvæðis ákvað fjárhags- og launanefnd Seltjarnarneskaupstaðar árið 1997 að heimila bæjarstjóra að leita sátta í málinu. Töldu forsvarsmenn kærða að ógreidd væru gatnagerðargjöld frá fornu fari og var boðið upp á þau býti að kærandi malbikaði stíginn sjálfur gegn því að gjöldin yrðu felld niður. Þessu hafnaði kærandi enda hafði hann aldrei verið krafinn um greiðslu né tekið að sér að greiða umrædd gjöld.

 

 Hafa aðilar málsins um langt skeið átt í viðræðum um lausn málsins en af hálfu kærða er því haldið fram að fyrningarfrestur miðist við bréf sem sent var lögmanni kæranda, dags. 11. júlí 2000, þar sem tilkynnt var að lokið væri lögn tengiræsis og gatnagerðargjöld því gjaldfallin, með vísan til samningsins frá 1966. Í bréfinu kemur fram að endanlegur útreikningur gatnagerðargjaldsins liggi ekki fyrir og að óskað sé eftir svari kæranda við boði bæjarstjórnar um að fyrirtækið annist sjálft malbikun á heimkeyrslu.

 

Kærandi telur á hinn bóginn að fyrningarfrestur miðist við 9. febrúar 2001, þ.e. þegar álagningarseðill var sendur kæranda. Af því tilefni ritaði lögmaður kæranda Seltjarnarneskaupstað bréf, dags. 7. mars 2001, þar sem óskað var upplýsinga og gagna til að unnt væri að kæra álagninguna til félagsmálaráðuneytisins. Bárust þau með bréfi, dags. 3. apríl s.á.

 

Kæra til félagsmálaráðuneytisins er dags. 5. maí sl. Henni var vísað frá ráðuneytinu með bréfi, dags. 12. júní sl., með vísan til 13. gr. reglugerðar um gatnagerðargjald, nr. 543/1996, sem kveður á um að áður en unnt er að kæra álagningu gatnagerðargjalds til ráðuneytisins skuli bera ágreining undir byggðarráð eða sveitarstjórn. Taldi ráðuneytið að þessa formskilyrðis hefði ekki verið gætt af hálfu kæranda. Tekið var fram í bréfi ráðuneytisins að það teldi engu að síður að kærandi hefði rofið kærufrest þótt erindi hans hefði verið beint til rangs stjórnvalds.

 

Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar Seltjarnarneskaupstaðar þann 18. júlí 2001. Staðfesti bæjarstjórn álagninguna en tók fram að boð um að kærandi annaðist sjálfur malbikun aðkeyrslu stæði ennþá og væri það töluvert ódýrari framkvæmd en álögð gatnagerðargjöld. Hefur kærandi nú að nýju kært álagninguna til ráðuneytisins, með erindi mótteknu 15. ágúst.

 

II. Málsrök kæranda

Kærandi heldur því fram í málinu að gjöld þau sem um ræðir séu fyrnd. Til vara er því haldið fram að ekki hafi verið staðið að álagningu með lögmætum hætti. Telur kærandi að ýmislegt sé óljóst um meðferð þessa máls en ekki er véfengd sú fyllyrðing kærða að gjöldin hafi aldrei verið greidd. Þeim hafi þó ekki verið lýst í eignina á nauðungaruppboði sem fram fór árið 1987.

 

Telur kærandi að með vísan til orðalags lóðarleigusamnings virðist sem skilyrði 8. gr. hafi verið uppfyllt 1978 eða í síðasta lagi 1980. Samkvæmt upplýsingum frá kærða hafi hitaveitulagnir verið lagðar á árunum 1971-1972, neysluvatnslagnir árið 1975, götur hafi verið lagðar á árinu 1977-1978 og hafi þær verið malbikaðar árið 1980. Því sé augljóst að gjalddagi hafi verið í síðasta lagi árið 1980. Fyrningarfrestur sé 4 ár þar sem gjöldin nutu lögtaksréttar og því séu gjöldin löngu fyrnd. Ljóst sé að fyrningu verði ekki frestað þótt ekki sé tilkynnt um álagningu eða innheimtu frestað að ákvörðun sveitarfélagsins. Með vísan til þessa telur kærandi álagninguna ólögmæta, sem og viðmiðun við núgildandi gjaldskrá, og er þess því krafist að ákvörðun um álagningu og innheimtu verði felld úr gildi.

 

Kærandi gagnrýnir þann skilning kærða að skilyrði lóðarleigusamningsins hafi ekki verið uppfyllt fyrr en árið 2000, þ.e. þegar skólpræsi það sem lagt var á 7. áratugnum hafi verið tengt nýju útrásarkerfi sem hafist var handa við að hanna og leggja á vegum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á 10. áratugnum. Telur kærandi fráleitt að miða gjalddaga við þessa framkvæmd, enda liggi fyrir samkvæmt teikningum að frárennsli hússins hafi átt að dælast upp úr kerfi hússins og í brunn við lóðarmörk. Í málflutningi kærða felist því sú ályktun að samningsaðilar hafi stefnt að því að fresta álagningu og gjalddaga gatnagerðargjalds til þess tíma sem nýtt útrásarkerfi, sem ekki kom til skoðunar fyrr en á tíunda áratugnum, hefði verið hannað og byggt og upphaflegar lagnir hússins tengdar við það kerfi. Áætlanir um það kerfi lágu ekki fyrir við gerð samningsins og aðrar skýringar því nærtækari um ástæður þess að gjaldsins var ekki krafist á sínum tíma. Hugsanlega geti verið um mistök sveitarfélagsins að ræða en á þeim geti kærandi ekki borið ábyrgð og hafi greiðsluskyldu ávallt verið hafnað af hans hálfu.

 

III. Málsrök kærða

Í bréfi ráðuneytisins, dags. 20. ágúst sl., var þess sérstaklega farið á leit að kærði tjáði sig um á hvaða lagagrundvelli 8. gr. lóðarleigusamningsins frá 1966 væri reist, þar sem vafi virtist leika á um lagastoð ákvæðisins. Einnig var þess óskað að kærði léti uppi álit sitt um málsástæður kæranda að því er varðar hugsanlega fyrningu eða vanlýsingu kröfunnar.

 

 Í umsögnum Seltjarnarneskaupstaðar, dags. 28. ágúst og 15. maí 2001,  kemur fram að 8. gr. lóðarleigusamningsins frá 1966 byggist á samþykkt hreppsnefndar Seltjarnarneshrepps frá árinu 1962, um að taka framvegis gatnagerðargjöld af óbyggðum lóðum á Seltjarnarnesi, og 30. gr. þágildandi skipulagslaga, nr. 19/1964. Lóðarleigusamningnum hafi verið þinglýst og er hans getið á veðbókarvottorði Sefgarða 3. Samningurinn hafi því ekki fallið úr gildi við nauðungarsölu eða önnur eigendaskipti. Um álagningu nú gildi lög um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, og reglugerð um gatnagerðargjöld í Seltjarnarneskaupstað, nr. 33/1976.

 

Þá kemur fram í bréfi bæjarstjóra til lögmanns kæranda, dags. 3. apríl 2001, að sambærilegt samningsákvæði hafi einungis verið í gildi vegna einnar annarrar fasteignar í sveitarfélaginu. Hafi gatnagerðargjöld þegar verið innheimt af þeirri eign.

 

IV. Niðurstaða ráðuneytisins

 

A. Um kærufrest og úrskurðarvald ráðuneytisins

Í máli þessu er deilt um túlkun lóðarleigusamnings sem gerður var á árinu 1966. Eins og rakið er að framan telur kærandi að skilyrði 8. gr. samningsins, sem fjallar um skilyrði þess að gatnagerðargjöld falli í gjalddaga, hafi verið uppfyllt í síðasta lagi árið 1980. Beri að miða upphaf fyrningarfrests í síðasta lagi við það tímamark og hafi krafa Seltjarnarneskaupstaðar því verið fyrnd löngu áður en kærði eignaðist húseignina. Að auki bendir kærandi á að kröfunni hafi ekki verið lýst við nauðungarsölu sem fram fór árið 1987 og kunni hún því að vera fallin niður vegna vanlýsingar.

 

Kærði heldur því hins vegar fram að skilyrði 8. gr. lóðarleigusamningsins hafi ekki verið uppfyllt fyrr en árið 2000, þegar lokið var tengingu húseignarinnar við aðalfráveitukerfi bæjarins.

 

Þrátt fyrir að deiluefnið snúist því um túlkun ákvæðis í lóðarleigusamningi sem ekki hefur að geyma ákvæði um lausn ágreiningsefna telur ráðuneytið heimilt að skjóta ágreiningnum til ráðuneytisins á grundvelli 13. gr. reglugerðar um gatnagerðargjald, nr. 543/1996. Sú reglugerð er sett á grundvelli laga um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, en í bráðabirgðaákvæði með þeim lögum er m.a. fjallað um gildi samninga á borð við þann sem hér er til umfjöllunar. Telur ráðuneytið sig eiga úrskurðarvald um ágreining aðila, á grundvelli framangreindra lagaákvæða. Málsástæður aðila er lúta að vanlýsingu við nauðungarsölu og réttaráhrifum þinglýsingar eiga þó aðeins undir dómstóla. Verður því ekki fjallað um þær í úrskurði þessum nema að því leyti sem nauðsynlegt verður talið.

 

Aðilar eru ekki fyllilega ásáttir um við hvaða tímamark stjórnsýsluákvörðun sú sem kærð er til ráðuneytisins lá fyrir. Skiptir það máli til að ákvarða upphaf kærufrests til ráðuneytisins.  Af hálfu kærða er vísað til bréfs sem sent var lögmanni kæranda 11. júlí 2000. Kærandi telur hins vegar réttara að miða við 9. febrúar 2001, en þá barst kæranda álagningarseðill að fjárhæð kr. 3.892.440 vegna gatnagerðargjalds. Almennur kærufrestur er þrír mánuðir, sbr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Upphafleg stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu hinn 8. maí 2001, þ.e. rétt innan almenns kærufrests ef fallist er á sjónarmið kæranda. Eins og áður er komið fram telur ráðuneytið að þótt kærunni hafi á því tímamarki verið beint til rangs stjórnvalds hafi kærufrestur engu að síður verið rofinn. Af hálfu kærða hefur ekki verið krafist frávísunar vegna þess að kæran sé of seint fram komin. Hér er hins vegar um að ræða atriði sem ráðuneytinu ber að taka afstöðu til að eigin frumkvæði.

 

Ráðuneytið telur að fallast verði á sjónarmið kæranda um að miða beri við að endanleg stjórnsýsluákvörðun hafi ekki legið fyrir fyrr en kæranda barst bréf bæjarstjóra, dags. 9. febrúar 2001, ásamt álagningarseðli. Fyrra bréf bæjarstjóra, dags. 11. júlí 2000, ber ekki með sér að útreikningur gatnagerðargjaldsins hafi þá legið fyrir og er í bréfinu óskað eftir svari kæranda við boði bæjarstjórnar um að gjöldin verði felld niður ef kærandi annist malbikunina sjálfur. Getur umrætt bréf því ekki falið í sér endanlega stjórnsýsluákvörðun. Með vísan til þessarar niðurstöðu telur ráðuneytið að stjórnsýslukæran sé komin fram innan almenns kærufrests skv. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Með þeim fyrirvara að einstakar málsástæður kæranda kunna að falla utan úrskurðarvalds ráðuneytisins telur ráðuneytið því að unnt sé að taka málið til úrskurðar.

 

B. Um gildi ákvæðis 8. gr.  lóðarleigusamnings

Eins og áður er komið fram kveður kærði 8. gr. lóðarleigusamningsins frá 1966 byggjast á samþykkt hreppsnefndar Seltjarnarneshrepps frá árinu 1962, um að taka framvegis gatnagerðargjöld af óbyggðum lóðum á Seltjarnarnesi, og 30. gr. þágildandi skipulagslaga, nr. 19/1964. Í bréfi ráðuneytisins til kærða, dags. 20. ágúst 2001, var bent á að umrætt ákvæði skipulagslaga tæki samkvæmt orðanna hljóðan einvörðungu til lands í einkaeign. Teldi ráðuneytið því að nokkur vafi væri um lagastoð samningsákvæðisins og var eindregið óskað eftir frekari sjónarmiðum Seltjarnarneskaupstaðar hvað það varðaði. Ekki var þó fjallað frekar um þetta atriði í umsögn Seltjarnarneskaupstaðar, dags. 28. ágúst sl.

 

Almenna heimild fyrir sveitarfélög til að innheimta gatnagerðargjöld var ekki að finna í lögum fyrr en sett voru lög um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974. Í 3. gr. þeirra laga var sveitarstjórnum heimilað að innheimta sérstakt gjald, sem varið skyldi til framkvæmda við að undirbyggja götu með tilheyrandi lögnum og slitlagi. Kemur fram í frumvarpi til þeirra laga að varanleg gatnagerð sé verkefni sem ekki sé mögulegt að fjármagna eingöngu með þeim tekjustofnum sem sveitarfélög ráða yfir samkvæmt lögum og sé frumvarpið flutt til að auðvelda sveitarfélögum að leysa þetta verkefni og fá í lög heimild til að innheimta gatnagerðargjöld.

 

Ákvæði 3. gr. var ætlað að gilda bæði um fasteignir við nýjar götur og götur sem byggst höfðu fyrir gildistöku laganna en voru ekki að fullu frágengnar, enda hefðu ekki áður verið innheimt gatnagerðargjöld. Í 2. mgr. 6. gr. laganna var tekið fram að sérstakt gatnagerðargjald skyldi gjaldkræft þegar lagningu bundins slitlags og gangstéttar við hlutaðeigandi götu væri lokið. Almennt gatnagerðargjald skyldi hins vegar gjaldkræft þegar sveitarstjórn krefðist, eftir því sem nánar væri ákveðið í samþykkt sem ráðherra staðfesti.

 

Kærandi hefur ekki haldið því fram í málinu að hið umdeilda ákvæði lóðarleigusamningsins um Sefgarða 3 skorti lagastoð. Engu að síður telur ráðuneytið nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvort svo sé. Ljóst virðist af málsgögnum að jörðin Bygggarðar var í eigu Seltjarnarneshrepps þegar gengið var frá lóðarleigusamningi við Hafstein Guðmundsson árið 1966. Af þeirri ástæðu á vísan Seltjarnarneskaupstaðar til 30. gr. skipulagslaga, nr. 19/1964, ekki við í málinu, enda gilti ákvæðið einvörðungu um land í einkaeign sem skipulagt var sem byggingarlóðir. Þar sem Seltjarnarneshreppur hafði ekki öðlast kaupstaðarréttindi á þessum tíma koma lög um gjöld til holræsa og gangstétta í kaupstöðum, öðrum en Reykjavík og Akureyri, nr. 18/1920, ekki heldur til álita sem lagagrundvöllur fyrir umræddu samningsákvæði.

 

Í greinargerð með frumvarpi til laga um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, er vikið að því að nokkrir kaupstaðir og kauptún hafi á undangengnum árum tekið upp gatnagerðargjöld í sambandi við nýbyggingar, en án lagaheimildar. Teldist innheimta slíkra gjalda ekki skattheimta heldur samningsbundin greiðsla. Þessi fullyrðing er ekki fyllilega nákvæm, því áður voru í gildi fyrrgreind lög um gjöld til holræsa og gangstétta, öðrum en Reykjavík og Akureyri, nr. 18/1920. Einnig voru í gildi lög um gjöld til holræsa og gangstétta í Reykjavík o.fl., nr. 42/1911, og lög um gjöld til holræsa, gangstétta og varnalegs slitlags á götum á Akureyri, nr. 87/1970, sbr. áður lög um gjöld til holræsa og gangstétta á Akureyri, nr. 66/1917. Hugsanlegt er hins vegar að sveitarfélög hafi fyrir setningu laga nr. 51/1974 seilst nokkuð lengra í þessari innheimtu en lagaheimildir gáfu tilefni til.

 

Að því er varðar ummæli í greinargerð um að innheimta gatnagerðargjalda teljist ekki skattheimta heldur samningsbundin greiðsla, telur ráðuneytið að þau ummæli séu í andstöðu við þau viðhorf sem nú ríkja um innheimtu hins opinbera á sköttum og þjónustugjöldum. Gatnagerðargjöld eru þjónustugjöld sem sveitarfélög innheimta í skjóli opinbers valds. Álagning gjaldanna felur í sér íþyngjandi ákvörðun sem einungis er unnt að taka með heimild í settum lögum. Samningsákvæði á borð við 8. gr. lóðarleigusamnings þess sem deilt er um í máli þessu verður því að eiga sér lagastoð. Ber þá einnig að líta til þess að ef fallist er á að Seltjarnarneskaupstaður geti á grundvelli umrædds ákvæðis krafið kæranda um greiðslu gatnagerðargjalds er ábyrgð á greiðslu gjaldsins felld á hendur aðila sem eignast fasteignina löngu eftir að varanlegri gatnagerð er lokið við götuna, í skilningi laga um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974. Þrátt fyrir að lóðarleigusamningnum hafi verið þinglýst og hans sé getið á veðbókarvottorði telur ráðuneytið að um sé að ræða kvöð sem núverandi eigandi gat ekki með góðu móti gert ráð fyrir að hvíldi enn á eigninni þegar hann eignaðist hana.

 

Af framangreindum ástæðum telur ráðuneytið að 8. gr. lóðarleigusamnings um Sefgarða 3, dags. 23. apríl 1966, skorti lagastoð og verði gatnagerðargjöld því ekki innheimt á grundvelli samningsákvæðisins. Fer því um álagningu gjaldanna og fyrningartíma samkvæmt lögum um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum um gatnagerðargjald, nr. 17/1996.

 

C. Um fyrningartíma

Í 2. mgr. 6. gr. laganna var tekið fram að sérstakt gatnagerðargjald skyldi gjaldkræft þegar lagningu bundins slitlags og gangstéttar við hlutaðeigandi götu væri lokið. Af hálfu kæranda er því eins og áður segir haldið fram, með vísan til þessa ákvæðis, að gjalddagi gatnagerðargjalda vegna Sefgarða 3 hafi verið í síðasta lagi árið 1980 en hugsanlega árið 1978. Byggist sá skilningur kæranda á því að samkvæmt upplýsingum frá Seltjarnarneskaupstað hafi lagningu bundins slitlags verið lokið árið 1980. Telur kærandi að aðgerðaleysi kærða geti ekki frestað gjalddaga.

 

Af hálfu kærða er því hins vegar haldið fram, með vísan til orðalags 8. gr. lóðarleigusamningsins frá 1966, um að leigutaki skuli greiða gatnagerðargjöld þegar "götur og tilheyrandi lagnir hafi verið lagðar um hverfið", að gjöldin hafi ekki orðið gjaldkræf fyrr en árið 2000, þegar framkvæmdum við tengilögn sem tengdi fasteign kæranda við aðalfráveitukerfi bæjarins var lokið. Voru þá liðin 20 ár frá því bundið slitlag var lagt á götuna Sefgarða en 34 ár frá því að lóðarleigusamningurinn var gerður. Áður hefur ráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að þar sem umrætt samningsákvæði skorti lagastoð verði gatnagerðargjöld ekki innheimt á grundvelli ákvæðisins. Að auki tekur ráðuneytið undir það sjónarmið kæranda að þar sem ráðstafanir voru á sínum tíma gerðar til að ganga á fullnægjandi hátt frá fráveitumálum, miðað við þáverandi skipulag holræsamála á Seltjarnarnesi, verði það að teljast langsótt túlkun samningsins að gatnagerðargjöld hafi ekki orðið gjaldkræf fyrr en á árinu 2000.

 

Ágreiningslaust er í málinu að hitaveitulagnir voru lagðar í iðnaðarhverfinu á Seltjarnarnesi á árunum 1971-1972, neysluvatnslagnir árið 1975, götur voru lagðar á árinu 1977-1978 og þær voru malbikaðar árið 1980. Með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga um gatnagerðargjald, nr. 51/1974, telur ráðuneytið því sannað að gatnagerðargjöld vegna Sefgarða 3 gjaldféllu í síðasta lagi árið 1980. Jafnframt verður að fallast á það með kæranda að fyrningarfrestur gatnagerðargjaldanna var 4 ár þar sem gjöldin nutu lögtaksréttar, sbr. 3. tölul. 3. gr. laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda, nr. 14/1905. Verður að telja að krafan sé nú fyrnd enda ber kærandi enga ábyrgð á tómlæti kærða við að hefjast handa um innheimtu kröfunnar.

 

Fellst ráðuneytið, með vísan til alls framangreinds, á kröfu kæranda um að fella úr gildi álagningu gatnagerðargjalda að fjárhæð kr. 3.892.440 á fasteignina Sefgarða 3 á Seltjarnarnesi. Af þeirri ástæðu er óþarft að fjalla um útreikning gjaldanna en ekki er að finna skýringar á því í gögnum málsins hvers vegna þau reiknast af fermetrafjölda mannvirkja en ekki rúmmetrafjölda, eins og mælt er fyrir um í reglugerð um gatnagerðargjöld í Seltjarnarneshreppi, nr. 33/1976. Einnig er ekki ljóst af gögnum málsins hvort álagning miðaðist bæði við a- og b-gatnagerðargjald eða einungis hið síðarnefnda. Þessi skortur á upplýsingum hefur þó engin áhrif á þá niðurstöðu sem nú liggur fyrir í málinu.

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Felld er úr gildi ákvörðun Seltjarnarneskaupstaðar frá 9. febrúar 2001 um álagningu gatnagerðargjalda að fjárhæð kr. 3.892.440 vegna fasteignar kæranda, Borgarplasts hf., að Sefgörðum 3, Seltjarnarnesi.

 

 

F. h. r.

Berglind Ásgeirsdóttir (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 

 

 

 

Afrit:

Seltjarnarneskaupstaður

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta