Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins

Úrskurður vegna stjórnsýslukæru: Ársreikningi skilað með skattaframtali

 

Kæra vegna vanskila á ársreikningi fyrir reikningsárið 2021



Föstudaginn 4. apríl 2024, var í menningar- og viðskiptaráðuneytinu

kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 

Stjórnsýslukæra

Þann 20. desember 2022 barst ráðuneytinu erindi [X] (hér eftir kærandi), kt. […], þar sem borin er fram kæra vegna ákvörðunar ársreikningaskrár hjá ríkisskattstjóra (hér eftir ársreikningaskrá) frá 3. október 2022 um að leggja stjórnvaldssekt á félagið þar sem ársreikningi fyrir reikningsárið 2021 hafi ekki verið skilað. 

 

Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

 

Kröfur

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

 

Málsatvik

Hinn 11. ágúst 2022 var kæranda send rafræn tilkynning um að kæranda bæri að skila ársreikningi til opinberrar birtingar innan tilgreindra tímamarka en tilkynningin birtist á þjónustusíðu kæranda hjá ríkisskattstjóra. Þar að auki var lokafrestur til að skila ársreikningi auglýstur á vef skattsins og í fjölmiðlum.

 

Hinn 3. október 2022 var fésekt að fjárhæð kr. 600.000 lögð á kæranda þar sem ársreikningi þess fyrir reikningsárið 2021 hafði ekki verið skilað.

 

Kærandi skilaði inn ársreikningi til ársreikningaskrár vegna reikningsársins 2021 hinn […] og í kjölfarið var fésektin lækkuð í 60.000 kr.

 

Sjónarmið kæranda

Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi skilað ársreikningi með röngum hætti. Hafi kærandi einungis skilað skattframtali án þess að haka sérstaklega við að fyrirtækjaskrá yrði veitt heimild til þess að útbúa ársreikning fyrir hönd félagsins út frá skattframtalinu í þeim tilgangi að senda hann til ársreikningaskrár til birtingar. 

 

Sjónarmið ársreikningaskrár

 Í sektarákvörðun er m.a. fjallað um ákvæði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og lögskýringargögn þar að baki. Fram kemur að skylda til að skila ársreikningi samkvæmt framangreindu ákvæði nái til allra félaga sem falla undir lög um ársreikninga. Í sektarákvörðun er einnig fjallað um sektarheimild skv. 120. gr. laga um ársreikninga og heimild til lækkunar sektarfjárhæðar ef ársreikningi er skilað innan tiltekinna tímamarka.

 

           Örfélögum er heimilt að láta semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit sem byggð eru á skattframtali þeirra í stað ársreikninga, enda teljast þau gefa glögga mynd af afkomu félagsins, sé það gert með eftirfarandi hætti. Eftir að örfélag hefur skilað inn skattframtali er farið inn á þjónustusíðu RSK (skattur.is) og valið að láta RSK útbúa ársreikning félagsins. RSK útbýr svo ársreikning félagsins byggðan á framangreindum upplýsingum og sér um að skila reikningum til ársreikningaskrár til birtingar.

 

Forsendur og niðurstaða

I.

Stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu innan kærufrests og telst kæran því löglega fram komin.

 

II.

Í 1. gr. laga um ársreikninga er að finna gildissvið laganna. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna gilda lögin m.a. um einkahlutafélög.

 

Gerðar voru breytingar á orðalagi ákvæðis 1. gr. laganna með lögum nr. 73/2016, um breytingu á lögum um ársreikninga, til þess að taka af allan vafa um að öllum félögum með takmarkaðri ábyrgð væri skylt að skila ársreikningi til opinberrar birtingar.

 

III.

Samkvæmt 7. mgr. 3. gr. laga um ársreikninga er örfélögum, eins og þau eru skilgreind í a-lið 11. tölul. 2. mgr. laganna, heimilt að semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit, byggð á skattframtali félagsins, í stað ársreiknings. Ársreikningaskrá skal gera örfélögum kleift, við rafræn skil til skrárinnar, að nota innsendar upplýsingar til ríkisskattstjóra til að semja rekstraryfirlitið og efnahagsyfirlitið. Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 73/2016 segir að skil örfélaga samkvæmt ákvæðinu skuli haldast í hönd við skattskil.

 

Örfélag samkvæmt a-lið 11. tölul. 2. gr. laganna eru félag sem við uppgjörsdag fer ekki yfir mörkin á a.m.k. tveimur af þremur eftirfarandi viðmiðunum:

    1. heildareignum: 20.000.000 kr.,

    2. hreinni veltu: 40.000.000 kr.,

    3. meðalfjölda ársverka á fjárhagsárinu: 3.

 

Rétt er að taka fram að kærandi er örfélag í skilningi laga um ársreikninga.

 

Ákvæði 7. mgr. 3. gr. laga um ársreikninga kom nýtt inn með lögum nr. 73/2016 um breytingu á lögum um ársreikninga en ákvæðinu er ætlað að létta stjórnsýslubyrðum af félögum undir tilteknum stærðarmörkum, þ.e. örfélögum eins og þau eru skilgreind í lögunum, með þvi að gera þeim kleift að skila inn styttri útgáfu af ársreikningi byggðum á upplýsingum í skattframtali félagins með því að haka í sérstakan reit á skattframtali. 

 

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga um ársreikninga skal félag skv. 1. gr. laganna senda ársreikningaskrá ársreikning sinn, ásamt áritun endurskoðenda eða undirritun skoðunarmanna og upplýsingum um hvenær ársreikningurinn var samþykktur, eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings og samstæðureiknings, ef við á, en þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs.

 

Samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laganna er örfélögum sem skv. 3. gr. laganna er heimilt að skila rekstraryfirliti og efnahagsyfirliti byggðum á skattframtali félagsins slíkum ársreikningi innan þess frests sem ríkisskattstjóri veitir skattaðilum til að skila framtölum sínum, sbr. ákvæði 2. mgr. 93. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

 

V.

Samkvæmt 1. mgr. 120. gr. laga um ársreikninga skal ársreikningaskrá leggja stjórnvaldssektir að fjárhæð 600.000 kr. á þau félög sem vanrækja að skila ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan frests sem kveðið er á um í 109. gr. laganna. Skal ársreikningaskrá jafnframt krefjast úrbóta.

 

Samkvæmt 2. mgr. 120. gr. laga um ársreikninga skal lækka sektarfjárhæðina um 90% ef úrbætur eru gerðar innan 30 daga frá tilkynningu um álagningu stjórnvaldssektar. Ef úrbætur eru gerðar innan tveggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skal lækka sektarfjárhæðina um 60% og ef úrbætur eru gerðar innan þriggja mánaða frá tilkynningu sektarfjárhæðar skal lækka sektarfjárhæðina um 40%.

 

VI.

Kærandi er einkahlutafélag og fellur sem slíkt undir ákvæði laga um ársreikninga, m.a. ákvæði 109. gr. laganna um skil ársreikninga til ársreikningaskrár til opinberrar birtingar. Ljóst er að kæranda bar að skila ársreikningi vegna reikningsársins 2021 innan þess frests sem kveðið er á um í 2. mgr. 109. gr. laga um ársreikninga, en sá frestur var til 30. september 2022. Ársreikningaskrá lagði stjórnvaldssekt á kæranda að fjárhæð 600.000 kr. fyrsta virka dag eftir það tímamark, eða þann 3. október 2022 og skoraði jafnframt á kæranda að skila ársreikningi félagsins vegna reikningársins 2021 sem allra fyrst. Kærandi skilaði ársreikningnum þann […].

 

Eins og að framan greinir voru gerðar breytingar á orðalagi 1. gr. laga um ársreikninga á árinu 2016 en breytingin gerði það að verkum að öll félög á tilteknu félagaformi, m.a. öll einkahlutahlutafélög, féllu undir gildissvið laganna. Fyrir breytinguna hafði skv. úrskurði yfirskattanefndar ekki hvílt lagaskylda á einkahlutafélögum sem ekki höfðu haft með höndum starfsemi á því reikningsári sem um ræddi að senda ársreikningaskrá ársreikning sinn til opinberrar birtingar þar sem þau voru ekki talin stunda atvinnurekstur í skilningi 3. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna.

 

Eftir lagabreytinguna ber þeim félögum sem lög um ársreikninga taka til, m.a. öllum einkahlutafélögum, hvort sem þau hafa með höndum starfsemi á viðkomandi reikningsári eða ekki, að skila ársreikningi til ársreikningaskrár til opinberrar birtingar.

 

VII.

Svo sem kveðið er á um í 7. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 109. gr. laga um ársreikninga er örfélögum í skilningi laganna heimilt að skila rekstraryfirliti og efnahagsyfirliti byggðu á skattframtali félagsins til ársreikningaskrár innan þess frests sem ríkisskattstjóri veitir skattaðilum til að skila framtölum sínum, sbr. ákvæði 2. mgr. 93. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

 

VIII.

Líkt og áréttað er að framan er örfélögum heimilt að láta semja rekstraryfirlit og efnahagsyfirlit sem byggð eru á skattframtali þeirra í stað ársreiknings með því að ýta á svokallaðan ,,hnappsreikning‘‘ (hnappurinn). RSK útbýr síðan ársreikninga byggðan á framangreindum upplýsingum og sér um að skila reikningnum til ársreikningaskrár til birtingar. Umrædd heimild kom inn með ákvæði 7. mgr. 3. gr. laga um ársreikninga sem kom nýtt inn með breytingarlögum nr. 73/2016 og hafði það að markmiði að létta stjórnsýslubyrðina af félögum undir tilteknum stærðarmörkum, þ.e. örfélögum, með því að gera þeim kleift að skila inn styttri útgáfu af ársreikningi byggðum á upplýsingum í skattframtali félagsins með því að haka í sérstakan reit á skattframtali. Svo virðist sem framangreind heimild hafi hins vegar leitt til nokkurs misskilnings um skyldu þessara félaga til að skila ársreikningi annars vegar til ársreikningaskrár og hins vegar til skattyfirvalda með skattskilum.

Liggur fyrir að kærandi stóð vitlaust að skilum ársreiknings með því að hafa ekki ýtt á hnappinn. Hafði það í för með sér að RSK var ekki veitt tilskilin heimild til þess að útbúa ársreikning félagsins og skila honum til ársreikningaskrár til birtingar innan tilskilins frests. Sé litið til þess er það niðurstaða ráðuneytisins í málinu að staðfesta ákvörðun ársreikningaskrár frá 3. október 2022 um að leggja á kæranda sekt vegna síðbúinna skila ársreiknings vegna reikningsársins 2021.

Ráðuneytið lítur það alvarlegum augum að félög sem falla undir ákvæði laga um ársreikninga skili ársreikningum ekki innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í lögunum. Niðurstaða ráðuneytisins í máli þessu byggir á því að hér sé um einfalda og skýra heimild að ræða sem sett hafi verið fyrir örfélög til þess að gera þeim auðveldara fyrir að standa í skilum á ársreikning. Fyrirtækjaskrá sé samheiti yfir þær skrár sem haldnar eru um atvinnurekstur í landinu. Aftur á móti sé ársreikningaskrá sjálfstæð skrá sem er hliðstæð fyrirtækjaskrá og stendur þannig utan þeirra skráa sem almennt eru taldar falla undir fyrirtækjaskrá. Þar af leiðandi jafngilda skil á ársreikningi með skattframtali ekki skilum á ársreikningi til ársreikningaskrár enda er ársreikningur sem skilað er inn með skattframtali ekki ætlaður til opinberrar birtingar. Á skattyfirvöldum hvílir rík þagnarskylda og eru gögn sem skila á með skattframtali skilgreind í lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt. Ársreikningaskrá starfar á grundvelli laga nr. 3/2006 um ársreikninga og veitir aðgang að skilaskyldum gögnum samkvæmt þeim lögum, sbr. 109. gr. laganna. Í lögum um ársreikninga er ekki að finna heimild fyrir ársreikningaskrá til að sækja ársreikninga til birtingar, sem skilað var með skattframtali.

 

Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða ráðuneytisins í málinu að staðfesta ákvörðun ársreikningaskrár frá 3. október 2022 um að leggja á kæranda sekt vegna síðbúinna skila ársreiknings vegna reikningsársins 2021.

 

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær má rekja til mikilla anna ráðuneytinu.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun ársreikningaskrár RSK, dags. 3. október 2022, um að leggja á sekt vegna síðbúinna skila ársreiknings einkahlutafélagsins [X] vegna reikningársins 2021 er staðfest.

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum