Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Eyrarsveit - Skil yngri laga og eldri, álagning gatnagerðargjalds á viðbyggingar og lóðir við götur sem lagðar voru bundnu slitlagi í tíð eldri laga

Grundarfjörður                                               26. nóvember 2001               FEL01100035/122

Eyþór Björnsson

Grundargötu 30

350 GRUNDARFJÖRÐUR

 

 

Vísað er til erindis yðar, dags. 8. október 2001, þar sem óskað er álits ráðuneytisins varðandi túlkun á lögum um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, og skil þeirra laga við ákvæði laga um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975. Er í erindinu vísað til álits ráðuneytisins frá 23. desember 1997 um sama efni.

 

Í erindi yðar er óskað svars við því hvernig  skilja beri orðalag ákvæðis til bráðabirgða í lögum um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, varðandi eftirfarandi aðstöðu sem upp hefur komið hjá Eyrarsveit:

 

1.            Eyrarsveit (skipulags- og byggingarnefnd/sveitarstjórn) veitir byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við hús eftir 1.1.1997, en úthlutun lóðar fór fram og húsið sjálft var byggt löngu fyrir 1.1.1997. Er heimilt að leggja á gatnagerðargjald skv. lögum 17/1996, sbr. ákvæði 2. mgr. 3. gr.? Þar segir að heimilt sé að innheimta gatnagerðargjald ef reist er nýtt hús á áður byggðri lóð að því er stækkuninni nemur og að hið sama gildi ef hús er stækkað. Skiptir hér máli hvenær gengið var frá slitlagi og gangstétt við þá götu sem húsið stendur við?

2.            Gildir það sama ef um er að ræða nýbyggingu heils húss á óbyggðri lóð þ.e. að úthlutun lóðar hefur farið fram fyrir 1.1.1997 en ekki er byggt á lóðinni (byggingaleyfi veitt) fyrr en eftir 1.1.1997, og jafnvel töluvert löngu síðar (að því gefnu að sveitarstjórn véfengi ekki að úthlutun standi, þrátt fyrir ákvæði skipulags- og byggingarlaga um að úthlutun geti fallið úr gildi að liðnum 12 mánuðum ef ekki er byggt á lóðinni).

3.            Í hverfi í sveitarfélaginu (Hjaltalínsholt) var gengið frá slitlagi og gangstéttum 1997. Lagt var gatnagerðargjald á húsin í hverfinu skv. eldri lögum um gatnagerðargjöld nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975.  Enn eru óbyggðar lóðir í  hverfinu. Eftir hvaða lögum ber að leggja á gatnagerðargjald þegar þær lóðir byggjast (lóðaúthlutun og byggingaleyfi veitt)? Skiptir máli hvenær það verður, héðan í frá?

4.            Þann 10. nóvember 1997 kvað ráðuneytið upp úrskurð um lögmæti álagningar B-gatnagerðargjalds á viðbyggingu húss í Grundarfirði og felldi úr gildi ákvörðun Eyrarsveitar um innheimtu gjaldsins þar sem meira en fimm ár voru liðin frá lagningu bundins slitlags/lagningu gangstéttar á umrædda götu. Óheimilt var samkvæmt því að innheimta B-gatnagerðargjald af umræddu húsi. Enn eru mál ófrágengin þar sem svipað var uppi á teningnum og því er spurt; er sveitarfélaginu samkvæmt þessu ætlað að láta suma íbúa við götu greiða fullt gatnagerðargjald af húsum sínum (þ. á m. viðbyggingum) en aðra ekki og hvernig á sveitarfélagið að rökstyðja slíkt gagnvart íbúunum?

 

Fullyrt er að sú framkvæmd sem úrskurðuð var ólögmæt með fyrrgreindum úrskurði var/er viðhöfð í öðrum sveitarfélögum. Er því óskað upplýsinga um hvort ráðuneytið hafi með einhverjum hætti vakið athygli sveitarfélaga á þessu vandamáli.

 

Álit ráðuneytisins

Í ákvæði til bráðabirgða í lögum um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, er kveðið á um að lög um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, sbr. lög nr. 31/1975, skuli gilda um innheimtu og álagningu gatnagerðargjalda vegna framkvæmda á grundvelli 3. og 4. gr. laga nr. 51/1974, sem lokið er við innan tíu ára frá gildistöku laganna. Ákvæðið gildir þó einungis um lóðir sem úthlutað hefur verið eða veitt hefur verið byggingarleyfi á fyrir gildistöku laga nr. 17/1996. Lögin tóku gildi þann 1. janúar 1997 og er ótvírætt að þau gilda um öll hús sem byggð eru á lóðum sem úthlutað hefur verið eftir þann tíma.

 

Í erindi yðar er vakin athygli á ýmsum vandamálum er komið geta upp varðandi skil eldri laga og yngri. Enda þótt fyrrgreint bráðabirgðaákvæði verði að teljast orðað með fremur skýrum hætti er ekki loku fyrir það skotið að löggjafinn hafi ekki tekið tillit til allra aðstæðna sem reynt getur á við framkvæmd laganna. Sérstök vandamál kunna til dæmis að koma upp varðandi viðbyggingar við hús sem reist eru í tíð eldri laga, en á því atriði er ekki tekið sérstaklega í lögum nr. 17/1996. Reynir því á almenn lögskýringarviðhorf við úrlausn slíkra vandamála.

 

Verður spurningum yðar nú svarað í sömu röð og þær eru settar fram í fyrirspurn yðar:

 

1. Um viðbyggingar við eldri hús er fjallað í úrskurði ráðuneytisins frá 10. nóvember 1997, eins og vikið er að í erindi yðar. Þar var felld úr gildi álagning b-gatnagerðargjalds vegna viðbyggingar sem byggingarleyfi var veitt fyrir á árinu 1996, þ.e. fyrir gildistöku laga nr. 17/1996, á þeim grundvelli að liðin væru a.m.k. 15 ár frá því bundið slitlag hafði verið lagt á götu þá sem húsið stóð við. Var álagning b-gatnagerðargjalds því ekki talin eiga sér stoð í 4. gr. laga um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974.

 

Í erindi yðar er spurt hvort heimilt sé að leggja á gatnagerðargjald vegna viðbyggingar á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laga um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, og hvort máli skipti hvenær gengið var frá slitlagi og gangstétt við þá götu sem húsið stendur við. Spurningin miðast við að byggingarleyfi viðbyggingarinnar hafi verið veitt eftir gildistöku laga nr. 17/1996, en að lóð hafi verið úthlutað og húsið sjálft byggt í tíð eldri laga, nr. 51/1974.

 

Með vísan til þess að í bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 17/1996 er ekki fjallað um viðbyggingar, telur ráðuneytið ótvírætt að túlka beri 2. mgr. 3. gr. laganna á þann veg að ákvæðið taki til allra viðbygginga sem byggingarleyfi er veitt vegna eftir gildistöku laganna. Þetta þýðir að heimilt er að leggja á gatnagerðargjald samkvæmt lögum nr. 17/1996 sem stækkuninni nemur, án tillits til þess hvenær slitlag var lagt á umrædda götu.

 

2. Í 6. gr. laga um gatnagerðargjöld, nr. 51/1974, er að finna mismunandi reglur um gjalddaga eftir því hvort um er að ræða a- eða b-gatnagerðargjald. Um a-gjaldið gildir sú regla að það gjaldfellur þegar sveitarstjórn ákveður. B-gatnagerðargjald skal gjaldkræft þegar lagningu bundins slitlags og gangstéttar við hlutaðeigandi götu er lokið. Í 5. gr. samþykktar um gatnagerðargjöld í Grundarfirði, nr. 399/1975, er kveðið á um að sveitarstjórn geti áskilið við úthlutun leigulóða að full skil verði gerð innan ákveðins frests, áður en byggingarleyfi verður veitt eða sérstakur samningur gerður um greiðslur.

 

Samkvæmt lögum um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, gildir nú sú regla að gatnagerðargjald er fyrst gjaldkræft við úthlutun lóðar, þegar um er að ræða lóð í eigu sveitarfélagsins, og við útgáfu byggingarleyfis á öðrum lóðum. Ráðuneytið skilur fyrirspurn yðar svo að um sé að ræða nýbyggingu á lóð sem Eyrarsveit hafði ráðstöfunarrétt á og fram kemur að lóðinni var úthlutað fyrir gildistöku laga nr. 17/1996 en byggingarleyfi var útgefið eftir þann tíma. Var ekki beitt heimild í skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, til að afturkalla úthlutun lóðarinnar þótt byggingarframkvæmdir hæfust ekki fyrr en löngu eftir að 12 mánuðir voru liðnir frá úthlutun.

 

Ekki er fjallað um þetta vandamál í bráðabirgðaákvæði laga nr. 17/1996. Í erindi yðar kemur ekki fram hvort sett hafi verið skilyrði við lóðaúthlutun eða útgáfu byggingarleyfis um innheimtu gatnagerðargjalda eða hvort vísað hafi verið til ákvæða laga um skyldu lóðarhafa til greiðslu gjaldanna. Kunna slíkar upplýsingar að skipta máli við úrlausn málsins og kann sveitarstjórn að vera bundin við fyrri yfirlýsingar sínar til lóðarhafa varðandi greiðsluskyldu. Telur ráðuneytið óvarlegt að taka afstöðu til þessa álitaefnis án frekari gagna. Er því ekki unnt að svara þessum lið fyrirspurnar yðar að svo stöddu.

 

3. Í áliti ráðuneytisins frá 23. desember 1997 var gerður greinarmunur á því hvort bundið slitlag var lagt á viðkomandi götu í gildistíð laga nr. 51/1974 og var talið að ákvæði þeirra laga giltu um húsnæði sem byggt er á óbyggðum lóðum og um stækkun eldra húsnæðis þar sem bundið slitlag var lagt fyrir 1. janúar 1997. Væri sveitarfélögum óheimilt að innheimta B-gatnagerðargjald í þeim tilvikum þegar meira en fimm ár voru liðin frá því bundið slitlag var lagt á götu.

 

Í erindi yðar er réttilega bent á að framangreind niðurstaða gat falið í sér umtalsverðan ójöfnuð meðal íbúa sveitarfélags. Gat hún m.a. leitt til þess að þeir sem fyrstir byggðu hús við götu greiddu einir kostnað við að leggja bundið slitlag á götuna en þeir sem fá úthlutað óbyggðum lóðum síðar kunna að sleppa við að greiða B-gatnagerðargjald. Einnig gátu sveitarfélög hugsanlega horfið frá því að úthluta óbyggðum lóðum í grónum hverfum, í stað þess að þétta þá byggð sem þegar var risin. Til frambúðar verður því að telja þessa niðurstöðu óviðunandi.

 

Sú breyting varð við gildistöku laga um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, að álagning gatnagerðargjalds var ekki lengur bundin við ákveðnar götur í sveitarfélaginu. Í því felst sá grundvallarmunur miðað við gildistíð eldri laga að ekki skiptir lengur máli varðandi álagningu gatnagerðargjalds, þegar um er að ræða nýbyggingar eða stækkun eldra húsnæðis, hvort hús stendur við götu sem búið er að leggja bundnu slitlagi. Allir húsbyggjendur sem fengið hafa úthlutað lóð eftir 1. janúar 1997 eiga því að greiða  gatnagerðargjald á grundvelli ákvæða laga nr. 17/1996, óháð því hvenær bundið slitlag var lagt við aðliggjandi götur.

 

Um álagningu gatnagerðargjalds í því tilviki sem fjallað er um í 3. lið fyrirspurnar yðar fer því samkvæmt gjaldskrá sveitarfélagsins um gatnagerðargjald eins og hún er þegar lóðinni er úthlutað.

 

4. Í úrskurði ráðuneytisins frá 10. nóvember 1997 var byggingarleyfi fyrir stækkun eldra húsnæðis veitt fyrir gildistöku laga nr. 17/1996 og var því óhjákvæmilegt að eldri lög um gatnagerðargjöld giltu við úrlausn málsins. Í því fólst að ef gatnagerðarframkvæmdum, þ.á m. lagningu bundins slitlags og gangstétta, var lokið meira en fimm árum fyrir útgáfu byggingarleyfis var óheimilt að innheimta b-gatnagerðargjald.

 

Með vísan til þess sem áður er sagt í 1. og 3. lið telur ráðuneytið að ekki megi oftúlka þá niðurstöðu þá sem fram kemur í umræddu máli, en sá skilningur sem fram kemur í erindi yðar átti vissulega einnig stoð í fyrrgreindu áliti ráðuneytisins frá 23. desember 1997. Eins og áður er komið fram telur ráðuneytið að Eyrarsveit sé heimilt að leggja á gatnagerðargjald á grundvelli laga nr. 17/1996 vegna allra nýbygginga og viðbygginga sem heimilaðar hafa verið eftir gildistöku þeirra laga, þ.e. eftir 1. janúar 1997. Það er því einungis í undantekningartilvikum á borð við það sem fjallað er um í 2. lið fyrirspurnar yðar, sem ráðuneytið telur að vafi kunni að rísa um hvort beita beri ákvæðum laga nr. 51/1974.

 

Þess er vænst að með þeim svörum sem hér hafa verið veitt verði unnt að leysa þau mál sem enn eru óleyst í Eyrarsveit varðandi álagningu og innheimtu gatnagerðargjalda. Ráðuneytið er að sjálfsögðu tilbúið að veita frekari leiðbeiningar ef á þarf að halda en telur að ákvæði laga nr. 17/1996 eigi að vera nægilega skýr til að leysa úr flestum þeim álitaefnum sem kunna að rísa við álagningu gatnagerðargjalds.

 

 

F. h. r.

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta