Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Reykjavíkurborg - Afgreiðsla þriggja ára áætlunar, áhrif þess að farið er fram yfir tímafrest skv. 63. gr. sveitarstjórnarlaga

Björn Bjarnason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins       4. mars 2003                    FEL03020099/1001

Háuhlíð 14

105 Reykjavík

Vísað er til bréfs yðar, dags. 26. febrúar 2003, varðandi afgreiðslu borgarstjórnar Reykjavíkurborgar á þriggja ára áætlun sveitarfélagsins. Fram kemur í bréfinu að fjárhagsáætlun borgarinnar var endanlega afgreidd í janúar 2003 en fyrirhugað er að þriggja ára áætlun verði afgreidd á fundum borgarstjórnar sem haldnir verða 6. og 20. mars nk. Eru í bréfinu gerðar athugasemdir við að áætlunin skuli ekki vera afgreidd innan þess frests sem veittur er í 63. gr. sveitarstjórnarlaga, þ.e. innan mánaðar frá afgreiðslu fjárhagsáætlunar. Þá kemur fram að borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa óskað eftir áliti borgarlögmanns á því hvaða áhrif það hefur á gildi þriggja ára áætlunarinnar að umræddu lagaákvæði hafi ekki verið fylgt.

 

Í bréfi yðar er óskað leiðsagnar félagsmálaráðherra við túlkun sveitarstjórnarlaga að því er varðar þau álitaefni sem nánar eru tilgreind í bréfi yðar, þ.á m. um það hvort ráðuneytinu sé heimilt að veita undanþágu frá þeim fresti sem tilgreindur er í 63. gr. sveitarstjórnarlaga og hvort slík undanþága tryggi lögmæti þriggja ára áætlunar, auk fleiri atriða sem þar eru nefnd. Þykir af því tilefni ástæða til að fara nokkrum orðum um ýmis þau atriði er varða afgreiðslu þriggja ára áætlunar.

 

Eins og fram kemur í 63. gr. sveitarstjórnarlaga skal sveitarstjórn árlega semja og fjalla um þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélagsins. Áætlunin skal vera rammi um árlegar fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins og skal hún unnin og afgreidd af sveitarstjórn innan eins mánaðar frá afgreiðslu fjárhagsáætlunar skv. 61. gr. laganna. Samkvæmt 66. gr. sveitarstjórnarlaga skal strax að lokinni afgreiðslu sveitarstjórnar senda ráðuneytinu fjárhagsáætlun skv. 61. gr. og þriggja ára áætlun skv. 63. gr. laganna. Sama á við um endurskoðaða áætlun eða breytta, sbr. 62. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

Ráðuneytið lítur svo á að í umræddum ákvæðum sé undirstrikað mikilvægi fjárhagsáætlana sveitarfélaga og er eðlilegt að sveitarstjórnir afgreiði fjárhagsáætlun og þriggja ára áætlun innan þeirra tímafresta sem þeim er ætlað samkvæmt lögum. Þó geta ýmsar ástæður leitt til þess að afgreiðsla fjárhagsáætlunar dragist og er ráðuneytinu heimilt skv. 1. mgr. 61. gr. sveitarstjórnarlaga að veita sveitarstjórn lengri frest til að skila fjárhagsáætlun, þegar brýnar ástæður eru fyrir hendi. Hefur ráðuneytið lagt áherslu á að sveitarstjórnir óski formlega eftir fresti til að ljúka gerð fjárhagsáætlunar telji þær ekki unnt að afgreiða hana innan þeirra tímamarka sem tilgreind eru í 61. gr.

 

Ráðuneytið hefur ekki heimild skv. 63. gr. sveitarstjórnarlaga til að veita sveitarstjórnum lengri frest til afgreiðslu þriggja ára áætlunar en mælt er fyrir um í ákvæðinu. Þrátt fyrir það eru á hverju ári allmörg sveitarfélög sem tilkynna ráðuneytinu að ekki sé unnt að afgreiða þriggja ára áætlun lögboðins frests og hefur ráðuneytið ekki talið ástæðu til að grípa til aðgerða gagnvart sveitarstjórnum þegar einungis er um lítilsháttar drátt að ræða. Þess í stað hefur ráðuneytið staðfest móttöku tilkynningar og upplýst viðkomandi sveitarfélag um að tekið verði að svo stöddu tillit til þeirra ástæðna sem fram koma í tilkynningu.

 

Rétt er að taka fram að þótt afgreiðsla sveitarstjórnar dragist hefur það engin áhrif á gildi fjárhagsáætlunar heldur getur slíkur dráttur fyrst og fremst haft þau áhrif að heimild skorti til að inna af hendi greiðslur  úr sveitarsjóði. Sama máli gegnir um þriggja ára áætlun. Þær heimildir sem ráðuneytið getur gripið til gagnvart sveitarstjórnum sem ekki virða þá fresti sem veittir eru í lögum eru því eingöngu hin almennu úrræði skv. 102. gr. sveitarstjórnarlaga, þ.e. að veita sveitarstjórn áminningu og skora á hana að bæta úr vanrækslunni. Sömu heimildir gilda að því er varðar eftirlit ráðuneytisins með því að fjárhagsáætlanir séu á því formi sem mælt er fyrir um í lögum og í reglugerð um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 944/2000, með síðari breytingum. Verði sveitarstjórn ekki við áskorun ráðuneytis er síðan eftir atvikum heimilt að stöðva greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og krefjast dagsekta af þeim sem ábyrgð bera á vanrækslunni.

 

Að lokum skal þess getið að sveitarstjórnir hafa ítrekað komið því á framfæri við ráðuneytið að sá frestur sem veittur er í 63. gr. sveitarstjórnarlaga sé of skammur og hefur félagsmálaráðherra nú brugðist við þeim ábendingum með því að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 45/1998, með síðari breytingum, þar sem m.a. er gert ráð fyrir því að framvegis verði heimilt að afgreiða þriggja ára áætlun tveimur mánuðum eftir að fjárhagsáætlun hefur hlotið afgreiðslu.

 

 

F. h. r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

Afrit:

Reykjavíkurborg

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta