Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Þingeyjarsveit: Ágreiningur um gjaldskrá hitaveitu. Mál nr. 12/2010

 

Ár 2011, 16. febrúar er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í stjórnsýslumáli nr. 12/2010 (IRR10121739 / SAM10020036)[1]

Björn Guðmundsson

gegn

Þingeyjarsveit

 

I.         Kröfur og aðild

Með erindi dagsettu 1. febrúar 2010 fór Björn Guðmundsson (hér eftir nefndur B) kt. 110431-3179, til heimilis að Hólabraut, 650 Laugum í Þingeyjarsveit, fram á það við ráðuneytið að það taki að nýju til meðferðar erindi hans frá 31. ágúst 2009 varðandi gjaldskrá Hitaveitu Reykdæla og Hitaveitu Þingeyjarsveitar. Málinu var lokið með bréfi ráðuneytisins dags. 5. október 2009 þar sem erindi B var vísað frá. Leitaði B þá til umboðsmanns Alþingis sem óskaði eftir upplýsingum frá ráðuneytinu um grundvöll frávísunar málsins. Í svörum til umboðsmanns Alþingis upplýsti ráðuneytið að kæmi fram beiðni um endurupptöku yrði væntanlega orðið við slíkri beiðni. Lét þá umboðsmaður Alþingis málið niður falla skv. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Í beiðni um endurupptöku krefst B þess að ráðuneytið skeri úr um hvort eftirfarandi breytingar á gjaldskrá Hitaveitu Reykdæla og Hitaveitu Þingeyjarsveitar hafi verið lögmætar:

-         Breyting á afslætti vegna hitafalls úr 2,5% við hverja gráðu í hitafalli í eina krónu á m3.

-         Innleiðing þrepaskiptingar í þrjá gjaldflokka sem miðast við 50°, 55° og 60° í stað þess að miða við mælt hitastig hjá hverjum notanda.

Ráðuneytið hefur fallist á beiðni B um endurupptöku og tekur málið til efnislegrar meðferðar. Þrátt fyrir orðalag kröfugerðar telur ráðuneytið að ágreiningur máls þessa snúist fyrst og fremst um lögmæti álagningar gjalds fyrir notkun á heitu vatni fyrir árið 2008 vegna fasteignar B að Hólabraut. Hefur B ekki gert athugasemdir við þann skilning ráðuneytisins.

Ekki er ágreiningur um aðild.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Á 118. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar þann 20. desember 2007 var samþykkt ný gjaldskrá veitna undir 7. lið á dagskrá. Í 2. gr. gjaldskrárinnar kemur fram hvert gjaldið er fyrir afnot af hitaveituvatni. Eftirfarandi kemur fram í a – c-lið 2. gr. sem hér skiptir máli:

Fyrir vatn 56° og heitara skv. mæli       kr. 25,00 pr. m3

Fyrir vatn 51° til 55° skv. mæli kr. 20,00 pr. m3

Fyrir vatn 50° og kaldara skv. mæli     kr. 14,00 pr. m3

Í fundargerð segir eftirfarandi um tillögu að nýrri gjaldskrá:

Helstu breytingar felast í að settir eru upp gjaldflokkar miðað við hitastig vatns í stað uppgjörs eftir á. Þá verður innheimt mánaðarlega en innheimt hefur verið á tveggja mánaða fresti til þessa.

Tillagan var samþykkt samhljóða. Með bréfi til sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar dags. 24. janúar 2008 óskaði B eftir rökum fyrir breytingunni og var honum tilkynnt bréflega þann 10. júlí 2008 að erindinu yrði vísað til nýrrar sveitarstjórnar. B ítrekaði fyrirspurn sína með bréfi dags. 17. júlí 2008 og í svarbréfi frá oddvita sveitarstjórnar dags. 28. júlí 2008 sagði m.a.:

Á fundi sveitarstjórnar 6/12 '07 var sveitarstjóra og starfsmanni hitaveitu falið að leggja fram tillögu að gjaldskrá veitna fyrir sveitarstjórn. Tillaga að gjaldskrá var síðan lögð fyrir sveitarstjórn á fundi 20/12 '07 og samþykkt samhljóða. Markmið breytinga frá fyrra fyrirkomulagi yfir í þrjá gjaldflokka var einföldun gjaldskrár og innheimtu. Einnig var þetta liður í samræmingu hjá veitum í sveitarfélaginu. Vísað er einnig í svar fyrrv. oddvita dagsett 10/7 sl. en þar kemur fram meðal annars að tillögum þínum og athugasemdum verði komið á framfæri við árlega endurskoðun gjaldskráa á komandi hausti.

Þann 23. febrúar 2009 sendi B á ný bréf til sveitarstjórnar og krafðist lækkunar á reikningi sínum vegna kaupa á heitu vatni árið 2008. B taldi að fyrir 58° heitt vatnið sem hann keypti ætti hann að greiða 23 kr. pr. m3 í stað 25 kr. pr. m3. Í svarbréfi frá sveitarstjóra dags. 2. júní 2009 kom fram að ekki væri hægt að verða við erindi B í ljósi þess að samkvæmt þágildandi gjaldskrá væri sama verð fyrir heitt vatn á bilinu 56-60°.

Sendi þá B kvörtun til iðnaðarráðuneytisins með bréfi dags. 31. ágúst 2009 sem var framsend til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins (nú innanríkisráðuneytisins) skv. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Var það skilningur ráðuneytisins að um kæru væri að ræða er lyti að ákvörðun sveitarstjórnar um breytingu á gjaldskrá hitaveitnanna. Upphaf kærufrests var miðað við 20. desember 2007 þegar gjaldskráin var samþykkt og því talið ljóst að kærufrestir skv. 27. gr. stjórnsýslulaga væru liðnir sem og ársfrestur skv. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Málinu var því vísað frá með bréfi ráðuneytisins frá 5. október 2009.

Í kjölfar frávísunar málsins leitaði B til umboðsmanns Alþingis með bréfi dags. 14. október 2009. Með bréfi dags. 8. desember 2009 óskaði umboðsmaður eftir viðhorfi ráðuneytisins til kvörtunar B ásamt því að veittar yrðu upplýsingar og skýringar um nánar tiltekin atriði. Ráðuneytið svaraði fyrirspurnum umboðsmanns bréflega dags. 15. janúar 2010. Var þar meðal annars tekið fram að kæmi fram beiðni um endurupptöku myndi ráðuneytið væntanlega verða við henni. Í ljósi þessa lét umboðsmaður málið niður falla skv. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

B óskaði eftir endurupptöku með bréfi dags. 1. febrúar 2010. Var honum tilkynnt með bréfi dags. 3. mars 2010 að málið yrði endurupptekið hjá ráðuneytinu og óskað eftir upplýsingum og gögnum. Bárust þau með bréfi dags. 11. mars 2010.

Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum og gögnum frá Þingeyjarsveit með bréfi dags. 17. mars 2010. Erindið var ítrekað þann 21. apríl 2010 og bárust ráðuneytinu upplýsingar frá sveitarfélaginu þann 9. júní 2010 með bréfi dags. 5. júní 2010.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 9. júní var B gefinn kostur á að gæta andmælaréttar og koma að frekari gögnum og sjónarmiðum. Barst það ráðuneytinu 5. júlí 2010 með bréfi dags. 1. júlí 2010.

Þingeyjarsveit og B var tilkynnt bréflega þann 26. ágúst að uppkvaðning úrskurðar tefðist vegna anna í ráðuneytinu og ráðgert væri að ljúka málinu í október 2010.

Óskað var frekari gagna og skýringa frá Þingeyjarsveit með tölvubréfi þann 21. desember 2010 sem barst með tölvubréfi þann 18. janúar 2011.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.      Málsástæður og rök B

Í kæru sinni dags. 31. ágúst 2009 bendir B á að í gjaldskránni sem samþykkt var 20. desember 2007 hafi í fyrsta lagi verið kveðið á um að afsláttur vegna hitafalls skyldi vera ein króna fyrir hverja gráðu í hitafalli. Í öðru lagi hafi verið gert ráð fyrir þremur gjaldflokkum sem miðuðust við 50°, 55° og 60° heitt vatn.

Í gögnum frá B kemur fram að hann hafi fengið afnot af vatni sem var 58° heitt og samkvæmt a-lið 2. gr. gjaldskrár frá 20. desember 2007 greiddi hann 25 kr. á m3. B heldur því fram að hann hafi ofgreitt fyrir heita vatnið þar sem miðað hafi verið við verð fyrir vatn sem er 56° og heitara skv. a-lið 2. gr. í stað þess að miða við verð samkvæmt mældu hitastigi, þ.e. 58°. Í gögnum sem fylgdu bréfi B til ráðuneytisins dags. 11. mars 2010 er að finna útreikning hans á verði fyrir notkun á heitu vatni samkvæmt mældu hitastigi. Í útreikningnum gerir B ráð fyrir að samkvæmt gjaldskránni sé afsláttur vegna hitafalls ein króna fyrir hverja gráðu. B byggir því á að verð á 58° heitu vatni sé hærra þegar miðað er við ákvæði a-liðar 2. gr. gjaldskrárinnar heldur en ef miðað er við mælt hitastig.

B heldur því fram að þessi skipting í þrjá gjaldflokka mismuni neytendum gróflega. B telur að Þingeyjarsveit hafi ekki rökstutt breytingar á umræddri gjaldskrá á fullnægjandi hátt. Þá heldur B því fram að þetta fyrirkomulag sé ekki í samræmi við jafnræðisreglu.

IV.       Málsástæður og rök Þingeyjarsveitar

Þingeyjarsveit vísar til þess að beiðni B um lækkun gjalds fyrir heitt vatn hafi verið hafnað á grundvelli þess að í gjaldskrá fyrir hitaveituna komi hvergi fram að veita skuli afslátt um eina krónu fyrir hverja gráðu í hitafalli líkt og B haldi fram.

Um eignarhald hitaveitunnar segir Þingeyjarsveit að hún sé alfarið í eigu sveitarfélagsins. Eignarhaldið byggist á samningi milli menntamálaráðuneytisins og Menntaskólans á Laugum annars vegar og Reykdælahrepps hins vegar frá 15. maí 1975. Þá vísar Þingeyjarsveit til þess að engar sérstakar samþykktir séu til um hitaveituna en ákvarðanir varðandi gjaldskrá hafi ávallt verið teknar af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar.

Þingeyjarsveit bendir á að samkvæmt eldri gjaldskrá hafi verið tekið sérstakt gjald fyrir hverja gráðu af vatni og hafi það útheimt mikla vinnu og kostnað fyrir hitaveituna. Með nýrri þrepaskiptingu í gjaldskránni hafi verið hagrætt og sparað í rekstri hitaveitunnar.

Þingeyjarsveit telur að sveitarstjórnir hafi rúmar heimildir til að breyta gjaldskrám að þeim skilyrðum uppfylltum að ákvarðanir í þá veru séu teknar á málefnalegum forsendum og einstökum neytendum sé ekki mismunað. Þá er fullyrt í rökstuðningi Þingeyjarsveitar að ákvörðun um umrædda breytingu á gjaldskránni hafi verið tekin á lögmætan hátt af sveitarstjórn og birt neytendum með fullnægjandi hætti á heimasíðu sveitarfélagsins. Jafnframt hafi málefnaleg sjónarmið legið að baki ákvörðun um breytingu. Markmið þessara breytinga hafi verið að hagræða í rekstri og lækka kostnað og vinnu við gjaldheimtu. Þá hafi einnig verið stefnt að því að halda verði til neytenda í lágmarki.

Þingeyjarsveit mótmælir þeirri fullyrðingu B að með þrepaskiptingu gjaldskrárinnar hafi sveitarfélagið mismunað neytendum. Í raun sé verið að koma til móts við neytendur sem geti nú notað heitara vatn en ella án þess að greiða fyrir það hærra verð.

Ráðuneytið óskaði frekari gagna um stofnun hitaveitunnar, hvort henni hafi verið markað ákveðið félagaform og hvernig opinberri skráningu hafi verið háttað. Þá var óskað upplýsinga um hvort Þingeyjarsveit hafi sótt um einkaleyfi skv. 1. málsl. 30. gr. orkulaga nr. 58/1967 til að starfrækja hitaveitur, sem annist dreifingu eða sölu á heitu vatni eða gufu til almenningsþarfa á tilteknu veitusvæði. Að lokum var óskað upplýsinga um lagagrundvöll gjaldtöku fyrir afnot af hitaveituvatni sem kveðið er á um í gjaldskrá hitaveitunnar.

Í svari Þingeyjarsveitar við fyrirspurn ráðuneytisins kemur fram að hitaveitan hafi verið rekin sem hluti sveitasjóðs frá 1975 en henni var úthlutað kennitölu á árinu 2000; 6302000-4070. Þá hafi sveitarfélagið ekki sótt um einkaleyfi skv. 1. málsl. 30. gr. orkulaga nr. 58/1967. Þingeyjarsveit bendir á að gjaldskráin sé gjaldskrá veitna en ekki eingöngu hitaveitunnar og því sé einungis leitast við að skýra frá lagagrundvelli 2. gr. gjaldskrárinnar. Samkvæmt 7. gr. sveitarstjórnarlaga skuli sveitarstjórnir hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrám eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna er fyrirtækin og stofnanirnar annast. Þá komi fram í 2. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 að gert sé ráð fyrir að sveitarfélög hafi tekjur af eigin fyrirtækjum og stofnunum sem séu rekin í almenningsþágu, þ.á m. hitaveitu.

Þingeyjarsveit bendir á að Hitaveita Reykdæla hafi ávallt miðað gjaldtöku hitaveituvatns við hitastig inni í húsi samkvæmt mæli og hafi það verið ákveðið m.a. að tilhlutan þáverandi veitustjóra, Björns J. Guðmundssonar, kæranda í máli þessu. Sú ákvörðun hafi verið tekin með tilliti til hagsmuna notenda þjónustunnar þar sem kerfið í sveitarfélaginu sé svo langt að það geti munað allt að 20°á hita vatnsins. Síðar hafi sveitarstjórn ákveðið að fækka gjaldþrepunum í þrjá flokka til einföldunar og hagræðis. Þingeyjarsveit telur að í þeirri breytingu hafi ekki falist nein breyting á grundvelli gjaldtökunnar. Í þéttbýli sé almennt miðað við fast gjald og þá miðað við hitastig í brunni. Í dreifbýli þar sem lagnakerfinu er dreift um mun lengri veg kunni slík gjaldtaka að vera verulega ósanngjörn í garð notenda. Til að mynda hafi Norðurorka hf. nú ákveðið að haga gjaldtöku Reykjaveitu með tilliti til hitastigs til að ná sem mestum jöfnuði milli notenda.

V.        Álit og niðurstaða ráðuneytisins

Málið snýst um lögmæti álagningar gjalds fyrir notkun á heitu vatni fyrir árið 2008 vegna fasteignar B, kæranda í málinu, í Þingeyjarsveit.

1. Í fyrstu telur ráðuneytið rétt að víkja að heimild sveitarfélagsins til að innheimta gjald fyrir afnot af heitu vatni.

Í 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna skulu sveitarfélög vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúanna eftir því sem fært þykir. Þá segir í 3. mgr. 7. gr. að sveitarfélög geti tekið að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra, enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum.  Á grundvelli 2. og 3. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga hafa sveitarfélög tekið upp starfsemi líkt og starfrækslu hitaveitna. Um hitaveitur gilda ekki sérlög heldur er að finna einstaka ákvæði þar að lútandi í öðrum lögum s.s. í orkulögum nr. 58/1967.

Gjald fyrir afnot af heitu vatni telst til þjónustugjalda. Þjónustugjald hefur verið skilgreint svo að það sé greiðsla, venjulega peningagreiðsla, sem tilteknir hópar einstaklinga og lögaðila verða að greiða hinu opinbera eða öðrum, sem hefur heimild til að taka við henni, fyrir sérgreint endurgjald sem látið er í té og er greiðslunni ætlað að standa að hluta eða öllu leyti undir kostnaði við endurgjaldið. (Páll Hreinsson: Kennslurit um þjónustugjöld, Reykjavík 1996, bls. 2) Sé þjónustustarfsemi lögmælt verður gjaldtaka að byggjast á lagaheimild. Ekki eru gerðar jafn strangar kröfur um lagastoð fyrir gjaldtöku þegar um er að ræða opinbera þjónustu sem ekki er lögmælt. Þá hefur löggjafinn ekki tekið afstöðu til þjónustunnar með lagasetningu né tekið afstöðu til fjármögnunar hennar. (Páll Hreinsson: Kennslurit um þjónustugjöld, Reykjavík 1996, bls. 7-8. Sjá einnig Sesselja Árnadóttir: Sveitarstjórnarlögin ásamt skýringum og athugasemdum, Reykjavík 2007, bls. 35-36)

Þar sem um hitaveitur gilda ekki sérlög er ljóst að löggjafinn hefur ekki tekið beina afstöðu til reksturs hitaveitna né heimilað gjaldtöku með skýrri lagaheimild. Verður því að huga að öðrum lagaákvæðum er varða tekjuöflun sveitarfélaga með hliðsjón af því sem að framan greinir um innheimtu gjalda fyrir ólögmælta þjónustu.

Í 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. 2. mgr. 16. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, er kveðið á um að tekjustofnar sveitarfélaga skulu ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir. Tekjustofnar sveitarfélaga eru skv. 1. mgr. 1. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 (tekjustofnalaga) fasteignaskattur, framlög úr Jöfnunarsjóði og útsvör. Í 1. mgr. 2. gr. kemur fram að auk tekna skv. 1. gr. hafa sveitarfélög tekjur af eignum sínum, eigin atvinnurekstri og stofnunum sem reknar eru í almenningsþágu, svo sem vatnsveitum, rafmagnsveitum, hitaveitum o.fl., enn fremur ýmsar aðrar tekjur, svo sem af holræsagjaldi, lóðarleigu, leyfisgjöldum o.fl., allt eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um. Þá segir í 4. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga að sveitarfélög skulu hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækin og stofnanirnar annast.

Telja verður að löggjafinn hafi að einhverju leyti tekið afstöðu til fjármögnunar hitaveitna í 1. mgr. 2. gr. tekjustofnalaga þar sem fram kemur að tekjur sveitarfélaga séu t.a.m. af rekstri hitaveitna. Ljóst er að tekjur af hitaveitu geta ekki skapast nema með innheimtu gjalds fyrir afnot af heita vatninu. Með vísan til þessa, framangreindra lagaákvæða og sjónarmiða um sérstöðu gjaldtökuheimilda vegna ólögmæltrar þjónustu telur ráðuneytið að Þingeyjarsveit sé heimilt að innheimta gjöld fyrir afnot af heitu vatni frá Hitaveitu Reykdæla og Hitaveitu á Stórutjörnum.

2. Þá verður tekið til skoðunar hvort þrepaskipting í gjaldflokka við álagningu gjalds fyrir afnot af hitaveituvatni sé lögmæt aðferð við gjaldtöku, sérstaklega í ljósi þess að áður var gjaldtakan miðuð við mælt hitastig hjá hverjum notanda.

Sá sem greiðir þjónustugjöld getur yfirleitt ekki krafist þess að kostnaður sem hlýst af því að veita honum þjónustu sé reiknaður nákvæmlega út og honum gert að greiða gjald sem honum nemur. Gjaldendur verða því oftast að sæta því að greiða þjónustugjald sem nemur þeirri fjárhæð sem almennt kostar að veita umrædda þjónustu. Af þeim sökum geta stjórnvöld yfirleitt reiknað út hvað kostar að meðaltali að veita vissa þjónustu og tekið gjald samkvæmt því. (Páll Hreinsson: Kennslurit um þjónustugjöld, Reykjavík 1996, bls. 17).

Í Þingeyjarsveit hefur ekki tíðkast að leggja eitt og sama gjald á hvern rúmmetra af heitu vatni án tillits til þess hversu heitt vatnið er þegar það kemur inn í hús notenda. Þess í stað hefur gjaldtakan verið miðuð við hitastig vatnsins þegar það kemur til notkunar í húsum íbúa sveitarfélagsins. Áður var veittur afsláttur fyrir hverja gráðu í hitafalli samkvæmt mældu hitastigi í húsi. Slíkur afsláttur er í raun þrepaskipting en gjaldflokkarnir þeim mun fleiri en samkvæmt hinu nýja fyrirkomulagi og gjaldið í nánu samhengi við mælt hitastig. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi er gjaldtökunni skipt í þrjú þrep eftir hitastigi og því er í raun veittur afsláttur af grunnverði sé hiti vatns í húsi kominn niður fyrir ákveðið hitastig. Sé miðað við gjaldskrá frá 20. desember 2007 má segja að grunnverð fyrir vatn 56° og heitara sé 25 kr. á m3 og veittur sé 5 kr. afsláttur á m3 þegar vatn er kaldara en 56° og 11 kr. afsláttur á m3 þegar vatn er kaldara en 51°. Sjá má að núverandi fyrirkomulag gerir því enn ráð fyrir afslætti vegna hitafalls en afslátturinn er ekki reiknaður á jafn nákvæman hátt og áður tíðkaðist.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, ráða sveitarfélögin sjálf málefnum sínum á eigin ábyrgð. Af umræddu ákvæði verður dregin sú ályktun að sveitarfélögin hafi almennt umtalsvert svigrúm til athafna og ákvarðanatöku að því leyti sem þeim eru ekki settar skorður til slíks með lögum eða öðrum þáttum, svo sem meginreglum stjórnsýsluréttar. Fallast verður á með Þingeyjarsveit að málefnaleg sjónarmið hafi mælt með umræddri breytingu á gjaldtökunni og ekki verður talið að hún feli í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Jafnvel þó að afslátturinn sé nú að einhverju leyti reiknaður á ónákvæmari hátt en áður er ekki hægt að líta fram hjá því að núverandi fyrirkomulag er enn til þess fallið að þjóna hagsmunum íbúa sveitarfélagsins betur en fast gjald sem ekki gerir ráð fyrir afslætti vegna hitafalls. Ráðuneytið telur því ekki tilefni til athugasemda vegna hinnar umdeildu þrepaskiptingar Þingeyjarsveitar í gjaldflokka við álagningu gjalds vegna afnota af heitu vatni.

3. Ráðuneytið tekur þá til athugunar hvort rétt hafi verið staðið að samþykkt og birtingu gjaldskrárinnar.

Gjaldskrá sú sem stuðst hefur verið við í málinu er gjaldskrá Hitaveitu Reykdæla, Hitaveitu Þingeyjarsveitar á Stórutjörnum og kaldavatns- og fráveitna Þingeyjarsveitar. Hún var samþykkt af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar þann 20. desember 2007 og tók gildi 1. janúar 2008.

Rétt þykir að kanna hvort ráðherra bar að staðfesta umrædda gjaldskrá þar sem sérstakar reglur geta gilt um samþykkt og birtingu gjaldskráa í þeim tilvikum.

Í 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað nr. 15/2005 segir að í B-deild Stjórnartíðinda skuli birta reglugerðir, samþykktir og auglýsingar sem gefnar eru út eða staðfestar af ráðherra, reikninga sjóða, ef svo er mælt í staðfestum skipulagsákvæðum þeirra, úrslit alþingiskosninga sem tilkynnt hafa verið á árinu og heiðursmerki, nafnbætur og heiðursverðlaun sem ríkisstjórnin veitir. Þá segir í 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. sömu laga að í B-deild skuli einnig birta reglur sem stjórnvöldum og opinberum stofnunum, öðrum en ráðuneytum, er falið lögum samkvæmt að setja. Ákvæði c-liðar 1. mgr. 21. gr. sveitarstjórnarlaga kveður á um að sveitarstjórn skuli hafa tvær umræður í sveitarstjórn með a.m.k. einnar viku millibili um samþykktir og reglugerðir sem samkvæmt lögum eiga að hljóta staðfestingu ráðherra. Ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 21. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Þingeyjarsveitar nr. 1210/2005 er samhljóða þessu ákvæði sveitarstjórnarlaga en þó er í samþykktinni einnig gert ráð fyrir að gjaldskrár sem hljóta eiga staðfestingu ráðherra skuli fá umfjöllun í tveimur umræðum.

Því er ljóst að gjaldskrá skal birta í B-deild Stjórnartíðinda ef staðfesting ráðherra er áskilin eða sveitarstjórninni hefur með lögum verið falið að setja hana sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 15/2005. Þá hefur Þingeyjarsveit sett sér þær reglur í samþykkt um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins að gjaldskrá sem skal staðfest af ráðherra skuli fá umfjöllun í tveimur umræðum sveitarstjórnar.

Í 3. mgr. 32. gr. orkulaga segir að hafi einkaleyfi verið veitt til þess að starfrækja hitaveitu samkvæmt lögunum þá skuli áður en veitan tekur til starfa setja henni gjaldskrá, er ráðherra staðfestir. Af gögnum málsins er ljóst að Þingeyjarsveit hefur ekki einkaleyfi á starfrækslu hitaveitu í sveitarfélaginu, sbr. 30. gr. orkulaga og því bar ekki að leita staðfestingar ráðherra á gjaldskrá hitaveitnanna. Þá hefur sveitarstjórn ekki verið falið með lögum að setja gjaldskrá fyrir hitaveiturnar. Þar af leiðandi bar Þingeyjarsveit ekki skylda til að hafa tvær umræður um gjaldskrána né birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskrána bar því að birta á þann hátt sem venja er að birta opinberar auglýsingar í sveitarfélaginu. Telja verður nægjanlegt að birta gjaldskrá hitaveitna á heimasíðu sveitarfélagsins.

Ráðuneytið telur vert að minnast á að ný gjaldskrá var samþykkt af sveitarstjórn Þingeyjarsveitar þann 16. desember 2010 og tók gildi 1. janúar 2011. Líkt og í eldri gjaldskrá er ekki einungis kveðið á um gjald fyrir hitaveituvatn heldur er þar einnig að finna ákvæði um heimæðargjald og tengigjald fyrir kaldavatns- og fráveitur Þingeyjarsveitar. Lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna tóku gildi þann 13. mars 2009 en þar er í 13. og 14. gr. að finna ákvæði um tengigjöld og fráveitugjöld. Þá er í 1. mgr. 15. gr. kveðið á um að stjórn fráveitu skuli semja gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 13. og 14. gr. Sveitarfélag skal láta birta gjaldskrána í B-deild Stjórnartíðinda skv. 5. mgr. 15. gr. sömu laga. Gjaldskráin sem tók gildi 1. janúar 2011 var samþykkt eftir gildistöku laga nr. 9/2009. Ákvæði í gjaldskrá um gjöld skv. 13. og 14. gr. laganna bar því að birta í B-deild Stjórnartíðinda. Telja verður að þrátt fyrir að ekki sé lagaskylda til birtingar ákvæða í gjaldskrá um hitaveitu sé eðlilegast að birta gjaldskrána í heild sinni í B-deild Stjórnartíðinda sem var og gert þann 13. janúar 2011.

Að ofangreindu virtu telur ráðuneytið ekki tilefni til athugasemda við samþykkt og birtingu umræddra gjaldskráa sem samþykktar voru 20. desember 2007 og 16. desember 2010.

Vegna starfsanna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðarins dregist og er beðist velvirðingar á því.

Úrskurðarorð

Hafnað er kröfu Björns Guðmundssonar, kt. 110431-3179 um að álagning sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar á gjaldi fyrir notkun á heitu vatni fyrir árið 2008 vegna fasteignar hans að Hólabraut hafi verið ólögmæt.

Bryndís Helgadóttir

Hjördís Stefánsdóttir

 



[1] (Sjá einnig mál 63/2009( SAM09090050))

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta