Hafnarfjarðarkaupstaður - Ýmislegt varðandi fyrirhugaðar einkaframkvæmdir
Samfylkingin í Hafnarfirði 3. desember 1999 99110075
Tryggvi Harðarson o.fl. 1001
Bæjarskrifstofum
Strandgötu 6
220 Hafnarfirði
Vísað er til bréfs yðar dags. 23. nóvember s.l. þar sem bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði beina til ráðuneytisins þremur spurningum varðandi fyrirhugaðar einkaframkvæmdir í Hafnarfirði.
Eftirfarandi eru svör ráðuneytisins:
1. Er forsvaranlegt að bæjarfélagið ráðist í framkvæmdir upp á milljarða króna undir formerkjum „einkaframkvæmdar“ án þess að það komi fram í fjárhagsáætlun bæjarsjóðs?
Það er hlutverk sveitarstjórnar að taka ákvarðanir um framkvæmdir sveitarfélags og að sjá til þess að þær séu innan þess fjárhagsramma sem sveitarstjórnarlögin marka. Þó um svokallaða „einkaframkvæmd“ sé að ræða ber að gera grein fyrir henni í fjárhagsáætlun bæjarsjóðs.
2. Eru framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins sem settar eru í „einkaframkvæmd“ undanþegnar ákvæði 65. gr. sveitarstjórnarlaga um sérstaka úttekt, fari fjárfestingar umfram 25% af skatttekjum?
Nei.
3. Hvernig skal færa í bókhald og ársreikninga sveitarsjóða fjárhagslegar langtímaskuldbindingar sem sveitarfélög stofna til með samningum um „einkaframkvæmdir“ á lögbundnum verkefnum sveitarstjórna?
Að mati ráðuneytisins er ljóst að í ársreikningum sveitarfélaga þurfa að koma fram allar fjárhagslegar skuldbindingar sveitarfélagsins. Á vegum ráðuneytisins, Hagstofu Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga er nú unnið að reglugerð um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga. Í því sambandi hefur verið rætt um með hvaða hætti upplýsingar um svokallaðar „einkaframkvæmdir“ skuli koma fram í ársreikningum sveitarfélaga. Slíkar framkvæmdir eru nýmæli hjá sveitarfélögum hérlendis og ekkert sérstaklega um þær fjallað í sveitarstjórnarlögunum. Niðurstaða liggur ekki fyrir. Mat ráðuneytisins er þó að flest mæli með því að í þessu efni verði farið eftir almennri reikningsskilareglu.
F. h. r.
Berglind Ásgeirsdóttir (sign.)
Húnbogi Þorsteinsson (sign.)
Afrit: Bæjarstjórn Hafnarfjarðar.