Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins

Endurupptaka

Beiðni um endurupptöku

Hinn 22. desember 2017 barst ráðuneytinu endurupptökubeiðni frá [F slf.] fyrir hönd [X ehf.] (kærandi).

Kærandi fer fram á að ráðuneytið taki mál hans til nýrrar meðferðar. Um er að ræða úrskurð ráðuneytisins frá 12. desember 2017 þar sem höfnun nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar, á endurgreiðslum á framleiðslukostnaði vegna verkefnisins Kórar Íslands, var staðfest. Nefnd um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar komst að þeirri niðurstöðu að skilyrði laga nr. 43/1999 og reglugerðar nr. 450/2017 væru ekki uppfyllt og því hafnaði nefndin umsókn kæranda vegna framleiðslu sjónvarpsþáttanna Kórar Íslands. Nefndin taldi þættina ekki uppfylla menningarhluta verkefnamats skv. 3. gr. fyrrgreindar reglugerðar, en verkefnið þarf að fá 4 stig í fyrrgreindum menningarhluta sbr. 6. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Verkefnið hlaut hins vegar aðeins 3 stig. Ráðuneytið staðfesti ákvörðun nefndarinnar með úrskurði sínum 12. desember 2017.

Kærandi telur úrskurð ráðuneytisins ekki standast lög og góða stjórnsýsluhætti. Kærandi telur bæði nefndina og ráðuneytið hafa lagt rangt mat á þær upplýsingar sem ákvörðunin byggir á og að lögð hafi verið til grundvallar ómálefnaleg sjónarmið við töku ákvörðunarinnar. Þá telur kærandi ákvörðunina brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Af þessu tilefni fer kærandi fram á að ráðuneytið taki málið til nýrrar meðferðar.

Grundvöllur endurupptöku

Kærandi bendir á að fullt tilefni sé til endurupptöku málsins þó skilyrði endurupptökuheimildar 24. gr. stjórnsýslulaga sé ekki uppfyllt. Samkvæmt ákvæðinu er endurupptaka heimil þegar ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingu um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því er ákvörðun var tekin. Ráðuneytið tekur undir með kæranda að skilyrði endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga eru ekki uppfyllt.

Kærandi bendir hins vegar á að í ýmsum tilvikum geta aðilar átt rétt til endurupptöku með vísan til óskráðra grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins. Aðilar eiga rétt til að krefjast endurupptöku þegar ákvörðun hefur falið í sér brot gegn jafnræðisreglu eða þegar stjórnvald byggir ákvörðun sína á röngu mati. Kærandi byggir endurupptökubeiðnina á hvoru tveggja.

Almennt er ekki skylda á stjórnvaldi að endurupptaka stjórnsýslumál sem stjórnvaldið hefur þegar lokið með töku stjórnvaldsákvörðunar heldur þarf, þegar lögfestum heimildum sleppir, eitthvað veigamikið að koma til svo endurupptökuréttur teljist vera til staðar. Skylda hvílir á stjórnvaldinu að kanna hvort til staðar séu atvik sem eru með þeim hætti að aðili máls eigi rétt til endurupptöku.

Skilyrðin sem ráðuneytinu ber að kanna nánar eru meðal annars þau sem kærandi nefnir sérstaklega í endurupptökubeiðni sinni. Dæmi um önnur skilyrði eru þau að ákvörðun hafi verið reist á röngum lagagrundvelli eða hinar lagalegu forsendur fyrir ákvörðun hafa breyst verulega eða að verulegur annmarki hafi verið á málsmeðferð stjórnvalds á úrlausn hins upphaflega stjórnsýslumáls. Þau sjónarmið eiga ekki við í máli þessu.

Endurupptaka málsins á grundvelli þess sjónarmiðs að ákvörðun ráðuneytisins hafi verið byggð á röngu mati og broti á jafnræðireglu

Ráðuneytið telur að atvik séu með þeim hætti að niðurstaða um það hvort mat ráðuneytisins frá 12. desember 2017 hafi verið byggt á röngu mati eða ekki fáist ekki án frekari rannsóknar og því sé ráðuneytinu skylt að endurupptaka málið. Við það mat kemur ráðuneytið alltaf til með að meta verkefni kæranda í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.

Kærandi telur að túlkun nefndarinnar, og síðar ráðuneytisins, á menningarskilyrðum reglugerðar nr. 450/2017 hafi verið ómálefnaleg og eftir atvikum í andstöðu við orðalag laga nr. 43/1999 og reglugerðar nr. 450/2017.

Vísar kærandi í því sambandi sérstaklega til d. og g. liða í 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, sem eru svohljóðandi:

„d. Söguþráður, handrit eða viðfangsefni byggir á bókmenntaverki eða er sótt til annarrar listgreinar (t.d. myndlistar, tónlistar) sem hefur menningarlegt vægi.

g. Verkefnið beinist að íslenskum eða evrópskum siðum og venjum eða menningu og sjálfsmynd. „

Hvað aðra stafliði varðar vísar kærandi til framlagðra gagna á fyrri stigum. Engin ný sjónarmið eru lögð fram eða bent á hvernig túlkun ráðuneytins hafi verið byggð á röngu mati varðandi aðra stafliði. Ráðuneytið telur óþarfi að reifa aðra stafliði en d. og g. lið í 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar og vísar ráðuneytið í umfjöllun hvað aðra stafliði varðar til úrskurðar ráðuneytisins frá 12. desember 2017.

Túlkun á d. lið 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 450/2017

Kærandi telur túlkun nefndarinnar, og síðar ráðuneytisins, á d. lið 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar ranga. Kærandi bendir á að í hverjum þætti af þáttaröðinni Kórar Íslands flytji kórar ýmis lög. Oft á tíðum ábreiður af þekktum lögum sem eru sett í nýjan og áður óþekktan búning. Um 30% af hverjum þætti felist í tónlistarflutningi kóra. Annað efni þáttanna tengist þó bæði tónlistinni sem um ræðir og/eða kórunum sem flytja hana. Með vísan til þess hversu stór hluti þáttanna fer í tónlistarflutning, byggir kærandi á því að augljóslega sé um að ræða viðfangsefni í skilningi ákvæðisins. Þar af leiðandi sé viðfangsefni þáttanna vissulega sótt úr öðru höfundaverki.

Kærandi bendir á að hann fái ekki séð hvernig lögin eru flutt eða hvernig ferlið við val á lögum hefur  áhrif á það hvort um sé að ræða söguþráð, handrit eða viðfangsefni. Kærandi telur að um sé að ræða rökleysu af hálfu ráðuneytisins að vísa til þess að flutningur sé of almennur eða að val á lögum sé of almennt til að hægt sé að fullyrða að söguþráður, handrit eða viðfangsefni sæki efni úr öðru höfundaverki.

Niðurstaða ráðuneytisins hvað varðar túlkun á d. lið 3. mgr. 3. gr.

Ráðuneytið vísar til úrskurðar ráðuneytisins, dags. 12. desember 2017, og umfjöllunar þar um þennan tiltekna staflið. Ráðuneytið fellst ekki á að það sé rökleysa að vísa til þess að flutningur sé of almennur eða að val á lögum sé of almennt. Þættir kæranda fjalla um kóra sem syngja í sjónvarpssal lög sem þeir velja með almennum hætti. Ekki verður að mati ráðuneytisins séð að lagavalið hafi ákveðna skírskotun í skilningi d. liðar 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Að mati ráðuneytisins hafa ekki verið lögð fram ný gögn sem breyta fyrri niðurstöðu ráðuneytisins hvað þennan þátt varðar og vísast því til úrskurðar ráðuneytisins frá 12. desember 2017 hvað staflið d. varðar.

Túlkun á g. lið 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 450/2017

Kærandi bendir einnig á að túlkun ráðuneytisins á g. lið 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar standist ekki. Í afgreiðslu nefndarinnar fékk verkefni kæranda 1 stig af 2 stigum mögulegum fyrir þann staflið, og var sú niðurstaða staðfest í úrskurði ráðuneytisins 12. desember 2017. Kærandi telur að í úrskurði sínum hafi ráðuneytið blandað skilyrðum c. og g. liðar saman. Kærandi bendir á að um sé að ræða tvö aðskilin skilyrði sem ekki beri að meta saman. Til þess að fá stig fyrir lið c. þurfa íslenskir staðhættir eða menningarlegt sögusvið að vera hluti af framvindu eða efnistökum framleiðslunnar með einhverjum hætti. Vísar liður c. þannig til staðsetningar eða sögusviðs framleiðslunnar. Verkefnið fékk 2 stig af tveimur mögulegum fyrir lið c. Hins vegar, til að fá stig fyrir lið g. þarf verkefnið eða efnistök framleiðslunnar að beinast sérstaklega að tilteknum íslenskum siðum, venjum, sjálfsmynd eða menningu. Liður g. vísar almennt til siða, venju, sjálfsmyndar eða menningar. Kærandi telur nauðsynlegt að ráðuneytið endurskoði mat sitt á þann hátt að ekki sé tekið tillit til liðar c. við stigagjöf vegna liðar g.

Niðurstaða ráðuneytisins hvað varðar túlkun á g. lið 3. mgr. 3. gr.

Að mati ráðuneytisins ber að líta svo á að verkefni kæranda „beinist að íslenskum eða evrópskum siðum og venjum eða menningu og sjálfsmynd“, samanber orðalag stafliðsins. Handrit og efnistök framleiðslunnar beinast þannig að tilteknum íslenskum og evrópskum siðum, venjum og sjálfsmynd, sem er kóramenning. Kóramenningu á Íslandi og í Evrópu má rekja margar aldir aftur í tímann og eru hluti af sjálfsímynd Íslands í alþjóðlegu samhengi og stór hluti af íslenskri menningu í sögulegu samhengi. Á Íslandi starfa vel á annað hundrað kórar.

Með hliðsjón af almennri sögulegri skírskotun íslensks kórastarfs og kórsöngs til siða, venju, menningar og sjálfsmyndar Íslands, verður ekki séð að mati ráðuneytisins, við endurskoðun málsins, að fullnægjandi ástæður eða röksemdir séu til staðar til að hafna því að veita umræddu verkefni tvö stig fyrir þennan staflið. Að mati ráðuneytisins eru því fram komin í máli þessu réttmæt sjónarmið sem leiða til þess að veita beri umræddu verkefni tvö stig fyrir staflið g. í 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 450/2017. Ráðuneytið fellst því á sjónarmið kæranda að því er staflið g varðar.

Niðurstaða ráðuneytisins

Með vísan til framangreinds fellst ráðuneytið á röksemdir kæranda að því er varðar staflið g. í 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 450/2017. Ekki er fallist á aðra þætti í kærunni. Að mati ráðuneytisins skal verkefnið Kórar Íslands hljóta tvö stig fyrir g. lið 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 450/2017. Aðrir liðir standa óbreyttir. Samtals hlýtur verkefnið því 4 stig úr menningarhluta 3. mgr. 3. gr. framangreindrar reglugerðar.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að úrskurður ráðuneytisins frá 12. desember 2017, og ákvörðun nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar dags. 12. október 2017, hafi verið byggður á röngu mati að því er mat á g. lið 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 450/2017 varðar.

Að því sögðu er lagt fyrir nefnd um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar að taka málið til efnismeðferðar að nýju og meta verkefni Kórar Íslands í samræmi við 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 450/2017 um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi og hvort verkefni kæranda uppfylli skilyrði 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 450/2017.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta