Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Vestmannaeyjabær - Ábyrgðaveiting til sameignarfélags, skortur á að ábyrgða og skuldbindinga sé getið í ársreikningi sveitarfélags o.fl.

Vestmannaeyjabær                                16. apríl 2003                FEL02090035/16-8000

Ingi Sigurðsson, bæjarstjóri

Ráðhúsinu

900 VESTMANNAEYJUM

 

Hinn 16. apríl 2003 var í félagsmálaráðuneytinu, með vísan til 1. mgr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, með síðari breytingum, kveðið upp svohljóðandi

 

álit:

 

Með bréfi, dags. 2. janúar 2003, var Vestmannaeyjabæ tilkynnt að ráðuneytið hefði ákveðið að taka málefni Þróunarfélags Vestmannaeyja (hér eftir nefnt ÞV) og tengsl félagsins við Vestmannaeyjabæ til athugunar og óska eftir skýringum frá bæjarstjórn á ýmsum atriðum sem málið varða. Erindi sama efnis var einnig sent stjórn ÞV og endurskoðanda Vestmannaeyjabæjar, sem jafnframt er endurskoðandi ÞV. Svör hafa borist frá öllum framangreindum aðilum og að auki hafa fulltrúar V-lista í bæjarstjórn Vestmannaeyja sent ráðuneytinu athugasemdir sínar. Verður í áliti þessu vitnað til þess sem fram kemur í skýringum þessara aðila eftir því sem við á.

 

Meðan á athugun ráðuneytisins stóð yfir hefur nýr meirihluti B-lista framsóknarmanna og óháðra og V-lista Vestmannaeyjalistans tekið við stjórn Vestmannaeyjabæjar. Rétt er að taka fram að þar sem í áliti þessu er vísað til umsagnar bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar er átt við umsögn fráfarandi meirihluta B-lista framsóknarmanna og óháðra og D-lista sjálfstæðismanna.

 

I.          Málavextir

 

1.      Um ÞV

ÞV hóf starfsemi 1. september 1996. Stofnaðilar voru Vestmannaeyjabær, hafnarsjóður Vestmannaeyja, bæjarveitur Vestmannaeyja og Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum. Átti bæjarsjóður 40% hlut en hinir eignaraðilarnir 20% hver. Samtals átti Vestmannaeyjabær og stofnanir hans því 80% hlut í ÞV allt þar til samið var um kaup Hitaveitu Suðurnesja hf. á bæjarveitum Vestmannaeyja í ársbyrjun 2002, en þá yfirtók Hitaveita Suðurnesja hf. 20% eignarhlut bæjarveitnanna í ÞV.

 

Miklar breytingar urðu nýverið á eignarhaldi ÞV því í desember 2002 og janúar 2003 staðfesti bæjarstjórn Vestmannaeyja samninga um að bærinn yfirtæki eignarhluta Hitaveitu Suðurnesja hf. og hafnarsjóðs Vestmannaeyja í félaginu. Á Vestmannaeyjabær nú 80% hlut í ÞV en Rannsóknasetur Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum 20%.

 

Samkvæmt 1. gr. stofnsamnings ÞV er félagið sameignarfélag. Samkvæmt 2. gr. ábyrgjast eigendur skuldir félagsins einn fyrir alla og allir fyrir einn. Þar er einnig kveðið á um að stofnanir Vestmannaeyjabæjar leggi félaginu til rekstrarfé sem ákvarðað verði í fjárhagsáætlun bæjarins í upphafi hvers árs. Rannsóknasetur Háskóla Íslands leggur félaginu til aðstoð og aðstöðu sem metið er sem framlag stofnunarinnar til félagsins. Gert er ráð fyrir að aðilar geri með sér sérstakt samkomulag um þessa fjármögnun.

 

Samkvæmt 3. gr. stofnsamningsins er tilgangur félagsins að efla jákvæða þróun atvinnustarfsemi í Vestmannaeyjum með því m.a. að afla upplýsinga og miðla til einstaklinga og atvinnufyrirtækja, veita rekstrartæknilega ráðgjöf, stuðla að nýjungum og standa fyrir námskeiðum. Í ákvæðinu er tilgreint að til að ná markmiðum sínum skuli félagið m.a. vera tengiliður milli aðila í Vestmannaeyjum annars vegar og tækni- og þjónustustofnana, opinberra stofnana og annarra sem stuðlað geta að atvinnuuppbyggingu í Vestmannaeyjum hins vegar.

 

Samkvæmt 5. gr. stofnsamningsins er hlutverk framkvæmdastjóra félagsins að annast daglegan rekstur og fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem framkvæmdastjórn félagsins markar. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar. Framkvæmdastjóri er ábyrgur fyrir fjármálum og bókhaldi félagsins.

 

Í 7. gr. stofnsamnings segir að félagsaðilum sé heimilt að fylgjast með rekstri félagsins og bókum þess á hverjum tíma. Reikningsskil miðast við áramót og skal uppgjöri lokið fyrir lok aprílmánaðar næsta árs. Endurskoðandi og skoðunarmenn Vestmannaeyjabæjar annast endurskoðun reikninga félagsins.

 

Samkvæmt 8. gr. stofnsamningsins getur hver félagsaðili sagt samningnum upp með sex mánaða fyrirvara og skal uppsögn miðast við áramót. Skulu reikningar þá gerðir upp miðað við áramót og eignum skipt milli félagsaðila. Eigi félagið ekki fyrir skuldum skal það sem upp á vantar greitt af félagsaðilum í hlutfalli við eignarhlut, jafnskjótt og reikningsskilum er lokið. Ef einhverjir eignaraðilar vilja halda starfseminni áfram skal þeim heimilt að taka við starfseminni eins og hún er með eignum og skuldum og halda henni áfram með sama firmanafni, gegn því að greiða þeim sem upp hefur sagt hlut hans samkvæmt efnahagsreikningi innan eins árs frá lokum reikningsskila.

 

Í athugasemdum endurskoðanda Vestmannaeyjabæjar, dags. 20. febrúar 2003, er lýst þeirri skoðun að ekki beri skylda til að skrá ÞV í firmaskrá sem sameignarfélag, enda sé félagið ekki sjálfstæður skattaðili. Félagið reki ekki atvinnustarfsemi en sé skráð hjá skattstofu vegna skila á staðgreiðslu skatta starfsmanna og tryggingargjaldi af launum. Þá fái ÞV endurgreiddan virðisaukaskatt af sérfræðiþjónustu í samræmi við reglur um sveitarfélög og stofnanir þeirra, enda sé félagið í eigu sveitarfélags og ríkisstofnunar. Svipuð sjónarmið varðandi þetta atriði koma einnig fram í umsögn stjórnarformanns ÞV til ráðuneytisins, dags. 31. janúar 2003.

 

2. Um bókhald og ársreikninga ÞV

Í skýrslu skoðunarmanna ÞV til bæjarráðs Vestmannaeyjabæjar, dags. 25. október 2002, er að finna eftirfarandi athugasemd við ársreikning 2001:

 

„Í síðustu skýrslu skoðunarmanna var lögð á það áhersla að bókhald félagsins yrði hægt að nýta sem stjórntæki og það fært jafnóðum. Eftir þessu hefur ekki verið farið og var ekkert bókhald fyrir árið 2001 fært fyrr en á árinu 2002. [...] Eitt af verkefnum framkvæmdastjóra er að sjá um að bókhald sé fært jafnóðum. Með hliðsjón af framansögðu og mikils samstarfs við Vestmannaeyjabæ teljum við skynsamlegt og nauðsynlegt að bókhald félagsins verði framvegis í höndum aðalbókara Vestmannaeyjabæjar. Ársreikningar Þróunarfélagsins þurfa að vera tilbúnir um sama leyti og ársreikningar Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans, þannig að endurskoðun geti farið fram samhliða. Því teljum við ótækt að ársreikningur félagsins skuli ekki vera lagður fram fyrr á árinu þrátt fyrir loforð þar um.“

 

Í málinu liggur fyrir greinargerð formanns stjórnar ÞV, sem lögð var fram á fundi sem haldinn var 13. nóvember 2002 vegna skýrslu kjörinna skoðunarmanna ÞV um ársreikning félagsins fyrir árið 2001. Þar er bent á að hafa verði í huga að athugasemdir skoðunarmanna varðandi bókhald félagsins hafi komið fram við endurskoðun ársreiknings 2000, sem fram fór í september 2001. Stjórn ÞV hafi fjallað um bókhaldsmál félagsins á fundum 25. september og 19. október 2001 og þar hafi verið samþykkt að bókhald ársins 2001 yrði fært af endurskoðunarfyrirtæki eins og gert hafi verið frá árinu 1997. Bókhald ársins 2002 yrði svo fært af bókhaldsdeild Vestmannaeyjabæjar. Af greinargerð stjórnarformanns má ráða að ástæða þess að ársreikningi 2001 var ekki skilað á réttum tíma hafi verið sú að bókhald félagsins glataðist að stórum hluta og þar hafi verið um mannleg mistök að ræða.

 

Í greinargerðinni kemur einnig fram að á bæjarráðsfundi 8. október 2001 hafi bæjarfulltrúar lagt fram skriflega fyrirspurn um hvort bókhald ÞV yrði notað sem stjórntæki í rekstri félagsins og önnur atriði sem lutu að skýrslu skoðunarmanna. Framkvæmdastjóri ÞV hafi svarað fyrirspurninni í bréfi til bæjarráðs, dags. 9. nóvember 2001, þar sem m.a. komi fram áform um úrbætur í bókhaldi og reikningsskilum félagsins.

 

Í bréfi til ráðuneytisins, dags. 7. febrúar 2002, sem Lúðvík Bergvinsson, bæjarfulltrúi og alþingismaður, undirritar f.h. V-lista, sem á þeim tíma var í minnihluta bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, eru gerðar ýmsar athugasemdir við starfsemi ÞV. Meðal annars er því haldið fram að bæjarfulltrúar hafi verið leyndir þeirri staðreynd að stór hluti fylgiskjala vegna ársins 2001 hafi glatast í febrúar 2002 og þetta hafi ekki verið upplýst fyrr en í kjölfar skýrslu skoðunarmanna, sem dagsett er 25. október 2002. Fram að þeim tíma hafi beinlínis verið farið með rangfærslur þegar leitað hafi verið upplýsinga um stöðu félagsins og hvenær ársreiknings þess væri að vænta.

 

Í bréfi fulltrúa V-lista er einnig gerð athugasemd við að reikningar ÞV hafi aldrei verið teknir með í samstæðureikningi bæjarsjóðs enda ætíð tilbúnir löngu á eftir þeim reikningum. Þá hafi í engu verið sinnt ítrekuðum ábendingum um að aðalbókari bæjarins ætti að sjá um færslu bókhalds félagsins og það hafi ekki verið fyrr en í byrjun desember 2002 sem bókhaldið hafi að fullu og öllu verið flutt til aðalbókara, eftir því sem næst verði komist. Telja fulltrúar V-lista að þessi leynd og ranga upplýsingagjöf verði að teljast mjög ámælisverð.

 

Þá gera fulltrúar V-lista einnig athugasemd við það að þrátt fyrir týnd bókhaldsgögn og fleiri annmarka hafi endurskoðandi ÞV notað þá stöðluðu áritun í reikningum að hann teldi ársreikning ÞV fyrir árið 2001 í samræmi við góða reikningsskilafærslu og að reikningurinn gæfi skýra mynd af starfsemi, eignastöðu og skuldbindingum félagsins. Þetta verði að telja í hæsta máta óeðlilegt og ekki síst í ljósi þess að sú áritun hafi óspart verið notuð af stjórnarformanni til að réttlæta vinnubrögðin.

 

Í umsögn löggilts endurskoðanda Vestmannaeyjabæjar, dags. 20. febrúar 2003, kemur fram að ársreikningar ÞV hafi jafnan verið lagðir fram og samþykktir af stjórn félagsins. Endurskoðandi og skoðunarmenn Vestmannaeyjabæjar hafi endurskoðað reikninginn og áritað hann. Ársreikningar ÞV hafi ekki verið lagðir fram í bæjarráði eða bæjarstjórn til samþykktar heldur hafi reikningarnir einungis verið lagðir fram til skráningar. Ársfundur ÞV hafi síðan samþykkt ársreikninga félagsins, en ársfundur hafi verið haldinn í félaginu þótt ekki séu bein ákvæði um það í stofnsamningi þess. Vinnulag við afgreiðslu ársreiknings 2001 hafi þó verið með öðrum hætti. Meirihluti stjórnar ÞV hafi samþykkt ársreikninginn og hann verið endurskoðaður af endurskoðanda og skoðunarmönnum Vestmannaeyjabæjar. Var reikningurinn áritaður án athugasemda en að venju komu endurskoðandi og skoðunarmenn athugasemdum sínum á framfæri í bréfi til stjórnar ÞV. Síðan var ársreikningurinn lagður fram formlega í bæjarráði og bæjarstjórn og var hann samþykktur að loknum tveimur umræðum í bæjarstjórn.

 

Varðandi vinnulag við færslu bókhalds og ársreiknings ÞV fyrir árið 2001, kemur fram í umsögn endurskoðanda Vestmannaeyjabæjar að framkvæmdastjóri ÞV hafi tilkynnt sér í febrúar 2002 að hann hefði glatað meirihluta bókhaldsgagna ársins 2001, þ.e. fylgiskjölum frá janúar til ágúst 2001. Í kjölfar þessa hafi allar fjárhagsfærslur ÞV á því ári verið raktar í gegnum reikninga félagsins í viðskiptabönkum. Fengin hafi verið afrit af greiðsluseðlum og reikningum til að endurbyggja hin glötuðu gögn. Þessi vinna hafi gengið vel en verið tímafrek og hafi henni ekki að fullu lokið fyrr en um mánaðamótin ágúst/september 2002. Bókhaldið hafi verið fært af starfsmanni endurskoðunarfyrirtækisins þegar búið var að afla gagnanna. Telur endurskoðandi að tekist hafi að fullu að endurbyggja hin glötuðu bókhaldsgögn og því hafi verið heimilt að byggja endurskoðaðan ársreikning á bókhaldi félagsins. Þetta hafi verið gert í samráði við skoðunarmenn Vestmannaeyjabæjar en endurskoðun bókhaldsins hafi verið unnin að ákveðnu leyti í samstarfi við þá, líkt og undanfarin ár.

 

Í umsögn löggilts endurskoðanda Vestmannaeyjabæjar kemur fram að ársreikningar ÞV hafi aldrei legið fyrir við lokafrágang ársreikninga Vestmannaeyjabæjar heldur hafi þeir ekki verið tilbúnir fyrr en að hausti ár hvert. Hafi því ekki verið unnt að greina frá stöðu félagsins og ábyrgðum Vestmannaeyjabæjar vegna skuldbindinga félagsins í ársreikningi bæjarins. Í ársreikningi hefur nafnverð eignarhlutar Vestmannaeyjabæjar í ÞV verið fært til eignar og árlegt rekstrarframlag verið gjaldfært. Um beinar skuldbindingar hafi ekki verið að ræða fyrr en á árinu 2001, en þá hafi ÞV tekið 8 milljóna króna lán með beinni bæjarábyrgð. Þar sem ÞV er sameignarfélag ber Vestmannaeyjabær eðli máls samkvæmt ábyrgð á öllum skuldbindingum félagsins í samræmi við eignarhlut sinn.

 

Í bréfi til Vestmannaeyjabæjar, dags. 2. janúar 2003, óskaði ráðuneytið m.a. eftir upplýsingum um þær ráðstafanir sem bæjarstjórn hygðist grípa til í því skyni að tryggja að ársreikningur ÞV yrði tilbúinn nægilega tímanlega til að framvegis yrði unnt að geta þess í ársreikningi Vestmannaeyjabæjar hvaða þýðingu eignaraðild bæjarins að ÞV hafi fyrir efnahag og afkomu bæjarsjóðs. Jafnframt óskaði ráðuneytið eftir afstöðu bæjarstjórnar til þess hvort hún teldi nauðsynlegt að birta reikning Þróunarfélagsins í samstæðureikningi bæjarsjóðs eða hvort nægilegt væri að geta áhrifa aðildar að félaginu í skýringum við ársreikninginn. Í bréfinu var sérstaklega óskað eftir upplýsingum um hvort samkomulag hefði verið gert meðal eigenda Þróunarfélagsins um að ársreikningur ÞV skyldi birtur sem hluti af ársreikningi Vestmannaeyjabæjar, sbr. 1. og 4. mgr. 75. gr. laga um ársreikninga, nr. 144/1994.Svar bæjarstjóra er svohljóðandi:

 

„Vestmannaeyjabær er að endurskoða allan rekstur Þróunarfélags Vestmannaeyja enda hefur starfsgrundvöllur þess breyst á undanförnum mánuðum. Varðandi frágang ársreikninga félagsins í framtíðinni er það atriði með öllu óljóst, því ekki liggur fyrir hvort félagið verður starfandi sjálfstætt í breyttri mynd eða verði lagt niður og rekin skrifstofa hjá aðalsjóði. Þær upplýsingar munu berast ráðuneytinu um leið og sú ákvörðun liggur fyrir [....].“

 

3.      Um bókun funda stjórnar ÞV

Fram kemur í skýrslum endurskoðanda og skoðunarmanna Vestmannaeyjabæjar að frágangi fundargerðarbókar félagsins fyrir árið 2001 hafi verið ábótavant. Ráðuneytið taldi því ástæðu til að kanna hvort í einhverjum tilvikum kynni að leika vafi á því að allar skuldbindingar sem Þróunarfélagið hefur undirgengist hefðu hlotið formlegt samþykki stjórnarinnar allrar, svo sem áskilið er í 6. gr. samþykkta félagsins. Í bréfi til Þróunarfélagsins, dags. 2. janúar 2003, óskaði ráðuneytið meðal annars upplýsinga frá stjórn ÞV um hvort reynst hefði unnt að bæta úr ágöllum á fundargerðum félagsins og jafnframt hvort ágreiningur væri meðal eigenda félagins um einhverjar skuldbindingar sem samþykktar hafa verið fyrir hönd félagsins.

 

Í umsögn formanns stjórnar ÞV, dags. 29. janúar 2003, kemur fram að frágangi fundargerða hafi verið ábótavant á tveimur fundum félagsins á árinu 2001. Annars vegar hafi láðst að skrá fundargerð vegna símafundar sem haldinn var 5. júlí 2001, og hins vegar hafi fundargerð ársfundar, sem haldinn var 24. október 2001, glatast. Telur formaðurinn að úr þessum ágöllum hafi verið bætt og hafi allir stjórnarmenn nú undirritað fundargerð ársfundar en einn stjórnarmaður hafi neitað að undirrita fundargerð vegna símafundarins 5. júlí 2001. Sá stjórnarmaður, sem jafnframt var varamaður í bæjarstjórn, hafi hins vegar tekið þátt í staðfestingu bæjarstjórnar á þeim ákvörðunum sem teknar voru á þeim fundi og einnig hafi hann undirritað skuldabréf sem ÞV notaði til þess að gerast hluthafi í Skúlasyni ehf. á grundvelli samþykktar sem tekin var á símafundinum.

 

Þá kemur fram í umsögn formanns stjórnar ÞV að þótt ágreiningur kunni að vera innan bæjarstjórnar um ákvörðun sem tekin var á umræddum símafundi hafi bæjarstjórn staðfest ákvörðunina og enginn ágreiningur sé meðal eigenda ÞV um þessa ákvörðun sem og aðrar ákvarðanir sem stjórn ÞV hefur tekið.

 

4.      Um einstök atriði er varða fjármál ÞV

Í skýrslu skoðunarmanna ÞV til bæjarráðs Vestmannaeyjabæjar, dags. 25. október 2002, kemur eftirfarandi fram:

 

„Varðandi reikninga félagsins almennt viljum við taka fram eftirfarandi:

 

Meðal áhættufjármuna og langtímakrafna er skráð hlutafé að upphæð kr. 6.000.000,- í Skúlason ehf. Ekki liggur fyrir enn nafnverð þess hlutafjár sem keypt var, en formaður og framkvæmdastjóri Þróunarfélagsins höfðu aðallega með þetta mál að gera. Skúlason ehf. setti á stofn starfsemi að Skólavegi 2, þar sem fram fór símsvörun og símasala og átti starfsemin að veita nokkrum fjölda Eyjamanna atvinnu. Aðeins örfáir nutu þess að hafa vinnu hjá Skúlason ehf. og nú hefur starfseminni verið hætt í bili a.m.k. Telja verður eign þessa mjög vafasama og í þessu samhengi viljum við taka sérstaklega fram, að hvergi virðist liggja fyrir formleg fundarsamþykkt hjá félaginu vegna ofangreindrar upphæðar, þótt fjallað hafi verið um Skúlason ehf. á nokkrum fundum.“

 

Í skýrslu endurskoðanda ÞV með ársreikningi 2001, dags. 28. október 2002, segir meðal annars eftirfarandi:

 

„Efnahagsreikningur félagsins hefur breyst talsvert milli ára. Í efnahagsreikningi 2001 eru bókaðir áhættufjármunir og langtímakröfur fyrir um 20 mkr. Stærstu liðir eru fjárfesting í Öndvegisréttum sem er framleiðslueining sem framleiðir tilbúna rétti. Stefnt er að því að koma þessari verksmiðju í gang og selja hana síðan. Það sem er eignfært vegna þessa eru kaupin á verksmiðjunni og sá kostnaður sem þegar er fallinn til við að koma henni í gagnið. Á árinu 2001 var lagt hlutafé í Skúlason ehf. að fjárhæð 6 mkr. Erfitt hefur reynst að fá upplýsingar frá því félagi um hver hlutdeild Þróunarfélagsins er í heildarhlutafé Skúlason og liggja þær upplýsingar ekki fyrir þegar ársreikningur er lagður fram. Ekki reyndist heldur unnt að fá neinar upplýsingar um fjárhagsstöðu þessa fyrirtækis.

 

Þá þykir rétt að benda á það að skuldir félagsins hafa hækkað um 22,2 mkr. milli ára og gæti það reynst erfitt að halda þeim skuldum í skilum ef ekki verður hægt að selja eitthvað af þessum eignum sem búið er að fjárfesta í. Eitthvað af þessum skuldum er með beinni bæjarábyrgð.“

 

Um rekstrarreikning ÞV segir m.a. í skýrslu endurskoðanda:

 

„Athygli vekur að rekstrarreikningur félagsins þrútnar talsvert milli ára og helgast það af því að fleiri starfsmenn störfuðu hjá félaginu en árið 2000. Annað sem vekur athygli er hvað ferðakostnaður hækkar mikið milli ára en hluti skýringar er talsverðar ferðir vegna kaupa á Íslenskum matvælum.“

 

Varðandi málefni Skúlasonar ehf. kemur fram í greinargerð stjórnarformanns, sem lögð var fram á fundi 13. nóvember 2002, að málið hafi verið rætt á fundum stjórnar ÞV 1. júní 2001 og síðan á símafundi í júlíbyrjun 2001, en því miður hafi láðst að bóka fundargerð þess fundar. Í framhaldi af ákvörðunum fundarins hafi framkvæmdastjóra ÞV verið falið að rita bæjarráði bréf, dags. 6. júlí 2001, þar sem farið er fram á ábyrgð Vestmannaeyjabæjar á láni að fjárhæð allt að 10 milljónir króna. Sú skýring kemur fram í bréfinu að um sé að ræða „ákveðnar skuldbindingar innan ársins sem fela meðal annars í sér tímabundna fjárfestingu vegna atvinnuuppbyggingar í Vestmannaeyjum“. Í greinargerð stjórnarformanns kemur fram að þessi 10 milljón króna ábyrgðarskuldbinding hafi annars vegar verið vegna hlutafjárkaupa í Skúlasyni ehf. og hins vegar vegna kaupa á vélum, tækjum og búnaði, sem áður voru í eigu Öndvegisrétta ehf., af Búnaðarbanka Íslands. Þá segir í greinargerðinni að með tilkomu Skúlasonar ehf. hafi skapast nokkur störf í Vestmannaeyjum en þau hafi aðeins reynst tímabundin. Von sé þó til þess að félagið hefji starfsemi að nýju að lokinni fjárhagslegri endurskipulagningu.

 

Að því er varðar skuldbindingar vegna Skúlasonar ehf. segir í bréfi fulltrúa V-lista til ráðuneytisins, dags. 7. febrúar 2003, að ætlunin hafi verið að stofna sérstakt félag, Eyjasvar ehf., og hafi meiningin verið sú að 6 m.kr. framlag ÞV yrði lagt fram sem hlutafé í það félag, sem síðan hafi aldrei verið stofnað. Þess í stað hafi stjórnarformaður og þáverandi framkvæmdastjóri ÞV afhent forsvarsmönnum Skúlasonar ehf. þessa fjármuni einhvern tíma á árinu 2001, án heimildar stjórnar og án þess að nokkur sýnileg verðmæti kæmu í staðinn. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi aldrei komið fram hvað orðið hafi um þessa fjármuni en þrátt fyrir það hafi endurskoðandi ÞV fært þessa fjárhæð í ársreikningi fyrir árið 2001 sem hlutafjáreign bæjarins í Skúlasyni ehf. Heildahlutafé þess hafi verið 500.000 kr. en það hafi nú verið uppfært, samanber yfirlýsingu frá desember 2001. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og loforð þar um, m.a. frá núverandi bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, hafi ekki tekist að afla ársreikninga Skúlasonar ehf. fyrir árin 2000 og 2001. Fulltrúar V-lista telja nauðsynlegt að þeir hefðu legið fyrir þegar áreiðanleikakönnun á fyrirtækinu átti að fara fram, en hún hefði átt að vera forsenda þess að greiða þessa fjármuni til félagsins. Verði að telja ámælisvert að þessa hafi ekki verið gætt en engar upplýsingar liggi fyrir um hvort áreiðanleikakönnun hafi farið fram eða hvernig hún hafi verið unnin.

 

Einnig er þess getið í bréfi fulltrúa V-lista að á fundi sem haldinn var 13. nóvember 2002 um málefni Þróunarfélagsins hafi ekki virst ljóst hvort forsvarsmenn ÞV hafi litið svo á að framlag til Skúlasonar ehf. hafi verið til kaupa á hlut í félaginu eða hvort um væri að ræða styrk til atvinnusköpunar. Það hafi þó komið fram í máli fyrrverandi framkvæmdastjóra ÞV að rætt hafi verið um kaup á 20–30% hlut í félaginu. Nánari upplýsingar hafi ekki fengist á þeim tíma. Telja fulltrúar V-lista að sú spurning vakni hvort um refsiverða meðferð almannafjár sé að ræða og þá hver eigi að hlutast til um að viðeigandi rannsókn fari fram.

 

Í ljósi þeirra umsagna sem hér hefur verið gerð grein fyrir taldi ráðuneytið þörf á frekari upplýsingum um hvaða gagna hefði verið aflað um fjárhag og rekstrarhorfur Skúlasonar ehf. áður en ÞV greiddi 6 m.kr. til félagsins. Í bréfi ráðuneytisins til bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, sem gegnir nú jafnframt stöðu framkvæmdastjóra ÞV, dags. 10. mars 2003, var óskað upplýsinga um hvort eitthvað skriflegt hafi legið fyrir um ráðstöfun fjárins, hvaða verðmæti (ef einhver) komu í stað greiðslunnar og hvort ÞV hefði verið tryggður réttur til að hafa áhrif á málefni Skúlasonar ehf.

 

Í bréfi bæjarstjóra, dags. 19. mars 2003, er vísað til svohljóðandi skýringa sem fram koma í bréfi fyrrverandi framkvæmdastjóra ÞV, dags. 18. mars 2003:

 

„Málefni Skúlason ehf. bar fyrst á borð stjórnar Þróunarfélags Vestmannaeyja (ÞV) á stjórnarfundi er haldinn var í mars 2001. Viðræður milli Skúlason ehf. og ÞV um hugsanlega þátttöku ÞV í Skúlason ehf. hófust á vormánuðum ársins 2001. ÞV vann að því að skapa störf sem gætu leyst eitthvað af því bráða atvinnuleysi sem skapast hafði við bruna Ísfélagsins hf. í desember 2000 og jafnframt skapað störf er ekki höfðu verið til staðar í byggðarlaginu áður. Rætt var við nokkur fyrirtæki á sviði fjarvinnslu og símaþjónustu. Af þeirri yfirferð lokinni var ljóst að flest þessara fyrirtækja voru í vanda fyrst og fremst vegna verkefnaskorts, þar skar Skúlason ehf. sig úr með vænleg verkefni fyrir traust og öflug fyrirtæki. Því hófust viðræður við Skúlason ehf. um að koma á fót síma- og tölvuveri í Vestmannaeyjum. Þau gögn sem aflað var til ákvörðunar um fjárfestingu upp á 6 milljónir voru eftirfarandi:

 

Ársreikningur félagsins, matsgerð á fyrirtækinu unnin af Íslandsbanka-FBA hf., verkefnastaða Skúlason ehf., upplýsingar frá stjórnendum Skúlason ehf. Einnig komu til Vestmannaeyja sérfræðingar á vegum Balantine&Associates er sérhæfa sig í rekstri þjónustuvera víðs vegar um Evrópu og eru samstarfsaðilar Skúlason ehf.

 

Varðandi fyrirspurn um hvort skriflega hafi legið fyrir í hvað nota ætti peningana, þá lá það ekki fyrir skriflega milli félaganna. Fjárfestingin var hins vegar innt af hendi til að standa straum af kaupum á símstöð, uppsetningu tækjabúnaðar, þjálfunar starfsfólks og annars kostnaðar er féll á vegna uppsetningar síma- og tölvuvers í Vestmannaeyjum. Á þeim tíma er fjárfesting átti sér stað var gert munnlegt samkomulag um að hlutur ÞV væri 20 til 30% hlutur í Skúlason ehf. Hvert endanlegt mat yrði á hlutnum myndi ráðast af því hvernig eigendum Skúlason ehf. tækist að endurskipuleggja fjárhag sinn. Endanlegt samkomulag um hlutinn er svo ekki undirritað fyrr en á árinu 2002.

 

Fjárfestingin sem um er fjallað átti aðeins að vera til skamms tíma meðan að unnið yrði að því að finna aðra fjárfesta að félaginu, endurskipuleggja það fjárhagslega og síma- og tölvuverið yrði komið í fullan rekstur. Ýmislegt hafði áhrif á að það verkefni tók langan tíma. ÞV sótti það ekki sérstaklega að fá menn í stjórn félagsins, en vann hins vegar að málefnum félagsins með stjórnendum þess.

 

Ég ítreka að framkvæmdastjóri og stjórnarformaður höfðu umboð og stuðning stjórnar ÞV og bæjarstjórnar Vestmannaeyja til að ráðast í þessa fjárfestingu.“

 

5.      Ábyrgð Vestmannaeyjabæjar á skuldum ÞV

Í bréfum ráðuneytisins til Vestmannaeyjabæjar og til ÞV, dags. 2. janúar 2003, var óskað eftir upplýsingum um hvort bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar og/eða aðrir eigendur ÞV hefðu samþykkt að gangast í ábyrgðir fyrir félagið. Jafnframt var óskað upplýsinga um hve háar bókfærðar ábyrgðarskuldbindingar Vestmannaeyjabæjar voru þann 1. janúar 2002 vegna ÞV og hvort skuldbindingar þessar hefðu aukist á árinu 2002. Loks óskaði ráðuneytið eftir afstöðu bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar til þess hvort hún teldi sér heimilt að veita félaginu ábyrgðir, í ljósi orðalags 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga. Kemur fram í bréfinu að ráðuneytið óskaði upplýsinga um hvort bæjarstjórn liti svo á að ÞV gæti flokkast sem stofnun eða fyrirtæki sveitarfélagsins, sbr. b-lið 1. mgr. 60. gr. sveitarstjórnarlaga, í ljósi þess að félagið er sjálfstæður skatt- og lögaðili með stjórn sem skipuð er af eigendum félagsins.

 

Samkvæmt því sem fram kemur í umsögn formanns stjórnar ÞV, dags. 29. janúar 2003, voru beinar ábyrgðarskuldbindingar Vestmannaeyjabæjar vegna ÞV 8.100.000 kr. í upphafi árs 2002 en ábyrgðirnar jukust um 15 m.kr. á árinu 2002. Þá var einnig skuldbreytt láni frá 2001 sem bærinn ábyrgist, ásamt yfirdrætti ÞV, og voru beinar ábyrgðarskuldbindingar bæjarsjóðs vegna ÞV því samtals 24.133.392 kr. miðað við 1. janúar 2003.

 

Í umsögn Vestmannaeyjabæjar, dags. 2. febrúar 2003, segir meðal annars:

 

„Vestmannaeyjabær hefur flokkað Þróunarfélag Vestmannaeyja sem sjálfstæða rekstrareiningu sveitarfélagsins frá því félagið var stofnað árið 1996, sbr. b-lið 1. mgr. 60. gr. laga nr. 45/1998. [....] Þessi eining var frá upphafi í 80% eigu sveitarfélagsins en við sölu á Bæjarveitum Vestmannaeyja breyttist það hlutfall í 60%. Í dag er Vestmannaeyjabær og stofnanir hans eigandi að 80% hlut í ÞV eftir að gengið var frá samkomulagi bæjarins og Hitaveitu Suðurnesja [...].“

 

Í umsögninni er einnig lýst þeirri skoðun að Vestmannaeyjabær telji að ábyrgðarveiting hafi verið heimil, enda sé ÞV í meirihlutaeign Vestmannaeyjabæjar.

 

Í bréfi fulltrúa V-lista til ráðuneytisins, dags. 7. febrúar 2003, er þeirri skoðun lýst að ábyrgðir Vestmannaeyjabæjar vegna ÞV séu óheimilar skv. 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga, með tilliti til þess að 40% eignarhlutur í félaginu hafi verið í eigu óskyldra aðila, þ.e. Háskóla Íslands og Hitaveitu Suðurnesja. Þá er þess getið í bréfinu að nú hafi verið stofnað sérstakt félag um rekstur fiskréttaverksmiðju, Westmar ehf., og þar með sé hluti ábyrgðanna tengdur einkahlutafélagi sem óskyldur aðili á 10% í samkvæmt samningi. Þá hafi Vestmannaeyjabær greitt ýmsar óreiðuskuldir beint úr bæjarsjóði, svo sem ógreidda vörsluskatta áranna 2001 og 2002, og skuldfært hjá ÞV.

 

6. Um ábyrgð eigenda ÞV

Í bréfi fulltrúa V-lista til ráðuneytisins, dags. 7. febrúar 2003, eru raktar efasemdir um að úrganga Hitaveitu Suðurnesja hf. og hafnarsjóðs Vestmannaeyja úr ÞV hafi verið í samræmi við 8. gr. stofnsamnings ÞV. Samkomulag ÞV við Hitaveitu Suðurnesja hf., dags. 18. desember 2002, og samkomulag Vestmannaeyjabæjar við hafnarsjóð, dags. 27. janúar 2003, hafa hlotið staðfestingu bæjarstjórnar Vestmannaeyja.

 

Af því tilefni óskaði ráðuneytið í bréfi til bæjarstjóra Vestmannaeyjabæjar, dags. 10. mars 2003, eftir upplýsingum um hvort leitað hafi verið samþykkis bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar áður en bæjarstjóri undirritaði f.h. bæjarins samkomulag við Hitaveitu Suðurnesja hf., dags. 18. desember 2002, og hafnarsjóð Vestmannaeyja, dags. 27. janúar 2003, um úrsögn þessara aðila úr ÞV, eða hvort einungis hafi verið talin þörf á að afla slíks samþykkis eftir á. Um þetta segir eftirfarandi í svari bæjarstjóra, dags. 19. mars 2003:

 

„Varðandi samkomulag við Hitaveitu Suðurnesja þá var það samkomulag undirritað af hálfu undirritaðs f.h. Þróunarfélags Vestmannaeyja, sem starfandi framkvæmdastjóri ÞV og með fyrirvara um samþykki stjórnar ÞV. Það er því ekki rétt sem kemur fram í bréfi yðar að samkomulagið við Hitaveitu Suðurnesja hafi verið við Vestmannaeyjabæ, og ber að leiðrétta það. Stjórn ÞV samþykkti svo samkomulagið á stjórnarfundi sínum þann 23. des. 2002 [...].

 

Varðandi samkomulag við hafnarsjóð Vestmannaeyja þá var það samkomulag undirritað af hálfu undirritaðs f.h. Vestmannaeyjabæjar, sem bæjarstjóri og með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti svo samkomulagið á fundi bæjarstjórnar þann 30. janúar sl. [...].

 

Ofangreind samkomulög voru bæði undirrituð með fyrirvara um samþykki stjórnar Þróunarfélagsins, bæjarstjórnar Vestmannaeyja og hafnarstjórnar Vestmannaeyja eins og skýrt kemur fram. Ef samkomulögin hefðu ekki verið samþykkt í þessum stjórnum þá hefðu þau ekki náð fram að ganga eins og þau voru lögð fyrir.“

 

7. Um framlög frá félagsíbúðum Vestmannaeyjabæjar til ÞV

Með vísan til umræðu í fundargerð bæjarstjórnar frá 27. febrúar 2003, óskaði ráðuneytið í bréfi, dags. 10. mars 2003, eftir upplýsingum frá Vestmannaeyjabæ um hvort greidd hefðu verið framlög frá félagslegum íbúðum Vestmannaeyjabæjar til ÞV á árinu 2002. Var óskað skýringa á því í hvaða tilgangi þetta hafi verið gert, ef rétt væri að slík greiðsla hefði verið innt af hendi, og með hvaða heimild.

 

Í svari bæjarstjóra, dags. 19. mars 2003, segir eftirfarandi:

 

„Í fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar fyrir árin 2001 og 2002 voru til staðar framlög til Þróunarfélagsins að upphæð kr. 1.200.000 á hvoru ári. Framlag þetta árið 2001 kom til vegna vinnu sem félaginu var falið að vinna í tengslum við fjölbýlishúsið að Áshamri 75. Markmiðið með þeirri vinnu var að finna hvaða möguleikar væru í stöðunni að nýta húsið betur, því bærinn hafði innleyst flestallar íbúðirnar í húsinu þar sem þær eru hluti af félagslega íbúðakerfinu. Það sem virðist svo hafa gerst milli áranna 2001 og 2002 er það að framlag þetta hefur farið áfram óbreytt en svo átti ekki að vera eins og kemur fram í bréfi Guðjóns Hjörleifssonar stjórnarformanns ÞV dags. 20. mars, er lagt var fram í bæjarráði þann 10. mars sl. [...]. Í því bréfi kemur fram að óskað er eftir að það framlag á árinu 2002 verði endurgreitt núna á þessu ári og greiðist af framlagi ársins til ÞV.“

 

II.    Niðurstaða ráðuneytisins

 

1.      Almennt

Ráðuneytið telur að þær skýringar og upplýsingar sem nú hafa borist séu nægilegar til að unnt sé að ljúka athugun ráðuneytisins með rökstuddu áliti skv. 1. mgr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga, þar sem kveðið er á um að ráðuneytið skuli hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum löglegum fyrirmælum.

 

Við athugun sína hefur ráðuneytið tekið tillit til þess að ÞV er sameignarfélag með sjálfstæðan fjárhag. Um málefni félagsins og innbyrðis samskipti eigenda gilda því almenn lög og reglur einkaréttarins enda lýtur félagið ekki beinni stjórn Vestmannaeyjabæjar. Samkvæmt 2. gr. stofnsamnings ÞV er Vestmannaeyjabær hins vegar eini eigandi ÞV sem leggur félaginu til rekstrarfé og skal það ákvarðað í fjárhagsáætlun bæjarins í upphafi hvers árs. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins var framlagið innt af hendi með eingreiðslu úr bæjarsjóði á ári hverju.

 

Frá stofnun ÞV til ársins 1999 átti Vestmannaeyjabær einn fulltrúa í stjórn ÞV. Árið 1999 var ákveðið að fjölga stjórnarmönnum úr þremur í fimm og skipar bæjarstjórn frá þeim tíma þrjá stjórnarmenn. Ekki liggur fyrir í málinu hvaða áhrif nýafstaðnar breytingar á eignarhaldi munu hafa á skipan stjórnar en gera má ráð fyrir að áhrif bæjarstjórnar muni aukast frá því sem verið hefur ef félagið heldur áfram starfsemi í núverandi mynd.

 

Af framangreindu leiðir að ÞV hefur þá sérstöðu umfram flest sameignarfélög að starfsemi félagsins er fjármögnuð af hinu opinbera. Einnig eru tengsl félagsins mikil við bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar og eru m.a. þrír stjórnarmenn af fimm skipaðir af bæjarstjórn. Þá er ljóst að þar sem ÞV er sameignarfélag er Vestmannaeyjabær ásamt öðrum eigendum ábyrgur fyrir öllum skuldbindingum félagsins. Af framlögðum gögnum í málinu liggur einnig fyrir að miklar líkur eru á að Vestmannaeyjabær muni einn eigenda fjármagna hallarekstur félagsins á undanförnum árum af skatttekjum sveitarfélagsins.

 

Að því er varðar efasemdir fulltrúa V-lista um að úrganga Hitaveitu Suðurnesja hf. og hafnarsjóðs Vestmannaeyja úr ÞV hafi verið í samræmi við 8. gr. stofnsamnings ÞV er það mat ráðuneytisins að hugsanlegur ágreiningur um gildi samninga er varða úrsögnina sé að öllu leyti einkaréttarlegs eðlis og falli því utan athugunar ráðuneytisins skv. 1. mgr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga. Þá telur ráðuneytið að sama máli gegni um fjármálaleg samskipti Vestmannaeyjabæjar og Háskóla Íslands vegna aðildar þess síðarnefnda að ÞV og skuldbindinga sem fallið geta á eigendur félagsins, samanber bréf fulltrúa HÍ í samstarfsnefnd Háskóla Íslands og Vestmannaeyja til bæjarráðs Vestmannaeyja, dags. 24. janúar 2003.

 

Verður því ekki tekin afstaða til athugasemda V-lista í fyrrgreindu bréfi um framangreind álitaefni, sem hlotið hafa staðfestingu bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, en eins og áður er komið fram er mögulegt að úrsögn sameigenda verði til þess að byrðar bæjarsjóðs vegna ÞV aukist enn umfram það sem ella hefði verið.

 

2.      Um bókhald og ársreikninga ÞV

Í bréfi ráðuneytisins til Vestmannaeyjabæjar, dags. 2. janúar 2003, kemur fram að ein af ástæðum þess að ráðuneytið ákvað að taka til athugunar málefni ÞV og tengsl félagsins við Vestmannaeyjabæ væri sú að við meðferð ársreiknings ÞV í bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar hafi komið í ljós að miklir hnökrar væru á bókhaldi félagsins og skráningu fundargerða stjórnar þess. Með því var einkum verið að vísa til athugasemda endurskoðanda og skoðunarmanna sem raktar hafa verið í áliti þessu.

 

Upplýst er í málinu að mikill misbrestur var á því að bókhald ÞV væri fært reglulega á undanförnum árum. Meðal annars liggur fyrir að uppgjör vegna vörsluskatta á árunum 2001 og 2002 fór ekki fram fyrr en undir lok árs 2002 og launatengd gjöld starfsmanna vegna sama tímabils voru endanlega ekki gerð upp fyrr en í ársbyrjun 2003. Þar við bættist að stór hluti bókhaldsgagna fyrir árið 2001 glataðist, annars vegar í meðförum framkvæmdastjóra og hins vegar endurskoðanda. Sá missir hefði tæplega leitt til alvarlegra tafa á gerð ársreiknings ef bókhald félagsins hefði verið fært reglulega. Er því tæplega ofsagt að mikil óreiða hafi verið á bókhaldi félagsins sem stjórn og framkvæmdastjóri félagsins hljóta að bera sameiginlega ábyrgð á, samanber einkum 4., 5., 7., 9. og 20. gr. laga um bókhald, nr. 145/1994, með síðari breytingum, sbr. einnig IV. kafla sömu laga.

 

Nú hafa verið gerðar ráðstafanir sem eiga að tryggja að bót verði ráðin á þessu vandamáli og telur ráðuneytið að núverandi fyrirkomulag, þar sem bæjarstjóri annast framkvæmdastjórn ÞV og bókhald félagsins er fært á skrifstofum Vestmannaeyjabæjar, sé fyllilega ásættanlegt.

 

Samkvæmt samþykktum ÞV miðast reikningsskil félagsins við áramót og skal uppgjöri lokið fyrir lok aprílmánaðar næsta árs. Endurskoðandi og skoðunarmenn Vestmannaeyjabæjar skulu annast endurskoðun reikningsskila. Af athugasemdum þeirra er ljóst að ársreikningur félagsins hefur aldrei verið tilbúinn á réttum tíma og undanfarin ár skeikar þar yfirleitt mörgum mánuðum. Telur ráðuneytið ótvírætt að stjórnarmenn Þróunarfélagsins, og þá sérstaklega fulltrúar Vestmannaeyjabæjar í stjórninni, hefðu átt að ganga harðar eftir því að gengið yrði tímanlega frá ársreikning félagsins.

 

Í umsögn löggilts endurskoðanda Vestmannaeyjabæjar kemur fram að fyrrgreindur dráttur á ársreikningum ÞV hafi síðan leitt til þess að skuldbindinga vegna félagsins eða áhrifa eignarhlutar Vestmannaeyjabæjar í félaginu á fjárhag bæjarsjóðs í því hafi að engu verið getið í ársreikningi bæjarins. Ráðuneytið telur þessa skýringu endurskoðanda ekki fullnægjandi ástæðu fyrir því að í ársreikningi Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2001 var í engu getið um ábyrgðarloforð bæjarins vegna tíu milljón króna láns sem samþykkt var á bæjarstjórnarfundi í júlí 2001. Óháð því hvort ársreikningur ÞV lá fyrir við endurskoðun ársreiknings Vestmannaeyjabæjar átti fyrirsvarsmönnum bæjarins að vera kunnugt um umrædda ábyrgð og átti m.a. að geta hennar í fjárhagsábyrgða- og skuldbindingaskrá sveitarfélagsins, sbr. 3. gr. reglugerðar um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja, nr. 280/1989. Reglugerð þessi er nú fallin úr gildi en gilti um afgreiðslu ársreiknings Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2001 samkvæmt bráðabirgðaákvæði reglugerðar um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga, nr. 944/2000. Telur ráðuneytið hafið yfir allan vafa að ábyrgðarinnar átti að geta í skýringum með ársreikningi, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 280/1989. Þar sem Vestmannaeyjabær ber ábyrgð á öllum skuldbindingum félagsins hefði endurskoðandi bæjarins einnig átt að geta þess í skýringum við ársreikninginn að í reikninginn vantaði upplýsingar um fjárhagsstöðu ÞV og áhrif eignaraðildar Vestmannaeyjabæjar að félaginu á fjárhag sveitarfélagsins í árslok 2001, sbr. 9. gr. laga um ársreikninga, nr. 144/1994, með síðari breytingum.

 

Einnig er upplýst í málinu að á árunum 2001 og 2002 greiddi Vestmannaeyjabær 1,2 milljónir króna á ári til ÞV í gegnum félagsíbúðir bæjarins. Tilgangur þessa framlags mun hafa verið að leita leiða til að koma ónotuðum íbúðum í verð. Þær tilraunir reyndust þó árangurslausar. Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins um hver var kostnaður við þjónustu ÞV vegna verkefnisins og enginn skriflegur samningur var gerður heldur byggðist fjárhæðin á fastri tölu sem ákveðin var í fjárhagsáætlun 2001. Í bréfi stjórnarformanns ÞV til bæjarráðs Vestmannaeyja, dags. 10. mars 2003, kemur fram að mistök hafi ráðið því að jafn há fjárhæð var einnig heimiluð í fjárhagsáætlun 2002 og í drögum að fjárhagsáætlun 2003. Fjárhæðin var eins og áður segir innt af hendi árið 2002 en gerð var leiðrétting áður en fjárhagsáætlun fyrir árið 2003 var afgreidd í bæjarstjórn.

 

Ráðuneytið telur með öllu óeðlilegt að greiðslur hafi verið inntar úr bæjarsjóði á þann hátt sem að framan hefur verið lýst og án þess að sýnilegt framlag kæmi á móti. Þá hefur engin skýring verið gefin á því að greiðsla var einnig innt af hendi árið 2002, önnur en sú að heimild hafi verið til þess í fjárhagsáætlun. Telur ráðuneytið ástæðu til að finna verulega að þessari framkvæmd og er nauðsynlegt að gera viðeigandi leiðréttingar í bókhaldi félagslegra íbúða Vestmannaeyjabæjar.

 

3. Um ábyrgðarveitingar Vestmannaeyjabæjar

Í 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um bann við því að binda sveitarsjóð í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Álitaefnið í því máli sem hér er til athugunar er hvort ÞV geti talist stofnun sveitarfélags í skilningi fyrrgreinds ákvæðis.

 

Í umsögn Vestmannaeyjabæjar, dags. 2. febrúar 2003, kemur fram að Vestmannaeyjabær hefur flokkað ÞV sem sjálfstæða rekstrareiningu sveitarfélagsins frá því félagið var stofnað árið 1996, sbr. b-lið 1. mgr. 60. gr. laga nr. 45/1998. Þessi eining hafi frá upphafi verið í 80% eigu sveitarfélagsins og stofnana þess en við sölu á bæjarveitum Vestmannaeyja breyttist það hlutfall í 60%. Í dag er Vestmannaeyjabær eigandi að 80% hlut í ÞV eftir að gengið var frá samkomulagi bæjarins og Hitaveitu Suðurnesja. Í umsögninni er einnig lýst þeirri skoðun að Vestmannaeyjabær telji að ábyrgðarveiting hafi verið heimil, enda sé ÞV í meirihlutaeign Vestmannaeyjabæjar.

 

Í bréfi fulltrúa V-lista til ráðuneytisins, dags. 7. febrúar 2003, er þeirri skoðun hins vegar lýst að ábyrgðir Vestmannaeyjabæjar vegna ÞV séu óheimilar skv. 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga, með tilliti til þess að 40% eignarhlutur í félaginu hafi verið í eigu óskyldra aðila, þ.e. Háskóla Íslands og Hitaveitu Suðurnesja.

 

Beinar ábyrgðarskuldbindingar Vestmannaeyjabæjar vegna ÞV voru 8.100.000 kr. í upphafi ársins 2002 en ábyrgðirnar jukust um 15 m.kr. á árinu 2002. Þá var einnig skuldbreytt láni frá 2001 sem bærinn ábyrgist, ásamt yfirdrætti ÞV, og voru beinar ábyrgðarskuldbindingar bæjarsjóðs vegna ÞV því samtals 24.133.392 kr. miðað við 1. janúar 2003.

 

Í áliti ráðuneytisins frá 28. nóvember 2000 varðandi Húsavíkurbæ (ÚFS 2000:203), er ítarlega fjallað um muninn á fyrirtækjum og stofnunum sveitarfélaga. Hvorugt þessara hugtaka er skilgreint í sveitarstjórnarlögum en í álitinu er dregin sú ályktun, m.a. af 60. gr. sveitarstjórnarlaga, að í hugtakinu „fyrirtæki“ felist fjárhagslegt og stjórnunarlegt sjálfstæði og að fyrirtæki setji sér sjálft arðsemisstefnu. Stofnanir sveitarfélaga lúti hins vegar ákvörðunum sveitarstjórnar með beinum hætti og starfi oftast að lögákveðnum verkefnum sveitarfélaga.

 

Í 60. gr. sveitarstjórnarlaga er fjallað um flokkun í reikningsskilum sveitarfélaga og er hún svohljóðandi:

 

Í reikningsskilum sveitarfélaga skal skipta starfsemi þeirra þannig:

a.  sveitarsjóður, þ.e. aðalsjóður sveitarfélags auk annarra sjóða og stofnana er sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð af skatttekjum,

b.  stofnanir sveitarfélaga, fyrirtæki og aðrar rekstrareiningar sem að hálfu eða meiri hluta eru í eigu sveitarfélaga og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.

 

Af stofnsamþykktum ÞV og öðrum gögnum málsins telur ráðuneytið ljóst að félagið getur ekki fallið undir a-lið fyrrgreinds ákvæðis. Þrátt fyrir að starfsemi þess sé að verulegum hluta fjármögnuð af skatttekjum Vestmannaeyjabæjar er félagið í sameign fleiri aðila og það hefur sjálfstæðan fjárhag sem aðskilinn er frá rekstri eigenda félagsins með sérstökum ársreikningi. Jafnframt er það mat ráðuneytisins að félagið hafi sama stjórnunarlegt sjálfstæði og almennt gerist um sameignarfélög, svo sem varðandi ákvarðanir um ráðningar starfsmanna o.fl. Þá er ljóst að meirihluti bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar á hverjum tíma hefur ekki meirihlutavald í fimm manna stjórn ÞV, þar sem jafnan á sæti einn fulltrúi frá minnihluta bæjarstjórnar, kosinn við hlutfallskosningu, og tveir stjórnarmenn sem tilnefndir eru af öðrum aðilum.

 

Þá er þess að gæta að skv. 8. gr. stofnsamningsins getur hver félagsaðili sagt samningnum upp með sex mánaða fyrirvara og skal uppsögn miðast við áramót. Skulu reikningar þá gerðir upp miðað við áramót og eignum skipt milli félagsaðila. Eigi félagið ekki fyrir skuldum skal það sem á vantar greitt af félagsaðilum í hlutfalli við eignarhlut, jafnskjótt og reikningsskilum er lokið. Ef einhverjir eignaraðilar vilja halda starfseminni áfram skal þeim heimilt að taka við starfseminni eins og hún er með eignum og skuldum og halda henni áfram með sama firmanafni, gegn því að greiða þeim sem upp hefur sagt hlut hans samkvæmt efnahagsreikningi innan eins árs frá lokum reikningsskila. Verður að telja að umrætt ákvæði stofnsamningsins styðji eindregið þá niðurstöðu að ÞV hljóti að teljast fyrirtæki, í skilningi sveitarstjórnarlaga, og uppfyllir félagið því ekki skilyrði 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga til að heimilt sé að veita því ábyrgð bæjarsjóðs.

 

Niðurstaða ráðuneytisins varðandi þennan þátt málsins er því sú að bæjarstjórn Vestmannaeyja hafi verið óheimilt, með vísan til 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, að samþykkja ábyrgðir fyrir skuldbindingum ÞV. Með vísan til dóms Hæstaréttar frá 14. október 1999 í máli nr. 168/1999, og fleiri dóma Hæstaréttar sem fallið hafa á undanförnum árum, er ábyrgð sem veitt er í andstöðu við ákvæði sveitarstjórnarlaga ekki skuldbindandi fyrir viðkomandi sveitarfélag. Ekki er hins vegar unnt að draga þá ályktun af þessari niðurstöðu að Vestmannaeyjabær sé laus undan umræddum skuldbindingum þar sem eigendur ÞV eru eins og áður er komið fram ábyrgir fyrir öllum skuldbindingum félagsins á grundvelli stofnsamnings þess, að uppfylltum þeim formskilyrðum sem þar er getið.

 

Því er loks við að bæta að ráðuneytið telur ástæðu til að gera athugasemd við það að í bréfi þáverandi framkvæmdastjóra ÞV til bæjarráðs Vestmannaeyjabæjar, dags. 6. júlí 2001, og fundargerð bæjarráðs Vestmannaeyjabæjar, dags. 9. júlí 2001, kemur ekki fram vegna hvaða skuldbindinga ábyrgð Vestmannaeyjabæjar er veitt. Að mati ráðuneytisins hefði verið eðlilegt að þetta kæmi skýrar fram í bréfi framkvæmdastjórans og má m.a. ráða af gögnum málsins að stjórnarmaður í ÞV, sem þátt tók í staðfestingu ákvörðunar bæjarráðs á bæjarstjórnarfundi 25. júlí 2001, telur sig ekki hafa haft vitneskju um að hluti þessarar ábyrgðar væri vegna skuldbindinga ÞV gagnvart Skúlasyni ehf.

 

4. Um einstök atriði í rekstri ÞV

Eins og rakið er að framan gerðu endurskoðandi og skoðunarmenn Vestmannaeyjabæjar ýmsar athugasemdir við ársreikning ÞV fyrir árið 2001, einkum varðandi greiðslu að fjárhæð 6.000.000 kr. til Skúlasonar ehf. Jafnframt voru gerðar athugasemdir við að ekki væri nægilega vandað til fundargerða félagsins. Ráðuneytið telur að fullnægjandi skýringar séu komnar fram varðandi síðara atriðið og virðist ljóst að misbrestur á skráningu tveggja fundargerða hafi ekki valdið ágreiningi meðal eigenda félagsins. Þykir því ekki ástæða til að fjalla frekar um þetta atriði í áliti þessu.

 

Af gögnum málsins virðist ljóst að enginn skriflegur gerningur lá til grundvallar greiðslu ÞV til Skúlasonar ehf., en um var að ræða fjármuni sem ÞV tók að láni hjá Íslandsbanka og voru tryggðir með ábyrgð Vestmannaeyjabæjar, samkvæmt samþykkt bæjarráðs frá 9. júlí 2001. Það var ekki fyrr en með yfirlýsingu framkvæmdastjóra Skúlasonar ehf., dags. 4. desember 2002, að staðfesting fékkst á því að ÞV hefði fest kaup á hlutafé í Skúlasyni ehf. að nafnverði  125.000 kr. og greitt fyrir það 6.000.000 kr. Heildarhlutafé Skúlasonar ehf. eftir þessa hlutafjárhækkun nemur samkvæmt yfirlýsingunni 625.000 kr. og er eignarhlutur ÞV í félaginu því 20%. Fram kemur í yfirlýsingunni að hlutafjárhækkunin sé í samræmi við samþykkt hluthafafundar í Skúlasyni ehf. og ábyrgist stjórn Skúlasonar ehf. að breyta samþykktum félagsins til samræmis við hækkunina og senda tilkynningu um slíkt til hlutafélagaskrár.

 

Það verður að teljast allsláandi að yfirlýsing þessi skuli ekki vera gefin fyrr en tæpu einu og hálfu ári eftir að umrædd hlutafjárkaup áttu sér stað. Fram kemur í gögnum málsins, þ.á m. skýrslum endurskoðanda og skoðunarmanna Vestmannaeyjabæjar vegna ársreiknings ÞV fyrir árið 2001, að erfitt hafi reynst að fá upplýsingar um hver hlutdeild ÞV væri í Skúlasyni ehf. og jafnframt hefði ekki reynst unnt að fá neinar upplýsingar um fjárhagsstöðu fyrirtækisins við gerð ársreiknings ÞV. Þessar yfirlýsingar stangast mjög á við skýringar fyrrverandi framkvæmdastjóra ÞV til ráðuneytisins, dags. 18. mars 2003, þar sem vitnað er til ýmissa gagna sem aflað var áður en ákveðið var að fjárfesta í fyrirtækinu. Þau gögn hafa ekki verið lögð fram í máli þessu. Í bréfi framkvæmdastjórans til ráðuneytisins er hins vegar staðfest að ekkert skriflegt hafi legið fyrir um það milli Skúlasonar ehf. og ÞV hvernig nota ætti þá fjármuni sem ÞV lagði í fyrirtækið. Einungis hafi verið gert munnlegt samkomulag um að hlutur ÞV í Skúlasyni ehf. væri 20–30%. Hvert endanlegt mat yrði á hlutnum myndi ráðast af því hvernig eigendum Skúlasonar ehf. tækist að endurskipuleggja fjárhags sinn.

 

Eins og fram kemur í skýrslu skoðunarmanna ÞV með ársreikningi 2001 setti Skúlason ehf. á stofn starfsemi að Skólavegi 2, þar sem fram fór símsvörun og símasala og átti starfsemin að veita nokkrum fjölda Eyjamanna atvinnu. Aðeins örfáir nutu þess að hafa vinnu hjá Skúlasyni ehf. og hefur starfsemin legið niðri undanfarna mánuði. Er því með öllu óljóst hvort fjárfestingin skili sér í varanlegri atvinnuuppbyggingu í Vestmannaeyjum.

 

Ráðuneytið telur að í ljósi þess að ekki hafa verið lögð fram öll gögn í málinu verði ekki fullyrt hvort stjórn og framkvæmdastjóri ÞV hafi kannað nægilega ítarlega rekstrargrundvöll Skúlasonar ehf. áður en ákveðið var að leggja fjármuni í félagið. Þar sem Vestmannaeyjabær gekkst í ábyrgð fyrir láni sem notað var til að útvega fjármuni í félagið var um að ræða ráðstöfun á almannafé og verður óhjákvæmilega að gera ríkar kröfur til þeirra sem sýsla með fjármuni almennings að þeir gæti þess sem best þeir geta að fjármunirnir komi að þeim notum sem til er ætlast.

 

Að mati ráðuneytisins er það því með öllu óásættanlegt að umræddir fjármunir skyldu hafa verið greiddir til Skúlasonar ehf. án þess að jafnframt væri gengið skriflega frá því til hvers fjármunirnir yrðu notaðir og hver yrði eignarhlutur og áhrif ÞV í Skúlasyni ehf. Verður að átelja að ekki skyldi vera gengið formlega frá þessari ráðstöfun fyrr en löngu eftir að greiðsla átti sér stað.

 

5. Niðurstaða

Að framan hafa verið rakin ýmis atriði varðandi rekstur ÞV og aðkomu Vestmannaeyjabæjar að málefnum félagsins. Er ljóst að rekstur félagsins var í verulegum ólestri á árinu 2001 og þótt fram kæmu kröfur um úrbætur var ekki gripið til aðgerða fyrr en síðla árs 2002. Voru þá m.a. gerðar úrbætur í bókhaldi félagsins, sem að mati ráðuneytisins hljóta að teljast fullnægjandi, og gengið frá ýmsum lausum endum í rekstri félagsins, þ.á m. uppgjöri vegna vangoldinna vörsluskatta og launatengdra gjalda á árunum 2001-2002. Þá hefur einnig verið gengið frá yfirlýsingu um eignarhlut ÞV í Skúlasyni ehf.

 

Á undanförnum mánuðum hafa orðið breytingar á eignarhaldi ÞV og einnig hefur nýr meirihluti B-lista og V-lista tekið við stjórn Vestmannaeyjabæjar. Samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu er óvíst hvort rekstri félagsins verður haldið áfram í óbreyttri mynd. Er eðlilegt að Vestmannaeyjabær, sem nú á 80% eignarhlut í félaginu, fari vandlega yfir þá stöðu sem félagið er nú í, hugi að nauðsynlegum breytingum og kanni afstöðu sameiganda til þess hvort rekstrinum skuli haldið áfram eða hvort leysa beri félagið upp.

 

Athugun ráðuneytisins hefur leitt í ljós að bókhaldsmál ÞV voru ekki í samræmi við ákvæði laga um bókhald. Jafnframt telur ráðuneytið að ársreikningur Vestmannaeyjabæjar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga og reglugerð um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja. Komu þar hvorki fram ábyrgðarskuldbindingar bæjarins vegna ÞV né var þar gerður fyrirvari um að í ársreikninginn skorti upplýsingar um áhrif eignaraðildar Vestmannaeyjabæjar að félaginu á fjárhag bæjarsjóðs.

 

Í athugun sinni hefur ráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu varðandi ábyrgðir Vestmannaeyjabæjar vegna skuldbindinga ÞV að bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar hafi verið óheimilt, með vísan til 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, að samþykkja ábyrgðir fyrir skuldbindingum ÞV. Ekki er hins vegar unnt að álykta af þeirri niðurstöðu að Vestmannaeyjabær sé laus undan umræddum skuldbindingum þar sem eigendur ÞV eru ábyrgir fyrir öllum skuldbindingum félagsins á grundvelli stofnsamnings þess, að uppfylltum þeim skilyrðum sem þar er getið.

 

Einnig hefur ráðuneytið gert alvarlega athugasemd við það að á árunum 2001 og 2002 greiddi Vestmannaeyjabær 1,2 milljónir króna hvort árið til ÞV í gegnum félagslegar íbúðir bæjarins. Ráðuneytið telur með öllu óeðlilegt að umræddar greiðslur hafi verið inntar úr bæjarsjóði án þess að sýnilegt framlag kæmi á móti. Þá hefur engin skýring verið gefin á því að greiðsla var einnig innt af hendi árið 2002, önnur en sú að heimild hafi verið til þess í fjárhagsáætlun. Telur ráðuneytið ástæðu til að finna verulega að þessari framkvæmd og er nauðsynlegt að viðeigandi leiðréttingar verði gerðar hið fyrsta.

 

Í áliti ráðuneytisins hefur einungis verið vikið að helstu álitamálum er varða rekstur ÞV og tengsl félagsins við Vestmannaeyjabæ. Telji eigendur félagsins þörf á ítarlegri rannsókn á fjárreiðum félagsins geta þeir sjálfir tekið þá ákvörðun, óháð athugun ráðuneytisins.

 

Ef sveitarstjórn vanrækir skyldur sínar skal ráðuneytið skv. 2. mgr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga veita henni áminningu og skora á hana að bæta úr vanrækslunni. Verði sveitarstjórn eigi við áskorun ráðuneytisins er heimilt að stöðva greiðslur til sveitarsjóðs úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Jafnframt getur ráðuneytið með lögsókn krafist dagsekta af þeim sem ábyrgð bera á vanrækslunni.

 

Samkvæmt fyrirliggjandi málsgögnum hefur þegar verið bætt úr mörgum þeim ágöllum sem komið hafa í ljós við athugun ráðuneytisins á málefnum ÞV. Þá ber einnig að hafa í huga að nýr meirihluti hefur tekið við stjórn Vestmannaeyjabæjar. Í ljósi þessa telur ráðuneytið ekki rétt að beita viðurlögum á grundvelli umrædds ákvæðis sveitarstjórnarlaga.

 

Þess er hins vegar vænst að bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar muni tilkynna ráðuneytinu hvaða aðgerða hún mun grípa til í því skyni að koma betra lagi á rekstur ÞV. Einnig er þess vænst að ráðuneytinu verði tilkynnt um leiðréttingar sem gerðar verða í ársreikningi bæjarins fyrir árið 2002 vegna greiðslna, sem ráðuneytið hefur gert athugasemd, við frá félagsíbúðum Vestmannaeyjabæjar til ÞV.

 

F.h.r.

Garðar Jónsson (sign.)

Guðjón Bragason (sign.)

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta