Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Reykjavíkurborg - Sala á eignum sveitarfélags, upplýsingagjöf ábótavant

Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi
16. janúar 2007
FEL06110083

Hjarðarhaga 28

107 Reykjavík

Hinn 16. janúar 2007 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

Með erindi, dags. 29. nóvember 2006, krefjast borgarfulltrúarnir Svandís Svavarsdóttir og Árni Þór

Sigurðsson þess að samþykkt borgarstjórnar frá 21. nóvember 2006 um staðfestingu samnings um sölu á

hlut borgarinnar í Landsvirkjun verði felld úr gildi, með vísan til eftirlits- og úrskurðarhlutverks

félagsmálaráðuneytisins.

Erindið var sent Reykjavíkurborg til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 15. desember sl. Umsögn

barst með bréfi, dags. 19. desember 2006. Í henni er þess krafist að málinu verði vísað frá ráðuneytinu.

Jafnframt er í umsögninni fjallað um efnisatriði málsins.

Umsögnin var send kærendum með bréfi ráðuneytisins, dags. 19. desember 2006. Athugasemdir þeirra við

umsögnina bárust með bréfi, dags. 4. janúar 2007, og voru þær sendar Reykjavíkurborg með bréfi

ráðuneytisins, dags. 5. janúar sl., þar sem fram kom að ráðuneytið teldi gagnaöflun í málinu lokið.

I. Málavextir.

 

Samkvæmt samningi íslenska ríkisins við Reykjavíkurborg og Akureyrarkaupstað, sem undirritaður var 1.

nóvember 2006 af fulltrúum samningsaðila, kaupir íslenska ríkið eignarhluti Reykjavíkurborgar og

Akureyrarkaupstaðar í Landsvirkjun. Eignarhlutur Reykjavíkurborgar er seldur á 26.937.652.000 kr. og

samkvæmt samningnum greiðir ríkið stærstan hluta kaupverðs, eða 23.937.625.000 kr. með 119

skuldabréfum til 28 ára, bundnum vísitölu neysluverðs og með breytilegum vöxtum. Skuldabréfin skulu

skv. 4. gr. samningsins gefin út til Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar til að mæta

lífeyrisskuldbindingum borgarinnar vegna starfsmanna hennar.

Þegar samningurinn var undirritaður þann 1. nóvember 2006 skorti nauðsynlega lagaheimild til að

Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar gæti átt slíkt magn óskráðra skuldabréfa, sbr. 36. gr. laga

um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Hinn 9. desember 2006

samþykkti Alþingi breytingu á þeim lögum sem öðlaðist þegar gildi. Í lagabreytingunni felst að bætt er við

36. gr. nýrri málsgrein er hljóðar svo:

„Nú greiðir bakábyrgðaraðili lífeyrissjóðs, sem nýtur bakábyrgðar ríkis, sveitarfélaga eða banka, inn á

skuldbindingu sína við sjóðinn með verðbréfum skv. 1. tölul. 1. mgr. sem ekki eru skráð á skipulegum

markaði, og skal sjóðnum þá heimilt að eiga slík verðbréf óháð takmörkunum skv. 1. málsl. þessarar

málsgreinar.“

II. Málsrök aðila varðandi frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar.

 

Í umsögn Reykjavíkurborgar er þess krafist að erindinu verði vísað frá ráðuneytinu. Er í umsögninni bent

á að málskotsheimild 103. gr. sveitarstjórnarlaga hafi verið skýrð svo að hún nái ekki til ákvarðana sem

sveitarstjórnir taka á einkaréttarlegum grunni, svo sem við kaup og sölu eigna. Einnig þurfi ákvörðun að

hafa verið tekin í skjóli stjórnsýsluvalds en hin kærða ákvörðun sé einkaréttarlegs eðlis, þ.e. um sölu

Reykjavíkurborgar á hlut sínum í tilteknu sameignarfyrirtæki, Landsvirkjun. Þótt fyrirtækið sé að fullu í

eigu opinberra aðila og um það gildi sérstök lög sé samningurinn einkaréttarlegs eðlis og eigi hann því

ekki undir úrskurðarvald ráðuneytisins skv. 103. gr. sveitarstjórnarlaga.

Einnig er í umsögninni bent á að ágreiningsefnið sem kæran lýtur að varði heimild Lífeyrissjóðs

starfsmanna Reykjavíkurborgar til að taka við skuldabréfum, útgefnum af ríkissjóði, að fjárhæð tæplega

24 milljarðar króna. Samkvæmt 44. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða,

nr. 129/1997, hafi Fjármálaeftirlitið eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða. Það sé því Fjármálaeftirlitsins að

gera athugasemdir við viðtöku lífeyrissjóðsins á umræddum skuldabréfum og beri ráðuneytinu einnig af

þeirri ástæðu að vísa kærunni frá. Með sömu rökum heyri efni kærunnar ekki heldur undir 102. gr.

sveitarstjórnarlaga þar sem eftirlitshlutverk ráðuneytisins nái ekki inn á valdsvið annarra stofnana.

Í bréfi kærenda, dags. 4. janúar 2007, er frávísunarkröfunni mótmælt. Telja kærendur að ef fallist yrði á þá

röksemd Reykjavíkurborgar að ákvörðunin sé einkaréttarlegs eðlis, og þar með ekki stjórnsýsluákvörðun,

sé jafnframt verið að segja að allt ferli ákvörðunarinnar sé undanþegið stjórnsýslureglum. Þetta sé fráleit

niðurstaða. Það sé tilgangur stjórnsýslureglna að stuðla að því að opinberu valdi sé ekki misbeitt og stuðla

að því að opinberu valdi sé beitt á réttmætan og málefnalegan hátt. Undantekningartilvik frá

stjórnsýslureglum verði að skýra mjög þröngt og telja kærendur ljóst að ákvörðun um sölu mikilvægustu

og verðmætustu eignar Reykjavíkurborgar geti ekki átt þar undir. Það hvort Landsvirkjun er

einkaréttarlegur aðili eða opinbers réttar eðlis skipti engu máli í þessu sambandi heldur varði öllu máli

hver það sé sem ákvörðunina tók og hvaða takmörkunum handhafar stjórnsýsluvalds verði að sæta.

III. Niðurstaða ráðuneytisins.

 

Í máli þessu er deilt um hvort samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur frá 21. nóvember 2006 um

staðfestingu samnings um sölu á hlut borgarinnar í Landsvirkjun hafi farið í bága við lög. Nánar tiltekið er

í kæru tveggja borgarfulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vísað til þess að 4. gr. samningsins

fari í bága við 36. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.

Ástæðan er sú að stærstur hluti kaupverðs skal greiddur með skuldabréfum, útgefnum af ríkissjóði, sem

ekki eru skráð á skuldabréfamarkaði, og gæti það leitt til þess að eign Lífeyrissjóðs starfsmanna

Reykjavíkurborgar í slíkum skuldabréfum yrði langt umfram leyfilegt hámark, sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna.

Umræddu lagaákvæði hefur nú verið breytt og hefur breytingin þegar tekið gildi. Ótvírætt er því að umrætt

ákvæði samningsins fer ekki í bága við lög.

Ráðuneytið fellst á þau rök Reykjavíkurborgar að eftirlit og úrskurðarvald um mál er varða framkvæmd og

túlkun laga nr. 129/1997 heyri undir Fjármálaeftirlitið. Þar sem öðru stjórnvaldi er lögum samkvæmt falið

eftirlit með því að starfsemi lífeyrissjóða sé í samræmi við ákvæði þeirra laga, annarra

stjórnvaldsfyrirmæla og staðfestra samþykkta lífeyrissjóða verður óhjákvæmilega að fallast á

frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar. Er því vísað frá ráðuneytinu kröfu kærenda í málinu um að hin kærða

ákvörðun verði úrskurðuð ógild.

Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu telur ráðuneytið rétt að taka afstöðu til þess hvort málið geti gefið

tilefni til frekari athugunar eða viðurlaga skv. 102. gr. sveitarstjórnarlaga. Atvik málsins eru að fullu

upplýst og verður ekki séð, með hliðsjón af fyrrgreindri lagabreytingu, að ólögmætt réttarástand hafi

skapast vegna hinnar kærðu ákvörðunar. Skal sérstaklega bent á að í 3. mgr. 8. gr. samnings ríkisins við

Reykjavíkurborg og Akureyrarkaupstað er svohljóðandi ákvæði:

„Í kjölfar samnings þessa verður lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um

Landsvirkjun nr. 42/1983, með síðari breytingum, sem og öðrum þeim lögum sem gerð samnings þessa

kallar á.“

Lítur ráðuneytið svo á að framangreind lagabreyting falli undir umræddan fyrirvara. Við umræðu um

samninginn í borgarstjórn Reykjavíkur virðist ekki hafa verið gerð grein fyrir því að fjármálaráðherra

hefði lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi

lífeyrissjóða, nr. 129/1997, en ráðherra mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi sama dag og umræða um

samninginn fór fram í borgarstjórn. Þrátt fyrir þennan annmarka á upplýsingagjöf til borgarfulltrúa er það

niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð og niðurstaða borgarstjórnar gefi ekki tilefni til frekari athugunar

eða viðurlaga skv. 102. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kröfu borgarfulltrúanna Svandísar Svavarsdóttur og Árna Þórs Sigurðssonar um að felld verði úr gildi

ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkurborgar frá 21. nóvember 2006, þess efnis að staðfesta samning um

kaup íslenska ríkisins á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarkaupstaðar í Landsvirkjun, er vísað frá

ráðuneytinu.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Sesselja Árnadóttir (sign.)

Ljósrit:

Reykjavíkurborg

Árni Þór Sigurðsson, borgarfulltrúi

16. janúar 2007 - Reykjavíkurborg - Sala á eignum sveitarfélags, upplýsingagjöf ábótavant. (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta