Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í stjórnsýslumáli nr. IRR11100276

Ár 2013, 21. febrúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. IRR11100276

Almenna umhverfisþjónustan ehf. og Tóm steypa ehf.

gegn

Snæfellsbæ

 

 

I.         Kröfur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru er barst ráðuneytinu þann 25. október 2011, kærði Friðrik Tryggvason, f.h. Almennu umhverfisþjónustunnar ehf., kt. xxxxxx-xxxx (hér eftir nefnt AU), og Tómrar steypu ehf. kt. xxxxxx-xxxx (hér eftir nefnt TS), ákvarðanir umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar, dags. 30. ágúst 2011, um að synja félögunum um úthlutun lóða. Verður ráðið af kæru að þess sé krafist að ráðuneytið felli úr gildi hinar kærðu ákvarðanir.

Kæran er borin fram á grundvelli 1. mgr. 103. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 og er hún fram komin innan lögmælts kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Með bréfi til umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar, dags. 4. júlí 2011, sótti AU um lóð til að ,,lagera“ upp steypuefni og vinna fullbúið efni til steypugerðar. Kom jafnframt fram í umræddu bréfi að ef ekki reyndist unnt að úthluta félaginu lóð, væri óskað eftir lóð til bráðabirgða þar sem einnig gæti farið fram steypugerð. Málið var tekið fyrir á 64. fundi nefndarinnar þann 30. ágúst 2011 og beiðninni hafnað á þeim forsendum að ekki væri til á deiliskipulagi svæði til að ,,lagera“ efni.

Með bréfi til umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar, dags. 4. júlí 2011, óskaði TS eftir lóð undir starfsemi sína í Snæfellsbæ. Kom fram í bréfinu að fyrirhugað væri að hafa steypustöð og efnisvinnslu til steypugerðar á lóðinni. Væri vel mögulegt og æskilegt að hafa þessa starfsemi aðskilda. Málið var tekið fyrir á fundi nefndarinnar þann 30. ágúst 2011 og afgreiddi nefndin beiðnina með svofelldum hætti:

Umhverfis- og skipulagsnefnd Snæfellsbæjar getur að svo stöddu ekki úthlutað lóð undir starfsemi steypustöðvar þar sem hvorki í aðalskipulagi né deiliskipulagi Snæfellsbæjar eru skipulagðar lóðir undir þá starfsemi. Umhverfisnefndin felur byggingarfulltrúa að skoða nánar með staðsetningar fyrir slíka starfsemi.

Voru framangreindar ákvarðanir umhverfis- og skipulagsnefndar staðfestar á 229. fundi bæjarstjórnar Snæfellsbæjar þann 1. september 2011.

Með bréfi, dags. 20. október 2011, voru ákvarðanir umhverfis- og skipulagsnefndar kærðar til ráðuneytisins. Með bréfi til AU og TS, dags. 8. nóvember 2011, óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum varðandi kæruefnið og bárust umbeðnar upplýsingar með tölvubréfi þann 15. nóvember 2011.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 17. nóvember 2011, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Snæfellsbæjar um kæruna auk afrits af gögnum málsins. Bárust umbeðin gögn ráðuneytinu með bréfi, dags. 8. desember 2011.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 21. desember 2011, var AU og TS gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum sveitarfélagsins og bárust þau ráðuneytinu með tveimur bréfum, dags. 3. janúar og 8. janúar 2012.

Með tölvubréfi til Snæfellsbæjar, dags. 7. september 2012 óskaði ráðuneytið eftir því að sveitarfélagið upplýsti um nánar tiltekin atriði vegna málsins og barst svar í tölvupósti þann 10. september 2012. Þann 24. október 2012 var svar Snæfellsbæjar sent AU og TS með tölvubréfi og bárust ráðuneytinu athugasemdir félaganna þar að lútandi, þann 29. október 2012.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.      Málsástæður Almennu umhverfisþjónustunnar ehf. og Tómrar steypu ehf.

Í kæru sinni til ráðuneytisins vísa AU og TS til yfirlitsmyndar er fylgdi kæru þeirra þar sem sýnar séu þrjá lausar lóðir á skipulögðu iðnaðarsvæði í jaðri Ólafsvíkur. Er tekið fram í kærunni að umræddar lóðir hafi staðið til boða eftir fund fulltrúa félaganna með tæknifræðingi Snæfellsbæjar árið 2005. Umhverfis- og skipulagsnefnd hafi hins vegar í ágúst 2011 hafnað beiðni um úthlutun lóða, með þeim rökum að ekki væru til lausar lóðir. Af hálfu félagana er ítrekað að í jaðri Ólafsvíkur hafi verið lausar lóðir sem nefndin hafi ekki bent á.

Þá er vakin athygli á því að það hafi fyrst verið á fundi með bæjarstjóra og tæknifræðingi, þann 5. október 2011 að starfsemi félagnna hafi verið skilgreind sem grófur iðnaður. En sú skilgreining hafi haft það í för með sér að sveitarfélagið hafi hvorki getað orðið við beiðni um lóð né athafnarsvæði til bráðabirgða. Er bent á að í umsögn Snæfellsbæjar komi fram að vegna þessarar skilgreiningar sé staðan sú að til að verða við beiðni AU og TS um lóðir þurfi að breyta aðalskipulagi, en sveitarfélagið hafi ekki tekið ákvörðun um slíka breytingu. Í umsögninni segir jafnframt að félögin geti óskað flýtimeðferð skipulagsbreytinga en slíkt kynni að hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir þau.  

Þá er í kæru bent á að sanngjörn málsmeðferð og jafnræði séu mikilvæg atriði í stjórnsýslunni og að skipulagsyfirvöld í Snæfellsbæ hafi verið velviljug í skipulagsmálum þegar þeim hafi þótt ástæða til. Það hafi t.d. ekki tekið langan tíma að leysa lóðavanda vegna vatnsverksmiðju númer tvö sem reist hafi verið á síðari hluta árs 2011. Þá hafi ekki þótti tiltökumál að koma fyrir fiskþurrkunarfyrirtæki á áðurnefndu iðnaðarsvæði sem rúmar ekki starfsemi AU og TS og árið 2005 hafi fyrirtæki verið veitt leyfi til að setja upp steypustöð á Breiðinni. Þá er nefnt að samskonar rekstur og félögin stundi sé til staðar í Snæfellsbæ, en sú starfsemi fari fram á Rifi, í næsta nágrenni við fiskvinnslufyrirtæki og höfnina. Er bent á að á þeirri lóð sé geymt efni til steypugerðar í stórum haug en engin merki eru um að það hafi valdið vandræðum og hafi starfsemin verið þar um margra ára skeið. Jafnframt segir í kæru að í Grundarfirði reki AU steypustöð í útjaðri bæjarins, en iðnaðarhverfi hafi verið byggt utan um hana.

Þá er ítrekað í kæru AU og TS að Snæfellsbær hafi haft lausar lóðar á skipulagi, sem hefðu getað nýst starfsemi þeirra þannig að röksemdir sveitarfélagsins, um að engar lóðir hafi verið til, standist ekki. Þá lúti skilgreining sveitarfélagsins um að starfsemi félaganna teljist grófur iðnaður huglægu mati sem sett sé fram eftir á og sýni frekar vilja til að standa gegn úthlutun lóða heldur en að gæta jafnræðis í stjórnsýslunni.

IV.      Málsástæður Snæfellsbæjar

Í umsögn sinni gerir Snæfellsbær grein fyrir því ferli sem unnið er eftir við úthlutun lóða í sveitarfélaginu, þ.e. að aðilar sæki um lóð til umhverfis- og skipulagsnefndar sem taki síðan ákvörðun um úthlutun lóðar. Ef sú starfsemi sem óskað er eftir lóð undir, uppfylli þær kröfur sem komi fram í aðal- og deiliskipulagi þá fái viðkomandi umsækjandi úthlutað lóð.

Í umsögn Snæfellsbæjar kemur fram að þegar AU hafi sótt um lóð til að ,,lagera“ efni til steypugerðar á árinu 2011 hafi slík lóð ekki verið á aðal- eða deiliskipulagi hjá sveitarfélaginu og af þeirri ástæðu hafi umsókninni verið hafnað. Þá hafi sveitarfélagið hafnað umsókn TS um lóð undir starfsemi félagsins á sömu forsendum, þ.e. lóð undir ,,grófan“ iðnað hafi hvorki verið á aðal- eða deiliskipulagi og þar af leiðandi ekki unnt að verða við beiðninni.

Bendir Snæfellsbær á í þessu sambandi að sveitarfélagið geti hvorki né megi úthluta lóðum nema samkvæmt skipulagi og til þess að verða við beiðni AU og TS um úthlutun lóða  þyrfti að taka upp aðalskipulag sveitarfélagsins og í framhaldi af því deiliskipuleggja umrætt svæði. Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hafði hvorki á þeim tíma sem umsóknirnr komu fram, né nú, tekið ákvörðun um að taka upp aðalskipulagið. Sveitarfélagið ítrekar þá afstöðu sína að því beri samkvæmt lögum að fara eftir gildandi skipulagi og því geti það ekki úthlutað lóð undir starfsemi steypustöðvar þar sem slík lóð sé ekki til staðar samkvæmt því.

Snæfellsbær bendir á í umsögn sinni að sækist fyrirtæki eftir því að fá lóðir í sveitarfélaginu sem ekki séu til á skipulagi sé það bæjarstjórnar að ákveða hvort farið verði í þá vinnu að taka upp skipulagið eða ekki. Það sé ekki eðlilegt að hver sem er geti krafist þess af sveitarfélaginu að það búi til lóð fyrir starfsemi viðkomandi ef hún sé ekki á skipulagi. Jafnframt bendir Snæfellsbær á að AU og TS hafi ekki óskað eftir breytingu á skipulagi og því hafi engin stjórnsýsluákvörðun verið tekin hvað það varðar. Kæran snúist því ekki um slíka synjun heldur einungis umsókn um tiltekna lóð sem ekki sé heimilt að samþykkja af þeim ástæðum sem þegar hafi verið gerð grein fyrir.

Snæfellsbær bendir á í umsögn sinni að ef umsókn bærist um slíka meiriháttar breytingu á skipulagi þá sé hugsanlegt að umsækjanda yrði gert að greiða þann kostnað sem af slíkri skipulagsvinnu hlytist en fordæmi séu fyrir slíku. Snæfellsbær tekur fram að ekki sé sjálfgefið að fallist yrði á slíka breytingu á skipulagi. Hafa þurfi í huga að það sé skylda þeirra sem fara með stjórn sveitarfélaga að gæta hagsmuna þeirra bæði hvað varði nýtingu þeirra eigna sem eru í eigu sveitarfélagins og eins að gæta þess að fara vel með þá fjármuni sem sveitarfélagið hafi til ráðstöfunar til skipulagsmála og annarra mála. Á sama tíma beri sveitarfélagið skyldur skv. 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hvað varði markmið þeirra laga, sem m.a. felist í hagkvæmri nýtingu lands auk þess sem stuðla beri að því að að þarfir íbúa séu uppfylltar. Þá sé eðli skipulagsmála með þeim hætti að taka þurfi tillit til víðtækra hagsmuna og að horfa til langrar framtíðar og því sé ekki hægt að rjúka til og sinna óskum og umsóknum sem ekki rúmist í gildandi skipulagi heldur þarfnist slíkar umsóknir og óskir ítarlegrar skoðunar. Jafnframt bendir Snæfellsbær á að breytingar á skipulagi séu ekki einungis í höndum sveitarstjórna heldur koma önnur stjórnvöld þar jafnframt að, eins og Skipulagsstofnun og umhverfis- og auðlindaráðherra og ráðist endanleg niðurstaða skipulagsmála af þeirri meðferð sem mál fái hjá þessum aðilum á ýmsum stjórnsýslustigum. Komi upp ágreiningur vegna skipulagsmála þá falli þau mál undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið og eftir atvikum úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Varðandi úthlutun á lóð undir vatnsverksmiðju þá tekur Snæfellsbær fram að á Rifi séu til iðnaðarlóðir og hafi verið sótt um eina af þeim lóðum undir vatnsverksmiðjuna. Ekki hafi þurft að fara í neinar breytingar á aðal- eða deiliskipulagi og því hafi verið eðlilegt að verða við beiðni um úthlutun. Þá bendir Snæfellsbær á að hvað varði úthlutun á lóð undir fiskþurrkunarfyrirtæki, þá hafi húsnæði í eigu fyrirtækisins brunnið og byggja hafi þurft nýtt húsnæði frá grunni, en fyrirtækið sé með þeim stærri í sveitarfélaginu. Rétt fyrir brunann hafi verið unnið snjóflóðahættumat fyrir Ólafsvík og hafi umrætt hús verið á snjóflóðahættusvæði og því óheimilt að byggja nýtt hús á sama stað. Eftir samningaviðræður milli eigenda hússins og Snæfellsbæjar hafi það orðið niðurstaðan að Snæfellsbær skipti á þeirri lóð sem hið brunna hús stóð á og nýrri lóð, en nauðsynlegt hafi verið að fara í skipulagsbreytingar vegna þess. Telur Snæfellsbær að flestir skilji þá ákvörðun sveitarfélagsins.

Þá hafnar Snæfellsbær þeirri fullyrðingu AU og TS að fyrirtæki hafi verið leyft að setja upp steypistöð upp á Breið. Samþykkt hafi verið að veita viðkomandi leyfi til að steypa þar einingar, en engar byggingar, efnishaugar eða neitt slíkt hafi verið sett þar upp, einungis mót sem steypt hafi verið í. Loks tekur sveitarfélagið fram að það sé rétt sem fram komi í kæru að á Rifi sé rekin steypustöð sem sé í nágrenni við aðra starfsemi þar. Hins vegar sé þess að geta að steypustöðin hafi til margra ára staðið ein í Rifinu en iðnaðarbyggðin hafi smám saman færst nær steypustöðinni sem sé til baga. Því er það ekki rétt að steypustöðin hafi ekki valdið neinum vandræðum því sveitarfélagið hafi einmitt farið fram á það við eigenda steypustöðvarinnar að hann hafi lágmarksefni við stöðina. Hann hafi brugðist vel við þessum tilmælum og leitast við að hafa sem minnstan lager við húsið en í þess stað geymt efnishaug sinn á námusvæðinu á Harðakambi og sótt þangað efni eftir því sem þurft hafi.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

1.         Í máli þessu tekur ágreiningur aðila til þess hvort ákvarðanir umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar, dags. 30. ágúst 2011, um að synja AU og TS um úthlutun lóða í sveitarfélaginu hafi verið í samræmi við lög.

Ráðuneytið telur í upphafi rétt að gera grein fyrir því að úthlutun lóða taldist ekki til verkefna sem sveitarfélögum var skylt að sinna skv. 1. mgr. 7. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, né telst það til slíkra verkefna skv.  1. mgr. 7. gr. núgildandi sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Eru í reynd eru engin lagaákvæði fyrir hendi sem með beinum hætti fjalla um framkvæmd lóðaúthlutanir sveitarfélaga. Verður þó að telja með vísan til venju og eðlis máls að sveitarfélögum sé heimilt að úthluta lóðum líkt og þeim er heimilt að taka ákvarðanir um aðra fjárhagslega hagsmuni sína enda algengt að sveitarfélög afli sér lands með kaupum eða eignarnámi til þess að skipuleggja þar byggð og úthluta síðan byggingarlóðum til leigu til einstaklinga eða lögaðila. Ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum sínum um úthlutun lóða og byggingarréttar komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun sveitarfélags um slíkt efni sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga sem lúti reglum stjórnsýslulaga og eftirliti ráðuneytsins enda ekki um það deilt.

Sveitarfélög hafa um árabil gegnt mikilvægu hlutverki við skipulag þéttbýlissvæða og öflun lands undir byggð í þéttbýli og hafa tekið að sér það hlutverk að sýsla með lóðir. Því verður að telja með vísan til venju og eðlis máls, eins og áður segir, að sveitarfélögum sé heimilt að úthluta byggingarlóðum. Hins vegar verða sveitarfélög í þessu efni sem öðrum að vera meðvituð um að þrátt fyrir að hér sé ekki um lögbundið verkefni sveitarfélaga að ræða, þá lýtur framkvæmd þess engu að síður ákveðnum takmörkunum sem m.a. leiða af almennum grundvallarreglum stjórnsýsluréttar, sjónarmiðum um vandaða stjórnsýsluhætti og svo þeim almennu viðmiðum um hlutverk sveitarfélaga sem m.a. leiðir af ákvæðum sveitarstjórnarlaga.

Ljóst er að Snæfellsbær hefur á grundvelli sjálfstjórnarréttar síns rétt til þess ákveða á hvaða hátt sveitarfélagið kýs að úthluta þeim gæðum er felast í lóðum svo framarlega sem það brjóti ekki í bága við reglur stjórnsýslunnar. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið aflaði við meðferð máls þessa þá hefur Snæfellsbær ekki sett sér reglur um lóðaúthlutanir, en sú óskrifaða regla hefur gilt að sá sem fyrstur sækir um lóð fær henni úthlutað en ekki hefur komið til þess að tveir aðilar hafi sótt um sömu lóð. Ef starfsemi, sem óskað er eftir lóð undir, uppfyllir þær kröfur sem koma fram í aðal- og deiliskipulagi þá fær umsækjandi úthlutað lóð.

2.         Um skipulagsáætlanir, hlutverk þeirra og markmið er fjallað í skipulagslögum nr. 123/2010. Þar segir m.a. í 1. mgr. 28. gr. að aðalskipulag sé skipulagsáætlun fyrir eitt sveitarfélag og skuli taka til alls lands innan marka sveitarfélags. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál. Í 2. mgr. 28. gr. laganna segir svo m.a. að í aðalskipulagi sé lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur, þ.m.t. þéttleika byggðar. Samkvæmt 5. mgr. 28. gr. laganna skal aðalskipulag sett fram í skipulagsgreinargerð og á skipulagsuppdrætti og eftir atvikum á þemauppdráttum. Skipulagsgreinargerð aðalskipulags skal lýsa rökstuddri  stefnu sveitarstjórnar um landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál í sveitarfélaginu ásamt umhverfismat aðalskipulagsins. Skipulagsuppdráttur aðalskipulags skal sýna staðbundnar ákvarðanir um landnotkun, vernd og aðrar takmarkanir á landnotkun og samgöngu- og þjónustukerfi. Er rétt að taka fram að skv. 4. mgr. 28. skipulagslaga skal með aðalskipulagi marka stefnu til a.m.k. 12 ára.

Í 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga segir svo að deiliskipulag sé skipulagsáætlun fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form eftir því sem við á og aðrar skipulagsforsendur sem þurfa að liggja fyrir vegna byggingar- og framkvæmdaleyfa. Samkvæmt 3. mgr. 37. gr. skal við gerð deiliskipulags byggt á stefnu aðalskipulags og hún útfærð fyrir viðkomandi svæði eða reit.

Ljóst er samkvæmt framangreindu að með aðalskipulagsáætlun skal sveitarfélag m.a. marka sér stefnu um landnotkun og leyfilega starfsemi á hverju svæði fyrir sig, m.a. með tilgreiningu landnotkunarflokka. Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem í gildi var er atvik þessa máls gerðust, var fjallað um iðnaðarsvæði í kafla 4.7., en þar kom m.a. fram að á iðnaðarsvæðum skyldi fyrst og fremst gera ráð fyrir umfangsmilli iðanaðarstarfsemi eða starfsemi sem talin væri geta haft mengun í för með sér, s.s. verksmiðjum, virkjunum, tengivirkjum, veitustöðvum, skólpdælum- og hreinsistöðvum, birgðastöðvum fyrir olíur og móttökumstöðvum fyrir úrgang. Í ákvæðinu sagði jafnframt að í deiliskipulagi skyldi gera grein fyrir byggingarmagni og nánar skilgreindri landnotkun á einstökum lóðum, bílastæðum og öðru sem þurfa þykir. Í deiliskipulagi skyldi grein gerð fyrir hugsanlegum áhrifum starfsemi á iðnaðarsvæðum á aðra landnotkun, s.s. vegna mengunar.

Ljóst er að hinar kærðu ákvarðanir er teknar voru á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar þann 30. ágúst 2011, um að synja AU og TS um úthlutun lóða grundvölluðust fyrst og fremst á því að ekki væri að finna lausar lóðir í sveitarfélaginu sem skipulagðar væru fyrir þá starfsemi sem fyrirtækin sinna. Þegar litið er til framangreindra ákvæða skipulagslaga verður að telja að umræddar ákvarðanir sveitarfélagsins hafi byggst á lögmætum sjónarmiðum enda ljóst að ekki hafði í skipulagsáætlunum þess verið mörkuð stefna um frekari starfsemi af því tagi sem UA og TS stunda. Gildir þar einu hvort til staðar voru lausar lóðir á iðnaðarsvæði skv. gildandi aðalskipulagi, enda telur ráðuneytið ljóst að ekki hafði verið mörkuð nánari stefna um nýtingu þeirra með gerð deiliskipulags. Verður þannig ekki talið að sveitarfélögum beri skylda til að úthluta lóðum til starfsemi sem ekki er gert ráð fyrir eða mörkuð stefna um í skipulagsáætlunum þess. Hefur ráðuneytið þá ekki síst í huga að á meðal markmiða skipulagslaga, sbr. 1. gr. laganna, er að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þá bendir ráðuneytið jafnframt á að í ákveðnum tilvikum kunna skipulagsáætlanir, þ.m.t. deiliskipulagsáætlanir, að vera háðar ákvæðum laga um umhverfismat áætlana nr. 106/2000.

3.         Þá er því haldið fram í kæru að sveitarfélagið hafi úthlutað iðnaðarlóðum á umliðnum árum en umsókn AU og TS hafi hins vegar verið synjað. Er bent á í því sambandi að fiskþurrkunarfyrirtæki hafi verið komið fyrir á fyrrgreindu iðnaðarsvæði og árið 2011 hafi verið reist vatnsverksmiðja í sveitarfélaginu auk þess sem fyrirtæki verið veitt leyfi árið 2005 til að setja upp steypustöð á Breiðinni (Ólafsvík). Þá er nefnt að steypustöð sé á Rifi í næsta nágrenni við fiskvinnslufyrirtæki og höfnina. Þar sé geymt efni til steypugerðar í stórum haug en engin merki séu um að það hafi valdið vandræðum og hafi starfsemin verið þarna um margra ára skeið. Á grundvelli framangreinds telur ráðuneytið rétt að taka til skoðunar hvort sveitarfélagið hafi með synjun sinni brotið þá reglu jafnræðis sem stjórnvaldi ber að fara eftir í störfum sínum.

Jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins felur í sér að stjórnvöldum er skylt að gæta jafnræðis milli borgaranna. Í hinni skráðu jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga er þetta orðað svo að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta jafnræðis og samræmis í lagalegu tilliti. Jafnræðisreglan leiðir til þess að úr sambærilegum málum skuli leysa á grundvelli sömu sjónarmiða og með sömu áherslum þannig fæst sambærileg niðurstaða og samræmis í stjórnsýslunni er gætt.  

Snæfellsbær hefur í bréfi sínu til ráðuneytisins, dags. 10. september 2011, gert grein fyrir þeim ástæðum sem lágu til grundvallar því að framangreindir aðilar fengu lóðir eða heimild til tiltekinnar starfsemi á lóðunum. Er þar jafnframt gerð grein fyrir því að í þeim tilvikum hafi starfsemi verið í samræmi við skipulagsáætlanir, eða viðeigandi breytingar á skipulagsáætlunum verið gerðar. Telur ráðuneytið að ekki sé um sambærileg tilvik að ræða og í því máli sem hér um ræðir og því sé ekki um það að ræða að sveitarfélagið hafi brotið jafnfræðisreglu stjórnsýsluréttar.

Með vísan til alls framangreinds er kröfu AU og TS um ógildu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur dregist að kveða upp úrskurð í málinu og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Hafnað er kröfu Almennu umhverfisþjónustunnar ehf., kt. xxxxxx-xxxx og Tómrar steypu ehf. kt. xxxxxx-xxxx, um að fella úr gildi ákvarðanir  umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar, dags. 30. ágúst 2011, um að synja félögunum um úthlutun lóða.

 

Fyrir hönd ráðherra

 

Bryndís Helgadóttir                                                                       Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta