Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Sandgerðisbær - Samningur um byggingu miðbæjarkjarna, skylda til að afla sérfræðiálits skv. 2. mgr. 65. gr. sveitarstjórnarlaga

Heiðar Ásgeirsson                                       30. september 2003                      FEL03090060/1001

Holtsgötu 44

245 SANDGERÐI

 

 

 

Vísað er til bréfs yðar, dags. 17. september 2003, þar sem óskað er álits ráðuneytisins á samþykkt bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar frá 10. september sl., um að ganga til samninga við Búmenn hsf. um samstarf um byggingu íbúða- og þjónustukjarna. Í erindi yðar kemur fram að ágreiningur er um málið innan bæjarstjórnar og að við umræður á fundinum hafi ekki legið fyrir sérfræðiálit skv. 65. gr. sveitarstjórnarlaga um áhrif samningsins á fjárhag sveitarsjóðs.

 

Ráðuneytið aflaði upplýsinga um stöðu málsins í símtali við bæjarstjóra Sandgerðisbæjar 27. september sl. Í máli hans kom fram að viðræður færu nú fram á grundvelli samþykktar bæjarstjórnar frá umræddum fundi. Lýsti bæjarstjóri þeirri skoðun að þar sem forsendur samningsins væru enn í mótun væri á þessu stigi ekki unnt að leggja fram álit um áhrif samningsins á fjárhag sveitarsjóðs.

 

Með lögum nr. 74/2003 var bætt inn í 65. gr. sveitarstjórnarlaga nýrri málsgrein þar sem mælt er fyrir um skyldu til að afla álits sérfróðs aðila áður en sveitarstjórn staðfestir samninga um framkvæmdir eða þjónustu við íbúa sveitarfélags sem gilda eiga til langs tíma og hafa í för með sér verulegar skuldbindingar fyrir sveitarsjóð. Miðað við þau samningsdrög sem fylgdu erindi yðar er það mat ráðuneytisins að skuldbindingar vegna fyrirhugaðs miðbæjarkjarna muni að öllum líkindum hafa veruleg áhrif á fjárhag og rekstur Sandgerðisbæjar á komandi árum og af þeirri ástæðu sé skylt að afla álits sérfróðs aðila um kostnaðaráætlun og væntanleg áhrif á fjárhagsafkomu sveitarsjóðs á framkvæmdatíma og gildistíma þeirra samninga sem um er að ræða. Jafnframt skal gera grein fyrir því hvernig framkvæmdin samræmist þriggja ára áætlun sveitarfélagsins.

 

Miðað við framkomnar skýringar telur ráðuneytið að ekki hafi verið skylt að leggja fram umrætt sérfræðiálit á fundi bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar sem haldinn var 10. september sl., þar sem ákveðið var að ganga til samninga við Búmenn hsf. um fyrirhugaða framkvæmd. Það er hins vegar mat ráðuneytisins, miðað við þau gögn sem liggja frammi í málinu, að umrætt álit verði að liggja fyrir áður en aflað verður endanlegrar staðfestingar bæjarstjórnar á samningum um fyrirhugaðar framkvæmdir.

 

 

F. h. r.

Guðjón Bragason (sign.)

Óskar Páll Óskarsson (sign.)

Afrit:

Sandgerðisbær

 

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta