Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu: Ágreiningur um veitingu ökuréttinda. Mál nr. 36/2010

 

Ár 2010, 27. september er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

 

í stjórnsýslumáli nr. 36/2010 (SAM10050025)

X

gegn

lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu.

 

I.      Kröfur, aðild, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru dagsettri 5. október 2009 kærði X ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 9. júlí 2009 um að synja beiðni sinni um endurveitingu ökuréttinda. Kæran var árituð móttekin hjá ráðuneytinu þann 10. maí 2010 en var hins vegar móttekin innan þriggja mánaða kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að beiðni X var hins vegar frestað að taka málið til meðferðar fram í maí 2010. Kæruheimild er í 106 gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki er ágreiningur um aðild.

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 17. desember 2008 var X sviptur ökurétti í þrjú ár og sex mánuði frá og með þeim degi að telja. Sótti X um endurveitingu ökuréttinda til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu með bréfi dags. 22. júní 2009 en þeirri kröfu var hafnað með bréfi dags. 9. júlí 2009.

Ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu var kærð til ráðuneytisins með bréfi X dags. þann 5. október 2009 en var ekki tekin til meðferðar fyrr en í maí 2010 að beiðni X.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 21. maí 2010 var lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið með bréfi dags. 16. júní 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 25. júní 2010 var X gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Engin andmæli bárust frá X sjálfum en hins vegar bárust ráðuneytinu athugasemdir föður X með bréfi dags. 1. júlí 2010.

Með bréfum til aðila dags. 16. ágúst 2010 tilkynnti ráðuneytið að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

Með bréfi dags 2. september 2010 bárust ráðuneytinu athugasemdir frá verkstjórum hjá Orkuveitu Reykjavíkur þar sem mælst var til þess að undanþága yrði gerð í tilfelli X.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.    Málsástæður og rök X

X byggir á því að hann hafi markvisst unnið við að ná tökum á lífi sínu að nýju eftir mikil áföll. Hafi hann m.a. gengist undir sálfræðilega viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi. Hafi sá vottað að X hafi sótt samtalsmeðferð hjá sér á tímabilinu 2008-2009 vegna persónulegra erfiðleika sem X hafi glímt við á þessu tímabili. Samtalsmeðferðinni hafi lokið í maí 2009 með því mati sálfræðingsins að X hefði gott innsæi í eigin aðstæður og væri sáttari við tilveru sína.

X kveðst hafa starfað hjá Orkuveitu Reykjavíkur síðan í maí 2005. Mikill þrýstingur hafi skapast á vinnustaðnum vegna þessarar ökuleyfissviptingar. Þeim störfum sem X hafi verið falin hafi hann ekki alltaf getað sinnt vegna þessa. Kveðst X til dæmis hafa sótt námskeið í notkun körfubifreiða en ekki getað sinnt því starfi þar sem ökuréttinda sé krafist við þau störf. Vinnuveitendur X hjá Orkuveitunni gefi X bestu meðmæli fyrir ástundun og vinnusemi. Í umsagnarbréfi Orkuveitunnar segi að sú staða sem upp sé komin vegna ökuleyfissviptingarinnar hamli X í starfi og námi og sé til baga fyrir Orkuveituna. Þá segi yfirmenn X að þeir hafi orðið þess áskynja að þessi ökuleyfissvipting hafi haft mikil áhrif á X og að X sé fullur iðrunar.

Við sviptingu ökuréttar kveður X að sér hafi verið gert að greiða 200.000 króna sekt í ríkissjóð og sakarkostnað að fjárhæð 34.900 krónur. Þessu kveðst X hafa sinnt og greitt að fullu eins og gögn beri með sér. Telur X að þær sérstöku aðstæður sem réttlæti endurveitingu ökuleyfis, sbr. 2. mgr. 106. gr. umferðarlaga,  eigi við um sig. Ökurétt hafi X misst í kjölfar þess að hann neytti áfengis á tímum mikilla sálrænna erfiðleika og hugsana um að skaða sjálfan sig. Megi leiða að því líkum að X hafi ekki getað gert sér grein fyrir ástandi sínu þegar umrædd atvik áttu sér stað sem leiddu til ökuleyfissviptingarinnar. Með aðstoð og stuðningi fagfólks hafi X sýnt að hann hafi aftur náð tökum á lífi sínu og því sé það honum mjög nauðsynlegt að ekki verði meira rask á vinnu vegna þessarar sviptingar en orðið hefur.

IV.    Málsástæður og rök lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu byggir á því að X hafi verið sviptur ökurétti í þrjú ár og sex mánuði frá 17. desember 2008. Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 sé lögreglustjóra heimilt að veita ökurétt að nýju þegar maður hefur verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár þegar sviptingin hefur staðið í þrjú ár. Ákvæði 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga sem heimili lögreglustjóra að veita ökurétt að nýju sé undantekningarregla sem skýra verði þröngt. Ekki sé að finna heimild í lögum til að víkja frá skilyrðum ákvæðisins um að svipting skuli hafa staðið í þrjú ár þegar ákvörðun um endurveitingu er tekin þrátt fyrir sérstakar eða erfiðar aðstæður umsækjanda. Því hafi ekki verið heimilt að verða við beiðni X um endurveitingu ökuréttar og endurveiting komi ekki til álita fyrr en í desember 2011.

V.     Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort lagaskilyrði séu til endurveitingar ökuréttinda samkvæmt 106. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Í 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga segir að hafi maður verið sviptur ökurétti um lengri tíma en þrjú ár geti lögreglustjóri þegar svipting hafi staðið í þrjú ár heimilað að honum skuli veittur ökuréttur að nýju. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að endurveitingu skuli aðeins heimila að sérstakar ástæður mæli með því.

Ljóst er að heimild 1. mgr. 106. gr. umferðarlaga til endurveitingar ökuréttinda getur einungis komið til að uppfylltum þeim skilyrðum sem sett eru í ákvæðinu. Þarf ökuleyfissvipting þannig að hafa staðið í a.m.k. þrjú ár áður en endurveiting ökuréttinda kemur til greina á grundvelli ákvæðisins. Enga lagaheimild er að finna til að víkja frá þessu skilyrði. Fyrir liggur að X var sviptur ökurétti í þrjú ár og sex mánuði frá 17. desember 2008 með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann sama dag. Kemur endurveiting því fyrst til álita að liðnum þremur árum frá þeim tíma eða þann 17. desember 2011. Verður því ekki hjá því komist að hafna kröfu X um endurveitingu ökuréttinda.

Úrskurðarorð

Kröfu X um endurveitingu ökuréttinda er hafnað.

Ragnhildur Hjaltadóttir

Brynjólfur Hjartarson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta