Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Reykjavíkurborg - Gjald fyrir sölu byggingarréttar, einkaréttarlegur samningur, frávísun

Formaco ehf.
2. september 2003
FEL03040009/122

Ragnar Jóhannsson, framkvæmdastjóri

Gylfaflöt 24-30

112 REYKJAVÍK

Hinn 2. september 2003 er kveðinn upp í félagsmálaráðuneytinu svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

Með erindi, dags. 31. mars 2003, óskaði Formaco ehf. eftir úrskurði ráðuneytisins um réttmæti álagningar

gjalds að fjárhæð 6.081.900 kr. fyrir sölu á byggingarrétti sem Reykjavíkurborg gerði fyrirtækinu að

greiða við úthlutun byggingarlóðar að Fossaleyni 8 í Grafarvogi. Álagningin var tilkynnt kæranda með

bréfi borgarstjóra, dags. 7. janúar 2003, en úthlutun lóðarinnar var samþykkt á fundi borgarráðs sem

haldinn var sama dag.

Í símtali við lögfræðing ráðuneytisins hinn 29. apríl 2003, og í símbréfi dags. 30. s.m., staðfesti kærandi

að tilgangur erindis hans til ráðuneytisins væri sá að kæra álagningu gjalds fyrir sölu á byggingarrétti og

að fá úrskurð um lögmæti gjaldsins.

I. Málavextir

 

Með bréfi borgarstjórans í Reykjavík, dags. 7. janúar 2003, var kæranda tilkynnt að á fundi borgarráðs,

sem haldinn var sama dag, hafi verið samþykkt að selja Formaco ehf. byggingarrétt á lóð nr. 8 við

Fossaleyni í Grafarvogi. Stærð lóðarinnar er um 11.100 ferm. og kemur fram í bréfinu að söluverð

byggingarréttarins ákveðist 30.409.500 kr., en þar af sé gatnagerðargjald 24.327.600 kr.

Með bréfi, dags. 3. febrúar 2003, gerði kærandi athugasemd við framangreinda álagningu og óskaði hann

m.a. skýringa á mismun á söluverði byggingarréttar og gatnagerðargjaldi og er tekið fram í bréfinu að

kærandi hafi ekki fundið neitt í samþykktum eða verðskrá Reykjavíkurborgar sem ákvarði þennan

mismun, né hafi starfsfólk borgarinnar getað veitt upplýsingar þar um.

Í svarbréfi Reykjavíkurborgar, dags. 10. febrúar 2003, sem ritað er af skrifstofustjóra við embætti

borgarverkfræðings, segir m.a. eftirfarandi:

„Í bréfi yðar óskið þér skýringa á söluverði byggingarréttarins, sem ákveðið var kr. 30.409.500,-. Svo sem

fram kemur í bréfi borgarstjóra til yðar, dags. 7. janúar sl., er hluti þessarar fjárhæðar, eða kr.

24.324.600,-, gatnagerðargjald, sbr. hér á eftir. Mismunurinn, kr. 6.084.900,- er andvirði byggingarréttar á

lóðinni.

Byggingarréttur á lóðum er nokkurs virði, mismunandi þó m.a. eftir staðsetningu í borginni og gildandi

skipulagi. Um er að ræða fasteignatengd verðmæti, sem ganga kaupum og sölum manna og fyrirtækja á

milli. Sömu sjónarmið eiga við um sölu á slíkum verðmætum hvort sem Reykjavíkurborg á í hlut eða

einkaaðilar. Alkunna er, að Reykjavíkurborg hefur um árabil selt byggingarrétt á lóðum og má t.d. nefna

lóðir í Grafarholti og við Klettháls í því sambandi. Nýlegt og alveg sambærilegt tilfelli er sala á

byggingarrétti á lóð nr. 23 við Fossaleyni í nóvember sl. [.....]

Athygli er vakin á því, að samkvæmt bréfi borgarstjóra til yðar, dags. 7. janúar sl., bar að inna af hendi

greiðslu vegna lóðarinnar innan eins mánaðar, en ella félli úthlutun hennar niður. Gjaldið er enn ógreitt.

Líta ber á þetta ákvæði sem riftunarákvæði, þ.e.a.s. að það gerir ráð fyrir að sölu byggingarréttarins sé rift,

ef ekki er staðið við skilmála um greiðslu. Enda þótt yður hefði verið í lófa lagið að leita þeirra

upplýsinga, sem bréf yðar fjallar um, hjá undirrituðum, þykir rétt að framlengja greiðslufrestinn til 20.

febrúar nk. vegna þess tíma, sem umfjöllun um erindi yðar hefur tekið.“

Í tölvubréfi frá fulltrúa borgarlögmanns til ráðuneytisins, dags. 16. júlí 2003, kemur fram að sala

Reykjavíkurborgar á byggingarrétti hafi hafist með ráðstöfun lóða í Grafarholti í mars 2000. Lóðum við

Fossaleyni hafi hins vegar verið úthlutað á árunum 1997–1999 og verður að skilja bréfið svo að ekki hafi

verið greitt gjald fyrir byggingarrétt á þeim lóðum. Í tölvubréfinu eru hins vegar tilgreindar þrjár lóðir

sem úthlutað var eftir að hafið var að innheimta umrætt gjald. Annars vegar er þar tilgreind lóð fyrir

knattspyrnuhús að Fossaleyni 1, þar sem ekki var innheimt gjald fyrir sölu byggingarréttar, og hins vegar

lóðirnar að Fossaleyni 8 og 23, sem hafi verið skilað árin 2001 og 2002 og þeim síðan endurúthlutað gegn

gjaldi fyrir sölu byggingarréttar.

Byggingarréttur á lóð kæranda var ekki auglýstur sérstaklega eftir að henni var skilað, en að sögn

Reykjavíkurborgar fengu þeir sem leituðu upplýsinga um lóðir fyrir atvinnuhúsnæði fyrir starfsemi, sem

samrýmdist á annað borð landnotkun við Fossaleyni, vitneskju um að lóðin væri laus til ráðstöfunar ásamt

upplýsingum um gatnagerðargjald og söluverð byggingarréttarins.

Í viðbótarumsögn borgarlögmanns frá 13. júní 2003 segir að borgarstjórn eða borgarráð ákveði hvort og

hverjum byggingarréttur á lóð sé seldur, að fenginni tillögu umhverfis- og tæknisviðs borgarinnar. Þegar

um er að ræða byggingarrétt, sem Skipulagssjóður Reykjavíkur ráðstafar, byggist slík ráðstöfun á

samþykkt stjórnar sjóðsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg eru ekki til skráðar verklagsreglur eða viðmiðanir hjá

borginni um ákvörðun söluverðs byggingarréttar í einstökum tilvikum. Þegar byggingarrétti er ráðstafað á

almennum markaði í opnu eða lokuðu útboði, gildi almenn sjónarmið útboðsmarkaðarins um söluverðið,

sem Reykjavíkurborg telur endurspegla raunverulegt markaðsverð byggingarréttar. Nokkur hliðsjón hafi

verið höfð af slíkum útboðum, enda þótt Reykjavíkurborg hafi ekki oft boðið út á almennum markaði

byggingarrétt fyrir atvinnuhúsnæði.

II. Málsmeðferð ráðuneytisins

 

Með bréfi, dags. 2. maí 2003, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Reykjavíkurborgar um málið. Í bréfinu

kemur m.a. fram að eftir símtal við framkvæmdastjóra kæranda, og að fengnum skýringum á kröfugerð og

málsástæðum hans, túlki ráðuneytið erindið sem stjórnsýslukæru, og að krafa kæranda sé sú að hin kærða

álagning verði felld úr gildi. Í bréfinu er óskað eftir því að í umsögn Reykjavíkurborgar verði gerð sem

nákvæmust grein fyrir gjaldtöku Reykjavíkurborgar á hinu kærða gjaldi, þ.á m. hvort það sé innheimt af

öllum byggingarlóðum sem Reykjavíkurborg úthlutar, og á hvaða forsendum eða gjaldstofni það byggist.

Einnig er í bréfinu óskað eftir að fram komi í umsögninni á hvaða lagagrundvelli eða samþykkt gjaldið sé

reist.

Umsögn Reykjavíkurborgar barst með bréfi borgarlögmanns, dags. 21. maí 2003. Með bréfi, dags. 28.

s.m., veitti ráðuneytið kæranda frest til 16. júní til að koma að athugasemdum við umsögnina. Sama dag

ritaði ráðuneytið Reykjavíkurborg einnig bréf þar sem ráðuneytið óskaði frekari upplýsinga um það hvaða

aðili innan borgarkerfisins ákveði hvort byggingarréttur sé seldur og hver ákveði verð byggingarréttar á

einstökum lóðum. Einnig óskaði ráðuneytið upplýsinga um hvort til væru verklagsreglur eða viðmiðanir

sem stuðst væri við varðandi verðlagningu byggingarréttar, almennt eða í einstökum hverfum. Loks var í

bréfinu óskað eftir því að Reykjavíkurborg legði fram gögn um kostnað við kaup á landi og tekjur af sölu

byggingarréttar.

Athugasemdir kæranda við umsögn Reykjavíkurborgar bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 6. júní 2003.

Viðbótarumsögn Reykjavíkurborgar barst með bréfi borgarlögmanns, dags. 13. s.m., þar sem er að finna

svör við fyrrgreindum spurningum ráðuneytisins. Að auki sendi skrifstofa borgarlögmanns ráðuneytinu

tölvubréf vegna málsins, dags. 20. s.m., þar sem krafist er frávísunar málsins, en sú krafa var einnig gerð í

niðurlagi viðbótarumsagnar Reykjavíkurborgar. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við

þessa síðari umsögn Reykjavíkurborgar, með bréfi ráðuneytisins, dags. 25. júní 2003, en með bréfi dags.

26. s.m. lýsti kærandi því yfir að hann hefði engu við fyrri athugasemdir sínar að bæta.

Í bréfi ráðuneytisins til Reykjavíkurborgar, dags. 25. júní 2003, var óskað nánari skýringa á

frávísunarkröfu borgarinnar. Í bréfinu er fjallað stuttlega um dóma Hæstaréttar sem gengið hafa um

álagningu Hafnarfjarðarkaupstaðar á lóðaupptökugjaldi og lóðajöfnunargjaldi, samanber mál nr. 150/2000

og 105/1992, og óskað viðhorfa Reykjavíkurborgar til þess hvort hin kærða ákvörðun byggðist á

svipuðum forsendum og þeim sem fjallað var um í umræddum dómum. Jafnframt óskaði ráðuneytið eftir

frekari upplýsingum um sölu byggingarréttar á lóðum við Fossaleyni og í næsta nágrenni. Í umræddu

bréfi ráðuneytisins segir m.a. eftirfarandi:

Í niðurlagi viðbótarumsagnar Reykjavíkurborgar er gerð krafa um frávísun málsins frá ráðuneytinu

á þeim grundvelli að umfjöllun um samninga á sviði einkaréttar eigi ekki undir úrskurðarvald

félagsmálaráðuneytisins. Krafa þessi var jafnframt ítrekuð í rafpósti Eiríks S. Svavarssonar hdl. til

ráðuneytisins, dags. 20. júní 2003, þar sem er vísað er til úrskurðar félagsmálaráðuneytisins frá 16.

nóvember 2001, er varðar kæru Háspennu ehf. á hendur Reykjavíkurborg, til stuðnings

frávísunarkröfunni.

Ráðuneytið telur þann mun vera á málum Formaco ehf. og Háspennu ehf. á hendur Reykjavíkurborg

að í síðara málinu var kærð ákvörðun borgarráðs að setja það skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis

að greitt yrði gjald fyrir sölu byggingarréttar. Taldi ráðuneytið að eins og kröfugerð og málflutningi

kæranda væri háttað ætti málið undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála

og bæri af þeirri ástæðu að vísa málinu frá ráðuneytinu. Í máli Formaco ehf. er hins vegar einungis

um að ræða kæru á sjálfri álagningu gjaldsins og verður ekki talið að sá ágreiningur eigi undir

úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Ber því að hafna því að þær ástæður sem tilgreindar

eru í rafpósti frá 20. júní sl. leiði til frávísunar málsins.

Varðandi þá málsástæðu að um sé að ræða einkaréttarlegan samning, sem ekki geti átt undir

úrskurðarvald ráðuneytisins, er í viðbótarumsögn Reykjavíkurborgar vísað til dóms Hæstaréttar í

máli nr. 150/2000, er varðar svonefnt lóðarupptökugjald sem Hafnarfjarðarkaupstaður lagði á

einbýlishúsalóðir á afmörkuðu svæði. Það er mat ráðuneytisins að áður en tekin verður endanleg

afstaða til þess hvort vísa beri málinu frá ráðuneytinu á grundvelli þessarar málsástæðu sé þörf á að

upplýsa málið betur.

Ráðuneytið telur meðal annars þörf á að Reykjavíkurborg skýri betur sjónarmið sín í málinu áður en

unnt er að skera úr um hvort aðstæður í því máli sem hér er til umfjöllunar séu fyllilega

sambærilegar við aðstæður í því máli sem fjallað er um í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Virðist rétt

að hafa til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í máli nr. 105/1992, samanber dómasafn Hæstaréttar 1994,

bls. 947, þar sem fjallað var um svonefnt lóðajöfnunargjald sem Hafnarfjarðarkaupstaður lagði á

lóðir sem úthlutað var á þegar byggðum svæðum og á öðrum lóðum sem sveitarfélagið hafði eignast

án mikils tilkostnaðar.

Af dómi Hæstaréttar í máli nr. 150/2000 virðist mega ráða að sveitarfélögum geti a.m.k. í einhverjum

tilvikum verið heimilt án lagaheimildar að krefja lóðahafa um gjald er nemur þeim kostnaði sem

sveitarfélagið hefur haft af því að eignast það land sem lóðin er á. Virðist jafnframt vera heimilt að

jafna kostnaði á lóðahafa vegna lands innan hverfis sem nýtt er til sameiginlegra þarfa íbúa, svo sem

fyrir leiksvæði og vegi. Af dómi Hæstaréttar í máli nr. 105/1992 virðist á hinn bóginn mega draga þá

ályktun að í þeim tilvikum sem gjaldtaka þessi er umfram kostnað sveitarfélags við að eignast landið

sé um óheimila skattlagningu að ræða.

Af tilvitnuðum dómum verða tæplega dregnar svo víðtækar ályktanir að unnt sé án frekari röksemda

að slá því föstu að gjaldtaka sveitarfélags af lóðahöfum, hvort sem hún nefnist lóðaupptökugjald,

lóðajöfnunargjald eða gjald fyrir sölu á byggingarrétti, geti ávallt talist byggð á einkaréttarlegum

samningum. Þvert á móti verður vart önnur ályktun dregin af dómi Hæstaréttar í máli nr. 105/1992

en að í því máli hafi viðkomandi sveitarfélag misfarið með valdheimildir sínar með því að leggja á

hærra lóðajöfnunargjald en sem nam kostnaði sveitarfélagsins af að eignast umrætt land.

Ráðuneytið telur nokkurn vafa leika á því að hin kærða ákvörðun Reykjavíkurborgar, svo og álagning

gjalds fyrir sölu byggingarréttar almennt af hálfu borgarinnar, byggist á sambærilegum forsendum

og þeim sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar í máli nr. 150/2000. Ber þar fyrst að telja að

ákvörðun um fjárhæð gjaldsins virðist ekki byggjast á þeim kostnaði sem Reykjavíkurborg hafði af því

að eignast það land sem ráðstafað er heldur má skilja málflutning borgarinnar á þann veg að

gjaldtakan byggist eingöngu á markaðsaðstæðum í hverju tilviki. Samkvæmt þessu virðist ekki vera

um eitt og sama verð að ræða fyrir allar lóðir í tilteknu hverfi eða við tiltekna götu heldur geti það

ráðist af þáttum á borð við staðsetningu, stærð lóðar og því hvenær lóðin er laus til umsóknar.

Ef framangreindur skilningur er réttur að því er varðar framkvæmd á sölu byggingarréttar í

Reykjavíkurborg virðist mega draga þá ályktun að söluverð byggingarréttar á einstökum lóðum eða

hverfum geti verið langt umfram þann kostnað sem borgin hefur haft af því að eignast viðkomandi

land. Telur ráðuneytið rétt að óska eftir afstöðu Reykjavíkurborgar til þess hvort hún telji þetta

samræmast niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 105/1992. Einnig óskar ráðuneytið eftir afstöðu

Reykjavíkurborgar til þess hvort hún telji að því fordæmi sem ráðuneytið telur mega lesa úr

umræddum dómi hafi á einhvern hátt verið vikið til hliðar með dómi Hæstaréttar í máli nr. 150/2000.

Eins og áður er getið telur ráðuneytið ekki rétt að taka afstöðu til frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar

fyrr en mál þetta er betur upplýst. Út frá þeim sjónarmiðum sem að framan eru rakin og ráðin verða

af dómum Hæstaréttar sem vitnað er til í þessu bréfi telur ráðuneytið mikilvægt að hafa sem gleggstar

upplýsingar um það hverfi eða götu sem lóð kæranda tilheyrir. Óskar ráðuneytið hér með eftir að

Reykjavíkurborg leggi fram gögn um kostnað Reykjavíkurborgar af að eignast landið sem lóð kærða

stendur á. Jafnframt óskast upplýst hvort allir lóðahafar við Fossaleyni hafi greitt gjald fyrir

byggingarrétt á lóðum sínum. Ef lóðahafar við götuna greiddu í einhverjum tilvikum lægra gjald en

kærandi eða fallið var frá kröfu um greiðslu óskast upplýst af hvaða ástæðum það var gert og hvaða

aðili innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar tók ákvörðun þess efnis. Er þess ennfremur óskað að

fjárhæðir verði uppreiknaðar til samræmis við þær fjárhæðir sem fram koma í öðrum gögnum sem

Reykjavíkurborg hefur lagt fram í málinu.

Reykjavíkurborg svaraði fyrrgreindu bréfi annars vegar með viðbótarumsögn, dags. 11. júlí 2003, og hins

vegar með tölvubréfi, dags. 16. s.m. Í umsögninni er ítrekuð krafa borgarinnar um að málinu verði vísað

frá ráðuneytinu og rakin sjónarmið sem talin eru leiða til þeirrar niðurstöðu, en þar er jafnframt fundið að

efni bréfs ráðuneytisins frá 25. júní og því haldið fram að vegna bréfsins sé ráðuneytið orðið vanhæft til

að úrskurða í málinu. Er í því sambandi vísað til 6. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari

breytingum, og dóms Hæstaréttar í máli nr. 113/2001. Í umræddu tölvubréfi fulltrúa borgarlögmanns til

ráðuneytisins er að finna upplýsingar um þær lóðir við Fossaleyni sem byggingarréttur hefur verið seldur

á á undanförnum árum.

Nánari grein verður gerð fyrir röksemdum og kröfum aðila í III.–IV. kafla þessa úrskurðar.

III. Málsrök kæranda

 

Málsrökum kæranda er lýst í kæru, dags. 31. mars 2003, símbréfi, dags. 30. apríl 2003, og í

athugasemdum við umsögn Reykjavíkurborgar, dags. 6. júní 2003. Í þessum gögnum kemur fram að

kærandi telur skorta lagastoð fyrir því að leggja á sérstakt gjald fyrir sölu byggingarréttar, sem bætist við

álagt gatnagerðargjald samkvæmt lögum um gatnagerðargjald, nr. 17/1996. Einnig byggir kærandi á því

að ákvörðun gjaldsins virðist háð geðþóttaákvörðun embættismanna Reykjavíkurborgar. Telur kærandi

nauðsynlegt að fá skorið úr því hvort sala á byggingarrétti sé lögmæt og hvort það sé í verkahring

sveitarfélaga að braska með byggingarlóðir.

Kærandi telur umsögn Reykjavíkurborgar frá 21. maí 2003 að sumu leyti styðja þá skoðun sína að

Reykjavíkurborg hafi ekki heimild til að selja byggingarrétt á lóðum umfram það sem nemur lögboðnu

gatnagerðargjaldi. Heldur hann því jafnframt fram að Reykjavíkurborg hafi haldið uppi lóðaskorti á

undanförnum árum til að koma á aukinni skattheimtu með þessum hætti. Segist kærandi hafa leitað í tvö

ár að lóð undir atvinnustarfsemi sína en ekki fundið og hafi hann ekki átt margra annarra kosta völ en að

greiða þennan „ógeðfellda skatt“ til að fá lóðina við Fossaleyni.

Í athugasemdum sínum bendir kærandi jafnframt á að hann telji ekki ljóst hver eigi að meta eða sé fær um

að meta byggingarréttinn til verðs. Spyr hann hvort ekki eigi að vera til samþykkt gjaldskrá svo öllum sé

ljóst verðið og engum mismunað. Þá telur hann að sala Reykjavíkurborgar á byggingarrétti hafi síður en

svo komið í veg fyrir lóðabrask og segist kærandi oftar en einu sinni hafa átt kost á að kaupa nýlega

úthlutaðar lóðir á yfirverði. Telur hann að sala byggingarréttarins leiði aðeins af sér enn frekara lóðabrask

en ella og eina lausn vandans sé nóg framboð af lóðum.

Kærandi vísar á bug röksemdum Reykjavíkurborgar þess efnis að þar sem lög kveði ekki á um söluverð

byggingarréttar sé salan lögleg. Bendir kærandi á að tekjustofnar sveitarfélaga séu afmarkaðir með lögum

og þar sem ekki sé unnt að finna neina samþykkt borgarstjórnar eða borgarráðs sem fjallar um sölu

byggingarréttar hljóti þetta að vera geðþóttaákvörðun hverju sinni. Telur kærandi lengi hafa tíðkast hjá

Reykjavíkurborg að sumir séu jafnari en aðrir og nefnir í því sambandi að við úthlutun lóða í Grafarholti

fyrir nokkrum árum hafi sumum verið gert að bjóða í byggingarrétt meðan aðrir hafi aðeins greitt

gatnagerðargjald.

IV. Málsrök kærða

 

Samkvæmt umsögn, dags. 21. maí 2003, krefst Reykjavíkurborg þess að kröfu Formaco ehf. verði hafnað

og að staðfest verði að sala borgarinnar á byggingarrétti á lóð nr. 8 við Fossaleyni stríði ekki gegn

lögmætisreglunni eða góðri stjórnsýslu.

Í umsögninni er vakin sérstök athygli á næstsíðustu málsgrein í bréfi borgarstjóra til kæranda, dags. 7.

janúar 2003, þar sem honum var tilkynnt að honum hefði verið úthlutað lóðinni að Fossaleyni 8. Þar segir:

Athygli er vakin á því, að skv. almennum úthlutunarskilmálum er litið á greiðslu kaupverðs

byggingarréttarins sem viðurkenningu lóðarhafa á því að hann hafi kynnt sér ítarlega alla skilmála sem

varða lóðina og ennfremur að hann hafi samþykkt að hlíta þeim.

Telur kærði að kaupverð byggingarréttarins, að meðtöldu gatnagerðargjaldi fyrir lóðina, geti ekki hafa

komið kæranda á óvart. Hafi honum á hinn bóginn dulist, þegar hann sótti um lóð nr. 8 við Fossaleyni, að

auk gatnagerðargjaldsins væri um að ræða kaupverð byggingarréttar, hafi öllum vafa um það verið eytt

með umræddu bréfi borgarstjóra, þar sem kaupverð byggingarréttarins hafi verið tilgreint og

gatnagerðargjaldahlutinn sérgreindur. Kærandi hafi greitt uppsetta fjárhæð hinn 14. febrúar 2003 án

nokkurs fyrirvara.

Í umsögninni kemur jafnframt fram sú skoðun Reykjavíkurborgar að sala byggingarréttar komi gatnagerð

og þeim þáttum sem lýst er í 2. gr. laga um gatnagerðargjald, nr. 17/1996, ekkert við. Um sé að ræða sölu

á fasteignarréttindum og renni söluandvirðið í borgarsjóð til þess að standa straum af almennum kostnaði

við rekstur og framkvæmdir sveitarfélagsins. Byggingarréttur á lóð, hvort heldur sem er viðbyggingareða

nýbyggingarréttur, sé háður eignarrétti, sbr. t.d. 28. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Um sé að

ræða fasteignatengd réttindi, verðmæti, sbr. 32. gr. fjöleignarhúsalaga, sem almennt verði ráðstafað með

samningum og geti verið sérstakt veðandlag.

Um verðmæti byggingarréttar gildi engar gjaldskrár eða verðskrár, heldur taki verð hans mið af

markaðsaðstæðum. Með deiliskipulagi sé ákvarðaður byggingarréttur á einstökum lóðum. Með því að

skilgreina nýtingu lands, heimila uppbyggingu þess og tiltekna nýtingu, aukist að jafnaði verðmæti

viðkomandi lands. Við verðmat á landi og lóðum sé m.a. litið til atriða eins og staðsetningar,

landnotkunar og byggingarréttar. Gildi einu hvort landið sé í einkaeigu eða eigu opinberra aðila. Með

deiliskipulagningu landsins verði til verðmæti sem séu fólgin í nýtingarmöguleikum þess, sem eigendum

landsins sé heimilt að ráðstafa á einkaréttarlegum grundvelli. Verðmætin, sem um ræðir, séu hin sömu

hver sem eigandi landsins er. Einkaaðili, eða eftir atvikum opinber aðili, geti þannig ráðstafað þeim

verðmætum með sölu byggingarréttar á lóð sem hann á sjálfur eða hefur fengið á leigu frá sveitarfélaginu,

ef ráðstöfun lóðarinnar eða þeirra réttinda sem henni tengjast, er ekki sérstökum takmörkunum háð að

þessu leyti.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 16. gr. stjórnskipunarlaga, nr. 97/1995, skuli

sveitarfélög ráða sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveði. Í 1. gr. sveitarstjórnarlaga komi fram að

sveitarfélög ráði sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð. Sveitarfélög hafi því sjálfsákvörðunarrétt um þau

málefni sveitarfélagsins sem ekki sé sérstaklega mælt fyrir um í lögum. Í lögum sé ekki að finna ákvæði

um skyldu sveitarfélaga til úthlutunar lóða eða byggingarréttar til fyrirtækja og einstaklinga. Úthlutun

byggingarlóða sé því ekki meðal lögbundinna verkefna sveitarfélaga. Í þessu sambandi bendir

Reykjavíkurborg á úrskurði félagsmálaráðuneytisins, uppkveðnum þann 17. apríl 2001 vegna

lóðaúthlutana í Mosfellsbæ, 9. október 2001 vegna lóðaúthlutana í Hafnarfirði og 28. janúar 2002 vegna

lóðaúthlutana í Garðabæ.

Reykjavíkurborg telur, ekki síst með hliðsjón af þessum úrskurðum félagsmálaráðuneytisins, að

lóðaúthlutun geti ekki talist slík nauðsynjaþjónusta sveitarfélaganna að um hana eigi að gilda hliðstæð

sjónarmið og um lögbundna þjónustu, þjónustu sem sveitarfélögin reka á grundvelli lagafyrirmæla eða

einkaréttar. Sveitarfélögum sé heimilt skv. 3. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, að taka að sér

hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum. Á

grundvelli 3. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga hafi það verið talið til lögmætra verkefna að bjóða fram

byggingarrétt á lóðum, hvort heldur sem er í nýbyggingahverfum eða grónum hverfum og fyrir

íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði, til þess að efla og styrkja byggðina, mannlíf og atvinnustarfsemi í

sveitarfélaginu. Sama hljóti að gilda um kaup og sölu fasteigna og fasteignatengdra réttinda.

Sala á byggingarrétti sé, líkt og sala á öðrum fasteignatengdum réttindum, einkaréttarlegs eðlis. Í því

sambandi bendir Reykjavíkurborg á að umboðsmaður Alþingis hafi með bréfi, dags. 27. nóvember 1997,

staðfest að sala Reykjavíkurborgar á geymsluhúsnæði hafi verið gerningur á sviði einkaréttar og jafnframt

að ákvæði stjórnsýslulaga gildi ekki um einkaréttarlega samninga. Með því að kærandi greiddi

fyrirvaralaust kaupverð byggingarréttarins, verði að líta svo á að komist hafi á einkaréttarlegur samningur.

Ágreiningsefnið, þ.e. hið eiginlega söluverð byggingarréttarins, sé hvorki þjónustugjald né skattur heldur

andvirði fjárhagslegra verðmæta, sem séu háð eignarrétti og megi ráðstafa með sölu eða veðsetningu að

tilteknum skilyrðum uppfylltum. Lög kveði ekki á um söluverð byggingarréttar, en það verð sem kærandi

greiddi hafi hvorki verið hærra né lægra en aðrir, sem fengið hafa byggingarrétt hjá Reykjavíkurborg á

síðustu árum, hafa greitt fyrir byggingarrétt á sambærilegum lóðum.

Þess vegna verði því ekki haldið fram að kærandi hafi ekki notið jafnræðis á við aðra sem fengið hafa

byggingarrétt á lóðum Reykjavíkurborgar nokkur undanfarin ár, eða að ógildingarregla 36. gr. laga um

samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, með síðari breytingum, geti átt hér við. Einnig

getur Reykjavíkurborg þess í umsögn sinni, að byggingarréttur á lóðum á Kjalarnesi hafi ekki verið seldur

með þessum hætti (þ.e. eingöngu sé innheimt gatnagerðargjald) þar sem eftirspurn eftir byggingarrétti þar

sé umtalsvert minni en á öðrum stöðum í Reykjavík.

Reykjavíkurborg telur sig geta nefnt fjölmörg dæmi um að byggingarréttur sé háður eignarrétti og verði

ráðstafað með sölu. Nefnir borgin í því sambandi þá uppbyggingu, sem sé að hefjast í Skuggahverfi og

sem nýlega hafi átt sér stað við Borgartún í Reykjavík, á lóðum þar sem lóðarhafar eða lóðaeigendur

(einkaaðilar) hafa selt byggingarverktökum gömul hús til niðurrifs ásamt þeim byggingarrétti á lóðunum

sem ákvarðaður hefur verið með deiliskipulagi. Auk söluandvirðis byggingarréttar á slíkum lóðum séu

greidd gatnagerðargjöld samkvæmt gjaldskrá, eftir atvikum að frádregnu flatarmáli rifinna húsa. Einnig er

í umsögninni tekið dæmi um sölu byggingarréttar á lóðum í Grafarholtshverfi, sem Reykjavíkurborg

hefur boðið út frá árinu 1999 og að jafnaði selt hæstbjóðanda. Þetta séu þó ekki einu dæmin um að

Reykjavíkurborg hafi boðið út byggingarrétt þar sem slíkt fyrirkomulag hafi verið viðhaft um langt árabil

á stökum lóðum í grónum hverfum, bæði lóðum fyrir íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Þrátt fyrir að

félagsmálaráðuneytinu hafi lengi mátt vera kunnugt um þetta fyrirkomulag hafi það ekki gert athugasemd

við Reykjavíkurborg á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Verði ekki dregin af því önnur

ályktun en að Reykjavíkurborg sé heimilt að hámarka þau verðmæti sem felast í því landi sem

sveitarfélagið á.

Í umsögninni segir að almennt skilyrði þess að gerður sé leigusamningur um lóðir í eigu

Reykjavíkurborgar sé að greiðslur vegna viðkomandi lóðar hafi verið inntar af hendi eða tryggðar á

viðunandi hátt og að lokið hafi verið við að steypa undirstöður og plötu. Í venjulegum

lóðarleigusamningum, hvort heldur sem um er að ræða lóðir fyrir íbúðarhús eða atvinnuhúsnæði, sé

heimild til að ráðstafa lóðarréttindunum með sölu eða leigu. Slíkur leigusamningur sé í eðli sínu

einkaréttarlegs eðlis. Með honum ráðstafi sveitarfélagið til viðsemjanda síns réttindum, m.a.

byggingarrétti, sem til þess séu fallin að ganga kaupum og sölum og mynda verðmæti í höndum þeirra,

sem við taka. Í ljósi þessa hafi ekki verið talið útilokað að lögum að stofnað sé með samningum til

sérstakra greiðslna fyrir þessi réttindi í formi annars en venjulegra gatnagerðargjalda og lóðarleigu.

Í þessu sambandi vitnar Reykjavíkurborg til dóms Hæstaréttar í máli nr. 150/2000, Friðþjófur

Þorsteinsson gegn Hafnarfjarðarbæ, en í málinu reyndi á það hvort Hafnarfjarðarkaupstað hefði verið

heimilt að jafna fjárhæð eignarnámsbóta vegna tiltekins lands niður á leigutaka allra lóða á því landi í

formi upptökugjalda. Taldi Hæstiréttur að sveitarfélaginu væri heimilt að leggja á sérstakt upptökugjald

enda væri hvorki um að ræða skatt eða þjónustugjöld og umræddur lóðarhafi hefði gengið að

úthlutunarskilmálum sem kváðu á um slíkt gjald. Í niðurstöðu Hæstaréttar er sérstaklega bent á að við

undirritun lóðarleigusamnings hafi komist á samningur einkaréttarlegs eðlis milli aðila, en með vísan til

þess og annarra sjónarmiða sem fram koma í dóminum, m.a. að málefnalegar ástæður geti legið til þess að

innheimta slíkt gjald á sumum byggingarsvæðum en öðrum ekki, taldi Hæstiréttur að ekki hefði þurft að

mæla fyrir um upptökugjald þetta í lögum. Með skírskotun til þessa dóms telur Reykjavíkurborg að

heimilt hafi verið að selja sérstaklega byggingarrétt að hinni umdeildu lóð að Fossaleyni 8 án sérstakrar

lagaheimildar enda sé um að ræða sölu á verðmætum líkt og upptökugjald Hafnarfjarðarkaupstaðar sem

hvorki teljist skattur né þjónustugjöld. Með sölu byggingarréttar sé ekki verið að skerða hagsmuni

lóðarhafans (þ.e. kaupanda byggingarréttarins), enda sé hin umdeilda greiðsla hans endurgjald fyrir

tiltekin, framseljanleg verðmæti, sem byggist á málefnalegum sjónarmiðum.

Í umsögninni segir enn fremur að nokkur brögð hafi verið að því, áður en almennt var farið að bjóða út og

selja byggingarrétt í Reykjavík, að lóðarhafar nýttu ekki sjálfir byggingarrétt á lóðum sínum en seldu

hann til annarra fyrir það verð sem þeir gátu fengið. Hafi þess háttar viðskipti verið kölluð „lóðabrask“,

þ.e. þegar lóðarhafi hagnaðist umtalsvert á sölu byggingarréttar, sem hann fékk ráðstafað og greiddi

ekkert fyrir sjálfur. Með því að Reykjavíkurborg ýmist verðleggi nú sjálf byggingarrétt á lóðum sínum

eða láti markaðinum það eftir með opnu útboði, verði að ætla að verulega hafi dregið úr lóðabraski.

Reykjavíkurborg hafnar þeirri skoðun, sem stundum sé haldið á lofti, að sala sveitarfélags á byggingarrétti

leiði út af fyrir sig til hærra fasteignaverðs, enda ráði framboð og eftirspurn hverju sinni og

markaðsaðstæður yfirleitt söluverði eignar en ekki upphaflegt kaupverð hennar. Það markaðslögmál eigi

jafnt við um byggingarrétt á lóðum eins og aðrar eignir.

Loks er þeirri skoðun lýst í umsögn Reykjavíkurborgar að sveitarstjórn beri skylda til að rýra ekki

verðgildi eigna sveitarfélagsins með aðgerðum sínum, heldur beri henni að standa vörð um auðlindir þess

og gæta þess að þær séu nýttar á forsvaranlegan hátt. Byggingarland og skilgreindur byggingarréttur

teljist til slíkra auðlinda. Það hljóti því að vera skylda sveitarstjórnar að varpa ekki frá sér þeim

verðmætum sem í byggingarrétti felast. Sveitarstjórn beri að hafa almenn jafnræðissjónarmið að

leiðarljósi í samskiptum sínum við þegnana og verði að gæta þess að mismuna ekki borgurunum með

ólögmætum hætti. Sá háttur, að þeir sem sæki rétt sinn til húsbygginga beint til sveitarfélagsins greiði lítið

eða ekkert fyrir hann á sama tíma og aðrir verði að kaupa byggingarrétt fullu verði á almennum markaði,

samræmist ekki almennum jafnræðissjónarmiðum.

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur Reykjavíkurborg að heimilt hafi verið að selja byggingarrétt á

lóðinni að Fossleyni 8 og að sú heimild sæki sér m.a. stoð í sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga, sbr. 7. og 9.

gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, almennar skyldur sveitarfélaga um að hámarka þau verðmæti sem

felast í auðlindum sveitarfélagsins og því að sala á fasteignatengdum réttindum séu gerningar á sviði

einkaréttar. Það er því krafa Reykjavíkurborgar að ráðuneytið hafni öllum kröfum Formaco ehf.

Eins og áður er komið fram er í viðbótarumsögn Reykjavíkurborgar, dags. 13. júní 2003, svarað nokkrum

spurningum sem beint var til borgarinnar í bréfi ráðuneytisins frá 28. maí s.á. Í umsögninni eru einnig

rakin sjónarmið borgarinnar, lögð fram gögn og greint frá samanburði um verðlagningu á byggingarrétti í

einstökum tilvikum og kostnaði borgarinnar við að eignast byggingarland. Telur Reykjavíkurborg að af

þeim gögnum og samanburði megi glögglega sjá að kostnaður borgarinnar við að eignast land hafi í öllum

tilvikum verið hærra en það verð sem krafist hafi verið fyrir byggingarrétt að Fossaleyni og víðar. Einnig

er í umsögninni nefnt að Reykjavíkurborg sé ekki eini opinberi aðilinn sem leitist við að hámarka það

verðmæti sem felist í byggingarrétti, því íslenska ríkið hafi nýlega boðið út fjölda lóða í Reykjanesbæ,

sem búið sé að skipuleggja fyrir íbúðabyggð.

Í ljósi tilvísunar í bréfi ráðuneytisins til dóms Hæstaréttar í máli nr. 150/2000 bendir Reykjavíkurborg á

að samkvæmt dóminum sé sveitarfélögum heimilt að jafna kostnaði við tiltekin landakaup niður á

úthlutaðar lóðir, óháð því hvað stórum hluta landsins sé í raun úthlutað. Í umræddu máli úthlutaði

Hafnarfjarðarkaupstaður 33 íbúðarlóðum sem aðeins tóku til hluta af hinu eignarnumda landi en þrátt fyrir

það hafi kostnaði við eignarnám alls svæðisins verið jafnað niður á lóðirnar og lóðarhafar þannig greitt

fyrir landsvæði utan lóða sinna sem fór t.d. til gatna- og gangstígagerðar og opinna svæða. Með hliðsjón

af dómi Hæstaréttar telur Reykjavíkurborg sveitarfélögum því ekki aðeins heimilt að krefja lóðarhafa um

greiðslu á þeim kostnaði sem sveitarfélög verða fyrir við kaup á viðkomandi lóð, heldur einnig kostnaði

sveitarfélagsins við öflun þess hluta viðkomandi landsvæðis sem fari til opinberra nota. Þá sé með

dóminum staðfest að sala á byggingarrétti hafi farið fram á grundvelli samninga á sviði einkaréttar. Það er

sérstök málsástæða af hálfu Reykjavíkurborgar að umfjöllun um samninga á sviði einkaréttar eigi ekki

undir úrskurðarvald félagsmálaráðuneytisins enda sé í slíkum tilvikum ekki um að ræða

stjórnvaldsákvörðun.

Til viðbótar við framangreindar umsagnir Reykjavíkurborgar er í tölvubréfi frá fulltrúa borgarlögmanns,

dags. 20. júní 2003, bent á að ráðuneytið hafi áður fjallað um mál er varðaði sölu byggingarréttar. Er þar

vísað til máls varðandi Keiluhöllina í Öskjuhlíð, og telur borgarlögmaður ágreiningsefni þess máls

sambærilegt við það mál sem nú er til meðferðar hjá ráðuneytinu. Samkvæmt úrskurði ráðuneytisins,

dags. 16. nóvember 2001, vísaði ráðuneytið frá kæru vegna byggingarréttar við Keiluhöllina þar sem

ráðuneytið taldi sig ekki hafa úrskurðarvald í málinu og benti á að vísa bæri málinu til úrskurðarnefndar

um skipulags- og byggingarmál. Reykjavíkurborg vísar til þessa úrskurðar ráðuneytisins og krefst þess að

máli Formaco ehf. verði vísað frá ráðuneytinu þar sem mál þessi séu að öllu leyti sambærileg.

Eins og áður er fram komið ritaði ráðuneytið bréf til Reykjavíkurborgar, dags. 25. júní 2003, þar sem var

óskað nánari skýringa á frávísunarkröfu borgarinnar. Í bréfinu er fjallað stuttlega um dóma Hæstaréttar

sem gengið hafa um álagningu Hafnarfjarðarkaupstaðar á lóðaupptökugjaldi og lóðajöfnunargjaldi,

samanber mál nr. 150/2000 og 105/1992, og óskað viðhorfa Reykjavíkurborgar til þess hvort hin kærða

ákvörðun byggðist á svipuðum forsendum og þeim sem fjallað var um í umræddum dómum. Jafnframt

óskaði ráðuneytið eftir frekari upplýsingum um sölu byggingarréttar á lóðum við Fossaleyni og í næsta

nágrenni. Efni bréfsins er rakið í II. kafla þessa úrskurðar.

Svar Reykjavíkurborgar er dagsett 11. júlí 2003. Þar segir m.a. eftirfarandi:

„Í bréfi félagsmálaráðuneytisins er fjallað um nokkrar þeirra málsástæðna sem Reykjavíkurborg byggir

málatilbúnað sinn á en bréfinu fylgdu athugasemdir kæranda, dags. 6. júní s.l., við umsögn

Reykjavíkurborgar sem send var ráðuneytinu þann 21. maí s.l.

Í upphafi bréfsins er fjallað um frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar en samkvæmt bréfinu er það mat

ráðuneytisins að frávísun þess á máli Háspennu ehf. vegna sölu byggingarréttar við Keiluhöllina í

Öskjuhlíð geti ekki talist fordæmisgefandi í því máli sem nú er til umfjöllunar og hafnar ráðuneytið

frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar á þessum grundvelli. Í bréfinu er þannig tekin bein afstaða til

málsástæðu annars málsaðilans án þess að gagnaðila sé gefinn kostur á að tjá sig um hana og það áður en

málið er tekið formlega til úrskurðar eins og lög áskilja. Að gefnu tilefni er ofangreindu mati

ráðuneytisins alfarið mótmælt. Í báðum þessum málum er kærð ákvörðun borgarráðs og í báðum tilvikum

er um að ræða málskot vegna ágreinings um sölu Reykjavíkurborgar á byggingarrétti. Hið efnislega

innihald þessara tveggja mála er hið sama og í ljósi þess fordæmis sem gefið var með úrskurði

félagsmálaráðuneytisins þann 6. nóvember 2001 í máli Háspennu ehf., án sérstakrar takmörkunar eða

röksemda, telur Reykjavíkurborg að vísa beri máli þessu frá ráðuneytinu. Önnur niðurstaða er í algeru

ósamræmi við niðurstöðu ráðuneytisins í sambærilegu máli.

Í bréfi ráðuneytisins koma hins vegar víðar fram skoðanir þess til einstakra málsástæðna

Reykjavíkurborgar. Þannig er í bréfi ráðuneytisins fjallað um tvo dóma Hæstaréttar í tengslum við þá

málsástæðu Reykjavíkurborgar að vísa beri málinu frá þar sem sala á byggingarrétti sé samningur á sviði

einkaréttar. Í umfjöllun ráðuneytisins um þessa málsástæðu er m.a. að finna eftirfarandi:

"Af tilvitnuðum dómum verða tæplega dregnar svo víðtækar ályktanir að unnt sé án frekari

röksemda að slá því föstu að gjaldtaka sveitarfélaga af lóðarhöfum, hvort sem hún nefnist

lóðarupptökugjald, lóðarjöfnunargjald eða gjald fyrir sölu á byggingarrétti, geti ávallt talist byggð

á einkaréttarlegum samningum. Þvert á móti verður vart önnur ályktun dregin af dómi Hæstaréttar

í máli nr. 105/1992 en að því máli hafi viðkomandi sveitarfélag misfarið með valdheimildir sínar

með því að leggja á hærra lóðarjöfnunargjald en sem nam kostnaði sveitarfélagsins af að eignast

umrætt land."

 

Úrskurðaraðilinn er hér að tjá afstöðu sína til einstakra málsástæðna áður en málið hefur verið tekið til

úrskurðar og er svo að sjá sem ráðuneytið hafi þegar "forúrskurðað" í málinu. Er hér um mjög alvarlegan

ágalla að ræða á meðferð málsins hjá ráðuneytinu. Það er grundvallarréttur aðila að kærumáli sem skotið

hefur verið til æðra setts stjórnvalds að þeir fái notið hlutleysis úrskurðaraðilans um einstakar

málsástæður þar til allra gagna hefur verið aflað og málið tekið formlega til úrskurðar. Í ljósi þeirrar

afstöðu ráðuneytisins sem lesa má úr einstökum ummælum í bréfinu frá 25. júní s.l. og þeirra krafna sem

gera má til hlutlausrar málsmeðferðar úrskurðaraðila telur Reykjavíkurborg með vísan til 6. tl. 3. gr.

stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ráðuneytið sé nú vanhæft til þess að úrskurða í máli kæranda. Bréfið er

samið í umboði ráðuneytisins og lýsir afstöðu þess til málsins. Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr.

113/2001 er ráðuneytið vanhæft til að úrskurða í málinu og er þess krafist að afskiptum þess af málinu

ljúki þegar í stað.

Í bréfinu frá 25. júní s.l. er þess óskað að Reykjavíkurborg skýri betur sjónarmið sín í málinu m.a. með

vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 150/2000. Tilefni þess að Reykjavíkurborg benti á dóm Hæstaréttar í

framangreindu máli var að vekja athygli á ákveðnum meginatriðum sem þar koma fram og eru til

upplýsinga fyrir mál þetta og styðja þá skoðun Reykjavíkurborgar að samningar kæranda og borgarinnar

séu einkaréttarlegs eðlis þar sem lóðarhafi, af fúsum og frjálsum vilja, hefur fallist á að kaupa

byggingarrétt hinnar úthlutuðu lóðar. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 150/2000 er sérstaklega tekið fram að

sú starfsemi sveitarfélaga sem felst í því að kaupa lönd og úthluta úr þeim byggingarlóðum til einstakra

aðila sé ekki verkefni sem sveitarfélögum er skylt að sinna, sbr. 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr.

45/1998. Í dóminum lítur Hæstiréttur til viðkomandi úthlutunarskilmála og ákvæða lóðarleigusamnings

og bendir m.a. á að svokallað lóðarupptökugjald, sem fjallað var um í málinu, sé innheimt samkvæmt

þeim skilmálum sem um lóðina giltu. Þá hafi ákvæði um gjaldið verið tekið upp í lóðarleigusamninginn

og telur Hæstiréttur að með því að ganga að þeim lóðarleigusamningi hafi viðkomandi lóðarhafi

skuldbundið sig til að hlíta þeim skilmálum sem um lóðina giltu, þ.á.m. greiðslu upptökugjalds, enda var

lóðarhafa í sjálfsvald sett hvort hann sótti um lóð á þessum stað. Þá er því slegið föstu í niðurlagi

forsendna dómsins að upptökugjald megi innheimta án lagaheimilda.

Af forsendum Hæstaréttar má ráða að þær grundvallast á þeirri afstöðu að samskipti sveitarfélagsins og

viðkomandi lóðarhafa byggi á samningi sem sé einkaréttarlegs eðlis. Sá skilningur sækir ekki síður stoð í

sératkvæði eins dómarans í málinu en þar er beinlínis tekið fram að samningur áfrýjanda og

Hafnarfjarðarbæjar sé samningur einkaréttarlegs eðlis þótt gerður sé við opinberan aðila. Í sératkvæðinu

kemur einnig fram að lóðarleiga heyri fremur undir atvinnustarfsemi og fjárfestingar en eiginlega

stjórnsýslu og í ljósi þess að hér sé bærinn með einkaréttarlegum samningi að ráðstafa réttindum sem til

þess eru fallin að ganga kaupum og sölum og mynda verðmæti í höndum þeirra sem við taka er það mat

dómarans að ekki sé útilokað að lögum að stofnað sé með samningi til sérstakra greiðslna fyrir þessi

réttindi í formi annars en venjulegrar lóðarleigu. Telur því Reykjavíkurborg að dómur þessi sé skýrt

fordæmi um það að sala á byggingarrétti og þeir samningar sem að baki honum búa séu samningar á sviði

einkaréttar.

Í dómi þeim sem fjallað er um í bréfi ráðuneytisins í máli nr. 105/1992 vísar Hæstiréttur til

úthlutunarskilmála þar sem áskilið var sérstakt upptökugjald sökum kostnaðar við uppkaup á landi og

byggingum og var það mat dómsins í því máli að slíkt sé ekki óheimilt. Eins og bent er á í bréfi

ráðuneytisins taldi rétturinn hins vegar að svokallað lóðajöfnunargjald hafi ekki átt sér lagastoð. Hvort

sem litið er til dóms Hæstaréttar í máli nr. 150/2000 eða í máli nr. 105/1992 telur Reykjavíkurborg

óhjákvæmilegt að kærumál Formaco ehf. verði að skoða í víðara samhengi en leiða má af niðurstöðum

þeirra tilteknu mála sem Hæstiréttur hafði til umfjöllunar í framangreindum dómsmálum. Í þeim reyndi á

lögmæti gjaldtöku sem sveitarfélag áskildi sér vegna tiltekinna lóða, í öðru málinu í formi upptökugjalds

en í hinu í formi lóðarjöfnunargjalds og lágu mismunandi atvik og aðstæður að baki niðurstöðum þeirra. Í

báðum þessum málum reyndi á afmarkaða þætti tveggja lóðarúthlutana þar sem niðurstaðan virðist

einkum hafa oltið á ákvæðum þeirra úthlutunarskilmála sem þar lágu að baki.

Í máli Formaco er umfjöllunarefnið hvort sveitarfélagi sé heimilt að selja byggingarrétt lóða en við mat á

þeirri heimild hlýtur það að skipta máli hvort lóðarúthlutanir og þeir samningar sem að baki þeim búa

teljist samningar á sviði einkaréttar og hvort áskilnaður um gjald fyrir byggingarrétt samræmist því

meginhlutverki og skyldum sveitarfélaga að vinna í þágu hagsmuna íbúa þess og hámarka þau gæði sem

felast í eignum sveitarfélagsins. Engin lagaákvæði taka beinlínis til þessarar aðstöðu eða banna

sérstaklega sölu byggingarréttar. Í máli nr. 150/2000 svarar Hæstiréttur hins vegar framangreindum

spurningum játandi. Dómurinn í málinu er skýr, ítarlega rökstuddur og þar eru lögð til grundvallar

sjónarmið sem hafa verður til hliðsjónar við mat á því kærumáli sem hér er til umfjöllunar. Verður því að

líta svo á að fordæmi dómsins hljóti að vera mikið og víki eldra fordæmi að því leyti sem

umfjöllunarefnið er sambærilegt.

Sala byggingarréttar er ekki lögbundið verkefni sveitarfélaga og byggist á einkaréttarlegum og frjálsum

samningum við lóðarhafa. Ljóst má vera að Reykjavíkurborg er í samkeppni um þá aðila sem sækjast eftir

lóðum, ekki aðeins við einkaaðila heldur einnig nágrannasveitarfélögin en nánast enginn eðlismunur er á

því í dag hvort lóð sé keypt eða fáist úthlutað. Engar kvaðir eða skyldur hvíldu á kæranda til að þiggja

lóðina við Fossaleyni 8 í Reykjavík. Kærandi kaus hins vegar að gera það með þeim skilmálum sem um

hana giltu, þ.á.m. um greiðslur fyrir byggingarrétt en skilmálar þessir eru sambærilegir þeim sem gilda

um aðrar atvinnulóðir á þessu svæði. Engar lagareglur voru brotnar með þessu fyrirkomulagi. Þá hlýtur

það að vera í þágu hagsmuna íbúa sveitarfélagsins að þeir fái notið þess verðmætis sem felst í landi þess. Í

þessu sambandi kvartar kærandi í athugasemdum sínum frá 6. júní s.l. sáran undan því lóðarbraski sem

viðgengst á hinum almenna markaði og því yfirverði sem þar er á lóðum. Eins og kærandi bendir á er það

þekkt vandamál að þeir sem úthlutað hefur verið lóðum byggja sjaldnast sjálfir þær lóðir heldur ganga

þær kaupum og sölum. Tilgangur Reykjavíkurborgar með sölu á byggingarrétti er m.a. sá að leitast við að

tryggja, eftir því sem unnt er, að þeir aðilar sem ætla sér að byggja upp á viðkomandi lóð fái henni

úthlutað og tryggja að íbúar sveitarfélagsins fái notið einhvers hluta þeirra verðmæta sem sýnilega felast í

byggingarrétti lóða eins og lóðarbraskið ber vitni um. Reykjavíkurborg fær ekki séð hvernig aðrar reglur

geti gilt um sölu byggingarréttar en önnur fasteignatengd réttindi. Reykjavíkurborg hefur ítrekað bent á að

ágreiningsefni málsins, þ.e. hið eiginlega söluverð byggingarréttar, er hvorki þjónustugjald né skattur

heldur andvirði fjárhagslegra verðmæta sem eru háð eignarrétti og má ráðstafa með sölu eða veðsetningu.

Miðað við þær hugleiðingar sem fram koma í bréfi ráðuneytisins frá 25. júní s.l. má ætla að

sveitarfélögum sé þá ekki heldur heimilt að selja fasteignir sínar á markaðsverði heldur verði sveitarfélög

að selja fasteignir á því verði sem þær eru keyptar að viðbættum verðbótum. Þeim væri þannig óheimilt

að áskilja sér þær hækkanir sem orðið hefðu á viðkomandi fasteign á þeim tíma sem hún var í eigu

sveitarfélagsins. Slíkt fyrirkomulag er fjarstæðukennt að mati Reykjavíkurborgar.

Í þessu sambandi hefur félagsmálaráðuneytið óskað gagna um kostnað Reykjavíkurborgar af því að

eignast landið sem lóð kæranda stendur á. Samkvæmt upplýsingum mælingadeildar Reykjavíkurborgar er

lóð kæranda að öllum líkindum úr landi Korpúlfsstaða en með afsali, dags. 8. júlí 1943, seldi Thor Jensen

jarðirnar Korpúlfsstaði, Lambhaga, hluta úr jörðinni Keldum og Keldnaholti, hluta úr jörðinni Lágafelli

og jörðinni Varmá í Mosfellssveit, Arnarholt á Kjalarnesi og Þorláksstaðir í Kjós til Reykjavíkurborgar

fyrir 1.860.000 gkr. Upplýsingar liggja ekki fyrir um stærð hins selda landsvæðis en eftir því sem næst

verður komist má ætla með hliðsjón af byggingavísitölu og myntbreytingu að verð framangreindra jarða

væri um 137 mkr. að núvirði. Það er með engu móti unnt að líta einungis til kaupverðs og verðbóta á

landi sem keypt var fyrir 60 árum og stóð þá á landbúnaðarsvæði fjarri öllu þéttbýli svo ekki sé minnst á

fjölmarga aðra þætti sem áhrif hafa haft á kaupverð þessa lands frá þeim tíma sem þessi kaup fóru fram.

Það hlýtur að vera óhjákvæmilegt að líta til annarra og nýrri upplýsinga um kaupverð lands á sama svæði

svo finna megi út raunverulegt kostnaðarverð þess. Það er augljóst að hefði þriðji aðili, annar en

Reykjavíkurborg, keypt fyrrnefndar jarðir af Thor Jensen á sínum tíma og kærandi hefði svo keypt lóðina

við Fossaleyni 8 af þeim aðila myndi verð hennar ekki miðast við kaupverð samkvæmt afsali frá 1943 að

viðbættum verðbótum heldur myndi verð lóðarinnar miðast við eitthvað allt annað verð sem tæki mið af

núverandi aðstæðum. Í þessu sambandi hefur því Reykjavíkurborg lagt fram kaupsamninga, tilboð og

aðrar upplýsingar um kaup sveitarfélagsins á landspildum í Grafarvogi, Grafarholti og Norðlingaholti á

undanförnum árum enda er þar um að ræða mat á verðmæti lands í samræmi við nútímann og þá byggð

og skipulag sem nú er að finna í norðurhluta Reykjavíkurborgar. Þegar þau gögn eru skoðuð er verð

byggingarréttar á lóð kæranda síst of hátt eða umfram það verð sem slíkt land myndi kosta

Reykjavíkurborg, þriðja aðila og hvað þá heldur kæranda.

Miðað við þann þrönga skilning sem fram kemur í bréfi félagsmálaráðuneytisins frá 25. júní s.l., að

sveitarfélögum sé einungis heimilt við sölu á lóðum að miða við þann kostnað sem þau hafa haft af því að

eignast viðkomandi landsvæði vakna spurningar um framtíðarskipulag á landakaupum

Reykjavíkurborgar. Þannig má nefna að Reykjavíkurborg og Rauðhóll ehf. gerðu með sér samkomulag

um skipulag og uppbyggingu í Norðlingaholti en þessir aðilar voru fyrir stærstu landeigendur á svæðinu. Í

samræmi við samkomulagið hafa báðir aðilar keypt lóðir og landspildur í Norðlingaholti á undanförnum

árum svo hrinda megi skipulagi þess í framkvæmd og hefur Reykjavíkurborg þegar sent ráðuneytinu

kaupsamninga sem tengjast þessum áformum. Þann 27. júní s.l. voru opnuð tilboð í byggingarrétt vegna

fyrsta áfanga Norðlingaholts en boðnar voru út 22 einbýlishúsalóðir, 6 fjölbýlishúsalóðir og tvær lóðir

fyrir samtengd tvíbýlishús. Miðað við skilning ráðuneytisins um heimildir sveitarfélaga til sölu á

byggingarrétti verður þá að ætla að í samstarfsverkefni eins og þessu megi þá Rauðhóll ehf. áskilja sér

markaðsverð af sínu landi en Reykjavíkurborg ber að miða við það kaupverð sem það lagði í viðkomandi

land að viðbættum verðbótum en væri óheimilt að áskilja sér einhvern frekari arð líkt og samstarfsaðilinn.

Slík niðurstaða er að mati Reykjavíkurborgar fjarstæðukennd.“

V. Niðurstaða ráðuneytisins

 

Eins og áður er rakið hefur kærandi, Formaco ehf., gert þá kröfu í málinu að ákvörðun borgarráðs

Reykjavíkurborgar frá 7. janúar 2003, að leggja á gjald að fjárhæð 6.081.900 kr. fyrir sölu á

byggingarrétti við úthlutun byggingarlóðar að Fossaleyni 8 í Grafarvogi, verði úrskurðuð ógild. Kærði,

Reykjavíkurborg, hefur aðallega krafist þess að málinu verði vísað frá félagsmálaráðuneytinu en til vara

að kröfu kæranda verði hafnað. Að auki hefur kærði lýst þeirri skoðun sinni að ráðuneytið sé vanhæft til

að úrskurða í málinu og krafist þess að afskiptum þess af málinu ljúki. Túlka verður þessa kröfu svo að

kærði krefjist þess að félagsmálaráðherra víki sæti og að settur verði annar ráðherra í hans stað til að fjalla

um málið. Verður í A-lið þessa kafla fjallað um síðastnefndu kröfuna en í B-lið um frávísunarkröfu

kærða.

A. Krafa kærða um að félagsmálaráðherra víki sæti við meðferð málsins

 

Í viðbótarumsögn Reykjavíkurborgar frá 11. júlí 2003 er gerð sú krafa að félagsmálaráðherra víki sæti við

meðferð málsins vegna vanhæfis. Til stuðnings þessari kröfu er í umsögninni vísað til 6. tölul. 1. mgr. 3.

gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og dóms Hæstaréttar í svonefndu Stjörnugrísmáli, nr. 113/2001. Í því

máli var um það að ræða að umhverfisráðherra úrskurðaði í máli þar sem skotið var til úrskurðar

ráðuneytisins ákvörðun heilbrigðisnefndar Vesturlands um útgáfu starfsleyfis. Á meðal gagna sem hin

kærða ákvörðun var byggð á var álit sem starfsmaður umhverfisráðuneytisins hafði ritað í umboði

ráðherra, þar sem veittar voru leiðbeiningar um túlkun laga.

Krafa Reykjavíkurborgar er reist á því að draga megi óhlutdrægni ráðuneytisins í efa af þeirri ástæðu að í

bréfi ráðuneytisins frá 25. júní sl. hafi ráðuneytið „forúrskurðað“ í málinu með því að þar eru dregnar

ályktanir af tilteknum dómafordæmum Hæstaréttar. Tilgangur þeirra ályktana sem þar voru settar fram

var hins vegar fyrst og fremst sá að gefa Reykjavíkurborg kost á því að skýra betur sjónarmið sín varðandi

lagalega hlið málsins en borgarlögmaður hafði gert í fyrri umsögnum, og rökstyðja þar með kröfugerð

sína ítarlegar en þegar hafði verið gert. Hvorki er unnt að fallast á að orðalag bréfsins hafi gefið kærða

tilefni til þess að efast um óhlutdrægni félagsmálaráðherra né að tilvísun í framangreindan

Hæstaréttardóm tengist því máli sem hér er til úrlausnar, enda ekki um það að ræða að

félagsmálaráðuneytið hafi haft afskipti af málinu fyrr en eftir að stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu til

afgreiðslu. Verður því að hafna kröfu kæranda um að félagsmálaráðherra víki sæti við úrlausn málsins.

B. Frávísunarkrafa Reykjavíkurborgar

 

Krafa kærða um að málinu verði vísað frá ráðuneytinu var fyrst sett fram í viðbótarumsögn

Reykjavíkurborgar, dags. 13. júní 2003, og ítrekuð í tölvubréfi dags. 20. s.m. Frekari rök fyrir kröfunni

voru færð fram í viðbótarumsögn, dags. 11. júlí sl., að beiðni ráðuneytisins. Kærandi hefur kosið að tjá sig

ekki um kröfuna, samanber bréf hans dags. 26. júní 2003.

Frávísunarkrafan er á því byggð, samkvæmt viðbótarumsögn kærða, að ágreiningur um samninga á sviði

einkaréttar eigi ekki undir úrskurðarvald ráðuneytisins enda sé í slíkum tilvikum ekki um að ræða

stjórnvaldsákvörðun. Til stuðnings kröfunni er í fyrrgreindu tölvubréfi frá fulltrúa borgarlögmanns vísað

til úrskurðar félagsmálaráðuneytisins frá 16. nóvember 2001 varðandi Reykjavíkurborg (ÚFS 2001:164).

Í úrskurðinum segir m.a. eftirfarandi:

Ráðuneytið telur að unnt sé að fallast á það sjónarmið kærða að ágreiningur um túlkun

einkaréttarlegra samninga falli almennt utan úrskurðarvalds ráðuneytisins. Það mál sem hér er til

umfjöllunar fjallar þó ekki eingöngu um efni samnings frá árinu 1994 milli þáverandi eigenda

Keiluhallarinnar og Reykjavíkurborgar, heldur einnig um málsmeðferð borgarráðs við afgreiðslu á

umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir u.þ.b. 500 fermetra viðbyggingu við Keiluhöllina. Hefur

kærandi haldið því fram að með því að krefjast endurgjalds fyrir byggingarrétt á grundvelli

samningsins frá 1994 hafi borgaryfirvöld sett ólögmætt skilyrði fyrir úthlutun byggingarleyfis og

gerst með því sek um valdníðslu.

Umrædd málsástæða getur tvímælalaust verið grundvöllur stjórnsýslukæru. Það mál sem hér er til

umfjöllunar á þó ekki undir úrskurðarvald félagsmálaráðuneytisins heldur úrskurðarnefndar um

skipulags- og byggingarmál, á grundvelli 8. og 39. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.

Verður því að vísa málinu frá ráðuneytinu ex officio, þar sem kærunni er beint til rangs stjórnvalds.

Af framangreindri tilvitnun er ljóst að frávísunarúrskurður ráðuneytisins var ekki reistur á þeirri ástæðu

sem kærði byggir á í því máli sem hér er til umfjöllunar. Á þetta benti ráðuneytið kærða í bréfi sínu frá

25. júní sl., og óskaði eftir frekari rökstuðningi fyrir þeirri fullyrðingu kærða að hin kærða ákvörðun sé

einkaréttarlegs eðlis og falli þ.a.l. utan úrskurðarvalds ráðuneytisins.

Í svari Reykjavíkurborgar, dags. 11. júlí 2003, er vísað til þess að sala byggingarréttar sé ekki lögbundið

verkefni sveitarfélaga og byggist hún á einkaréttarlegum og frjálsum samningum við lóðarhafa. Einnig er

í svarinu vísað til þess að Reykjavíkurborg sé ekki aðeins í samkeppni við einkaaðila heldur einnig við

nágrannasveitarfélögin um þá aðila sem sækjast eftir byggingarlóðum. Þá bendir kærði á að kærandi hafi

kosið að þiggja lóðina við Fossaleyni 8 og það hafi hann gert með þeim skilmálum sem um hana giltu, þ.á

m. um greiðslur fyrir byggingarrétt, en þeir skilmálar séu sambærilegir við það sem gildir um aðrar

atvinnulóðir á þessu svæði. Telur kærði að ekki geti gilt aðrar reglur um sölu byggingarréttar en gilda um

önnur fasteignatengd réttindi og að söluverð byggingarréttarins geti hvorki talist þjónustugjald né skattur

heldur sé um að ræða andvirði fjárhagslegra verðmæta sem séu háð eignarrétti og megi ráðstafa með sölu

eða veðsetningu.

Varðandi dóma Hæstaréttar sem gengið hafa í svipuðum málum er þeirri skoðun lýst í svari

Reykjavíkurborgar að það mál sem hér er til úrlausnar verði að skoða í víðara samhengi en leiða megi af

niðurstöðum þeirra tilteknu mála sem Hæstiréttur hafði til umfjöllunar. Í þeim hafi reynt á lögmæti

gjaldtöku sem sveitarfélag hafði áskilið sér vegna tiltekinna lóða, í öðru málinu í formi upptökugjalds en í

hinu í formi lóðajöfnunargjalds, og hafi mismunandi atvik og aðstæður legið að baki niðurstöðu þeirra. Í

máli kæranda sé umfjöllunarefnið hins vegar hvort sveitarfélagi sé heimilt að selja byggingarrétt lóða en

við mat á þeirri heimild telur kærði skipta máli hvort lóðaúthlutanir og þeir samningar sem að baki búa

teljist samningar á sviði einkaréttar og hvort áskilnaður um gjald fyrir byggingarrétt samræmist því

meginhlutverki og skyldu sveitarfélaga að vinna í þágu íbúa þess og hámarka þau gæði sem felist í

eignum sveitarfélagsins. Telur kærði að Hæstiréttur hafi svarað báðum þessum spurningum játandi í dómi

sínum í máli nr. 150/2000. Lítur kærði jafnframt svo á að fordæmisgildi þess dóms hljóti að vera mikið og

að hann víki til hliðar eldra fordæmi í máli nr. 105/1992, samanber dómasafn Hæstaréttar 1994, bls. 947,

að því leyti sem umfjöllunarefnið sé sambærilegt. Í dómi Hæstaréttar í umræddu máli segir m.a.:

Samkvæmt málatilbúnaði aðila virðast þeir sammála um að heimild stefnda til að innheimta

upptökugjaldið styðjist ekki við beinar lagaheimildir um skatta eða þjónustugjöld. Það var hins

vegar innheimt samkvæmt framangreindum skilmálum fyrir úthlutun lóðanna á Einarsreit, sem

samþykktir voru í bæjarstjórn stefnda og áfrýjandi skuldbatt sig til að hlíta. Ákvæði um gjaldið var

einnig tekið upp í lóðarleigusamninginn og gekk áfrýjandi með þeim samningi að

úthlutunarskilmálum fyrir lóðinni.

Með viðtöku lóðarinnar með ákveðnum skilmálum, sem síðar voru bundnir í

lóðarleigusamningi, féllst áfrýjandi á að greiða þann kostnað, sem fólst í yfirtöku bæjarins á

lóðinni sem hann fékk úthlutað. Algengt er að bæjarfélög afli sér landa með kaupum eða

eignarnámi til þess að skipuleggja þar byggð og úthluta síðan sem byggingarlóðum til leigu fyrir

einstaklinga. Þetta heyrir þó ekki til verkefna sem sveitarfélögum er skylt að sinna samkvæmt lögum

í samræmi við 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Áfrýjanda var í sjálfsvald sett hvort

hann sótti um lóð á þessum stað. Verður að meta það svo að áfrýjandi hafi greitt upptökugjaldið

samkvæmt samningi, sem sé einkaréttarlegs eðlis þótt hann hafi verið gerður við opinberan aðila.

Ágreiningslaust er að í upptökugjaldinu fólst eingöngu sá kostnaður sem stefndi hafði af

yfirtöku áðurgreinds lands og eigna. Verður innheimtu þess samkvæmt því sem áður greinir ekki

jafnað til skatta eða þeirra þjónustugjalda, sem ekki verða á lögð nema samkvæmt skýrri

lagaheimild. Upptökugjalds var krafist af öllum sem fengu úthlutað lóðum á þessum stað.

Málaefnalegar ástæður geta legið til þess að innheimta slíkt gjald af sumum byggingarsvæðum en

öðrum ekki. Ekki liggur annað fyrir en að áfrýjandi hafi haft allar upplýsingar um byggingarsvæðið

og samanburð við önnur svæði þegar hann skrifaði undir lóðarleigusamninginn. Af því sem hér

hefur verið rakið leiðir að hvorki verður talið að áfrýjandi hafi ekki notið jafnræðis á við aðra

lóðarþega né að ógildingarregla 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda

löggerninga, svo sem henni var breytt með lögum nr. 11/1986 og lögum nr. 14/1995, eigi hér við.

Verður að fallast á það með stefnda að bæjarfélagið geti jafnað niður slíkum kostnaði á lóðarþega

með þeirri aðferð sem viðhöfð var. Ekki verður því talið að mæla hafi þurft fyrir um upptökugjald

þetta í lögum.

Að mati ráðuneytisins eru aðstæður um margt líkar í því máli sem kært hefur verið til ráðuneytisins og í

því máli sem fjallað er um í tilvitnuðum dómi Hæstaréttar. Aðstæður eru þó ekki að öllu leyti

sambærilegar. Þannig liggur fyrir að lóðum við Fossaleyni var almennt úthlutað á árunum 1997–1999,

þ.e. áður en Reykjavíkurborg hóf að innheimta sérstakt gjald fyrir sölu byggingarréttar á lóðum. Umrætt

gjald hefur því aðeins verið innheimt af tveimur lóðum við götuna, sem skilað var aftur til

Reykjavíkurborgar og þeim síðan endurúthlutað á árunum 2002–2003. Einnig er grundvöllur gjaldtöku

ekki jafn skýr í þessu máli eins og í því máli sem fjallað er um í dómi Hæstaréttar, þar sem svonefnt

upptökugjald nam nánast sömu fjárhæð og það kostaði hlutaðeigandi sveitarfélag að eignast

byggingarlandið. Samkvæmt viðbótarumsögn Reykjavíkurborgar frá 11. júlí 2003 eignaðist borgin land

það sem lóð kæranda stendur á árið 1943 og eru tengsl milli yfirtökuverðs og söluverðs byggingarréttar

ekki jafn augljós og í því máli sem fjallað var um í dómi Hæstaréttar.

Að öðru leyti verður að álykta út frá gögnum málsins að þau sjónarmið sem byggt var á í dómi

Hæstaréttar eigi einnig við í þessu máli. Verður þannig að álíta að kærandi hafi greitt gjald fyrir sölu

byggingarréttar á lóðinni að Fossaleyni 8 á grundvelli samnings sem var einkaréttarlegs eðlis þótt hann

væri gerður við opinberan aðila. Þá telur ráðuneytið að fallast verði á það með Reykjavíkurborg að ekki sé

eðlilegt að miða við þann kostnað sem Reykjavíkurborg hafði af því að eignast landið árið 1943. Að mati

ráðuneytisins hefur Reykjavíkurborg lagt fram gögn sem gefa til kynna að gjaldið sem innheimt var hafi

ekki numið hærri fjárhæð en sem nemur kostnaði borgarinnar af því að eignast jafn verðmætt

byggingarland í sama hverfi og að ekki hafi verið sýnt fram á það við meðferð málsins að kærandi hafi

ekki notið jafnræðis á við aðra sem sótt hafa um lóðir eftir að Reykjavíkurborg hóf að krefjast umrædds

gjalds. Þá verður ekki talið að gjaldinu verði jafnað til skatts eða þjónustugjalds og þarf því ekki

lagaheimild til að leggja það á lóðarhafa.

Með vísan til alls framangreinds verður að fallast á það með Reykjavíkurborg að umrædd gjaldtaka hafi

farið fram á grundvelli einkaréttarlegs samnings sem ekki sæti kæru til félagsmálaráðuneytisins skv. 103.

gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998. Ber því að vísa erindi kæranda frá ráðuneytinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kröfu Formaco ehf., um að ákvörðun Reykjavíkurborgar að leggja á gjald fyrir sölu byggingarréttar á

lóðinni Fossaleyni 8 í Reykjavík verði úrskurðuð ógild, er vísað frá félagsmálaráðuneytinu.

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

Afrit:

Reykjavíkurborg

2. september 2003 - Reykjavíkurborg - Gjald fyrir sölu byggingarréttar, einkaréttarlegur samningur, frávísun. (PDF)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta