Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviði innviðaráðuneytisins

Broddaneshreppur - Auglýsing hreppsnefndarfunda og boðun varamanna

Sigurður Jónsson                                                                                      13. febrúar 1996                            96020052

Stóra-Fjarðarhorni                                                                                                                                                      1001

510 Hólmavík

 

 

 

 

            Vísað er til símtals yðar við ráðuneytið fyrr í dag þar sem óskað var eftir upplýsingum um reglur sem gilda annars vegar um boðun varamanna á hreppsnefndarfundi þegar oddvita er kunnugt um forföll aðalmanns og hins vegar reglur um auglýsingu hreppsnefndarfunda.

 

Um boðun varamanna:

 

            Kosning til hreppsnefndar Broddaneshrepps hinn 28. maí 1994 var óbundin, sbr. 14. og 15. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986.

 

            Í 1. og 2. mgr. 32. gr. sveitarstjórnarlaga er fjallað um kosningu varamanna í sveitarstjórn þegar kosning er óbundin. Þar segir m.a. að kjósa skuli jafnmarga varamenn og aðalmenn og jafnframt er tilgreint með hvaða hætti ákvarða skal röð varamanna.

 

            Um boðun varamanna á hreppsnefndarfund eru ákvæði í 25. og 46. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp N.N.hrepps, sbr. auglýsingu nr. 106/1987, en sú auglýsing gildir fyrir hreppsnefnd Broddaneshrepps þar sem ekki hefur verið sett sérstök samþykkt fyrir það sveitarfélag, sbr. 49. gr. sveitarstjórnarlaga.

 

            Í 46. gr. samþykktarinnar segir svo: “Geti hreppsnefndarmaður ekki sótt hreppsnefndarfund/fundi vegna veikinda eða af öðrum ástæðum tekur varamaður sæti hans meðan þannig hagar til samkvæmt 25. gr. samþykktar þessarar.”

 

            Jafnframt segir m.a. svo í 1. mgr. 25. gr. samþykktarinnar: “Hreppsnefndarmanni er skylt að sækja hreppsnefndarfundi nema lögmæt forföll hamli svo sem önnur brýnni skyldustörf eða veikindi. Sé hreppsnefndarmaður forfallaður um stundarsakir skal hann tilkynna eða láta tilkynna forföllin til oddvita sem boðar þá varamann á fund skv. 2. mgr. 32. gr. sveitarstjórnarlaga.”

 

            Samkvæmt ofangreindum ákvæðum er gert ráð fyrir að varamaður taki að jafnaði sæti á hreppsnefndarfundum ef aðalmaður er forfallaður. Oddvita er falið að boða varamann á fund þegar honum er kunnugt um forföll aðalmanns og skal boðun varamanns vera í samræmi við ákvæði 2. mgr. 32. gr. sveitarstjórnarlaga, þ.e. boða skal varamenn í þeirri röð sem þeir eru kjörnir. Ekki er gert ráð fyrir að viðkomandi aðalmaður geti valið hvern af varamönnum sem hann vill til að sitja hreppsnefndarfund í forföllum hans. Slíkt á einungis við um aðalmenn í sveitarstjórnum þar sem bundnar hlutfallskosningar hafa farið fram, þ.e. í slíkum tilfellum getur aðalmaður valið hvern sem er af viðkomandi framboðslista til að taka sæti sitt um stundarsakir.

 

Um auglýsingu hreppsnefndarfunda:

 

            Í sveitarstjórnarlögum nr. 8/1986 og í fyrirmynd að samþykkt um stjórn og fundarsköp N.N.hrepps, sbr. auglýsingu nr. 106/1987, er að finna misjafnlega ítarleg ákvæði annars vegar um fundarboðun til hreppsnefndarmanna um hreppsnefndarfund og hins vegar um auglýsingar um hreppsnefndarfundi sem ætlaðar eru hinum almennu borgurum.

 

            Um fundarboðun eru ákvæði í samþykkt um stjórn og fundarsköp N.N.hrepps, sbr. auglýsingu nr. 106/1987, en eins og áður segir gildir hún fyrir Broddaneshrepp. Í samþykktinni eru tvenns konar ákvæði, annars vegar varðandi reglulega fundi hreppsnefndar í 16. gr., sem skal boða í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir fund, og hins vegar varðandi aukafundi hreppsnefndar í 17. gr., sem skal boða a.m.k. sólarhring fyrir fund.

 

            Í framangreindum ákvæðum er því einungis að finna skýr ákvæði um hvenær í síðasta lagi skuli boða fund.

 

            Um auglýsingar á hreppsnefndarfundum er að finna ákvæði í 2. mgr. 50. gr. sveitarstjórnarlaga og 2. mgr. 14. gr. fyrirmyndar að samþykkt um stjórn og fundarsköp N.N.hrepps. Í 2. mgr. 50. gr. laganna segir að kunngera skuli “íbúum sveitarfélags með auglýsingu hvar og hvenær sveitarstjórn heldur fundi.” Samskonar ákvæði er í 2. mgr. 14. gr. fyrirmyndarinnar. Í 3. mgr. 50. gr. laganna segir að greina skuli dagskrá í fundarboði. Í ákvæðum þessum er þannig kveðið á um skyldu til að auglýsa fundina en ekki einungis heimild.

 

            Ráðuneytið hefur áður fjallað um hæfilega fundarboðunartíma vegna hreppsnefndarfunda og í áliti ráðuneytisins, dagsettu 6. nóvember 1987, segir orðrétt svo: “Í 16. gr. fyrrgreindrar fyrirmyndar er nánar kveðið á um, á hvern hátt hreppsnefndarmenn skulu boðaðir, en það skal gert í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir hreppsnefndarfund. Sambærilegt ákvæði um hvenær hreppsnefndarfundur skuli auglýstur í hreppnum er ekki að finna í fyrirmyndinni. Telja verður eðlilegt að það sé gert með hæfilegum fyrirvara. Skiptir þar máli, hvort hreppsnefnd hefur ákveðið fasta fundardaga í samþykktum sínum, sem staðfestar hafa verið af félagsmálaráðherra eða hvort hreppsnefnd ákveður slíkt frá einum fundi til annars. Styttri fyrirvara t.d. 2-3 sólarhringar, ef ákveðnir dagar eru fyrir hendi, en annars allt að 7 sólarhringum ef ekki er vitað um það fyrirfram af hálfu hreppsbúa.”

 

            Í áliti þessu frá 6. nóvember 1987 er að finna leiðbeiningu frá ráðuneytinu um hvernig eðlilegast og æskilegast væri að standa að auglýsingum á hreppsnefndarfundum. Ráðuneytið telur það hins vegar eðlilega vinnureglu, að auglýsing um hreppsnefndarfundi sé sett upp eða send út samhliða boðun til hreppsnefndarmanna.

 

            Samkvæmt beiðni yðar er ljósrit af svari þessu sent oddvita hreppsnefndar Broddaneshrepps.

 

F. h. r.

 

Sesselja Árnadóttir (sign.)

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta