Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Úrskurður í máli nr. SRN17060068

   

Ár 2017, þann 14. desember, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN17060068

 

Kæra X

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 14. júní 2017 barst ráðuneytinu kæra X á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 15. mars 2017 um að synja umsókn hans um forskráningu á bifhjóli af gerðinni Harley Davidson Dyna Wide Glide árgerð 2003. Krefst X þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og SGS verði gert að forskrá bifhjólið.

Kæruheimild er í 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda en upphaflega sótti X um forskráningu á notuðu bifhjóli af gerðinni Harley Davidson Dyna Wide Glide í mars 2016. Var þeirri umsókn synjað með ákvörðun SGS þann 23. mars 2016 þar sem fram kæmi í titilsbréfi að um væri að ræða tjónaökutæki sem ekki væri hæft til skráningar. Í september 2016 sótti X á ný um forskráningu sama ökutækis og lagði fram ný gögn með umsókninni. Var þeirri umsókn X einnig synjað þar sem hin nýju gögn breyttu ekki fyrri afstöðu SGS. Hvorug umræddra ákvarðana var kærð til ráðuneytisins. Í október 2016 sótti X á ný um forskráningu ökutækisins en þeirri umsókn var synjað með ákvörðun SGS þann 13. mars 2017. Í þeirri ákvörðun kom fram að það væri mat SGS að framlögð gögn væru ekki fullnægjandi og með vísan til þess sem og til fyrri afgreiðslna væri umsókn X synjað. Í nóvember 2016 móttók SGS aðra umsókn frá X um forskráningu ökutækisins og fékk sú umsókn annað afgreiðslunúmer en umsóknin frá því í október 2016, en í gögnum málsins kemur fram að um sama málið sé að ræða. Var umsókninni frá því í nóvember 2016 synjað með ákvörðun SGS þann 15. mars 2017. Er það sú ákvörðun sem X kærir til ráðuneytisins. Eftir að ákvörðun SGS barst X með tölvubréfi óskaði hann eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Með tölvubréfi SGS þann 21. apríl 2017 var X tilkynnt að líta bæri á síðustu svör sem rökstuðning fyrir synjun SGS þar sem um væri að ræða sama málið óháð afgreiðslunúmerum. Með bréfi SGS dags. 12. maí 2017 áréttaði SGS að það væri mat stofnunarinnar að ekkert nýtt væri komið fram sem réttlætti endurupptöku málsins og vísað til fyrri svara að baki niðurstöðu stofnunarinnar. 

Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með bréfi X mótteknu 14. júní 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 16. júní 2017 var SGS gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi SGS mótteknu 11. júlí 2017.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 15. ágúst 2017 var X kynnt umsögn SGS og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Bárust þær athugasemdir ráðuneytinu með bréfi X mótteknu 11. september 2017.

Með bréfi dags. 25. september 2017 tilkynnti ráðuneytið X að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

 

