Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Grímsnes- og Grafningshreppur - lögmæti breytinga reglna um ferðaþjónustu fyrir fatlaða: Mál nr. 28/2009

Ár 2009, 29. september er í samgönguráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 28/2009

A

gegn

Grímsnes- og Grafningshreppi

I. Aðild, kröfur, kæruheimild og kærufrestur

Með stjórnsýslukæru dags. 8. apríl 2009 sem barst ráðuneytinu þann 15. apríl s.á. kærði Valdís Brynjólfsdóttir, f.h. A Sólheimum, (hér eftir nefnd kærandi) þá ákvörðun Grímsnes- og Grafningshrepps að breyta reglum um ferðaþjónustu fatlaðra í uppsveitum Árnessýslu og Flóa.

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu:

nr.

1.

Stjórnsýslukæra dags. 8.4.09, ásamt eftirfarandi fylgigögnum:

1.

Bréf félagsþjónustu til kæranda dags. 19.3.09.

2.

Reglur um ferðaþjónustu fatlaðra, samþykktar í mars 2007.

3.

Tölvupóstar dags. 20. og 24.3.09.

4.

Umboð dags. 8. 4.09.

nr.

2.

Bréf ráðuneytisins til kæranda, dags. 28.4.09.

nr.

3.

Bréf ráðuneytisins til Grímsnes- og Grafningshrepps, dags. 28.4.09.

nr.

4.

Umsögn Grímsnes- og Grafningshrepps dags. 10.6.09 ásamt reglum um ferðaþjónustu fatlaðra, samþ. 3.2.09

nr.

5.

Bréf ráðuneytisins til kæranda dags. 15.6.09.

nr.

6.

Andmæli kæranda dags. 25.6.09

nr.

7.

Bréf ráðun. til kæranda og til Grímsnes- og Grafningshrepps, dags. 1.7.09.

nr.

8.

Afrit bréfs félags- og tryggm.rn. dags. 18. júní 2009 til Sólheima og til félagsþjónustu í uppsveitum Árnessýslu og Flóa.

nr.

9.

Tölvupóstur kæranda til ráðuneytisins dags. 8.7.09.



Kæra barst innan þriggja mánaða kærufrests 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki er ágreiningur um aðild. Um kæruheimild er vísað til 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Í uppsveitum Árnessýslu er sameiginleg félagsmálanefnd Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Bláskógarbyggðar og Flóahrepps. Nefndin sér m.a. um að gera tillögur að reglum um ferðaþjónustu fatlaðra í uppsveitum Árnessýslu og Flóa. Reglur um ferðaþjónustu fatlaðra sem ágreiningur máls þessa varðar voru settar af þessari sameiginlegu félagsmálanefnd og samþykktar þar 3. febrúar 2009 og síðan af sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps 6. mars 2009.

Þann 19. mars 2009 barst kæranda tilkynning félagsþjónustu í uppsveitum Árnessýslu og Flóa um nýjar reglur um ferðaþjónustu fatlaðra sem samþykktar höfðu verið á fundi félagsmálanefndar þann 3. mars 2009. Með tölvupósti þann 20. mars 2009 spurðist kærandi fyrir um aðrar breytingar á reglunum og óskaði eftir að fá upplýsingar um nýjar reglur. Beiðnin var ítrekuð með tölvupósti þann 24. mars 2009.

Þann 8. apríl 2009 kærði kærandi breytingar á reglum um ferðaþjónustu fatlaðra til ráðuneytisins. Móttaka kærunnar var staðfest með bréfi ráðuneytisins 28. apríl 2009 og þann sama dag send til umsagnar til sveitarfélagsins. Umsögn dags. 10. júní 2009 barst ráðuneytinu þann 12. júní s.á og var kæranda þann 15. júní sl. gefinn kostur á andmælum sem bárust síðan ráðuneytinu 25. júní 2009.

Ráðuneytinu bárust þann 28. júní 2009 bréf félags- og tryggingamálaráðuneytisins dags. 18. júní 2009 til félagsþjónustu í uppsveitum Árnessýslu og Flóa og til Sólheima. Með bréfum dags. 1. júlí 2009 var báðum aðilum tilkynnt um afgreiðslu málsins og að niðurstöðu væri að vænta í september 2009. Þann 8. júlí 2009 barst ráðuneytinu tölvupóstur frá kæranda en þar er að finna upplýsingar er varða mál sem ráðuneytið hafði áður kveðið upp úrskurð í.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru er fötlun kæranda lýst og að hann sé ekki fær um að ferðast um einn og óstuddur og þurfi þar af leiðandi á ferðaþjónustu fatlaðra að halda. Vísað er til þess að í 35. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 komi fram að sveitarfélögum beri að setja reglur um ferðaþjónustu fatlaðra. Í Grímsnes- og Grafningshreppi sé félagsþjónustu þannig háttað að samstarf er á milli sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu og Flóahrepps og sé það félagsþjónusta í uppsveitum Árnessýslu og Flóa sem setji reglur um ferðaþjónustu fatlaðra fyrir þau sveitarfélög sem eru í samstarfinu. Reynslan sé því miður sú að þrátt fyrir að reglur séu til staðar er ekki farið eftir þeim og ekki hafi tekist fyrir fatlaða íbúa Sólheima að fá þá ferðaþjónustu sem þeir eiga rétt á lögum samkvæmt.

Þann 19. mars sl. hafi kæranda borist bréf um nýjar og breyttar reglur sveitarfélagsins um ferðaþjónustu svæðisins og komi þar fram að helsta breytingin sé að ferðaþjónustan sé nú aðeins veitt innan marka sveitarfélaganna. Flóahreppur njóti þó undanþágu vegna legu sinnar en þar sé veitt ferðaþjónusta fyrir fatlaða á Selfoss. Í fyrri reglum hafi verið kveðið á um að þjónustusvæðið afmarkist af uppsveitum Árnessýslu og sveitarfélaginu Árborg. Ítrekað hafi verið óskað ítarlegri skýringa á breyttum reglur hvað varðar undantekninguna vegna Flóahrepps en þær ekki borist og á þeim tíma sem kært er séu reglurnar ekki komnar á vef sveitarfélagsins. Þann skilning megi leggja í breytingar að nú bjóðist fötluðum sem búa í Flóahreppi akstur á Selfoss en öðrum fötluðum íbúum í sveitarfélögum sem eru í samstarfinu bjóðist einungis akstur innan marka sveitarfélaganna sem samstarfið nær til.

Þetta hafi þá þýðingu fyrir kæranda að þurfi hún að sækja þjónustu sem ekki er í boði í sveitarfélögunum geti hún fengið akstur að hreppsmörkum milli Grímsnes- og Grafningshrepps og Árborgar eða að Soginu þar sem Þrastarlundur er. Lengra nái þjónustan í sveitarfélaginu þar sem hún býr ekki en rétt þykir að taka fram að margvísleg þjónusta sem kærandi er vanur að sækja á Selfossi er ekki í boði í sveitarfélögum í uppsveitum Árnessýslu.

Kærandi vísar máli sínu til stuðnings til 35. og 51. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 um skyldu sveitarfélaga til að sjá um ferðaþjónustu fatlaðra. Þá sé það hlutverk samgönguráðuneytisins að úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmála, sbr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Einnig er vísað til 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.

Tekið er fram að kærð sé sú ákvörðun sveitarfélagsins að breyta þjónustusvæðinu sem reglur um ferðaþjónustu fatlaðra ná til og tekið fram að ferðaþjónustan missi algjörlega marks ef Árborgasvæðið er ekki hluti af þjónustusvæðinu. Sú þjónusta sem kærandi þurfi að sækja utan Sólheima sé nánast öll á Selfossi og ekki í boði í þeim sveitarfélögum sem um ræðir. Þá er einnig gerð athugasemd við að sækja þurfi um ferðaþjónustu þrisvar á ári enda ljóst að ástand þeirra sem þurfa þjónustuna breytist ekki á nokkrum mánuðum. Það sé óásættanlegt að fatlaðir einstaklingar séu látnir bíða í óvissu með sína mál og settir í vinnu við umsóknir þrisvar á ári.

Í andmælum kærandi kemur fram að óljóst sé við hvaða önnur sveitarfélög reglurnar séu miðaðar. Sem dæmi megi nefna að reglur Árborgar miðast almennt við mörk sveitarfélagsins en undanþágur séu veittar t.d. vegna ferða til Reykjavíkur. Lýst er þeirri skoðun að sveitarfélaginu sé ekki stætt á að miða reglur sínar við reglur sveitarfélags eins og Árborg þar sem nánast öll þjónusta er til staðar en svo sé ekki hjá sveitarfélögum í uppsveitum Árnessýslu. Þá er tekið dæmi um að í reglum Reykjavíkur sé boðið upp á akstur milli sveitarfélaga. Þá kveðst kærandi hafa kannað reglur hjá nokkrum sveitarfélögum og séu þær ekki í samræmi við nýar reglur í Grímsnes- og Grafningshreppi. Um sé að ræða reglur Seltjarnarness, Sandgerðis, Garðs og Dalvíkur. Hjá þeim sveitarfélögum sé greinilega mikið lagt upp úr að veita góða þjónustu fyrir fatlaða íbúa en því miður eigi það ekki við um fatlaða íbúa í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Vakin er athygli á undantekningu sem gerð er fyrir Flóahrepp vegna legu hans við Selfoss. Í þessu felist mikið óréttlæti gagnvart fötluðum íbúum Grímsnes- og Grafningshrepps því sá hreppur hefur, eins og Flóahreppur, hreppsmörk sem liggja að Árborg. Með því sé félagsþjónusta sveitarfélagsins að taka sér það vald að velja og hafna fyrir fatlaða einstaklinga sveitarfélagsins og gera þannig upp á milli nauðsynlegustu erinda fólks.

Þá vísar kærandi til annarra kærumála sem voru til meðferðar hjá félagsmálaráðuneytinu vegna ferðaþjónustu annarra fatlaðra íbúa á Sólheimum þar sem lagt var fyrir sveitarfélagið að taka umsóknir til afgreiðslu á ný. Kærendur hafi hins vegar aldrei fengið niðurstöður þeirrar endurupptöku.

IV. Málsástæður og rök Grímsnes- og Grafningshrepps

Í málatilbúnaði Grímsnes- og Grafningshrepps kemur fram að sveitarfélagið gefi fötluðum kost á ferðaþjónustu eins og kveðið er á um í 35. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og hafi sveitarfélagið samvinnu við önnur sveitarfélög í uppsveitum Árnessýslu og við Flóahrepp um ferðaþjónusta fyrir þá íbúa sem ekki geta nýtt sér almenningsfarartæki. Gætt sé jafnræðis innbyrðis meðal fatlaðra íbúa sveitarfélaganna en þeir séu nú 43 talsins sem kunni að þurfa á þessari þjónustu að halda og búi þeir allir að Sólheimum. Reglur sveitarfélagsins séu settar samkvæmt 1. mgr. 35. gr. i.f. og 9. gr. laga nr. 59/1992.

Þær breytingar á reglum sem kæran lúti að hafi verið gerðar á fundi félagsmálanefndarinnar þann 3. febrúar 2009 og samþykktar af sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps 6. mars sl. Ástæða breytinga á þjónustusvæði væri einfaldlega sú að við skoðun og samanburð á samskonar reglum hjá öðrum sveitarfélögum kom í ljós að þar nær þjónustan að öllu jöfnu ekki út fyrir sveitarfélagið.

Hvað úthlutunartímabil þrisvar á ári varðar segir að þarfir hvers einstaklings að þessu leyti séu afar mismunandi eftir árstíðum. Hér sé um afar dýra þjónustu að ræða og mikilvægt sé að fjármunum sem til hennar sé varið nýtist sem best þeim sem raunverulega þurfa á þjónustunni að halda hverju sinni. Vakin er athygli á því að engin breyting er gerð á ferðum sem Grímsnes- og Grafningshreppur veitir fötluðum íbúum Sólheima í nám í Fjölmennt á Selfossi og heilsugæslu í Laugarási en í báðum tilvikum sé farið út fyrir mörk sveitarfélagsins. Þessar ferðir geti fatlaðir íbúar Sólheima nýtt sér án umsóknar eða mats á þörf.

Þá er vísað til þess að endurskoðun samnings við Sólheima standi nú yfir og telur sveitarfélagið afar mikilvægt að þar verði skýrt kveðið á um verkefni og þjónustu Sólheima.

V. Álit og niðurstaða ráðuneytisins

1. Í máli þessu er kærð sú ákvörðun sveitarfélagsins Grímsnes- og Grafningshrepps að breyta reglum um ferðaþjónustu fatlaðra í uppsveitum Árnessýslu og Flóa með þeim hætti að þjónustan er nú einungis veitt innan marka sveitarfélaganna. Lítur ráðuneytið svo á að gerð sé sú krafa af hálfu kæranda að nefnd breyting verði lýst ólögmæt og felld úr gildi.

2. Um málefni fatlaðra gilda lög nr. 59/1992 og fer félagsmálaráðherra með yfirstjórn þeirra, sbr. 3. gr. Í 5. gr. laganna segir að landinu sé skipt í starfssvæði um málefni fatlaðra og er í 6. gr. kveðið á um að á hverju svæði skuli starfrækt skrifstofa. Verkefni svæðisskrifstofa eru nánar talin í 12. gr. Ákveðin mál eru falin sveitarfélögum, þ.á.m. ferðaþjónusta sbr. 35. gr. Málefni fatlaðra eru þannig bæði á höndum ríkisins og sveitarfélaga og er yfirstjórn málaflokksins hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu. Löggjafinn hefur hins vegar ekki séð ástæðu til að kveða sérstaklega á um kæranleika ákvarðana sveitarstjórna hvað varðar málefni fatlaðra til þess ráðuneytis sem fer með málaflokkinn, þ.e. félags- og tryggingamálaráðuneytisins þar sem ekki er að finna kæruheimild í lögunum hvað varðar ákvarðanir sveitarstjórna sem teknar eru á grundvelli þeirra.

Málefni fatlaðra heyra ekki undir samgönguráðuneytið en hins vegar falla þar undir sveitarstjórnarmálefni. Kæruheimild hvað varðar ákvarðanir sveitarstjórna byggir á 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 en þar segir að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Undir það falla m.a. ákvarðanir sveitarstjórnar sem hafa áhrif á réttindi og skyldur aðila. Úrskurðarvaldið afmarkast hins vegar að því leyti að það verður að skoða í ljósi 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga sem segir að sveitarfélög ráði sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð, sbr. 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 sem kveður á um svokallaðan sjálfsstjórnarrétt sveitarfélaga en í honum felst að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Takmörkun úrskurðarvalds ráðuneytisins felst í því að það nær einungis til hinnar formlegu hliðar á ákvörðunum sveitarfélaga, þ.e. hvort gætt hafi verið lögfestra sem ólögfestra reglna stjórnsýsluréttarins við töku þeirra, en ekki til þeirra atriða sem byggja á hinu frjálsa mati sveitarfélaga. Þá telst ráðuneytið ekki æðra stjórnvald gagnvart sveitarfélögunum og hefur ekki heimild til að mæla fyrir um að það geri eitthvað eða láti eitthvað ógert. Afgreiðsla kærumáls þessa afmarkast því í samræmi við framangreint.

3. Ýmis málefni er varða rétt fatlaðra íbúa Sólheima í Grímsnes- og Grafningshreppi til ferðaþjónustu hafa um langt skeið komið til skoðunar hjá félags- og tryggingamálaráðuneytinu sem fagráðuneytis á þessu sviði. Hefur fagráðuneytið þegar komist að þeirri niðurstöðu að það sé sveitarfélagsins að sjá um þá lögbundnu ferðaþjónustu sem kveðið er á um í 35. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 og beri því að veita fötluðum íbúum Sólheima ferðaþjónustu samkvæmt ákvæðinu og setja sér reglur þar um. Þá hefur fagráðuneytið einnig ályktað að Sólheimar fái ekki greiðslur úr ríkissjóði til að standa straum af þjónustu sem löggjafinn hefur falið sveitarfélögum, þ.á.m. ferðaþjónustu fatlaðra samkvæmt lögum nr. 59/1992. Er nánari umfjöllun um þetta að finna í úrskurði samgönguráðuneytisins í máli nr. 84/2008 (08120067) uppkveðnum 25. júní 2009 og í máli nr. 19/2009 (SAM09030053) sem kveðinn var upp 28. september 2009.

Ekki er af hálfu samgönguráðuneytisins ástæða til að gera athugasemdir við þessar niðurstöður félags- og tryggingamálaráðuneytisins enda á málaflokkurinn undir það ráðuneyti og því á valdsviði þess að kveða á um hvernig framkvæmd laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992 skuli háttað. Álitaefni hvað það varðar fellur því ekki undir úrskurðarvald samgönguráðuneytisins samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

Ágreiningur málsins snýr ekki að því hvort sveitarfélagið skuli veita þessa þjónustu heldur með hvaða hætti það er gert, þ.e. þær reglur sem sveitarfélagið hefur sett sér um ferðaþjónustu fatlaðra. Eins og löggjafinn hefur ákveðið að afmarka úrskurðarvald samgönguráðuneytisins samkvæmt 103. telur ráðuneytið það ekki heyra undir úrskurðarvald sitt að kveða á um hvort reglur sveitarfélagsins séu efnislega í samræmi við lög um málefni fatlaðra nr. 59/1992. Í slíku álitaefni felist ekki vafaatriði varðandi framkvæmd sveitarstjórnarmálefna heldur sé um að ræða ágreining um framkvæmd og túlkun tiltekinna laga á ákveðnu fagsviði. Það sé því þess fagráðuneytis sem ber ábyrgð á málaflokknum, í þessu tilviki félags- og tryggingamálaráðuneytisins, að fjalla um og leysa úr slíkum ágreiningi.

Það sem fellur undir úrskurðarvald samgönguráðuneytisins í máli þessu er hvort ákvörðun sveitarfélagsins um breytingu á reglunum hafi verið tekin með formlega réttum hætti, þ.e. hvort ákvörðunin var tekin af réttu stjórnvaldi og hvort gætt var ákvæða stjórnsýsluréttarins við töku hennar, t.d. um málefnaleg sjónarmið og jafnræði, enda lítur ráðuneytið svo á að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi sveitarfélagið verið að beita stjórnsýsluvaldi.

Í því sambandi þykir rétt að benda á að við meðferð slíks valds sem stjórnsýsluvald er, er stjórnvaldið ávallt bundið af málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins enda grundvallaratriði að athafnir stjórnvalda séu lögmætar og málefnalegar. Stjórnvaldið verður því að fara vel með þetta vald sem það hefur í krafti lögmætrar stöðu sinnar og gæta þess að ákvarðanir þess byggist m.a. á málefnalegum sjónarmiðum, jafnræðis sé gætt og rétt staðið að undirbúningi og allri meðferð þeirra mála sem það hefur til meðferðar.

4. Í máli þessu liggur fyrir að sveitarfélagið hefur uppfyllt þá skyldu sem kveðið er á um í 35. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1002, að setja sér reglur um ferðaþjónustu fatlaðra. Reglur þessar fjalla um ferðaþjónustu fatlaðra í uppsveitum Árnessýslu og Flóa en þar er sameiginleg félagsmálanefnd Grímsnes- og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps, Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Bláskógarbyggðar og Flóahrepps. Reglurnar taka því til fatlaðra íbúa þessara sveitarfélaga.

Meðal gagna málsins eru reglurnar frá 2007, samþykktar af félagsmálanefnd uppsveita Árnessýslu þann 27. mars 2007 og staðfestar á fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps 17. apríl 2007. Þá liggja fyrir í málinu nýjar og breyttar reglur, samþykktar af félagsmálanefnd uppsveita Árnessýslu þann 3. febrúar 2009 og samþykktar af sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps þann 6. mars 2009. Eru það síðarnefndar reglur sem kært er vegna.

Eins og áður sagði telur ráðuneyti heyra undir úrskurðarvald sitt að fjalla um hvort reglurnar hafi verið settar með formlega réttum hætti af hálfu sveitarfélagsins. Í því felst m.a. hvort þær hafi verið samþykktar af þar til bærum aðila. Ekki er hins vegar gerður ágreiningur um það í málinu að samþykkt reglnanna hafi verið ábótavant og þær ógildar af þeim sökum. Álitaefni það sem er hér til úrskurðar er hvort við töku ákvörðunar um þá breytingu sem gerð var með nýjum reglum, um þjónustusvæði, var gætt meginreglna stjórnsýsluréttarins.

Það ákvæði reglnanna sem mál þetta snýr að er 6. gr. þar sem kveðið er á um þjónustusvæði og fyrirkomulag þjónustu. Þar segir m.a.: „Þjónustusvæði er innan marka sveitarfélaga í uppsveitum Árnessýslu hjá íbúum þar en innan hrepps og á Selfoss hjá íbúum Flóahrepps.“ Samkvæmt þessu takmarkast ferðaþjónusta fatlaðra við sveitarfélögin sem reglurnar taka til nema í Flóahreppi, þar geta íbúar einnig fengið akstur út fyrir mörk sveitarfélaganna, á Selfoss.

Eins og fram hefur komið snýr kvörtun kæranda einkum að því að ekki er lengur veitt ferðaþjónusta fyrir fatlaða íbúa í Grímsnes- og Grafningshreppi á Selfoss. Grundvallast málatilbúnaður kæranda á því að með breytingunni sé brotið á honum þar sem slík þrenging á ferðaþjónustu geri honum ómögulegt að sækja ýmsa þjónustu sem honum sé nauðsynleg. Með því séu lífsgæði hans verulega skert þar sem ýmis nauðsynleg þjónusta sé ekki veitt í uppsveitum Árnessýslu heldur þurfi að sækja hana annað. Breyttar reglur geri honum því ómögulegt að sækja ýmsa nauðsynlega þjónustu, t.d. tannlæknaþjónustu og sjúkraþjálfum, auk ýmiss konar persónulegrar þjónustu sem almennt þykir sjálfsögð. Myndi engu breyta þótt almenningssamgöngur væru til staðar í sveitarfélaginu þar sem kærandi sé ófær um að nýta sér þær.

Af hálfu sveitarfélagsins er breytingin studd með þeim rökum að verið sé að færa reglur sveitarfélagsins til samræmis við reglur annarra sveitarfélaga þar sem þjónustan nær að jafnaði ekki út fyrir sveitarfélagið. Þá telur sveitarfélagið að jafnræðis fatlaðra íbúa sé gætt.

5. Að virtu öllu framangreindu er það niðurstaða ráðuneytisins að Grímsnes- og Grafningshreppur hafi ekki að öllu leyti gætt málefnalegra sjónarmiða og meginreglna stjórnsýsluréttarins þegar hin kærða ákvörðun um breytingu á þjónustusvæði reglnanna var tekin.

Byggist sú niðurstaða einkum á því að með breytingunni sé jafnræðis meðal íbúa þeirra sveitarfélaga sem standa að reglunum ekki gætt. Íbúum sé mismunað með þeim hætti að íbúar eins sveitarfélagsins, Flóahrepps, geta fengið akstur á Selfoss en ekki íbúar annarra sveitarfélaga sem reglurnar ná til. Í því hljóti að felist verulegt ójafnræði, þar sem ýmis þjónusta sem talin er til almennra lífsgæða, auk þess sem önnur þjónusta tengd atvinnu, námi og tómstundum, er ekki veitt innan sveitarfélaganna heldur þarf að sækja út fyrir þau, t.d. á Selfossi. Með þrengingu á þjónustusvæði reglnanna sé því fötluðum íbúum sveitarfélaganna sem ekki búa í Flóahreppi gert ómögulegt að njóta þeirra lífsgæða sem þeir eiga rétt á. Ráðuneytið telur einnig vega þungt í þessu sambandi að fyrir liggur að innan Grímsnes- og Grafningshrepps er ekki að finna almenningssamgöngur við Selfoss þótt það skipti e.t.v. ekki máli í tilviki kæranda sem ekki getur nýtt sér þær.

Þá telur ráðuneytið að þau rök og sjónarmið sem Grímsnes- og Grafningshreppur færir fyrir breytingunni, að verið sé að samræma reglurnar reglum annarra sveitarfélaga, geti tæplega talist málefnaleg enda hafa engin gögn verið lögð fram af hálfu hreppsins þeim til stuðnings. Þvert á móti hefur kærandi lagt fram upplýsingar um hið gagnstæða. Telur ráðuneytið að þegar þjónustusvæði slíkra reglna er ákveðið verði að horfa til þess hvaða þjónusta er veitt innan sveitarfélagsins. Ef ekki er þar veitt þjónusta sem almennt verður að telja að fatlaðir íbúar þurfi á að halda, til að eiga þess kost að njóta venjulegra lífsgæða, geti sjónarmið um takmörkun þjónustusvæðis, byggt á þeirri forsendu að annað sveitarfélag takmarkar reglur sínar við sveitarfélagsmörk, aldrei eitt og sér verið málefnalegt og sanngjarnt.

Þótt það sé ekki hlutverk ráðuneytisins að skera úr um hvort reglurnar séu í samræmi við lög nr. 59/1992 telur það sér heimilt að benda einnig á að ekki verði séð hvernig umræddar reglur Grímsnes- og Grafningshrepps, svo afmarkaðar við tiltekið þjónustusvæði sem þær eru, fái samrýmst þeim markmiðum sem lögum nr. 59/1992 er ætlað að tryggja, þ.e. að fatlaðir einstaklingar njóti jafnréttis og sambærilegra lífskjara við aðra þjóðfélagsþegna og þeim séu sköpuð skilyrði til að lifa eðlilegu lífi.

6. Niðurstaða ráðuneytisins er því sú að hin kærða ákvörðun um takmörkun á þjónustusvæði reglna um ferðaþjónustu fatlaðra sé ólögmæt og af þeirri ástæðu ógild.

Ráðuneytið hefur áður, í fyrrnefndum úrskurðum sínum, fjallað um úthlutunartímabil og það óhagræði sem hlýst af því að þau eru þrjú á ári. Þykir því ekki ástæða til að fjalla frekar um það hér.

Vegna mikilla starfsanna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar í máli þessu dregist og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Fallist er á kröfu A, Sólheimum, um að ákvörðun Grímsnes- og Grafningshrepps um takmörkun þjónustusvæðis reglna um ferðaþjónustu fatlaðra í uppsveitum Árnessýslu og Flóa, eins og kveðið er á um í 6. gr. reglnanna, sé ólögmæt og telst ákvörðunin þar með ógild.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Svanhvít Axelsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta