Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru: Skráning firmaheitis. Endurupptaka

Fimmtudaginn, 7. desember 2023, var í menningar- og viðskiptaráðuneytinu
kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:


Stjórnsýslukæra
Með erindi hinn 23. janúar 2023 bar [A] fram kæru fyrir hönd [B] ehf., kt. […], (hér eftir kærandi), vegna ákvörðunar fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra (hér eftir fyrirtækjaskrá) frá 25. október 2022 um að skráning á firmaheitinu [D] ehf., kt. […], (hér eftir [D] eða gagnaðili) í fyrirtækjaskrá brjóti ekki gegn betri rétti eiganda firmaheitisins [B] og því skuli skráning á firmaheitinu [D] í fyrirtækjaskrá standa.
Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (stjórnsýslulög).


Kröfur

Kærandi krefst þess að ráðuneytið ógildi ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 25. október 2022 og leggi fyrir skránna að afmá skráningu firmaheitisins [D] úr fyrirtækjaskrá.
Kærandi beinir því að auki til ráðuneytisins hvort ekki sé tilefni til að kanna hvort fyrirtækjaskrá beri að endurskoða viðmið sín um firmaheiti enda virðast þau til þess fallin að skráning firmaheita geti skv. þeim auðveldlega orsakað ruglingshættu.


Málsatvik
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru atvik málsins með eftirfarandi hætti.
Hinn 28. júlí 2022 móttók fyrirtækjaskrá andmæli [A] f.h. kæranda við skráningu firmaheitisins [D] í fyrirtækjaskrá. Samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá dags. 2. nóvember 2023 er [A] einn af stjórnarmönnum félagsins.


Eins og fyrr segir er ákvörðun fyrirtækjaskrár dagsett 25. október 2022 og barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra vegna ákvörðunarinnar dags. 23. janúar 2023. Í kæru er þess krafist að ákvörðun fyrirtækjaskrár verði felld úr gildi og fyrirtækjaskrá gert að afmá skráningu firmaheitisins [D] úr skránni.
Með bréfi dags. 8. febrúar 2023 óskaði ráðuneytið eftir umsögn fyrirtækjaskrár um kæruna. Með bréfi sama dag var [D] einnig gefið færi á að koma að andmælum sínum við stjórnsýslukæruna. Umsögn fyrirtækjaskrár barst ráðuneytinu með bréfi dags. 17. febrúar 2023.
Með tölvubréfi dags. 20. febrúar óskaði [E], lögmaður, f.h. [D] eftir framlengdum fresti til að koma að sjónarmiðum félagsins í málinu og var frestur framlengdur af hálfu ráðuneytisins til 8. mars 2023. Hinn 6. mars sl. bárust andmæli f.h. [D] í málinu.
Hinn 15. mars 2023 var kæranda gefið færi á að tjá sig um þær upplýsingar er fram komu í nefndri umsögn fyrirtækjaskrár og andmælum [D]. Andmæli [B] bárust hinn 28. mars sl.
Um atvik málsins vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun og gögnum málsins.


Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi telji að með skráningu fyrirtækjaskrár á firmaheitinu [B] í firmaskrá árið 1994 hafi nafn kæranda hlotið ákveðna vernd m.a. skv. 3. gr. laga nr. 42/1903 (hér eftir firmalög) og 15. gr. a. laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og markaðssetningu (hér eftir lög nr. 57/2005). Þá telur kærandi að fyrirtækjaskrá hafi borið að líta til 1. mgr. 10. gr. firmalaga.
Kærandi vísar til erindis síns til fyrirtækjaskrár dags. 28. júlí 2022 og sjónarmiða kæranda er fram koma í hinni kærðu ákvörðun dags. 25. október 2022. Í umræddu erindi kæranda til fyrirtækjaskrár kemur m.a. fram að kærandi hafi fyrst orðið var við skráningu firmaheitisins [D] í fyrirtækjaskrá eftir fréttaflutning á vefsíðunni www.mbl.is er varðaði [D]. Í kjölfarið hafi kæranda borist fyrirspurnir um efni fréttarinnar sem hafi verið svarað með þeim hætti að umrætt fréttaefni væri kæranda óviðkomandi.
Kærandi greinir frá því að [D] hafi sett upp vefsíðu með slóðinni […] og þar sé að finna myndmerki þar sem orðið […] sé áberandi stærra en textinn […]. Þá sé vefsvæðið allt á ensku en kærandi hafi átt í töluverðum alþjóðlegum viðskiptum í gegnum árin og villist viðskiptavinur kæranda inn á vefsvæði [D] séu töluverðar líkur á að samskipti sem gætu allt eins verið trúnaðarmál endi hjá röngu fyrirtæki.
Kærandi tekur fram að fyrst hafi hann haft samband við [D] og óskað eftir að notkun nafnsins yrði hætt og nýtt tekið upp sökum ruglingshættu. Forsvarsmaður [D] hafi ekki séð ástæðu til þess þrátt fyrir að það starfi á sama sviði og [B] þ.e. í upplýsingatækni og fjarskiptum.
Fram kemur að einu dæmin um notkun orðsins […] í firmaskrá sé íþróttafélag [F], sem starfi á allt öðru sviði en kærandi og [D] og það sé með viðskeyti í nafni sínu sem greini það vel frá kæranda ólíkt því sem á við um [D].
Kærandi áréttar að hann telji verulega ruglingshættu til staðar milli firmaheitanna [B] og [D] sér í lagi þar í ljósi þess að fyrirtækin starfi á sama sviði. Heiti [D] sé ekki nægjanlega aðgreint frá heiti kæranda og er vísað til 15. gr. a. laga nr. 57/2005 því til stuðnings. Kæranda telur þá að fyrirtækjaskrá hafi brugðist skyldum sínum skv. 3. gr. firmalaga með því að skrá firmaheitið [D] í fyrirtækjaskrá.
Í stjórnsýslukæru ítrekar kærandi að bæði hann og gagnaðili starfi á sama sviði þ.e. við hugbúnaðargerð og tölvuvinnslu þó kærandi starfi auk þess á fleiri sviðum ss. við netþjónustu. Þá er vakin athygli á að [D] hafi sótt um skráningu orð- og myndmerkisins […] hjá Hugverkastofu sem kærandi hafi gert athugasemd við og hafi orð- og myndmerkið ekki enn verið skráð.
Kæranda telur fyrirtækjaskrá hafa brotið gegn 10. gr. rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (hér eftir stjórnsýslulög) með því að kanna ekki hvort [B] væri skráð í fyrirtækjaskrá. Telur kærandi að fyrirtækjaskrá réttlæti skráningu firmaheitisins [D] án lagaskilyrða.
Að endingu krefst kærandi þess að ráðuneytið ógildi ákvörðun fyrirtækjaskrár og leggi fyrir skrána að afmá skráningu firmaheitisins [D] í fyrirtækjaskrá. Að auki beinir kærandi því til ráðuneytisins hvort ekki sé tilefni fyrir fyrirtækjaskrá að endurskoða viðmið sín um firmaheiti enda virðist þau til þess fallin að skráning firmaheita geti skv. þeim auðveldlega orsakað ruglingshættu.
Í andmælum kæranda dags. 28. mars sl. er gerð athugasemd við fullyrðingu gagnaðila um að ekki sé að finna heimild fyrir kröfu þriðja aðila til afskráningar. Bendir kærandi á að krafan sé byggð á röngum vinnubrögðum fyrirtækjaskrár við skráningu sbr. 3. gr. firmalaga. Þá er því jafnframt hafnað að skráningu firmaheitisins verði aðeins hnekkt fyrir dómstólum í ljósi þess að kærandi hafi rétt á að krefjast endurupptöku á stjórnsýsluákvörðun fyrirtækjaskrár sbr. ákvæði stjórnsýslulaga.
Um sjónarmið kæranda vísast að öðru leyti til þess sem segir í stjórnsýslukæru og framangreindu erindi frá 28. mars sl.


Sjónarmið fyrirtækjaskrár
Í umsögn fyrirtækjaskrár dags. 17. febrúar 2023 kemur fram að við ákvörðun um skráningu á firmaheiti í fyrirtækjaskrá sé m.a. tekið til skoðunar hvort sama firmaheiti sé þegar skráð. Farið félag þá leið að velja nafn sem feli í sér almennt heiti án einhvers konar sérkenna kunni það að eiga á hættu að nafnið veiti því ekki einkarétt ef ágreiningur rís á milli félagsins og annars félags sem síðar hefur skráð sambærilegt eða líkt firmanafn.
Við mat á ruglingshættu skipti skráning á tilgangi félagsins einnig miklu máli. Fyrirtækjaskrá tekur fram að orðið […] sé almennt heiti og viðbótin […] skarist að mati skrárinnar ekki á við tilgang [B] og er vísað til skilgreiningar á orðinu […] í orðabók því til stuðnings. Telur skráin því að orðið […] feli í sér nægileg sérkenni til aðgreiningar frá firmaheiti kæranda.
Fyrirtækjaskrá hafnar því þá alfarið að hafa ekki gætt að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga enda ekkert sem gefi til kynna að skráning á firmaheitinu [D] brjóti gegn betri rétti kæranda skv. 3. og 10. gr. firmalaga og 15. gr. a. laga nr. 15/2005.
Að endingu gerir fyrirtækjaskrá þá kröfu að menningar- og viðskiptaráðuneytið hafni alfarið málsástæðum kæranda og að hin kæra ákvörðun verði staðfest.
Um sjónarmið fyrirtækjaskrár vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun og umsögn stofnunarinnar dags. 17. febrúar sl.


Sjónarmið [D].
Í andmælum gagnaðila, dags. 6. mars 2023, er þess krafist að ákvörðun fyrirtækjaskrár frá 25. október 2022 verði staðfest og því skuli skráning firmaheitisins [D] í fyrirtækjaskrá standa. Gagnaðili telur að heimild standi ekki til endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar um skráningu firmaheitisins og að ennfremur sé málshöfðunarfrestur kæranda til að bera skráninguna undir dómstóla liðinn. Þá sé engin ruglingshætta til staðar. Andmælum gagnaðila er skipt upp í eftirfarandi liði.
Gagnaðili telur í fyrsta lagi að skilyrði til endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar fyrirtækjaskrár um skráningu firmaheitis gagnaðila ekki uppfyllt. Í firmalögum sé ekki að finna heimild fyrir kröfu þriðja aðila til afskráningar firmaheitis heldur hvíli heimildir stjórnvalds til þess að hlutast til um afskráningu firmaheitis á rétti stjórnvalds til endurupptöku máls sbr. 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga. Efnisskilyrði 24. gr. laganna séu ekki uppfyllt enda engar nýjar upplýsingar fram komnar um málið. Þá sé þriggja mánaða frestur 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga liðinn.
Í öðru lagi bendir gagnaðili á að skráning á firmaheitinu [D] hafi verið birt í Lögbirtingablaðinu hinn 15. febrúar 2022 og hefði kæranda því borið að bera mál um afskráningu þess undir dómstóla innan sex mánaða frá því tímamarki sbr. 6. mgr. 124. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994.
Gagnaðili bendir í þriðja lagi á að orðið […] sé almennt orð og merki […]. Í hinni kærðu ákvörðun sé gengið út frá því að […] sé almennt heiti og að í framkvæmd hafi að jafnaði verið gengið út frá því að ekki sé unnt að banna öðrum notkun slíks heitis svo fremi sem hann aðgreini sitt firmaheiti frá því sem þegar kann að hafa verið skráð sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3235/2001. Eins og segi í álitinu kann fyrirtæki sem notar almennt heiti að eiga hættu á að skráning þess veiti því ekki einkarétt ef ágreiningur kemur upp við annað fyrirtæki sem síðar hefur skráð sama eða sambærilegt firmanafn, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 16. maí 1947 í máli nr. 132/1946.
Vísar gagnaðili jafnframt til 2. málsl. 2. mgr. 10. gr. firmalaga sem gerir ráð fyrir því að heimilt sé að fá samnefnt firma skráð svo framarlega sem glögglega er greint á milli þess og eldra firmaheitis með viðauka eða öðrum hætti.
Í fjórða lagi heldur gagnaðili fram að firmaheiti kæranda og gagnaðila séu ekki svo lík að það valdi ruglingshættu og kærandi hafi því ekki betri rétt til firmaheitisins [D]. Vísar gagnaðili því til stuðnings til dómaframkvæmdar hér á landi og úrskurða áfrýjunarnefndar neytendamála.
Gagnaðili heldur fram að ágreiningur um hver eigi betri rétt til tiltekins auðkennis, ss. á grundvelli vörumerkjalaga sé einkaréttarlegs eðlis og þá fari önnur stjórnvöld en fyrirtækjaskrá með framkvæmd vörumerkjalaga og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Kærandi geti þ.a.l. leitað til Neytendastofu telji hann brotið gegn réttindum sínum skv. 15. gr. a. laga nr. 57/2005. Þá hafi umsókn gagnaðila um skráningu vörumerkis ekki verið synjað heldur sé umsóknin enn til skoðunar hjá Hugverkastofu.
Í fimmta lagi bendir gagnaðili á að tilgangur [D] sé m.a. hugbúnaðarþróun fyrir […]. Telur gagnaðili útilokað að það geti valdið raunverulegum ruglingi við starfsemi kæranda sem er tölvu- og þjónustufyrirtæki á […] sem er skráð í allt annan atvinnugreinaflokk. Gagnaðili andmælir því þ.a.l. að aðilar málsins bjóði upp á sambærilega vöru og þjónustu eða starfi á sama markaði.
Í sjötta lagi tekur gagnaðili fram að hann telji ekki nokkuð benda til þess að þeir aðilar er hyggist kaupa tiltekna þjónustu af kæranda gætu fyrir misskilning keypt hugbúnað af gagnaðila.
Um sjónarmið gagnaðila vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun og andmælum dags. 6. mars. sl.


Forsendur og niðurstaða

I.
Stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu innan kærufrests og telst kæran því löglega fram komin. Málið hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og málið hér með tekið til úrskurðar.
II.
Endurupptaka.
Í andmælum gagnaðila er því haldið fram að skilyrði til endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar fyrirtækjaskrár um skráningu firmaheitis gagnaðila séu ekki uppfyllt. Í firmalögum sé ekki að finna heimild fyrir kröfu þriðja aðila til afskráningar firmaheitis heldur hvíli heimildir stjórnvalds til þess að hlutast til um afskráningu firmaheitis á rétti stjórnvalds til endurupptöku máls sbr. 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga. Efnisskilyrði 24. gr. laganna séu ekki uppfyllt enda engar nýjar upplýsingar fram komnar um málið. Þá sé þriggja mánaða frestur 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga liðinn.
Í 24. gr. stjórnsýslulaga er kveðið á um rétt aðila máls til að fá mál tekið til meðferðar á ný. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný þegar stjórnvald hefur tekið ákvörðun í máli og hún verið tilkynnt aðila ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. Aðili máls getur einnig átt rétt til endurupptöku máls í fleiri tilvikum en kveðið er á um í 24. gr. stjórnsýslulaga.
Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laganna verður beiðni aðila um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum máls eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.
Auk réttar aðila máls til að fá mál endurupptekið skv. 24. gr. stjórnsýslulaga er stjórnvöldum heimilt eða kann jafnvel að vera skylt að endurupptaka mál að eigin frumkvæði á grundvelli ólögfestra reglna.
Mál telst endurupptekið þegar stjórnvald ákveður að rannsaka það frekar eða ákveður að kalla eftir nýjum gögnum þó að ekki hafi verið tekin ákvörðun um endurupptöku með formlegum hætti. Í slíkum tilvikum hefur stjórnvaldið sjálft tekið ákvörðun um að endurupptaka mál og að hefja ákveðna málsmeðferð til að kanna hvort rétt sé að afturkalla stjórnvaldsákvörðun sem áður hefur verið tekin af stjórnvaldinu. Þegar stjórnvaldi berast athugasemdir eða ábendingar um að annmarkar séu á stjórnvaldsákvörðun sem tekin hefur verið af stjórnvaldinu verður að telja að stjórnvaldið geti hafið slíka rannsókn. Þá ber að hafa í huga að stjórnvöldum ber almenn skylda til að afturkalla ógildanlegar ákvarðanir sem það hefur áður tekið. Þannig verður að álíta að þegar stjórnvald tekur ákvörðun um afturköllun ákvörðunar á grundvelli 25. gr. stjórnsýslulaga þá hafi stjórnvaldið þegar endurupptekið málið sem um ræðir til þess að geta komist að þeirri niðurstöðu að afturkalla beri ákvörðunina. Þegar stjórnvald endurupptekur mál er ekki þar með sagt að niðurstaðan verði sú að afturkalla ákvörðunina, niðurstaðan getur einnig orðið sú að setji nýja ákvörðun í staðinn, að ákvörðunin sem stjórnvaldið hefur áður tekið standi óröskuð eða ákvörðuninni veðri breytt.


Í máli þessu er uppi sú staða að fyrirtækjaskrá bárust andmæli kæranda þann 28. júlí 2022 við skráningu firmaheitisins [D] í fyrirtækjaskrá en [D] var skráð í fyrirtækjaskrá hinn […] 2022. Ráðuneytið telur að í ljósi andmæla er fyrirtækjaskrá bárust frá kæranda hafi skránni verið rétt að endurupptaka ákvörðun sína frá […] 2022 um að skrá félagið, og þar með firmaheitið. Niðurstaða fyrirtækjaskrár var eins og áður segir að skráning á firmaheitinu [D] í fyrirtækjaskrá bryti ekki gegn rétti eigenda firmaheitisins [B] og skyldi skráning firmaheitisins [D] í fyrirtækjaskrá því standa óröskuð.
Ráðuneytið telur að á grundvelli þess sem að framan greinir hafi fyrirtækjaskrá því verið heimilt að endurupptaka ákvörðun sína um skráningu félagsins, og þar með firmaheitisins, [D] frá […] 2022.
III.
Í 2. kafla, 8. – 23. gr., laga nr. 42/1903 um verslanaskrá, firmu og prókúruumboð er fjallað um firmu.
Í 8. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrá, firmu og prókúruumboð segir að hver sá sem stundi atvinnurekstur skuli fara eftir þeim ákvæðum sem á eftir fylgi, um nafn það, sem hann notar við atvinnuna, og um undirskrift fyrir hana (firma), enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn, sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara.
Í 1. mgr. 10. gr. laganna segir að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis. Þá segir að í firma megi eigi nefna fyrirtæki, er ekki standa í sambandi við atvinnuna; eigi má heldur halda firma því óbreyttu, er tilgreinir ákveðna atvinnugrein, ef veruleg breyting hefir verið gerð á henni. Í 2. mgr. sömu greinar segir að firmu þau, er sett eru á skrá fyrir sama kaupstað eða hrepp, skuli greina glöggt hvert frá öðru. Sá, sem tilkynnir firma með nafni sínu, skal því ef samnefnt firma er þegar sett á skrá fyrir einhvern annan í sama kaupstað eða hrepp, greina firma sitt glöggt frá hinu eldra firma með viðauka við nafn sitt eða á annan hátt. Sá, sem eigi tilkynnir firma, en ætlar að reka atvinnu með nafni sjálfs sín (sbr. 16. gr.), má ekki stæla skrásett firma, sem hefur sama nafn, með því að bæta við nafn sitt, fella úr því eða breyta.
IV.
Í 1. og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 17/2003 um fyrirtækjaskrá segir að halda skuli fyrirtækjaskrá og að skráin skuli starfrækt af ríkisskattstjóra sem annist útgáfu á kennitölum til annarra en einstaklinga. Í 1. tölul. 2. gr. laganna segir að fyrirtækjaskrá skuli geyma upplýsingar um einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Og í 3. gr. laganna segir að fyrirtækjaskrá skuli m.a. halda aðgreinanlegar skrár yfir hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög, sameignarfélög, félög til almannaheilla og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur samkvæmt þeim lögum sem gilda um þessi félög og stofnanir. Þá eru í 4. gr. talin upp í tólf töluliðum þau atriði sem skrá skal í fyrirtækjaskrá en þar er í 1. tölul. tilgreint heiti félags.
Fyrirtækjaskrá tekur þannig við skráningum einstaklinga, félaga og annarra aðila sem stunda atvinnurekstur.
Ákvarðanir fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra eru kæranlegar til menningar- og viðskiptarráðuneytis samkvæmt ákvæði 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
V.
Með hugtakinu firma er átt við heiti tiltekins fyrirtækis sem stundar atvinnustarfsemi. Á það bæði við þegar starfsemin er rekin í nafni félags og í nafni einstaklings. Markmið með ákvæðum firmalaga um firmanöfn er að tryggja að ýmsar mikilvægar og réttar upplýsingar liggi fyrir um félag og að viðskiptamaður þess geti ávallt séð við hvern hann er að semja. Þau skilyrði sem firmu verða almennt að uppfylla til að verða viðurkennd og fást skráð eru að firmað samrýmist almennu íslensku málkerfi, að sérkenni þess séu nægjanleg til að skilja það frá öðrum, það segi sannleikann um starfsemina og að það brjóti ekki gegn rétti annarra. Í því síðast talda felst bæði að firma má ekki vera líkt heiti sem annað félag í svipuðum rekstri á betri rétt yfir né að brjóta gegn rétti til heitis sem annar á.
Lögverndun firmaheitis hefur mikla þýðingu fyrir eiganda firmaheitisins á þann hátt að vernda þá viðskiptavild sem hann hefur skapað firmanu með vinnu sinni og fjármunum, auk þess sem firmanafnið getur verið trygging almennings fyrir þeim afurðum sem firmað býður fram. Í 10. gr. laga nr. 42/1903 kemur fram að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns án hans leyfis en meginreglan er sú að teljist heitið almennt er ekki unnt að banna öðrum notkun orðsins eða heitisins, svo fremi að hann aðgreini sitt
firmaheiti frá því sem þegar kann að vera til skráð með því heiti. Sé heiti til þess fallið að greina vörur og þjónustu fyrirtækis frá svipaðri vöru eða þjónustu annarra er um lögverndað heiti að ræða sem óheimilt er að nota án leyfis skráðs rétthafa.
VI.
Félagið [B] (kærandi í þessu máli) var skráð í fyrirtækjaskrá hinn […] 1997 samkvæmt upplýsingum úr fyrirtækjaskrá og hefur borið sama firmaheiti síðan þá. Samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá er tilgangur kæranda eftirfarandi: viðgerð og sala tölvubúnaðar, internetþjónusta, […], rekstur verslunar með tölvuvörur, eignarhald og rekstur húseigna, lánastarfsemi og skyldur rekstur. Firmaheitið [D] var skráð í fyrirtækjaskrá hinn […] 2022 og er tilgangur gagnaðila eftirfarandi: hugbúnaðarþróun fyrir […]. Samkvæmt ÍSAT atvinnugreinaflokkun er starfsemi kæranda skráð sem önnur þjónusta á sviði upplýsingatækni en starfsemi gagnaðila skráð sem önnur ótalin sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi.
Við mat á því hvort hætta sé á ruglingi milli umræddra tveggja firmaheita kæranda og gagnaðila lítur ráðuneytið m.a. til þess hvort félögin starfi á sama markaði og hvort þau beina vöru eða þjónustu að sama markhópi. Ef litið er til starfsemi félaganna í vottorðum fyrirtækjaskrár þá er skráð starfsemi þeirra, skv. tilgangi og ÍSAT atvinnugreinaflokkun, ekki sú sama, þó líkindi séu að einhverju leyti til staðar. Af dómi Hæstaréttar frá 16. maí 1947 í máli nr. 132/1946 virðist mega draga þá almennu ályktun, að firma, sem tekið hefur upp í heiti sitt almennt vöruheiti geti ekki útilokað aðra frá því að nota sama heiti fyrir sama atvinnurekstur.
VII.
Með skráningu firmaheitis kann firmaeigandinn að öðlast einkarétt til heitisins sem þá felst í því að öðrum sé óheimilt að nota firmaheitið eða annað heiti sem líkist því á þann hátt að um ruglingshættu geti verið að ræða. Lagavernd firmaheitis er þannig háð því að heitið hafi þá eiginleika, þ.e. sérkenni, að fallist verði á að félag hafi með skráningu firmaheitisins öðlast einkarétt á því gagnvart öðrum. Líkt og áður kom fram er meginreglan sú að teljist heitið almennt er ekki unnt að banna öðrum notkun orðsins eða heitisins, svo fremi sem hann aðgreini sitt firmaheiti frá því sem þegar kann að vera skráð með sama heiti. Kröfunni um sérkenni firmaheitis hefur þar af leiðandi ekki þótt fullnægt, ef aðalorðið í firmanu er almennt heiti. Þetta kom fram í áðurnefndum Hæstaréttardómi frá 16. maí 1947 í máli nr. 132/1946 þar sem félagið Fiskimjöl h/f stefndi Fiskimjöl Njarðvík h/f og krafðist þess að stefnda yrði dæmt óheimilt að nota firmanafnið Fiskimjöl Njarðvík. Í dómnum kemur fram að orðið fiskimjöl sé almennt vöruheiti, ekki séu nægileg sérkenni fólgin í firmaheiti áfrýjanda og krafa hans því ekki tekin til greina. Taldi dómurinn að ef réttmætt væri að veita einkarétt um notkun slíkra almennra vöruheita, væri þeim, er hann hlyti, þar með gefin forréttindi um að njóta þess hagræðis er merking orðanna felur í sér og það sumpart á kostnað annarra. Ráðuneytið lítur svo á að dómurinn eigi við í því máli sem hér er til umfjöllunar.
Orðið […] má m.a finna í Íslenskri orðabók og Orðabók Aldamóta. Í Íslenskri orðabók er orðið m.a. skilgreint sem […]. Um almennt heiti eða orð er því að ræða. Samkvæmt 10. gr. laga nr. 42/1903 má enginn hafa í firma sínu nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis. Túlkun í dómaframkvæmd hefur verið sú að ákvæðið nái einnig til þess að óheimilt sé að taka vörumerki annars manns upp í firmaheiti án leyfis viðkomandi. Meginreglan hefur þó verið sú að ekki sé unnt að banna öðrum notkun almenns heitis eða orðs svo fremi að hann aðgreini sitt firmaheiti frá því sem þegar kann að vera skráð með sama heiti. Með því móti sé ekki unnt að banna öðrum notkun heitisins eða orðsins sé það nægilega vel aðgreint frá öðru firmaheiti sem kann að vera skráð.
Í áliti umboðsmanns í máli nr. 3235/2001 rakti umboðsmaður ákvæði laga nr. 42/1903, einkum 10. gr. laganna. Tók umboðsmaður fram að af orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum yrði ekki ráðið að það væri skilyrði fyrir skráningu firmaheitis að umbeðið heiti hefði þá eiginleika að það veitti viðkomandi fyrirtæki einkarétt til heitisins umfram aðra sem hefðu svipaða starfsemi með höndum. Með vísan til þessa
telur ráðuneytið að fyrirtækjaskrá sé ekki fært að hafna skráningarbeiðni á þeim forsendum einum að um almennt heiti sé að ræða.
Fari fyrirtæki eða félag þá leið að velja heiti sem felur í sér almennt heiti kann það hins vegar að eiga á hættu að heitið veiti því ekki einkarétt til þess ef ágreiningur rís á milli félagsins og annars félags, sem síðar hefur skráð sama eða sambærilegt firmaheiti, um það hvort síðar tilkomna skráningin gangi gegn betri rétti hins fyrrnefnda félags. Í slíkum tilvikum verður þó að bæta við heitið sem síðar er skráð orði, sem hefur þann eiginleika að sérgreina firmað á einhvern hátt frá heitinu sem fyrr var skráð. Er þetta í samræmi við viðmið við skráningu firmaheita sem birt eru á vef ríkisskattstjóra, en þar kemur fram að verði firmaheiti til þannig að ekki verði séð að það sé sótt í hinn almenna orðaforða tungunnar, er litið á það sem uppfinningu þess sem skráir og öðlast þá slíkt heiti ríkari vernd gegn skráningu annarra og verður ekki skráð með neinum viðauka. Í fræðiskrifum, nánar tiltekið í ritgerð Sigurgeirs Sigurjónssonar: Firma og firmavernd, Úlfljótur 3. tbl. 1969, bls. 213-227, kemur fram að einkaréttur firmaeigandans til firmans byggist að miklu leyti á hæfileika nafnsins í því skyni. Því sé mjög þýðingarmikið við stofnun hvers firma, að því sé í upphafi valið nafn, sem sé til þess fallið að aðgreina firmað í viðskiptum manna á milli.
Þó er hugsanlegt að firmu sem eru mynduð af almennum heitum geti öðlast einkarétt fyrir slík heiti sín. Kemur hér til greina svipuð regla og viðurkennd er í vörumerkjaréttinum, þ.e. að menn geti undir vissum kringumstæðum öðlast einkarétt til vörumerkis sem í upphafi uppfyllti ekki skilyrði fyrir skráningu þess. Er um að ræða það tilvik að vörumerki eða firmaheiti hafi með langri notkun öðlast markaðsfestu. Kærandi bendir á langa notkun hans á heitinu […] í firmaheiti sínu en félagið var skráð árið 1997 í hlutafélagaskrá og hefur borið sama heiti allt síðan þá. Kærandi heldur því fram að firmaheitið hafi því hlotið ákveðna vernd skv. 3. gr. laga nr. 42/1903 og jafnframt 15. gr. a. laga nr. 57/2005.
Í nefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 132/1947 var því haldið fram af hálfu stefnanda að hann hefði með notkun sinni á heitinu Fiskimjöl í 15 ár og löglegri skráningu á því öðlast einkarétt til heitisins. Þar sem þessari röksemd var ekki hreyft í forsendum dóms Hæstaréttar bera fræðiskrif í kjölfar dómsins með sér að Hæstiréttur hafi ekki talið þessa löngu notkun orðsins fiskimjöl sem firmaheiti nægja til að skapa einkarétt til þess heitis. Líkt og áður kom fram lítur ráðuneytið svo á að dómurinn eigi við í því máli sem hér er til umfjöllunar. Með hliðsjón af niðurstöðu dómsins, með það sérstaklega í huga að kærandi hefur notað heitið […] í firmaheitinu [B] allt frá árinu 1997 og að það hafi því verið skráð í svipað langan tíma og heiti stefnanda í umræddu dómsmáli og að um er að ræða almennt heiti, er niðurstaða ráðuneytisins í máli þessu í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 132/1947.
Í ljósi alls framangreinds verður að telja að firmaheitið [D] sé nægilega vel aðgreint frá firmaheitinu [B] og því sé ekki unnt að fallast á að banna eigi firmaheitið [D]. Um almennt heiti er að ræða sem er aðgreint frá skráðu firmaheiti kæranda með viðskeytinu […] og því ekki til þess fallið að valda ruglingshættu í skilningi firmalaga. Þá verður ekki séð að orðið […] feli í sér beina vísun í starfsemi kæranda.
Ráðuneytið tekur þá undir með gagnaðila að önnur stjórnvöld en fyrirtækjaskrá fari með framkvæmd vörumerkjalaga og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005. Leita þurfi því til Neytendastofu telji kærandi brotið gegn réttindum sínum skv. 15. gr. a. laga nr. 57/2005 og vísar ráðuneytið einnig til niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í áliti hans í máli nr. 10675/2020 því til stuðnings.
VIII.
Í ljósi alls framangreinds verður að telja að firmaheitið [D] sé nægilega vel aðgreint frá firmaheitinu [B] og því sé ekki unnt að fallast á að banna eigi firmaheitið [D]. Um almennt heiti er að ræða sem er aðgreint frá skráðu firmaheiti kæranda með orðinu […] og því ekki til þess fallið að valda ruglingshættu í skilningi firmalaga.
IX.
Með vísan til þess sem að framan greinir staðfestir ráðuneytið hina kærðu ákvörðun fyrirtækjaskrár um að skráning á firmaheitinu [D] brjóti ekki gegn betri rétti eiganda firmaheitisins [B] og því skuli skráning félagsins í fyrirtækjaskrá standa.


Úrskurðarorð

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 25. október 2022 um að skráning á firmaheitinu [D] brjóti ekki gegn betri rétti eiganda firmaheitisins [B] og að því skuli skráning félagsins í fyrirtækjaskrá standa.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum