Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins

Úrskurður v. skráningar firmaheitis. Skráning firmaheitis, lögmætisregla, jafnræðisregla, meðalhóf, lagagrundvöllur máls.

Mánudaginn, 14. mars 2022, var í menningar- og viðskiptaráðuneytinu
kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:


Stjórnsýslukæra

Vísað er til stjórnsýslukæru [A] (hér eftir kærandi eða félagið), kt. […], dags. 28. júní 2021 þar sem kærð er ákvörðun ríkisskattstjóra sem starfrækir fyrirtækjaskrá (hér eftir fyrirtækjaskrá) frá 30. mars 2021 um að hafna skráningu tilkynningar um breytingu á nafni [A] sem móttekin var hinn 14. ágúst 2020.
Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Kröfur

Í kærunni er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að ríkisskattstjóra verði gert að verða við beiðni félagsins um leiðréttingu á heiti þess í opinberum skrám.


Málsatvik
Hinn 14. ágúst 2020 barst fyrirtækjaskrá tilkynning um breytingu á heiti kæranda. Með tilkynningunni barst afrit af samþykktum kæranda þar sem í 1. málslið 1. gr. segir: „Nafn samtakanna er [B] skammstafað [D].“
Með tölvubréfi fyrirtækjaskrár þann 8. september 2020 var kæranda tilkynnt að fyrirtækjaskrá skrái heiti félaga eins og þau koma fram í samþykktum þeirra en ekki eingöngu skammstöfun á heiti félagsins. Var einnig vísað til ákvörðunar fyrirtækjaskrár í máli kæranda dags. 16. mars 2018 þar sem kæranda var synjað um skráningu á firmaheitinu [B]. Því sé ekki unnt að skrá heiti kæranda samkvæmt samþykktum hans.
Með tölvubréfi mótmælti kærandi framangreindri afstöðu fyrirtækjaskrár og óskaði eftir því að skráin tæki formlega ákvörðun í málinu.
Með bréfi til fyrirtækjaskrár dags. 30. mars 2021 hafnaði skráin skráningu tilkynningar um breytingu á nafni [A] sem móttekin var hinn 14. ágúst 2020.
Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun og gögnum málsins.
Sjónarmið kæranda
Í kæru, fylgiskjölum með kæru og andmælabréfi kæranda dags. 27. september 2021 er að finna sjónarmið kæranda í málinu.
Í framangreindum gögnum kemur m.a. fram að kærandi noti jöfnum höndum í starfsemi sinni heitin [D] og [B]. Sú skráning á heiti kæranda sem nú er í fyrirtækjaskrá sem er [A] sé röng og að með því að viðhalda rangri skráningu ræki stofnunin ekki þær skyldur sem hún vísar til í hinni kærðu ákvörðun og felast í 8. gr. laga um fyrirtækjaskrá. Heitið [A] sé ekki að finna í samþykktum kæranda heldur sé nafn félagsins [D] eða [B] líkt og greini í samþykktum sem sendar voru fyrirtækjaskrá í upphafi árs 2016. Fram kemur að kærandi hafi ítrekað krafist þess að fyrirtækjaskrá endurskoði afstöðu sína eða vísi með fullnægjandi hætti til lagaheimilda.
Telur kærandi að fyrirtækjaskrá beri skylda til að uppfæra breytingar með því að skrá tilkynningar sem skránni berast og vísar um það til 1. mgr., sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um fyrirtækjaskrá. Telur kærandi að hann hafi þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir ekki fengið upplýsingar um það á hvaða lagagrundvelli fyrirtækjaskrá byggir heimild til að hafna skráningu tilkynninga og rökstuðning fyrir höfnuninni. Telur kærandi að íþyngjandi ákvörðun eins og um ræðir í máli þessu verði að vera byggðar á skýrum lagaheimildum og telur
hann næsta víst að hin kærða ákvörðun standist ekki þann áskilnað. Telur kærandi umsögn fyrirtækjaskrár frá 9. september 2021 bera með sér að skráin sjálf sé í vafa um þann grundvöll sem hún byggir höfnun sína á.
Hvað varðar skammstöfun heita félaga í fyrirtækjaskrá þá kemur fram að félagið hafi bent á að nokkur félagi hafi fengið skráð í fyrirtækjaskrá skammstöfun heita þó að umrædd skammstöfun komi ekki fram í samþykktum viðkomandi félaga. Fram kemur að framangreint samrýmist ekki jafnræðisreglu þar sem að kærandi telur að um sé að ræða tvo jafnsetta aðila sem fái ekki sömu meðferð þrátt fyrir að sömu efnisreglur hafi gilt um skráningu beggja aðila. Þannig eigi borgara landsins ekki að þurfa að sæta því að stofnun breyti efnisreglum án þess að lagabreyting hafi orðið á viðkomandi sviði. Fyrirtækjaskrá geti ekki borið fyrir sig hvað þetta varðar að framkvæmd verkefna sem varða skráningu í fyrirtækjaskrá hafi verið færð frá Hagstofunni til ríkisskattstjóra.
Í gögnum málsins fjallar kærandi um meðalhóf við skráningu fyrirtækja. Telur kærandi að fyrirtækjaskrá hafi ekki bent á reglur sem koma í veg fyrir skráningu á heiti [D]. Telur kærandi að ákvörðun fyrirtækjaskrár frá 16. mars 2018, sem skráin vísar til í hinni kærðu ákvörðun, komi málinu ekki við og að óheimilt sé að horfa til hennar í þessu máli þar sem hún byggir á öðrum grundvelli. Þau sjónarmið eigi ekki við í þessu máli en tilkynningin sem um ræðir í máli þessu varði annað heiti. Þannig sé fyrirtækjaskrá ekki heimilt að byggja ákvörðun sína á niðurstöðu í framangreindu máli og telur kærandi illskiljanlegt hvers vegna vísað er til þess máls í hinni kærðu ákvörðun. Tekur kærandi fram að þannig hefði heitið [D] mögulega fengist skráð ef ekki hefði verið send inn skráning á lengra heiti félagsins þ.e. [B]. Framangreint geti ráðuneytið ekki látið viðgangast.
Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telji að fyrirtækjaskrá sé ekki skylt að skrá samþykktir almennra félaga og vísar um það til 1.-12. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá. Þannig hafi skráin frjálsari hendur en þegar um er að ræða skráningu atriða félaga sem sett hafa verið sérstök lög um. Kærandi hafi látið fyrirtækjaskrá í té allar nauðsynlegar upplýsingar svo tryggja megi rétta skráningu samkvæmt 4. mgr. 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá og að samþykktir kæranda hljóti að ráða þar mestu en þar komi skýrt fram að heiti hans sé [D]. Telur kærandi með vísan til þessa að fyrirtækjaskrá geti vart talist hafa gætt meðalhófs í málinu. Þá segir að slá megi því föstu með vísan til sjónarmiða kæranda að í lögunum sé ekki að finna ákvæði sem beinlínis standi því í vegi að tilkynning félagsins um breytingu á heiti þess verði skráð.
Hvað varðar þau sjónarmið sem koma fram í umsögn fyrirtækjaskrá að skráð firma félags þurfi að samræmast samþykktum þess þá telur kærandi að sú sé raunin í máli þessu og hafi kærandi bent fyrirtækjaskrá á það frá upphafi.
Í andmælabréfi kæranda kemur einnig fram að málið beri með sér að vera ekki nægilega rannsakað af hálfu fyrirtækjaskrár og biðlar kærandi til ráðuneytis um að rannsaka lagagrundvöll málsins sérstaklega, sem og hvort fyrirtækjaskrá hafi efnislegar heimildir til íhlutunar í starfsemi almennra félaga.
Um sjónarmið kærenda vísast að öðru leyti til þess sem segir í kæru og andmælabréfi.
Sjónarmið fyrirtækjaskrár
Í ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 30. mars 2021 og umsögn dags. 9. september 2021 er að finna sjónarmið skrárinnar í málinu.
Í ákvörðun fyrirtækjaskrár í málinu er vísað til þess að heiti kæranda sé samkvæmt samþykktum hans [B] skammstafað [D]. Vísar skráin til þess að skráin hafi áður hafnað því að skrá firmaheitið [B].
Fjallað er um ákvæði 1., 2., 4. og 8. gr. laga um fyrirtækjaskrá. Fram kemur að fyrirtækjaskrá hafi við gildistöku laganna verið flutt frá Hagstofu Íslands til ríkisskattstjóra. Einnig kemur fram að 8. gr. laga um
fyrirtækjaskrá hafi verið túlkuð þannig að fyrirtækjaskrá veitti opinberum aðilum, fyrirtækjum og almenningi auk vottorðs um skráningu lögaðila í fyrirtækjaskrá, afrit af þeim gögnum sem eru að baki skráningu viðkomandi lögaðila og þeim breytingum sem kunna að hafa verið gerðar.
Fyrirtækjaskrá vísar til þess að kærandi sé almennt félag og að ekki hafi verið sett sérstök lög um slík félög. Fram kemur að ákvæði laga um fyrirtækjaskrá gildi um skráningu félagsins en hvað ágreiningsmálið varði, þ.e. skráningu nafns eða heitis kæranda, þá bendir fyrirtækjaskrá á ákvæði annarra laga þar sem kveðið er á um að heiti félags skuli koma fram í samþykktum viðkomandi félags. Vísar skráin til laga um sameignarfélög, nr. 50/2007, laga um samvinnufélög, nr. 22/1991, laga um sjálfseignastofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999, laga um hlutafélög, nr. 2/1995, og laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994.
Hvað varðar starfsemi og skyldur fyrirtækjaskrár kemur fram að fyrirtækjaskrá telji að skránni beri að skrá heiti félags eða lögaðila á sama hátt og það kemur fyrir í félagssamningi, samþykktum eða öðrum sambærilegum gögnum. Eðli máls samkvæmt beri því að skrá nýtt heiti félags í samræmi við þau gögn sem fylgja tilkynningu um breytingu á heiti félags. Þannig krefjist kærandi þess að heiti kæranda verði ekki skráð eins og það kemur fyrir í samþykktum eða lögum hans heldur verði eingöngu skráð skammstöfun heitisins. Bendir fyrirtækjaskrá á að verði skráin við þeirri beiðni yrði skráð heiti í fyrirtækjaskrá [D] en heiti kæranda samkvæmt samþykktum hans væri [B] skammstafað [D].
Hvað varðar þau skráðu heiti félaga sem kærandi hefur nefnt í dæmaskyni þá bendir fyrirtækjaskrá á að heiti félaganna […], […] og […] eru skráð heiti þeirra félaga samkvæmt samþykktum þeirra. Hvað varðar skráningu á heitunum […], […] og […] þá bendir skráin á að um sé að ræða eldri skráningar frá því fyrirtækjaskráin var starfrækt af Hagstofu Íslands og að þær formkröfur sem gerðar voru hafi verið allt aðrar en nú er og ekki hafi á þeim tíma verið óskað eftir samþykktum eða lögum félags við skráningu í fyrirtækjaskrá.
Að lokum tekur fyrirtækjaskrá fram að röksemdir í ákvörðuninni og þær meginreglur sem gilda á því sviði sem um ræðir leiði til þess að skránni sé óheimilt að skrá nafn eða heiti félags með öðrum hætti en það kemur fram í gögnum félagsins, þ.e. samþykktum þess, laga, félagssamningi eða annarra jafngildra heimilda.
Í umsögn fyrirtækjaskrár í málinu hafnar skráin því að hin kærða ákvörðun sé ekki í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar, jafnræðisreglu, meðalhófsreglu, lögmætisreglu eða aðrar meginreglur stjórnsýsluréttar. Fyrirtækjaskrá ítrekar það sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun og gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Um sjónarmið fyrirtækjaskrár vísast að öðru leyti til þess sem segir í ákvörðun og umsögn fyrirtækjaskrár í málinu.
Með vísan til 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en ráðuneytið hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
Forsendur og niðurstaða
Eins og að framan greinir var stjórnsýslukæran borin upp hinn 28. júní 2021 við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Vegna breytinga á skipulagi Stjórnarráðsins, sbr. forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, og forsetaúrskurður um skiptingu starfa ráðherra, nr. 7/2022, heyra verkefni er varða skráningu fyrirtækja og félaga og málefni fyrirtækjaskrár nú undir málefnasvið menningar- og viðskiptaráðuneytis og menningar- og viðskiptaráðherra.
I.
Stjórnsýslukæra [A] barst ráðuneytinu innan kærufrests og er því löglega fram komin. Málið hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
II.
Í gögnum málsins kemur fram að kærandi noti jöfnum höndum í starfsemi sinni heitin [D] og [B] en að það heiti kæranda sem nú er skráð í fyrirtækjaskrá, þ.e. [A], sé ekki að finna í samþykktum hans. Þannig greini í samþykktum kæranda að heiti hans sé [D] eða [B] og vísar kærandi til samþykkta sem sendar voru fyrirtækjaskrá í upphafi árs 2016.
Í gögnum málsins kemur fram að kærandi hafi ítrekað krafist þess að fyrirtækjaskrá endurskoði afstöðu sína eða vísi með fullnægjandi hætti til lagaheimilda en það hafi ekki verið gert.
Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telji að fyrirtækjaskrá sé ekki skylt að skrá samþykktir almennra félaga og vísar hann um það til 1.-12. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá. Þannig hafi skráin frjálsari hendur en þegar um er að ræða skráningu atriða félaga sem sett hafa verið sérstök lög um. Þá telur kærandi að ekki sé í lögum að finna ákvæði sem standi því beinlínis í vegi að tilkynning félagsins um breytingu á heiti þess verði skráð.
Í 1. og 2. mgr. 1. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, segir að halda skuli fyrirtækjaskrá og að skráin skuli starfrækt af ríkisskattstjóra sem annist útgáfu á kennitölum til annarra en einstaklinga. Í 4. tölul. 2. gr. laganna segir að fyrirtækjaskrá skuli geyma upplýsingar um félög, samtök og aðila, aðra en einstaklinga, sem hafa með höndum eignaumsýslu, eru skattskyldir eða bera aðrar skattalegar skyldur og skv. 5. tölul. sömu greinar skal fyrirtækjaskrá geyma upplýsingar um aðra starfsemi sem ríkisskattstjóri sér ástæðu til að skrá í fyrirtækjaskrá.
Í 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá eru talin upp þau atriði sem skrá skal í fyrirtækjaskrá en samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. skal skrá heiti félags. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna skulu tilkynningaskyldir aðilar senda ríkisskattstjóra viðeigandi gögn við nýskráningu félags en samkvæmt 3. mgr. sömu greinar metur ríkisskattstjóri hvort veittar upplýsingar séu réttar og fullnægjandi og krefur tilkynningaskyldan aðila um frekari upplýsingar eða aflar þeirra sjálfstætt.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna skulu þeir aðilar sem falla undir 1.–4. tölul. 2. gr. laganna eða óska skráningar skv. 5. tölul. 2. gr. tilkynna sig til skráningar í fyrirtækjaskrá. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. skulu tilkynningar skv. 1. mgr. vera á sérstökum eyðublöðum sem ríkisskattstjóri lætur gera. Á vef Skattsins má finna eyðublaðið Umsókn um skráningu og úthlutun á kennitölu til félaga, samtaka og annarra aðila sem ekki stunda atvinnurekstur samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laga nr. 17/2003. Á framangreindu eyðublaði kemur fram að með umsókninni þurfi að fylgja afrit af samþykktum (lögum) félags.
Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um fyrirtækjaskrá er þeim aðilum sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá skylt að tilkynna ríkisskattstjóra allar breytingar er varða skráningu skv. 1.–8. tölul. 1. mgr. 4. gr. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar uppfærir ríkisskattstjóri fyrirtækjaskrá eftir tilkynningum og upplýsingum skv. 1. mgr., svo og eftir öðrum óyggjandi heimildum um starfsemi skráðra fyrirtækja.
Í 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga um fyrirtækjaskrá er kveðið á um að ríkisskattstjóra skuli veita opinberum aðilum, fyrirtækjum og almenningi upplýsingar úr fyrirtækjaskrá.
Við skráningu ber fyrirtækjaskrá að fara eftir þeim réttarreglum sem gilda á viðkomandi sviði. Eins og kunnugt er hafa ekki verið sett sérstök lög um almenn félög og gilda um slík félög ákvæði samþykkta viðkomandi félags og meginreglur félagaréttar, auk þess sem víða er að finna í lögum ákvæði sem varða einstaka þætti í starfsemi almennra félaga, t.d. í skattalögum, lögum um bókhald, nr. 145/1994, lögum um
fyrirtækjaskrá og lögum um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903 (firmalög), sem eðli máls samkvæmt verður ekki vikið til hliðar með samþykktum. Ráðuneytið telur engan vafa leika á um það að fyrirtækjaskrá beri að skrá upplýsingar um almenn félög og um þá skráningu gildi m.a. ákvæði laga um fyrirtækjaskrá, firmalaga, laga um skráningu raunverulegra eigenda, nr. 82/2019, og meginreglur laga á viðkomandi sviði. Með skráningu félags í fyrirtækjaskrá er leitast við að tryggja vitneskju manna um félaga, hagi þess og það hverjir eru í forsvari fyrir rekstrinum, hverjir geta skuldbundið félögin og hvernig ábyrgð á skuldbindingum þeirra sé háttað. Eins og rakið er hér að framan getur fyrirtækjaskrá óskað eftir upplýsingum til að tryggja rétta skráningu í samræmi við þær reglur sem gilda. Á grundvelli 2. mgr. 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá getur skráin m.a. óskað eftir afriti af samþykktum almenns félags við nýskráningu í fyrirtækjaskrá. Samþykkri almennra félaga skipta meginmáli við skýringu á réttarstöðu þeirra en þar má finna þann ramma og þær reglur sem viðkomandi félagi hafa verið settar auk þeirra lagareglna sem um þau gilda. Samþykktir almennra félaga eru birtar skv. 8. gr. laganna. Fyrirtækjaskrá óskar eftir sömu gögnum við skráningu á breytingu skv. 7. gr.
Ráðuneytið getur ekki fallist á það með kæranda að það sé utan verksviðs fyrirtækjaskrár að taka ákvörðun um hvort skrá skuli tilkynningar um nýskráningu almenns félags eða tilkynningu um breytingu á þegar skráðum atriðum slíkra félaga þar sem um íhlutun í starfsemi félags sé um að ræða. Ráðuneytið telur ekki leika vafa á því að fyrirtækjaskrá hafi heimild til að ákvarða um það hvort taka skuli til skráningar tilkynningu sem berast skránni, hvort sem tilkynningin varðar heiti félags eða annað sem skrá skal samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá. Ráðuneytið telur þetta eiga við um alla aðila sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá skv. 2. gr. laganna. Þannig verða ákvarðanir um atriði sem skrá skal að hafa verið teknar með réttum hætti samkvæmt þeim reglum sem um ákvarðanatökuna gilda.
III.
Í gögnum málsins kemur fram af hálfu kæranda að heiti félagsins sé [D] en ekki [B]. Þá bendir kærandi á að að fyrirtækjaskrá segi skráð firma félags þurfi að samræmast samþykktum þess og að sú sé einmitt raunin í tilviki kæranda, sbr. 1. gr. samþykkta félagsins. Verði tilkynning kæranda um breytingu á heiti skráð samkvæmt efni sínu yrði skráð heiti hans í fyrirtækjaskrá [D] en heiti kæranda samkvæmt 1. gr. samþykkta hans er [B] skammstafað [D].
Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að aðildarfélög kæranda hafi samþykkt á sambandsþingi að heiti félagsins sé [B] skammstafað [D] en ákvæði 1. gr. er svohljóðandi:
„Nafn samtakanna er [B] skammstafað [D]. Á ensku heiti samtökin [E] og á frönsku [F], Aðsetur og varnarþing er í Reykjavík.“
Ráðuneytið fellst á það með fyrirtækjaskrá að ekki er unnt að verða við beiðni kæranda og skrá tilkynninguna samkvæmt efni sínu þar sem slíkt væri í andstöðu við 1. gr. samþykkta kæranda en þar segir að heiti hans sé [B] skammstafað [D].
Við meðferð málsins sem hér um ræðir bar fyrirtækjaskrá að horfa til allra þeirra réttarreglna sem um almenn félög gilda, þ.m.t. samþykkta kæranda. Eins og rakið er að framan skipta samþykktir slíkra félaga meginmáli við skýringu á réttarstöðu þeirra. Í 1. gr. samþykktanna kemur heitir kæranda skýrlega fram en samkvæmt þeirri tilkynningu sem óskast skráð er heiti hans [D]. Ráðuneytið telur þannig að fyrirtækjaskrá hafi verið rétt að hafna skráningu tilkynningar kæranda í málinu þar sem heitið sem skráð er á tilkynninguna er ekki í samræmi við 1. gr. samþykkta hans.
IV.
Kærandi telur að hann hafi þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir ekki fengið upplýsingar um það á hvaða lagagrundvelli fyrirtækjaskrá byggir heimild til að hafna skráningu tilkynninga og rökstuðning fyrir höfnuninni. Í gögnum málsins bendir kærandi á að íþyngjandi ákvörðun eins og um ræðir í málinu verði að vera byggðar á skýrum lagaheimildum.
Í lögmætisreglunni felast tvenns konar undirreglur, annars vegar formregla og hins vegar heimildarregla (lagaáskilnaðarreglan) og tekur svarið við spurningunni mið af því.
Samkvæmt heimildarreglu lögmætisreglunnar (lagaáskilnaðarregla) skulu ákvarðanir stjórnvalda almennt eiga sér heimild í lögum, þ.e. Alþingi verður að hafa veitt stjórnvöldum heimild með lögum til þess að taka ákvarðanir. Í kjarna þessarar reglu felst að stjórnvöld geta almennt ekki íþyngt borgurunum með ákvörðunum sínum nema hafa til þess viðhlítandi heimild í lögum. Þetta gildir raunar bæði um stjórnvaldsákvarðanir og almenn stjórnvaldsfyrirmæli, svo sem reglugerðir.
Hvað varðar áskilnað heimildarreglu lögmætisreglunnar þess efnis að ákvarðanir stjórnvalda verði almennt eiga sér heimild í settum lögum, er ljóst, eins og rakið er hér að framan, að fyrirtækjaskrá, sem Ríkisskattstjóri starfrækir, hefur heimild að lögum til þess að taka ákvarðanir um þau málefni sem um ræðir í máli þessu. Þannig segir í 1. gr. laga nr. 17/2003 um fyrirstækjaskrá að halda skal skrá, fyrirtækjaskrá, eftir því sem nánar sé kveðið á um í lögunum. Þá segir að ríkisskattstjóri starfræki fyrirtækjaskrá og annist útgáfu á kennitölum til annarra en einstaklinga. Loks segir að ráðherra fari með mál sem varði fyrirtækjaskrá. Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna skal fyrirtækjaskrá m.a. geyma upplýsingar um félög af því tagi sem til skoðunar eru í þessu máli. Í 4. gr. segir að í fyrirtækjaskrá skuli skrá nánar tilteknar upplýsingar eftir því sem við eigi, þar á meðal nafn, lögheimili og kennitölu forráðamanna, sbr. 6. tölul. ákvæðisins. Af öllu þessu leiðir að heimild fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra og ráðherra sem æðra stjórnvalds, sem skjóta má ákvörðunum til með kæru, er skýr samkvæmt lögum nr. 17/2003 um fyrirtækjaskrá.
Að því er varðar formreglu lögmætisreglunnar, þ.e. að ákvarðanir stjórnvalda gangi ekki í berhögg við stjórnarskrá, lög eða reglugerðir, telur ráðuneytið að hin kærða ákvörðun hafi verið lögum samkvæmt. Það er mat ráðuneytisins, sem byggir á því sem að framan er rakið um hlutverk, heimildir og skyldur fyrirtækjaskrár, að fyrirtækjaskrá hafi verið rétt og skylt að synja um skráningu heitis kæranda, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá en á fyrirtækjaskrá hvílir sú skylda að skrá aðeins réttar upplýsingar.
Aðalatriðið er að ákvarðanir stjórnvalda mega ekki að efni til vera andstæðar þeim almennu réttarreglum (skráðum sem óskráðum) sem gilda um þau málefni er ákvörðun varðar. Ákvörðun fyrirtækjaskrár um að hafna skráningu tilkynningar um heitir kæranda sem er almennt félag réðst af reglum félagaréttarins, nánar tiltekið þeim reglum sem gilda um það málefni sem ákvörðunin varðaði.
Eins og fyrr segir hafa ekki verið sett lög um almenn félög hér á landi. Réttarheimilda verður því að leita annars staðar en einkum er litið til samþykkta félags, fordæma á sviði félagaréttar og venja sem hafa myndast í tímans rás innan almennra félaga. Þá hafa fræðimenn talið að meginreglur laga og eðli máls hafi einkum þýðingu í þessu sambandi. Fullyrða má að ýmsar meginreglur á sviði félagaréttar sé að finna í settum rétti, t.d. lögum um hlutafélög og einkahlutafélög, en slíkar reglur hafa tvímælalaust mikla þýðingu við úrlausn þess hvaða réttarreglur gildi um almenn félög.
Auk þess sem að framan greinir telur ráðuneytið að sömu meginreglu og leiða má af fjölmörgum ákvæðum félagaréttarlöggjafarinnar skuli beita um almenn félög, þ.e. að skráð heiti félags skuli vera í samræmi við heiti félagsins samkvæmt samþykktum þess, en að öðrum kosti verði beiðni um skráningu á heiti/breytingu á heiti hafnað. Fyrirtækjaskrá var beðin um að skrá annað heiti almenns félags og var henni rétt að synja um skráninguna. Í þessu sambandi skal áréttað að fyrirtækjaskrá er bundin af reglum félagaréttarlöggjafarinnar við skráningu í fyrirtækjaskrá, sem og annarrar löggjafar, eftir því sem við á.
Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til 1., 2. og 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá, sem og 8. gr. Einnig er vísað til ákvæða laga um sameignarfélög, nr. 50/2007, laga um samvinnufélög, nr. 22/1991, laga um sjálfseignastofnanir sem stunda atvinnurekstur, nr. 33/1999, laga um hlutafélög, nr. 2/1995 og laga um
einkahlutafélög, nr. 138/1994. Þá er vísað til þeirra meginreglna sem telja verði að séu í gildi á því sviði sem um ræðir. Með vísan til þessa getur ráðuneytið ekki fallist á það að í hinni kærðu ákvörðun sé ekki vísað til þeirra lagaheimilda sem ákvörðunin byggir á. Ráðuneytið telur þó að e.t.v. hefði mátt fjalla með skýrari hætti um það hvaða réttarreglum ákvörðun skrárinnar byggir á. Engu að síður telur ráðuneytið að ákvörðunin byggi á réttum grunni og að skráin hafi heimild til að hafna skráningu tilkynningar með þeim hætti sem hún gerir.
Með vísan til þess sem að framan greinir telur ráðuneytið að áskilnaði lögmætisreglunnar sé fullnægt.
V.
Hvað varðar þau sjónarmið kæranda að hin kærða ákvörðun feli í sér brot á jafnræðisreglum og bendir hann í því sambandi á að nokkur félög hafi fengið skráð í fyrirtækjaskrá skammstöfun heita þó að umrædd skammstöfun komi ekki fram í samþykktum viðkomandi félaga. Kærandi tekur fram að borgara landsins eigi ekki að þurfa að sæta því að stofnun breyti efnisreglum án þess að lagabreyting hafi orðið á viðkomandi sviði og að fyrirtækjaskrá geti ekki borið fyrir sig flutning verka er varða skráningu lögaðila milli stofnana.
Hvað varðar framangreind sjónarmið um að viðgengist hafi í gegnum tíðina skráning á skammstöfun heita í fyrirtækjaskrá þrátt fyrir að umrædda skammstöfun sé ekki að finna í samþykktum viðkomandi félaga þá eru svör fyrirtækjaskrár tvíþætt. Annars vegar tekur skráin fram að í hluta þeirra tilvika sem kærandi bendir á, s.s. í tilviki […] og […], sé skráning á heiti viðkomandi félags í samræmi við samþykktir félagsins. Í tilvikum […] og […] á Íslandi, […] og […] í […], sem og upphaflegar skráning á skammstöfuninni […] þá hafi þær skráningar verið gerðar í gildistíð eldri laga um fyrirtækjaskrá og að framkvæmd skráningar hafi breyst eftir að verkefnið flutti frá Hagstofu Íslands til ríkisskattstjóra.
Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu stjórnvöld við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.
Ráðuneytið telur að þrátt fyrir að framkvæmdin hafi verið önnur við skráningu í fyrirtækjaskrá í gildistíð eldri laga þá verði að telja að sú framkvæmd sem nú viðgengist sé í samræmi við þær réttarheimildir sem gilda um skráningu félaga og fjallað hefur verið um hér að framan. Ráðuneytið fær því ekki séð að sú breyting á framkvæmd skráningar sem fjallað er um í hinni kærðu ákvörðun geri það að verkum að um brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sé að ræða enda byggir framkvæmdin nú á gildandi réttarheimildum. Þá er rétt að nefna að á undanförnum árum hafa verið skráð fjögur félög undir heitinu […] en ekki verður betur séð en að þær skráningar séu í samræmi við eldri skráningar sama heitis.
VI.
Í gögnum málsins fjallar kærandi m.a. um meðalhóf við skráningu fyrirtækja. Telur kærandi að fyrirtækjaskrá hafi ekki bent á reglur sem koma í veg fyrir skráningu á heiti [D] og að ákvörðun skrárinnar frá 16. mars 2018, sem vísað er til í hinni kærðu ákvörðun, komi málinu ekki við og að óheimilt sé að horfa til hennar í þessu máli þar sem hún byggir á öðrum grundvelli.
Af gögnum málsins verður ekki ráðið að með því að vísa til ákvörðunar dags. 16. mars 2018, þar sem skráin hafnar því að skrá tilkynningu um breytingu á heiti kæranda, sé fyrirtækjaskrá að reisa ákvörðun í því máli sem hér er til umfjöllunar á niðurstöðunni í eldra málinu. Fyrirtækjaskrá hefur þegar, að mati ráðuneytisins, fært rök fyrir þeirri niðurstöðu sinni að skráning á heitinu [D] samrýmist ekki þeim réttarreglum sem um skráningu heita almennra félaga gilda. Rétt er að taka fram hér að ákvörðun fyrirtækjaskrár frá 16. mars 2018 um að synja um skráningu á firmaheitinu [B] var staðfest af ráðuneytinu með úrskurði dags. 25. september 2019 og stendur sú niðurstaða óhögguð.
VII.
Í andmælabréfi kæranda kemur m.a. fram að málið beri með sér að vera ekki nægilega rannsakað af hálfu fyrirtækjaskrár og biðlar kærandi til ráðuneytis um að rannsaka lagagrundvöll málsins sérstaklega og nefnir kærandi í því sambandi efnislegar heimildir fyrirtækjaskrár um íhlutun í starfsemi almennra félaga.
Eins og rakið hefur verið hér að framan skal halda fyrirtækjaskrá og skal ríkisskattstjóri starfrækja fyrirtækjaskrá og annast útgáfu á kennitölum til annarra en einstaklinga, sbr. 1. gr. laga um fyrirtækjaskrá. Í fyrirtækjaskrá skal m.a. halda upplýsingar um félög, sbr. 4. tölul. 2.gr. laga um fyrirtækjaskrá, og skal í skránna m.a. skrá upplýsingar um heiti félags, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna. Skráning í fyrirtækjaskrá, m.a. skráning heitis félags, verður að vera í samræmi við þær réttarheimildir sem gilda um skráninguna og viðkomandi félag, hér má nefna auk laga um fyrirtækjaskrá, lögum um verslanaskrá, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903, samþykktir viðkomandi félags og aðrar réttarheimildir sem eiga við um þann lögaðila sem um ræðir í hvert skipti. Þannig er ríkisskattstjóra falið með lögum um fyrirtækjaskrá að annast skráninguna í samræmi við þær réttarheimildir sem um skráninguna gilda. Eitt af þeim úrræðum sem skráin hefur er að hafna skráningu tilkynninga um nýskráningu eða breytingu ef tilkynning er ekki í samræmi við lög eða aðrar réttarheimildir, m.a. samþykktir félags.
Ráðuneytið fær ekki séð af gögnum málsins að uppi sé vafi af hálfu ríkisskattstjóra um hlutverk sitt samkvæmt lögum um fyrirtækjaskrá eða þær heimildir sem stofnunin hefur til að tryggja rétta skráningu upplýsinga í fyrirtækjaskrá.
VIII.
Með vísan til alls þess sem að framan greinir er það niðurstaða ráðuneytisins í málinu að staðfesta ákvörðun ríkisskattstjóra sem starfrækir fyrirtækjaskrá, dags. 30. mars 2021, um að hafna skráningu tilkynningar um breytingu á nafni [A] sem móttekin var hinn 14. ágúst 2020.
Ráðuneytið biðst velvirðingar á hve afgreiðsla málsins hefur dregist.


Úrskurðarorð
Ákvörðun ríkisskattstjóra sem starfrækir fyrirtækjaskrá, dags. 30. mars 2021, um að hafna skráningu tilkynningar um breytingu á nafni [A] sem móttekin var hinn 14. ágúst 2020, er hér með staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum