Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins

Úrskurður v. skráningar í fyrirtækjaskrá. Skráning tilkynningar um breytingu á samþykktum einkahlutafélags

Mánudaginn, 28. febrúar 2022, var í menningar- og viðskiptaráðuneytinu
kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:


Stjórnsýslukæra
Vísað er til stjórnsýslukæru [A] (hér eftir kærandi), kt. […], dags. 17. september 2021, þar sem kærð er ákvörðun ríkisskattstjóra sem starfrækir fyrirtækjaskrá (hér eftir fyrirtækjaskrá) frá 10. september 2021 um að skrá samþykktir frá [B] ehf. (hér eftir félagið) sem mótteknar voru hjá fyrirtækjaskrá þann 2. nóvember 2020 enda hafi ákvörðun um breytingar á samþykktum félagsins verið teknar með lögmætum hætti á löglega boðuðum hluthafafundi. Stjórnsýslukæran var borin upp við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Kröfur
Í kærunni er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og málinu vísað aftur til hluthafafundar félagsins.


Málsatvik
Hinn 22. október 2020 var haldinn hluthafafundur félagsins en samkvæmt fundargerð var fyrsta dagskrármálið til umræðu nýjar samþykktir félagsins og breytingatillögur við þær. Fundargerð ber með sér að umræða var um þennan dagskrárlið og samþykktar hafi verið breytingar á samþykktunum.
Hinn 30. október 2020 barst fyrirtækjaskrá erindi kæranda fyrir hönd [D], kt. […], þar sem farið var fram á að ekki verði skráðar nýjar samþykktir félagsins sem bærust eftir 22. október 2020 fyrr en niðurstaða fáist í mál er varðar rétta skráningu hluta í félaginu og málið sent aftur til félagsins til lögmætrar afgreiðslu á hluthafafundi.
Hinn 2. nóvember 2020 bárust fyrirtækjaskrá nýjar samþykktir félagsins til skráningar.
Hinn 10. september 2021 ákvarðaði fyrirtækjaskrá í málinu en niðurstaða málsins var sú að skrá samþykktir félagsins sem mótteknar voru hjá fyrirtækjaskrá 2. nóvember 2020 enda hafi ákvörðun um breytingar á samþykktunum verið teknar með lögmætum hætti á löglega boðuðum hluthafafundi. Frá því athugasemdir kæranda fyrir hönd [D] bárust fyrirtækjaskrá hinn 30. október 2020 og þar til skráin ákvarðaði í málinu eignaðist kærandi hluti [D] í félaginu.
Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun og gögnum málsins.
Sjónarmið kæranda
Í kæru, fylgiskjölum með kæru, tölvubréfum og andmælabréfi kæranda dags. 7. desember 2021 er að finna sjónarmið kæranda í málinu.
Í kærunni andmælir kærandi einnig skráningu á tilkynningum varðandi félagið frá 22. mars 2021 til 17. september 2021, þ.m.t. skráning nýrrar stjórnar í mars 2021, þar sem við atkvæðagreiðslur á hluthafafundum á tímabilinu sé miðað við ranga skráningu eignarhluta í félaginu og rangs vægis atkvæða.
Um málavexti vísar kærandi til hinnar kærðu ákvörðunar sem og máls sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði til meðferðar, málsnúmer […].
Kærandi telur að fyrirtækjaskrá hafi ekki tekið afstöðu til athugasemda hans við annmarka á samþykktum félagsins þar sem í 7. gr. þeirra sé vísað til reglu/forkaupsréttarreglu sem ekki sé að finna í samþykktunum. Þannig skorti samþykktirnar hvað þetta varðar innra samræmi.
Kærandi telur að eðlilegt hefði verið með tilliti til málavaxta og framvindu málsins að fyrirtækjaskrá óskaði eftir hlutaskrá félagsins, sbr. heimild í 19. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994, en það hafi skráin ekki gert.
Kærandir telur einnig að verulegar breytingar hafi verið gerðar á samþykktunum frá því að breytingatillögum stjórnar samkvæmt fundarboði og þess eintaks sem stjórn félagsins sendi fyrirtækjaskrá til skráningar en að fyrirtækjaskrá hafi ekki horft til þessa.
Þá telur kærandi að málsmeðferð fyrirtækjaskrár hafi valdið honum og aðilum tengdum honum sem eigi hagsmuna að gæta óþarfa röskun og valið þeim tjóni. Telur kærandi að skráningin sé ekki hafin yfir lagalegan vafa. Kærandi telur einnig að fyrirtækjaskrá hafi ekki gætt meðalhófs í ákvörðun sinni en um sé að ræða afar íþyngjandi ákvörðun og að skráin hafi hvorki í þessu máli né öðrum málum vísað þeim aftur til félagsins til afgreiðslu. Skráin hafi þannig ekki horft til annarra og vægari úrræða í þessu máli en að skrá samþykktirnar s.s. að vísa málinu til hluthafafundar til afgreiðslu.
Með tölvubréfi hinn 7. desember 2021 bárust andmæli kæranda í málinu. Í andmælabréfinu kemur fram að í málinu liggi fyrir tvö eintök af fundargerð frá hluthafafundinum 22. október 2020. Annars vegar fundargerð án athugasemda og hins vegar tvö mismunandi skjöl með athugasemdum við fundargerðina sem virðast hafa verið sendar fyrirtækjaskrá síðar. Kærandi bendir einnig á að í fundargerð komi fram að þáverandi stjórnarformaður félagsins hafi ætlað að leita álits sérfræðings vegna athugasemda kæranda um að ákvæði 5. gr. samþykkta félagsins um forkaupsrétt væri óskýrt. Framangreint álit hafi ekki borist hluthöfum félagsins. Telur kærandi að framangreint sé til marks um stjórnar félagsins um að halda hluthöfum í óvissu og upplýsa ekki um málefni félagsins. Þannig verði ekki málefnaleg umræður um málefni félagsins og sneitt sé hjá ströndum skilyrðum of fyrirmælum laga um einkahlutafélög.
Í andmælabréfinu vísar kærandi til þriggja mála sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur haft til meðferðar og varða félagið. Í fyrsta lagi vísar kærandi til bréfs ráðuneytisins til hans dags. 28. janúar 2020 á máli […] en málið varðar beiðni kæranda fyrir hönd [D] um að ráðherra hlutist til um að haldinn verði hluthafafundur í félaginu. Í öðru lagi vísar kærandi til máls með málsnúmerinu […] en málið varðar beiðni kæranda fyrir hönd [D] um að ráðherra tilnefndi rannsóknarmenn skv. 72. gr. laga um einkahlutafélög til að rannsaka tilgreind atriði varðandi starfsemi félagsins. Í þriðja lagi vísar kærandi til máls með málsnúmeri […] en málið varðar stjórnsýslukæru sem kærandi bar upp fyrir hönd [D] vegna ákvörðunar fyrirtækjaskrár frá 21. ágúst 2020 um að hluthafafundir sem haldnir voru í [B] ehf., kt. […], dags. 19. júní og 12. september 2019, hafi verið lögmætir sem og þær ákvarðanir sem teknar voru á fundunum. Telur kærandi að í framangreindum málum sé ósvarað spurningum eða að nánari rannsókn þeirra hefði leitt tilgreind atriði í ljós.
Í andmælabréfi tekur kærandi fram að í máli þessu verði tekin afstaða til vafamála varðandi hlutaskrá félagsins áður en stjórnarkjör fer fram og breytingar séu gerðar á samþykktum félagsins. Að lokum kemur fram í bréfinu að kærandi telji nauðsynlegt að fram fari rannsókn á stjórnarkjöri sem átti sér stað í mars 2021 og vísar kærandi um það til rannsóknarreglu og meðalhófs. Gerir kærandi einnig athugasemdir við það hvernig skráning mætingar hluthafa á hluthafafundinn í mars 2021 hafi verið skráð. Einnig kemur fram að það sé mat kæranda að vægasta úrræðið sé að svo koma megi málefnum félagsins í réttan og lögmætan farveg sé að leiða málið til lykta í eitt skipti fyrir öll.
Um sjónarmið kærenda vísast að öðru leyti til þess sem segir í kæru og andmælabréfi.
Sjónarmið fyrirtækjaskrár
Í ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 10. september 2021 og umsögn dags. 8. október 2021 er að finna sjónarmið skrárinnar í málinu.
Í ákvörðun fyrirtækjaskrár í málinu er kemur fram nýjar samþykktir félagsins hafi verið sendar fyrirtækjaskrá til skráningar í kjölfar hluthafafundar þann 22. október 2020. Fram kemur að fyrirtækjaskrá hafi borist afrit af fundargerð hluthafafundar þar sem breytingarnar voru samþykktar og sé hún undirrituð af stjórn félagsins og öllum hluthöfum eða umboðsmönnum þeirra og að mætt hafi verið fyrir hönd 100% hluthafa. Fram kemur að kærandi hafi gert athugasemdir við skráningu hluta í félaginu og lögmæti samþykkta, aðallega 5. og 7. gr. þeirra þar sem fjallað er um forkaupsrétt. Bent er á hlutverk fyrirtækjaskrár samkvæmt ákvæðum 1. og 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá og kemur fram að eingöngu skuli skrá þau atriði sem tilgreind eru í 4. gr. laganna en þar sé hvorki minnst á hluti í félögum né forkaupsrétt. Þá er bent á að fyrirtækjaskrá sé eingöngu bæri til að ákvarða í málum er varða skráningarskyld atriði félaga og því sé hún ekki bær til að ákvarða í deilum er varða eignarhald á félögum. Slíkur ágreiningur verði ekki til lykta leiddur hjá fyrirtækjaskrá.
Í ákvörðuninni er fjallað um ákvæði 1. mgr. 68. gr. laga um einkahlutafélög þar sem fjallað er um breytingu á samþykktum félags. Einnig er í ákvörðuninni fjallað um ákvæði c-liðar 13. gr. samþykkta kæranda eins og ákvæðið var fyrir breytinguna sem gerð var á hluthafafundinum 22. október 2020 en í ákvæðinu er m.a. að finna reglur um breytingu á samþykktum félagsins. Þá er fjallað um 22. gr. framangreindra samþykkta en í ákvæðinu er fjallað um breytingu á samþykktum félags. Í ákvörðuninni kemur fram að ljóst sé af framangreindum ákvæðum þurfi breyting á samþykktum að hljóta atkvæði a.m.k. 2/3 hlutafjár sem fari er með atkvæði fyrir á fundinum. Í málinu hafi verið lögð fram undirrituð fundargerð með nýjum samþykktum og að öðru leyti taki fyrirtækjaskrá ekki efnislega afstöðu í deilumáli milli hluthafa hvað breytinguna eða hlutaskrá varði.
Í umsögn sinni ítrekar fyrirtækjaskrá það sem kom fram í hinni kærðu ákvörðun og bendir á að innsend tilkynning um breytingu á stjórn félagsins uppfylli skilyrði til skráningar, þ.e. tilkynningin barst innan mánaðar frá fundi og undirritanir séu í samræmi við lög.
Um sjónarmið fyrirtækjaskrár vísast að öðru leyti til þess sem segir í ákvörðun og umsögn fyrirtækjaskrár í málinu.
Með bréfi dags. 27. september 2021 gaf ráðuneytið stjórn félagsins einni færi á að veita umsögn um kæruna. Ráðuneytinu bárust ekki svör frá stjórn félagsins.
Með vísan til 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en ráðuneytið hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.


Forsendur og niðurstaða
Eins og að framan greinir var stjórnsýslukæran borin upp hinn 17. september 2021 við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Vegna breytinga á skipulagi Stjórnarráðsins, sbr. forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, og forsetaúrskurður um skiptingu starfa ráðherra, nr. 7/2022, heyra verkefni er varða skráningu fyrirtækja og félaga og málefni fyrirtækjaskrár nú undir málefnasvið menningar- og viðskiptaráðuneytis og menningar- og viðskiptaráðherra.
I.
Stjórnsýslukæra [A] barst ráðuneytinu innan kærufrests og er því löglega fram komin. Málið hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
II.
Með hinni kærða ákvörðun dags. 10. september 2021 ákvarðaði fyrirtækjaskrá að skrá samþykktir frá [B] ehf. sem mótteknar voru hjá fyrirtækjaskrá þann 2. nóvember 2020 enda hafi ákvarðanir um breytingar á samþykktum félagsins verið teknar með lögmætum hætti á löglega boðuðum hluthafafundi.
Í kærumálinu byggir kærandi á því að við atkvæðagreiðslur á hluthafafundinum hinn 22. október 2020 hafi verið miðað við ranga skráningu eignarhluta í hlutaskrá félagsins og þannig rangt vægi atkvæða. Í kærunni andmælir kærandi einnig skráningu tilkynninga varðandi félagið frá 22. mars 2021 til 17. september 2021, þ.m.t. skráning nýrrar stjórnar í mars 2021, og byggir í því sambandi á sömu sjónarmiðum um rangt vægi atkvæða. Telur kærandi að eðlilegt hefði verið með tilliti til málavaxta og framvindu málsins að fyrirtækjaskrá óskaði eftir hlutaskrá félagsins, sbr. heimild í 19. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994.
Eins og fyrr segir varðar hin kærða ákvörðun einvörðungu það hvort skrá hafi átt samþykktir félagsins sem bárust fyrirtækjaskrá 2. nóvember 2020.
Í 1. og 2. mgr. 1. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, segir að halda skuli fyrirtækjaskrá og að skráin skuli starfrækt af ríkisskattstjóra sem annist útgáfu á kennitölum til annarra en einstaklinga. Í 2. gr. laganna eru taldir upp í fimm töluliðum þeir aðilar sem skrá skal í fyrirtækjaskrá. Þar sem félagið er einkahlutafélag telst það falla undir ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 2. gr., þ.e. sem félag sem stundar atvinnurekstur.
Í 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá eru talin upp í 12 töluliðum þau atriði sem skrá skal í fyrirtækjaskrá um aðila skv. 2. gr. Samkvæmt 12. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna skal skrá önnur þau atriði sem skylt er að skrá um starfsemi félaga og fyrirtækja samkvæmt lögum eða nauðsynlegt eða hagkvæmt þykir að skrá vegna hagsmuna opinberra aðila eða miðlunar upplýsinga til opinberra aðila, fyrirtækja og almennings. Tilkynningu um stofnun einkahlutafélags skal fylgja stofngögn, m.a. samþykktir félagsins, sbr. 122. gr. laga um einkahlutafélög. Samkvæmt 123. gr. sömu laga skal tilkynna breytingar á félagssamþykktum eða öðru því sem tilkynnt hefur verið innan mánaðar sé ekki kveðið á um annað í lögunum.
Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 19. gr. laga um einkahlutafélög skal stjórn slíks félags þegar í stað þegar félagið hefur verið stofnað gera hlutaskrá. Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. 19. gr. skal gæta þess að hlutaskráin geymi á hverjum tíma réttar upplýsingar. Í 3. mgr. 19. gr. laganna er fjallað um hvernig fer um eigendaskipti að hlut en þar segir m.a. að sá sem eignast hefur hlut geti ekki beitt réttindum sínum sem hluthafi nema nafn hans hafi verið skráð í hlutaskrá eða hann hafi tilkynnt og fært sönnur á eign sína á hlutnum. Samkvæmt 6. mgr. 19. gr. skal hlutaskrá geymd á skrifstofu félags og eiga allir hluthafar og stjórnvöld aðgang að henni og mega kynna sér efni hennar. Það er þannig á ábyrgð stjórnar félags að halda hlutaskrá í einkahlutafélagi og er hlutaeign í félagi ekki eitt af þeim atriðum sem skrá skal skv. 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá.
Í hinni kærðu ákvörðun og í umsögn fyrirtækjaskrár í málinu er skýrt tekið fram að fyrirtækjaskrá sé ekki bær aðili til að ákvarða í deilum um eignarhald á félagi, skráin sé eingöngu bær til að ákvarða í málum er varða skráningarskyld atriði. Í sömu gögnum kemur einnig fram að tilkynning um nýjar samþykktir sem bárust skránni 2. nóvember 2020 hafi verið í samræmi við ákvæði laga og samþykkta félagsins og því hafi tilkynningin verið skráð.
