Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Djúpvogshreppur: Ágreiningur um álagningu B-gatnagerðargjalds. Mál nr. 42/2009

 

Ár 2009, 5. nóvember er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 42/2009 (SAM09060024)
Jóhann Ævar Þórisson og Kristrún Jónsdóttir
gegn
Djúpavogshreppi

I.         Aðild, kröfur, kæruheimild og kærufrestur

Með stjórnsýslukæru dags. 5. júní 2009 kærði Magnús Helgi Árnason hdl., f.h. Jóhanns Ævars Þórissonar kt. 190246-3299 og Kristrúnar Jónsdóttur kt. 080346-3529 (hér eftir nefnd A og B), Vörðu 18, Djúpavogi, ákvörðun Djúpavogshrepps frá 3. júní 2009 um álagningu gatnagerðargjalds á eign þeirra, Vörðu 18, Djúpavogi. 

Er gerð sú krafa af hálfu A og B að ráðuneytið felli úr gildi þá ákvörðun Djúpavogshrepps að leggja kr. 762.234 B-gatnagerðargjald á eignina Vörðu 18, Djúpavogi.  Af hálfu Djúpavogshrepps er kröfu A og B um að fella ákvörðunina úr gildi hafnað og hún ekki talin á rökum reist.  

Eftirfarandi skjöl hafa verið lögð fram í málinu.

nr. 1.

Stjórnsýslukæra dags. 5. júní 2009, ásamt eftirfarandi fylgigögnum:

a. Tilkynning Djúpavogshrepps til A um álagningu gatnagerðargjalds, dags. 3. júní 2009.
b. Greiðsluseðill vegna gatnagerðargjalda á Vörðu 18, gjaldd. 3.6.09.
c. Bréf Djúpavogshrepps til A dags. 14. maí 2009.
d. Bréf A og B til Djúpavogshrepps dags. 28. maí 2009.
nr. 2. Bréf ráðuneytisins til A og B dags. 8. júní 2009, staðfest móttaka kæru.
nr. 3. Bréf ráðuneytisins til Djúpavogshrepps dags. 10. júní 2009, óskað umsagnar.
nr. 4. Umsögn Djúpavogshrepps dags. 7. júlí 2009.
nr. 5. Bréf ráðuneytisins til A og B dags. 8. júlí 2009, veittur andmælaréttur.
Nr. 6. Andmæli A og B dags. 23. júlí 2009.
Nr. 7. Bréf ráðuneytisins til Djúpavogshrepps dags. 27. júlí 2009, óskað frekari upplýsinga.
Nr. 8. Bréf Djúpavogshrepps til ráðuneytisins dags. 31. júlí 2009

nr.

 

nr.

9.

 

10.

Bréf ráðuneytisins til Djúpavogshrepps og til A og B, dags. 7. ágúst 2009, tilkynnt um afgreiðslu.

Tölvupóstur til beggja aðila, tilkynnt um frekari drátt á afgreiðslu.

Þá vísa A og B einnig til allra gagna sem lögð voru fram til ráðuneytisins og tilgreind eru í úrskurði þess frá 30. apríl 2009, mál nr. 68/2008 (SAM08100009).

Um kæruheimild er vísað til 1. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. 11. gr. laga nr. 153/2006 um gatnagerðargjald.   Hin kærða ákvörðun var tekin þann 3. júní 2009 og barst ráðuneytinu þann 8. júní sl. með kæru dags. 5. júní 2009.  Kæra barst því innan hins almenna þriggja mánaða kærufrests stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 11. gr. laga nr. 153/2006.  Ekki er ágreiningur um aðild.

II.  Málsatvik og málsmeðferð

Tekið skal fram í upphafi að með stjórnsýslukæru þeirri sem er til umfjöllunar í máli þessu bárust einungis gögn um samskipti Djúpavogshrepps við A vegna hinnar kærðu álagningar.  Í símtali ráðuneytisins við lögmann A og B var upplýst að sama ætti við um B, álagningu hafi verið beint að henni með sama hætti og gagnvart A og væri kært vegna þeirra beggja.  Ráðuneytið mun því við afgreiðslu máls þessa líta svo á að kært sé vegna bæði A og B og sömu málsástæður eigi við um þau bæði.  Enda ekki á því byggt af hálfu Djúpavogshrepps að málið varði A eingöngu.

Samkvæmt gögnum málsins voru málavextir þess með eftirfarandi hætti.

Með stjórnsýslukæru dags. 1. október 2008 kærðu A og B ákvörðun Djúpavogshrepps frá júní 2008 að leggja gatnagerðargjald (B-gatnagerðargjald) að fjárhæð kr. 540.158 á fasteignina Vörðu 18, Djúpavogi og kröfðust þess að álagningin yrði felld úr gildi.  Í málinu var deilt um hvort lagaheimild væri fyrir álagningu og innheimtu gjaldsins með þeim hætti sem sveitarfélagið gerði. Ráðuneytið kvað upp úrskurð í málinu þann 30. apríl 2009, mál nr. 68/2008 (SAM08100009) og var niðurstaðan að fallist var á kröfu A og B og ákvörðun Djúpavogshrepps felld úr gildi. Taldi ráðuneytið lagaskilyrði álagningar ekki vera fyrir hendi þar sem álagningin var byggð á samþykkt sem uppfyllti ekki það lagaskilyrði að vera staðfest af ráðherra.   Hins vegar var það niðurstaða ráðuneytisins að með breytingum á bráðabirgðaákvæði laga um gatnagerðargjald hafi löggjafinn ákveðið að heimild til innheimtu B-gatnagerðargjaldsins skyldi haldast óslitin frá gildistöku laga nr. 51/1974 til ársloka 2012.  Lagaheimild hvað tímamörk varðar hafi því verið uppfyllt. 

Í kjölfar úrskurðar ráðuneytisins var A og B, með bréfi Djúpavogshrepps dags. 14. maí 2009, tilkynnt um að fallið væri frá fyrirhugaðri álagningu B-gatnagerðargjalds á fasteignina Vörðu 18 á Djúpavogi á grundvelli samþykktar nr. 941/2005.  Þá var tilkynnt að fyrirhugað væri að leggja að nýju á nefnt gjald þar sem lagningu bundins slitlags á götuna hefði lokið í júlí 2007 á grundvelli samþykktar sveitarstjórnar Búlandshrepps frá 10. ágúst 1998.  Var þeim tilkynnt um fyrirhugaða álagningu og veittur 14 daga andmælaréttur. 

Álagningu var andmælt með bréfi dags. 28. maí 2009 og m.a. vísað til þess að með álagningu væri jafnræðisregla stjórnsýsluréttarins brotin auk þess sem með tilkynningu um niðurfellingu álagningar hefði Djúpavogshreppur fallið frá frekari heimild til að leggja gjaldið á að nýju. Með bréfi dags. 3. júní 2009 var A  og B tilkynnt um álagningu B-gatnagerðargjalds á Vörðu 18, Djúpavogi og fylgdi með greiðsluseðill með gjalddaga 3. júní 2009 og eindaga 3. júlí 2009.  Hafnar sveitarfélagið því alfarið að jafnræði sé brotið og vísar til þess að aðrir gjaldendur hafi greitt sín gjöld í samræmi við samþykkt sem var í gildi á þeim tíma sem greitt var.  Andmæli breyti ekki ákvörðun um álagningu.

Ráðuneytinu barst stjórnsýslukæra dags. 5. júní 2009 þar sem kærð er ákvörðun Djúpavogshrepps um álagningu gatnagerðargjalds á eignina Vörðu 18, og þess krafist að hún verði felld úr gildi.   Móttaka kærunnar var staðfest með bréfi þann 8. júní 2009 og send Djúpavogshreppi til umsagnar þann 8. júní s.á.  Umsögn Djúpavogshrepps barst ráðuneytinu 8. júlí 2009 og var A og B gefinn kostur á andmælum með bréfi þann sama dag. 

Andmæli bárust ráðuneytinu 27. júlí sl. og óskað ráðuneytið þann sama dag eftir frekari upplýsingum frá Djúpavogshreppi.  Svar hreppsins barst 31. júlí 2009 og með bréfum dags. 7. ágúst sl. var báðum aðilum tilkynnt um afgreiðslu málsins og ráðgert væri að ljúka því fyrir lok október.   Það gekk hins vegar ekki eftir og var báðum aðilum tilkynnt með tölvupósti þann 30. október sl. að uppkvaðning úrskurðar myndi tefjast.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.  Málsástæður og rök A og B

Af hálfu A og B er gerð sú krafa að ákvörðun Djúpavogshrepps frá 3. júní 2009 um álagningu gatnagerðargjalds að fjárhæð kr. 762.234 á eign þeirra, Vörðu 18, Djúpavogi verði felld úr gildi.  Er vísað bæði til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og laga um gatnagerðargjald nr. 51/1974, 17/1996 og 153/2006.  Færa A og B eftirfarandi rök fyrir kröfu sinni.

1.  Í úrskurði ráðuneytisins frá 30. apríl 2009 komi fram sú niðurstaða að tímamark heimildar til álagningar B-gatnagerðargjalds, með vísan til bráðabirgðaákvæðis laga nr. 17/1996, hafi runnið út 31. desember 2006 og hafi því ákvörðun um álagningu gjalds í ágúst 2006 verið innan þeirrar heimildar.  A og B fallast ekki á þá niðurstöðu og sjá ekki hvernig álagningin geti farið fram í ágúst 2006 með vísan til samþykktar hreppsins nr. 941/2005 sem úrskurðað hefur verið að hafi ekki gildi að lögum.  Telja A og B því álagningu vera utan tímamarka nefndra laga.

Vísað er til leiðbeinandi reglu 4. gr. laga nr. 51/1974 um 5 ára afturvirk tímamörk til innheimtu gjaldsins.  Það taki með lögjöfnun til tímamarks sem ákvarðar upphafstíma framkvæmda og því hafi sveitarfélag sem hefur framkvæmdir í júlí 2006 ekki heimild til gjaldtöku sem byggist á bráðabirgðaákvæði laga nr. 17/1996.  Verklok geti nú dregist allt til 31. desember 2012 en upphafstími verksins taki mið af 4. gr. laga nr. 51/1974.  Upphafstíma framkvæmda sem nutu gjaldtökuheimildar laganna frá 1974 séu takmörk sett og varði breytingar á lögunum ekki upphafstíma heldur einungis tíma verkloka.

Það er því mat A og B að lagaheimild skorti til álagningar gatnagerðargjaldsins þegar af þessari ástæðu.  Taka A og B fram að þau geri frekari athugasemdir við I. til V. kafla í fyrri úrskurði ráðuneytisins en að þessu leyti og áskilja sér rétt til að reifa það frekar síðar.

2.  A og B benda á að þegar þeim, þann 3. júní 2008, var tilkynnt um niðurfellingu álagningar B-gatnagerðargjalds, hafi verið gerður sérstakur fyrirvari um álagningu á ný þess efnis að gjald yrði lagt á að nýju ef ráðherra staðfesti samþykkt Djúpavogshrepps nr. 941/2005.  Sama álagning hafi verið tilkynnt þeim með bréfi 30. júní 2008.  Sú ákvörðun um álagningu, sem ráðuneytið felldi úr gildi með úrskurði, hafi ekki getað byggt á öðru en því að Djúpavogshreppur hafi nýtt sér fyrirvara sem gerður var með tilkynningunni þann 3. júní 2008 enda fjárhæð niðurfellingar og fjárhæð álagningar sú sama. 

A og B benda á að Djúpavogshreppur hafi ekki og geti ekki afturkallað ívilnandi ákvörðun um niðurfellingu álagningar gatnagerðargjalds.  Þau hafi kært íþyngjandi ákvörðun sveitarfélagsins frá 30. júní 2008 til ráðuneytisins og hafi ráðuneytið ógilt þá ákvörðun og fellt úr gildi með úrskurði sínum. 

Hin ívilnandi ákvörðun, um niðurfellingu álagningar, sem tilkynnt var A og B með bréfi 3. júní 2008, hafi ekki verið kærð til ráðuneytisins.  Því standi sú ákvörðun óbreytt eftir úrskurð ráðuneytisins, þ.e. ákvörðun um að fella niður álagningu að fjárhæð kr. 540.158.  Nú þegar liggi fyrir að hreppurinn hafi fellt samþykktina nr. 941/2005 úr gildi hafi ákvörðunin frá 3. júní 2008, þess efnis að fella álagningu B-gatnagerðargjalda á Vörðu 18, öðlast fyrirvaralaust fullnaðargildi.

3.  A og B vísa einnig til 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um meðalhóf.  Eins og gögn málsins beri með sér hafi þau þurft að svara fjölda ákvarðana sveitarfélagsins sem fylgt hafi verið eftir með innheimtuaðgerðum, allt frá miðju ári 2006.  Að þeim aðgerðum hafi komið starfsmenn sveitarfélagsins og megi ætla að laun þeirra nemi hærri fjárhæð en umkrafið gatnagerðargjald. 

Nú þegar niðurstaða ráðuneytisins liggi fyrir um að óheimilt hafi verið að leggja gjaldið á með vísan til samþykktarinnar sem byggt var á, sé nóg að gert í álagningunni.  Djúpavogshreppi beri að gæta meðalhófs og falla frá álagningu gjaldsins.  Þá beri stjórnvaldinu Djúpavogshreppi skylda til að líta ekki einungis til þess markmiðs sem starf sveitarfélagsins stefnir að heldur ber einnig að taka tillit til hagsmuna og réttinda íbúa þess sem athafnir og valdbeiting stjórnvaldsins beinist að.  Sú grundvallarregla eigi að leiða til að ráðuneytið felli hina kærðu ákvörðun úr gildi.

4.  A og B vísa einnig til jafnræðisreglu 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaganna.  Djúpavogshreppur hafi að lögum ekki heimild til að ákvarða þeim gjöld með vísan til samþykktar nr. 404/1989 á meðan öðrum íbúum var gert að greiða á grundvelli samþykktarinnar frá 2005.  Gatnagerðargjald samkvæmt samþykkt nr. 941/2005 sé lægra en samkvæmt samþykktinni nr. 404/1989.  Sveitarfélaginu sé ekki heimilt á grundvelli jafnræðisreglunnar að refsa A og B með hærri gatnagerðargjöldum einungis af því þau hafa beitt sér fyrir því að farið sé að lögum. 

Í andmælum A og B eru gerðar frekari athugasemdir við málatilbúnað Djúpavogshrepps. 

Er þar fyrst að nefna að því sé ranglega haldið fram af hálfu sveitarfélagsins að í tilkynningu til A og B þann 3. júní 2008 hafi verið einhverjir aðrir fyrirvarar en rakið hefur verið.  Í bréfinu komi einungis fram fyrirvari um staðfestingu ráðherra á ósamþykktri samþykkt sveitarfélagsins nr. 941/2005.  Efni bréfsins sé afdráttarlaust og skýrt.

Meginrök sveitarfélagsins sem styðja eiga ákvörðun um álagningu séu byggð á því að lagaskilyrði til innheimtu hafi verið til staðar í lok júní 2008 þó fyrir liggi úrskurður ráðuneytisins þess efnis að lagaskilyrði fyrir innheimtu hafi ekki verið til staðar.  Umsögn sveitarfélagsins byggi á því meginstefi að engar lagalegar forsendur séu fyrir því að A og B einir fasteignaeigenda við götuna séu undanþegin greiðslu B-gatnagerðargjalda.  Hið rétta sé hins vegar að öll innheimta gjaldsins sem byggði á samþykktinni frá 2005 sé án lagaheimildar.  Slík óheimil innheimta sveitarfélagsins réttlæti alls ekki innheimtu hjá öðrum eigendum fasteigna á Djúpavogi. 

A og B telja að Djúpavogshreppi beri lagaleg skylda til að endurgreiða þeim sem greiddu B-gatnagerðargjald án þess að lagaheimild væri fyrir því, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 þar sem fjallað er um fyrirkomulag og skyldu stjórnvalda til endurgreiðslu oftekinna gjalda.  Sé það hugsanlega skylda ráðuneytisins að upplýsa fasteignaeigendur á Djúpavogi um úrskurðinn til að þau geti leitað réttar síns.  Má af umsögn sveitarfélagsins ráða að ekki standi til að endurgreiða oftekin gjöld þrátt fyrir lagaskyldu til þess.

IV.  Málsástæður og rök Djúpavogshrepps

Af hálfu Djúpavogshrepps er kröfum A og B um að fella ákvörðunina úr gildi hafnað og telur sveitarfélagið hana ekki á rökum reista heldur snúast um sérstakan skilning þeirra á lögum um gatnagerðargjald og stjórnsýslulögum.  Eru málsástæður og rök Djúpavogshrepps nánar eftirfarandi.

1.  Djúpavogshreppur telur það vera og hafa verið skoðun sína að bráðabirgðaákvæði I í yngri lögum um gatnagerðargjald nr. 17/1996 og lögum nr. 153/2006 heimili álagningu B-gatnagerðargjalds í tilteknum tilvikum allt til ársloka 2012.  Hafi ráðuneytið staðfest þann skilning í úrskurði sínum frá 30. apríl sl. 

Telur sveitarfélagið að um misskilning A og B sé að ræða hvað varðar upphafstíma framkvæmda en í 4. gr. lag nr. 51/1974 sé hvergi að finna viðmiðun um upphafstíma heldur einungis ákvörðun um að við upptöku B-gatnagerðargjaldsins var miðað við að framkvæmdum skyldi lokið innan 5 ára frá gildistöku laganna, árið 1974.  Sveitarfélagið hafnar alfarið þeirri skoðun A og B að álagning gjaldsins hafi farið fram utan tímamarka laganna. 

2.  Hvað niðurfellingu álagningar í júlí 2008 varðar bendir sveitarfélagið á að auk fyrirvara um að B-gatnagerðargjaldið yrði álagt að nýju þegar formsskilyrðum yrði fullnægt hafi niðurfellingin auk þess byggst á því að heildarálagningu vegna Vörðu 18 hafi í upphafi einungis verið beint að öðrum eiganda fasteignarinnar.  Þá hafi A og B verið veittur andmælaréttur sem leiddi til fyrra kærumálsins.  Áréttað er að A og B hafi þegar í upphafi verið gert ljóst að B-gatnagerðargjaldið yrði lagt á fasteignina þrátt fyrir að fallið hafi verið frá álagningunni af tilgreindum ástæðum og niðurfellingin hafi ekki verið fyrirvaralaus heldur skýrt tekið fram að hún myndi fara fram á ný. 

Fyrst hafi álagning verið feld niður þar sem lagning gangstéttar var ekki lokið.  Ári síðar hafi endurálagning einnig verið felld niður þar sem kröfunni var einungis beint að öðrum eiganda sem og að samþykkt sem álagning byggðist á hafði ekki verið staðfest af ráðherra.

Í úrskurði ráðuneytisins frá 30. apríl sl. hafi verið úrskurðað að samþykktin hefði ekki gildi þar sem hún var ekki staðfest af ráðherra sbr. fyrirmæli laga nr. 51/1974, sbr. bráðabirgðaákvæði nýrri laga um gatnagerðargjald.  Því var boðuð ný álagning B-gatnagerðargjalda á eignina í maí sl., sem mál þetta fjallar um.

Djúpavogshreppur andmælir þeim skilningi kærenda að niðurfelling álagningar sé ívilnandi ákvörðun sem ekki megi endurupptaka og því ekki rök til að leggja á að nýju.  Sveitarfélagið telur þetta ekki ívilnandi ákvörðun heldur leiðréttingu sem leiðir af lagaákvæðum.  Hér sé sveitarfélagið að leiðrétta álagningargrunninn en staðfest hafi verið í úrskurði ráðuneytisins að álagningin sem slík væri réttmæt.  A og B hafi verið það fullljóst að álagning myndi fara fram á ný og því sjónarmiði þeirra að óheimilt sé að leggja gjaldið á að nýju hafnað.

3.  Djúpavogshreppur kveðst ekki hafa afturkallað ákvörðun um niðurfellingu B-gatnagerðargjaldsins með beinum formlegum hætti enda ekki þörf á því.  Gjaldið hafi verið fellt niður vegna formgalla á álagningunni en jafnframt hafi verið boðað að lagt yrði á að nýju.  Ný álagning var síðan tilkynnt þann 30. júní 2008.  Þeirri skoðun A og B að afturköllun hefði átt að fara fram með einhverjum ótilgreindum hætti er hafnað enda fólst hún í bréfi sveitarfélagsins þann 30. júní 2008 þar sem gætt var andmælaréttar sem A og B nýttu sér.  Eftir úrskurð ráðuneytisins þann 30. apríl sl. hafi legið beint við að leggja gjaldið á að nýju með stoð í samþykktinni frá 404/1989 sem áður hafði gilt og ekki hafði verið formlega niðurfelld.

4.  Hvað grundvöll heimildar til afturköllunar varðar bendir sveitarfélagið á að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 17/1996 og lögum nr. 153/2006 sé sveitarfélögum heimilt að leggja á B-gatnagerðargjald og gildi sú heimild til ársloka 2012.  Afturköllun álagningar hafi legið fyrir þegar í ljós kom að álagningarforsendur voru ekki réttar. 

Í fyrstu var álagning felld niður að kröfu kærenda þar sem lagningu gangstéttar var ekki lokið.  Í öðru lagi var álagning felld niður að nýju þar sem annar eigandi fasteignarinnar var ekki aðili að málinu og vafi lék á gildi samþykktar nr. 941/2005.  Í þriðja og síðast lagi var álagning felld niður með úrskurði ráðuneytisins þann 30. apríl 2009.

Afturköllun sveitarfélagsins á niðurfellingu B-gatnagerðargjaldsins með álagningu að nýju byggði á ákvæði til bráðabirgða I í lögunum um gatnagerðargjald.  Niðurfellingar þær sem fram höfðu farið hafi ekki verið ívilnandi ákvarðanir eins og A og B halda fram heldur leiðréttingar á álagningu og til þess gerðar að gæta réttar þeirra.  Djúpavogshreppi hafi þannig ekki einungis verið rétt heldur beinlínis skylt að leggja gjaldið á að nýju þar sem engar lagalegar forsendur eru fyrir því að A og B ein fasteignaeigenda við Vörðu á Djúpavogi skuli undanþegin greiðslu B-gatnagerðargjalds vegna lagningar bundins slitlags og gangstéttar við götuna.

5.  Djúpavogshreppur telur sig hafa gætt bæði meðalhófs og jafnræðis við álagningu gatnagerðargjaldsins á íbúa sveitarfélagsins, sbr það sem að framan er rakið.  Allir íbúar götunnar Vörðu greiddu gjaldið á sínum tíma án athugasemda, í samræmi við gjaldskrá sem þá var í gildi nr. 941/2005 en ráðuneytið hefur nú úrskurðað að hafi ekki gildi þar sem hún var óstaðfest af ráðherra.  Það þýði að hin eldri samþykkt um gjaldskrá sem gilti um hinn sameinaða Djúpavogshrepp og var aldrei formlega felld úr gildi telst gilda um álagningi B-gatnagerðargjaldsins og telur sveitarfélagið sig bundið af henni við álagningu gjaldsins á fasteign A og B þótt hún leiði til hærra gjalds en sú gjaldskrá sem byggði á þeirri samþykkt sem var ógild.  Þá hafi A og B ekki óskað eftir lækkun álagningarinnar.

6.  Djúpavogshreppur bendir á að mál þetta hafi frá upphafi snúist um álagningu B-gatnagerðargjalds á fasteignina Vörðu 18 á Djúpavogi.  Allir aðrir eigendur húsa við götuna hafi greitt gjaldið en framkvæmdum lauk sumarið 2007.  A og B hafi neitað að greiða gjaldið og í fyrstu aðallega byggt á því að lagaheimild skorti til álagningar þess.  Nú sé á því byggt að ekki sé heimilt að leggja gjaldið á þar sem það hafi verið fellt niður og ekki sé heimilt að leggja það á aftur. 

Sveitarfélagið leggur áherslu á að gjaldið var í tvígang fellt niður að kröfu A og B vegna formsatriða og að endurálagning hafi verið boðuð við niðurfellinguna.  Jafnræðissjónarmiða hafi verið gætt milli fasteignareigenda við götuna og hafi þeir allir, utan A og B, greitt gjaldið.  Væri það brot á jafnræði ef A og B væri ekki gert að taka þátt í sameiginlegum lögbundnum kostnaði með því að þau þurfi ekki að greiða gjaldið. 

Djúpavogshreppur telur sig bundinn af ákvæðum samþykktarinnar frá 1989 við álagningu og leiði hún vissulega til hærra gjalds en ef lagt væri á samkvæmt samþykktinni frá 2005.  A og B hafi hins vegar ekki óskað eftir að tekið yrði tillit til þessa við álagningu og stendur álagningin því sem slík þar sem nýrri samþykktin hafi verið felld úr gildi með úrskurði ráðuneytisins.

Þá er áréttað að sveitarstjóri starfaði í fullu umboði sveitarstjórnar við afturköllun fyrri álagninga og ákvörðun um nýja álagningu og er vísað til bókunar á fundi sveitarstjórnar þann 6. maí 2009.  Vísað er til úrskurðar ráðuneytisins frá 30. apríl sl. þar sem niðurstaðan er að hafna röksemdum A og B fyrir því að þeim beri ekki að greiða B-gatnagerðargjaldið en niðurfelling þess var af öðrum ástæðum.

Djúpavogshreppur telur það ekki málsástæðu í málinu að kostnaður af málinu sé mikill fyrir sveitarfélagið og því beri að falla frá álagningu.  Gætt hafi verið fyllsta jafnræðis og meðalhófs enda í anda hvorugs ef aðilar komast upp með að koma sér undan greiðslu skatta og gjalds sem aðrir í sömu aðstöðu greiða.  Djúpavogshreppi sé ekki heimilt að mismuna íbúum sínum með þeim hætti og hafi því haldið til streitu álagningu gjaldsins á fasteign A og B. 

Sem svar við frekari fyrirspurnum ráðuneytisins tekur Djúpavogshreppur fram að það hafi ekki verið málsástæða A og B hvort endurgreiðsluskylda hafi stofnast hjá sveitarfélaginu eftir úrskurð ráðuneytisins þann 30. apríl 2009 og varði það atriði ekki mál þetta.  A og B hafi ekki greitt B-gatnagerðargjald og eigi þar af leiðandi ekki endurgreiðslukröfu eða hafa hag af úrlausn þessa.  Sveitarfélagið telur því ekki ástæðu til að fjalla frekar um þetta atriði.

Hvað varðar samkomulagsumleitanir við A og B í kjölfar fyrri úrskurðar ráðuneytisins telur Djúpavogshreppur að fyrst verði að ná niðurstöðu um greiðsluskylduna en þau hafi sjálf aldrei opnað á þann möguleika heldur hafi í aðdraganda málsins hafnað tilboði sveitarfélagsins um hagstæða lausn. Álagning B-gatnagerðargjaldsins byggi á bráðabirgðaákvæði í tveimur lögum um gatnagerðargjald og hafi ráðuneytið staðfest í úrskurði sínum frá 30. apríl sl. að álagningarheimildin væri fyrir hendi allt til ársloka 2012.  Kjarni málsins sé því að sveitarfélaginu er heimilt að leggja gjaldið á fasteign A og B.  Heimild til innheimtu hafi verið hnekkt í úrskurði ráðuneytisins en við ógildingu þeirrar samþykktar sem byggt var á hafi hin eldri tekið við og á grundvelli hennar A og B verið tilkynnt um endurálagninguna.  Eldri gjaldskráin sé óhagstæðari en sú sem var úr gildi felld.

Djúpavogshreppur telur rétt að fram komi að ekki þótt ástæða til að leita sérstaks samkomulags við A og B vegna álagningarinnar enda hún byggð á sérstakri lagaheimild og sérstakri samþykkt (gjaldskrá).  Nefnir sveitarfélagið til samanburðar að álagning og innheimta fasteignagjalda byggi ekki á fyrirframgerðu samkomulagi við gjaldendur en hægt er að semja um greiðslufyrirkomulag eftir á.  Þá er vísað til þess að A og B hafi ekki óskað eftir lækkun gjaldanna og lýsir sveitarfélagið yfir, án skuldbindinga, vilja til að ganga til viðræðna um lyktir máls, þegar A og B gera sér ljóst að álagningin byggir á gildri lagaheimild og þeim beri að standa skil á gjöldum til samfélagsins eins og aðrir íbúar sveitarfélagsins.

Lögð er áhersla á að Djúpavogshreppur telur hin nýju andmæli snúast um önnur atriði en í fyrstu þegar A og B byggðu einkum á því að lagaheimild skorti.  Ekki verði séð að það hafi áhrif á málið að aðrir greiðendur við götuna hafi innt af hendi B-gatnagerðargjaldið á sínum tíma og þannig fallist á að leggja sitt af mörkum til samfélagsins í kjölfar þeirrar stórkostlegu breytinga sem varð á umhverfi þeirra þegar lagt var bundið slitlag á götuna og hún fullgerð með tilheyrandi kostnaði.

V.  Álit og niðurstaða ráðuneytisins

1.  Í máli þessu er deilt um heimild Djúpavogshrepps til að leggja á og innheimta svokallað B-gatnagerðargjald á fasteign A og B. 

Heimild til að leggja slíkt gjald á fasteignaeigendur var upphaflega að finna í fyrstu almennu lögum um álagningu gatnagerðargjalda, nr. 51/1974 og var um að ræða gjald sem varið skyldi til framkvæmda við að setja bundið slitlag á götur og lagningu gangstétta, síðar kallað B-gatnagerðargjald.  Við setningu nýrra laga um gatnagerðargjald nr. 17/1996 var gerð sú grundvallarbreyting að aflögð var tvískipting eldri laga og einungis mælt fyrir um álagningu og innheimtu svokallaðs A-gatnagerðargjalds.  Í bráðabirgðaákvæði við lögin var þó mælt fyrir um að eldri lög (lög nr. 51/1974) skyldu gilda um innheimtu og álagningu B-gatnagerðargjaldsins vegna framkvæmda sem lokið væri við innan 10 ára frá gildistöku laganna.  Lög nr. 17/1996 tóku gildi 1. janúar 1997 og gilti því heimild bráðabirgðaákvæðisins í 10 ár frá því tímamarki, eða til ársloka 2006. 

Ný lög um gatnagerðargjald nr. 153/2006 tóku síðan gildi 1. júlí 2007 og gilda þau í dag.  Í þeim lögum er einnig að finna bráðabirgðaákvæði um heimild til álagningar og innheimtu B-gatnagerðargjaldsins.  Var upphaflega gert ráð fyrir að heimildin skyldi gilda til 31. desember 2009 en með lögum nr. 6/2009 var hún framlengd til 31. desember 2012. 

Eins og fram kemur í fyrri úrskurði ráðuneytisins frá 30. apríl 2009, í máli nr. 68/2008 (SAM08100009) er það álit ráðuneytisins að heimild til töku B-gatnagerðargjaldsins hafi verið óslitin í lögum allt frá setningu laga nr. 51/1974.  Heimild þessi sé enn fyrir hendi og mun gilda allt til ársloka 2012.  Þá er það álit ráðuneytisins að löggjafinn hafi ákveðið að um B-gatnagerðargjaldið gildi ákvæði laga nr. 51/1974 hvað varðar álagningu og innheimtu þess enda þegar bráðabirgðaákvæðinu sleppir eru engin ákvæði hvorki í lögum nr. 17/1996 né 153/2006 sem fjalla um B-gatnagerðargjaldið.  Var því ekki fallist á þá málsástæðu A og B að lagaheimild skorti almennt til álagningar og innheimtu B-gatnagerðargjalds

Ekkert í máli því sem hér er til úrlausnar gefur tilefni til að breyta áliti ráðuneytisins hvað þetta varðar.  Ráðuneytið telur því að heimild til álagningar B-gatnagerðargjalds sé fyrir hendi allt til ársloka 2012, að uppfylltum öðrum skilyrðum, og álagning þess fari eftir ákvæðum laga 51/1974.

2.  Það sem kemur til skoðunar í máli þessu er lögmæti hinnar nýju álagningar B-gatnagerðargjaldsins á A og B, sem þeim var tilkynnt með bréfi þann 3. júní 2009, í kjölfar úrskurðar ráðuneytisins þann 30. apríl 2009. 

Ráðuneytinu þykir rétt að taka fram í upphafi að í framangreindum úrskurði er álagning felld úr gildi en ekki sú samþykkt sem álagningin byggðist á.  Niðurstaðan var hins vegar að samþykktin nr. 941/2005 hefði ekki verið sett með lögformlegum hætti og leiðir af því að samþykktin telst ekki hafa neitt gildi að lögum og því verða hvorki réttindi né skyldur á henni byggð.

Að mati ráðuneytisins eru þau álitaefni sem þarf að leysa úr í máli þessu aðallega tvö, annars vegar gildi samþykktar nr. 404/1989 sem grundvöllur álagningar B-gatnagerðargjalds í Djúpavogshreppi og hins vegar gildi þess fyrirvara sem settur var fram í bréfi Djúpavogshrepps þann 3. júní 2008 um heimild sveitarfélagsins til álagningar gjaldsins á fasteign A og B að nýju.

3.  Eins og áður sagði var í fyrri úrskurði ráðuneytisins fjallað um heimild álagningar B-gatnagerðargjalds á fasteign A og B.  Djúpavogshreppur hafði byggt álagningu sína á samþykkt sem birt var sem nr. 941/2005 í B-deild stjórnartíðinda og sett með vísan til 2. mgr. 6. gr. laga nr. 17/1996.  Niðurstaða ráðuneytisins um að ógilda bæri álagninguna byggðist á því að ekki lægi fyrir samþykkt sem sett hefði verði með lögformlega réttum hætti og gæti hún því ekki verið grundvöllur álagningar.  Skýrt væri bæði í lögum nr. 17/1996 og lögum nr. 153/2006 að um innheimtu og álagningu B-gatnagerðargjaldsins skyldu lög nr. 51/1974 gilda.  Þar af leiðandi bæri því sveitarfélagi sem ætlar að innheimta slíkt gjald að setja sér sérstaka samþykkt sem staðfest væri af ráðherra, sbr. 3. gr. laga nr. 51/1974.  Ráðuneytið leit því svo á að lagaskilyrði fyrir innheimtu gjaldsins hafi ekki verði uppfyllt og því var álagningin felld úr gildi.

Sú álagning sem er til umfjöllunar í máli þessu var af hálfu Djúpavogshrepps byggð á eldri samþykkt frá 10. ágúst 1989, nr. 404/1989, sem gilti í Búlandshreppi en sá hreppur, sameinaður tveimur öðrum árið 1992, myndar Djúpavogshrepp.  Kemur fram í málatilbúnaði Djúpavogshrepps að sú samþykkt hafi gilt fyrir hinn sameinaða hrepp og ekki verið felld niður með formlega réttum hætti.  Þar sem samþykktin frá 2005 hafi ekki verið sett með formlega réttum hætti og hin eldri yfirtekin af sameinuðum hreppi, sé þessi eldri samþykkt frá 1989 lögformlegur grundvöllur álagningar B-gatnagerðargjaldsins.

Almennt gildir sú meginregla, eðli málsins samkvæmt, að með setningu nýrra reglna um tiltekið efni, falla þær eldri úr gildi.  Gildi það sama þótt í nýjum reglur sé ekki sérstaklega tekið fram að hinar eldri falli úr gildi, enda leiðir af eðli máls að tvenns konar reglur geta ekki gilt samhliða um sama tilvik.

Ráðuneytið hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að samþykktin frá 2005 hafi ekki verið sett með lögformlegum hætti og hafi því ekkert gildi, hún sé þar af leiðandi markleysa eða „nullitet“.   Setning samþykktarinnar árið 2005 hafi því ekki haft í för með sér að eldri samþykkt um álagningu B-gatnagerðargjalds í sveitarfélaginu hafi  í raun fallið úr gildi enda uppfylli sú samþykkt lagaskilyrði um staðfestingu ráðherra.

Eins og áður hefur komið fram byggðist álagning Djúpavogshrepps sem úrskurðuð var ógild í fyrri úrskurði ráðuneytisins ekki á ráðherrastaðfestri samþykkt heldur leit sveitarfélagið svo á að slík staðfesting væri óþörf.  Því var ráðuneytið ósammála og ógilti álagninguna. 

Skilja má málatilbúnað A og B á þann veg að með fyrri úrskurði hafi íþyngjandi ákvörðun um álagningu verið felld úr gildi og eftir standi hin ívilnandi ákvörðun  um niðurfellingu álagningar og fyrirvara um álagningu á ný að uppfylltu tilteknu skilyrði (skv. bréfi sveitarfélagsins 3. júní 2008).  Telji A og B að við nefndan úrskurð ráðuneytisins hafi hin ívilnandi ákvörðun raknað við á ný og standi nú fyrirvaralaus eftir að sveitarfélagið hafi fellt samþykktina frá 2005 úr gildi, enda fyrirvarinn einungis snúið að því að samþykktin yrði staðfest af ráðherra.  Með niðurfellingu samþykktarinnar hafi fyrirvarinn ekki lengur neitt gildi og eftir standi fyrirvaralaus afturköllun álagningar sem sveitarfélagið hvorki geti né hafi heimild til að afturkalla.

Eins og áður kom fram var samþykktin frá 2005, með úrskurðinum frá 30. apríl 2009 ekki felld úr gildi heldur komist að niðurstöðu að hún gæti að lögum ekki verið grundvöllur álagningar.  Þá er ekki að sjá í fyrirliggjandi gögnum að Djúpavogshreppur hafi fellt þá samþykkt formlega úr gildi, enda tæplega ástæða til þess þar sem samþykktin telst ólögmæt.

Þótt fallast megi á það með A og B að við úrskurð ráðuneytisins þann 30. apríl 2009 hafi raknað við ákvörðun sveitarfélagsins frá 3. júní 2008 um afturköllun fyrri álagningu B-gatnagerðargjaldsins, þá fellst ráðuneytið ekki á með þeim að sú afturköllun sé fyrirvaralaus.

Sá fyrirvari sem um er að ræða var tilkynntur A og B með bréfi Djúpavogshrepps þann 3. júní 2008 þar sem jafnframt var tilkynnt um niðurfellingu álagningar.  Nánar hljóðaði bréfið hvað þetta atriði varðar eftirfarandi:

„Hér með tilkynnist að ákveðið hefur verið að fella niður álagningu B-gatnagerðargjalds á Vörðu 18, sem lagt var á 19. júlí 2007 og byggðist á samþykkt nr. 941 frá 20. október 2005 um B-gatnagerðargjald í Djúpavogshreppi, þar sem að sú samþykkt var ekki staðfest af ráðherra eins og lög nr. 51/1974 gera ráð fyrir.

Þá er sá fyrirvari gerður að B-gatnagerðargjald verði lagt á að nýju á Vörðu 18 þegar ráðherra hefur staðfest samþykkt Djúpavogshrepps um B-gatnagerðargjald, en sveitarfélagið hefur frest til 31. desember 2009 til að leggja það á skv. bráðabirgðaákvæði nr. 1 í lögum nr. 153/2006.“ [feitletrun ráðuneytisins]

Ráðuneytið telur af orðalagi þessu ljóst að Djúpavogshreppur gerir þann fyrirvara fyrir álagningu á ný að fyrir liggi samþykkt sem staðfest hefur verið af ráðherra eins og lög gera ráð fyrir.  Í kæru A og B kemur fram að þau telja að í þessum fyrirvara felist að gjaldið verði lagt á að nýju þegar og ef ráðherra staðfestir samþykkt Djúpavogshrepps  nr. 941/2005.  Þá vísa A og B til þess að þar sem Djúpavogshreppur hafi fellt niður samþykktina frá 2005, hafi afturköllun álagningar þann 3. júní 2008, öðlast fyrirvaralaust fullnaðargildi.  Því sé Djúpavogshreppi ekki heimilt að leggja B-gatnagerðargjaldið á að nýju.

Ráðuneytið fellst ekki á með A og B að túlka skuli orðalag fyrirvarans með þetta þröngum hætti.  Þar sé einungis tekið fram að álagning fari fram á ný þegar ráðherra hefur staðfest samþykkt Djúpavogshrepps um B-gatnagerðargjald en ekki að staðfesting varði eingöngu samþykktina nr. 941/2005.  Telur ráðuneytið að ef túlka eigi fyrirvarann með svo þröngum hætti hefði það þurft að koma fram með skýrum hætti í bréfinu.  Það er því mat ráðuneytisins að í fyrirvaranum felist að Djúpavogshreppur muni ekki leggja B-gatnagerðargjald að nýju á fasteign A og B nema á grundvelli samþykktar sem staðfest hefur verið af ráðherra og sé fyrirvarinn ekki bundinn við staðfestingu samþykktar nr. 941/2005.  Af því leiði jafnframt að ekki er unnt að fallast á með A og B að niðurfelling samþykktarinnar frá 2005, hafi slíkt farið fram, leiði til að fyrirvarinn sé fallinn úr gildi.

Fallast má á með A og B að eftir úrskurð ráðuneytisins þann 30. apríl 2009 hafi raknað við sú ákvörðun Djúpavogshrepps frá 3. júní 2008 að fella úr gildi álagningu og gera fyrirvara um álagningu á ný.  Álagning að nýju geti því einungis farið fram, að uppfylltum þeim fyrirvara sem settur var, að til grundvallar sé samþykkt sem sett hefur verið með lögmætum hætti, þ.e. staðfest af ráðherra.

Þá getur ráðuneytið ekki fallist á með A og B að ný álagning (frá 3. júní 2009) sé formlega afturköllun í skilningi 25. gr. stjórnsýslulaga á þeirri ákvörðun frá 3. júní 2008 að afturkalla álagningu.  Sveitarfélagið tók ívilnandi ákvörðun þegar það afturkallaði álagninguna þann 3. júní 2008 og gerði jafnframt þann fyrirvari að lagt yrði á að nýju, að uppfylltu ákveðnu skilyrði.  Ný ákvörðun var síðan tekin um álagningu.

4.  Það er niðurstaða ráðuneytisins, að virtu öllu því sem að framan er rakið, að Djúpavogshreppi hafi verið heimilt að leggja B-gatnagerðargjaldið á fasteign A og B á ný, að uppfylltum þeim fyrirvara, að álagning grundvallist á ráðherrastaðfestri samþykkt. 

Þá er það niðurstaða ráðuneytisins að Djúpavogshreppi hafi verið heimilt að byggja álagninguna á samþykkt  nr. 404/1989, enda uppfylli hún það skilyrði að vera staðfest af ráðherra og yfirtekin af hinum sameinaða hreppi með formlega réttum hætti og ekki felld niður á formlegan hátt.

Af hálfu Djúpavogshrepps er því haldið fram að umrædd samþykkt sé enn í gildi, hafi verið staðfest af ráðherra og yfirtekin af sameinuðum hreppi.  Ráðuneytið telur ekkert hafa komið fram í málinu sem hnekki þessum fullyrðingum og hefur aflað sér eintaks af samþykktinni en hún var birt í B-deild Stjórnartíðinda þann 10. ágúst 1989 og undirrituð f.h. ráðherra.   Þessum fullyrðingum Djúpavogshrepps um yfirtöku samþykktarinnar og gildi hefur heldur ekki verið mótmælt af hálfu A og B eða gögnum framvísað um hið gagnstæða.

5.  Í málatilbúnaði A og B er vísað til meðalhófsreglur 12. gr. stjórnsýslulaga og á því byggt að fella eigi hina kærðu álagningu úr gildi vegna brota á henni.  Er í því sambandi m.a. vísað til vinnu og kostnaðar, bæði fyrir A og B og sveitarfélagið vegna álagningar allt frá árinu 2006 auk vinnu þeirra og ráðuneytisins við kærumálin.  Nóg sé að gert í álagningu gjaldsins og beri  Djúpavogshreppi að gæta meðalhófs, taka tillit til hagsmuna A og B og falla frá álagningunni.

Í 12. gr. stjórnsýslulaga segir að einungis skuli taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætum markmiðum sem að er stefnt verður ekki náð með öðrum og vægari hætti og þá gæta þess að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn ber. 

Í lögskýringagögnum kemur fram að í þessari reglu felist þrír meginþættir.  Í fyrsta lagi að efni ákvörðunar sé til þess fallið að ná því markmiði sem að er stefnt.  Í öðru lagi að velja skuli vægasta úrræðið þar sem fleiri úrræða er völ.  Í þriðja lagi að gætt sé hófs í beitingu þess úrræðis sem valið hefur verið.  Þá segir að reglan komi til skoðunar þegar efni ákvörðunar er að einhverju leyti komið undir mati stjórnvaldsins

Ákvörðun Djúpavogshrepps um álagningu B-gatnagerðargjaldsins byggir á heimild í lögum og er gjaldinu ætlað að renna til tiltekinna framkvæmda.  Sveitarfélaginu er í sjálfsvald sett hvort það nýtir þessa heimild sína en ákveði það að gera það er framkvæmdin sú að gjaldið er lagt á tiltekna íbúa sveitarfélagsins.  Ekki er því um að ræða að fleiri úrræða sé völ til að ná því markmiði sem að er stefnt, með nýtingu heimildar til álagningar B-gatnagerðargjaldsins.  Ráðuneytið telur því meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga að þessu leyti ekki eiga við í máli þessu. 

Meðalhóf gagnvart A og B geti ekki falist í því að beita vægasta úrræðinu sem er að leggja ekki á þau B-gatnagerðargjaldið á meðan gjaldið er lagt á aðra íbúa, enda njóta þau þeirra framkvæmda sem gjaldinu er ætlað að standa undir til jafns við þá. 

A og B vísa einnig til jafnræðisreglur 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga og telja hana brotna á sér með því að þeim sé gert að greiða hærra B-gatnagerðargjald en öðrum íbúum við götuna.  Sé það til komið af því að álagning á þau byggi á samþykktinni frá 1989 en álagning á aðra íbúa hafi byggst á samþykktinni frá 2005 en samkvæmt henni sé gjaldið lægra.  Telja A og B það ójafnræði sem í þessu felst slíkt brot á jafnræðisreglunni að leiði til að fella beri álagninguna úr gildi.

Í 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga segir að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.  Í þessu felst að þegar stjórnvald hefur byggt ákvörðun á ákveðnum grundvelli ber almennt að leysa úr sambærilegu máli með sama hætti. 

Það ójafnræði sem A og B byggja á í máli þessu er annars vegar álagning sem fór fram á grundvelli ólögmætrar samþykktar og hins vegar álagning á grundvelli gildrar samþykktar.  Vilja A og B byggja rétt sér til handa á hinni ólögmætu samþykkt til að sitja við sama borð og aðrir íbúar sveitarfélagsins sem hafa greitt B-gatnagerðargjald.

Þótt ráðuneytið geti fallist á með A og B að álagningin á þau feli að einhverju leyti í sér ójafnræði þar sem hún er hærri, telur það ekki unnt að fallast á með þeim að um slíkt ójafnræði sé að ræða að leiði til að álagningin sé felld úr gildi.  Enda myndi slík niðurstaða hafa í för með sér að jafnræðis væri ekki gætt gagnvart öðrum íbúum sveitarfélagsins sem hafa greitt gjaldið en A og B njóta til jafns þeirra framkvæmda sem gjaldið stendur undir. 

Hér verði einnig að hafa í huga að álagning á grundvelli samþykktarinnar frá 2005 byggði ekki á lögmætum grunni og telur ráðuneytið að aðili geti ekki byggt rétt sér til handa á ólögmætum ákvörðunum.  Því verði ekki fallist á að A og B eigi rétt á að á þau sé lagt eftir reglum samþykktarinnar frá 2005 enda hefur þegar verið komist að þeirri niðurstöðu að samþykktin frá 1989 var lögmætur grundvöllur álagningarinnar á þau.  

Af öllu framangreindu er það niðurstaða ráðuneytisins að hin kærða álagning verði ekki ógilt vegna brota á 1. mgr. 11. gr. eða 12. gr. stjórnsýslulaga.  Hins vegar telur ráðuneytið rétt að beina því til sveitarfélagsins að taka tillit til þess við innheimtu gjaldsins hjá A og B að álagningin á þau er hærri en á aðra íbúa götunnar.

6.  Þótt það hafi ekki áhrif á niðurstöðu málsins þykir ráðuneytinu rétt að fjalla nokkuð um meðferð málsins alls hjá Djúpavogshrepp en ljóst er að það á sér langa sögu.  Telur ráðuneytið framkvæmd alla hjá Djúpavogshreppi við álagningu B-gatnagerðargjaldsins á A og B ámælisverða að því leyti að ítrekað var gjaldið lagt á þau með formlega röngum hætti.  Getur varla talist góð stjórnsýsla af hálfu sveitarfélags að þurfa aftur og aftur að afturkalla álagningu vegna mistaka og valda þannig íbúum verulegum óþægindum og jafnvel fjárútlátum. 

Þá telur ráðuneytið ástæðu til að gera athugasemd við að í kjölfar úrskurðarins þann 30. apríl 2009 er ekki að sjá að reynt hafi verið að leita sátta við A og B um ásættanlega niðurstöðu málsins þótt ljóst hafi verið að álagning á þau byggði á ólögmætum grunni.  Þykir í því sambandi rétt að benda á, vegna samanburðar Djúpavogshrepps við álagningu og innheimtu fasteignagjalda og að það byggi ekki á fyrirfram samkomulagi við gjaldendur, að fasteignaskattar og ýmsir af þeim gjaldaliðum sem falla undir fasteignagjöld eru lögbundin gjöld samkvæmt lögum nr. 4/1995 sem ber að innheimta af fasteignaeigendum.  Álagning og innheimta B-gatnagerðargjaldsins er hins vegar grundvölluð á heimildarákvæði og sveitarfélögum því í sjálfsvald sett hvort þau taka slíkt gjald af íbúum sínum.  Ekkert hefði því átt að vera því til fyrirstöðu að Djúpavogshreppur leitaði samkomulags við A og B um gjaldið.

7.  Í málatilbúnaði A og B kemur fram að þau telja Djúpavogshreppi skylt að endurgreiða þeim sem B-gatnagerðargjaldið var innheimt hjá, á grundvelli samþykktarinnar nr. 941/2005, þar sem um ólögmæta innheimtu hafi verið að ræða.  Hvað þetta varðar þá tekur ráðuneytið undir með Djúpavogshreppi að þar sem A og B hafa sjálf ekki greitt umrætt gjald á grundvelli samþykktarinnar hafa þau ekki hagsmuni af úrlausn um þetta atriði né á umfjöllun um það heima í máli þessu.   Því mun ekki vera frekar um þetta fjallað í úrskurði þessum.

Úrskurðarorð

Kröfu Magnúsar Helga Árnasonar hdl., f.h. Jóhanns Ævars Þórissonar kt. 190246-3299 og Kristrúnar Jónsdóttur kt. 080346-3529, Vörðu 18, Djúpavogi um að fella úr gildi álagning B-gatnagerðargjalds að fjárhæð kr. 762.234 á fasteign þeirra Vörðu 18, er hafnað.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Svanhvít Axelsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta