Þórshafnarhreppur - Álagning fasteignaskatts á veiðihús
Veiðifélag Hafralónsár 12. júní 1998 98060021
Marinó Jóhannsson 1110
Tunguseli
681 Þórshöfn
Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 3. maí 1997, sem barst ráðuneytinu í júní 1998, varðandi álagningu fasteignaskatts á veiðihús í Þórshafnarhreppi. Fyrst skal upplýst að skjalasafn ráðuneytisins ber ekki með sér að erindi þetta hafi borist ráðuneytinu fyrr.
Álagning fasteignaskatta hjá sveitarfélögum fer eftir II. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Í 3. mgr. 4. gr. þeirra laga er svohljóðandi ákvæði:
“Verði ágreiningur um gjaldstofn skv. 3. gr. skal vísa honum til úrskurðar Fasteignamats ríkisins. Þeim úrskurði má skjóta til yfirfasteignamatsnefndar ríkisins. Verði ágreiningur um gjaldskyldu sker yfirfasteignamatsnefnd úr. Úrskurðum nefndarinnar má skjóta til dómstóla.“
Skýrt er því samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga að ekki er gert ráð fyrir afskiptum félagsmálaráðuneytisins af ágreiningi varðandi gjaldstofn eða gjaldskyldu fasteignaskatts. Ágreiningi yðar við Þórshafnarhrepps um gjaldskyldu ber því að beina til yfirfasteignamatsnefndar.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)