Vestmannaeyjabær - Hæfi skoðunarmanna ársreikninga
Oddur Júlíusson 5. apríl 1999 99020063
Brekastíg 7 B 1001
900 Vestmannaeyjar
Ráðuneytið vísar til erindis yðar dags. 11. febrúar 1999, þar sem þér óskið álits ráðuneytisins á því hvort það fari í bága við lög að skoðunarmenn ársreikninga sveitarfélags eigi jafnframt sæti í veigamiklum stjórnum eða ráðum, svo sem í stjórn bæjarveitna eða sparisjóðs. Ekki kemur berum orðum fram í erindinu að spurningin varði skoðunarmenn ársreikninga Vestmannaeyjabæjar, en ráðuneytið gerir engu að síður ráð fyrir að svo sé.
Í upphafi er rétt að taka fram að gera verður greinarmun á þeim stofnunum sem þér nefnið. Sparisjóðir eru reknir á grundvelli laga um viðskiptabanka og sparisjóði nr. 113/1996. Verður ekki séð að ársuppgjör sjóðanna tengist reikningsskilum sveitarfélaga á annan hátt en þann að í ársreikningi sveitarfélags verði gerð grein fyrir eign og hugsanlegum arði sem sveitarfélag kann að fá í sinn hlut sem einn af sjóðsfélögum. Þar af leiðir að seta skoðunarmanns ársreikninga sveitarsjóðs í stjórn sparisjóðs getur ekki valdið vanhæfi hans sem skoðunarmanns.
Um uppgjör stofnana sveitarfélaga, þar á meðal veitustofnana er hins vegar fjallað í b-lið 60. gr. og 1. mgr. 67. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Þar er gert ráð fyrir að í reikningsskilum sveitarfélags sé gerð sérstök grein fyrir fjárhag þeirra stofnana sem að hálfu eða meiri hluta eru í eigu sveitarfélaga og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Skal jafnframt semja samstæðureikning fyrir sveitarfélagið, þ.e. sveitarsjóð, stofnanir þess og fyrirtæki með sjálfstætt reikningshald.
Um kjör skoðunarmanna er fjallað í 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga. Ákvæðið er svohljóðandi:
"Á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar skal hún kjósa tvo skoðunarmenn og jafnmarga til vara til loka kjörtímabils sveitarstjórnar. Skoðunarmenn skulu hafa kosningarrétt og kjörgengi í hlutaðeigandi sveitarfélagi. Aðal- og varamenn í sveitarstjórn og starfsmenn sveitarfélagsins eru eigi kjörgengir sem skoðunarmenn hjá sveitarfélaginu."
Ákvæði þetta útilokar ekki berum orðum stjórnarmenn veitustofnana eða annarra stofnana sveitarfélags frá kjöri sem skoðunarmenn ársreikninga. Ekki er í VI. kafla laganna að finna önnur ákvæði er varða sérstök hæfisskilyrði skoðunarmanna.
Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá Vestmannaeyjabæ er Arnar Sigurmundsson kjörinn skoðunarmaður ársreikninga sveitarfélagsins og er hann jafnframt í stjórn Bæjarveitna. Þegar ákvörðun var tekin um að Arnar yrði skoðunarmaður ársreikninga lá fyrir að hann yrði aðalmaður í stjórn Bæjarveitna. Báðir aðilar gerðu sér grein fyrir því að þetta gæti skarast og því var gert samkomulag um að varamaður Arnars, Gísli Geir Guðlaugsson, skyldi endurskoða ársreikninga Bæjarveitna.
Almennt telur ráðuneytið að þegar virt er hið mikilvæga hlutverk sem skoðunarmönnum er falið samkvæmt 69. gr. laganna og sú ábyrgð sem stjórnarmönnum Bæjarveitna er lögð á herðar samkvæmt 62. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 196/1988, með síðari breytingum, geti það ekki samrýmst þeim sérstöku hæfiskröfum sem gera verður til skoðunarmanna að þeir skoði ársreikninga Bæjarveitna og eigi jafnframt sæti í stjórn fyrirtækisins. Ljóst er því að Arnar Sigurmundsson er vanhæfur til að vera skoðunarmaður ársreikninga Bæjarveitna. Eins og áður segir var gert samkomulag um að varaskoðunarmaður skoði ársreikninga Bæjarveitna og er það því ekki hluti af verksviði Arnars sem skoðunarmaður ársreikninga sveitarfélagsins. Í ljósi þess telur ráðuneytið ekki tilefni til að gera athugasemdir við kjör Arnars sem skoðunarmanns ársreikninga Vestmannaeyjabæjar.
F. h. r.
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Sesselja Árnadóttir (sign.)
Afrit: Vestmannaeyjabær.