Það er rétt að taka fram að hlutverk ráðuneytisins hvað varðar úrskurði í málum er skráningu í fyrirtækjaskrá markast af þeim lagareglum sem um skráninguna gilda. Þegar um er að ræða tilkynningu um nýjar samþykktir einkahlutafélags þá fer um skráninguna samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá, lögum um einkahlutafélög og samþykktum viðkomandi félags. Eins og rakið hefur verið hér að framan þá er það hlutverk stjórnar í einkahlutafélagi að færa hlutaskrá og gæta þess að skráin hafi að geyma réttar upplýsingar
á hverjum tíma. Skráning eignahluta í félagi er ekki eitt af þeim atriðum sem skráningarskyld eru samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá eða lögum um einkahlutafélög. Af framansögðu má ljóst vera að fyrirtækjaskrá er ekki bær aðili til að ákvarða í málum er varða hlutaskrá einkahlutafélags og koma mál er varða hlutaskrá félags því ekki til skoðunar í ráðuneytinu á grundvelli stjórnsýslukæru vegna skráningar í fyrirtækjaskrá.
Ráðherra hefur einnig verið falið hlutverk samkvæmt 2. mgr. 62. gr. og 72. gr. laga um einkahlutafélög. Ráðherra hefur verið falið það hlutverk skv. 2. mgr. 62. gr. laga um einkahlutafélög að láta boða til hluthafafundar í tilvikum þar sem félag annað hvort hefur enga starfandi stjórn eða stjórn félags lætur hjá líða að boða til hluthafafundar sem halda skal samkvæmt lögum, félagssamþykktum eða ákvörðun hluthafafundar ef tilgreindir aðilar óska eftir íhlutun ráðherra. Við meðferðar mála á grundvelli 2. mgr. 62. gr. laganna kanna að koma upp sú staða að ágreiningur sé um eignarhald á félagi og vísar ráðuneytið slíkum málum frá eða hafnar því að láta boða til hluthafafundar þar sem ágreiningur um eignarhald á félagi á ekki undir ráðuneytið. Þá hefur ráðherra hefur verið falið það hlutverk skv. 72. gr. laga um einkahlutafélög að meta hvort verða skuli við beiðni hluthafa um að ráðherra tilnefni rannsóknarmenn til að rannsaka tilgreind atriði varðandi stofnun félags, tilgreind atriðum varðandi starfsemi þess eða ákveðna þætti bókhalds eða ársreiknings. Í slíkum málum kunna að koma til skoðunar mál er varða hlutaskrá félags en í slíkum málum er ráðherra ekki að taka afstöðu til hlutaskrárinnar heldur eingöngu til þess hvort gögn málsins gefi tilefni til þess að orðið verði við beiðni rannsóknarbeiðanda um að tilnefna rannsóknarmenn.
Af framansögðu má ljóst vera að hvorki fyrirtækjaskrá eða ráðuneytið eru bærir aðilar til að taka afstöðu til ágreinings um eignarhald á félaginu.
III.
Eins og fyrr segir telur kærandi að við atkvæðagreiðslu á hluthafafundum félagsins sé miðað við rangrar skráningar eignarhluta í hlutaskrá félagsins og því sé atkvæðavægið rangt.
Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 68. gr. laga um einkahlutafélög skal ákvörðun um breytingu á félagssamþykkta tekin á hluthafafundi nema stjórn hafi heimild samkvæmt lögunum til að breyta samþykktum. Til þess að tillaga um breytingu á samþykktum teljist samþykkt þarf hún að hljóta samþykki minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða, svo og samþykki hluthafa sem ráða yfir minnst 2/3 hlutum þess hlutafjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundinum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 68. gr. Ákvörðun skal að öðru leyti uppfylla frekari fyrirmæli sem félagssamþykktir kunna að kveða á um, sem og ákvæði 69. gr., sbr. 4. málsl. 1. mgr. 68. gr. Samkvæmt 2. mgr. 68. gr. laga um einkahlutafélög skal tilkynna hlutafélagaskrá um breytingu á samþykktum einkahlutafélags sem samþykktar hafa verið innan mánaðar og öðlast breytingin ekki gildi fyrr en hún hefur verið skráð.
Samkvæmt 1. og 2. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykkta félagsins sem voru í gildi hinn 22. október 2020 fylgir eitt atkvæði hverjum 100.000 kr. í hlutafé og geta hluthafar með skriflegu umboði veitt umboðsmönnum heimild til að sækja fyrir sína hönd hluthafafund og fara þar með atkvæðisrétt sinn. Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. samþykktanna má ekki taka til meðferðar á hluthafafundi tillögur um breytingu á samþykktum félags nema þess hafi verið getið í fundarboð. Í 22. gr. samþykkta félagsins er kveðið á um að breyta megi samþykktunum á lögmætum aðalfundi eða aukafundi en að breyting þurfi að hljóta 2/3 hluta greiddra atkvæða og samþykki sem ráða yfir minnst 2/3 hlutum af því hlutafé í sem mætt er fyrir á fundinn nema annað atkvæðamagn sé áskilið í samþykktunum eða landslögum, sbr. 68. gr. laga um einkahlutafélög.
Ráðuneytið ítrekar það sem fram kemur í kafla II hér að framan um að hvorki fyrirtækjaskrá eða ráðuneytið séu bærir aðilar til að taka afstöðu til ágreinings um eignarhald á félaginu en eins og fram kemur í umsögn fyrirtækjaskrár í málinu verður ágreiningur um lögmæti skráningar hluta og forkaupsrétt ekki til lykta leiddur hjá fyrirtækjaskrá. Af gögnum málsins má ráða að fyrirtækjaskrá hafi talið að þau gögn sem félagið skilað inn í tengslum um skráningu nýrra samþykkta væru fullnægjandi. Í því sambandi bendir ráðuneytið á að í gögnum málsins má finna tilkynningu um nýjar samþykktir og afrit af fundargerð frá
hluthafafundinum hinn 22. október 2020 sem undirrituð var af öllum hluthöfum félagsins eða umboðsmönnum þeirra en í fundargerðinni er fjallað um breytingatillögurnar og greint frá úrslitum atkvæðagreiðslu um þær. Af framangreindum gögnum má ráða að hluthafafundur hafi samþykkt breytingar á samþykktum félagsins með tilskyldum fjölda atkvæða, sbr. 68. gr. laga um einkahlutafélög og 13. og 22. gr. samþykkta félagsins, á hluthafafundinum 22. október 2020 og því sé skilyrðum til skráningar nýrra samþykkta fullnægt.
Þá gerir ráðuneytið ekki athugasemd við það að fyrirtækjaskrá taki ekki efnislega afstöðu til deilna hluthafa varðandi breytingatillöguna. Ráðuneytið telur ekki skipta máli í þessu sambandi að fyrirtækjaskrá hafi borist afrit af fundargerð frá hluthafafundinum 22. október 2022 með innihélt athugasemdir varðandi breytingatillögurnar. Fyrirtækjaskrá leggur til grundvallar í málinu undirritaða fundargerð frá hluthafafundinum 22. október 2020 sem skránni barst frá stjórn félagsins og gerir ráðuneytið ekki athugasemd við það.
IV.
Í gögnum málsins kemur fram kærandi telji að verulegar breytingar hafi verið gerðar á samþykktum félagsins frá því breytingatillögur voru tilgreindar í fundarboði til hluthafafundarins og þar til stjórn félagsins sendi fyrirtækjaskrá nýjar samþykktir til skráningar en fyrirtækjaskrá hafi ekki horft til þess í málinu.
Af gögnum málsins má ráða að nokkur umræða hafi skapast á hluthafafundinum um tillögur stjórnar um breytingu á samþykktum. Af gögnunum má einnig ráða að þær samþykktir sem mótteknar voru hjá fyrirtækjaskrá 2. nóvember 2020 séu þær sem samþykktar voru á hluthafafundinum 22. október 2020, sbr. fundargerð frá hluthafafundinum sem undirrituð var að öllum hluthöfum eða umboðsmönnum þeirra. Ráðuneytið telur ekki tilefni til að véfengja það að fundargerðin hafi verið undirrituð af öllum hluthöfum eða umboðsmönnum þeirra.
V.
Um málavexti vísar kærandi til hinnar kærðu ákvörðunar sem og máls sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði til meðferðar, málsnúmer […].
Í andmælabréfinu vísar kærandi til þriggja mála sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur haft til meðferðar og varða félagið. Í fyrsta lagi er um að ræða mál með málsnúmeri […] en málið varðar beiðni kæranda fyrir hönd [D] um að ráðherra hlutist til um að haldinn verði hluthafafundur í félaginu en beiðnin er sett fram á grundvelli 2. mgr. 62. gr. laga um einkahlutafélög. Í öðru lagi er um að ræða mál með málsnúmerinu […] en málið varðar beiðni kæranda fyrir hönd [D] um að ráðherra tilnefndi rannsóknarmenn skv. 72. gr. laga um einkahlutafélög til að rannsaka tilgreind atriði varðandi starfsemi félagsins. Í þriðja lagi er um að ræða mál með málsnúmeri […] en málið varðar stjórnsýslukæru sem kærandi bar upp fyrir hönd [D] vegna ákvörðunar fyrirtækjaskrár frá 21. ágúst 2020 um að hluthafafundir sem haldnir voru í [B] ehf., kt. […], dags. 19. júní og 12. september 2019, hafi verið lögmætir sem og þær ákvarðanir sem teknar voru á fundunum. Telur kærandi að í framangreindum málum sé ósvarað spurningum eða að nánari rannsókn þeirra hefði leitt tilgreind atriði í ljós.
Í kafla II hér að framan má finna umfjöllun um það hlutverk sem ráðherra er falið í 2. mgr. 62. gr. og 72. gr. laga um einkahlutafélög. Einnig má þar finna umfjöllun um að hlutverk ráðuneytisins hvað varðar úrskurði í málum um skráningu í fyrirtækjaskrá markist af þeim lagareglum sem um skráninguna gilda.
Framangreindum eldri málum sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur haft til meðferðar er öllum lokið og verður ekki fjallað um þau eða niðurstöðu þeirra í þessu máli.
VI.
Í andmælabréfinu kemur fram að í málinu liggi fyrir tvö eintök af fundargerð frá hluthafafundinum 22. október 2020. Annars vegar fundargerð án athugasemda og hins vegar tvö mismunandi skjöl með athugasemdum við fundargerðina sem virðast hafa verið sendar fyrirtækjaskrá síðar. Kærandi bendir einnig á að í fundargerð komi fram að þáverandi stjórnarformaður félagsins hafi ætlað að leita álits sérfræðings vegna athugasemda kæranda um að ákvæði 5. gr. samþykkta félagsins um forkaupsrétt væri óskýrt. Framangreint álit hafi ekki borist hluthöfum félagsins. Telur kærandi að framangreint sé til marks um stjórnar félagsins um að halda hluthöfum í óvissu og upplýsa ekki um málefni félagsins. Þannig verði ekki málefnaleg umræður um málefni félagsins og sneitt sé hjá ströndum skilyrðum of fyrirmælum laga um einkahlutafélög. Kærandi telur að fyrirtækjaskrá hafi ekki tekið afstöðu til athugasemda hans við annmarka á samþykktum félagsins þar sem í 7. gr. þeirra sé vísað til reglu/forkaupsréttarreglu sem ekki sé að finna annars staðar í samþykktunum. Þannig skorti samþykktirnar hvað þetta varðar innra samræmi.
Varðandi framangreinda athugasemd kæranda þá er í hinni kærðu ákvörðun fjallað um andmæli kæranda og m.a. vísað til 5. og 7. gr. samþykkta félagsins. Í þeirri umfjöllun kemur fram að fyrirtækjaskrá sé einungis bær til að ákvarða í málum er varði skráningarskyld atriði í félagi. Skráin sé ekki bæri til að ákvarða í deilum er varða eignarhald á félögum. Eins og að framan greinir þá gerir ráðuneytið ekki athugasemd við það að fyrirtækjaskrá taki ekki efnislega afstöðu til deilna hluthafa varðandi tillögur um breytingu á samþykktunum. Hlutverk fyrirtækjaskrár er eins og fram hefur komið það að meta hvort skilyrði til skráningar nýrra samþykkta séu uppfyllt með hliðsjón af þeim réttarreglum sem um skráninguna gilda. Ítrekað er að ráðuneytið telur ekki skipta máli í þessu sambandi að fyrirtækjaskrá hafi borist afrit af fundargerð frá hluthafafundinum 22. október 2022 sem innihélt athugasemdir varðandi breytingatillögurnar. Fyrirtækjaskrá leggur til grundvallar í málinu undirritaða fundargerð frá hluthafafundinum 22. október 2020 sem skránni barst frá stjórn félagsins og gerir ráðuneytið ekki athugasemd við það.
VII.
Kærandi telur einnig að fyrirtækjaskrá hafi ekki gætt meðalhófs í ákvörðun sinni en um sé að ræða afar íþyngjandi ákvörðun og að skráin hafi hvorki í þessu máli né öðrum málum vísað þeim aftur til félagsins til afgreiðslu. Skráin hafi þannig ekki horft til annarra og vægari úrræða í þessu máli en að skrá samþykktirnar s.s. að vísa málinu til hluthafafundar til afgreiðslu.
Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar því lögmæta markmiði sem stefnt er að með ákvörðuninni verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal stjórnvald gæta þess að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.
Eins og að framan greinir varðar hin kærða ákvörðun einvörðungu það hvort skrá hafi átt samþykktir félagsins sem bárust fyrirtækjaskrá 2. nóvember 2020. Fyrirtækjaskrá hefur tvo kosti í málum sem þessum, þ.e. að skrá nýjar samþykktir eða að hafna skráningu þeirra. Niðurstaða í slíku máli ræðst af mati á því hvort skilyrði skráningar eru uppfyllt. Sé ákvörðun fyrirtækjaskrár um skráningu nýrra samþykkta kærð til ráðuneytisins hefur ráðuneytið þá kosti að staðfesta ákvörðun, fella ákvörðun úr gildi og mögulega vísa málinu aftur til meðferðar hjá skránni. Hvorki fyrirtækjaskrá né ráðuneytið geta lagt fyrir hluthafafund að fjalla aftur um málið. Það er rétt að nefna einnig í þessu sambandi að í tilviki þar sem tilkynning fullnægir ekki fyrirmælum laga um einkahlutafélög eða samþykktir slíks félags eða ákvarðanir eru ekki teknar á þann hátt sem ákveðið er í lögum eða samþykktum skal synja um skráningu en vilji tilkynnandi ekki una slíkri ákvörðun getur hann borið ákvörðunina undir dómstóla innan sex mánaða frá því hann fékk vitneskju um ákvörðunina, sbr. 1. og 5. mgr. 124. gr. laga um einkahlutafélög. Í máli þessu taldi fyrirtækjaskrá að skilyrði fyrir skráningu nýrra samþykkta sem bárust skránni hinn 2. nóvember 2020 væri fullnægt og voru samþykktirnar því skráðar. Ráðuneytið gerir ekki athugasemd við þá niðurstöðu.
VIII.
Með vísan til alls þess sem að framan greinir er það niðurstaða ráðuneytisins í málinu að staðfesta ákvörðun ríkisskattstjóra sem starfrækir fyrirtækjaskrá dags. 10. september 2020 um að skrá samþykktir [B] ehf. sem mótteknar voru hjá fyrirtækjaskrá þann 2. nóvember 2020 enda hefur ákvörðun um breytingar á samþykktum félagsins verið tekin með lögmætum hætti á löglega boðuðum hluthafafundi.


Úrskurðarorð
Ákvörðun ríkisskattstjóra sem starfrækir fyrirtækjaskrá, dags. 10. september 2021, um að skrá samþykktir [B] ehf. sem mótteknar voru hjá fyrirtækjaskrá þann 2. nóvember 2020 enda hefur ákvörðun um breytingar á samþykktum félagsins verið tekin með lögmætum hætti á löglega boðuðum hluthafafundi, er hér með staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum