Vestmannaeyjabær - Afgreiðsla þriggja ára áætlunar, frestur til afhendingar gagna til bæjarfulltrúa
Vestmannaeyjabær
22. september 2005
FEL04090037/1001
Ráðhúsinu
900 Vestmannaeyjum
Með bréfi, dags 19. september 2004, mótteknu 20. sama mánaðar, óskuðu tveir bæjarfulltrúar og
einn varabæjarfulltrúi þáverandi minnihluta bæjarstjórnar í Vestmannaeyjabæ eftir úrskurði
félagsmálaráðuneytisins um lögmæti frestunar á reglulegum fundi bæjarstjórnar
Vestmannaeyjabæjar sem halda átti kl. 18.00 þann 16. september 2004 og lögmæti afgreiðslu
fundar bæjarfulltrúa meirihluta bæjarstjórnar á fundi sem hófst kl. 23.15 sama kvöld. Ráðuneytið
ákvað að taka fyrri hluta erindisins, um lögmæti frestunar bæjarstjórnarfundar, til flýtimeðferðar
og lauk meðferð þess hluta með úrskurði, dags. 28. september 2004, þar sem hafnað var þeirri
kröfu að félagsmálaráðuneytið ógilti þá ákvörðun forseta bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar að
fresta fundi bæjarstjórnar, sem boðaður hafði verið kl. 18.00 hinn 16. september 2004, til kl.
23.15 sama kvöld.
I. Málavextir og sjónarmið málshefjenda og bæjarstjórnar
Á grundvelli upphaflegs erindis og tölvubréfs, dags. 4. október 2004, lagði ráðuneytið þann
skilning í seinni hluta erindisins að áðurgreindir bæjarfulltrúar teldu að tvö þeirra mála sem
fundurinn 16. september 2004 afgreiddi hefðu ekki verið afgreidd með lögmætum hætti.
Fyrra málið varðar samninga um sölu beggja grunnskóla bæjarins, tveggja leikskóla, safnahúss
og þriggja félagsheimila til eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. og leigusamninga um sömu
eignir. Því er haldið fram að allar upplýsingar um forsendur samninganna hafi ekki legið fyrir
fyrr en sama dag og áðurnefndur bæjarstjórnarfundur var haldinn. Sérstaklega er tekið fram að
ekki hafi verið ljóst fyrr en sama dag og fundurinn skyldi haldinn að 22 m.kr. munur væri á
viðhaldsmati seljanda og kaupanda en bæjarfulltrúar minnihluta hafi ekki haft vitneskju um
málið fyrr en gögn þar um voru afhent sex klukkustundum fyrir fundinn. Þá sé ekki ljóst hvort
áðurgreindir samningar hafi tekið breytingum frá því að bæjarráð tók þá til afgreiðslu hinn 13.
september 2004 og þar til bæjarstjóri hafi skrifað undir þá fyrir hönd bæjarins 1. október sama ár.
Einnig segir að þrátt fyrir að seljanda sé gert skylt að greiða kaupanda rúmlega 71 m.kr. til
lækkunar umsamins söluverðs eignanna vegna viðhaldsmats lækki stofn leiguverðs ekki. Ekki sé
gert ráð fyrir þessari breytingu við endurskoðun fjárhagsáætlunar og ekki sé ljóst hver hafi
samþykkt þetta. Því sé um að ræða óheimil fjárútlát. Enn fremur segir að meðal ákvæða í
umræddum samningum sé undanþága frá greiðslu fasteignaskatts til handa kaupanda og verður
að skilja þetta svo að slík undanþága sé a.m.k. gagnrýni verð.
Seinna málið varðar afgreiðslu þriggja ára áætlunar Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans fyrir
árin 2004–2007, sbr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Segir að afgreiðslu áætlunarinnar
hafi oftar en einu sinni verið frestað vegna þess að áðurnefndir sölu- og leigusamningar hafi
mikil áhrif á rekstur og efnahag bæjarins. Því er haldið fram að ekki sé gerð nægileg grein fyrir
þessum áhrifum í þriggja ára áætluninni. Á fundinum sem samþykkti áætlunina hafi ekki verið
gerð grein fyrir breytingum á umfangi rekstrar eða áhrifum á skuldbindingar bæjarins sem leiða
af samningum við Fasteign hf. Útilokað sé að ganga frá þriggja ára áætlun án þess að gerð sé
grein fyrir breytingum sem verða milli umræðna. Sérstaklega er tekið fram að við fyrri umræðu
hafi verið gert ráð fyrir að 200 m.kr. af fé því sem fengist fyrir sölu eigna rynni til þeirra
verkefna sem bæjarstjórn teldi brýnt að leggja fé til án þess að það væri útskýrt nánar.
Í bréfi ráðuneytisins til bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar, dags. 22. október 2004, segir að í
úrskurðarvaldi ráðuneytisins á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, felist vald til
að úrskurða hvort formreglur, lögfestar sem ólögfestar, hafi verið virtar við meðferð máls. Ef
ákvörðun byggist á mati taki ráðuneytið til skoðunar hvort lögmætra sjónarmiða hafi verið gætt
við töku þeirrar ákvörðunar. Almennt hafi ráðuneytið hins vegar ekki úrskurðarvald um efnisleg
atriði sem meðal annars byggi á frjálsu mati sveitarstjórnar. Samkvæmt 102. gr.
sveitarstjórnarlaga skuli ráðuneytið hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum
samkvæmt þeim lögum og öðrum löglegum fyrirmælum. Ráðuneytið teldi rétt að um seinni hluta
erindisins yrði fjallað á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga og að kærendur hafi fallist á þá
málsmeðferð.
Með fyrrnefndu bréfi óskaði ráðuneytið eftir greinargerð bæjarstjórnar um þá málsmeðferð sem
áðurgreind tvö mál fengu innan bæjarráðs og bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar. Sérstaklega var
óskað eftir því að upplýst yrði hvenær allar upplýsingar um forsendur samninganna lágu fyrir og
hvort samningarnir hefðu tekið breytingum eftir að bæjarráð fjallaði um þá þann 13. september
2004 og þar til þeir voru undirritaðir hinn 1. október 2004 og hvaða breytingar hafi þá verið um
að ræða. Þá óskaði ráðuneytið eftir afstöðu bæjarstjórnar til þeirrar gagnrýni sem fram kemur í
áðurnefndu tölvuskeyti á að Fasteign hf. sé undanþegið greiðslu fasteignaskatts af eignunum og
sérstaklega að tekin væri afstaða til þess hvort umræddar eignir féllu undir ákvæði 5. gr. laga um
tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, en þar sé talið upp það húsnæði sem undanþegið er
fasteignaskatti eða sveitarstjórn hefur heimild til að lækka eða fella niður fasteignaskatt hjá.
Greinargerð bæjarstjórnar barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 4. nóvember 2004. Þar kemur fram
að ekki verði fjallað efnislega um ágreiningsefnin heldur verði sýnt með framlagningu gagna að
öllum formskilyrðum sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, og samþykktar um stjórn og fundarsköp
Vestmannaeyjabæjar hafi verið fullnægt við ákvörðun og staðfestingu þessara mála hjá bæjarráði
og bæjarstjórn. Jafnframt verði upplýst hvenær allar upplýsingar og forsendur lágu fyrir og hvort
samningarnir tóku efnislegum breytingum eftir að bæjarráð samþykkti þá þann 13. september
2004.
Varðandi fyrra málið, samninga við eignarhaldsfélagið Fasteign hf. um sölu áðurnefndra eigna
sveitarfélagsins, segir að fundarboð vegna bæjarráðsfundar hinn 13. september 2004 hafi ásamt
dagskrá fundarins verið boðsent aðal- og varabæjarráðsmönnum föstudaginn 10. september
2004, í samræmi við 45. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp
bæjarstjórnar. Fundarboðinu hafi fylgt allir kaup- og leigusamningar sem um ræðir ásamt
fylgigögnum. Séu þeir svo til samhljóða þeim samningum sem lagðir hafi verið fyrir bæjarstjórn
í samræmi við 1. mgr. 53. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp
bæjarstjórnar og síðan undirritaðir af bæjarstjóra f.h. bæjarins eftir að fyrir lá að
bæjarstjórnarfundur hinn 16. september 2004 hafi verið lögmætur. Engar efnisbreytingar hafi
verið gerðar heldur einungis bætt inn réttum dagsetningum og vísitölu auk þess sem
smávægilegar leiðréttingar hafi verið gerðar varðandi heiti á eignarhlutum og stærðir á seldum
eignum. Þessar leiðréttingar og uppfærslur hafi hvorki haft áhrif á verðgildi né umfang umræddra
samninga. Samningarnir ásamt fylgigögnum og forsendur þeirra hafi því legið fyrir á fundi
bæjarráðs þann 13. september 2004. Með umsögn sveitarfélagsins fylgja afrit af öllum
samningunum annars vegar eins og þeir fylgdu fundarboði áðurnefnds bæjarráðsfundar og hins
vegar eins og þeir voru undirritaðir af hálfu bæjarstjóra.
Varðandi fasteignagjöld segir að bæjarstjórn hafi aldrei fellt niður, að hluta eða að öllu leyti,
fasteignagjöld af umræddum fasteignum, hvorki með ákvörðun sinni frá 16. september 2004 né
annarri sértækri ákvörðun. Hins vegar hafi bærinn skuldbundið sig sem leigutaki til að greiða
álögð fasteignagjöld af umræddum fasteignum meðan á leigutíma stendur. Vestmannaeyjabær
muni hér eftir sem hingað til leggja fasteignagjöld á umræddar fasteignir. Umræddar fasteignir
falli ekki undir ákvæði 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995.
Varðandi seinna málið, þriggja ára áætlun Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans 2004–2007,
segir að vegna þess að um alllangt skeið hafi verið til skoðunar aðkoma að eignarhaldsfélaginu
Fasteign hf., sem ljóst hafi verið að breyta myndi verulega öllum áætlunum bæjarins, hafi seinni
umræðu um þriggja ára áætlun fyrir Vestmannaeyjabæ vegna áranna 2004–2007 ítrekað verið
frestað á meðan óljóst var hvort samkomulag tækist milli bæjarins og Fasteignar hf. Vísað er til
þess sem fram kemur í erindi málshefjenda og tekið undir að um þetta hafi verið þokkaleg sátt í
bæjarstjórn. Eftir að samningar tókust hafi meirihluti bæjarstjórnar lagt fram þriggja ára áætlun á
fundi bæjarstjórnar hinn 16. september 2004 og hafi hún verið samþykkt með fjórum samhljóða
atkvæðum. Í áætluninni, sem fylgi greinargerðinni, hafi verið tekið tillit til sölu eigna og
verulegrar lækkunar skulda á móti. Áætlunin uppfylli því þau skilyrði að vera leiðbeinandi
rammi um rekstur, framkvæmdir og fjármál Vestmannaeyjabæjar þann tíma sem hún gildi, eins
og fram komi í framsögu bæjarstjóra með áætluninni.
II. Álit ráðuneytisins
Mál þetta er tekið til meðferðar á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga. Ráðuneytið telur rétt að
taka fram að umrætt lagaákvæði veitir því ekki vald til að ógilda umrædda samninga. Mun
athugun ráðuneytisins beinast að því hvort bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar hafi farið að lögum
við afgreiðslu þeirra mála sem gerð er athugasemd við í erindi málshefjenda.
Málshefjendur halda því fram að allar forsendur varðandi þá samninga við Fasteign hf. sem um
ræðir í málinu hafi ekki verið ljósar fyrr en sama dag og bæjarstjórnarfundur sá sem samþykkti
umrædda samninga var haldinn. Sérstaklega er bent á að gögn um 22 m.kr. mun á viðhaldsmati
seljanda og kaupanda hafi ekki verið afhent fyrr en sex klukkustundum fyrir fyrirhugaðan
bæjarstjórnarfund hinn 16. september 2004. Í umsögn bæjarstjórnar segir að allir samningarnir
hafi fylgt fundarboðinu en ekki er sérstaklega fjallað um þetta tiltekna atriði.
Samkvæmt 3. mgr. 11. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp
bæjarstjórnar nr. 630 frá 12. júlí 2004 skal bæjarstjóri í síðasta lagi einum sólarhring fyrir
bæjarstjórnarfund hafa sent bæjarfulltrúum fundarboð bæjarstjórnarfundar ásamt dagskrá.
Dagskrá bæjarstjórnarfundar skulu fylgja afrit fundargerða, tillagna og annarra gagna sem
bæjarstjóri telur nauðsynleg til að bæjarfulltrúar geti undirbúið sig fyrir fundinn.
Á fundi bæjarstjórnar sem haldinn var 16. september 2004 voru afgreiddir samningar sem höfðu
mikla þýðingu fyrir Vestmannaeyjabæ og vörðuðu háar fjárhæðir. Jafnvel þótt gögn um mun á
viðhaldsmati seljanda og kaupanda hafi varðað hlutfallslega lítinn hluta þeirrar fjárhæðar telur
ráðuneytið það verulega aðfinnsluvert að ekki hafi öll gögn vegna málsins borist bæjarfulltrúum
með a.m.k. sólarhrings fyrirvara í samræmi við 11. gr. samþykktarinnar.
Þá telja málshefjendur einnig óljóst hvort samningarnir hafi tekið breytingum frá því bæjarráð
samþykkti þá hinn 13. september 2004 og þar til bæjarstjóri undirritaði þá hinn 1. október sama
ár. Með umsögn bæjarstjórnar fylgdi afrit allra umræddra samninga, bæði eins og þeir voru
lagðir fyrir bæjarráð og eins og bæjarstjóri undirritaði þá. Ráðuneytið fellst á það sjónarmið
meirihluta bæjarstjórnar að fullnægjandi gögn um málið hafi legið fyrir umræddum
bæjarráðsfundi.
Þá halda málshefjendur því fram að seljanda sé gert skylt að greiða kaupanda rúmlega 71 m.kr.
til lækkunar umsamins söluverðs án þess að það leiði til lækkunar á stofni leiguverðs. Ekki sé
gert ráð fyrir þessari fjárhæð við endurskoðun fjárhagsáætlunar og ekki ljóst hver hafi samþykkt
þetta. Ráðuneytið bendir á að á bæjarstjórn samþykkti umrædda samninga á fundi sínum hinn 16.
september 2004, þ.m.t. umrædda breytingu á söluverðinu. Stofn leiguverðs er samningsatriði
milli kaupanda og seljanda og ekki á færi ráðuneytisins að taka afstöðu til slíkra efnisatriða á
grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga.
Varðandi það atriði sérstaklega að ekki sé gert ráð fyrir þessari fjárhæð við endurskoðun
fjárhagsáætlunar fyrir árið 2004 skal bent á að fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar árið 2004 var
samþykkt 29. janúar 2004. Í fundargerð bæjarstjórnarfundar hinn 11. mars 2004 kemur fram að
þriðja mál fundarins hafi verið „3ja ára áætlun 2004–2007“ og að samþykkt hafi verið með sex
samhljóða atkvæðum að vísa áætluninni til seinni umræðu en einn bæjarfulltrúi hafi verið
fjarverandi. Í fundargerð bæjarstjórnarfundar hinn 16. september 2004 kemur fram að annað mál
fundarins hafi verið seinni umræða um „3ja ára áætlun fyrir Vestmannaeyjabæ“ og að áætlunin
hafi verið samþykkt með fjórum samhljóða atkvæðum. Tímabilið 2004 til 2007 spannar fjögur ár
en ekki þrjú og í gögnum sem ráðuneytinu voru send um þau mál sem tekin voru fyrir á hinum
umdeilda fundi 16. september 2004 eru auk þriggja ára áætlunar fyrir árin 2005, 2006 og 2007
einnig rekstraryfirlit og fleiri gögn vegna ársins 2004. Ljóst er því að fjárhagsáætlun ársins 2004
var tekin til endurskoðunar samhliða afgreiðslu þriggja ára áætlunar.
Varðandi ábyrgð á greiðslu fasteignaskatts hefur sveitarfélagið gefið þau svör að samkvæmt
samningnum sé kaupandi eignanna ekki undanþeginn fasteignaskatti. Hins vegar hafi
sveitarfélagið sem leigutaki samið um að greiða álagðan fasteignaskatt í samræmi við lög um
tekjustofna sveitarfélaga. Ráðuneytið gerir ekki athugasemd við þá tilhögun sem væntanlega
hefur verið tekið tillit til við ákvörðun leiguverðs.
Seinni ákvörðun bæjarstjórnar sem málshefjendur gera athugasemd við varðar þriggja ára áætlun
sveitarfélagsins árin „2004–2007“ en eins og áður segir spannar tímabilið 2004 til 2007 fjögur ár
en ekki þrjú og er ljóst að fjárhagsáætlun ársins 2004 var tekin til endurskoðunar samhliða
afgreiðslu þriggja ára áætlunar fyrir árin 2005–2007. Í 1. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga, nr.
45/1998, segir að til viðbótar fjárhagsáætlun skv. 61. gr. skuli sveitarstjórn árlega semja og fjalla
um þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélagsins. Áætlunin skuli vera
rammi um árlegar fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins og unnin og afgreidd af sveitarstjórn innan
tveggja mánaða frá afgreiðslu árlegrar fjárhagsáætlunar skv. 61. gr. Sveitarstjórn skal samkvæmt
a-lið 21. gr. sveitarstjórnarlaga hafa tvær umræður með a.m.k. einnar viku millibili um
fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins, stofnana þess og fyrirtækja. Skýr fyrirmæli eru því í lögum um
hvenær þriggja ára áætlun skuli liggja fyrir, þ.e. innan tveggja mánaða frá afgreiðslu árlegrar
fjárhagsáætlunar skv. 61. gr. en skv. 1. mgr. þeirrar greinar skal sveitarstjórn afgreiða
fjárhagsáætlun næsta árs fyrir sveitarsjóð og stofnanir sveitarfélagsins fyrir lok
desembermánaðar. Ráðuneytið geti veitt sveitarstjórnum lengri frest þegar brýnar ástæður eru
fyrir hendi. Þriggja ára áætlun skal því liggja fyrir í síðasta lagi í lok febrúarmánaðar ár hvert.
Fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar árið 2004 var samþykkt í bæjarstjórn 29. janúar 2004. Fyrri
umræða um þriggja ára áætlun Vestmannaeyjabæjar 2004–2007 fór fram í bæjarstjórn 11. mars
2004 og var samþykkt með sex samhljóða atkvæðum að vísa henni til seinni umræðu en einn
bæjarfulltrúi var fjarverandi. Eins og fram hefur komið var seinni umræðu ítrekað frestað og var
þriggja ára áætlun ekki afgreidd fyrr en á fundi bæjarstjórnar hinn 16. september 2004. Þetta er í
verulegu ósamræmi við þann áskilnað sem gerður er í lögum og ber að átelja þennan
heimildarlausa drátt á afgreiðslu þriggja ára áætlunar.
Við seinni umræðu um þriggja ára áætlun hafði hún tekið breytingum og kemur fram í umsögn
bæjarstjórnar að búið hafi verið að taka tillit til umræddrar sölu á eignum bæjarins fyrir um 1.000
m.kr. og verulegri lækkun skulda á móti. Í umsögn bæjarstjórnar er því ekki mótmælt að ekki
hafi verið gerð sérstök grein fyrir þessum breytingum sem urðu á milli umræðna um áætlunina
og í gögnum þeim sem send hafa verið til ráðuneytisins er einungis að finna framsögu
bæjarstjóra við fyrri umræðu um málið. Það verða að teljast vandaðir stjórnsýsluhættir að gera
grein fyrir breytingum sem verða á milli umræðna á áætlun til að auðvelda sveitarstjórn að taka
afstöðu til breytinganna og verður að átelja að svo hafi ekki verið gert ekki síst þegar um svo
veigamiklar breytingar er að ræða eins og í þessu máli.
Málshefjendur halda því enn fremur fram að ekki sé gerð nægileg grein fyrir þessum áhrifum í
þriggja ára áætluninni. Um þriggja ára áætlun gildir 2. mgr. 63. gr. þar sem segir að form þriggja
ára áætlunar skuli vera í samræmi við form ársreiknings og stjórnvaldsfyrirmæli sem sett eru skv.
4. mgr. 67. gr. um þriggja ára áætlanir. Í samræmi við ákvæði 66. gr. skal strax að lokinni
afgreiðslu sveitarstjórnar senda ráðuneytinu fjárhagsáætlun skv. 61. gr. og þriggja ára áætlun skv.
63. gr. Sama á við um endurskoðaða áætlun eða breytta skv. 62. gr. Í samræmi við 2. og 3. mgr.
65. gr. sveitarstjórnarlaga tilkynnti bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar eftirlitsnefnd með
fjármálum sveitarfélaga um fyrirhugaða sölu og endurleigu á hluta af fasteignum bæjarins til
eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. Meðfylgjandi tilkynningunni var endurskoðuð fjárhagsáætlun
fyrir árið 2004, þriggja ára áætlun 2005–2007, sem tekin var til fyrri umræðu í bæjarstjórn 11.
mars 2004, og sérfræðiálit KPMG-ráðgjafar hf. um áhrif fyrirhugaðar sölu og endurleigu á
rekstur og fjárhag bæjarins.
Samhliða athugun eftirlitsnefndar á ársreikningi Vestmannaeyjabæjar 2003, fjárhagsáætlun fyrir
árið 2004 og þriggja ára áætlun 2005–2007, kannaði nefndin sjálfstætt áhrif fyrirhugaðar sölu á
rekstur sveitarfélagsins í samræmi við 5. gr. reglugerðar um eftirlitsnefnd með fjármálum
sveitarfélaga, nr. 374/2001, með síðari breytingum. Með bréfi, dags. 7. október 2004, upplýsti
nefndin bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar um mat sitt á fjárhagsstöðu bæjarsjóðs og áhrifum
fyrirhugaðar sölu hluta af fasteignum bæjarins á rekstur sveitarfélagsins. Taldi nefndin mikilvægt
að áform bæjarstjórnar um niðurgreiðslu skulda gengju eftir og að áætlanir um afgang af rekstri
bæjarsjóðs næstu árin myndu standast. Nefndin gerði hins vegar ekki athugasemdir við efnislegar
forsendur sérfræðiálits KPMG-ráðgjafar hf., fjárhagsáætlunar 2004 eða þriggja ára áætlunar
2005–2007. Verður því að líta svo á að þriggja ára áætlun uppfylli kröfur laga og er ekki gerð
athugasemd við áætlunina eins og hún barst ráðuneytinu í hendur.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að gera athugasemd
við að gögn um breytingar á samningum við Fasteign ehf., sem afgreiddir voru á fundi
bæjarstjórnar Vestmannaeyja 16. september 2004, bárust bæjarfulltrúum með skemmri fyrirvara
en kveðið er á um í 11. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp
bæjarstjórnar. Einnig gerir ráðuneytið athugasemd við að ekki verður séð að á sama
bæjarstjórnarfundi hafi verið gerð grein fyrir breytingum á þriggja ára áætlun á milli fyrri og
síðari umræðu. Verður að telja eðlilegt að lagt sé fram skriflegt yfirlit um slíkar breytingar, ekki
síst þegar um verulegar breytingar er að ræða á forsendum áætlunar. Loks er óhjákvæmilegt að
finna alvarlega að þeim heimildarlausa drætti sem varð á afgreiðslu þriggja ára áætlunar fyrir
árin 2005–2007. Er bæjarstjórn áminnt um að afgreiða framvegis áætlanir innan þeirra
tímamarka sem kveðið er á um í sveitarstjórnarlögum.
Beðist er velvirðingar á þeim mikla drætti sem orðið hefur á afgreiðslu þessa máls sem skýrist af
miklu annríki í ráðuneytinu.
Fyrir hönd ráðherra
Guðjón Bragason (sign.)
Lárus Bollason (sign.)