III.      Málsástæður og rök X

Í kæru kemur fram að umsókn X um forskráningu bifhjólsins hafi verið send SGS þann 2. nóvember 2016 og verið synjað þann 15. mars 2017. Komi þar aðeins fram að gögn séu ófullnægjandi  og skriflegur rökstuðningur verði sendur með pósti. Hafi enginn rökstuðningur borist þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. X kveðst hafa flutt bifhjólið inn frá USA í byrjun mars 2016 í góðri trú um að það fengist auðveldlega skráð hér á landi. Telur X að hann hafi sýnt fram á að bifhjólið standist allar kröfur sem gerðar eru til ökutækja samkvæmt reglugerð nr. 822/2004. Með umsókn sinni kveðst X hafa lagt fram grindarmælingavottorð frá Bílastoð ehf. sem sé vottað Cabas verkstæði. Þá hafi X lagt fram ástandsskoðunarvottorð frá Aðalskoðun sem sé vottuð skoðunarstöð af SGS. Bæði vottorðin séu án athugasemda. Í þessari umsókn hafi titilsbréfið verið tekið út. X bendir á að í ákvæði 03.05(a) reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 komi fram að séu gögn misvísandi sem SGS eru látin í té af umsækjanda gildi liður 03.05(2). Þar komi fram að SGS meti hvort gögn varðandi skráningarviðurkenningu séu fullnægjandi. Með framlagningu grindarmælingavottorðs og ástandsskoðunarvottorðs, sem bæði séu án athugasemda, hafi X sýnt fram á að bifhjólið standist allar þær kröfur sem gerðar eru til ökutækja við skráningu með því að standast ákvæði 03.05(3) og 03.05(6) samkvæmt reglugerðinni. Þar með geti bifhjólið ekki talist tjónaökutæki samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglugerðarinnar. Þá tekur X fram að hann hafi aldrei fengið rökstuðning fyrir ákvörðun SGS við umsóknina sem lögð var fram í nóvember 2016 og hafi fengið afgreiðslunúmerið 634LTA. Aðeins hafi fengist svör við eldri umsókn með afgreiðslunúmerið 940GXT. Í svörum SGS hafi aðeins verið vísað til fyrri svara stofnunarinnar. X telur að SGS geti auðveldlega samþykkt grindarmælingavottorð og ástandsskoðunarvottorð sem fullgild fylgigögn með umsókn hans. Bifhjólið sem um ræðir þurfi ekki á nokkurri viðgerð að halda og geti ekki talist tjónaökutæki. Hafi SGS í eldri málum sagt að það væri gerð krafa um að viðgerðir væru framkvæmdar og/eða teknar út af viðurkenndum fagaðilum sem gefi út vottorð sem staðfesti að viðkomandi ökutæki sé ekki lakara en sambærilegt ökutæki óskemmt. Þar sem vottorðin séu bæði án athugasemda sanni þau að bifhjólið sé fullkomlega skráningarhæft.

Í andmælum X áréttar hann að kærð sé umsókn með afgreiðslunúmerið 634LTA sem synjað var með ákvörðun SGS þann 15. mars 2017. Ítrekar X að framlagning grindarmælingavottorðs og ástandsskoðunarvottorðs sýni fram á að bifhjólið sé skráningarhæft og standist allar kröfur. Þá bendir X á að í ákvæði 03.05(4) reglugerðar nr. 822/2004 komi fram að gögn þurfi að fylgja um staðfestingu á fyrsta skráningardegi og/eða framleiðsluári, komi þessi atriði ekki fram í skráningarskírteini/titilsbréfi. Í ákvæði 03.20 reglugerðarinnar segi að þegar skráning á bifhjóli er viðurkennd skuli ekki gera kröfu um staðfestingu eða vottorð samkvæmt liðum 03.04(4)b og 03.05(4)b. Kröfu um búnað skuli uppfylla samkvæmt reglugerðinni eftir því sem við á. Þar með þurfi ekki skráningarskírteini/titilsbréf að fylgja umsókninni vegna skráningar bifhjólsins. Þá áréttar X að SGS beri að meta tilgreind vottorð fullgild og fullnægjandi gögn varðandi skráningu bifhjólsins. Séu vottorðin gefin út af viðurkenndum fagaðilum og hafi X þannig hnekkt þeirri staðhæfingu SGS þess efnis að bifhjólið sé ekki tækt til skráningar. Þá sýni vottorðin að bifhjólið geti ekki talist tjónaökutæki samkvæmt skilgreiningu 2. gr. reglugerðarinnar.

 

IV.       Ákvörðun og umsögn SGS

Í ákvörðun þeirri frá 15. mars 2017 sem vísað er til í kæru koma ekki fram sjálfstæð rök fyrir niðurstöðu SGS. Í tölvubréfi SGS til X frá 21. apríl 2017 sem og í bréfi stofnunarinnar frá 12. maí 2017 kemur hins vegar fram að líta beri á síðustu svör SGS sem rökstuðning fyrir synjun stofnunarinnar þar sem um sé að ræða sama málið óháð afgreiðslunúmerum. Telur ráðuneytið að með því sé einkum vísað til þeirra sjónarmiða sem fram koma í bréfi SGS til X frá 13. mars 2017 þar sem sama mál er til umfjöllunar.

Í ákvörðun SGS frá 13. mars 2017 kemur fram að upphaflega hafi forskráningu bifhjólsins verið synjað á grundvelli ákvæða reglugerðar nr. 822/2004 þar sem áskilið er að umsókn um skráningarviðurkenningu allra notaðra ökutækja skuli fylgja frumrit erlends skráningarskírteinis eða titilsbréfs sem veiti heimild til notkunar án takmörkunar í landinu þar sem skráningarskírteinið/titilsbréfið er gefið út. Í tölvubréfi X frá 30. október 2016 sé lagt til að send verði inn ný umsókn án titilsbréfs en í stað þess verði lagt fram grindarmælingavottorð og ástandsskoðunarvottorð. Geti SGS þá horft til þess að lögð séu fram misvísandi gögn sbr. lið 03.05(4) reglugerðar nr. 822/2004 og metið hvort um sé að ræða fullnægjandi gögn. SGS vísar til þess að ákvæði reglugerðar nr. 822/2004 sé skýrt um að með umsókn um skráningarviðurkenningu allra notaðra ökutækja skuli fylgja frumrit erlends skráningarskírteinis eða titilsbréfs sem veiti heimild til notkunar án takmörkunar í landinu þar sem skráningarskírteinið/titilsbréfið er gefið út. Það sé síðan SGS að meta það sbr. lið 03.05(2) í reglugerðinni. Þá kemur fram í ákvörðuninni að í ljósi þessa og með vísan í fyrri afgreiðslur verði ekki séð að skilyrði fyrir skráningu bifhjólsins séu fyrir hendi.

Í umsögn SGS kemur fram að um skráningarviðurkenningu notaðra ökutækja sé fjallað í ákvæði 03.05 reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004. Segi þar í ákvæði 03.05(4) að með umsókn um skráningarviðurkenningu skuli fylgja frumrit erlends skráningarskírteinis eða titilsbréfs sem veiti heimild til notkunar án takmörkunar í landinu þar sem skráningarskírteinið/titilsbréfið er gefið út. Þá þurfi einnig að fylgja gögn um staðfestingu á fyrsta skráningardegi og/eða framleiðsluári komi þessi atriði ekki fram í skráningarskírteininu/ titilsbréfinu. Séu gögn sem SGS eru látin í té af umsækjanda, flutningsaðila eða tollstjóra misvísandi gildi liður 03.05(2). Ákvæði 03.05(4) hafi verið túlkað svo að þegar titill ökutækis felur í sér athugasemd um að viðkomandi ökutæki hafi lent í tjóni sé það takmörkun á titli ökutækis og forskráning ekki heimil. Í titilsbréfi bifhjólsins sem um ræðir komi fram að um sé að ræða tjónaökutæki sem ekki er hæft til skráningar. Sé því um að ræða takmörkun á titli bifhjólsins í skilningi ákvæðis 03.05(4) reglugerðar nr. 822/2004. Það að X hafi sent inn nýja umsókn án titilsbréfs en í staðinn látið fylgja grindarmælingarvottorð og ástandsskoðunarvottorð breyti engu um framangreinda túlkun enda séu ákvæði reglugerðar nr. 822/2004 skýr um að með umsókn um skráningarviðurkenningu allra notaðra ökutækja skuli fylgja frumrit erlends skráningarskírteinis eða titilsbréfs, sem veiti heimild til notkunar án takmörkunar þar sem skráningarskírteinið/titilsbréfið er gefið út. Það sé SGS að meta hvort gögn varðandi skráningarviðurkenningu eru fullnægjandi, sbr. lið 03.05(2) í reglugerðinni.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Líkt og fram hefur komið á mál þetta sér nokkurn aðdraganda. Má sjá af gögnum málsins að X hefur freistað þess um nokkurn tíma að fá tilgreint bifhjól forskráð en öllum umsóknum hans verið synjað af SGS. Var umsókn X um forskráningu bifhjólsins fyrst synjað með ákvörðun SGS þann 23. mars 2016 og síðan aftur með ákvörðun stofnunarinnar frá 17. október 2016. Eftir að sú ákvörðun gekk fór X þess á leit á ný að fá bifhjólið forskráð og lagði fram ný gögn með umsókn sinni. Var þeirri umsókn einnig synjað með ákvörðun SGS þann 13. mars 2017 og sú synjun síðan áréttuð með tölvubréfi stofnunarinnar þann 15. mars 2017. Er það sú ákvörðun sem X kveðst kæra til ráðuneytisins.

X vísar til þess að þann 2. nóvember 2016 hafi hann lagt inn til SGS umsókn um forskráningu bifhjólsins sem fengið hafi afgreiðslunúmerið 634LTA. Áður hafi X lagt fram umsókn sem fengið hafi afgreiðslunúmerið 940GXT. Hafi SGS synjað þeirri umsókn með ákvörðun stofnunarinnar frá 13. mars 2017. Hins vegar hafi umsókn með afgreiðslunúmerið 634LTA verið synjað með tölvubréfi SGS þann 15. mars 2017 án rökstuðnings.

Í bréfi SGS til X frá 12. maí 2017 kemur fram að þegar nýjar umsóknir hafi borist frá X um forskráningu bifhjólsins hafi skjalakerfi stofnunarinnar úthlutað umsóknunum afgreiðslunúmeri en engu að síður sé um að ræða sama málið. Þannig berið að líta á síðustu svör SGS við umsókn 940GTX sem svör við umsókn 634LTA. Telur ráðuneytið þannig að líta beri til ákvörðunar SGS frá 13. mars 2017 varðandi þau sjónarmið sem hin kærða ákvörðun byggist á enda tekur ráðuneytið undir það með SGS að líta beri á umsóknir X um forskráningu bifhjólsins sem eitt mál burtséð frá afgreiðslunúmerum sem þær fá hjá SGS.

Um skráningarviðurkenningu notaðra ökutækja er fjallað í ákvæði 03.05 reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004. Kemur þar fram í ákvæði 03.05(4) að meðfylgjandi umsókn um skráningarviðurkenningu skuli fylgja frumrit erlends skráningarskírteinis/titilsbréfs sem veitir heimild til notkunar án takmörkunar í landinu þar sem skráningarskírteinið/titilsbréfið er gefið út. Þá þurfa einnig að fylgja gögn um staðfestingu á fyrsta skráningardegi og/eða framleiðsluári komi þessi atriði ekki fram í skráningarskírteininu/titilsbréfinu. Séu gögn misvísandi sem SGS eru látin í té af umsækjanda, flutningsaðila eða tollstjóra gildir liður 03.05(2).

Ráðuneytið tekur undir þau sjónarmið SGS að ákvæðið beri með sér að frumrit titilsbréfs ökutækis skuli bera með sér að veitt sé heimild til notkunar ökutækis án takmörkunar. Er ráðuneytið sammála því sjónarmiði SGS að túlka beri ákvæðið svo að þegar titill ökutækis felur í sér athugasemd um að viðkomandi ökutæki hafi lent í tjóni sé það takmörkun á titli ökutækis. Er ákvæðið afdráttarlaust hvað þetta varðar og í slíkum tilvikum er forskráning ekki heimil. Í máli því sem hér er til umfjöllunar liggur fyrir að um er að ræða tjónaökutæki sem ekki er hæft til skráningar. Er þar um að ræða takmörkun á titli ökutækisins í skilningi ákvæðis 03.05(4) reglugerðar nr. 822/2004 og forskráning þess því ekki heimil. Það eitt að X hafi nú lagt fram nýja umsókn án titilsbréfs en í stað þess látið fylgja grindarmælingavottorð og ástandsskoðunarvottorð  getur í engu breytt framangreindum ákvæðum reglugerðarinnar.

Samkvæmt ákvæði 03.05(2) reglugerðarinnar er það hlutverk SGS að meta hvort gögn varðandi skráningarviðurkenningu eru fullnægjandi. Með vísan til þess sem rakið hefur verið er það mat ráðuneytisins að fallast beri á það mat SGS að skráningargögn með umsókn um forskráningu bifhjólsins séu ekki fullnægjandi. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu um að synja umsókn X um forskráningu á bifhjóli af gerðinni Harley Davidson Dyna Wide Glide árgerð 2003.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta