Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. SRN17041017

Ár 2017, þann 25. september, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN17041017

Kæra X

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 3. apríl 2017 barst ráðuneytinu kæra X (hér eftir kærandi), á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 8. mars 2017 um að bregðast ekki við erindi kæranda varðandi skoðanir og endurskoðanir bifreiðanna A og B auk mælinga á útblæstri bifreiðanna.

Kæruheimild er í 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Málavextir eru þeir að með bréfi kæranda dags. 19. janúar 2017 kvartaði hún til SGS yfir skoðunarstöð Frumherja í Kópavogi vegna skoðunar og endurskoðunar bifreiðanna A og B auk mælinga á útblæstri þeirra. Sendi SGS erindi kæranda Frumherja til umsagnar og barst svar fyrirtækisins SGS þann 6. febrúar 2017. Með ákvörðun SGS dags. 8. mars 2017 var kæranda tilkynnt að ekki væru forsendur til að aðhafast frekar vegna málsins.

Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með bréfi kæranda mótteknu 3. apríl 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 12. apríl 2017 var SGS gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi SGS mótteknu 7. júní 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 16. júní 2017 var kæranda kynnt umsögn SGS og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með bréfi kæranda mótteknu 7. júlí 2017.

Með bréfi dags. 15. ágúst 2017 tilkynnti ráðuneytið kæranda að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

 

III.      Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi ekki fengið tækifæri til að andmæla efnisatriðum sem fram komu í bréfi Frumherja til SGS áður en stofnunin tók íþyngjandi ákvörðun í málinu. Þá gerir kærandi í andmælum sínum athugasemd við skoðun tilgreindra bifreiða og framkvæmd skoðananna. Hafnar kærandi öllum útskýringum SGS sem órökstuddum og telur Frumherja hafa bakað eiganda bifreiðanna mjög mikið tjón að tilefnislausu.

 

IV.       Ákvörðun og umsögn SGS

Í ákvörðun SGS kemur fram að með bréfi kæranda dags. 19. janúar 2017 hafi verið kærðar forsendur fyrir endurskoðun bifreiðanna A og B þar sem kærandi telji að um sé að ræða tilbúning til að innheimta endurskoðunargjaldið. Þá hafi kærandi krafist þess að fram færi rannsókn á starfsemi skoðunarstöðva Frumherja vegna þarflausra endurskoðana bifreiða til að auka tekjur fyrirtækisins og vegna mælinga á útblástri bifreiða sem álagning bifreiðagjalda byggist á. Þá hafi verið krafist rannsóknar á mælingum útblásturs bifreiðanna og krafist endurgreiðslu oftekinna bifreiðagjalda og endurskoðunargjalda.

SGS vísar til þess að bifreiðagjöld séu innheimt á grundvelli CO2 (koldíoxíð) gildis bifreiðar sem framleiðandi hefur gefið upp. Það sé því ekki á forræði skoðunarstöðva að mæla CO2 gildi ökutækja og senda áfram til ríkisskattstjóra sem grundvöll álagningar bifreiðagjalda. Skoðunarstöðvar mæli hins vegar CO gildi (kolmónoxíð) og sé það skráð á skoðunarskýrslu. Það hafi hins vegar ekkert með álagningu bifreiðagjalda að gera.

Um bifreiðagjöld gildi lög með sama nafni nr. 39/1988. Í 2. gr. komi fram hvernig fjárhæð bifreiðagjalds er ákveðin. Í 6. gr. segi að ríkisskattstjóri fari með álagningu bifreiðagjalds og aðra framkvæmd laganna. Sé þar m.a. átt við endurgreiðslur og leiðréttingar. Í 7. gr. sé fjallað um kæruleið og þar segi að greiðanda bifreiðagjalds sé heimilt að kæra álagningu bifreiðagjalds til ríkisskattstjóra. Úrskurðir ríkisskattstjóra séu kæranlegir til yfirskattanefndar. Hafi SGS framsent þann hluta málsins sem varðar álagningu og endurgreiðslu oftekinna bifreiðagjalda ríkisskattstjóra til þóknanlegrar meðferðar.

Varðandi skoðunarstofur Frumherja gildi um þær sömu reglur og aðrar skoðunarstofur, sbr. V. kafla reglugerðar um skoðun ökutækja nr. 8/2009. Í 22. gr. segi m.a. að skoðunarstofa skuli hafa hlotið faggildingu í samræmi við viðeigandi ákvæði í reglugerðum og staðli. Samkvæmt 23. gr. viðurkenni SGS skoðunarstofu að undangenginni faggildingu. Í 34. og 35. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um eftirlit með starfsemi skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæða. Þar komi fram að SGS hafi eftirlit með því að skoðun á skoðunarstofu og endurskoðunarverkstæði fari fram í samræmi við skoðunarhandbók.

Í 13. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja sé fjallað um hvenær ökutæki skuli fært til endurskoðunar. Í 15. gr. reglugerðarinnar komi fram að SGS gefi út skoðunarhandbók um skoðun ökutækja þar sem fram koma verklagsreglur fyrir skoðunarstofur til leiðbeiningar um hvernig dæma skuli einstök skoðunaratriði. Í 17. og 18. gr. sé fjallað um dæmingu skoðunaratriða og niðurstöður skoðana. Komi þar m.a. fram að dæming skoðunaratriðis skuli vera í samræmi við skoðunarhandbók. Dæming 1 þýði að skoðunaratriði sé ekki í lagi en nothæft og niðurstaðan sé lagfæring. Dæming 2 þýði að skoðunaratriði sé ekki í lagi og þarfnist viðgerðar. Niðurstaðan sé endurskoðun. Dæming 3 þýði að skoðunaratriði sé ekki í lagi, sé ónothæft, þarfnist viðgerðar og geti valdið hættu. Niðurstaða dæmingar 3 sé að notkun ökutækis er bönnuð.

SGS greinir frá því að Frumherji starfi samkvæmt starfsleyfi frá SGS og lúti skýrum reglum sem gilda um skoðun ökutækja og endurskoðun sem skoðunarmönnum beri að fara eftir. Skoðunarmenn notist við skoðunarhandbók SGS við mat á því hvort ökutæki standist skoðun eða þurfi að fara í endurskoðun. Í skoðunarhandbókinni séu skýrar reglur settar um dæmingu einstakra skoðunaratriða. Umrædd ökutæki hafi bæði fengið dæmingu við aðalskoðun á árinu 2016 sem leitt hafi til endurskoðunar. Bifreiðin A hafi farið í aðalskoðun 28. júlí 2016 og fengið endurskoðun vegna stöðuljósa (dæming 1) og hjólbarða sem taldir voru hættulegir í akstri (dæming 2). Endurskoðun hafi verið gerð þann 25. október 2016 án athugasemda. Í svari Frumherja komi fram að við aðalskoðun hafi verið sett út á hjólbarða vegna fúa en að ekki sé sett út á sprungur í hjólbörðum fyrr en skoðunarmaður telji hjólbarða vera orðna hættulega. Þegar sprungur nái ákveðinni dýpt sé ökutæki dæmt í akstursbann. Frumherji telji því rangt að dæmingin hafi ekki átt rétt á sér. Bifreiðin B hafi farið í aðalskoðun 25. október 2016 þar sem athugasemd hafi verið gerð við spindla (dæming 2). Endurskoðun hafi farið fram 28. nóvember 2016 án athugasemda. Í svari Frumherja komi fram að stýrisliðir og hjólbarðar ásamt hemlun séu mikilvægustu atriðin sem skoðuð eru af skoðunarstöð. Við þessa tilteknu skoðun hafi verið sett út á hægri spindilkúlu vinstra megin en þá hafi bifreiðinni verið ekið 156.012 km. Það sé ekkert óeðlilegt við þessa endingu á spindilkúlum og sé hún frekar mikil ef eitthvað er, sem bendi til þess að bifreiðinni sé ekið varfærnislega. Sé tekið mið af framangreindu sem og starfsleyfi Frumherja auk þess eftirlits sem viðhaft er með skoðunarstofum, telur SGS að ekkert liggi fyrir í málinu sem kalli á frekari rannsókn. Hafi SGS farið yfir málið í heild sinni og telji ekki forsendur til að aðhafast frekar vegna málsins.

Í umsögn SGS er tekið fram að samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skuli aðili máls eiga kost á að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. SGS hafi leitað álits Frumherja á málinu enda hafi erindi kæranda að mestu varðað starfsemi fyrirtækisins. Hafi svar Frumherja borist SGS þann 6. febrúar 2017. Þar sé að finna upplýsingar, m.a. varðandi útreikning bifreiðagjalda og skoðun umræddra bifreiða. Telur SGS óþarft að veita kæranda kost á andmælum enda yrði þessum niðurstöðum skoðunarmanna ekki breytt þótt kærandi hefði aðrar skoðanir, t.a.m. um líftíma hjólbarða eða spindilkúlna. Sömu rök varði CO2 gildi sem liggur til grundvallar bifreiðagjaldi og sé það ekki á forræði skoðunarstofa að ákveða slíkt heldur framleiðanda bifreiðarinnar. Þá hafi rök varðandi starfsemi Frumherja ekki verið talin á slíkum rökum reist að kallað hafi á frekari rannsókn enda gildi skýrar reglur um starfsemina og framkvæmd hennar og ekkert sem bendi til annars en eftir þeim sé farið.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Líkt og fram kemur í ákvörðun SGS gilda um bifreiðagjöld lög með sama nafni nr. 39/1988. Samkvæmt 6. gr. þeirra laga fer ríkisskattstjóri með álagningu bifreiðagjalds og aðra framkvæmd laganna. Samkvæmt 7. gr. eru ákvarðanir ríkisskattstjóra kæranlegar til yfirskattanefndar. Var SGS því rétt að framsenda þann hluta erindis kæranda sem sneri að álagningu og endurgreiðslu oftekinna bifreiðagjalda ríkisskattstjóra til meðferðar.

Um skoðunarstofur er fjallað í V. kafla reglugerðar um skoðun ökutækja nr. 8/2009. Er Frumherji ein þeirra skoðunarstofa sem reglugerðin tekur til. Samkvæmt 22. gr. skal skoðunarstofa hafa hlotið faggildingu í samræmi við reglugerð um starfsemi faggiltra óháðra skoðunarstofa og tilgreindum staðli. Samkvæmt 23. gr. skal SGS viðurkenna skoðunarstofu að undangenginni faggildingu. Þá er fjallað um eftirlit með starfsemi skoðunarstofa og endurskoðunarverkstæða í 34. og 35. gr. reglugerðarinnar. Er það hlutverk SGS að hafa eftirlit með því að skoðun á skoðunarstofu og endurskoðunarverkstæði fari fram í samræmi við skoðunarhandbók. Starfar Frumherji samkvæmt starfsleyfi frá SGS og lýtur skýrum reglum sem gilda um skoðun og endurskoðun ökutækja. Notast skoðunarmenn við skoðunarhandbók SGS við mat á því hvort ökutæki standist skoðun eða þarfnist endurskoðunar. Í 15. gr. reglugerðarinnar kemur fram að SGS gefi út skoðunarhandbók þar sem fram koma verklagsreglur fyrir skoðunarstofur. Í skoðunarhandbókinni er að finna skýrar reglur sem settar eru um dæmingu einstakra skoðunaratriða. Þá er í 13. gr. reglugerðarinnar fjallað um hvenær ökutæki skuli fært til endurskoðunar. Þá er í 17. og 18. gr. reglugerðarinnar fjallað um dæmingu skoðunaratriða og niðurstöður skoðana. Skal dæming skoðunaratriðis vera í samræmi við skoðunarhandbók. Varðandi mismunandi dæmingar vísast til umfjöllunar SGS í hinni kærðu ákvörðun.

Líkt og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun var sett út á hjólbarða bifreiðarinnar A vegna fúa við aðalskoðun þann 28. júlí 2016. Liggur fyrir að ekki er sett út á sprungur í hjólbörðum nema skoðunarmaður telji þá hættulega. Við skoðun bifreiðarinnar B þann 25. október 2016 var gerð athugasemd við spindla bifreiðarinnar. Af hálfu Frumherja er bent á að stýrisliðir og hjólbarðar eru mikilvægust atriðin sem skoðuð eru af skoðunarstöð.

Ráðuneytið áréttar að eftir að erindi kæranda barst SGS óskaði stofnunin eftir umsögn Frumherja líkt og stofnuninni var rétt. Var það niðurstaða SGS að svör Frumherja væru þess eðlis að ekki væri ástæða til að taka erindi kæranda til frekari meðferðar. Við það mat bæri einnig að taka mið af starfsleyfi Frumherja og því eftirliti sem SGS hefur með skoðunarstofum. Er það mat ráðuneytisins að fallast beri á það með SGS að ekkert það sé fram komið af hálfu kæranda í málinu sem gefur tilefni til frekari skoðunar málsins af hálfu SGS.

Þá tekur ráðuneytið fram að í svari Frumherja til SGS koma fram fullnægjandi upplýsingar um útreikning bifreiðagjalda og skoðun umræddra bifreiða. Tekur ráðuneytið undir það með SGS að augljóslega hafi verið óþarft að gefa kæranda kost á að tjá sig um það sem þar kemur fram, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem ljóst má vera að niðurstöðum skoðunarmanna yrði ekki breytt þótt kærandi væri þeim ekki sammála, s.s. um líftíma hjólbarða og spindilkúlna. Hvað varðar CO2 gildi sem lagt er til grundvallar bifreiðagjaldi liggur fyrir að það er ekki á forræði skoðunarstofa að ákveða heldur framleiðanda bifreiðanna. Þá er ekkert það fram komið í gögnum málsins sem varðar starfsemi Frumherja sem kallað gæti á frekari rannsókn af hálfu SGS. Telur ráðuneytið þannig ekki tilefni til að gera athugasemd við þá afstöðu SGS að skýrar reglur gildi um starfsemi Frumherja og ekkert sem bendi til annars en eftir þeim sé farið, enda starfar Frumherji samkvæmt starfsleyfi frá SGS sem hefur eftirlit með því að skoðun bifreiða fari fram í samræmi við skoðunarhandbók.

Með þessum athugasemdum er það mat ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta