Rangárþing eystra - Hæfi skoðunarmanna sem sæti áttu í fráfarandi sveitarstjórn, skylda til að kjósa varamenn skoðunarmanna
Rangárþing eystra 19. júní 2003 FEL03060028/1001
Ágúst Ingi Ólafsson
Hlíðarvegi 16
860 Hvolsvöllur
Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 18. júní 2003, þar sem óskað er álits ráðuneytisins á hæfi skoðunarmanna Rangárþings eystra við endurskoðun ársreiknings sveitarfélagsins fyrir árið 2002. Fram kemur í erindinu að kjörnir skoðunarmenn sveitarfélagsins sátu í sveitarstjórnum á kjörtímabilinu 1998-2002. Gegndi annar þeirra embætti oddvita í Fljótshlíðarhreppi en hinn var aðalmaður í hreppsnefnd Vestur-Eyjafjallahrepps. Þessi sveitarfélög hafa nú sameinast ásamt fjórum öðrum sveitarfélögum í nýtt sveitarfélag, Rangárþing eystra, og tók sameiningin gildi hinn 9. júní 2002.
Í áliti ráðuneytisins frá 19. nóvember 1998 varðandi Breiðdalshrepp (ÚFS 1998:191), komst ráðuneytið að þeirri niðurstöðu að einstaklingur, sem setið hafði í sveitarstjórn kjörtímabilið 1994-1998, gæti ekki verið skoðunarmaður ársreiknings sveitarfélagsins fyrir árið 1998. Byggðist sú niðurstaða á þeim rökum að í ársreikningi birtist í tölum afleiðingar tiltekinna ákvarðana sveitarstjórnar á reikningsárinu og verði að telja að sveitarstjórnarmaður beri almennt með beinum og/eða óbeinum hætti ábyrgð á ákvörðunum hennar. Hann geti því ekki jafnframt verið endurskoðandi eigin gerða.
Með vísan til fyrrgreinds álits telur ráðuneytið að einstaklingar, sem voru kjörnir aðal- eða varamenn í sveitarstjórn einhvers þeirra sveitarfélaga sem nú tilheyra Rangárþingi eystra á kjörtímabilinu 1998-2002, geti ekki verið skoðunarmenn ársreikninga sveitarfélagsins fyrir árið 2002. Þeir geti hins vegar endurskoðað síðari ársreikninga sveitarfélagsins á yfirstandandi kjörtímabili.
Fram kom í samtali við yður að láðst hefði að skipa varamenn skoðunarmanna á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar Rangárþings eystra, svo sem skylt er skv. 1. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga. Úr þessu þarf að bæta án tafar. Þá kom fram í máli yðar að fyrirhugað væri að halda fyrri umræðu um ársreikning fyrir árið 2002 í dag, 19. júní.
Varðandi afgreiðslu ársreiknings Rangárþings eystra fyrir árið 2002 telur ráðuneytið rétt að benda á að með vísan til úrskurðar ráðuneytisins frá 29. maí 1995 varðandi Bolungarvíkurkaupstað (ÚFS 1995:104), er ekki unnt að ljúka fyrri umræðu um ársreikninginn fyrr en skýrsla hæfra skoðunarmanna er lögð fram í sveitarstjórn. Sveitarstjórn getur falið varamönnum skoðunarmanna, þegar þeir hafa verið kjörnir, að endurskoða ársreikninginn innan hæfilegs tíma, í samræmi við ákvæði 69-71. gr. sveitarstjórnarlaga og lokið síðan fyrri umræðu um ársreikninginn þegar skýrsla þeirra liggur fyrir. Síðari umræðu skal síðan halda a.m.k. viku síðar, sbr. 21. gr. sveitarstjórnarlaga.
F. h. r.
Sesselja Árnadóttir (sign.)
Guðjón Bragason (sign.)