Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Reykjanesbær - Ákvarðanir bæjarstjórnar varðandi byggingu fjölnota íþróttahúss

J-listinn, Reykjanesbæ                                                      13. júlí 1999                                                                  99030040

Jóhann Geirdal, bæjarfulltrúi                                                                                                                                            1001

Eyjavöllum 5

230 Keflavík

 

 

 

          Með erindi, dagsettu 13. mars 1999, óskuðu bæjarfulltrúar J-listans í Reykjanesbæ þeir Jóhann Geirdal, Kristmundur Ásmundsson, Kristján G. Gunnarsson og Ólafur Thordersen eftir að félagsmálaráðuneytið úrskurðaði um „hvort rétt hafi verið staðið að málum“ er bæjarstjórn Reykjanesbæjar tók ákvörðun um „fjölnota íþróttahús“ í sveitarfélaginu.

 

          Erindið var sent til umsagnar meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar með bréfi, dagsettu 23. mars 1999.  Umsögn barst ráðuneytinu með bréfi, dagsettu 1. júní 1999.

 

I.        Málavextir.

 

          Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar hinn 2. mars 1999 var til umfjöllunar bygging fjölnota íþróttahús. Var eftirfarandi tillaga frá bæjarráði samþykkt með sex atkvæðum meirihlutans:  „Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkir að taka frávikstilboði 3 frá Verkafli hf. í fjölnota íþróttahús í Reykjanesbæ með þeim breytingum sem skýringarviðræður við fyrirtækið hafa leitt til, sbr. 14. mál bæjarráðs frá 17. febrúar 1999.“  Jafnframt samþykkti bæjarstjórnin með sex atkvæðum meirihlutans drög að leigusamningi milli Reykjanesbæjar og Verkafls hf. frá 23. febrúar 1999.  J-listinn (minnihluti bæjarstjórnar) tók ekki þátt í atkvæðagreiðslu, vísaði í bókun sína um málið og vék af fundi á meðan.  Um leigusamninginn segir meðal annars svo í fundargerð:

          „Leiguupphæðin er tilgreind í samningnum kr. 2.250.000,- á mánuði og tekur breytingum í samræmi við neysluvísitölu miðað við stöðu hennar í október 1998.  Leigutími hefst við afhendingu hins leigða, sem er eigi síðar en 18. febrúar 2000.  Fyrsta greiðsla fer þó fram með þeim hætti að við afhendingu hins leigða skal greitt hlutfallslegt leigugjald fyrir þá daga sem eftir eru af þeim mánuði sem hið leigða er afhent í.  Leigan er tímabundin til 35 ára frá þeim tíma að telja.  Hvað önnur ákvæði varðar er vísað í leigusamninginn.

          Bæjarráð samþykkir að greiða Verkafli hf. sérstaklega vegna fjármagnskostnaðar á byggingartíma hins leigða sbr. grein 4:3 í leigusamningnum dags. 23. febrúar 1999.  Greiðsla þessi kemur í stað sérákvæðis í frávikstilboði 3, liðs 5, þar sem ekki er um verðbættar greiðslur til leigusala á byggingartíma að ræða.  Upphæðin er samtals kr. 7.350.000,-, og er lagt til að þeim hluta sem kemur til greiðslu á árinu 1999 samtals kr. 4.900.000,-, sé vísað í endurskoðun fjárhagsáætlunar fyrir árið 1999.“

 

II.      Málsástæður kæranda.

 

          Í erindinu er óskað eftir að ráðuneytið úrskurði um „hvort rétt hafi verið staðið að málum sbr. þau lög og reglugerðir“ sem ákvörðunina varðar. Í erindinu segir meðal annars svo:

„1.     Þegar ákvörðunin var tekin lá einungis frammi leigusamningur, sem felur í sér margvíslegan kostnað sem mun falla á bæjarsjóð umfram þá leigugreiðslu sem um er fjallað í samningnum.  Bendum við einkum á greinar í kafla 6 þ.e. gr 6.1, 6.2, 6.3 og 6.4.  Þá bendum við jafnframt á að engar rekstraráætlanir lágu fyrir á fundinum um rekstur hússins.  Það sem við viljum sérstaklega vekja athygli á er að enn hefur ekki verið gerð framkvæmdaáætlun til 3ja ára, ekki er gert ráð fyrir greiðslum vegna þessa máls í fjárhagsáætlun, en við samþykkt meirihlutans í bæjarráði var fjármögnun vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.  Þó 65. gr. sveitarstjórnarlaga taki ekki beint á leigusamningum er rétt að benda á að með þessari ákvörðun er verið að festa fé bæjarins aðeins vegna leigunnar, sem nemur 27 milljónum á ári næstu 35 ár, óuppsegjanlega.  Bærinn eignast ekkert í húsinu á samningstímanum.

          ...

3.       Þá viljum við jafnframt benda á að það að byggja hús á lóð bæjarins í þeim tilgangi að leigja bænum næstu 35 árin hefur aldrei verið boðið út.  Hér er um samning sem nemur 945.000.000 í leigugreiðslum auk niðurfellingar margvíslegra gjalda, jafnt á byggingar- og leigutímanum að ræða.  Það útboð sem fram fór var um byggingu og rekstur fjölnota íþróttahúss sem yrði svo selt bænum að sjö árum liðnum og skyldi bærinn þá endurgreiða húsið á 15 árum.  Í útboðinu var skýrt tekið fram að öll gjöld ætti byggingaraðili að greiða og að bærinn tæki á leigu allt að 60% þess tíma sem til ráðstöfunar yrðu í húsinu, þau sjö ár sem byggingaraðili annaðist reksturinn.  Jafnframt var það byggingaraðilans að afla húsinu viðbótartekna m.a. með tónleikahaldi, sýningum o.fl.  Þessi ákvæði fældu ýmsa aðila sem eru einungis í byggingarstarfsemi frá því að taka þátt í þessu útboði, enda, eins og einn orðaði það „byggingar eru okkar fag, við kunnum ekkert að reka íþróttahús“.  Nú stendur hins vegar til að bærinn annist alfarið allan rekstur hússins og taki þar með alla áhættu á rekstri þess.  Við óskum eftir því við ráðuneytið að það láti í ljós álit sitt á því hvort hér hafi verið rétt að málum staðið, hvort ekki hefði verið rétt að bjóða verkið út að nýju.“

 

III.     Málsástæður kærða.

 

          Um málsástæður kæranda segir meðal annars svo í umsögn meirihluta bæjarstjórnarinnar:

          „1.

          Eftir því sem næst verður komist gera kærendur einkum athugasemd undir þessum lið við það að ekki skuli enn hafa verið gerð framkvæmdaáætlun til þriggja ára og ekki gert ráð fyrir greiðslum vegna málsins í fjárhagsáætlun bæjarins og því hafi ekki verið forsendur til að taka ákvörðun í málinu.

          Bæjaryfirvöld hafa ávallt kappkostað að vanda til fjárhags- og framkvæmdaáætlana enda þær ákaflega mikilvægt stjórntæki og jafnframt mjög upplýsandi um áform bæjarstjórnar á hverjum tíma í nánustu framtíð.  Hins vegar er það deginum ljósara að mati meirihlutans að áætlanir sem þessar geti ekki bundið hendur ráðandi meirihluta við ákvarðanatöku í máli sem þessu einungis vegna þess að þær eru til og ráðgera ákveðna forgangsröðun í bæjarfélaginu.  Það breytir þó ekki því að meirihlutinn telur sér bæði rétt og skylt að horfa til fyrirliggjandi fjárhags- og framkvæmdaáætlana bæjarfélagsins við ákvarðanatöku sem þessa og var það að sjálfsögðu gert nú sem endranær.  Í kjölfar ákvörðunar var því rétt að endurskoða fjárhags- og framkvæmdaáætlun eins og meirihlutinn lagði til og birta þannig þær forsendur sem til grundvallar ákvörðunini lágu.  Í fjárhagsáætlun fyrir árin 2000-2002 sem nú liggur fyrir er undir lið 0659 gert ráð fyrir að á árinu 2000 skuli greiddar kr. 20.000.000.- vegna fjölnota íþróttahúss, kr. 16.000.000.- árið 2001 og kr. 12.000.000.- árið 2002. ...

          Aðalatriðið er að við ákvörðun sem þessa byggir meirihlutinn auðvitað á heildarfjárhag og afkomu bæjarfélagsins með hliðsjón af þörfum samfélagsins fyrir þá framkvæmd sem um er að tefla.  Á grundvelli mats á þeim þáttum sem og fjölmörgum öðrum er síðan tekin fagleg en jafnframt pólitísk ákvörðun sem undirrituð bera að sjálfsögðu pólitíska ábyrgð á.

          Meirihlutinn hafnar þess vegna alfarið staðhæfingum um að ekki hafi verið horft til framtíðar varðandi kostnað og fjármögnun í málinu og vísa á þau ítarlegu gögn sem fram hafa verið lögð við meðferð málsins því til stuðnings.

          Vegna athugasemda um kostnað bæjarsjóðs af leigu hússins umfram leigugjaldið er rétt að benda á að leigugjaldið sjálft tekur mið af þeim kostnaði sem bæjarsjóður samþykkti að greiða sbr. grein 6.5 í leigusamningi.  Vissulega má til sanns vegar færa að ákvæði í samningnum um skyldur leigutaka varðandi kostnað séu fremur óhefðbundnar.  Ekki verður þó séð að slíkt skipti nokkru máli ef þær skyldur hafa samhliða valdið því að leigugjaldið sjálft hafi lækkað.  Það er þannig að mati meirihlutans útúrsnúningur í málinu að benda ítrekað á þær skyldur sem leigutaki vissulega hefur tekið að sér umfram það sem venjulegt má teljast, án þess að fjalla jafnframt um bein áhrif þessa á leigugjaldið sjálft.  Meirihlutinn leit við ákvörðunina heildstætt á málið og komst að þeirri niðurstöðu að samningurinn væri hagstæður bæjarfélaginu og íbúum þess.  ...

          3.

          Mótmælt er þeirri staðhæfingu kærenda að framkvæmdin að byggingu hússins hafi ekki verið boðin út.

          Í stuttu máli var málið unnið með þeim hætti að í desember 1997 óskaði bæjarstjórn Reykjanesbæjar eftir því að VSÓ ráðgjöf gerði frumáætlun um stofnkostnað og rekstur fjölnota íþróttahúss í bænum enda stefnt að því í málefnasamningi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks dags. 5. júní 1998 að ljúka smíði slíks húss á kjörtímabilinu.  Jafnframt var því stofnaður vinnuhópur á vegum bæjaryfirvalda til þess að vinna að málinu skipaður fulltrúum meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn.

          Í janúar 1998 skilaði VSÓ skýrslu um stofnkostnað og rekstur fjölnota íþróttahúss og voru þar tilteknir þrír valkostir.  Skýrslan var tekin til ítarlegrar umfjöllunar hjá bænum og var ákveðið að vinna áfram að málinu í samræmi við einn kostinn.

          Áhugi vaknaði á því hvort beita mætti svokallaðri einkaframkvæmd við íþróttahúsið.  Því var ákveðið að kanna hvort áhugi væri meðal íslenskra fyrirtækja á þátttöku í slíku verkefni.  VSÓ var falið að framkvæma könnunina og kom í ljós að um 8-9 aðilar lýstu áhuga á verkefninu.  Boðað var til kynningarfundar á þessu skyni í mars 1998.  Í kjölfarið var leitað eftir staðfestingu þessara aðila og kom þá í ljós að þrír verktakar sýndu verkefninu enn áhuga.  Í ljósi þessa var ákveðið að kanna frekar kosti einkaframkvæmdar og var VSÓ falið að gera samanburð á þeim valkostum sem buðust við tilhögun framkvæmda.  Í júní 1998 skilaði ráðgjafarfyrirtækið skýrslu þar sem bornir voru saman tveir kostir annars vegar svokölluð einkaframkvæmd, þar sem verktaki annaðist alfarið byggingu, rekstur og viðhald hússins og leigði Reykjanesbæ tiltekinn hluta þeirra tíma sem til ráðstöfunar voru í húsinu og hins vegar að Reykjanesbær byði út byggingu íþróttahússins, með þeim skilyrðum að leigja það fyrst í 5 ár og kaupa það síðan.  Á leigutímanum myndi verktakinn sjá um reksturinn en að því loknu myndi Reykjanesbær taka við honum.

          Niðurstaða könnunarinnar var að síðari kosturinn reyndist hagkvæmari.

          Á grundvelli áðurnefndrar könnunar um áhuga fyrirtækja til að taka þátt í verkefninu og ofangreinds samanburðar á valkostum, var ákveðið að fara í útboð þar sem leigutíminn var þó ákveðinn 7 ár í stað 5 ára, eins og tiltekið var í skýrslunni.

          Útboðið var lokað og fengu þrír verktakar tækifæri til þess að bjóða í

verkið, Ármannsfell hf., Verkafl hf. og Keflavíkurverktakar sf.

          Tilboð bárust frá tveimur verktakanna, þ.e. Ármannsfelli hf. og Verkafli

hf.  Auk aðaltilboða í verkið, samkvæmt útboðs- og verklýsingu, gerðu

báðir verktakarnir nokkur frávikstilboð.

          Bæjaryfirvöld skipuðu dómnefnd til þess að fara yfir tilboðin og var VSÓ falið að vinna með henni að mati tilboða.  Niðurstaða dómnefndar var að tilboð Verkafls hf. var talið hagstæðara en vegna óhagstæðs verðs var báðum aðaltilboðunum hafnað.  Hins vegar taldi dómnefndin eitt af frávikstilboðunum frá Verkafli hf. það áhugavert að lagt var til að gengið yrði til svokallaðra skýringarviðræðna við fyrirtækið um það.  Þetta var samþykkt af bæjaryfirvöldum og var bæjarstjóra falið að stýra þeim viðræðum og gerði hann grein fyrir niðurstöðum þeirra á bæjarráðsfundi þann 17. febrúar 1999.  Á þeim sama fundi var ákveðið að leggja fram á næsta bæjarráðsfundi drög að samkomulagi við Verkafl hf. þ.e. leigusamning.  Á bæjarráðsfundi þann 24. febrúar samþykkti bæjarráð að hafna báðum aðaltilboðunum og öllum frávikstilboðum öðrum en frávikstilboði 3 frá Verkafli hf.  Á bæjarráðsfundi þann 24. febrúar 1999 samþykkti bæjarráð síðan að taka frávikstilboði Verkafls hf. með þeim breytingum sem skýringarviðræður við fyrirtækið höfðu leitt til.  Jafnframt samþykkti bæjarráð á sama fundi drög að leigusamningi dags. 23. febrúar 1999 á milli Verkafls hf. og bæjarsjóðs Reykjanesbæjar.

          Það er mat meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar að frávikstilboð 3 frá Verkafli hf. hafi uppfyllt öll skilyrði þess að vera gilt tilboð á grundvelli útboðs bæjarins á byggingu fjölnota íþróttahúss og því ekki verið nauðsynlegt að bjóða verkið út aftur.  Bendum við á að í öllu ferlinu hefur bæjarfélagið notið liðsinnis VSÓ ráðgjafar sem telja verður eitt af leiðandi fyrirtækjum í landinu á þessum sviði.  Var það m.a. gert til að tryggja sem best að rétt yrði staðið að undirbúningi og framkvæmd verksins þ.m.t. útboði og samningaviðræðum í kjölfarið.

          Þótt meirihluta bæjarstjórnar sé ljúft og skylt að útskýra gang málsins fyrir ráðuneytinu verður þó ekki komist hjá því að setja fram efasemdir um að félagsmálaráðuneytinu sé ætlað það hlutverk almennt séð að skera úr um útboðsskyldu vegna framkvæmda sveitarfélaga eins og kærendur óska.“

 

IV.     Niðurstaða ráðuneytisins.

 

1.

          Sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, og á eigin ábyrgð, sbr. 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.  Úrskurðarvald félagsmálaráðuneytisins samkvæmt 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga er um „ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna“.  Úrskurðarvaldið nær því yfir formlegu atriðin við töku ákvörðunarinnar, eins og þau birtast í sveitarstjórnarlögum og stjórnsýslulögum, en ekki efnisinnihald, þ.e. atriði sem byggjast á frjálsu mati sveitarstjórnarinnar.

 

          Í 7. gr. laganna er ákvæði um almennar skyldur sveitarfélaga, en 1. mgr. 7. gr. hljóðar svo:  „Skylt er sveitarfélögum að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum.“

 

          Um hlutverk og verksvið sveitarstjórna er m.a. fjallað í 9. gr. sveitarstjórnarlaga, en þar segir svo í 1.-3. mgr.:

          „Sveitarstjórn fer með stjórn sveitarfélagsins samkvæmt ákvæðum laga þessara og annarra laga.

          Sveitarstjórn hefur ákvörðunarvald um nýtingu tekjustofna sveitarfélagsins og um framkvæmd þeirra verkefna sem sveitarfélagið annast, að svo miklu leyti sem ekki eru settar um það reglur í löggjöf.

          Sveitarstjórn skal sjá um að lögbundin verkefni sveitarfélagsins séu rækt og að fylgt sé þeim reglum um meðferð sveitarstjórnarmála sem ákveðnar eru í lögum, reglugerðum og samþykktum sveitarfélagsins.“

 

          Um fjármál sveitarfélaga er fjallað í VI. kafla sveitarstjórnarlaga.  Samkvæmt 61. gr. laganna skal sveitarstjórn fyrir lok janúarmánaðar ár hvert gera fjárhagsáætlun sem skal vera meginregla um tekjuöflun, ráðstöfun fjármuna og fjármálastjórn sveitarsjóðs og stofnana sveitarfélagsins á viðkomandi reikningsári.  Í 1. mgr. 62. gr. laganna er að finna heimild til að breyta fjárhagsáætlun ef í ljós koma breytingar á forsendum áætlunarinnar.  Síðan segir svo í 2. mgr. 62. gr.:

          „Samþykki sveitarstjórn fjárveitingu sem ekki er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun skal hún jafnframt kveða á um hvernig útgjöldum skuli mætt.  Samþykki slíkrar fjárveitingar telst breyting á fjárhagsáætlun.“

 

          Sveitarstjórnarlögin gera því ráð fyrir að ákvörðun um hvernig umframútgjöldum verði mætt skuli liggja fyrir þegar ákvörðunin um umframútgjöldin er tekin.

 

          Ljóst er af gögnum málsins að þegar ákvörðun var tekin um að leggja fjármuni í umrætt verkefni á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar þann 2. mars sl., var ekki fylgt ákvæðum 2. mgr. 62. gr. sveitarstjórnarlaga, því ekki var jafnframt kveðið á um hvernig útgjöldunum skyldi mætt.  Verður að telja að samþykkt um að vísa þeim þætti málsins til síðari endurskoðunar fjárhagsáætlunar samræmist ekki skýru orðalagi lagaákvæðisins.  Verður að mati ráðuneytisins að telja slík vinnubrögð ámælisverð.

 

          Í 65. gr. sveitarstjórnarlaga er svohljóðandi ákvæði:

          „Hyggist sveitarstjórn ráðast í fjárfestingu og áætlaður heildarkostnaður eða hlutur sveitarfélagsins í henni nemur hærri fjárhæð en fjórðungi skatttekna yfirstandandi reikningsárs er skylt að leggja fyrir sveitarstjórn umsögn sérfróðs aðila um kostnaðaráætlunina, væntanleg áhrif hennar á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs á fyrirhuguðum verktíma og áætlun um árlegan rekstrarkostnað fyrir sveitarsjóð, sé um hann að ræða.  Jafnframt skal gerð grein fyrir því hvernig framkvæmdin samræmist þriggja ára áætlun sveitarfélagsins.“

 

          Af orðalagi ákvæðisins verður ekki annað ráðið en að það nái til fjárfestinga sem hafa í för með sér útgjöld fyrir sveitarfélagið sem nema á viðkomandi ári meira en fjórðungi skatttekna þess árs.

 

          Þriggja ára áætlun sveitarfélagsins lá ekki fyrir þegar umrædd ákvörðun var tekin í bæjarstjórn þann 2. mars 1999 eins og 63. gr. sveitarstjórnarlaga gerir ráð fyrir og telur ráðuneytið það ámælisverð vinnubrögð.  Áætlunin liggur hins vegar nú fyrir.  Í þriggja ára áætlun sveitarfélagsins kemur fram að á árinu 2000 verði kr. 20.000.000 greiddar í verkefnið, kr. 16.000.000 á árinu 2001 og kr. 12.000.000 á árinu 2002.  Í öðrum gögnum málsins kemur fram að stefnt sé að því að árlegar greiðslur úr bæjarsjóði fari ekki yfir kr. 12.000.000 á ári í framtíðinni.  Er þá tillit tekið til þess að sértekjur hússins komi á móti kostnaði vegna leigu, rekstrar og viðhalds.  Áætlaðar skatttekjur sveitarfélagsins samkvæmt þriggja ára áætlun eru árið 2000 kr. 1.806.411.000, árið 2001 kr. 1.873.624.000 og árið 2002 kr. 1.943.442.000.

 

          Ráðuneytið telur ekki unnt að fella þá ákvörðun sem hér um ræðir undir ákvæði 65. gr. sveitarstjórnarlaga eins og það er orðað, enda nema árlegar greiðslur úr bæjarsjóði Reykjanesbæjar ekki hærri fjárhæð en sem nemur fjórðungi skatttekna á hverju ári.

 

          Ekki hefur heldur verið sýnt fram á annað í þessu máli en að Reykjanesbær geti þrátt fyrir umrædda skuldbindingu vegna „fjölnota íþróttahúss“ sinnt áfram hinum lögbundnu verkefnum sínum, sbr. 7. og 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Er þá tekið mið af fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar og hver árleg greiðsla úr bæjarsjóði vegna hússins er í hlutfalli við skatttekjur.

 

          Í máli þessu er meðal annars deilt um hvaða leiðir eru hagkvæmastar fyrir sveitarfélagið varðandi aðkomu þess að byggingu „fjölnota íþróttahúss“, m.a. hvort réttara hafi verið fyrir sveitarfélagið að byggja húsið sjálft eða leigja húsið um tiltekinn tíma af byggingaraðila eins og niðurstaðan varð.  Ráðuneytið hefur eins og áður segir einungis úrskurðarvald um formhlið ákvarðanatökunnar en ekki efni hennar, enda ræður sveitarfélag sjálft málefnum sínum á eigin ábyrgð, sbr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga.  Með vísan til þess telur ráðuneytið að það sé ekki bært til að fjalla efnislega um ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 2. mars 1999 um „fjölnota íþróttahús“.

 

2.

          Um þá þætti erindisins sem varða útboð vill ráðuneytið taka fram eftirfarandi:

 

          Lög gera ekki ráð fyrir að sveitarfélögum sé skylt að láta fara fram útboð um verk, sem áætlað er að nemi minna en 5 milljónum evrópskra mynteininga (ECU), sbr. 2. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um skipan opinberra framkvæmda nr. 63/1970, sbr. lög nr. 85/1998.  Almennt verður þó að ætla að sveitarstjórnir leitist við að fjármunum sveitarfélagsins sé varið á sem hagkvæmastan hátt og eru útboð eitt tæki til að ná þeim árangri.  Í ýmsum tilfellum getur verið eðlilegra og vandaðri stjórnsýsluhættir hjá sveitarfélögum að láta fara fram útboð til að fá hagstæðari kjör, sérstaklega ef um stærri verk er að ræða, en rétt er að ítreka að það er ekki skylt samkvæmt lögum heldur er það mat sveitarstjórnar hverju sinni hvort útboð skuli fara fram.  Um útboð gilda að öðru leyti efnisákvæði laga um framkvæmd útboða nr. 65/1993, en þau lög heyra undir verksvið viðskiptaráðuneytisins.

 

          Um mat á því hvort umrædd ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar varðandi „fjölnota íþróttahús“ falli undir ákvæði laga nr. 63/1970 með síðari breytingum, hefur félagsmálaráðuneytið ekki úrskurðarvald og bera gögn málsins með sér að sá þáttur málsins hafi verið tekinn til skoðunar af Eftirlitsstofnun EFTA.

 

          Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða félagsmálaráðuneytisins að þrátt fyrir tilgreinda galla í meðferð málsins hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar geti þeir ekki leitt til ógildingar á ákvörðun bæjarstjórnarinnar frá 2. mars 1999 varðandi byggingu „fjölnota íþróttahúss“.

 

          Dregist hefur að afgreiða mál þetta vegna umfangs málsins og mikilla anna í ráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

 

 

Afrit:   Kristmundur Ásmundsson, Kristján G. Gunnarsson, Ólafur Thordersen og

            meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar.

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta