Úrskurður vegna stjórnsýslukæru: Ákvörðun ársreikningaskrár hjá ríkisskattstjóra um sektarálagningu
Með erindi þann 11. október 2021 bar [X] (hér eftir kærandi), kt. […], fram kæru vegna ákvörðunar ársreikningaskrár hjá ríkisskattstjóra (hér eftir ársreikningaskrá) frá 4. október 2021 um að leggja stjórnvaldssekt á félagið þar sem ársreikningi fyrir reikningsárið 2020 hafi ekki verið skilað.
Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.
Kröfur
Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málsatvik
Hinn 12. og 19. ágúst 2021 voru kæranda sendar rafrænar tilkynningar um að kæranda bæri að skila ársreikningi til opinberrar birtingar innan tilgreindra tímamarka en tilkynningarnar birtust á þjónustusíðu kæranda hjá ríkisskattstjóra.
Hinn 4. október 2021 var fésekt að fjárhæð kr. 600.000 lögð á kæranda þar sem ársreikningi þess fyrir reikningsárið 2020 hafði ekki verið skilað.
Kærandi skilaði inn ársreikningi til ársreikningaskrár vegna reikningsársins 2020 hinn […] og var sektin í framhaldinu lækkuð um 90% eða í kr. 60.000 sbr. 2. mgr. 120. gr. laga um ársreikninga.
Sjónarmið kæranda
Af gögnum málsins má ráða að skil ársreiknings til ársreikningaskrár vegna reikningsárið 2020 hafi tafist fyrir mistök bókara kæranda.
Sjónarmið ársreikningaskrár
Í sektarákvörðun er m.a. fjallað um ákvæði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og lögskýringargögn þar að baki. Fram kemur að skylda til að skila ársreikningi samkvæmt framangreindu ákvæði nái til allra félaga sem falla undir lög um ársreikninga. Í sektarákvörðun er einnig fjallað um sektarheimild skv. 120. gr. laga um ársreikninga og heimild til lækkunar sektarfjárhæðar ef ársreikningi er skilað innan tiltekinna tímamarka.
Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laganna skal félag skv. 1. gr. sömu laga senda ársreikningaskrá, eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs, ársreikning félagsins ásamt áritun endurskoðanda eða undirritun skoðunarmanna og upplýsingar um hvenær hann var samþykktur. Vanræki félög skilaskyldu samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laganna beri ársreikningaskrá lögum samkvæmt að leggja stjórnvaldssektir á þau.
Forsendur og niðurstaða
I.
Stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu innan kærufrests og telst kæran því löglega fram komin.
II.
Í 1. gr. laga um ársreikninga er að finna gildissvið laganna. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna gilda lögin m.a. um einkahlutafélög.
Gerðar voru breytingar á orðalagi ákvæðis 1. gr. laganna með lögum nr. 73/2016, um breytingu á lögum um ársreikninga, til þess að taka af allan vafa um að öllum félögum með takmarkaðri ábyrgð væri skylt að skila ársreikningi til opinberrar birtingar.
III.
Í lögum nr. 145/1994 um bókhald er fjallað um bókhaldsskyldu. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna teljast einkahlutafélög til bókhaldsskyldra aðila. Í ákvæði 4. gr. laganna kemur fram að sú skylda feli m.a. í sér að semja ársreikninga í samræmi við lög, reglugerðir og settar reikningsskilareglur. Samkvæmt 5. gr. laganna fellur það í hlut stjórnenda einkahlutafélaga að sjá um og bera ábyrgð á að ákvæðum laganna og reglugerða samkvæmt þeim verði fullnægt. Í 22. gr. laganna er fjallað um undirritun ársreiknings. Þar kemur fram að ársreikningur skuli undirritaður af þeim sem bera ábyrgð á bókhaldinu, sbr. 5. gr. laganna.
Í 3. gr. laga um ársreikninga er fjallað um samningu ársreiknings. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að stjórn og framkvæmdastjóri beri ábyrgð á gerð, skilum og birtingu ársreiknings fyrir hvert reikningsár. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins skulu stjórn og framkvæmdastjóri jafnframt undirrita ársreikninginn. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga um ársreikninga skal félag skv. 1. gr. laganna senda ársreikningaskrá ársreikning sinn, ásamt áritun endurskoðenda eða undirritun skoðunarmanna og upplýsingum um hvenær ársreikningurinn var samþykktur, eigi síðar en mánuði eftir samþykkt ársreiknings og samstæðureiknings, ef við á, en þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs.
IV.
Samkvæmt 1. mgr. 120. gr. laga um ársreikninga skal ársreikningaskrá leggja stjórnvaldssektir að fjárhæð 600.000 kr. á þau félög sem vanrækja að skila ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan frests sem kveðið er á um í 109. gr. laganna. Skal ársreikningaskrá jafnframt krefjast úrbóta.
V.
Kærandi er einkahlutafélag og fellur sem slíkt undir ákvæði laga um ársreikninga, m.a. ákvæði 109. gr. laganna um skil ársreikninga til ársreikningaskrár til opinberrar birtingar. Ljóst er að kæranda bar að skila ársreikningi vegna reikningsársins 2020 innan þess frests sem kveðið er á um í 2. mgr. 109. gr. laga um ársreikninga. Ársreikningaskrá lagði stjórnvaldssekt á kæranda að fjárhæð 600.000 kr. þann 4. október 2020 og skoraði á kæranda að skila ársreikningi félagsins vegna reikningársins 2020 sem allra fyrst. Kærandi skilaði ársreikningnum þann […] og var sektin í framhaldinu lækkuð í kr. 60.000 sbr. 2. mgr. 120. gr. laga um ársreikninga.
VI.
Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga um ársreikninga skal félag skv. 1. gr. laganna senda ársreikningaskrá ársreikning sinn innan tilskilins frests. Ársreikningaskrá ber að leggja stjórnvaldssektir að fjárhæð 600.000. kr. á þau félög sem vanrækja skilaskylduna og jafnframt krefjast úrbóta. Ársreikningaskrá hefur þó heimild til að lækka framangreinda sektarfjárhæð ef úrbætur eru gerðar innan tilgreindra tímamarka skv. 2. mgr. 120. gr. laganna.
Í málinu liggur fyrir að kærandi skilaði ársreiknings félagsins til ársreikningaskrár eftir að skilafrestur var liðinn. Ljóst er að kæranda voru í tvígang sendar rafrænar tilkynningar, hinn 12. og 19. ágúst 2021, um að kæranda bæri að skila ársreikningi til opinberrar birtingar innan tilgreindra tímamarka. Að auki hafi skilaskylda ársreikninga innan tilgreindra tímamarka verið auglýst í dagblöðum. Þrátt fyrir það hafi ársreikningi kæranda fyrir reikningsárið 2020 ekki verið skilað til ásreikningaskrár til opinberrar birtingar innan tilsettra tímamarka. Kærandi byggir á að skil ársreiknings til ársreikningaskrár fyrir reikningsárið 2020 hafi tafist fyrir sakir bókara kæranda. Ljóst er að stjórnendur einkahlutafélags bera alfarið ábyrgð á bókhaldi félagsins, sem felst m.a. í samningu og undirritun ársreikninga í samræmi við lög nr. 145/1994 um bókhald. Í lögunum er ekki mælt fyrir um ábyrgð annarra aðila í þessum efnum, t.a.m. endurskoðenda eða skoðunarmanna félaga. Sú skylda verður ekki heldur leidd af lögum nr. 3/2006 um ársreikninga. Þar mælir einungis fyrir um ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra félags á gerð, skilum og birtingu ársreikninga og skyldu til að senda ársreikningaskrá ársreikning, ásamt áritun endurskoðenda eða undirritun skoðunarmanna.
Sé litið framangreindra þátta er það niðurstaða ráðuneytisins í málinu að staðfesta ákvörðun ársreikningaskrár frá 4. október 2021 um að leggja á kæranda sekt vegna síðbúinna skila ársreiknings vegna reikningsársins 2020. Ráðuneytið lítur það alvarlegum augum að félög sem falla undir ákvæði laga um ársreikninga skili ársreikningum ekki innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um í lögunum. Niðurstaða ráðuneytisins í máli þessu byggir á skyldu félaga til þess að senda ársreikningaskrá ársreiknings sinn innan tilskilins frests. Niðurstaðan byggir jafnframt á því að beiting stjórnvaldssektarinnar hafi verið lögákveðin vegna síðbúinna skila.
Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða ráðuneytisins í málinu að staðfesta ákvörðun ársreikningaskrár frá 4. október 2021 um að leggja á kæranda sekt vegna síðbúinna skila ársreiknings vegna reikningsársins 2020.
Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær má rekja til mikilla anna ráðuneytinu.
Úrskurðarorð
Ákvörðun ársreikningaskrár ríkisskattstjóra, dags. 4. október 2021, um að leggja á sekt vegna síðbúinna skila ársreiknings einkahlutafélagsins [X] vegna reikningársins 2020, sbr. ákvörðun um lækkun sektar, er staðfest.