Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Hafnarfjarðarbær: Ágreiningur um ráðningu hafnarvarðar. Mál nr. IRR 11010498

 

Ár 2011, 2. maí er í innanríkisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli IRR 11010498

Björn Uffe Sigurbjörnsson

gegn

Hafnarfjarðarbæ

I.         Kröfur, aðild,  kæruheimild og kærufrestur

Með stjórnsýslukæru dagsettri 26. janúar 2011 kærði Björn Uffe Sigurbjörnsson, kt. 280454-5839 (hér eftir nefndur BS), ákvörðun Hafnarfjarðarhafnar, dags. 26. október 2010, um ráðningu í starf hafnarvarðar.

Af hálfu BS er þess krafist að úrskurðað verði að málsmeðferð og ráðning í starf hafnarstarfsmanns hjá Hafnarfjarðarhöfn hafi brotið gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og sé ólögmæt. Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er farið fram á að kröfu BS verði hafnað og að staðfest sé að hin kærða ákvörðun sé lögmæt.

Ekki er tilgreind kæruheimild í kæru en af henni verður ráðið að hún sé borin fram á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

Ekki er ágreiningur um aðild.

Ráðuneytinu ber að eigin frumkvæði að kanna hvort kæra hafi borist innan kærufrests. Eins og áður segir er framkomin kæra sett fram á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 þar sem segir að ráðuneytið skuli úrskurða um ýmis vafaatriði sem upp kunni að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna en það skerði þó eigi rétt aðila til þess að höfða mál fyrir dómstólum. Ekki er í sveitarstjórnarlögum kveðið á um sérstakan kærufrest en ráðuneytið hefur í fyrri úrskurðum sínum litið svo á að um kærufrest gildi ákvæði 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun nema lög mæli á annan veg. Hin kærða ákvörðun var tekin þann 26. október 2010. Í gögnum málsins kemur fram að BS óskaði rökstuðnings fyrir ákvörðuninni og barst hann honum með bréfi, dags. 28. október 2010. Með tölvubréfi, dags. 26. janúar 2010 kærði BS svo ákvörðunina til innanríkisráðuneytisins. Kæra telst því fram borin innan hins lögmælta kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

II.        Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru atvik þess með eftirfarandi hætti.

Haustið 2010 auglýsti Hafnarfjarðarhöfn lausa til umsóknar stöðu hafnarvarðar við við höfnina. Birtist auglýsing þess efnis í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 2. október 2010 og í Fjarðarpóstinum 14. október. Í auglýsingunni var óskað eftir starfsmanni til að starfa við hafnarvörslu, skipstjórn og almenn hafnarstörf og var umsóknarfrestur til 20. október. Alls bárust 16 umsóknir um starfið.

Þann 26. október 2010 var ákveðið að ráða Roland Buchholz (hér eftir nefndur RB) í starfið og var öðrum umsækjendum tilkynnt um það með bréfi sama dag. BS, sem var einn umsækjenda óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni og barst hann honum með bréfi, dags. 28. október 2010.

Með tölvubréfi, dags. 26. janúar 2011, kærði BS ákvörðun um ráðninguna til ráðuneytisins og með tölvubréfi, dags. 2. febrúar 2011, bárust ráðuneytinu viðbótargögn vegna kærunnar.

Með bréfi, dags. 27. janúar 2011, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar. Barst slík umsögn með bréfi, dags. 21. febrúar 2011.

Með bréfi, dags. 24. febrúar 2011, gaf ráðuneytið BS færi á að gæta andmælaréttar vegna umsagnar Hafnafjarðarbæjar og koma á framfæri frekari gögnum og sjónarmiðum. Bárust þau gögn ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 25. mars 2011.

Með bréfi, dags. 31. mars 2011, ritaði ráðuneytið málsaðilum bréf og tilkynnti að ráðuneytið liti svo á að gagnaöflun væri lokið og að málið yrði tekið til úrskurðar. Jafnframt var tekið fram að ráðgert væri að ljúka málinu í apríl 2011.

Kæra þessi hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III.      Málsástæður og rök BS

BS telur að málsmeðferð ákvörðunarinnar og ráðningarferlið feli í sér gróft brot á ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sé andstæð öllu sem kallast geti góðir og vandaðir stjórnsýsluhættir enda hafi ómálefnaleg sjónarmið ráðið því hvaða umsækjandi hafi verið ráðinn. Þá hafi hann ástæðu til að ætla að starfsauglýsingin og starfið hafi verið búið til fyrir einn umsækjanda, þ.e. þann er starfið hlaut.

BS vísar til þeirrar meginreglu stjórnsýsluréttar að hæfasti umsækjandi skuli ávallt ráðinn í auglýst starf nema önnur málefnaleg sjónarmið eigi við. Áður en stjórnvald taki ákvörðun um ráðningu starfsmanns þurfi að kanna umsóknir allra umsækjenda, vinsa út þá hæfustu og boða í viðtal. Vísar BS í þessu sambandi til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga en samkvæmt henni beri hlutaðeigandi stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.

BS telur að það gefi auga leið að ekki hafi verið hirt um að virða 10. gr. stjórnsýslulaga í málinu eða þá meginreglu stjórnsýsluréttar að velja beri hæfasta umsækjandann. Af rökstuðningi forstöðumanns þjónustusviðs Hafnarfjarðarhafnar verði ráðið að það gefi auga leið að umsóknir annarra en RB hafi ekki verið skoðaðar. Þá hafi RB ekki umkrafið skipstjórnarpróf en hann hafi svokallað A-6 próf. BS telur því, með hliðsjón af menntun sinni og reynslu, að fullt tilefni hefði verið til að boða hann, og eftir atvikum aðra umsækjendur, til viðtals. Slíkt hafi þó ekki verið gert og leiði það frekari líkur að því að ómálefnaleg sjónarmið hafi átt við um ráðningunna enda hafi enginn umsækjandi verið boðaður til viðtals eða óskað frekari upplýsinga frá þeim.   

Með hliðsjón af framangreindu telur BS að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið ráðinn enda hafi málið ekki verið upplýst nægilega, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og ómálefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar ákvörðuninni. Þá hafi aðrir umsækjendur verið blekktir til að sækja um starfið þrátt fyrir að aldrei hafi komið til greina að ráða þá til starfans. Þessi málsmeðferð er að mati BS afar niðurlægjandi og felur að hans mati í sér ólögmæta meingerð gegn persónu hans og æru.

Þá telur BS að starfsauglýsingin hafi brotið gegn stjórnsýslulögum og lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en auglýsingin hafi verið þannig úr garði gerð að einungis afar fáir umsækjendur hafi talist nægilega hæfir til að uppfylla þær kröfur sem gerðar hafi verið. Meginreglan við ráðningu opinberra starfsmanna sé sú að ekki eigi að gera óvenjulega miklar hæfniskröfur til umsækjenda nema lög geri sérstaklega ráð fyrir því að starfsmenn þurfi að uppfylla tiltekin aldurs- eða hæfnisskilyrði. BS bendir á að óvenju miklar hæfniskröfur hafi verið gerðar til umsækjenda fyrir umrætt starf en það geti harla talist venjulegt að hafnarvörður þurfi að hafa lokið 3. stigs skipstjórnarnámi, vera með vélavarðar- og/eða vélstjórnarréttindi 750 kw og reynslu af stjórnun tveggja skrúfu skipa.

BS styður þá fullyrðingu þeim rökum að hvergi í lögum sé gert ráð fyrir að hafnarverðir þurfi að hafa umrædda menntun eða reynslu. Þá sé athyglisvert að hvergi í lögum sé yfir höfuð minnst á hæfnisskilyrði hafnarvarða. Því séu umræddar kröfur hafnarstjórnar fjarstæðukenndar og standist tæplega góða og vandaða stjórnsýsluhætti enda séu ítarlegar og sérstæðar kröfur gerðar til umsækjenda. Sérstaklega veki athygli krafa um reynslu af stjórnun tveggja skrúfu skipa en það geti tæplega krafist eðlileg krafa þegar tveggja skrúfu skip séu sjaldgæf við íslenskar hafnir.

Ennfremur bendir BS á að í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 41/2003 um Vaktstöð siglinga sé að finna ákvæði um þær kröfur sem gerðar séu til hafnsögumanna. Samkvæmt ákvæðinu þurfi hafnsögumaður að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

   1. Er 25–69 ára að aldri.

   2. Hefur fullnægjandi heilbrigðisvottorð.

   3. Hefur lokið 2. stigs skipstjórnarnámi eða samsvarandi námi og hefur siglt sem skipstjóri eða stýrimaður á skipi um svæði sem tilgreint er á skírteininu og þekkir til hlítar siglingaleiðir á svæðinu.

   4. Hefur lokið námskeiði til að vera hafnsögu- og leiðsögumaður eftir því sem nánar segir í reglugerð.

Eins og auglýsing hafnarstjórnar sé úr garði gerð megi sjá að gerðar séu sömu kröfur ef ekki meiri kröfur til umsækjenda um stöðu hafnarvarðar en hafnsögumanna. Í 14. gr. sömu laga sé svo að finna skyldur hafnsögu- og leiðsögumanna en af ákvæðinu megi ráða að skyldur hafnsögumanna séu mun ríkari en skyldur hafnarvarða og því eðlilegt að gerðar séu ríkari kröfur til þeirra. Að mati BS var starfsauglýsingin því ekki í samræmi við ákvæði stjórnsýsluréttar og laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Þá telur BS að auglýsingin um starfið hafi verið búin til eða sniðin sérstaklega að einum manni, þ.e. RB. Slíkt hátterni sé í andstöðu við allar reglur stjórnsýsluréttar, grafi undan trausti og trúverðugleika stjórnsýslunnar og sé tilefni alvarlegra athugasemda um meðferð almannafjár. Þá kunni þessi tiltekna háttsemi að vera skaðabótaskyld en reynist grunur BS á rökum reistur sé ljóst að sú háttsemi hafnarstjórnarinnar að draga fjölda umsækjenda á asnaeyrunum feli í sér ólögmæta meingerð gegn persónu hans og annarra umsækjenda.

Til stuðnings þeirri fullyrðingu vísar BS í fyrsta lagi til þess að hann hafi rökstuddan grun um að RB hafi sótt dráttarbátanámskeið á vegum Hafnarfjarðarhafnar rúmlega 7 dögum áður en umsóknarfrestur um starfið hafi runnið út. Reynist sá grunur réttur sé ljóst að BS og aðrir umsækjendur hafi verið dregnir á asnaeyrum og slíkt sé í raun grafalvarlegt mál og alvarleg vanræksla í starfi. 

Í öðru lagi vísar BS til þeirra sjónarmiða að óeðlilegt sé að gera meiri kröfur til umsækjenda um stöðu hafnarvarðar en til hafnsögumanna.

Í þriðja lagi telur BS óeðlilegt að gerð sé sú krafa til umsækjenda að þeir hafi reynslu af skipum með tvær aðalskrúfur, en slík skip séu óalgeng. BS hafi ekki vitneskju um reynslu RB af slíkum skipum, en með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga beri að kanna það. Hafi RB reynslu af slíkum skipum sé það að mati BS til þess fallið að styrkja grun hans um að auglýsingin hafi verið sniðin að RB.

Hvað varðar umsögn Hafnarfjarðarhafnar um kæruna þá vill BS í fyrsta lagi gera athugasemdir við þau ummæli að ekki hafi verið þörf á að boða fleiri en RB í viðtal þar sem hann hafi einn uppfyllt hæfniskröfur þær sem gerðar hafi verið. BS vísar í því sambandi til þeirrar meginreglu stjórnsýsluréttar og opinbers vinnuréttar að alltaf eigi að ráða hæfasta umsækjandann. Þrátt fyrir að umsækjandi uppfylli almennar hæfniskröfur, sem virðist sniðnar að tilteknum manni og séu langt umfram allt sem geti talist eðlilegt, miðað við þær kröfur sem gerðar séu til hafnsögumanna, sbr. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 41/2003 þýði það ekki sjálfkrafa að hann teljist hæfastur. Þegar ekki séu gerðar lögbundnar kröfur til umsækjenda hljóti matið á hæfasta umsækjandanum að vera heildstætt þannig að allir kostir umsækjenda séu metnir heildstætt og ákvörðun tekin í kjölfar þess.

Í öðru lagi gerir BS athugasemdir við þau ummæli í umsögn um kæru hans um ástæður þeirra hæfniskrafna sem gerðar hafi verið til umsækjenda en þar segi að ástæða þeirra eigi rætur sínar að rekja til þess að ,,höfnina vantaði starfsmann til að starfa á bátum hafnarinnar, sem skipstjóri og/eða vélstjóri. Jafnframt var leitað að starfsmanni sem gæti leyst af hafnsögumenn hafnarinnar.“

Í þriðja lagi gerir BS athugasemdir við þau ummæli að málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki þeim hæfniskröfum sem gerðar voru til umsækjenda. Ítrekar BS í því samhengi fyrrnefnd sjónarmið sín. Hann telur þannig að ekki hafi verið eðlilegt að gera þær kröfur sem komu fram í auglýsingunni. Því til stuðnings vísar hann til fylgiskjals nr. 1 með umsögn Hafnarfjarðarhafnar, þ.e. „Starfslýsing hafnarvarðar II“, en þar komi fram að áskilin réttindi séu 1. stigs skipstjórnarréttindi ásamt vélavarðarréttindum til að sigla hafnarbát með 360 kw vél. Þá vísar BS til auglýsingar um starfið en þar sé auglýst eftir starfsmanni til starfa við hafnarvörslu, skipstjórn og almenn hafnarstörf. BS telur að augljóst að hér sé auglýst eftir hafnarverði en ekki hafnsögumanni. Því séu kröfurnar sem gerðar eru til umsækjenda óvenju strangar, sérstaklega ef tekið sé mið af þeim áskildu réttindum sem fram komi í starfslýsingu hafnarvarðar II. Að mati BS bendir ofangreint allt til þess að starfsauglýsingin hafi verið búin til fyrir tiltekinn umsækjanda, þ.e. RB.

Þá veki það einstaka furðu BS að Hafnarfjarðarhöfn skuli láta fylgja með áliti sínu starfslýsingu hafnarvarðar II og hafnsögumanns en ekki sé að finna afrit af starfslýsingu hafnarvarðar I. BS telur þetta ennfremur styðja við málatilbúnað sinn en við lestur á starfslýsingu hafnarvarðar II megi sjá að starfslýsing þess starfs sé víðtækari en hafnarvarðar I. BS telur að starfsauglýsingin hafi miðast við umsækjendur um starf hafnarvarðar I en starfslýsing sé afar óljós og telur BS að Hafnarfjarðarhöfn verði að bera hallann af þeirri handvömm.

Í fjóðar lagi ítrekar BS sjónarmið sín um að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað og að brotið hafi verið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vísar hann til áðurnefndra sjónarmiða um að heildstætt mat þurfi að fara fram til að geta ákvarðað hver sé hæfasti umsækjandinn.

Þá kveðst BS hafa rökstuddan grun um að fjölmargir starfsmenn hafnarinnar hafi eingöngu haft skipstjórnarréttindi þegar þeir hófu störf við höfnina en hafi sótt námskeið til öflunar vélavarðarréttinda á kostnað Hafnarfjarðarbæjar eftir að hafa hafið störf við Hafnarfjarðarhöfn. Reynist það rétt megi sjá ákveðinn tvískinnung í málattilbúnaði Hafnarfjarðarhafnar enda virðist þar verða lögð sérstök áhersla á þau réttindi RB.

Þá ítrekar BS áðurnefndar aðfinnslur við kröfu um að umsækjendur hefðu reynslu af tveggja skrúfu skipum. Það að stjórna skipum krefjist lagni og maður sem sé laginn með skip geti stjórnað hvaða skipi sem er og sé fljótur að ná tökum á þeim. BS hafi stjórnað lóðsbátnum Þrótti hjá Hafnarfjarðarhöfn sumrin 1986 og 1987 og farist það vel úr hendi og þekki allar aðstæður í höfninni mjög vel.

Þá veki það einnig einstaka furðu að í umsögninni sé ekki snert á einni alvarlegustu ávirðingu sinni, þ.e. að umsækjandanum RB hafi verið gert að sækja að dráttarbátanámskeið á vegun Hafnarfjarðarhafnar nokkrum dögum áður en umsóknarfrestur um starfið rann út. Að mati BS gefur þetta tilefni til frekari skoðunar en sú staðreynd að reynt sé að líta framhjá þessari fullyrðingu gefi BS tilefni til að ætla að grunur hans reynist á rökum reistur. Með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga sé þess óskað að ráðuneytið rannsaki hvort svo sé.

Þá tilgreini RB í umsókn sinni að hann hafi nýlega farið á vigtarnámskeið og sé að bíða eftir löggildingu. Það teljist fremur óalgengt að sækja vigtarnámskeið án sérstaks tilefnis og því sé farið þess á leit við ráðuneytið að það rannsaki hvort að slíkt hafi átt sér stað fyrir tilstilli Hafnarfjarðarhafnar.

IV.       Málsástæður og rök Hafnarfjarðarhafnar

Í umsögn Hafnarfjarðarhafnar vegna kæru BS er vikið að því að við Hafnarfjarðarhöfn starfi tvennskonar hafnarverðir, hafnarverðir I og hafnarverðir II. Hafnarverðir I sinni hafnarvörslu og almennum störfum við höfnina sem ekki krefjist atvinnuréttinda. Hafnarverðir II sinni skipstjórn og vélstjórn á hafnarbátum Hafnarfjarðarhafnar auk hafnarvörslu og almennra starfa við höfnina, sbr. starfslýsingu hafnarvarðar II sem er meðfylgjandi umsögninni.

Þá er tekið fram að hafnarbátar Hafnarfjarðar séu HB Þróttur, skipaskránúmer 370, 22,63 brúttótonn, með 258 kw vélbúnaði og HB Hamar, skipaskrárnúmer 2489, 67 brúttótonn, með 678 kw vélbúnaði. HB Hamar sé með tveimur skrúfum.

Allir starfandi hafnarverðir II við höfnina hafi vélavarðaréttindi 375 kw. eða vélstjórnarréttindi 750 kw. Allir nema einn séu að auki með skipstjórnarréttindi. Hafnsögumenn hafnarinnar hafi 3. stigs skipstjórnarpróf auk vélavarðar-/vélstjórnarréttinda. Starfslýsing hafnsögumanns er meðfylgjandi umsögn Hafnarfjarðarhafnar.

Þá segir í umsögninni að starf hafnarvarðar hafi verið auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu þann 2. október 2010 og í Fjarðarpóstinum 14. október 2010 og hafi umsóknarfrestur runnið út 20. október 2010. Alls hafi borist 16 umsóknir. Í auglýsingu hafi verið óskað eftir starfsmanni til starfa við hafnarvörslu, skipstjórn og almenn hafnarstörf. Eftirfarandi hæfniskröfur hafi verið gerðar til umsækjenda:

·        Þarf að hafa lokið skipstjórnarnámi 3. stigs.

·        Þarf að vera með vélavarðar- og/eða vélstjórnarréttindi 750 kw.

·        Æskilegt að viðkomandi hafi reynslu af stjórnun tveggja skrúfu skipa.

Við yfirferð á umsóknum hafi komið í ljós að einungis ein umsókn hafi uppfyllt þau ófrávíkjanlegu skilyrði sem sett voru fram í auglýsingu um tiltekin atvinnuréttindi, þ.e. skipstjórnar- og vélavarðar/vélstjórnarréttindi. Þegar og af þeirri ástæðu hafi ekki farið fram frekari skoðun á öðrum umsækjendum s.s. með ráðningarviðtali. Sá umsækjandi sem uppfyllti lágmarkskröfur samkvæmt auglýsingu hafi verið RB sem hafi var ráðinn til starfans. RB hafi lokið skipstjórnarnámi 3. stig og hafi vélstjórnarréttindi 750 kw.

Ákvörðun um ráðningu hafi verið tekin sameiginlega af Má Sveinbjörnssyni, hafnarstjóra og Kristni Aadnegard, yfirhafnsögumanni. Hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar fari með ráðningarvald starfsmanna hafnarinnar skv. 5. gr. hafnarreglugerðar fyrir Hafnarfjarðarhöfn með stoð í 4. gr. hafnalaga nr. 61/2003. Öllum umsækjendum hafi verið tilkynnt bréflega um ráðninguna þann 26. október 2010.

Ástæða þeira hæfniskrafna sem fram komi í auglýsingu Hafnarfjarðarhafnar eftir starfsmanni sé sú að höfnina hafi vantað starfsmann til að starfa á bátum hafnarinnar sem skipstjóri og/eða vélstjóri. Jafnframt hafi verið leitað að starfsmanni sem gæti leyst af hafnsögumenn hafnarinnar.

Þá er vikið að því í umsögninni að BS byggi kröfu sína m.a. á því að málsmeðferð og ráðningarferli hafi falið í sér gróft brot á ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sé andsætt öllu sem geti talist góðir og vandaðir stjórnsýsluhættir enda hafi ómálefnaleg sjónarmið ráðið því hvaða umsækjandi hafi verið ráðinn.

Hafnarfjarðarhöfn hafnar þessu alfarið og vísar til þess að almennt sé gengið út frá því að stjórnvald sem veiti starf hafi frjálst mat til að ákveða hverju sinni á hvaða sjónarmiðum ákvörðun eigi að byggja og hafi rúmar heimildir til að ákvarða hvaða hæfniskröfur skuli gerðar til umsækjenda, svo framarlega sem málefnaleg sjónarmið búi að baki með hliðsjón af því starfi sem um ræði. Það sé jafnframt á valdi stjórnvalds að leggja sérstaka áherslu á ákveðna þætti við ráðningu í starf. Í þessu máli hafi verið horft til þess að ráða hafnarvörð sem gæti sinnt margvíslegum verkefnum fyrir höfnina, m.a. störfum á bátum hafnarinnar sem skipstjóri og/eða vélstjóri auk afleysingastarfa vegna hafnsögu. Það hafi því verið mat hafnarstjóra og yfirhafnsögumanns að nauðsynlegt væri að ráða starfsmann sem hefði tiltekin skipstjórnar- og vélavarðar/vélstjórnaréttindi og því mati, sem byggist á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum út frá þörfum hafnarinnar hafi ekki verið hnekkt. Því sé alfarið mótmælt að um óvenju miklar hæfniskröfur hafi verið að ræða og er í því sambandi vísað til þeirra starfa sem umræddur starfsmaður eigi að sinna og krafna sem gerðar séu til hafnarvarða/hafnsögumanna hjá Hafnarfjarðarhöfn. Rétt sé að árétta vegna fullyrðingar BS um að skip með tveimur skrúfum séu óalgeng að annað skip hafnarinnar, Hamar HB, sé með tveimur skrúfum og því ekki óeðlilegt að óska eftir umsækjanda með reynslu af stjórnun slíks skips. Þó skuli tekið fram að í auglýsingu hafi verið vísað til þess að slík reynsla væri æskileg en ekki nauðsynlegt skilyrði fyrir ráðningu í starfið.

Þá fullyrði BS að Hafnarfjarðarhöfn hafi brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins en þar sé kveðið á um að stjórnvaldi beri að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Hafnarfjarðarhöfn vísar til þess að farið hafi verið yfir allar umsóknir með tilliti til krafna í auglýsingu. Þegar í ljós hafi komið að einvörðungu einn umsækjandi hafi uppfyllt lágmarkskröfur hafi ekki verið talin ástæða til að skoða aðra umsækjendur. Ekkert nýtt hefði komið fram, t.d. í starfsviðtölum, sem hefði hnekkt þeirri staðreynd að aðrir umsækjendur, þ. á m. BS, uppfylltu ekki lágmarkskröfur. Rannsóknarregla geri ráð fyrir því að mál sé nægjanlega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Að lokinni yfirferð á umsóknum hafi málið verið nægjanlega rannsakað og ákvörðun tekin í framhaldinu um ráðningu RB.

Þá er vísað til þess að ekki sé nokkur vafi á því að hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn miðað við þær kröfur sem gerðar hafi verið til starfans en aðrir umsækjendur hafi ekki uppfyllt lágmarkskröfur og hafi því ekki getað talist hæfir til að gegna starfinu í skilningi almennra reglna stjórnsýsluréttar.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til framlagðra gagna í málinu sé ljóst að ákvörðun hafnarstjóra og yfirhafnsögumanns þann 26. október 2010 um að ráða RB hafi verið tekin á grundvelli málefnalegra og lögmætra sjónarmiða auk þess sem málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttar hafi verið virtar við ákvarðanatökuna.

V.        Álit og niðurstaða ráðuneytisins

1.         Eins og áður segir er þess krafist af hálfu BS að úrskurðað verði að málsferð og ráðning í starf hafnarstarfsmanns hjá Hafnarfjarðarhöfn hafi brotið gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og sé ólögmæt. Að mati ráðuneytisins snýr úrlausnarefni það sem hér til staðar einkum að því:

  1. hvort þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingu um hina lausu stöðu teljist málefnalegar og
  2. hvort líklegt verði að telja að starfsauglýsing hafi verið sniðin að tilteknum einstaklingi og
  3. hvort meðferð umsókna hafi farið fram með lögmætum hætti, einkum með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Mun athugun ráðuneytisins því fyrst og fremst lúta að framan greindum atriðum.

2.         Áður en lengra er haldið er hins vegar rétt að mati ráðuneytisins að gera með almennum hætti grein fyrir stöðu og hlutverki Hafnarfjarðarhafnar innan stjórnsýslu Hafnarfjarðarbæjar.

Fjallað er um ráðningar starfsfólks sveitarfélaga í sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 en þar segir í 1. mgr. 56. gr. að sveitarstjórn ráði starfsmenn í helstu stjórnunarstöður hjá sveitarfélagi og stofnunum þess og veiti þeim lausn frá starfi. Í 2. mgr. 56. gr. segir svo að um ráðningar annarra starfsmanna fari eftir ákvæðum í samþykkt um stjórn sveitarfélags. Séu þar eigi sérstök ákvæði þess efnis gefi sveitarstjórn almenn fyrirmæli um hvernig staðið skuli að ráðningu starfsmanna. Í 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga er svo tekið fram að um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og/eða ráðningarsamningum. Rétt er að taka fram að lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 gilda ekki um starfsmenn sveitarfélaga.

Um hafnir er fjallað í hafnalögum nr. 61/2003. Þar kemur fram í 2. gr. að innanríkisráðherra fari með yfirstjórn hafnamála nema annað sé ákveðið í öðrum lögum. Siglingastofnun Íslands annast þátt ríkisins samkvæmt lögunum og hefur eftirlit með framkvæmd þeirra. Í 1. mgr. 4. gr. segir svo að öllum höfnum sem falli undi lögin skuli sett reglugerð er tilgreinir mörk hafnar auk annarra nauðsynlegra ákvæða er varða öryggi og stjórnun hennar. Ráðherra setji samkvæmt lögunum, að fengnum tillögum eigenda hafna og umsögn Siglingastofnunar Íslands, reglugerð fyrir hverja höfn. Þar skulu m.a. vera ákvæði um stærð og takmörk hafnarsvæðis á sjó og landi, starfsheimildir, starfsemi og umferð á hafnarsvæði, öryggi við flutninga og varnir gegn mengun, viðurlög við brotum og kosningu og starfs- og valdsvið hafnarstjórnar.

Í 8. gr. er nánar fjallað um rekstrarform hafna. Þar kemur fram að höfn megi reka án sérstakrar hafnarstjórnar í eigu sveitarfélags, sem höfn með hafnarstjórn í eigu sveitarfélags, eða sem hlutafélag, einkahlutafélag, sameignarfélag eða sem einkaaðila í sjálfstæðum rekstri. Í IV. kafla laganna er svo nánar fjallað um það rekstrarform þegar höfn er rekin án sérstakrar hafnarstjórnar í eigu sveitarfélags en ráðuneytið telur ljóst að um Hafnarfjarðarhöfn fari eftir því ákvæði. Þar segir í 1. mgr. 10. gr. að höfn samkvæmt kaflanum skuli rekin sem sérstakur málaflokkur undir stjórn sveitarstjórnar í því sveitarfélagi þar sem höfnin er. Sveitarstjórn fer með stjórn hafnarinnnar. Sveitarstjórn er heimilt að kjósa sérstaka hafnarnefnd.

Í gildi er hafnarreglugerð fyrir Hafnarfjarðarhöfn nr. 442/2005 sem staðfest var af samgönguráðherra, sbr. 4. gr. laga nr. 61/2003,  þann 15. apríl 2005. Þar segir í 2. gr. að Hafnarfjarðarbær sé eigandi hafnarinnar. Bæjarstjórn fer með yfirstjórn hafnarmála en framkvæmdastjórn skal falin hafnarstjórn og hafnarstjóra. Hafnarstjórn er kjörin af bæjarstjórn samkvæmt þeim reglum er gilda um kjör fastra nefnda bæjarstjórnar og skal kjörtímabil hennar vera hið sama og bæjarstjórnar. Í 3. gr. er svo fjallað um starfs- og valdsvið hafnarstjórnar en hún skal m.a. hafa umsjón með fjármálum, rekstri, viðhaldi og nýbyggingum hafnarinnar, hún hefur ákvörðunarvald um rekstur hafnarinnar, s.s. ráðstöfun á aðstöðu, þ.m.t. leigu á húsnæði í eigu hafnarinnar og landi hennar svo eitthvað sé nefnt. Hafnarstjórn skal leita samþykktar bæjarstjórnar á fjárhagsáætlun hafnarsjóðs svo og lántökum hafnarsjóðs lengur en yfirstandandi fjárhagsár. Ætíð skal þó vísa máli til afgreiðslu bæjarstjórnar ef tveir hafnarstjórnarmenn hið minnsta æskja þess.

Í 5. gr. kemur svo m.a. fram að hafnarstjóri sé ráðinn af bæjarstjórn og fer hann með daglega stjórn hafnarinnar í samvinnu við hafnarstjórn. Hann undirbýr mál sem leggja á fyrir hafnarstjórn, veitir viðtöku erindum til hennar og sér um framkvæmd samþykkta hafnarstjórnar. Hann veitir hafnarstjórn og bæjarstjórn upplýsingar um málefni hafnarinnar. Hann sér um að fjárhagsáætlun sé fylgt og ber ábyrgð á fjárreiðum hafnarsjóðs. Að auki er hann yfirmaður allra starfsmanna hafnarinnar og sér um ráðningu þeirra og uppsögn.

Af framangreindu telur ráðuneytið ljóst að Hafnarfjarðarhöfn er rekin sem höfn án sérstakrar hafnarstjórnar í eigu sveitarfélags. Yfirstjórn hafnarinnar er í höndum bæjarstjórnar sem kýs hafnarstjórn, sem þrátt fyrir nafnið telst ein af nefndum sveitarfélagsins, til að fara með framkvæmdastjórn hafnarinnar. Dagleg stjórn hafnarinnar er svo í höndum hafnarstjóra, í samvinnu við hafnarstjórn. Hann annast m.a. ráðningar og uppsagnir starfsmanna. Í máli þessu var ákvörðun um ráðningu tekin af hafnarstjóra og yfirhafnsögumanni Hafnarfjarðarhafnar. Telur ráðuneytið að ákvörðunin um ráðninguna hafi þ.a.l. verið tekin af þar til bærum aðila og rétt að henni staðið  hvað þetta varðar.

3.         Auglýsing um stöðu hafnarvarðar við Hafnarfjarðarhöfn birtist sem fyrr segir í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 2. október 2010 og í Fjarðarpóstinum þann 14. október. Í auglýsingunni kom fram að Hafnarfjarðarhöfn óskaði eftir starfsmanni til starfa við hafnarvörslu, skipstjórn og almenn hafnarstörf. Í auglýsingunni komu svo fram þrenns konar hæfniskröfur sem gert var að skilyrði eða talið æskilegt að umsækjendur uppfylltu:

  1. Skipstjórnarnám 3. stigs.
  2. Vélavarðar og/eða vélstjórnarréttindi 750 kw.
  3. Æskileg reynsla á stjórnun tveggja skrúfu skipa.

Að mati BS voru gerðar óeðlilegar kröfur til umsækjenda í starfsauglýsingu. Það sé meginregla við ráðningu opinberra starfsmanna að ekki eigi að gera óvenjulega miklar hæfniskröfur til umsækjenda nema lög geri sérstaklega ráð fyrir því að starfsmenn þurfi að uppfylla tiltekin aldurs- eða hæfnisskilyrði. BS bendir á að óvenju miklar hæfniskröfur hafi verið gerðar til umsækjenda fyrir umrætt starf en það geti varla talist venjulegt að hafnarvörður þurfi að hafa lokið 3. stigs skipstjórnarnámi, vera með vélavarðar- og/eða vélstjórnarréttindi 750kw og reynslu af stjórnun tveggja skrúfu skipa. BS styður þá fullyrðingu þeim rökum að hvergi í lögum sé gert ráð fyrir að hafnarverðir þurfi að hafa umrædda menntun eða reynslu. Þá sé athyglisvert að hvergi í lögum sé yfir höfuð minnst á hæfnisskilyrði hafnarvarða. Því séu umræddar kröfur hafnarstjórnar fjarstæðukenndar og standist tæplega góða og vandaða stjórnsýsluhætti enda séu ítarlegar og sérstæðar kröfur gerða til umsækjenda. Sérstaklega veki athygli krafa um reynslu af stjórnun tveggja skrúfu skipa en það geti tæplega krafist eðlileg krafa þegar tveggja skrúfu skip séu óalgeng við íslenskar hafnir. Í auglýsingunni séu jafnvel gerðar meiri kröfur til hafnarvarða en hafnsögumanna sem þó hafi ríkari skyldum að gegna.

Það hefur verið talin meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að við veitingu opinberra starfa skuli leitast við að velja hæfasta umsækjandann um starf á grundvelli þeirra sjónarmiða sem handhafi veitingarvalds ákveður að byggja ákvörðun sína á. Þegar ekki er að finna í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum leiðbeiningar um hvaða hæfniskröfur umsækjandi um starf skuli uppfylla er almennt talið að meginreglan sé sú að viðkomandi stjórnvald ákveði á hvaða sjónarmiðum það byggir slíka ákvörðun. Slík sjónarmið þurfa þó sem endranær að vera málefnaleg og lögmæt svo sem sjónarmið um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem viðkomandi stjórnvald telur máli skipta (sjá t.d. álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 382/1991, nr. 2701/1999, nr. 2793/1999, nr. 2862/1999). Þegar ekki er mælt fyrir um tiltekin hæfnisskilyrði í lögum eða öðrum reglum sem veitingarvaldshafi er bundinn af hefur hann því meira svigrúm en ella til að ákveða hvaða sjónarmiðum ákvörðun verður byggð á og hvert innbyrðis vægi þeirra skuli vera.

Ekki er að finna í lögum eða reglugerðum fyrirmæli um hvaða hæfnisskilyrði hafnarverðir þurfi að uppfylla. Í umræddu tilviki var það hins vegar, sem fyrr segir, gert að skilyrði af hálfu Hafnarfjarðarhafnar að umsækjendur hefðu skipstjórnarréttindi 3. stigs og vélavarðar og/eða vélstjórnarréttindi 750 kw. Að auki væri æskilegt að viðkomandi hefði reynslu af stjórnun tveggja skrúfu skipa.

Í umsögn Hafnarfjarðarbæjar um kæru BS og meðfylgjandi starfslýsingu kemur fram að hafnarverðir II sinni skipstjórn og vélstjórn á hafnarbátum Hafnarfjarðarhafnar auk hafnarvörslu og almennra starfa við höfnina. Telur ráðuneytið ljóst af orðalagi auglýsingarinnar að óskað hafi verið eftir hafnarverði II, en ekki hafnarverði I, svo sem BS heldur fram enda er ekki gerð krafa til hafnarvarða I um sérstök atvinnuréttindi, svo sem kemur fram í umsögn Hafnarfjarðarbæjar.

Í umsögn Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að allir hafnarverðir II við höfnina hafi vélavarðarréttindi 375 kw. eða vélstjórnarréttindi 750 kw. Allir nema einn hafi að auki skipstjórnarréttindi. Þá kemur fram að hafnsögumenn hafnarinnar hafi 3. stigs skipstjórnarpróf auk vélavarðar/vélstjórnarréttinda. Ástæða þeirra hæfniskrafna sem fram komi í auglýsingu Hafnarfjarðarhafnar eftir starfsmanni sé sú að höfnina hafi vantað stafsmann til starfa á bátum hafnarinnar sem skipstjóri og/eða vélstjóri. Jafnframt hafi verið leitað að starfsmanni sem gæti leyst af hafnsögumenn hafnarinnar en til hafnsögumanna eru m.a. gerðar þær kröfur samkvæmt starfslýsingu að þeir hafi lokið skipstjórnarnámi 3. stigs.

Í málinu hafi verið horft til þess að ráða hafnarvörð sem gæti sinnt margvíslegum verkefnum fyrir höfnina, m.a. störfum á bátum hafnarinnar sem skipstjóri og/eða vélstjóri auk afleysingastarfa vegna hafnsögu. Það hafi því verið mat hafnarstjóra og yfirhafnsögumanns að nauðsynlegt væri að ráða starfsmann sem hefði tiltekin skipstjórnar- og vélavarðar/vélstjórnaréttindi. Því sé alfarið mótmælt að um óvenju miklar hæfniskröfur hafi verið að ræða og er í því sambandi vísað til þeirra starfa sem umræddur starfsmaður eigi að sinna og krafna sem gerðar séu til hafnarvarða/hafnsögumanna hjá Hafnarfjarðarhöfn.

Að mati ráðuneytisins eru þær skýringar sem veittar eru af hálfu sveitarfélagsins á því hvers vegna umræddar kröfur voru gerðar í starfsauglýsingu fullnægjandi. Verður ekki annað séð en að baki þeim búi málefnaleg og lögmæt sjónarmið, það er að viðkomandi starfsmaður geti sinnt á fullnægjandi hátt störfum skipstjóra og vélstjóra. Þá ber ekki síst að líta til þess að umræddum starfsmanni er ætlað að leysa af hafnsögumann þegar svo ber undir.

Þá hefur Hafnarfjarðarbær og útskýrt hvers vegna æskilegt hafi talist að umsækjendur hefðu reynslu af stjórnun tveggja skrúfu skipa en annað skip Hafnarinnar, HB Hamar, er með tveimur skrúfum.

Eins og áður segir hefur er meginreglan sú að stjórnvald ákveður á hvaða sjónarmiðum það byggir ákvörðun um ráðningu sé ekki finna leiðbeiningar um slíkt í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum. Verður enda að telja að viðkomandi ráðningarvaldshafi sé alla jafna í bestu aðstöðunni til þess að meta hvaða eiginleikum mikilvægast er að tilvonandi starfsmaður búi yfir. Hefur stjórnvald allnokkurt svigrúm við slíkt mat svo lengi sem það telst málefnalegt og byggist á lögmætum sjónarmiðum. Að mati ráðuneytisins er ekki tilefni til þess að gera athugasemd við þau sjónarmið sem Hafnarfjarðarhöfn ákvað að leggja til grundvallar hinni kærðu ákvörðun um ráðningu í starf hafnarvarðar. Hefur þannig verið útskýrt af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hvers vegna ákveðið var að gera umræddar kröfur til umsækjenda og telur ráðuneytið að þær kröfur standi í eðlilegum tengslum við hið auglýsta starf og þau verkefni sem viðkomandi starfsmaður kemur til með sinna. Ráðuneytið getur hins vegar tekið undir með BS að skýrara hefði mátt koma fram í auglýsingunni hvað fælist í hinu auglýsta starfi.

Ráðuneytið fellst því ekki á það með BS að óeðlilega miklar eða ómálefnalegar kröfur hafi verið gerðar til umsækjenda í starfsauglýsingu.

4.         Þá er því haldið fram hálfu BS að þær kröfur sem gerðar voru í starfsauglýsingu hafi verið sniðnar að einum tilteknum umsækjanda, þ.e. RB, sem hlaut starfið en það myndi jafnframt hafa í för með sér að í raun hafi verið búið að ráðstafa starfinu fyrirfram. Styður BS þá fullyrðingu sína einkum þeim rökum að óvenju miklar hæfniskröfur hafi verið gerðar í starfsauglýsingu sem og að RB hafi samkvæmt hans heimildum sótt dráttarbátanámskeið u.þ.b. 7 dögum áður en umsóknarfrestur rann út. Þá telur að BS að það að RB hafi reynslu af stjórnun tveggja skrúfu skipa renni en frekari stoðum undir þessa fullyrðingu og fer hann jafnframt fram á að ráðuneytið kanni hvort að RB hafi sótt vigtarnámskeið á vegum Hafnarfjarðar.

Ráðuneytið hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingu um starfið séu málefnalegar og grundvallist á lögmætum sjónarmiðum og verður ekki á það fallist að þær bendi til þess að starfsauglýsingin hafi verið sniðin að RB. Þá er og á það að líta að auglýsingin er orðuð með almennum hætti og ekki verður séð að í henni sé vísað til einhverra persónulega eiginleika eða reynslu sem RB kynni að hafa yfir að búa umfram aðra umsækjendur sem að öðru leyti uppfylltu þau hlutlægu skilyrði er í henni koma fram. Það eitt að RB hafi einn umsækjenda uppfyllt þær hæfniskröfur sem gerðar voru í auglýsingu gefur þannig að mati ráðuneytisins ekki tilefni til að draga þá ályktun að auglýsingin hafi verið búin til með hann sérstaklega í huga.

Þá telur ráðuneytið ekki hafa sérstaka þýðingu í máli þessu hvort RB hafi áður sótt dráttarbáta- eða vigtunarnámskeið á vegum sveitarfélagsins enda er ekkert fram komið í málinu sem bendir til þess að það hafi haft veruleg áhrif á töku hinnar kærðu ákvörðunar um ráðningu í starf hafnarvarðar.

Ráðuneytið fellst því ekki á það með BS að auglýsing um stöðu hafnarvarðar hafi verið sérstaklega sniðin að þeim umsækjenda er starfið hlaut.

5.         Þá er því haldið fram af hálfu BS að brotið hafi vegið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga við meðferð málsins þar sem hæfni allra umsækjenda hafi ekki verið könnuð með fullnægjandi hætti né farið fram heildstæður samanburður á umsækjendum. Það hafi aftur leitt til þess að brotið hafi verið gegn þeirri meginreglu að leitast skuli við að velja hæfasta umsækjandann um starf.

Í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Ber handhafa veitingarvalds því að afla nauðsynlegra gagna til að upplýsa hverjir umsækjenda um laust opinbert starf uppfylla almenn hæfnisskilyrði laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem um það gilda. Sú skylda hvílir ennfremur á honum að sjá til þess að fullnægjandi upplýsingar liggi fyrir svo unnt sé að draga ályktanir um starfshæfni umsækjenda með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem hann leggur til grundvallar mati á því hver telst hæfastur umsækjenda. Fullnægjandi upplýsingar kunna að koma fram í umsóknum og fylgigögnum þeirra til að mat geti farið fram að þessu leyti og er þá ekki nauðsynlegt að kalla umsækjendur til viðtals eða óska eftir frekari upplýsingum. Ef umsóknargögn varpa ekki nægu ljósi á starfshæfni umsækjenda getur hins vegar reynst nauðsynlegt að óska eftir viðbótarupplýsingum á grundvelli rannsóknarskyldu stjórnvaldsins samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Ákvæði 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Þá hefur í álitum umboðsmanns Alþingis komið fram að það sé óskráð meginregla í íslenskum stjórnsýslurétti að leitast skuli við að velja hæfasta umsækjandann um opinbert starf á grundvelli þeirra sjónarmiða sem handhafi veitingarvalds ákveður að byggja ákvörðun sína á. Af þessu leiðir að almennt ber handhafa veitingarvalds að leitast við að upplýsa um starfshæfni allra umsækjenda sem til greina koma í viðkomandi starf. Þá verður hann að gæta samræmis í beitingu þeirra sjónarmiða sem byggt er á við mat á þeim umsóknum sem borist hafa áður en umsóknarfrestur hefur runnið sitt skeið (sjá álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2793/1999).

Í því máli sem hér er til umfjöllunar er óumdeilt að RB var sá eini af umsækjendum um starf hafnarvarðar sem uppfyllti bæði hin hlutlægu hæfnisskilyrði sem fram komu í starfsauglýsingu, auk þess sem hann hefur reynslu af tveggja skrúfu skipum. Tekið skal fram í ljósi fullyrðinga BS um að RB hafi ekki þau skipstjórnarréttindi sem krafist var, að ráðuneytið leitaði sérstaklega upplýsinga hjá Siglingastofnun Íslands um atvinnuréttindi RB. Samkvæmt upplýsingum frá Siglingastofnun fékk hann árið 2007 útgefið atvinnuskírteini B, sem felur í sér skipstjórnarréttindi í flokkum A.5., A.6, B.1, B.2 og B.3, en tveir síðastnefndu flokkarnir teljast skipstjórnaréttindi 3. stigs skv. 4. gr. reglugerðar um atvinnuskírteini skipstjórnar- og vélstjórnarmanna nr. 118/1996 er í gildi var er skírteinið var gefið út, sbr. nú reglugerð um skipstjórnar- og vélstjórnarréttindi á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum nr. 175/2008. Þá fékk hann árið 2008 útgefið atvinnuskírteini V sem felur í vélavarðarréttindi í flokkum VM, SSV, VV en í síðastanefnda flokknum felast m.a. vélavarðarrréttindi 750  kw. Auk þess hefur hann yfirvélstjóraréttindi VVY og VVY1 (<24m <750). Ljóst er því að RB uppfyllti bæði hin ófrávíkjanlegu skilyrði er fram komu í starfsauglýsingu, þ.e. skipstjórnarréttindi 3. stigs og vélavarðar- og/eða vélstjórnarréttindi 750 kw.

Af gögnum málsins verður jafnframt ráðið að farið hafi verið yfir allar þær umsóknir sem bárust með tilliti til þess hvaða starfsréttindum umsækjendur byggju yfir en eins og áður segir var RB einn umsækjenda sem uppfyllti bæði hlutlægu skilyrði starfsauglýsingarinnar. Að mati ráðuneytisins verður því ekki annað séð en að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir um umsækjendur þegar hin kærða ákvörðun var tekin og í ljósi þess að einungis einn umsækjandi uppfyllti þær hæfniskröfur sem gerðar voru í auglýsingu hafi ekki verið skylt að kalla aðra umsækjendur til viðtals eða óska eftir nánari gögnum. Verður því ekki fallist á að brotið hafi verið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Að öðru leyti hefur ráðuneytið ekki komið auga á aðra þá annmarka á meðferð umsókna sem krefjast nánari umfjöllunar.

Úrskurðarorð

Kröfu Björns Uffe Sigurbjörnssonar, kt. 280454-5839, um að ákvörðun Hafnarfjarðarhafnar, dags. 26. október 2010, um ráðningu í starf hafnarvarðar sé lýst ólögmæt, er hafnað.

Bryndís Helgadóttir

Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta