Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. SRN20050028

Ár 2020, þann 29. október, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN20050028

Kæra X

á ákvörðun

sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 7. maí 2020 barst ráðuneytinu kæra X (hér eftir kærendur), á ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu (hér eftir nefndur sýslumaður) frá 18. febrúar 2020 um synja beiðni þeirra um að veita þeim auka stæðiskort fyrir hreyfihamlaða vegna sonar þeirra, X (hér eftir barnið). Krefjast kærendur þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Málavextir eru þeir að kærendur er foreldar hreyfihamlaðs barns sem er fæddur árið 2016. Hafa kærendur fengið eitt stæðiskort samþykkt til afnota fyrir barnið. Hins vegar var þeim synjað um að fá tvö stæðiskort þar sem niðurstaða sýslumanns var sú að stæðiskort fylgdu einstaklingum. Gæti hver korthafi því aðeins fengið eitt kort.

Ákvörðun sýslumanns var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi kærenda mótteknu 7. maí 2020.

Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 8. maí 2020 var sýslumanni gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi sýslumanns mótteknu 29. maí 2020.

Með tölvubréfi ráðuneytisins dags. 29. maí 2020 var kærendum kynnt umsögn sýslumanns og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu  með tölvubréfi kærenda mótteknu 2. júní 2020.

 

III.      Málsástæður og rök kærenda

Í kæru kemur fram að kærendur telji ekki lagaheimild fyrir hendi þannig að synja megi þeim um tvö stæðiskort fyrir barnið. Benda kærendur á að hvorki sé fjallað um takmörkun á fjölda stæðiskorta sem fatlaður einstaklingur á rétt á í reglugerð um útgáfu og notkun stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða nr. 1130/2016 né í 87. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Þá sé slíkt heldur ekki að finna í verkalagsreglum sýslumanns sem unnar hafi verið í samráði við embætti landlæknis á grundvelli 5. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1130/2016. Greina kærendur frá því að þau hafi óskað eftir auka stæðiskorti til að geta lagt bifreið í P-merkt stæði við leikskóla barnsins. Telji þau þörf á slíku þegar um er að ræða barn og foreldrar leiti leiða til að sinna barninu til jafns. Þá kemur fram að annað foreldra fari að jafnaði með barnið á leikskóla og hitt sæki þá barnið. Ef kærendur séu einungis með eitt stæðiskort þurfi þau að hittast þegar annar aðilinn hafi farið með barnið í leikskólann svo hinn aðilinn geti nýtt sér stæðiskortið þegar barnið er sótt síðar sama dag. Hin leiðin væri að fara með stæðiskortið inn með barninu við komu á leikskólann en þá myndi bíllinn standa án kortsins á meðan farið væri inn með barnið. Þá myndi hitt foreldrið leggja í P-stæðið þegar barnið væri sótt, fara inn og ná í stæðiskortið, fara með það út í bíl og síðan ná í barnið. Myndu þá bílarnir alltaf standa einhvern tíma án P-merkis og þannig ólöglega lagt í stæðið. Hljóti tilgangur stæðiskorts að vera að auðvelda fötluðum einstaklingum og fjölskyldum þeirra lífið en ekki vera til þess að flækja það. Telja kærendur þennan rétt mjög mikilvægan þar sem ekki sé einungis þörf á stæðiskorti þegar þau fara með barnið í og úr leikskóla heldur fari barnið einnig á leikskólatíma í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun með foreldrum. Það geti ekki staðist að kærendur þurfi að færa stæðiskortið á milli eftir því hvort þeirra fari með barninu í þessar þjálfanir yfir daginn, til þess eins að koma stæðiskortinu til hins aðilans sem sækja muni barnið síðar sama dag. Ekki sé vitað hver séu rökin fyrir því að fatlað barn geti aðeins fengið eitt stæðiskort til umráða en gera megi ráð fyrir að með því sé reynt að koma í veg fyrri misnotkun. Benda kærendur á að foreldrar sem eiga rétt á stæðiskorti fyrir fatlað barn séu ekki að notfæra sér slíkt enda hafi þeir reynslu af notkun slíkra stæða og geri sér grein fyrir mikilvægi þeirra.

Í andmælum kærenda kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna skuli það ávallt hafa forgang sem sé barni fyrir bestu. Þá skuli aðildarríkin skuldbinda sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefjist. Þá komi fram í 23. gr. sáttmálans að aðildarríki skuli viðurkenna að andlega og líkamlega fatlað barn skuli njóta fulls og sómasamlegs líf við aðstæður sem tryggi virðingu þess og stuðli að sjálfsbjörg þess og virkri þátttöku í samfélaginu. Þá skuli aðildarríki viðurkenna rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar. Með vísan til þessa telji kærendur að sú almenna regla að stæðiskort fylgi einstaklingi eigi ekki við þegar um er að ræða þriggja ára barn. Telja kærendur rétt að í verklagsreglum um stæðiskort sé fjallað sérstaklega um slík kort fyrir hreyfihömluð börn og þar kveðið á um heimild sýslumanns til að gefa út tvö stæðiskort þegar þess er óskað. Gera verði kröfu um að tilgangur stæðiskorta sé skoðaður og hvernig þau eigi að nýtast þeim sem á þurfa að halda. Þá benda kærendur á að þrátt fyrir að játa megi óhagræði af framangreindum reglum um eitt stæðiskort sé ekki að finna önnur rök en að orðalag ákvæðisins gefi slíkt í skyn. Sé þar ekki tekið tillit til tilgangs kortanna og þeirra hagsmuna sem búi að baki þeirra.

 

IV.      Ákvörðun og umsögn sýslumanns

Af hálfu sýslumanns er vísað til þess að stæðiskort fylgi einstaklingum en ekki bifreiðum. Því geti korthafi aðeins fengið eitt kort. Vísar sýslumaður til þess að í 87. gr. umferðarlaga sé að finna ákvæði um stæðiskort fyrir hreyfihamlaða. Í reglugerð um útgáfu og notkun stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða nr. 1130/2016 sé að finna nánari útfærslu um stæðiskort. Sé reglugerðin sett í tíð eldri umferðarlaga. Í 2. gr. reglugerðarinnar komi fram að sýslumaður skuli í samráði við landlæknisembættið gefa út verklagsreglur um umsókn og útgáfu stæðiskorta samkvæmt reglugerðinni og hafi það verið gert. Tekur sýslumaður fram að almennt orðalaga 87. gr. umferðarlaga og reglugerðarinnar geri ráð fyrir að stæðiskort séu gefin út á tiltekinn einstakling. Hafi framkvæmd sýslumanns því verið með þeim hætti að gefa aðeins út eitt kort á einstakling sem fylgi honum en ekki fleiri sem fylgi tilteknum bifreiðum.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er ákvörðun sýslumanns um synja beiðni kærenda um að veita þeim auka stæðiskort fyrir hreyfihamlað fólk vegna sonar þeirra. Vísa kærendur til þess að umtalsvert hagræði hljótist af því að vera með tvö stæðiskort fyrir barnið og hafa sjónarmið þeirra verið rakin hér að framan. Sýslumaður vísar hins vegar til þess að samkvæmt 87. gr. umferðarlaga og reglugerð nr. 1130/2016 sé gert ráð fyrir því að stæðiskort séu gefin út á tiltekinn einstakling. Hafi framkvæmdin verið sú að gefa aðeins út eitt kort á einstakling sem fylgi honum en ekki fleiri sem fylgi tilteknum bifreiðum.

Í 87. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 er að finna ákvæði um stæðiskort fyrir hreyfihamlaða og hvernig þau skuli nýtt. Nánari ákvæði er síðan að finna í reglugerð um útgáfu og notkun stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða nr. 1130/2016 sem sett var í tíð eldri umferðarlaga. Í 2. gr. þeirrar reglugerðar kemur fram að sýslumaður skuli í samráði við landlæknisembættið gefa út verklagsreglur um umsókn og útgáfu stæðiskorts samkvæmt reglugerðinni. Á grundvelli ákvæðisins hafa slíkar verklagsreglur verið gefnar út.

Ráðuneytið tekur fram að það telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við það mat sýslumanns að almennt séð beri að líta svo á samkvæmt orðalagi 87. gr. umferðarlaga og reglugerðar nr. 1130/2016 sé aðeins ráð fyrir því gert að stæðiskort skuli gefinn út á tiltekinn einstakling. Sé sýslumanni þannig almennt rétt að gefa aðeins út eitt kort fyrir hvern þann einstakling sem á rétt á stæðiskorti enda fylgi kortið einstaklingnum. Gildi slíkt því almennt um þá sem sjálfir hafa ökuréttindi. Hins vegar verður ekki framhjá því litið að hvorki í 87. gr. umferðarlaga né í reglugerð nr. 1130/2016 er kveðið sérstaklega á um slíkt fyrirkomulag þannig að um sé að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði. Þá er slík skilyrði heldur ekki að finna í verklagsreglum sýslumanns vegna umsóknar og útgáfu stæðiskorts.

Ráðuneytið tekur fram að í því máli sem hér er til umfjöllunar er um að ráða ólögráða barn á leikskólaaldri sem á rétt á stæðiskorti. Er það mat ráðuneytisins að kærendur hafi fært fram fullnægjandi rök fyrir því hagræði sem barnið myndi hljóta af því að hafa til umráða tvö stæðiskort, sbr. þau sjónarmið sem rakin hafa verið af hálfu kærenda hér að framan. Þar sem ekki er kveðið á um það með afdráttarlausum hætti í 87. gr. umferðarlaga eða reglugerð nr. 1130/2016 að aðeins sé heimilt að gefa út eitt stæðiskort fyrir hvern einstakling, og með hagsmuni hins ólögráða barns að leiðarljósi, er það mat ráðuneytisins að fallast beri á beiðni kærenda um að fá útgefin tvö stæðiskort fyrir barnið. Telur ráðuneytið rétt að taka fram að slíkt geti þó aðeins komið til álita þegar svo stendur á sem í máli þessu og hagsmunir barnsins mæla með því. Er þá til þess að líta að ekki er heimilt að leggja í svo nefnd P-stæði nema hafa til umráða tilgreind stæðiskort fyrir hreyfihamlaða.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið telur ráðuneytið því rétt að verða við kröfum kærenda og fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir sýslumann að gefa út auka stæðiskort fyrir barnið.

 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi á ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 18. febrúar 2020 um synja beiðni X um að veita þeim auka stæðiskort fyrir son þeirra.  Lagt er fyrir sýslumann að gefa út auka stæðiskort fyrir barnið.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta