Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Langanesbyggð: Ágreiningur um afgreiðslu erindis í sveitarstjórn. Mál nr. IRR 11040264

 

Ár 2011, 16. maí, er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli IRR 11040264

Guðmundur Vilhjálmsson

gegn

Langanesbyggð

 

I.         Kröfur, aðild,  kæruheimild og kærufrestur

Með stjórnsýslukæru dagsettri 21. apríl 2011, kærði Guðmundur Vilhjálmsson, kt. 130367-3999 (hér eftir nefndur GV), þá ákvörðun að taka ekki erindi hans og móður hans, Brynhildar Halldórsdóttur, fyrir á fundi sveitarstjórnar Langanesbyggðar þann 14. apríl 2011.

Af hálfu GV er gerð sú krafa að sveitarstjóri Langanesbyggðar og oddviti sveitarstjórnar verði víttir fyrir að taka ekki erindið fyrir og að þeim sé gerð skýr grein fyrir skyldum þeirra sem sveitarstjórnarmanna og jafnframt að ráðuneytið hlutist til um að öllum liðum bréfsins sé svarað á fullnægjandi hátt. Þá er gerð sú krafa að Skipulagsstofnun staðfesti ekki Aðalskipulag Langanesbyggðar 2007-2027 fyrr en stofnunin hefur tekið fyrir svar við bréfinu. Ekki væri hins vegar gerð athugasemd við að stofnunin hafnaði aðalaskipulaginu án þess að svar hefði borist. Af hálfu Langanesbyggðar er gerð sú krafa aðallega að kærunni verði vísað frá en til vara að öllum kröfum verði hafnað.

Kæran er borin fram á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

Ekki er ágreiningur um aðild.

Ráðuneytinu ber að eigin frumkvæði að kanna hvort kæra hafi borist innan kærufrests. Eins og áður segir er framkomin kæra sett fram á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 þar sem segir að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunni að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerði þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Ekki er í sveitarstjórnarlögum kveðið á um sérstakan kærufrest en ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum sínum litið svo á að um kærufrest gildi ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg. Í máli þessu er kærð sú ákvörðun að taka ekki erindi GV og móður hans fyrir á fundi sveitarstjórnar Langanesbyggðar þann 14. apríl. Kæra til ráðuneytisins er dagsett 21. apríl 2011 og barst hún ráðuneytinu þann 27. apríl. Er því ljóst að kæra var borin fram innan tilskilins kærufrests sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.  

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Með bréfi, dags. 30. mars 2011, beindu GV og móðir hans erindi til sveitarstjórnar Langanesbyggðar en efni erindisins var fyrst og fremst andmæli og athugasemdir vegna afgreiðslu sveitarstjórnar á Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 auk þess sem óskað var svara sveitarstjórnar við nánar tilgreindum atriðum. Óskuðu GV og móðir hans þess jafnframt að afgreiðslu erindis yrði hraðað.

Sveitarstjórn Langanesbyggðar fundaði svo þann 21. apríl 2011 en erindi GV og móður hans var ekki á dagskrá fundarins. Samkvæmt fundargerð sveitartjórnar gerði einn sveitarstjórnarmaður athugasemd við að erindið væri ekki tekið fyrir og tók sveitarstjóri fram af því tilefni að eðlilegt væri að sveitarstjóri kynnti sér málið betur og yrði það tekið fyrir á næsta fundi.

Með bréfi, dags. 21. apríl 2011 kærði GV svo sem fyrr greinir þá ákvörðun að taka erindið ekki fyrir á fundi sveitarstjórnar þann 14. apríl 2011.

Með bréfi, dags. 29. apríl 2011, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Langanesbyggðar um kæruna og jafnframt afriti af öllum gögnum málsins. Bárust umbeðin gögn með bréfi, dags. 6. maí 2011.

Að fenginni umsögn Langanesbyggðar og þeirra gagna sem henni fylgdu telur ráðuneytið að málið sé nægileg upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og tækt til úrskurðar. Er það jafnframt mat ráðuneytisins, með hliðsjón af eðli málsins og þeirra gagna sem fyrir liggja, að það sé augljóslega óþarft, í skilningi 13. gr. stjórnsýslulaga, að gefa GV sérstaklega færi á því að gæta andmælaréttar vegna umsagnar sveitarfélagsins, enda geti það ekki breytt niðurstöðu málsins.

III.      Málsástæður og rök GV

Af hálfu GV er tekið fram að efni erindis hans og móður hans til sveitarstjórnar hafi verið andmæli og athugasemdir vegna afgreiðslu Langanesbyggðar á Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027. Hafi þau viljað fá ákveðin svör frá Langanesbyggð til að framvísa til Skipulagsstofnunar vegna vinnu stofnunarinnar við yfirferð skipulagstillögunnar. Í ljósi þess að þau telji að ferli við gerð aðalskipulagsins hafi ekki verið með eðlilegum hætti telji þau sig eiga rétt á svörum við athugasemdum sínum og spurningum.

Einnig benda þau á að sveitarfélögum sé skylt að svara innsendum erindum svo fljótt sem auðið sé. Jafnframt skuli bent á að erindið hafi ekki verið kynnt öðrum sveitarstjórnarmönnum, heldi hafi sveitarstjóri viljað kynna sér það betur áður en það yrði tekið til kynningar og afgreiðslu.

Þá vill GV taka fram að ekki sé einsdæmi að erindi séu ekki tekin fyrir í sveitarstjórn Langanesbyggðar og tilgreinir tvö slík erindi, annað frá því í október 2009 en hitt síðan í desember 2010. Mun annað erindið hafa verið stílað á sveitarstjóra en hitt á sveitarstjórn.

IV.       Málsástæður og rök Langanesbyggðar

Af hálfu Langanesbyggðar er tekið fram að erindi GV og móður hans frá 30. mars 2011 fjalli um andmæli og athugasemdir við afgreiðslu á tillögu að aðalskipulagi fyrir Langanesbyggð. Umrædd tillaga hafi hlotið lögbundna meðferð í sveitarstjórn Langanesbyggðar og þ. á m. hafi verið auglýst eftir athugasemdum þeirra sem hagsmuna hafi átt að gæta. Móðir GV og fjölskylda hafi verið á meðal þeirra sem hafi sent inn athugasemdir og hafi þær verið teknar fyrir lögum samkvæmt. Þess megi geta að vegna athugasemda GV við aðalskipulagstillöguna hafi verið fundað sérstaklega með honum í janúar 2011. Af hálfu sveitarfélagsins hafi sveitarstjóri, skipulagsfulltrúi og byggingarfulltrúi setið fundinn. Síðar í janúar hafi GV og móðir hans fundað með sveitarstjóra og loks hafi GV fengið að mæta á fund sveitarstjórnar vegna athugasemda þeirra við aðalskipulagstillöguna og í kjölfarið hafi vissar breytingar verið gerðar á upphaflegri tillögu og athugasemdum svarað lögum samkvæmt. Í kjölfarið hafi tillaga að aðalskipulagi sveitarfélagsins verið samþykkt í sveitarstjórn og sé hún nú til afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun. Í raun hafi kærandi fengið mun rýmri andmælarétt við tillögu að aðalskipulagi en lög geri ráð fyrir. Því sé ljóst að athugasemdir GV við tillögu að aðalskipulagi Langanesbyggðar hafi verið afgreiddar lögum samkvæmt og umræddu erindi GV því í raun svarað.

Í umræddu erindi GV sé gerð grein fyrir andmælum og athugasemdum hans við tillögu að aðalskipulagi Langanesbyggðar. Þær athugasemdir sem fjölskylda hans hafi gert innan lögboðins frests hafi fengið umfjöllun og verið afgreiddar lögum samkvæmt. Umrætt erindi sé í raun ítrekun GV á athugasemdum móður hans við aðalskipulagstillöguna og efnisleg umfjöllun um það því þarflaus. Meðal annars af þeirri ástæðu hafi ekki þótt tilefni til að taka erindið til umfjöllunar á fundi sveitarstjórnar þann 14. apríl 2011. Hins vegar hafi þótt rétt að leggja erindið fram á fundi sveitarstjórnar og hafi það verið gert þann 28. apríl 2011. Hafi þá komið fram að tillaga að aðalskipulagi væri til afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun og öllum athugasemdum sem hefðu borist á sínum tíma hefði verið svarað. Sveitarstjóra hafi samt sem áður verið falið að svara erindinu. Málið hafi því verið afgreitt með eðlilegum hætti.

Varðandi málshraða, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, vill Langanesbyggð benda á að alls ekki hafi verið óeðlilegt að sveitarstjóri myndi leita sér ráðgjafar áður en hann myndi leggja erindið fram á fundi sveitarstjórnar, ef yfirleitt þætti ástæða til að leggja það fram á slíkum fundi. Eins og fram hafi komið hafi erindinu í raun þegar verið svarað og því þarflaust að leggja það fram að nýju. Þá hafi frestur til að koma að athugasemdum við tillögu að aðalskipulagi verið liðinn og í raun hefði verið nægjanlegt að benda GV á það en ekki taka erindið til frekari afgreiðslu.

Með vísan til alls þess er þess krafist af hálfu Langanesbyggðar að kærunni verði vísað frá enda sé hún fram komin án tilefnis og erindið sem hún byggi á hafi þegar verið afgreitt. Þá sé þess einnig krafist að öðrum kröfum verði vísað frá. Varðandi hluta kröfugerðar GV um að Skipulagsstofnun staðfesti ekki aðalskipulag fyrir Langanesbyggð skuli tekið fram að það sé ekki á valdsviði innanríkisráðuneytisins að fjalla um slíka kröfu. Um gerð og staðfestingu aðalskipulags gildi sett lög og eftir þeim hafi verið farið í hvívetna við vinnu á aðalskipulagi fyrir Langanesbyggð. Þá er ítrekað að umræddu erindi GV og móður hans hafi þegar verið svarað, þ.e. áður en sveitarstjórn afgreiddi tillögu að aðalskipulagi fyrir Langanesbyggð.

V.        Álit og niðurstaða ráðuneytisins

1.         Svo sem fram hefur komið innihélt erindi GV og móður hans til sveitarstjórnar, dags. 30. mars 2011, fyrst og fremst andmæli og athugasemdir vegna afgreiðslu sveitarstjórnar Langanesbyggðar á tillögu að Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027. Um málsmeðferð aðalskipulagstillögunnar fer samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 sem nú hafa verið leyst af hólmi með skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum um mannvirki nr. 160/2010. Í 18. gr. laga nr. 73/1997 var fjallað um auglýsingu og samþykkt aðalskipulagstillögu. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. bar sveitarstjórn að auglýsa tillögu að aðalskipulagi eða breytinga á því með áberandi hætti. Tillagan skyldi jafnframt auglýst í Lögbirtingarblaði og liggja frammi hjá Skipulagsstofnun. Í 3. mgr. segir að sveitarstjórn skyldi, þegar frestur til athugasemda væri liðinn, fjalla um tillöguna á nýjan leik að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Í þeirri umfjöllun bar sveitarstjórn jafnframt að taka afstöðu til athugasemda sem borist hefðu. Í 5. mgr. 18. gr. laganna sagði svo að þegar sveitarstjórn hefði samþykkt tillögu að aðalskipulagi skyldi sveitarstjórn senda Skipulagsstofnun hana til afgreiðslu, ásamt athugasemdum og umsögn sveitarstjórnar um þær.

Í málinu liggur fyrir að tillaga að Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 var auglýst í Lögbirtingarblaði og Fréttablaðinu þann 7. október 2010 og var frestur til að koma á framfæri athugasemdum til 18. nóvember sama ár. Fyrir liggur að GV og fjölskylda hans gerðu athugasemdir við tillöguna og var þeim svarað af sveitarstjórn um leið og öðrum athugasemdum og umsögn um allar athugasemdir svo sendar Skipulagsstofnun, sbr. 5. mgr. 18. gr. laga nr. 73/1997. Erindi það sem þetta mál lýtur að er dagsett 30. mars 2011 og var því sent sveitarstjórn löngu eftir að frestur til að gera athugasemdir við aðalskipulagstillöguna rann út. Að mati ráðuneytisins verður því ekki litið svo á að erindið feli í sér athugasemdir við aðalskipulagstillögu í skilningi í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 73/1997, heldur bar að fara með það sem almennt erindi til sveitarstjórnar, jafnvel þó að efni þessi lúti að umræddri aðalskipulagstillögu. Að mati ráðuneytisins skiptir þessi greinarmunur hér máli því áður en sveitarstjórn svarar athugasemdum sem gerðar hafa verið við skipulagstillögu skulu þær hafa hlotið umfjöllun skipulagsnefndar, sbr. 3. mgr. 18. gr. laga nr. 73/1997 og 6. mgr. gr. 2.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, auk þess sem sveitarstjórn ber að senda Skipulagsstofnun umsögn sína um slíkar athugasemdir. Sveitarstjórn ber ekki skylda til að viðhafa sambærilega málsmeðferð þegar hún tekur afstöðu til almennra erinda, þó að henni sé það að sjálfsögðu heimilt, kjósi hún að fara með erindi í slíkan farveg.

2.         Í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslaga nr. 37/1993 er mælt fyrir um að stjórnvöld skuli taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Ákvæðið byggir á óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttrar sem hefur víðtækara gildissvið en svo að það sé einungis í þeim tilvikum sem tekin er stjórnvaldsákvörðun að afgreiða skuli mál án ástæðulauss dráttar. Verður því að líta svo á að stjórnvöldum beri að svara öllum erindum er þeim berast svo fljótt sem unnt er nema svars sé bersýnilega ekki vænst. Þá er það óskráð meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald á rétt á skriflegu svari.

Í því máli sem hér um ræðir er kærð sú ákvörðun að erindi GV og móður hans, dags. 30. mars 2011, hafi ekki verið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar þann 14. apríl 2011. Sveitarfélögum sem öðrum ber að svara þeim erindum er þeim berast en að mati ráðuneytisins verður 9. gr. stjórnsýslulaga ekki túlkuð svo að sá sem beinir erindi til sveitarstjórnar eigi skýlausan rétt á því að erindið verði tekið fyrir þegar á næsta fundi hennar. Slíkt hlýtur fyrst og fremst að ráðast af eðli erindisins, umfangi stjórnsýslu sveitarfélagsins og forgangsröðun. Þá ber og að hafa í huga að sum mál eru þannig vaxin að eðlilegt er að starfsfólk sveitarfélags undirbúi mál áður en sveitarstjórn fjallar um það á fundi sínum. Þá ber einnig að hafa í huga að í lögum og reglugerðum er í sumum tilfellum mælt fyrir um að sveitarstjórn skuli fjalla um mál en í öðrum tilvikum kann tilteknum starfsmönnum að vera heimilt að afgreiða mál án aðkomu sveitastjórnar, sbr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

Í máli þessu er fram komið að umrætt erindi var ekki tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar þann 14. apríl 2011. Í fundargerð sveitarstjórnar fyrir 21. fund hennar þann 14. apríl 2011 segir eftirfarandi um lið 6:

6. Skýrsla sveitarstjóra

Sveitarstjóri flutti skýrslu sína og svaraði fyrirspurnum.

Sigurður Ragnar gerir athugasemdir við að innsend erindi frá íbúum sem stíluð eru á sveitarstjórn skuli ekki koma fyrir fund fyrr en sveitarstjóri hefur ákveðið hvernig best sé að afgreiða erindi. Það tel ég að sé sveitarstjórnar allrar.

Sveitarstjóri tók fram að eðlilegt væri að kynna sér málið betur og verður þetta tekið fyrir á næsta fundi.

Í fundargerð sveitarstjórnar fyrir 22. fund hennar þann 28. apríl 2011 segir svo eftirfarandi um lið f:

5. Bréf frá Guðmundi Vilhjálmssyni dags. 30.03.2011

Sveitarstjóri bendir á að bréfið sé ekki einungis frá Guðmundi heldur líka frá Brynhildi Halldórsdóttur og leiðréttist það hér með. Innihald bréfsins sem er í átta liðum snýr að aðalskipulagi Langanesbyggðar.

Sveitarstjóri fór yfir að aðalskipulagið væri nú til afgreiðslu hjá skipulagsstofnun og að öllum þeim athugasemdum sem bárust á auglýstum tíma hafi verið svarað.

Samt sem áður er sveitarstjóra falið að svara erindinu og leita álits viðeigandi aðila á þeim athugasemdum er þar koma fram. Reimar sat hjá.

Það er því ljóst að sveitarstjórn tók erindi GV og móður hans til umfjöllunar á þarnæsta fundi eftir að erindið barst, og innan mánaðar frá dagsetningu þess. Að mati ráðuneytisins verður ekki litið svo á slíkur dráttur hafi orðið á því að fjallað hafi verið um erindið af sveitarstjórn að það varði broti gegn 9. gr. stjórnsýslulaga um málshraða. Rétt er að halda því til haga að sveitarstjórn fól sveitarstjóra að svara erindinu.

3.         GV gerir þá kröfu að sveitarstjóri Langanesbyggðar og oddviti sveitarstjórnar verði víttir fyrir að taka ekki erindið fyrir á fundi sveitarstjórnar þann 14. apríl 2011 og að þeim verði gerð skýr grein fyrir skyldum þeirra. Í 1. mgr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga kemur fram að ráðuneytið skuli hafa eftirlit með því að sveitarstjórnir gegni skyldum sínum samkvæmt lögunum og öðrum löglegum fyrirmælum. Í 2. mgr. 102. gr. kemur svo fram að vanræki sveitarstjórn skyldur sínar skuli ráðuneytið veita henni áminningu og skora á hana að bæta úr vanrækslunni. Hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti  að það nái jafnt til sveitarstjórnar og einstakra sveitarstjórnarmanna að því er varðar skyldur þeirra samkvæmt lögunum (sjá t.a.m. Sesselja Árnadóttir. Sveitarstjórnarlögin með skýringum og athugasemdum, 2007, bls. 254-255). Er rétt að taka fram í því samhengi að bæði oddviti sveitarstjórnar Langaneshrepps og sveitarstjóri eru kjörnir sveitarstjórnarfulltrúar. Á hinn bóginn lítur ráðuneytið svo á að áminning verði því aðeins veitt ef brot er stórfellt, ítrekað eða að ásettu ráði.

Í 51. gr. sveitarstjórnarlaga segir að sveitarstjórn ráði framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn skv. 56. gr. laganna til þess að annast framkvæmd ákvarðana sveitarstjórnar og verkefni sveitarfélagsins. Í 55. gr. er svo fjallað um verksvið framkvæmdastjóra en skv. 2. mgr. hennar skal framkvæmdastjóri m.a. undirbúa fundi sveitarstjórnar og byggðaráðs og hafa á hendi framkvæmd þeirra ákvarðana sem hún tekur. Í 22. gr. laganna, sem fjallar um hlutverk oddvita, kemur svo fram að oddviti stjórni umræðum á fundi sveitarstjórnar. Hann sjái um að fundargerðir séu skipulega færðar í gerðabók sveitarstjórnar og að allar ályktanir og samþykktir séu rétt og nákvæmlega bókaðar. Í 17. gr. laganna er fjallað um boðun sveitarstjórnar og kemur fram að framkvæmdastjóri sveitarfélags boði sveitarstjórnarfundi á þann hátt sem sveitarstjórn ákveður. Hann ákveði einnig fundarstað og fundartíma hafi sveitarstjórn eigi gert það.

Ekki er að finna í sveitarstjórnarlögum ákvæði sem fjallar um samningu dagskrár sveitarstjórnarfunda eða hvaða mál skuli tekin fyrir hverju sinni. Sveitarstjórnir skulu hins vegar, sbr. 10. gr. sveitarstjórnarlaga, gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annast. Skal slík samþykkt send ráðuneytinu til staðfestingar. Í gildi er nú samþykkt um stjórn og fundarsköp Langanesbyggðar sem staðfest var af þáverandi samgönguráðuneyti þann 6. desember 2008 og birtist auglýsing um gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda þann 22. desember sama ár, sbr. auglýsingu nr. 1166/2008. Í 11. gr. samþykktarinnar kemur fram að framkvæmdastjóri sveitarfélagsins semji dagskrá sveitarstjórnarfundar í samráði við oddvita og skuli dagskráin fylgja fundarboði. 11. gr. samþykktarinnar hljóðar svo:

Framkvæmdastjóri sveitarfélagsins semur dagskrá sveitarstjórnarfundar í samráði við oddvita og skal dagskráin fylgja fundarboði.

Á dagskrá sveitarstjórnarfundar skal taka:

1. Lögákveðnar kosningar, svo sem kosningu oddvita og varaoddvita, kosningar nefnda, ráða og stjórna á vegum sveitarfélagsins, svo og ráðningar framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélaginu.

2. Fundargerðir nefnda, ráða og stjórna á vegum sveitarfélagsins, sbr. 49. gr. sveitarstjórnarlaga.

3. Önnur mál sem falla undir verksvið sveitarstjórnar og framkvæmdastjóri og/eða oddviti ákveður að taka á dagskrá eða einhver sveitarstjórnarmaður óskar að tekin verði á dagskrá. Sveitarstjórnarmaður sem óskar að fá mál tekið á dagskrá sveitarstjórnarfundar skal tilkynna það framkvæmdastjóra skriflega með tillögu eða fyrirspurn a.m.k. þremur sólarhringum fyrir fund. Dagskrá sveitarstjórnarfundar skulu fylgja afrit fundargerða.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að það er á verksviði framkvæmdastjóra Langanesbyggðar í samráði við oddvita sveitarstjórnar að ákveða dagskrá sveitarstjórnarfunda og þar með hvaða mál hljóta þar umfjöllun hverju sinni. Verður að játa þeim töluvert svigrúm til þess að meta hvort mál séu tæk til umfjöllunar sveitarstjórnar eða hvort þau þurfi frekari undirbúnings við, enda hefur þeim verið falið það hlutverk af sveitarstjórn, sbr. 11. gr. áðurnefndrar samþykktar. Í máli þessu liggur fyrir að það var mat sveitarstjóra að hann þyrfti að kynna sér erindi GV og móður hans betur áður en það yrði lagt fyrir sveitarstjórn. Telur ráðuneytið ekki ástæðu til að véfengja það mat sveitarstjóra og telur jafnframt ljóst að ákvörðun hans leiddi ekki til þess að afgreiðsla erindisins drægist úr hófi fram, sbr. framangreinda umfjöllun.

Þá þykir ráðuneytinu rétt að víkja að því að á fundi sveitarstjórnar Langanesbyggðar þann 14. apríl 2011 gerði einn sveitarstjórnamaður athugasemd við að innsend erindi frá íbúum sem stíluð væru á sveitarstjórn skyldu ekki koma fyrir fund fyrr en sveitarstjóri hefði ákveðið hvernig best væri að afgreiða þau. Taldi hann að slík ákvörðun væri sveitarstjórnar allrar. Í því sambandi vill ráðuneytið benda á 3. tölul. 11. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Langanesbyggðar. Af honum verður ráðið að ef sveitarstjórnarmaður óskar þess að erindi verði tekið á dagskrá sveitarstjórnarfundar skuli orðið við því. Sá sveitarstjórnarmaður sem þess óskar skal hins vegar tilkynna framkvæmdastjóra sveitarfélagsins skriflega um það með tillögu eða fyrirspurn a.m.k. þremur sólarhringum fyrir fund. Ekki verður séð að slík beiðni til framkvæmdastjóra hafi komið fram í máli þessu.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið því ekki að framkvæmdastjóri Langanesbyggðar eða oddviti sveitarstjórnar hafi vanrækt skyldur sínar í máli þessu. Kröfu GV um að sveitarstjóri Langanesbyggðar og oddviti sveitarstjórnar verði víttir og gerð skýr grein fyrir skyldum sínum, er því hafnað.

4.         Þá er gerð sú krafa af hálfu GV að ráðuneytið hlutist til um að öllum liðum erindis hans og móður hans, dags. 30. mars, verði svarað á fullnægjandi hátt.

Ráðuneytið bendir á að það leiðir af sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga, sbr. 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, að úrskurðarvald ráðuneytisins skv. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nær aðeins til þess að staðfesta athafnir sveitarfélaga eða ógilda þær eða eftir atvikum lýsa ólögmætar. Má í því sambandi benda á að í athugasemdum við 26. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993, kemur fram að það sæti endurskoðun ráðuneytisins hvort ákvörðun sé lögmæt, þ.e. hvort sveitarstjórn hafi t.d. gætt réttrar málsmeðferðar, hvort ákvörðun eigi sér stoð í lögum eða sé byggð á lögmætum sjónarmiðum. Ráðuneytið telst þannig ekki æðra sett stjórnvald gagnvart sveitarfélögum í venjulegum skilningi. Af því leiðir að ráðuneytið hefur ekki vald til að kveða á um tiltekna athafnaskyldu sveitarfélaga, þ.m.t. að mæla fyrir um hvernig þau svara efnislega þeim erindum sem þeim berast.

Kröfu GV um að ráðuneytið hlutist til um að öllum liðum erindis hans og móður hans verði svarað á fullnægjandi hátt er því vísað frá.

5.         Þá er gerð sú krafa að Skipulagsstofnun staðfesti ekki Aðalskipulag Langanesbyggðar 2007-2027 fyrr en stofnunin hafi tekið fyrir svar við bréfi GV og móður hans.

Svo sem áður segir fer um málsmeðferð tillögu að Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007-2027 eftir skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 en þau lög hafa nú verið leyst af hólmi með skipulagslögum nr. 123/2010 og lögum um mannvirki nr. 160/2010. Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 73/1997 kom fram að aðalskipulag eða breyting á því væri háð staðfestingu umhverfisráðherra og tæki gildi þegar staðfestingin hefði verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. gerði Skipulagstofnun hins vegar tillögu til umhverfisráðherra um staðfestingu aðalskipulags, synjun eða frestun á staðfestingu að öllu leyti eða hluta.

Það er því ljóst að staðfesting Aðalskipulags Langanesbyggðar 2007-2027 heyrir undir umhverfisráðherra en ekki innanríkisráðherra. Innanríkisráðuneytið brestur því vald til að mæla svo fyrir um að Skipulagsstofnun staðfesti ekki aðalskipulagstillöguna og ber því að vísa þeirri kröfu frá. Rétt er að taka fram að málsmeðferð aðalskipulags hefur breyst nokkuð með lögum nr. 123/2010. Þannig er það nú meginregla að Skipulagsstofnun staðfestir aðalskipulagstillögur, sbr. 3. mgr. 32. gr. laga nr. 123/2010, en ekki umhverfisráðherra. Það breytir hins vegar engu um niðurstöðu ráðuneytisins enda heyrir Skipulagsstofnun undir umhverfisráðuneytið en ekki innanríkisráðuneyti.

Úrskurðarorð

Kröfu Guðmundar Vilhjálmssonar, kt. 130367-3999, um að sveitarstjóri Langanesbyggðar og oddviti sveitarstjórnar verði víttir fyrir að taka ekki erindi hans og móður hans, dags. 30. mars 2011, fyrir á fundi sveitarstjórnar þann 14. apríl 2011, og að þeim sé gerð skýr grein fyrir skyldum þeirra sem sveitarstjórnarmanna, er hafnað.

Kröfu Guðmundar Vilhjálmssonar um að ráðuneytið hlutist til um að öllum liðum erindisins verði svarað með fullnægjandi hætti, er vísað frá.

Kröfu Guðmundar Vilhjálmssonar um að Skipulagsstofnun staðfesti ekki Aðalskipulag Langanesbyggðar 2007-2027 fyrr en stofnunin hafi tekið fyrir svar sveitarstjórnar Langanesbyggðar við erindis hans, er vísað frá.

Fyrir hönd ráðherrra

Bryndís Helgadóttir

Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta