Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins

Úrskurður v. skráningar firmaheitis.

Úrskurður menningar- og viðskiptaráðuneytis 24. nóvember 2022

Stjórnsýslukæra Með bréfi dags. 2. mars 2022 bar [A], lögmaður, fram stjórnsýslukæru fyrir hönd [B] ehf., kt. […], (hér eftir kærandi) vegna ákvörðunar ríkisskattstjóra sem starfrækir fyrirtækjaskrá (hér eftir fyrirtækjaskrá) dags. 17. febrúar 2022 um að firmaheitið [B] ehf. brjóti gegn betri rétti eigenda jarðarinnar [D] og að fyrirtækjaskrá hyggist taka nafnið af skrá að liðnum 14 dögum frá dagsetningu ákvörðunarinnar. Í kæru var áskilinn réttur til að leggja fram rökstuðning fyrir kærunni síðar. Rökstuðningur barst ráðuneytinu hinn 14. mars 2022.

Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 (hér eftir stjórnsýslulög) og barst hún innan kærufrests.

Kröfur Í kæru er þess krafist að ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 17. febrúar 2022, um að firmaheitið [B] ehf. brjóti gegn betri rétti eigenda jarðarinnar [D] og að nafnið skuli tekið af skrá, verði annað hvort felld úr gildi og vísað aftur til efnislegrar meðferðar, eða henni breytt kæranda í hag. Kærendur byggja á því að ákvörðun fyrirtækjaskrár eigi sér ekki viðhlítandi lagastoð og að valdþurrð sé til staðar þar sem ágreiningur málsins eigi með réttu að heyra undir Örnefnanefnd sbr. 2. málsl. 8. gr. laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903 (hér eftir firmalög). Þá er þess krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað þar til niðurstaða ráðuneytisins í málinu liggur fyrir með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga.

Með úrskurði ráðuneytisins hinn 29. ágúst 2022 var réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar fyrirtækjaskrár frestað þar til niðurstaða ráðuneytisins í málinu liggur fyrir. Einnig var með úrskurðinum hafnað þeirri málsástæðu kæranda að ágreiningur málsins heyri ekki undir fyrirtækjaskrá.

Másatvik Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru atvik málsins með eftirfarandi hætti.
Kærandi, félagið [E] ehf., kt. […], var stofnað og skráð í fyrirtækjaskrá á árinu 2015. Nafni félagsins var breytt í [B] ehf. með tilkynningu sem móttekin var hjá fyrirtækjaskrá hinn 20. janúar 2016.
Á tilkynningu um breytingu nafnsins [E] ehf. í [B] ehf. kom fram nafnafyrirvari sem er svohljóðandi:
Framangreint nafn er skráð með þeim fyrirvara að það brjóti ekki í bága við rétt annarra til nafnsins. Undirritaður skuldbinda sig til að hlutast til um nafnabreytingu, komi í ljós við nánari athugun að nafn félagsins fái ekki samrýmst betri rétti annarra. Hlutafélagaskrá áskilur sér rétt til að taka nafn af skrá ef svo er og undirritaðir skirrast við að láta breyta nafni að kröfu skrárinnar.

Hinn 13. september 2021 móttók fyrirtækjaskrá kröfu um afskráningu firmaheitis kæranda frá [F], lögmanni, fyrir hönd eigenda jarðarinnar [D] á […], lnr. […], þeim [G], kt. […], [H], kt. […], [I], kt. […], [J], kt. […] og [K], kt. […] (hér eftir gagnaðilar). Af gögnum málsins má ráða að forsvarsmaður kæranda hafi áður verið meðeigandi að jörðinni en hann hafi selt hlut sinn þann 7. janúar 2016.

Eins og fyrr segir er ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 17. febrúar 2022 og barst ráðuneytinu stjórnsýslukæra vegna ákvörðunarinnar dags. 2. mars 2022. Í kærunni er þess krafist að ákvörðun fyrirtækjaskrá verði annað hvort felld úr gildi og vísað aftur til efnislegrar meðferðar, eða henni breytt kæranda í hag. Kærendur byggja á því að ágreiningur málsins heyri ekki undir fyrirtækjaskrá og jafnframt er þess krafist að frestað verði réttaráhrifum ákvörðunar fyrirtækjaskrár þar til niðurstaða ráðuneytisins í kærumálinu liggur fyrir.
Með úrskurði ráðuneytisins hinn 29. ágúst 2022 var réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar fyrirtækjaskrár frestað þar til niðurstaða ráðuneytisins í málinu liggur fyrir. Einnig var málsástæðu kæranda um að
ágreiningur málsins heyri ekki undir fyrirtækjaskrá hafnað. Um atvik málsins vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun og gögnum málsins.

Sjónarmið kæranda
Til nánari rökstuðnings fyrir beiðni um frestun réttaráhrifa vísar kærandi til erindis sem móttekið var hjá ráðuneytinu dags. 28. febrúar 2022 en ráðuneytinu bárust einnig sjónarmið kæranda í málinu með erindi dags. 14. mars 2022.

Í framangreindum erindum kemur m.a. fram að ágreiningurinn í málinu lúti að því hvort skráning firmaheitisins [B] ehf. brjóti gegn betri rétti eigenda jarðarinnar [D].
Kærandi byggir á því að ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 17. febrúar 2022 eigi sér ekki viðhlítandi lagastoð og að valdþurrð sé til staðar. Málið heyri ekki undir fyrirtækjaskrá og skráin sé því ekki bært stjórnvald til að taka ákvörðun í málinu. Kærandi telur ágreininginn fremur eiga að heyra undir Örnefnanefnd með vísan til 2. málsl. 8. gr. firmalaga. Hvað frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar varðar kemur fram að tilgangurinn með kröfunni sé að koma í veg fyrir þau miklu óþægindi, skaða og fjárhagslega tjón sem fyrirsjáanlegt er að kærendur verði fyrir nái áhrif ákvörðunar fyrirtækjaskrár dags. 17. febrúar 2022 fram að ganga.

Kærandi gerir athugasemd við að í ákvörðun fyrirtækjaskrár er höfð hliðsjón af ákvæðum laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu (hér eftir lög nr. 57/2005) og laga nr. 45/1997 um vörumerki (hér eftir lög um vörumerki) og tekur fram að Hugverkastofa fari með eftirlit skv. síðarnefndu lögunum.
Byggt er á því að vörumerkjaréttur hafi stofnast í kringum heitið […] í atvinnustarfsemi kæranda á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um vörumerki og því sé honum heimilt að nota firmaheitið [B] ehf.
Kærandi vísar til laga nr. 17/2003 um fyrirtækjaskrá (hér eftir lög um fyrirtækjaskrá) og heldur fram að ekki sé með beinum hætti lagt bann við því að nota firmaheiti annarra líkt og gert er í lögum um vörumerki.
Þá kemur fram að kærandi hafi notað firmaheitið [B] ehf. í um 9 ár án athugasemda þangað til nú og þannig skapað sér festu og viðskiptavild. Að endingu tekur kærandi fram að samningur, sem þinglýst er á jörðina [D], sé í gildi milli málsaðila sem heimili kæranda að nota vörumerkið […] um hrossarækt sína. Hrossarækt félagsins sé kennd við […] og félagið dragi nafn sitt af því.

Um sjónarmið kæranda vísast að öðru leyti til þess sem segir í kæru og framangreindum erindum frá 28. febrúar og 14. mars 2022.

Sjónarmið fyrirtækjaskrár
Með bréfum dags. 3. og 15. mars 2022 óskaði ráðuneytið eftir umsögn fyrirtækjaskrár um stjórnsýslukæru og kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Jafnframt óskaði ráðuneytið eftir afriti af öllum gögnum málsins. Umsagnir fyrirtækjaskrár bárust með bréfum dags. 10. og 29. mars 2022.
Í umsögn skrárinnar frá 10. mars 2022 kemur m.a. fram að heimild til frestunar réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar sé í höndum æðra stjórnvalds sem í þessu tilviki sé ráðuneytið og að fyrirtækjaskrá muni að svo stöddu ekki gera athugasemdir við beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa.

Í umsögn skrárinnar frá 29. mars 2022 kemur m.a. fram að fyrirtækjaskrá annist útgáfu á kennitölu til annarra en einstaklinga sbr. 1. gr. laga um fyrirtækjaskrá. Fyrirtækjaskrá beri að geyma upplýsingar um einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi sbr. 1. tölul. 2. gr. laga um fyrirtækjaskrá. Í 4. gr. sömu laga eru talin upp atriði sem skal skrá í fyrirtækjaskrá og ákvarðar skráin einungis í málum er varða skráningarskyld atriði. Fyrirtækjaskrá beri m.a. að skrá upplýsingar um heiti félaga samkvæmt nefndu ákvæði 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá og skal skráningin vera í samræmi við þær réttarheimildir sem gilda um skráninguna og viðkomandi félag. Við ákvörðun um skráningu firmaheita sé litið til áðurnefndra laga um fyrirtækjaskrá, firmalaga og laga nr. 57/2005.

Fyrirtækjaskrá hafnar því að ákvörðun skrárinnar eigi sér ekki viðhlítandi lagastoð og að valdþurrð sé til staðar. Eitt af úrræðum skrárinnar sé að hafna skráningu tilkynningar um breytingu á nafni ef tilkynningin er ekki í samræmi við lög eða aðrar réttarheimildir. Forsvarsmenn kæranda hafi þá undirritað nafnafyrirvara á tilkynningu um breytingu á firmaheiti félagsins sem móttekin var hjá skránni hinn 20. janúar 2016.
Einnig vísar skráin til þess að orðið […] sé ekki almennt orð skv. orðabók heldur nafn á jörð í eigu gagnaðila. Firmaheitið hefði því ekki átt að skrá upphaflega án athugasemda.
Um sjónarmið fyrirtækjaskrár vísast að öðru leyti til þess sem segir í umsögnum embættisins dags. 10. og 29. mars. 2022.

Sjónarmið gagnaðila
Með bréfum dags. 3. og 15. mars 2022 gaf ráðuneytið gagnaðilum, þ.e. eigendum jarðarinnar [D], færi á að koma að sjónarmiðum sínum um stjórnsýslukæru og kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa. Sjónarmið gagnaðila í málinu bárust með bréfum dags. 13. og 29. mars 2022.
Í framangreindum erindum er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar mótmælt enda eigi hún ekki við rök eða lagaheimildir að styðjast. Þá er þess krafist að hin kærða ákvörðun fyrirtækjaskrár verði staðfest.

Gagnaðilar vísa til meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga um að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunar og benda á að 2. mgr. ákvæðisins, sem kveður á um heimild til frestunar réttaráhrifa, feli í sér undantekningu frá nefndri meginreglu og beri þ.a.l. að túlka þröngt.
Þá kemur fram að engin haldbær rök eða lagaheimildir hafi verið færð fram af kæranda til stuðnings málsástæðu hans um að ákvörðun fyrirtækjaskrár eigi sér ekki lagastoð og að valdþurrð sé til staðar. Á tilkynningu um breytingu firmaheitisins [E] ehf. yfir í [B] ehf., sem móttekin var hjá fyrirtækjaskrá í byrjun árs 2016, kom fram nafnafyrirvari sem forsvarsmenn kæranda rituðu undir. Heimild fyrirtækjaskrár til að afmá firmaheiti kæranda úr skránni sé því fortakslaus.

Gagnaðilar hafna því að vörumerkjaréttur hafi stofnast í kringum firmaheitið [B] ehf. enda sé ekki um að ræða vörumerki í skilningi laga um vörumerki. Því er þá alfarið hafnað af gagnaðilum að samningur aðila um að kærendur megi kenna folöld sín við […] veiti þeim rétt til notkunar firmaheitisins [B] ehf.
Gagnaðilar vísa til athugasemda kæranda um tómlætissjónarmið og taka fram að reglur kröfuréttar um tómlætisáhrif hafi enga þýðingu í málinu. Mál þetta snúi að nafni fasteignar sem lúti reglum eignarréttar og ekki sé unnt að öðlast eignarrétt fyrir tómlæti eigenda ef um tómlæti væri yfirleitt að ræða. Því er einnig alfarið hafnað að gagnaðilar hafi sýnt af sér nokkurt tómlæti í málinu.
Þá er áréttað að kærendur hafi aldrei óskað eftir heimild gagnaðila fyrir skráningu á firmaheitinu [B] ehf. á meðan þau voru meðeigendur að jörðinni né síðar.
Að endingu segir að megintilgangur gagnaðila með andmælum við skráningu firmaheitisins [B] ehf. hafi verið að gæta lögvarðra hagsmuna sinna, verja eignarrétt sinn að jarðarheitinu [D] og koma í veg fyrir ólögmæta notkun kærenda á heitinu. Misnotkun kærenda á nafninu valdi því að eigendum jarðarinnar sé gert ómögulegt að nýta jörðina og nafn hennar með þeim hætti sem þeir einir eiga að hafa rétt til.
Um sjónarmið gagnaðila vísast að öðru leyti til þess sem segir í framangreindum erindum frá 3. og 15. mars. 2022.

Forsendur og niðurstaða
I. Stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu innan kærufrests og telst kæran því löglega fram komin. Með úrskurði ráðuneytisins dags. 29. ágúst 2022 var réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar fyrirtækjaskrár frestað þar
til niðurstaða ráðuneytisins í málinu lægi fyrir. Jafnframt féllst ráðuneytið ekki á það með kærendum að ágreiningur sá sem um ræðir ætti með réttu að heyra undir Örnefnanefnd í stað fyrirtækjaskrár.
Málið hefur hlotið lögbundna umsagnarmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.
II.
Í 2. kafla, 8. – 23. gr. firmalaga er fjallað um firmu.
Í 8. gr. firmalaga segir að hver sá sem stundi atvinnurekstur skuli fara eftir þeim ákvæðum sem á eftir fylgi, um nafn það, sem hann notar við atvinnuna, og um undirskrift fyrir hana (firma), enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn, sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara.
Í 1. mgr. 10. gr. laganna segir að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis. Þá segir að í firma megi eigi nefna fyrirtæki, er ekki standa í sambandi við atvinnuna; eigi má heldur halda firma því óbreyttu, er tilgreinir ákveðna atvinnugrein, ef veruleg breyting hefur verið gerð á henni. Í 2. mgr. sömu greinar segir að firmu þau, er sett eru á skrá fyrir sama kaupstað eða hrepp, skuli greina glöggt hvert frá öðru. Sá, sem tilkynnir firma með nafni sínu, skal því ef samnefnt firma er þegar sett á skrá fyrir einhvern annan í sama kaupstað eða hrepp, greina firma sitt glöggt frá hinu eldra firma með viðauka við nafn sitt eða á annan hátt. Sá, sem eigi tilkynnir firma, en ætlar að reka atvinnu með nafni sjálfs síns (sbr. 16. gr.), má ekki stæla skrásett firma, sem hefur sama nafn, með því að bæta við nafn sitt, fella úr því eða breyta.
III.
Í þágildandi 1. gr. firmalaga kemur fram að í öllum lögsagnarumdæmum á Íslandi skuli sýslumenn halda verslanaskrár og skuli í þær rita tilkynningar þær sem um getur í lögunum. Í mgr. 2. gr. laganna segir að tilkynning til innritunar í verslanaskrá skuli vera skrifleg og henni fylgja lögboðin borgun fyrir skráningu og auglýsingu. Þá segir í 1. mgr. 3. gr. að ef tilkynning er ekki lögum samkvæmt skuli henni vísað frá og athugasemd send tilkynnanda. Ákvæði 1. gr. laganna hefur nú verið breytt þannig að fyrirtækjaskrá heldur verslanaskrá og skráir í þær tilkynningar sem um getur í lögunum. Tók breytingin gildi 1. janúar 2014.
Í 1. og 2. mgr. 1. gr. laga um fyrirtækjaskrá segir að halda skuli fyrirtækjaskrá og að skráin skuli starfrækt af ríkisskattstjóra sem annist útgáfu á kennitölum til annarra en einstaklinga. Í 1. tölul. 2. gr. laganna segir að fyrirtækjaskrá skuli geyma upplýsingar um einstaklinga, félög og aðra aðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Í 3. gr. laganna segir m.a. að fyrirtækjaskrá skuli halda aðgreinanlegar skrár yfir hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur samkvæmt þeim lögum sem gilda um þessi félög og stofnanir. Þá er í 4. gr. talin upp í tólf töluliðum þau atriði sem skrá skal í fyrirtækjaskrá en þar er í 1. tölul. tilgreint heiti félagsins.
Fyrirtækjaskrá tekur þannig við skráningum einstaklinga, félaga og annarra aðila sem stunda atvinnurekstur.
Ákvarðanir fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra eru kæranlegar til menningar- og viðskiptaráðuneytisins samkvæmt ákvæði 26. gr. stjórnsýslulaga.
IV.
Með hugtakinu firma er átt við heiti tiltekins fyrirtækis sem stundar atvinnustarfsemi. Á það bæði við þegar starfsemin er rekin í nafni félags og í nafni einstaklings. Markmið með ákvæðum firmalaga um firmanöfn er að tryggja að ýmsar mikilvægar og réttar upplýsingar liggi fyrir um félag og að viðskiptamaður þess geti ávallt séð við hvern hann er að semja. Þau skilyrði sem firmu verða almennt að uppfylla til að verða viðurkennd og fást skráð eru að firmað samrýmist almennu íslensku málkerfi, að sérkenni þess séu nægjanleg til að skilja það frá öðrum, það segi sannleikann um starfsemi sína og það brjóti ekki gegn rétti
annarra. Í því síðast talda felst bæði að firma má ekki vera líkt heiti sem annað félag í svipuðum rekstri á betri rétt yfir né að brjóta gegn rétti til heitis sem annar á.
Lögverndun firmaheitis hefur mikla þýðingu fyrir eiganda firmaheitisins á þann hátt að vernda viðskiptavild sem hann hefur skapað firmanu með vinnu sinni og fjármunum, auk þess sem firmaheitið getur verið trygging almennings fyrir þeim afurðum sem firmað býður fram.
Með skráningu firmaheitis kann firmaeigandinn því að öðlast einkarétt til heitisins sem felst í því að öðrum sé óheimilt að nota firmaheitið eða annað heiti sem því líkist á þann hátt að um ruglingshættu geti verið að ræða.
V.
Kærandi, félagið [E] ehf., kt. […], var stofnað og skráð í fyrirtækjaskrá á árinu 2015. Nafni félagsins var breytt í [D] ehf. með tilkynningu sem móttekin var hjá fyrirtækjaskrá hinn 20. janúar 2016. Samkvæmt vottorði úr fyrirtækjaskrá er tilgangur félagsins […].


Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. firmalaga má enginn í firma sínu hafa nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis. Meginreglan er sú að teljist heiti almennt er ekki unnt að banna öðrum notkun orðsins eða heitisins, svo fremi sem hann aðgreini sitt firmaheiti frá því sem þegar kann að vera skráð með sama heiti. Lagavernd firmaheitis er þannig háð því að heitið hafi þá eiginleika, þ.e. sérkenni, að fallist verði á að félag hafi með skráningu firmaheitisins öðlast einkarétt á því gagnvart öðrum. Kröfunni um sérkenni firmaheitis hefur þar af leiðandi ekki þótt fullnægt, ef aðalorðið í firmanu er almennt heiti. Þetta kom fram í Hæstaréttardómi frá 16. maí 1947 í máli nr. 132/1946 þar sem félagið Fiskimjöl h/f stefndi Fiskimjöl Njarðvík h/f og krafðist þess að stefnda yrði dæmt óheimilt að nota firmanafnið Fiskimjöl Njarðvík. Í dómnum kemur fram að orðið fiskimjöl sé almennt vöruheiti og ekki séu nægileg sérkenni fólgin í firmaheiti áfrýjanda og krafa hans því ekki tekin til greina.
Orðið […] er ekki að finna í íslenski orðabók en hins vegar er jörðin [D] skráð í fasteignaskrá, skv. lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, með fastanúmerið […] og er engin önnur jörð skráð með því nafni hér á landi. Orðið kemur að auki upp í Íslandsatlas, sem er kortabók yfir Ísland. Er því um að ræða nafn á jörð sem aukinheldur er ekki að finna í orðabók. Orðið getur því ekki talist almennt og án sérkenna.
Samkvæmt veðbókarvottorði Sýslumannsins á […] eru gagnaðilar málsins þinglýstir eigendur jarðarinnar [D]. Kærandi ber því nafn skráðrar jarðar en ekkert leyfi liggur fyrir í máli þessu frá eigendum jarðarinnar til kæranda fyrir notkun á nafninu [B] ehf.
Í dómi Hæstaréttar frá 13. nóvember 1968 í máli nr. 97/1968 var félaginu Strandberg h/f gert að fella niður úr firmaheiti sínu nafnið Strandberg þar sem um var að ræða nafn annars manns, n.tt. ættarnafn, á grundvelli 1. mgr. 10. gr. firmalaga. Í dómnum kemur fram að firmaheitið sé til þess fallið að vekja þá hugmynd, að hið stefnda félag sé í tengslum við þá er bera ættarnafnið Strandberg. Ráðuneytið telur að dómurinn hafi fordæmisgildi í máli þessu þar sem sambærileg sjónarmið gilda um notkun á nafni annars manns og nafni á fasteign annars manns í firmaheiti sbr. áðurnefnd 1. mgr. 10. gr. firmalaga.
Líkt og áður segir kom fram nafnafyrirvari á tilkynningu um breytingu nafnsins [E] ehf. yfir í [B] ehf., sem undirrituð var hinn 4. janúar 2016 en móttekin hjá fyrirtækjaskrá hinn 20. janúar 2016. Stjórnarmaður kæranda, sem jafnframt er skráður framkvæmdastjóri og prókúruhafi, undirritaði tilkynningu og skuldbatt sig þar með til að hlutast til um nafnabreytingu, kæmi í ljós við nánari athugun að nafn félagsins fengist ekki samrýmst betri rétti annarra.
Ráðuneytið fellst þá ekki á að þinglýstur samningur á jörðinni [D] sem kærendur vísa til og kveður á um heimild forsvarsmanns kæranda, eiginmanns hennar og fyrirtækja í þeirra eigu að kenna hross sín við [D], feli í sér heimild til að skrá firmaheitið [B] ehf.
VI.
Hvað varðar málsástæðu kæranda um að vörumerkjaréttur hafi stofnast í kringum heitið […] í atvinnustarfsemi þeirra á grundvelli notkunar sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um vörumerki þá er ráðuneytið ekki bært til að taka afstöðu til þess enda eru það önnur stjórnvöld en fyrirtækjaskrá sem fara með framkvæmd þeirra laga. Þá telur ráðuneytið rétt að taka fram að vörumerkið […] er ekki skráð sem vörumerki hjá Hugverkastofu.
Þrátt fyrir að hliðsjón hafi verið höfð af ákvæðum laga nr. 57/2005 í ákvörðun fyrirtækjaskrár er ekki á það fallist með kærendum að ákvörðun skrárinnar eigi sér ekki viðhlítandi lagastoð enda er tekið fram í ákvörðun skráarinnar að fyrst og fremst beri að horfa til ákvæða firmalaga við val á firmanafni. Að öðru leyti vísar ráðuneytið til rökstuðnings í úrskurði þess dags. 29. ágúst 2022 þar sem réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar fyrirtækjaskrár var frestað þar til niðurstaða ráðuneytisins í málinu liggur fyrir og málsástæðu kæranda um að ágreiningur málsins heyri ekki undir fyrirtækjaskrá var hafnað.
VII.

Kærandi gerir aðfinnslur við það hve langur tími hefur liðið frá skráningu firmaheitisins án athugasemda gagnaðila og því hafi fyrirtækið skapað sér festu og viðskiptavild.
Af gögnum málsins má ráða að annað félag var rekið af forsvarsmönnum kæranda undir nafninu […] ehf. frá árinu 2012 til ársins 2015 með kennitöluna […]. Það félag var hins vegar afskráð hinn 8. janúar 2016. Firmaheiti kæranda, [B] ehf., var í framhaldinu skráð í fyrirtækjaskrá 20. janúar 2016. Kærandi vísar til þess að hann hafi notað firmaheitið í um 9 ár án athugasemda gagnaðila. Í þessu máli er hins vegar deilt um skráningu firmaheitis kæranda sem skráð var í fyrirtækjaskrá í janúar 2016 en ekki árið 2012. Ráðuneytið tekur ekki afstöðu til réttarstöðu firmaheitis annars félags sem þegar hefur verið afskráð þrátt fyrir að það hafi verið í eigu sömu aðila. Afmarkast því umfjöllun ráðuneytisins við firmaheiti kæranda sem skráð var í fyrirtækjaskrá 20. janúar 2016 og mál þetta lýtur að.

Ráðuneytið telur að þrátt fyrir að nokkur tími hafi liðið frá skráningu firmaheitisins [B] ehf. í fyrirtækjaskrá og þar til andmæli voru höfð uppi hjá fyrirtækjaskrá af hálfu gagnaðila verði ekki litið svo á að um sé að ræða tómlæti þess eðlis að réttur gagnaðila til að fá nafnið afmáð úr hlutafélagaskrá sé niður fallin af þeim sökum.
Telja verður að firmaheitið geti vakið þá hugmynd að félagið sé í tengslum við þá aðila er eiga jörðina [D]. Þrátt fyrir að af gögnum málsins megi ráða að forsvarsmaður kæranda hafi áður verið einn eiganda hennar þá var hann það ekki við skráningu firmaheitisins í fyrirtækjaskrá hinn 20. janúar 2016. Þá sé nafngift kæranda til þess fallin að gera eigendum jarðarinnar [D] ókleift að nýta nafn hennar með þeim hætti sem þeir hafa rétt til.
Að öllu framangreindu virtu er það mat ráðuneytisins, með hliðsjón af 1. mgr. 10. gr. firmalaga, að skráning firmaheitisins [B] ehf. gangi gegn betri rétti þinglýstra eigenda jarðarinnar [D]. Í máli þessu liggur ekki fyrir leyfi frá eigendum jarðarinnar fyrir notkun nafnsins í firmaheiti kæranda og þar að auki undirrituðu forsvarsmenn kæranda nafnafyrirvara við skráningu firmaheitisins í fyrirtækjaskrá.
Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður sem koma fram í stjórnsýslukærunni og öðrum gögnum málsins geti ekki haft þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls.
VIII.
Með vísan til þess sem að framan greinir staðfestir ráðuneytið hina kærðu ákvörðun fyrirtækjaskrár um að skráning á firmaheitinu [B] ehf. brjóti gegn betri rétti eigenda jarðarinnar [D] og að skráin hyggist taka nafnið af skrá.

Úrskurðarorð
Ráðuneytið staðfestir ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 17. febrúar 2022 um að skráning á firmaheitinu [B] ehf. brjóti gegn betri rétti eigenda jarðarinnar [D] og að skráin hyggist taka nafnið af skrá.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum