Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru: Skráning firmaheitis

Mánudaginn, 3. júní 2024, var í menningar- og viðskiptaráðuneytinu
kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:


Stjórnsýslukæra
Vísað er til stjórnsýslukæru [A], kt. […] (hér eftir kærandi), vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra sem starfrækir fyrirtækjaskrá (hér eftir fyrirtækjaskrá) frá 10. mars 2023 um að hafna því að skrá tilkynningu um breytingu á heiti kæranda í [B] Stjórnsýslukæran barst með bréfi [D], dags. 12. apríl 2023.
Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Kröfur
Í kærunni er þess krafist að ákvörðunin verði ógilt og skráningin heimiluð.


Málsatvik
Þann 7. nóvember 2022 var fyrirtækjaskrá send tilkynning [A] um breytingu á heiti félagsins í [B]. Þann 9. nóvember 2022 barst kæranda tölvubréf frá fyrirtækjaskrá þar sem gerð er athugasemd við tilkynninguna og kemur fram í tölvubréfinu að ekki sé hægt að skrá heitið [B] án leyfis frá einkahlutafélaginu [E], kt. […]. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir því að málið yrði tekið fyrir á sérfræðingafundi hjá fyrirtækjaskrá, sbr. tölvubréf kæranda frá 12. nóvember 2022. Málið var tekið fyrir á sérfræðingafundi 16. nóvember 2022 og kæranda tilkynnt þann sama dag að niðurstaða fundarins hefði verið að hafna skráningu tilkynningarinnar. Með tölvubréfi 29. nóvember 2022 óskaði lögmaður kæranda eftir skriflegri ákvörðun fyrirtækjaskrár um synjun á skráningu tilkynningarinnar. Fyrirtækjaskrá ákvarðaði í málinu 10. mars 2023 og var sú ákvörðun eins og fyrr segir kærð til ráðuneytisins á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga.

Stjórnsýslukæra kæranda barst ráðuneytinu þann 13. apríl 2023. Málið þróaðist þannig við meðferð þess að ráðuneytið óskaði í tvígang eftir umsögn fyrirtækjaskrár. Kæranda og [E] var jafnframt gefið færi á að koma að sjónarmiðum í málinu í tvígang.
Um atvik máls vísast að öðru leyti til þess sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun og gögnum málsins.
Sjónarmið kæranda
Í kæru er fjallað um 1. og 2. mgr. 1. gr., 4. tölul. 2. gr. og 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá, nr. 17/2003, og 1., 8. og 10. gr. laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903 (hér eftir firmalög). Vísað er til þess markmiðs firmalaga að upplýsa um ákveðin atriði félaga, þ.e. um „hag og ástand félaga“, hver hafi rekstur félags með höndum og tryggja að heiti félags gefi rétta mynd af starfssviði þess, sbr. athugasemdir með frumvarpi því er varð að firmalögum. Fram kemur að fyrirtækjaskrá beri að líta til nokkurra þátta þegar metið er hvort skráning á nýju firmaheiti uppfylli skilyrði laganna, m.a. hvort heiti sé eign annars, hvort um ruglingshættu sé að ræða og hvort heitið sé almennt orð sem ekki sé hægt að banna öðrum að nota í sínum rekstri. Þá kemur fram að fyrirtækjaskrá beri að líta til ákvæða vörumerkjalaga og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, og er fjallað stuttlega um 15. gr. a síðarnefndu laganna.


Í kærunni er m.a. vísað til upplýsinga á vef Skattsins um þau viðmið sem fyrirtækjaskrá leggur til grundvallar um almenn heiti við mat á skráningarhæfi firmaheita. Fram kemur að firmaheitið [E] hafi verið skráð í fyrirtækjaskrá þann […] 2022 og sé notkun orðsins fyrir þann tíma skoðuð sé ekki unnt að fallast á að orðið […] sé uppfinning einkahlutafélagsins [E] Leitað var að orðinu á vefsíðunni www.timarit.is. Í fylgiskjali 7 með kæru eru nefnd dæmi um notkun á orðinu og er elsta dæmið frá árinu
Stjórnarráð Íslands
Menningar- og viðskiptaráðuneytið
Sölvhólsgötu 7
101 Reykjavík
stjornarradid.is
545 9800


1943 í tímaritinu Lögberg en þar kemur heitið […] fyrir. Einnig eru nefnd dæmi um umfjöllun í tímaritum um […]sýningu, […], og sölu á áfengi sem nefndist […] Þá kemur fram að notkun á orðinu hafi verið algeng meðal Íslendinga í Vesturheimi, m.a. sem heiti verslunar sem starfaði í […] um árabil. Telur kærandi framangreint sýna að niðurstaða fyrirtækjaskrár um að orðið […] sé ekki almennt heiti sé röng og ekki í samræmi við viðmið skrárinnar sem birt eru á vef Skattsins.


Kærandi bendir enn fremur á að þann […] 2022 hafi hann lagt inn umsókn um skráningu orðmerkisins […] sem vörumerki hjá Hugverkastofunni, sbr. umsókn nr. […]. Með bréfi dags. […] 2022 hafi Hugverkastofan tilkynnt um fyrirhugaða synjun á skráningu vörumerkisins á þeim grundvelli að það skorti sérkenni og aðgreiningarhæfi í tengslum við þá vöru og þjónustu sem það óskaðist skráð fyrir.
Hvað ruglingshættu varðar er í kæru vísað til umfjöllunar í hinni kærðu ákvörðun um að þó heitið […] yrði talið almennt heiti þá aðgreini viðbótin […] félögin ekki með fullnægjandi hætti en skráður tilgangur [E] sé m.a. […]. Hvað framangreint varðar bendir kærandi á að skráður tilgangur [E] í fyrirtækjaskrá og ÍSAT atvinnugreinaflokkum gefi ekki til kynna að starfsemi félagsins tengist […]. Af tilkynningu um breytingu á samþykktum [E] þann 18. ágúst 2022 megi sjá að við tilgang félagsins hafi verið bætt „[…]“ en þá starfsemi hafi félagið aldrei fengist við eins og sjá megi af ársreikningum þess. Kærandi telur að við mat á ruglingshættu hvað starfsemi og vöru/þjónustulíkingu varðar beri að líta til raunverulegrar starfsemi félaganna sem um ræðir og gera þá kröfu að aðilar sýni fram hana. Sé það ekki gert geta einstaka aðilar eignað sér heilu starfssviðin. Þannig sé ruglinghætta hvað varðar þjónustu kæranda og [E] engin þar sem raunveruleg starfsemi síðarnefnda félagsins tengist ekki […]. Telur kærandi með vísan til þessa og með hliðsjón af firmalögum og viðmiðum fyrirtækjaskrár að orðið […] sé almennt heiti og að ruglingshætta sé ekki til staðar þegar horft er til starfsemi félaganna tveggja.
Með kæru fylgdi afrit af tilkynningu til fyrirtækjaskrár og tölvupóstsamskiptum kæranda við fyrirtækjaskrá frá nóvember 2022, hin kærða ákvörðun dags. 10. mars 2023, dæmi um notkun orðsins […] af timarit.is og erindi Hugverkastofunnar til kæranda dags. […] 2022.
Með bréfi dags. 11. maí 2023 var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um umsögn fyrirtækjaskrár í málinu, dags. 8. maí 2023.


Í andmælabréfi kæranda, dags. 31. maí 2023, er vísað til viðmiða við skráningu firmaheita sem birt eru á vefsíðu Skattsins og að þar komi fram að ef upp komi vafatilvik við mat á því hvort firmaheiti sé skráningarhæft sé leitað til Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Fram kemur að kæranda sé ekki kunnugt um að það hafi verið gert í málinu. Einnig er áréttað það sem fram kemur í kæru að orðið […] hafi verið notað í íslensku máli í nær áttatíu ár og því sé um almennt heiti í íslensku máli að ræða þó að orðið sé ekki að finna í íslenskri orðabók. Því sé niðurstaða fyrirtækjaskrár um að orðið […] sé ekki almennt heiti röng og ekki í samræmi við þau viðmið sem birt eru á vefsíðu Skattsins. Þá gerir kærandi kröfu um það að ráðuneytið leysi úr þeim ágreiningi hvort telja skuli orðið […] almennt heiti eða ekki, burtséð frá því hvort viðbótin […] sé fullnægjandi viðbót. Að öðru leyti er vísað til þess sem fram kemur í kæru.
Með bréfi dags. 22. ágúst 2023 var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um andmæli [E] í málinu.
Andmæli kæranda bárust með bréfi dags. 4. september 2023. Þar áréttar kærandi að þau gögn sem lögð hafa verið fram í málinu sýni að orðið […] sé ekki uppfinning [E]. Fullyrðingar [E] um að umfjallanir í blaðagreinum af vefsíðu tímarit.is séu tilkomnar vegna kynningar fyrirsvarsmanns félagsins á vörmerki sínu […] séu ekki studdar gögnum. Auk þess beri blaðagreinar um Íslendingahátíð eða […] ekki með sér aðkomu hans að þeim. Gögn sem kærandi hefur lagt fram sýni fram á notkun á orðinu í Vesturheimi frá árinu 1943 og því sé röng sú fullyrðing um að öll notkun á orðinu þar sé tilkomin vegna framangreindrar kynningar á vörumerkinu […]. Kærandi telur að jafnvel þótt einhver þeirra blaðagreina sem hann lagði fram í málinu hafi tengingu við fyrirsvarsmann [E] þá eigi það ekki við um þær allar og hafi því ekki þýðingu við mat á því hvort orðið telst almennt eða sértækt. Kærandi telur að orðið [...] sé ekki uppfinning [E] og að orðið hafi verið notað í íslensku máli í áratugi þó það sé ekki að finna í orðabókum. Telur kærandi að um vafatilvik sé að ræða og að leita hefði átt álits Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum svo sem gert er ráð fyrir í viðmiðum um skráningu firmaheitis á vef Skattsins. Telur kærandi að niðurstaða fyrirtækjaskrár um að heitið sé ekki almennt vera ranga og ekki í samræmi við framangreind viðmið. Hvað varðar umfjöllun í andmælabréfi [E] um skráðan tilgang þess félags í […] bendir kærandi á að um villandi málatilbúnað sé að ræða. Bendir kærandi á að firmaheitið [E] hafi fyrst verið skráð í febrúar 2022 og því sé ekki um rótgróið firmaheiti að ræða. Fram kemur að kærandi hafi tekið vörumerkið [...] í notkun fyrir […] og tengda starfsemi í lok […] 2022. Um mitt ár 2022 hafi [E] svo breytt tilgangi félagsins og […] skráð sem hluti skráðs tilgangs. Telur kærandi að breyting á tilgangi [E] hafi verið gerð til að hindra kæranda í að nota auðkennið í starfsemi sinni. Mótmælir kærandi þeim fullyrðingum að [E] starfi við […] eða tengda starfsemi, ekki séu nokkur merki þar um. Ítrekar kærandi þá kröfu sína að ráðuneytið skeri úr um það hvort orðið [...] sé almennt heiti. Kærandi mótmælir því sem [E] heldur fram að félagið eigi fjölda vörumerkja með orðinu [...] en félagið eigi skráð stílfært orð- og myndmerki í flokkum 32 og 34 fyrir nánar tilteknar drykkjarvörur, sbr. […]. Fram kemur að kærandi hafi lagt fram kröfu um niðurfellingu skráningarinnar hjá Hugverkastofunni á grundvelli notkunarleysis. Fram kemur að skráning á orð- og myndmerkinu [...] nr. […] sé í eigu [F] en ekki [E] en að í skráningunni felist ekki einkaréttur á orðinu [...] og því hafi eignarhald skráningarinnar enga þýðingu. Fram kemur að í maí og júní 2023 hafi Hugverkastofan samþykkt til birtingar nokkur vörumerki sem öll innihalda orðið [...], m.a. hafi orðmerki kæranda [A] [...], sbr. skráning nr. […], verið samþykkt. Vísar kærandi til þess að Hugverkastofan hafi gert þann fyrirvara við skráninguna að á umsóknardegi hafi orðið [...]í merkinu ekki uppfyllt skilyrði um skráningarhæfi eitt og sér. En orðið […] í fyrri hluta merkisins og þar með heildarmynd merkisins teljist uppfylla skilyrði laga um vörumerki um sérkenni og aðgreiningarhæfi sbr. 13. gr. laganna. Telur kærandi að framangreint sé í samræmi við fyrri afstöðu Hugverkastofunnar um að orðið sé almenns eðlis, sbr. umfjöllun í kæru.
Með bréfi dags. 26. september 2023 var kæranda gefið færi á að tjá sig um umsögn fyrirtækjaskrár, dags. 20. september 2023 í málinu.


Andmæli kæranda bárust með bréfi dags. 27. september 2023. Hvað varðar umfjöllun í umsögn fyrirtækjaskrár dags. 20. september 2023 um að skráin teldi orðið [...] ekki íslenskt orð og því hafi skráin ekki talið að um slíkt vafatilvik væri að ræða að rétt væri að leita til Stofnunar Árna Magnússonar bendir kærandi á að í viðmiðum fyrir skráningu firmaheita á vef Skattsins komi fram að notkun á erlendum heitum í firmaheitum sé ekki bönnuð og sé heiti almennt í enskri tungu sé ekki unnt að banna öðrum að nota heitið með aðgreiningu. Kærandi telur að þrátt fyrir að orðið sé enskt skuli það teljast almennt heiti og að áratuga notkun styðji það, sem og afstaða Hugverkastofunnar um að orðið sé almennt og lýsandi. Kærandi mótmælir þeim sjónarmiðum fyrirtækjaskrár að túlka umfjöllun í viðmiðum um skráningu firmaheitis um hvað teljist uppfinning þannig að það eigi við um skráningu firmaheitis. Kærandi telur framangreint vera í andstöðu við skýrt orðalag viðmiða um skráningu firmaheitis og að ekki sé um uppfinningu að ræða hafi orð verið notað áður og þá gildir einu í hvaða samhengi það er notað. Telur kærandi skýrt að sé orð sótt í almennan orðaforða geti það ekki talist uppfinning, sama hvort um ræðir á íslensku eða erlendri tungu. Ítrekar kærandi að hann hafi sýnt fram á að orðið hafi verið notað frá því á fimmta áratug síðustu aldar og því geti það ekki talist uppfinning [E]. Þá ítrekar kærandi kröfu sína og áréttar öll málsatvik, málsástæður og lagarök sem áður hafa komið fram af hans hálfu í málinu.
Kærandi hefur jafnframt sent ráðuneytinu afrit af úrskurði Hugverkastofunnar […], dags. […] 2024, um að andmæli gegn skráningu [...] (orðmerki) nr. […] séu ekki tekin til greina og skuli skráning merkisins halda gildi sínu.
Um sjónarmið kærenda vísast að öðru leyti til þess sem segir í kæru og andmælabréfi kæranda.

Sjónarmið fyrirtækjaskrár
Í hinni kærðu ákvörðun eru atvik málsins rakin sem og málsástæður kæranda. Gerð er grein fyrir tilgangi félaganna tveggja, þ.e. [E] og kæranda. Fjallað er um ákvæði 10. gr. firmalaga og 15. gr. a laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu en jafnframt kemur fram að lög um vörumerki, nr. 45/1997, séu í málum sem þessu höfð til hliðsjónar. Einnig er fjallað um viðmið um skráningu firmaheita sem fyrirtækjaskrá styðst við, við skráningu firmaheita. Fram kemur að horft sé til þess hvort heiti teljist almennt eða sértækt. Grundvallarreglan hjá fyrirtækjaskrá sé sú að teljist heiti almennt sé ekki hægt að banna öðrum notkun þess svo fremi að bætt sé við hið almenna heiti til aðgreiningar frá öðrum firmaheitum sem þegar hafa verið skráð í fyrirtækjaskrá. Við mat á því hvort orð teljist almennt fer fram leit í gagnagrunni www.snara.is sem m.a. tekur til íslensku orðabókarinnar, sem og enskri, þýskri, spænskri, franskri, danskri, ítalskri, pólskri og grískri orðabók.
Hvað varðar tilvísun kæranda til erindis sem honum barst frá Hugverkastofunni, dags. […] 2022, bendir fyrirtækjaskrá á að lög um vörumerki séu höfð til hliðsjónar við mat á því hvort skrá skuli firmaheiti. Hins vegar sé um að ræða tvær aðskildar skrár sem lúti ekki sömu sjónarmiðum að öllu leyti. Fram kemur að fyrirtækjaskrá telji að umfjöllun Hugverkastofunnar í bréfinu verði að túlka með tilliti til þeirra reglna sem gilda sérstaklega um vörumerkjaskráningu. Telur fyrirtækjaskrá að heitið [...] sé ekki almennt orð þar sem orðið er ekki að finna í almennri orðabók. Þannig sé um sértækt orða að ræða og hafi [E] því einkarétt á skráningu firmaheitisins. Þá kemur fram í hinni kærðu ákvörðun að jafnvel þótt að [...] yrði talið almennt orð myndi viðbótin [...] ekki aðgreina félögin með fullnægjandi hætti þar sem […]er hluti af skráðum tilgangi [E]. Að lokum er vísað til 10. gr. firmalaga um mat fyrirtækjaskrár um að firmaheiti kæranda brjóti gegn betri rétti [E].
Með bréfi dags. 24. apríl 2023 óskaði ráðuneytið eftir umsögn fyrirtækjaskrár um kæruna og barst ráðuneytinu umsögn skrárinnar með bréfi dags. 8. maí 2023.

Í umsögn fyrirtækjaskrár kemur fram hvað varðar tilvísun í kæru til leitar í gagnagrunninum timarit.is, að fyrirtækjaskrá styðjist við gagnagrunninn www.snara.is en vefurinn sé í umsjá aðila sem eru sérfræðingar á sviði íslenskrar tungu og vefurinn hafi að geyma skilgreiningu á þýðingu orða samkvæmt almennum málskilningi. Með því að styðjast við gagnagrunninn www.snara.is og orðabókina sé öllum tryggð sama málsmeðferð og að huglægt mat hafi ekki áhrif á niðurstöðu í málum hjá skránni. Hvað varðar umfjöllun í kæru um að horfa verði til raunverulegrar starfsemi félags fremur en eingöngu til skráðs tilgangs þess þá kemur fram að fyrirtækjaskrá telji að byggja verði á skráðum tilgangi félaga við mat á ruglingshættu. Að öðru leyti vísar fyrirtækjaskrá til hinnar kærðu ákvörðunar hvað sjónarmið skrárinnar í málinu varðar og gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Með umsögninni barst afrit af hinni kærðu ákvörðun og tölvupóstsamskipti skrárinnar og kæranda frá nóvember 2022 til mars 2023.


Með bréfi dags. 11. september 2023 óskaði ráðuneytið eftir umsögn fyrirtækjaskrár um þau andmæli sem borist höfðu í málinu og þá einkum hvað varðar þær röksemdir kæranda um að orðið [...] sé ekki uppfinning félagsins [E] og að um þess háttar vafatilvik sé að ræða að fyrirtækjaskrá hefði átt að leita til stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum til samræmis við viðmið stofnunarinnar um mat á skilgreiningu á almennu heiti.
Umsögn fyrirtækjaskrár í málinu barst með bréfi dags. 20. september 2023. Hvað varðar athugasemdir kæranda um að leita hefði átt til Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum vegna málsins kemur fram í umsögn fyrirtækjaskrár að eingöngu hafi verið leitað til stofnunarinnar í vafatilvikum þegar óumdeilt er að um íslenskt orð sé að ræða. Bendir fyrirtækjaskrá í því sambandi á að hlutverk stofnunarinnar skv. 3. gr. laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, nr. 40/2006, varði íslensk fræði og íslenska tungu. Augljóst sé að mál þetta varði ekki íslenskt orð en orðið innihaldi bókstafinn c og er enska orðið […] að viðbættu […] í lokinn. Þá kemur fram að eingöngu hafi verið leitað til stofnunarinnar að frumkvæði aðila máls en ekki skrárinnar. Hvað varðar umfjöllun í andmælabréfi kæranda um að orðið [...] sé ekki uppfinning [E] kemur fram að tilvitnaðan texta í
viðmiðum við skráningu firmaheita sem birtist á vef Skattsins verði að túlka á þann hátt að hann varði skráningu firmaheita. Teljist orð ekki almennt verði að líta á það sem uppfinningu að skrá orðið sem firmaheiti þó orðið hafi á einhverjum tímapunkti komið fram t.d. í tímaritum. Þá ítrekar fyrirtækjaskrá að við mat á því hvað telst almennt orð sé mikilvægt að stuðst sé við almenna mælikvarða. Fram kemur að stuðst sé við orðabækur og gagnagrunn www.snara.is og með þeim hætti sé öllum tryggð sama málsmeðferð og komið í veg fyrir að huglægt mat hafi áhrif á niðurstöðu máls. Að lokum vísar fyrirtækjaskrá að öðru leyti til hinnar kærðu ákvörðunar og fyrri umsagnar og ítrekar þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Um sjónarmið fyrirtækjaskrár vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun og umsögn skrárinnar.

Sjónarmið [E]
Með bréfi dags. 28. júní 2023 gaf ráðuneytið einkahlutafélaginu [E] færi á að koma að sjónarmiðum sínum og gögnum í máli þessu.
Andmæli [E] bárust með bréfi dags. 17. ágúst 2023. Í andmælabréfinu er tekið undir málsástæður, lagarök og niðurstöðu í hinni kærðu ákvörðun og umsögn fyrirtækjaskrár í málinu. Fjallað er um ákvæði 10. gr. firmalaga og viðmið um skráningu firmaheitis sem birt eru á vef Skattsins. Hvað varðar ágreining um það hvort orðið [...] sé almennt orð eða sértækt kemur m.a. fram að þær blaðagreinar sem kærandi vísar til í kæru sýni ekki að orðið sé almennt heiti. Fram kemur að fyrirsvarsmaður [E] hafi frá árinu 1990 notað vörumerkið „[…]“ við þróun og framleiðslu á […]vörum úr […]. Umfjöllun í blaðagreinum sé tilkomin vegna kynningar fyrirsvarsmanns [E] á framangreindu vörumerki sínu á Íslendingahátíð í […], Kanada. Þá hafi fyrirsvarsmaður [E] komið að […]hátíð sem kærandi vísar til. Þannig sé notkun orðsins í Vesturheimi, sem kærandi vísar til, komin til vegna vörukynningar fyrirsvarsmanns [E] Þær vörukynningar sem og heiti á verslun í […], leiði ekki til þess að orðið „[…]“ teljist almennt orð. Telur [E] að fyrirsvarsmaður félagsins hafi áunnið sér sérkenni orðsins og að um sértækt orð að ræða. Þá er bent á að fáar niðurstöður í leit kæranda í gagnagrunni timarit.is sýni fram á sértæki orðsins enda um að ræða stóran gagnagrunn. Því sé ekki hægt að halda því fram að um almennt orð sé að ræða sem hafi verið notað í íslensku máli um áratugaskeið, eins og fram komi í kæru. Hvað varðar ágreining um það hvort ruglingshætta sé til staðar á milli firmaheitanna tveggja kemur m.a. fram að viðbótin „[...]“ sé einnig almennt orð. Tilgangur beggja félaganna sé starfsemi í […] og viðbótin aðgreini félögin ekki með fullnægjandi hætti og því sé ruglingshætta fyrir hendi. Í andmælabréfi kemur fram að skráður tilgangur [E] sé hverskonar rekstur í tengslum við […] og að fyrirtækið hafi unnið að þróun tækni og […] en sú vinna taki tíma. Þannig sé ruglingshætta sannarlega til staðar þar sem félögin tvö starfa á sama eða svipuðu markaðssvæði. [E] bendir á að samkvæmt viðmiðum um skráningu firmaheita á vef Skattsins skipti starfsemi og tilgangur félags miklu máli við mat á ruglingshættu milli félaga og hvort skráning tiltekins firmaheitis skuli heimiluð. Firmaheiti verði að meta út frá tilgangi viðkomandi félaga og hugsanlegri ruglingshættu við önnur firmaheiti. Þá skiptir máli hvort félögin starfi á sama eða svipuðu markaðssvæði. [E] telur ljóst að samkvæmt skráðum tilgangi félagsins og kæranda starfi félögin á sama eða svipuðum markaði. Þá verði við mat á því hvort vöru- og þjónustulíking sé fyrir hendi m.a. að hafa í huga hvort um samkeppnisvörur er að ræða, hvort markhópur félaganna sé sá sami og hvort séu líkindi með vörum eða þjónustu félaganna. Telur [E] að félögin starfi á sama vöru- og þjónustumarkaði, þ.e. bjóði […] og að viðskiptamenn þeirra séu þeir sömu, þ.e. […].

Að lokum kemur fram í andmælabréfi að fyrirsvarsmaður [E] sé eigandi tveggja annarra félaga, [H] og [F], og að hann hafi unnið að því að byggja upp vörumerki þar sem aðalmerki félaganna er nafnið [...] Fram kemur að fjöldi vörumerkja með nafninu sé í eigu félaga í hans eigu og vörumerkin séu ýmist skráð eða í umsóknarferli hjá Hugverkastofunni. Sem dæmi þá sé vörumerki nr. […], ,,[...]“ (orð og myndmerki) þegar skráð hjá Hugverkastofunni í flokki […] sem tekur til vörumerkja í […]. Telur fyrirsvarsmaður [E] þannig að hann eigi þegar vörumerkjarétt á orðinu ,,[…]“ og með lögjöfnun frá ákvæði 1. mgr. 10. gr. firmalaga yrði talið óheimilt að taka vörumerki annars manns upp í firma sitt án hans leyfis, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 721/2014. Það sé því ljóst að kæranda sé óheimilt að skrá firmanafnið [B]. Að lokum gerir [E] þá kröfu, með vísan til þess sem fram kemur í andmælabréfinu, hinni kærðu ákvörðun og umsögn fyrirtækjaskrár, að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Með bréfi dags. 26. september 2023 var [E] gefið færi á að tjá sig um andmæli kæranda, dags. 4. september 2023, og umsögn fyrirtækjaskrár, dags. 20. september 2023 í málinu.


Andmæli [E] bárust með bréfi dags. 5. október 2023. Ítrekuð eru þau sjónarmið sem fram komu í fyrra andmælabréfi [E] en jafnframt eru gerðar frekari athugasemdir. [E] tekur undir það sem fram kemur í umsögn fyrirtækjaskrár frá 20. september 2023 og telur félagið að umfjöllun um það hvort orðið [...] geti talist uppfinning [E] renni stoðum undir þær málsástæður sínar að um sértækt heiti sé að ræða. Jafnframt er tekið undir þau sjónarmið fyrirtækjaskrár að mikilvægt er að beitt sé hlutlægum mælikvörðum þegar metið er hvað teljist almennt orð. Fram kemur að [E] telji að orðið [...] sé sértækt orð sem sé uppfinning félagsins og það eigi einkarétt á. Í andmælabréfinu er því mótmælt að um vafaatriði sé að ræða sem leita hefði átt með til Stofnunar Árna Magnússonar. Bendir [E] á að heitið hafi verið samið með það í huga að það félli að erlendri málvitund, þannig sé bókstafurinn c ekki til í íslenskri tungu og endingin […] til þess fallin að aðlaga orðið að latneskri málhefð og auka um leið notagildi orðsins fyrir starfsemi á erlendri grundu.


Í öðru lagi er í andmælabréfinu fjallað um það að verði fallist á það að [...] teljist almennt heiti feli beiðni kæranda í sér beiðni um skráning samsetningu almennra heita, þ.e. [B]. Vísað er til viðmiða fyrirtækjaskrár við skráningu firmaheita þar sem fram komi að slíkar skráningar séu metnar með hliðsjón af starfsemi félaganna og hugsanlegri ruglingshættu. Þá sé skoðað hvort félögin sem um ræðir starfi á sama eða svipuðum markaðssvæðum. Ítrekar [E] í þessu sambandi að báðir aðilar starfi á sama vöru- og þjónustumarkaði og að helstu viðskiptamenn þeirra séu þeir sömu, þ.e. […]. Þá kemur fram að [E] hafi verið að hasla sér völl innan […]. Telur [E] að fyrir hendi sé ruglingshætta og að orðið „[...]“ sé ekki nægileg viðbót. Telur [E] að félagið njóti verndar laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og er í því sambandi sérstaklega vísað til 2. málsl. 15. gr. a laganna, þar sem félagið hafi notað heitið í lengri tíma. Vísar [E] til úrskurðar áfrýjunarnefndar neytendamála í máli nr. nr. 19/2011 þar sem deilt var um auðkennið Platon þar sem áfrýjunarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að orðið Platon var ekki talið lýsandi fyrir vörur eða þjónustu, orðið væri ekki í orðabók (í því tilviki orðabók Menningarsjóðs), orðið væri nafn á grískum heimspekingi og að það vekti ekki hugmynd um sérstakan atvinnurekstur. Var orðið talið falla innan verndar 15. gr. a laga framangreindra laga. Telur [E] að öll framangreind atriði eigi við orðið […], fyrir utan að […] var ekki áður þekkt nafn á einu eða neinu. Telur [E] það gera orðið enn sérstakara. Þá mótmælir [E] málatilbúnaði kæranda varðandi skráningu félagsins á öðrum vörumerkjum fyrirsvarsmanns [E] Að lokum ítrekar [E] það sem fram kemur í fyrra erindi félagsins.


Forsendur og niðurstaða

I.
Stjórnsýslukæra [A] barst ráðuneytinu innan kærufrests og telst kæran því löglega fram komin. Málið hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
II.
Í 1. og 2. gr. laga nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá, segir að halda skuli fyrirtækjaskrá og að skráin skuli starfrækt af ríkisskattstjóra sem annist útgáfu á kennitölum til annarra en einstaklinga. Í 1. tölul. 2. gr. laganna segir m.a. að fyrirtækjaskrá skuli geyma upplýsingar um einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Í 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá eru talin upp þau atriði sem skrá skal í fyrirtækjaskrá en þar er í 1. tölul. tilgreint heiti félags.
Þegar ráðuneytið úrskurðar um heiti félaga í fyrirtækjaskrá er fyrst og fremst litið til firmalaga. Meðal þess sem einnig er litið til er hvort heiti félags innihaldi orð sem telst almennt og hvort heitið sé nægjanlega aðgreint frá heitum annarra félaga svo ekki skapist ruglingshætta.
Hvað varðar tilvísun í gögnum málsins til laga um vörumerki og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu þá er rétt að taka eftirfarandi fram. Hugverkastofan ákvarðar í málum um skráningu vörumerkja á grundvelli laga um vörumerki og geta aðilar máls áfrýjað ákvörðunum og úrskurðum Hugverkastofunna til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Neytendastofa ákvarðar í málum á grundvelli laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og geta aðilar máls áfrýjað ákvörðunum Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála.
III.
Í 1. gr. laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð segir að fyrirtækjaskrá skuli halda verslanaskrár, og að í þær skuli rita tilkynningar þær sem getið er um í lögunum, eða heimilað er með öðrum lögum að setja í skrárnar.
Í 8. gr. firmalaga segir að hver sá sem stundi atvinnurekstur skuli fara eftir þeim ákvæðum sem á eftir fylgi, um nafn það, sem hann notar við atvinnuna, og um undirskrift fyrir hana (firma), enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn, sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara.
Í 1. mgr. 10. gr. laganna segir að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis. Þá segir að í firma megi eigi nefna fyrirtæki, er ekki standa í sambandi við atvinnuna; eigi má heldur halda firma því óbreyttu, er tilgreinir ákveðna atvinnugrein, ef veruleg breyting hefur verið gerð á henni. Í 2. mgr. sömu greinar segir að firmu þau, er sett eru á skrá fyrir sama kaupstað eða hrepp, skulu greina firma sitt glöggt frá hinu eldra firma með viðauka við nafn sitt eða á annan hátt. Sá, sem eigi tilkynnir firma, en ætlar að reka atvinnu með nafni sjálfs síns (sbr. 16. gr.), má ekki stæla skrásett firma, sem hefur sama nafn, með því að bæta við nafn sitt, fella úr því eða breyta.
IV.
Með hugtakinu firma er átt við heiti tiltekins fyrirtækis sem stundar atvinnustarfsemi. Á það bæði við þegar starfsemin er rekin í nafni félags og í nafni einstaklings. Markmiðið með ákvæðum firmalaga um firmanöfn er að tryggja að ýmsar mikilvægar og réttar upplýsingar liggi fyrir um félag og að viðskiptamaður þess geti ávallt séð við hvern hann er að semja. Þau skilyrði sem firmu verða almennt að uppfylla til að verða viðurkennd og fást skráð eru að firmað samrýmist almennu íslensku málkerfi, að sérkenni þess séu nægjanleg til að skilja það frá öðrum, það segi sannleikann um starfsemi sína og að það brjóti ekki gegn rétti annarra. Í því síðast talda felst bæði að firma má ekki vera líkt heiti sem annað félag í svipuðum rekstri á betri rétt yfir né brjóta gegn rétti til heitis sem annar á.
Lögverndun firmaheitis hefur mikla þýðingu fyrir eiganda firmaheitisins á þann hátt að vernda þá viðskiptavild sem hann hefur skapað firmanu með vinnu sinni og fjármunum, auk þess sem firmanafnið getur verið trygging almennings fyrir þeim afurðum sem firmað býður fram. Í 10. gr. firmalaga kemur fram að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns án hans leyfis en meginreglan er sú að teljist heitið almennt er ekki unnt að banna öðrum notkun orðsins eða heitisins, svo fremi að hann aðgreini sitt firmaheiti frá því sem þegar kann að vera til skráð með því heiti. Sé heiti til þess fallið að greina vörur og þjónustu fyrirtækis frá svipaðri vöru eða þjónustu annarra er um lögverndað heiti að ræða sem óheimilt er að nota án leyfis skráðs rétthafa.
Með skráningu firmaheitis kann firmaeigandinn því að öðlast einkarétt til heitisins sem felst í því að öðrum er óheimilt að nota firmaheitið eða annað heiti sem því líkist á þann hátt að um ruglingshættu geti verið að ræða.
V.
Á vef Skattsins (skatturinn.is/fyrirtaekjaskra) má finna þau viðmið sem fyrirtækjaskrá styðst við þegar firmaheiti er skráð, þ.e. þau viðmið sem lögð eru til grundvallar við mat á skráningarhæfi firmaheita og hvaða sjónarmið eru höfð í huga þegar metið er hvort firmaheiti sem sótt er um skráningu fyrir stangist á við annað sambærilegt firmaheiti og/eða skráð vörumerki. Þar kemur fram að einnig sé höfð hliðsjón af lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Á vefnum er áréttað að um viðmið sé að ræða sem ekki geti gripið öll þau tilvik sem upp geta komið varðandi firmaheiti og að við mat á firmaheitum komi starfsemi félaga og hugsanleg ruglingshætta við önnur firmaheiti einnig til skoðunar. Þá skipti máli hvort félögin starfi á sama eða svipuðu markaðssvæði og tilgangur þeirra.
Um almenn heiti segir m.a. í viðmiðunum að byrjað sé á því að skoða hvort firmaheiti sé almennt eða ekki og að telji skráin að heiti sé almennt sé það grundvallarregla að ekki sé unnt að banna öðrum notkun þess ef við heitið er bætt öðru heiti til aðgreiningar frá því sem þegar hefur verið skráð í fyrirtækjaskrá.
Einnig segir að Íslensk orðabók sé notuð sem viðmið við mat á því hvort heiti teljist almennt og að fyrirtækjaskrá hafi í vafatilvikum leitað til Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Litið er á firmaheiti sem uppfinningu þess sem það skráir ef ekki verður séð að heitið sé sótt í hinn almenna orðaforða tungunnar. Slíkt firmaheiti öðlast þá ríkari vernd gegn skráningu annarra og verður ekki skráð sama firmaheiti með neinum viðauka.
Hvað varðar samsetningu almennra heita segir í viðmiðunum að sé firmaheiti samsett úr tveimur almennum heitum sé meginreglan sú að sá sem skráði firmaheitið verði talinn hafa öðlast lögverndaðan rétt yfir þeirri samsetningu. Ávallt verði þó að meta mál út frá starfsemi félaga og mögulegri ruglingshættu við annað firmaheiti og kemur þá til skoðunar hvort félög starfi á sama eða svipuðu markaðssvæði.
Um notkun á nafni annars manns í firmaheiti er í viðmiðunum vísað til 1. mgr. 10. gr. firmalaga þar sem lagt er bann við því að nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns sé notað í firmaheiti nema viðkomandi veiti til þess leyfi. Í ákvæðinu er einnig lagt bann við því að nefna í firmu fyrirtæki sem ekki standi í sambandi við atvinnuna. Í viðmiðunum kemur fram að það sé túlkað út frá fyrirliggjandi dómum á þessu sviði, úrskurðum svo og öðrum lögskýringargögnum, m.a. áliti Umboðsmanns Alþingis hvað teljist „nafn annars manns“. Þá kemur fram að auk þess sé höfð hliðsjón af lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, aðallega 12. gr., og lögum um vörumerki, aðallega 4. gr.
Það er skilgreiningaratriði að heiti verði talið hafa til að bera einhver þau sérkenni að veiti eiganda sínum einkarétt á notkun þess heitis.
Um starfsemi/tilgang félags er í viðmiðunum vísað til 1. mgr. 10. gr. firmalaga og segir að firmaheiti megi ekki gefa til kynna starfsemi sem ekki standi í sambandi við umrætt félag og eru um það nefnd dæmi. Einnig skiptir starfsemi og félags og tilgangur þess miklu máli við mat á ruglingshættu milli félaga þegar metið er hvort heimilt sé að skrá tiltekið firmaheiti. Við matið er stuðst við Íslenska orðabók hvað varðar skilgreiningu orða.
Um markaðsfesta segir í viðmiðunum að firmaheiti kunni að hafa öðlast markaðsfestu þó að heitið sé almennt orð í íslensku eða erlendu máli þannig að öðrum verði talið óheimilt að nota orðið í firmaheiti sínu. Í slíkum tilvikum yrði í firmaheitinu að vera fólgið nægilegt sérkenni og er firmaheitið Vífilfell hf. nefnt sem dæmi.
Í viðmiðunum kemur einnig fram að við skráningu firmaheitis hafi fyrirtækjaskrá einnig hliðsjón af skráðum vörumerkjum. Í því sambandi er bent á að vörumerkjaskrá greinist í marga flokka eftir starfsemi eða vöru og að sama vörumerki geti verið skráð á mismunandi eigendur eftir flokkum. Fyrirtækjaskrá sé aftur á móti eins skrá og verði firmaheiti eingöngu skráð einu sinni. Í viðmiðunum segir eftirfarandi: „Meginreglur vörumerkis eru þær að eigandi vörumerkis njóti eingöngu verndar ef notkunin tekur til svipaðrar vöru eða þjónustu og er sama viðmið notað við skráningu í firmaskrá. Það
þýðir að ef óskað er eftir skráningu firmaheitis sem ekki er til á firmaskrá, en er til í vörumerkjaskrá, þá eru skráningu aðeins hafnað sé tilgangur félagsins í samræmi við þann vörumerkjaflokk er merkið er skráð í. Sé flokkurinn mjög ólíkur tilgangi félagsins er skráning heimiluð.“
VI.
Í hinni kærðu ákvörðun kemst fyrirtækjaskrá að þeirri niðurstöðu að orðið [...] sé ekki almennt orð heldur sé um sértækt orð að ræða og að litið sé á það sem uppfinningu að skrá orðið sem firmaheiti. [E] eigi því einkarétt á skráningu firmaheitisins. Byggir fyrirtækjaskrá niðurstöðu sína á 10. gr. firmalaga og viðmiðum við skráningu firmaheita sem birt á vef Skattsins. Í 1. mgr. 10. gr. firmalaga segir m.a. að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis né nefna fyrirtæki, er ekki standa í sambandi við atvinnuna. Í 2. mgr. sömu greinar segir m.a. að firmu þau sem skráð eru fyrir sama kaupstað eða hrepp, skulu greina firma sitt glöggt frá hinu eldra firma með viðauka við nafn sitt eða á annan hátt. Í viðmiðum við skráningu firmaheita sem birt eru á vef Skattsins segir m.a. að við mat á því hvort firmaheiti sé almennt sé stuðst við Íslenska orðabók og að í vafatilvikum sé leitað til Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Þar segir einnig að litið sé á firmaheiti sem uppfinningu þess sem það skráir ef ekki verður séð að heitið sé sótt í hinn almenna orðaforða tungunnar og að slíkt firmaheiti öðlist ríkari vernd gegn skráningu annarra og verði ekki skráð sama firmaheiti með neinum viðauka.
Félagið [E] var stofnað […] 2020 og skráð í fyrirtækjaskrá […] 2021. Heiti félagsins við stofnun þess var [G] ehf. og tilgangur félagsins var skráður [...]. Heiti félagsins var breytt í [E] þann […] 2022 og var tilgangur félagsins þá skráður […]. Breytingar voru gerðar á skráningunni þann […] 2022 og tilgangur félagsins skráður […]. Þannig var […] bætt við sem tilgangi [E] og í stað [… ] komu […].
Með erindi til fyrirtækjaskrár dags. 7. nóvember 2022 var tilkynnt breyting á heiti einkahlutafélagsins [A] í [B]. Breytingin fékkst ekki skráð eins og rakið er nánar í málavaxtalýsingu.
Í fyrirtækjaskrá eru nú skráð þrjú einkahlutafélög með orðið „[…]“ í heiti sínu, þ.e. [E], [G] og [H] og eru þau öll tengd fyrirsvarsmanni [E]. Auk þess var félag með heitinu [I] stofnað í júní 2005 og afskráð í desember 2012. [G] var stofnað á árinu 2006 og var heit þess þá […] en heiti félagsins hefur verið breytt nokkrum sinnum frá stofnun og var því breytt í núverandi heiti með tilkynningu […] 2023. [H] var stofnað í janúar 2009 en heiti félagsins var þá […] og hafi heitinu verið breytt í [H] í nóvember 2022.
Í málinu hefur kærandi bent á að orðið [...] hafi verið notað í íslensku máli í áratugi þó það sé ekki að finna í orðabókum. Orðið sé að finna í blaðagreinum á vefnum www.timarit.is og sendi kærandi dæmi þar um og er elsta greinin sem kemur upp frá árinu 1943. Kærandi bendir einnig á að notkun á orðinu hafi verið algeng meðal Íslendinga í Vesturheimi.
Ráðuneytið tekur undir það með fyrirtækjaskrá að það sé mikilvægt að beita hlutlægum viðmiðum við mat á því hvort skrá beri firmaheiti. Þannig skoðar fyrirtækjaskrá og leitar í firmaskrá og í gagnagrunninum www.snara.is sem m.a. tekur til íslensku orðabókarinnar, sem og enskri, þýskri, spænskri, franskri, danskri, ítalskri, pólskri og grískri orðabók, við skráningu firmaheitis. Ráðuneytið gerir ekki athugasemd við framangreinda framkvæmd en telur þó ekki hægt að horfa fram hjá því í máli þessu að kærandi hefur sýnt fram á að orðið [...] komi fyrir í blaðagreinum sem finna má á vefnum www.timarit.is. Að sama skapi gerir ráðuneytið ekki athugasemd við þá framkvæmd fyrirtækjaskrár að leita eingöngu til Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að frumkvæði aðila máls þegar um vafatilvik er að ræða og óumdeilt er að um íslenskt orð sé að ræða. Ráðuneytið gerir þannig ekki athugasemd við að í málinu hafi ekki verið leitað til stofnunarinnar.
Af hálfu fyrirtækjskrár hefur komið fram í málinu að orðið [...] sé ekki að finna á vefnum www.snara.is og því telji fyrirtækjaskrá að heitið [...] sé ekki almennt orð heldur sé um sértækt orða að ræða. Teljist orð ekki almennt verði að líta á það sem uppfinningu að skrá orðið sem firmaheiti þó orðið hafi á einhverjum tímapunkti komið fram t.d. í tímaritum. Í málinu bendir kærandi á að orðið [...] hafi verið notað í íslensku máli í áratugi þó það sé ekki að finna í orðabókum. Orðið sé að finna í tímaritsgreinum á vefnum www.timarit.is og sendi kærandi dæmi þar um og er elsta greinin sem kemur upp frá árinu 1943. Kærandi bendir einnig á að notkun á orðinu hafi verið algeng meðal Íslendinga í Vesturheimi. Telur kærandi framangreint sýna að niðurstaða fyrirtækjaskrár um að orðið [...] sé ekki almennt heiti sé röng og að niðurstaðan sé ekki í samræmi við viðmið skrárinnar sem birt eru á vef Skattsins. Af hálfu [E] hefur komið fram hvað varðar ágreining um það hvort orðið [...] sé almennt orð eða sértækt að þær blaðagreinar sem kærandi vísar til í kæru sýni ekki að orðið sé almennt heiti. Fyrirsvarsmaður [E] hafi frá árinu 1990 notað vörumerkið „[…]“ við […] og sé umfjöllun í blaðagreinum tilkomin vegna kynningar fyrirsvarsmanns [E] á framangreindu vörumerki sínu. Þær vörukynningar sem og heiti á verslun í […], leiði ekki til þess að orðið „[…]“ teljist almennt orð. Telur [E] að fyrirsvarsmaður félagsins hafi áunnið sér sérkenni orðsins og að um sértækt orð að ræða. Þá er bent á að fáar niðurstöður í leit kæranda í gagnagrunni timarit.is sýni fram á sértæki orðsins enda um að ræða stóran gagnagrunn. Því sé ekki hægt að halda því fram að um almennt orð sé að ræða sem hafi verið notað í íslensku máli um áratugaskeið, eins og fram komi í kæru.

Heitið/orðið [...] er ekki að finna í gagnagrunni www.snara.is en heitið/orðið er samsett úr enska orðinu […]sem merkir […]að viðbættri endingunni […]. Spænska orðið […] merkir […]. Ráðuneytið telur að mönnum sé almennt ljóst að heitið [...] tengist […] og viðbótin […] við heitið […] breyti því ekki. Heitið gefur til kynna að starfsemin sem um ræðir tengist […] þannig að um sé að ræða starfsemi […] eða vörur sem annað hvort eru framleiddar […] eða í tengslum við […] eða þjónustu sem annaðhvort er veitt […] eða í tengslum við […]. Ráðuneytið telur að viðbótin […] við enska orðið […] sé ekki til þess fallin að orðið teljist sértækt orð. Firmaheitið [...] er að finna í firmaskrá eins og að framan greinir.

Eins og fram hefur komið telur ráðuneytið ekki hægt að horfa fram hjá því í máli þessu að kærandi hefur sýnt fram á að orðið [...] komi fyrir í tímaritsgreinum allt frá því fyrir miðja síðustu öld. Þó vera kunni að hluti þeirra tímaritsgreina sem kærandi benti á sem dæmi um notkun á orðinu varði fyrirsvarsmann [E] telur ráðuneytið að [E] hafi aðeins sýnt fram á að hluti þeirra umfjallana varði félagið eða aðila tengda því.
Lagavernd firmaheitis er háð því að heitið hafi þá eiginleika, þ.e. sérkenni, að fallist verði á að félag hafi með skráningu firmaheitisins öðlast einkarétt á því gagnvart öðrum. Kröfunni um sérkenni firmaheitis hefur þar af leiðandi ekki þótt fullnægt, ef aðalorðið í firmanu er almennt heiti. Þetta kemur fram í Hæstaréttardómi frá 16. maí 1947 í máli nr. 132/1946 þar sem félagið Fiskimjöl h/f stefndi Fiskimjöl Njarðvík h/f og krafðist þess að stefnda yrði dæmt óheimilt að nota firmanafnið Fiskimjöl Njarðvík. Í dómnum kemur fram að orðið fiskimjöl sé almennt vöruheiti og ekki séu nægileg sérkenni fólgin í firmaheiti áfrýjanda í málinu. Var krafa hans því ekki tekin til greina.

Með vísan til þess sem að framan greinir fellst ráðuneytið ekki á að orðið [...] sé sértækt orð sem geri það að verkum að með skráningu þess sem firmaheitis sé um uppfinningu fyrirsvarsmanns [E] að ræða. Ráðuneytið telur að túlka beri 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. firmalaga, um að í firma megi ekki nefna fyrirtæki sem ekki standi í sambandi við atvinnuna sem um ræðir, í ljósi dómaframkvæmdar og annarrar réttarþróunar, svo sem síðar til kominna laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og laga um vörumerki, og álita Umboðsmanns Alþingis. Horfa verði til þess hvort um sé að ræða almennt orð eða sértækt, samanber m.a. það sem fram kemur í framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 132/1946. Ráðuneytið telur að orðið [...] sé almennt orð og að skráning firmaheitis sem inniheldur orðið [...] með viðbót brjóti ekki gegn betri rétti [E], sbr. 1. og 2. mgr. 10. gr. firmalaga, og með hliðsjón af viðmiðum við skráningu firmaheita sem finna má á vef Skattsins og dómi Hæstaréttar í máli nr. 132/1946.
VII.
Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að grundvallarreglan hjá fyrirtækjaskrá sé sú að teljist heiti almennt sé ekki hægt að banna öðrum notkun þess svo fremi að bætt sé við hið almenna heiti til aðgreiningar frá öðrum firmaheitum sem þegar hafa verið skráð í fyrirtækjaskrá. Einnig kemur fram að jafnvel þótt [...] yrði talið almennt orð væri viðbótin [...] ekki til þess fallin að aðgreina félögin með fullnægjandi hætti þar sem […] er hluti af skráðum tilgangi [E]. Hvað varðar umfjöllun í kæru um að horfa verði til raunverulegrar starfsemi félags fremur en eingöngu til skráðs tilgangs þess kemur fram að fyrirtækjaskrá telji að byggja verði á skráðum tilgangi félaga við mat á ruglingshættu.
[E] tekur undir það sem fram kemur í hinni kærðu ákvörðun. Eins og að framan greinir voru gerðar breytingar á tilgangi [E] þann […] 2022 og […] bætt við sem skráðum tilgangi félagsins. Tilgangur beggja félaganna sé starfsemi í […] og viðbótin „[...]“ aðgreini félögin ekki með fullnægjandi hætti og því sé ruglingshætta fyrir hendi. Í andmælabréfi [E] kemur fram að skráður tilgangur félagsins sé hverskonar rekstur í tengslum við […]. Ruglingshætta sé sannarlega til staðar þar sem félögin tvö starfa á sama eða svipuðu markaðssvæði. [E] bendir á að samkvæmt viðmiðum um skráningu firmaheita á vef Skattsins skipti starfsemi og tilgangur félags miklu máli við mat á ruglingshættu milli félaga og hvort skráning tiltekins firmaheitis skuli heimiluð. Firmaheiti verði að meta út frá tilgangi viðkomandi félaga og hugsanlegri ruglingshættu við önnur firmaheiti. Þá skiptir máli hvort félögin starfi á sama eða svipuðu markaðssvæði. Telur [E] að fyrir hendi sé ruglingshætta og að orðið „[...]“ sé ekki nægileg viðbót til aðgreiningar félaganna. [E] telur að báðir aðilar starfi á sama vöru- og þjónustumarkaði og að helstu viðskiptamenn þeirra séu þeir sömu, þ.e. […]. [E] telur einnig að félagið njóti verndar laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og er í því sambandi sérstaklega vísað til 2. málsl. 15. gr. a laganna, þar sem félagið hafi notað heitið í lengri tíma.
Kærandi telur að breyting á tilgangi [E] í […] 2022 hafi verið gerð honum til höfuðs en kærandi hafi tekið vörumerkið [...] í notkun fyrir […] og tengda starfsemi í lok […] 2022. Fram kemur að [E] hafi aldrei starfað í […] og það megi sjá af ársreikningum félagsins og að við mat á ruglingshættu hvað starfsemi og vöru/þjónustulíkingu varðar beri að líta til raunverulegrar starfsemi félaganna sem um ræðir og gera þá kröfu að aðilar sýni fram hana. Sé það ekki gert geta einstaka aðilar eignað sér heilu starfssviðin. Þannig sé ruglinghætta hvað varðar þjónustu kæranda og [E] engin þar sem raunveruleg starfsemi síðarnefnda félagsins tengist ekki […].
Í viðmiðum við skráningu firmaheita á vef Skattsins kemur m.a. fram að meginreglan hvað varðar firmaheiti sem samsett er úr tveimur almennum heitum þá sé meginreglan sú að sá sem skráði firmaheitið verði talinn hafa öðlast lögverndaðan rétt yfir þeirri samsetningu. Ávallt verði þó að meta mál út frá starfsemi félaga og mögulegri ruglingshættu við annað firmaheiti og kemur þá til skoðunar hvort félög starfi á sama eða svipuðu markaðssvæði. Um starfsemi/tilgang félags og mögulega ruglingshættu er í viðmiðunum vísað til 10. gr. firmalaga og segir að firmaheiti megi ekki gefa til kynna starfsemi sem ekki standi í sambandi við umrætt félag og eru um það nefnd dæmi. Við mat á ruglingshættu milli félaga, skiptir starfsemi eða tilgangur félags einnig mjög miklu máli við mat á því hvort heimila skuli skráningu tiltekins firmaheitis. Sérstaklega ef erfitt reynist að meta það út frá firmaheitinu einu saman. Við matið er stuðst við Íslenska orðabók hvað varðar skilgreiningu orða.
Við mat á því hvort hætta sé á ruglingi milli umræddra tveggja firmaheita, þ.e. [B] og [E], lítur ráðuneytið m.a. til þess hvort félögin starfi á sama markaði og hvort þau beina vöru eða þjónustu að sama markhópi. Ef litið er til starfsemi félaganna í þá er skráð starfsemi þeirra, skv. tilgangi og ÍSAT atvinnugreinaflokkun, að hluta til sú sama. Eins og rakið er að framan er skráður tilgangur [E] […]. Af gögnum málsins má ráða að rekstur félagsins hafi aðallega verið á öðrum sviðum en í […] en í andmælabréfum félagsins kemur fram að félagið hafi verið að hasla sér völl í […] undanfarin misseri. Kærandi bendir á að af ársreikningum [E] megi sjá að […] hafi ekki verið hluti af starfsemi félagsins og að við mat á vöru/þjónustulíkingu verði að líta til raunverulegrar starfsemi félaganna sem um ræðir. Sé það ekki gert geti aðilar eignað sér heilu starfssviðin. Eins og að framan greinir er skráður tilgangur [E] í mörgum flokkum/sviðum og tekur ráðuneytið undir það með kæranda að sé eingöngu horft til skráðs tilgangs félags við skráningu firmaheita getur komið upp sú staða að aðilar geti eignað sér mörg starfssvið eins og kærandi kemst að orði.
Af dómi Hæstaréttar frá 16. maí 1947 í máli nr. 132/1946 má draga þá almennu ályktun að firma sem tekið hefur upp í heiti sitt almennt vöruheiti geti ekki útilokað aðra frá því að nota sama heiti fyrir sama atvinnurekstur.
Fari fyrirtæki eða félag þá leið að velja heiti sem felur í sér almennt heiti kann það að eiga á hættu að heitið veiti því ekki einkarétt til þess ef ágreiningur rís á milli félagsins og annars félags, sem síðar hefur skráð sama eða sambærilegt firmaheiti, um það hvort síðar tilkomna skráningin gangi gegn betri rétti hins fyrrnefnda félags. Í slíkum tilvikum verður þó að bæta við heitið sem síðar er skráð, orði sem hefur þann eiginleika að sérgreina firmað á einhvern hátt frá heitinu sem fyrr var skráð. Er þetta í samræmi við viðmið við skráningu firmaheita sem birt eru á vef Skattsins, en þar kemur fram að teljist heiti vera almennt heiti er það grundvallarregla að ekki er unnt að banna öðrum notkun þess, svo framarlega að við það sé bætt öðru heiti til aðgreiningar frá því sem þegar hefur verið skráð í fyrirtækjaskrána. Í fræðiskrifum, nánar tiltekið í ritgerð Sigurgeirs Sigurjónssonar: Firma og firmavernd, sem birtist í Úlfljóti, 3. tbl. 1969, bls. 213-227, kemur fram að einkaréttur firmaeigandans til firmans byggist að miklu leyti á hæfileika nafnsins í því skyni. Því sé mjög þýðingarmikið við stofnun hvers firma, að því sé í upphafi valið nafn, sem sé til þess fallið að aðgreina firmað í viðskiptum manna á milli. Ráðuneytið lítur svo á að heitið [B] sé nægilega vel aðgreint frá firmaheitinu [E], þ.e. viðbótin „[...]“ sé nægileg viðbót við firmaheitið sem fyrir var skráð til aðgreina félögin tvö og valda ekki ruglingshættu.
Hvað varðar skráðan tilgang félaganna tveggja og þjónustulíkingu þá er skráður tilgangur félaganna tveggja að hluta til sá sami, þ.e. […], en skráður tilgangur [E] er á nokkrum sviðum. Sé eingöngu litið til skráðs tilgangs félaganna má gera ráð fyrir að þau starfi á sama markaði og beini þjónustu sinni að sama markhópi á þeim markaði. Ráðuneytið telur að ekki sé eingöngu hægt að horfa til skráðs tilgangs félaganna tveggja við mat á því hvort um ruglingshættu sé að ræða heldur verði að horfa heildstætt á málið. Ráðuneytið telur að ef eingöngu væri horft til skráðs tilgangs félaga við mat á ruglingshættu gæti komið upp sú staða að félag með firmaheiti sem telst almennt orð skrái tilgang sinn á mörgum mismunandi sviðum óháð því hvort raunveruleg starfsemi fari fram á öllum þeim sviðum. Félagið gæti með því útilokað önnur fyrirtæki frá því að nota almennt heiti í firmaheiti sínu með viðbót ef þau starfa að einhverju leyti á sviði sem fyrrnefnda félagið hefur skráð sem tilgang sinn. Ráðuneytið telur það ekki samrýmast þeim sjónarmiðum sem nauðsynlegt er að horfa til í þessu tilliti og m.a. koma fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 132/1946 og í viðmiðum við skráningu firmaheitis á vef Skattsins.
[E] bendir á langa notkun fyrirsvarsmanns félagsins á heitinu [...] í atvinnustarfsemi sinni. Eins og að framan greinir er einkahlutafélagið [E] stofnað á árinu 2021 en núverandi heiti þess er skráð í […] 2022. Önnur félög tengd fyrirsvarsmanni [E] sem bera orðið [...] í heiti sínu eru [H] og [G]. [H] var stofnað 2009 en orðið [...] var tekið upp í heiti félagsins í október 2022 og skráð í fyrirtækjaskrá í nóvember 2022. [G] var stofnað á árinu 2006 og var orðið [...] tekið upp í heiti þess í júlí 2023. Hvað sem því líður telur ráðuneytið að horfa verði til fordæmis dóms Hæstaréttar í máli nr. 132/1947 þar sem því var haldið fram af hálfu stefnanda að hann hefði með notkun sinni á heitinu Fiskimjöl í 15 ár og löglegri skráningu á því öðlast einkarétt til heitisins. Þar sem þessari röksemd var ekki hreyft í forsendum dóms Hæstaréttar bera fræðiskrif í kjölfar dómsins með sér að Hæstiréttur hafi ekki talið þessa löngu notkun orðsins fiskimjöl sem firmaheiti nægja til að skapa einkarétt til þess heitis. Ráðuneytið lítur svo á að sömu sjónarmið eigi við í því máli því sem hér er til umfjöllunar og telur að framangreind notkun á heitinu í atvinnustarfsemi fyrirsvarsmanns [E] nægi ekki til að skapa einkarétt til notkunar á orðinu.
VIII.
Í ljósi alls framangreinds verður að telja að firmaheitið [B] sé nægilega vel aðgreint frá firmaheitinu [E] og því sé ekki unnt að fallast á að hafna beri skráningu firmaheitisins [B]. Um almennt heiti er að ræða sem er aðgreint frá skráðu firmaheiti [E] viðbótinni „[...]“ og því ekki til þess fallið að valda ruglingshættu í skilningi firmalaga. Framangreint samræmist jafnframt dómafordæmum og viðmiðum við skráningu firmaheita á vef Skattsins.
Svo sem fyrr segir fara önnur stjórnvöld en fyrirtækjaskrá með framkvæmd laga um vörumerki og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
IX.
Með vísan til þess sem að framan greinir telur ráðuneytið að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun fyrirtækjaskrár, dags. 10. mars 2023, um að hafna skráningu á firmaheitinu [B] þar sem firmaheitið brjóti gegn betri rétti [E], og því skuli skrá firmaheitið.


Úrskurðarorð
Ákvörðun fyrirtækjaskrár sem starfrækt er af ríkisskattstjóra, dags. 10. mars 2023, um að hafna því að skrá tilkynningu um breytingu á heiti [A]í [B] er felld úr gildi. Heimila ber skráningu firmaheitisins [B].


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum