Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Búðahreppur - Heimild til niðurfellingar gjalda og jafnræðisreglan

Búðahreppur                                                           2. apríl 1997                                                       97010118

Steinþór Pétursson sveitarstjóri                                                                                                         16-7611

Hafnargötu 12

750 Fáskrúðsfjörður

            

 

 

 

 

             Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 9. janúar 1997, varðandi m.a. heimild sveitarstjórnar til niðurfellingar gjalda og hugsanlegt brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Jafnframt er vísað til frekari upplýsinga um málið sem bárust ráðuneytinu samkvæmt beiðni með bréfum, dagsettum 4. febrúar og 10. mars 1997.

 

             Í fyrsta lagi telur ráðuneytið rétt að benda á ákvæði 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir: “Kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.” Síðan segir í 28. gr. sömu laga að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Ennfremur er þar tekið fram að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

 

             Ljóst er að erindi yðar var sent ráðuneytinu að loknum kærufresti vegna allra þeirra mála sem greind eru í erindinu. Þrátt fyrir það telur ráðuneytið rétt að benda á eftirfarandi lagareglur og atriði sem varða málið:

 

             Í 2. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986 segir svo:

             “Sveitarstjórn fer með stjórn sveitarfélagsins skv. ákvæðum laga þessara og annarra laga.”

 

             Í 9. gr. laganna er almennt ákvæði um skyldur sveitarfélaga og valdsvið og 1. og 2. mgr. 9. gr. hljóða svo:

             “Sveitarstjórnir hafa ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélaga og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf.

             Sveitarstjórn skal sjá um að lögbundin verkefni sveitarfélagsins séu rækt og að fylgt sé þeim reglum um meðferð sveitarstjórnarmála sem ákveðnar eru í samþykktum sveitarfélagsins, lögum og reglugerðum.”

 

             Um hlutverk og verkefni sveitarfélaga er m.a. fjallað í 1.-3. mgr. 6. gr. sveitarstjórnarlaga, en þau ákvæði hljóða svo:

             “Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum.

             Sveitarfélög skulu vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir á hverjum tíma.

             Sveitarfélög geta tekið að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum.”

 

             Félagsmálaráðuneytið hefur ekki talið ástæðu til að gera athugasemdir við styrkveitingar sveitarfélaga til einstakra verkefna, svo fremi sem sveitarfélögin sinna lögbundnum verkefnum sínum. Slíkar styrkveitingar geta verið í formi beinna styrkja, ábyrgða eða í formi niðurfellingar á sköttum og gjöldum.

 

             Gera verður þó greinarmun á styrkjum til ýmissa félagasamtaka annars vegar og hins vegar styrkjum til fyrirtækja sem geta hugsanlega raskað samkeppnisaðstöðu.

 

             Í þessu sambandi verður að hafa í huga 61. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Í 1. mgr. kemur fram meginreglan og hljóðar hún svo:

             “Ef ekki er kveðið á um annað í samningi þessum er hvers kyns aðstoð, sem aðildarríki EB eða EFTA-ríki veitir eða veitt er af ríkisfjármunum og raskar eða er til þess fallin að raska samkeppni með því að ívilna ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu ákveðinna vara, ósamrýmanleg framkvæmd samnings þessa að því leyti sem hún hefur áhrif á viðskipti milli samningsaðila.”

 

             Samkvæmt athugasemdum með framangreindu ákvæði nær skilgreining á ríkisstyrkjum yfir bein fjárframlög, ábyrgðir og skattaívilnanir, auk trygginga og niðurgreiðslu lánskjara frá markaðskjörum, og á jafnt við um styrki veitta af ríkisvaldinu, sveitarfélögum, stofnunum, fyrirtækjum og sjóðum í eigu opinberra aðila að hluta eða öllu leyti.

 

             Í 2. og 3. mgr. 61. gr. samningsins eru undanþágur frá meginreglunni og segir m.a. í a-lið 3. mgr. að aðstoð til að efla hagþróun á svæðum þar sem lífskjör eru óvenju bágborin eða atvinnuleysi mikið geti talist samrýmanleg framkvæmd samningsins og í c-lið segir að sama gildi um aðstoð til að greiða fyrir þróun ákveðinna greina efnahagslífsins eða ákveðinna efnahagssvæða enda hafi hún ekki svo óhagstæð áhrif á viðskiptaskilyrði að stríði gegn sameiginlegum hagsmunum.

 

             Varðandi aðstoð samkvæmt samningnum ber ennfremur að taka til skoðunar XI. kafla samkeppnislaga nr. 8/1993.

 

             Rétt er jafnframt að taka skýrt fram að sveitarstjórnir verða að gæta jafnræðis við ákvörðun um styrkveitingar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en það ákvæði hljóðar svo: “Við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.”

 

             Í athugasemdum með frumvarpi til stjórnsýslulaga segir m.a. um 11. gr.: “Í reglunni felst að mál sem eru sambærileg í lagalegu tilliti skuli hljóta sams konar úrlausn. Í þessu sambandi verður þó að hafa í huga að ekki er um mismunun að ræða í lagalegu tilliti, jafnvel þótt mismunur sé á úrlausn mála, byggist sá mismunur á frambærilegum og lögmætum sjónarmiðum.”

 

             Ráðuneytið telur að eðlilegt sé að sveitarstjórnir setji fyrirfram reglur um styrkveitingar viðkomandi sveitarfélags, en ef það reynist ekki unnt í öllum tilfellum verður sveitarstjórnin að gæta þess að framangreind jafnræðisregla sé virt. Rétt er jafnframt að kynna innan sveitarfélagsins allar breytingar á reglum um styrkveitingar samkvæmt framansögðu, svo einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki viti fyrirfram að hverju gengið er þegar sótt er um styrki.

 

             Hvað varðar erindi yðar að öðru leyti skal bent á að félagsmálaráðherra hefur skipað nefnd til að endurskoða sveitarstjórnarlög nr. 8/1986, með síðari breytingum. Verður þar m.a. endurskoðaður VIII. kafli laganna um fjármál sveitarfélaga.

 

             Dregist hefur að svara erindi yðar vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Sigríður Lillý Baldursdóttir (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta