Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Reykjavík - Afgreiðsla á fjárhagsáætlun þar sem ekki kom fram áætlun um efnahag í upphafi og lok árs

Guðlaugur Þór Þórðarson                           18. apríl 2000                        Tilvísun: FEL00010084/1001

Laxakvísl 19

110 Reykjavík

 

 

 

        Vísað er til erindis yðar til félagsmálaráðuneytisins, dagsett 24. janúar 2000, varðandi fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2000.

 

        Erindið var sent til umsagnar borgarstjórnar Reykjavíkur með bréfi, dagsettu 31. janúar 2000. Umsögn barst með bréfi frá 22. febrúar 2000.

 

        Í erindinu er tilgreint að ekki verði annað séð en að fjárhagsáætlunin brjóti í verulegum atriðum gegn sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998. Er aðallega vitnað til 5. mgr. 61. gr. laganna þar sem segir að í fjárhagsáætlun skuli koma fram áætlun um efnahag í upphafi og lok árs. Slíkt sé ekki í fjárhagsáætlun fyrir borgarsjóð eða borgarsjóð og stofnanir hans (samstæðuefnahagsreikning). Þessi annmarki hafi einnig verið á fjárhagsáætlun fyrir árið 1999. Óskað er eftir að ráðuneytið upplýsi hvort það telji fjárhagsáætlunina fyrir árið 2000 uppfylla skilyrði 61. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

        Í fyrrgreindri umsögn kemur fram að unnið hafi verið að endurbótum á fjárhags- upplýsingakerfi borgarinnar og vinnulagi og framsetningu við fjárhagsáætlun. Þær breytingar hafi það markmið að styrkja fjárhagsáætlunina sem stjórntæki í rekstri Reykjavíkurborgar. Á þessu ári verði áfram unnið að umbótum á vinnuferlum og framsetningu fjárhagsáætlunar meðal annars með tilliti til þess að sveitarstjórnarlög nr. 45/1998 áskilji ný vinnubrögð á ýmsum sviðum. Stefnt sé að því að í frumvarpi að fjárhagsáætlun fyrir árið 2001 verði áætlun um efnahag í upphafi og lok árs bæði fyrir borgarsjóð og þau fyrirtæki sem Reykjavíkurborg á eignarhlut í.

 

Niðurstaða ráðuneytisins

 

        Í sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 er að finna nýmæli í 5. mgr. 61. gr. um að í fjárhagsáætlun skuli koma fram áætlun um efnahag í upphafi og lok árs. Segir í athugasemdum við þá grein í frumvarpi til laganna að þetta nýmæli sé liður í því að styrkja fjárhagsáætlun sem mikilvægt stjórntæki í rekstri sveitarfélaga.

 

        Ljóst er af gögnum þessa máls að í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2000 er ekki að finna slíka áætlun og er það ekki í fullu samræmi við ákvæði 5. mgr. 61. gr. laganna. Ljóst er einnig af fjárhagsáætlunum annarra sveitarfélaga sem borist hafa ráðuneytinu að ekki eru þær allar í samræmi við umrætt lagaákvæði.

 

        Hins vegar hefur ráðuneytið hingað til ekki talið ástæðu til að telja þessar fjárhagsáætlanir ógildar af þeirri ástæðu einni að ekki sé í áætlunum að finna áætlun um efnahag í upphafi og lok árs. Ráðuneytið hefur talið eðlilegt að veita sveitarfélögum svigrúm til að aðlagast hinum nýju lagaákvæðum. Búast má þó við að ráðuneytið herði kröfurnar strax á næsta ári enda verða sveitarstjórnir þá að afgreiða þriðju fjárhagsáætlunina frá því að sveitarstjórnarlög nr. 45/1998 tóku gildi.

 

        Dregist hefur að svara erindinu vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

F. h. r.

 

Húnbogi Þorsteinsson (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 

 

Afrit: Borgarstjórn Reykjavíkur.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta