Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Sýslumaðurinn í Bolungarvík: Álagning og innheimta vanrækslugjalds. Mál nr. 55/1009

Þann 27. október 2009 er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður
í stjórnsýslumáli nr. 55/2009
A

gegn

sýslumanninum í Bolungarvík

I.          Aðild, kröfur, kærufrestur og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru dags. 17. ágúst 2009 kærði A, þá ákvörðun sýslumannsins í Bolungarvík (hér eftir nefndur sýslumaður), að hafna niðurfellingu vanrækslugjalds samkvæmt 67. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 8/2009 um skoðun ökutækja. Gerir A þá kröfu að vanrækslugjaldið verði fellt niður

Eftirfarandi skjöl liggja fyrir í málinu:

Nr. 1.    Stjórnsýslukæra dags. 17. ágúst 2009 ásamt tölvupóstum milli A og sýslumanns á tímabilinu 2. – 18. júní 2009.

Nr. 2.    Bréf ráðuneytisins dags. 25. ágúst 2009 til A, staðfest móttaka kæru.

Nr. 3.    Bréf ráðuneytisins til sýslumanns dags. 25. ágúst 2009, óskað umsagnar.

Nr. 4.    Umsögn sýslumanns dags. 28. september 2009.

Nr. 5.    Bréf ráðuneytisins til A dags. 30. september 2009, veittur andmælaréttur.

Nr. 6.    Andmæli A dags. 4. október 2009.

Nr. 7.    Bréf ráðuneytisins dags. 12. október 2009, til A og til sýslumanns, tilkynnt um afgreiðslu málsins.

Hin kærða ákvörðun, um höfnun niðurfellingar vanrækslugjalds, var tekin af sýslumanni og tilkynnt A, fyrst 3. júní og síðan aftur 18. júní 2009. Kæran barst því ráðuneytinu innan þriggja mánaða kærufrests, 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæruheimild er í 26. gr. stjórnsýslulaga og ekki er ágreiningur um aðild.

 

II.       Málsatvik

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Þann 1. júní 2009 tilkynnti sýslumaður A að lagt hafi verið á hann vanrækslugjald samkvæmt 67. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 8/2009 um skoðun ökutækja þar sem hann hafði ekki fært ökutækið B til skoðunar. Gjaldið væri að fjárhæð kr. 15.000 en lækkaði í 7.500 ef ökutækið yrði fært til skoðunar innan mánaðar.

Þá kemur fram að ökutækið hafi verið fært til skoðunar daginn eftir, 2. júní 2009, og fengið fulla skoðun. A hafi verið tjáð að greiða þyrfti vanrækslugjald en hann óskaði eftir fresti til að ræða við sýslumann. Hann hafi síðan þann sama dag, með tölvupósti, óskað eftir því við sýslumann að gjaldið yrði dregið til baka en þeirri beiðni verið hafnað með tölvupósti daginn eftir, 3. júní 2009. A hafi rökstutt beiðni sína enn frekar þann sama dag en aftur fengið höfnum sýslumanns þann 18. júní sl. 

A greiddi gjaldið kr. 7.500 með fyrirvara og kærði höfnun sýslumanns til ráðuneytisins þann 17. ágúst 2009. Móttaka kærunnar var staðfest af ráðuneytinu þann 25. ágúst 2009 og send sýslumanni til umsagnar þann sama dag. Umsögn barst 28. september sl. og var A gefið færi á andmælarétti þann 30. september 2009 og bárust andmæli þann 4. október.

Ráðuneytið tilkynnti síðan báðum aðilum þann 12. október sl. að fyrirhugað væri að úrskurða í málinu fyrir nóvemberlok.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

 

III.       Málsástæður og rök A

A færir eftirfarandi rök fyrir málatilbúnaði sínum.

1.  A kveðst hafa ætlað að mæta á réttum tíma í skoðun með ökutæki sitt og því pantað tíma um miðjan maí. Fyrsti lausi tími í Borgarnesi hafi hins vegar ekki verið fyrr en 2. júní 2009 og hann tekið þann tíma. Hann hafi því sannanlega verið búinn að panta tíma innan þess frests sem lög og reglugerð segja til um og hafi talið að það dygði til að sleppa við vanrækslugjaldið sem hann hafi vitað um.

2.  A telur að starfsmaður Frumherja sem tók við pöntun hans í maí hafi átt að gera honum viðvart um að vanrækslugjald legðist á ef bifreiðin væri ekki skoðuð fyrir 2. júní 2009 og grundvallist það á leiðbeiningarskyldu stjórnvalds samkvæmt stjórnsýslulögum. Þegar stjórnvald framvísi skyldum sínum til einkaaðila hljóti slík leiðbeiningarskylda að fylgja með. A kveðst enga viðvörun hafa fengið um fyrirhugað vanrækslugjald. Þá bendir hann á að í bréfi sýslumanns komi fram að Frumherji hafi sent áminningu um skoðunarskyldur en það hafi hins vegar farist fyrir í maí til þeirra sem eiga bifreið með endastafinn 3 í skráningarnúmeri. A kveðst vera einn þeirra sem hafi slíkt númer og hafi því ekki fengið áminninguna frá Frumherja.

3.  A vísar einnig til 8. gr. stjórnsýslulaga um útreikning frests. Á grundvelli þeirrar reglu sem þar kemur fram hafi dugað að færa ökutækið til skoðunar 2. júní sem var fyrsti virki dagur eftir hvítasunnu. A fellst ekki á þá skoðun sýslumanns að 8. gr. eigi ekki við þar sem ekki sé fjallað um fresti í reglugerðinni um skoðun ökutækja og því leggist gjaldið á þegar í upphafi mánaðar án tillits til þess hvaða dagur er og eigi reglur 8. gr stjórnsýslulaga um fresti þar af leiðandi ekki við. A telur þetta rangt því í reglugerðinni sé gefinn þriggja mánaða frestur og eigi 8. gr. stjórnsýslulaganna við um þetta eins og aðra fresti, önnur lög verði að taka mið af þessu. 

Verði niðurstaða ráðuneytisins að ekki sé um eiginlegan frest að ræða telur A jafnræðisreglu brotna gegn sér. Þá eigi meðalhófsreglan 12. gr. stjórnsýslulaga einnig við. A kveðst sannarlega hafa verið búinn að panta sér tíma í maí og mætt með ökutækið í skoðun fyrsta virka dag eftir að frestinum lauk. Það beri því að meðhöndla sig samkvæmt meðalhófsreglunni eða „með öðru og vægara móti“ eins og þar segi. Enda bendir A á að það hafi alls ekki verið ætlun hans að færa ökutækið ekki í skoðun en markmið laganna sé að ná í ökutæki í skoðun.

Í andmælum sínum áréttar A skoðun sína um að frestregla 8. gr. stjórnsýslulaganna eigi við og telur augljóst þegar I. kafli laganna er skoðaður að stjórnsýslulögin gildi um umferðarlög og þær reglugerðir sem settar eru á grundvelli þeirra laga. Stjórnsýslulögin taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og sé bifreiðaskoðun hluti af því ekki síður en innheimta og álagning vanrækslugjalds. 

Þá áréttar A að hann telur að Frumherja hafi borið að sinna leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga og vara við álagningu gjaldsins. Er í því sambandi bent á að upplýst sé að Frumherji gerði það þó það hafi ekki náð til A.

A tekur fram að hann geri ekki athugasemdir við kynningu reglugerðarinnar um álagningu vanrækslugjaldsins og viðurkennir að hann vissi vel um tilvist hennar. Enda hafi hann ekki haft neinar fyrirætlanir um að færa ökutækið ekki til skoðunar. Það að hann var búinn að panta tíma fyrir skoðun innan frestsins sýni vilja hans til að virða tímafresti. Því hafi verið óþarfi að leggja vanrækslugjaldið á hann og setja með því kæruferilinn af stað sem óneitanlega hafi í för með sér kostnað fyrir alla aðila. Einfaldara hefði verið að verða við beiðni hans um niðurfellingu gjaldsins og það miklu nær því sem stjórnsýslulögin gera ráð fyrir enda um að ræða mildari leið til að ná fram tilgangi laganna.

 

IV.        Málsástæður og rök sýslumanns

Í umsögn sýslumanns er ákvörðun um höfnun niðurfellingar gjaldsins rökstudd með eftirfarandi hætti.

Er vísað til 6. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja nr. 8/2009 þar sem eru skýr ákvæði um hvenær ökutæki skuli færð til skoðunar og hvenær leggja skuli vanrækslugjaldið á ef út af er brugðið. Þar sé fjallað um tímamörk sem veitt eru þeim sem ekki hafa átt þess kost að láta skoða ökutækið í skoðunarmánuði þess. Ákvæðið sé skýrt um afmarkaðan tíma eða tímabil sem menn hafa til að færa ökutækið til skoðunar án þess að gefið sé færi á að taka tillit til þess hvaða vikudagar eru í lok frests. Því sé það mat sýslumanns að 8. gr. stjórnsýslulaga um fresti geti ekki átt við um þetta enda ekki eiginlegur frestur nefndur í reglugerðinni og því e.t.v. ekki ítrustu nákvæmni gætt af hálfu sýslumanns með því að nota orðið „frestur“ í bréfaskrifum við A. 

Þá telur sýslumaður að ekki hvíli bein lagaskylda á Frumherja hf. eða öðrum sem sinna lögmæltri skoðun ökutækja að eiga frumkvæði að leiðbeiningum eins og A heldur fram. Það kunni þó að vera æskilegt en leiði ekki til að A geti byggt rétt sér til handa gagnvart sýslumanni á skorti á leiðbeiningum skoðunarfyrirtækisins. Fallast megi þó á með A að það felist ákveðin mismunun í því hjá fyrirtækinu að aðvara suma en ekki alla. Telji A sig hafa orðið fyrir bótaskyldu tjóni vegna þessa beri honum að snúa sér til fyrirtækisins með slíka kröfu.

Hvað varðar tilkynningu um álagningu gjaldsins bendir sýslumaður á að í 34. gr. reglugerðar um skoðun ökutækja sé ekki sérstakt ákvæði um tímamörk þótt tilkynna eigi eins fljótt og hægt er og án ástæðulauss dráttar. Það hafi verið gert í tilviki A en ekki sé hægt að senda tilkynningu um álagningu fyrr en eftir að þeim virka degi lýkur sem ökutækið skyldi síðast hafa verið fært til skoðunar samkvæmt reglugerðinni. 

Sýslumaður telur að jafnræðisreglan hafi ekki verið brotin á kæranda enda sæti allir með tilgreindan endastaf í bílnúmeri álagningu þegar í upphafi mánaðar. Samkvæmt reglugerðinni dugi ekki að hafa pantað tíma í skoðun áður en gjaldið leggst á og gildi sú regla gagnvart öllum. 

Vísað er til tilgangs reglnanna, að fækka óskoðuðum ökutækjum í umferð og hafi verið reynt að kynna reglurnar vel. Telur sýslumaður ekki gengið lengra en efni standi til í því skyni að ná fram því markmiði að eigendur ökutækja virði reglur og færi þau til skoðunar. Reglurnar séu nýjar og því ekki víst að allir hafi áttað sig á gjaldinu en í ljósi jafnræðisreglunnar sé ekki hægt að verða við óskum um niðurfellingu þess, sbr. tilvik A. 

 

V.       Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Í máli þessu deila aðilar um álagningu svokallaðs vanrækslugjalds á ökutæki sem ekki eru færð til skoðunar á réttum tíma. 

Um skoðun ökutækja er fjallað í reglugerð nr. 8/2009 um skoðun ökutækja, sbr.  60. og 67. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 44/1993. Þar segir í 3. gr. að ökutæki sem skráð eru hér á landi skuli færð til reglubundinnar skoðunar (aðalskoðunar) í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Í 6. gr. er fjallað um hvenær árs skuli færa ökutæki til skoðunar og segir þar m.a. eftirfarandi:

„Bifreið og eftirvagn skal færa til aðalskoðunar í þeim mánuði sem síðasti tölustafur á skráningarmerki ökutækis vísar til, sbr. þó 7. gr.  Þannig skal t.d. ökutæki með skráningarmerki sem endar á 1 fært til skoðunar í janúar og ökutæki með skráningarmerki sem endar á 0 í október. [?]

Hafi eigandi (umráðamaður) ökutækis ekki átt þess kost að færa ökutækið til aðalskoðunar í skoðunarmánuði þess, skal það gert í síðasta lagi fyrir lok annars mánaðar þaðan í frá“

Ökutæki A sem mál þetta fjallar um er með skráningarnúmerið B og bar því, samkvæmt framangreindu, að færa það til skoðunar í mars mánuði og í síðasta lagi fyrir lok maí mánaðar. Um það er ekki ágreiningur í málinu.

Ágreiningsefnið er álagning vanrækslugjalds þar sem ökutækið var ekki fært til skoðunar fyrir lok maí mánaðar. Greinir aðila einkum á um tímamark það sem skoðun ökutækisins gat farið fram án þess að vanrækslugjaldið yrði lagt á og þar með heimild sýslumanns til að fella gjaldið niður með hliðsjón af jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins og tilgangsins að baki reglunum um gjaldið.

Um vanrækslugjaldið er kveðið á um í VI. kafla reglugerðarinnar nr. 8/2009 og segir m.a. í 37. gr. eftirfarandi:

„Leggja skal á gjald, vanrækslugjald, sem eigandi (umráðamaður) ökutækis, sbr. 3. mgr. 3. gr., skal greiða við aðalskoðun eða endurskoðun ef ökutæki er ekki fær til:

a.  aðalskoðunar fyrir lok annars mánaðar frá því er ökutækið skyldi fært til aðalskoðunar samkvæmt reglugerðinni;

[?]

Vanrækslugjald skal vera að fjárhæð 15.000 kr.  Sé gjaldið greitt og ökutæki fært til skoðunar, eftir atvikum aðalskoðunar eða endurskoðunar, innan mánaðar frá því að það var lagt á, skal það lækka í 7.500 kr. [?]“

Þá segir m.a. í 38. gr. um álagningu og innheimtu vanrækslugjalds:

„Sýslumaðurinn í Bolungarvík annast álagningu og innheimtu vanrækslugjalds.

[?]

Hafi vanrækslugjaldið ekki verið greitt innan tveggja mánaða frá álagningu þess, skal það innheimt.  Mótbárur eða varnir vegna álagðs gjalds skulu hafa borist sýslumanninum í Bolungarvík innan sama tíma.

Taki sýslumaður mótbárur og varnir vegna álagningar vanrækslugjalds gildar, getur hann fellt gjaldið niður.[?]“

Samkvæmt þessu leggst gjaldið á ef ökutækið er ekki fært til skoðunar innan tímamarka sem greinir í áðurnefndri 6. gr., þ.e. þegar tveir mánuðir eru liðnir frá þeim mánuði sem færa skyldi ökutækið til skoðunar samkvæmt skráningarnúmeri þess. Þá liggur fyrir að það er sýslumaðurinn í Bolungarvík sem leggur gjaldið á og innheimtir það og er honum einnig falið vald til að ákveða að fella það niður í einstökum tilvikum.

Eins og áður sagði átti að færa bifreið A til skoðunar í mars sl. en frestur til þess var út maí mánuð. Mánaðamót maí og júní 2009 báru upp um hvítasunnuhelgina þannig að 30. maí var laugardagur, hvítasunnudagur var sunnudagurinn 31. maí og annar í hvítasunnu mánudagurinn 1. júní. A átti tíma fyrir bifreið sína í skoðun þriðjudaginn 2. júní sl. og var bifreiðin skoðuð þann dag og hann krafinn um vanrækslugjaldið þar sem komið var fram yfir tíma. 

Hér greinir aðila á um hvernig afmarka skuli tímabil sem færa má ökutæki til skoðunar þegar mánaðamót ber upp á frídaga/helgidaga og þá hvenær vanrækslugjaldið skuli lagt á. Í því sambandi snýr ágreiningurinn að því hvort 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á við um þetta, þ.e. hvort tímabil sem getið er um í reglugerðinni teljist frestur.

Í 8. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um útreikning fests og er ákvæðið svohljóðandi:

„Þar sem kveðið er á um frest í lögum telst sá dagur, sem fresturinn er talinn frá, ekki með í frestinum.

Ef lokadagur frests er almennur frídagur lengist fresturinn til næsta opnunardags þar á eftir.  Að öðru leyti ber að telja frídaga með sem eru innan frestsins þegar fresturinn er reiknaður.“

Um ákvæði þetta segir svo í greinargerð með frumvarpinu að þetta sé skýringarregla á því hvernig reikna beri út fresti í lögum sem taldir eru í dögum og varða stjórnsýsluna. Ákvæðið gildi um útreikning frests í lögum sem stjórnvöld beita þegar taka á ákvörðun um rétt eða skyldu manna og gera verði ráð fyrir að nota megi það með lögjöfnun um útreikning frests í stjórnvaldsfyrirmælum þegar ákvörðun er tekin um rétt eða skyldu manna.

Þá segir að endi frestur á almennum frídegi lengist hann til næsta virka dags t.d. ef lok kærufrests eru á laugardegi þá lengist fresturinn fram til næsta virka dags á eftir (yfirleitt næsta mánudags). 

Í málatilbúnaði sínum færir sýslumaður rök fyrir að tímamörk í reglugerð nr. 8/2009 séu ekki frestir í skilningi 8. gr. stjórnsýslulaga heldur sé um skýrt afmarkaðan tíma eða tímabil að ræða sem menn hafa til að færa ökutæki sín til skoðunar og ekki sé gert ráð fyrir að tekið sé tillit til þess hvaða vikudagar eru í lok frestsins. Þá sé eiginlegur frestur ekki nefndur í reglugerðinni en ef svo væri mætti án efa styðjast við ákvæði 8. gr. stjórnsýslulaganna.

Ráðuneytið fellst ekki á með sýslumanni að tímamörk þau sem getið er um í reglugerð nr. 8/2009 um það hvenær færa skuli ökutæki til skoðunar teljist ekki frestur í skilningi 8. gr. stjórnsýslulaganna. Í reglugerðinni sé kveðið á um ákveðinn frest sem menn hafa til að færa ökutæki til skoðunar og skipti ekki máli þótt orðið frestur sé ekki notað. Tímabilið sem reglugerðin kveður á um eigi sér upphaf og endi og þurfi að ljúka skoðuninni innan þess. Þá telur ráðuneytið ekki heldur skipta máli þótt ekki sé ákveðinn fjöldi daga tilgreindur heldur mánuðir og bendir á að óumdeilt sé að 8. gr. stjórnsýslulaga gildi um kærufresti samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga en þar eru frestir taldir í mánuðum en ekki ákveðnum dagafjölda. 

Þótt kveðið sé á um álagningu gjaldsins í reglugerð þá telur ráðuneyti ákvörðun sýslumanns um álagningu þess vera stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga enda gert ráð fyrir að sýslumaður geti fellt gjaldið niður, sbr. 4. og 5. mgr. 38. gr. reglugerðarinnar og hafi þannig að einhverju leyti mat um álagningu þess. Skýrt er í skýringum við ákvæðið í greinargerð að það telst gilda um útreikning frests þegar stjórnvöld taka stjórnvaldsákvörðun og telur ráðuneytið 8. gr. því eiga við í máli þessu.

Eins og áður sagði segir í reglugerðinni að þeim tíma sem menn hafa til að láta skoða ökutæki sín ljúki þegar tveir mánuðir eru frá lokum þess mánaðar sem skoðun skyldi fara fram í. Í tilviki A lauk fresti þessum í lok maí en tvo síðustu daga mánaðarins bar upp á helgi sem auk þess var hvítasunnuhelgin og þar með var fyrsti dagur næsta mánaðar á eftir einnig frídagur. Samkvæmt 8. gr. stjórnsýslulaga lengist frestur til næsta virka dags (opnunardags) þar á eftir ef lokadag ber upp á frídag. Ráðuneytið telur því að frestur sem A hafði til að færa bifreið sína til skoðunar hafi verið til 2. júní 2009, að þeim degi meðtöldum. Því komi ekki til skoðunar í máli þessu hvort fullnægjandi sé, til að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar um skoðunartíma, að panta tíma í skoðun á tímabilinu.

Fyrir liggur að A átti pantaðan tíma í skoðun þann 2. júní 2009 og var bifreiðin skoðuð þann dag. Það er mat ráðuneytisins, að virtu öllu því sem að framan er rakið, að bifreið A hafi verið skoðuð innan þess tímafrests sem greinir í reglugerð nr. 8/2009. Því séu ekki lagaskilyrði fyrir álagningu vanrækslugjaldsins og beri að fella það niður. 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

 

Fallist er á kröfu A um að fella niður vanrækslugjald samkvæmt 37. gr. reglugerðar nr. 8/2009 um skoðun ökutækja, að fjárhæð kr. 7.500, sem lagt var á bifreið hans B.

  

Ragnhildur Hjaltadóttir

  

Svanhvít Axelsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta