Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á málefnasviðum menningar- og viðskiptaráðuneytisins

Úrskurður v. skráningar firmaheitis. Skráning firmaheitis, endurupptaka kærumáls, málsmeðferðarreglur, aðild að máli

Föstudaginn, 30. desember 2022, var í menningar- og viðskiptaráðuneytinu
kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:


Stjórnsýslukæra

Með bréfi hinn 14. júní 2018 bar [A], kt. […], (hér eftir kærandi) fram kæru vegna ákvörðunar fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra (hér eftir fyrirtækjaskrá) frá 16. mars 2018 um að synja skráningu tilkynningar um breytingu á heiti félagsins og tilkynningar um breytingu á stjórn þess.
Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og barst hún innan kærufrests.
Með úrskurði hinn 25. september 2019 úrskurðaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (nú menningar- og viðskiptaráðuneytið) í málinu. Með tölvubréfi dags. 6. maí 2022 fór [B] fyrir hönd kæranda fram á að ráðuneytið tæki málið upp að nýju og vísaði til álits umboðsmanns Alþingis […] því til stuðnings. Ráðuneytið féllst á að endurupptaka málið með tölvubréfi hinn 12. maí sl. Í samræmi við álit umboðsmanns og með vísan til tölvubréfs dags. 6. maí 2022 hefur ráðuneytið tekið upp þann þátt málsins sem varðar skráningu á firmaheiti kæranda.
Heimild til endurupptöku er að finna í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ólögfestum heimildum stjórnvalda til endurupptöku máls.


Kröfur
Í kæru dags. 14. júní 2018 er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og fyrirtækjaskrá verði gert að taka tilkynningar kæranda um breytingu á heiti kæranda og breytingu á stjórn/prókúru kæranda sem mótteknar voru hinn […] 2017 til skráningar.
Í endurupptökubeiðni kæranda hinn 6. maí 2022 er vísað til álit umboðsmanns Alþingis […] og krafist að menningar- og viðskiptaráðuneytið taki upp að nýju mál það sem endaði með úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 25. september 2019, og leysi úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu. Kærandi byggir á því að úrskurður ráðuneytisins hafi ekki verið til samræmis við lög og vísar til áðurnefnds álits umboðsmanns Alþingis því til stuðnings.


Málsatvik

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru atvik málsins hvað varðar skráningu tilkynningar um breytingu á heiti félagsins með eftirfarandi hætti.
Hinn […] var móttekin hjá fyrirtækjaskrá tilkynning um breytingu á heiti kæranda en samkvæmt tilkynningunni var heiti félagsins [A] en nýtt heiti þess [D]. Tilkynningin var dagsett 8. mars 2017 og undirrituð af [E], kt. […] og [F], kt. […]. Einnig var þann sama dag móttekin tilkynning um breytingu á stjórn/prókúru kæranda. Með tilkynningunum fylgdi afrit af lögum félagsins sem dagsett eru 25. febrúar 2017 og afrit af fundargerð frá […] 2017, sem haldið var 25. febrúar 2017. Í fundargerðinni kemur fram undir lið 9, lagabreytingar, að borin hafi verið upp og samþykkt tillaga um að breyta heiti félagsins og að nýtt heiti þess sé [D].
Hinn 4. apríl 2017 barst fyrirtækjasskrá bréf frá [G] lögmönnum, f.h. [H], kt. […], (hér eftir […]). Í bréfinu er vakin athygli á því að [H] væri þegar skráð í fyrirtækjaskrá en að um væri að ræða […] og að skráning nafnsins [D] myndi brjóta gegn betri rétti [H] til nafnsins.
Fyrirtækjaskrá ákvarðaði í málinu hinn 16. mars 2018 og var niðurstaða skrárinnar, hvað varðar tilkynningu um breytingu á heiti kæranda, að synja skráningu umræddrar tilkynningar kæranda þar sem breytingin bryti gegn betri rétti [H].
Með stjórnsýslukæru, dags. 14. júní 2018, var ákvörðun fyrirtækjaskrár kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
Með bréfi dags. 2. júlí 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn fyrirtækjaskrár um kæruna. Jafnframt óskaði ráðuneytið eftir afriti af öllum gögnum málsins. Umsögn fyrirtækjaskrár barst með bréfi 8. ágúst 2018.
Með bréfi dags 12. október 2018 var kæranda gefið færi á að tjá sig um það sem fram kom í umsögn fyrirtækjaskrár. Andmæli bárust með bréfi dags. 5. febrúar 2019.
Ráðuneytið úrskurðaði í málinu þann 25. september 2019 þar sem hin kærða ákvörðun fyrirtækjaskrár var staðfest.
Með tölvubréfi dags. 6. maí 2022 fór [B] fyrir hönd kæranda fram á að menningar- og viðskiptaráðuneytið verði við tilmælum umboðsmanns Alþingis um að taka upp að nýju mál er varðar stjórnsýslukæru vegna tilkynningar um breytingu á heiti [A], sbr. álit umboðsmanns í máli […]. Í samræmi við álit umboðsmanns og með vísan til tölvubréfs kæranda féllst ráðuneytið þann 12. maí 2022 á að taka upp þann þátt málsins er varðar skráningu á firmaheiti kæranda.
Með bréfi dags. 23. júní 2022 óskaði ráðuneytið eftir umsögn fyrirtækjaskrár í málinu. Jafnframt óskaði ráðuneytið eftir nýjum gögnum er tengdust málinu, ef slík gögn lægju fyrir. Umsögn fyrirtækjaskrár barst með bréfi 7. júlí 2022.
Hinn 3. ágúst 2022 var kæranda gefið færi á að tjá sig um það sem fram kom í umsögn fyrirtækjaskrár og bárust andmæli með bréfi dags. 25. ágúst 2022.
Hinn 20. september 2022 barst ráðuneytinu erindi frá [I], lögmanni, fyrir hönd [H] þar sem þess er óskað að [H] fái að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu hafi málið verið endurupptekið. Með bréfi dags. 30. september 2022 féllst ráðuneytið á að gefa [H] færi á að koma að sínum sjónarmiðum og gögnum í málinu.
Með bréfi dags. 30. september 2022 upplýsti ráðuneytið kæranda um að [H] hafi verið gefið færi á að koma að sínum sjónarmiðum í málinu og að frestur hafi verið veittur til 15. október 2022.
Með tölvubréfi dags. 14. október 2022 óskaði [I], lögmaður, f.h. [H] eftir fresti til 25. október til að koma að athugasemdum í málinu. Ráðuneytið veitti umbeðinn frest samdægurs með tölvubréfi. Athugasemdir [H] bárust með bréfi dags. 25. október 2022.
Hinn 15. október 2022 óskaði kærandi eftir upplýsingum um stöðu málsins í ljósi þess að andmæli [H] höfðu ekki borist honum. Með bréfi dags. 31. október 2022 var kærandi upplýstur um að [H] hafi verið gefinn frestur til 25. október 2022 til að koma að sjónarmiðum sínum í málinu og jafnframt fylgdi með bréf [H] dags. 25. október 2022 ásamt fyrra bréfi lögmanns [H] dags. 20. september 2022. Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um þær upplýsingar er fram koma í framangreindum erindum lögmanns [H]. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi dags. 15. nóvember 2022.
Um atvik málsins vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun og gögnum málsins.


Sjónarmið kæranda
Með stjórnsýslukæru dags. 14. júlí 2018, var ákvörðun fyrirtækjaskrár í máli kæranda kærð til ráðuneytisins. Ráðuneytinu bárust einnig andmæli kæranda í málinu með bréfi dags. 5. febrúar 2019. Þá barst ráðuneytinu beiðni kæranda um endurupptöku málsins með tölvubréfi dags. 6. maí 2022 og andmæli kæranda með bréfum dags. 25. ágúst 2022 og 15. nóvember 2022.
Stjórnsýslukæra dags. 14. júlí 2018 og andmæli kæranda dags. 5. febrúar 2019
Í kæru kemur m.a. fram það sjónarmið kæranda að fyrirtækjaskrá hafi farið út fyrir valdsvið sitt hvað varðar heiti kæranda og gangi of langt inn á sjálfræði félaga. Kærandi telur að ákvörðunin byggi ekki á lögum og að ákvörðunin falli utan verksviðs fyrirtækjaskrár. Telur kærandi að athugasemdum [H] í málinu sé gefið of mikið vægi. Kærandi bendir á að Einkaleyfastofa (nú Hugverkastofa) hafi hafnað umsókn [H] um einkaleyfi á heitinu [D]. Kærandi bendir á að fyrirtækjaskrá taki fram í ákvörðun sinni að ekki sé hægt að banna öðrum notkun almennra heita og að við mat á því hvað telst almennt heiti sé stuðst við orðabók. Þrátt fyrir að orðið […] sé að finna í orðabók komist fyrirtækjaskrá samt sem áður að þeirri niðurstöðu að [H]
eigi betri rétt til að nota orðið í nafni sínu. Telur kærandi að niðurstaða fyrirtækjaskrár sé ekki í samræmi við rökstuðning stofnunarinnar. Þá koma fram þau sjónarmið kæranda að um almennt orð sé að ræða sem ekki sé hægt að banna notkun á líkt og fyrirtækjaskrá gerir. Félögin tvö beri ekki sama heiti og því sé ekki um ruglingshættu að ræða.
Í andmælabréf kæranda er ítrekað að það sé ekki á valdsviði fyrirtækjaskrár að veita [H] einkarétt á notkun orðsins […] og hafna öðrum félögum að nota það í heiti sínu en um almennt orð sé að ræða. Bendir kærandi á að hugtökin […] og […] séu skráð samheiti í orðasafninu Tómstundafræði í Orðabók íslenskrar málstöðvar. Fram kemur að í málinu sé um tvö ólík heiti að ræða og að það sé ekki hlutverk fyrirtækjaskrár lögum samkvæmt að veita fyrirtækjum og félögum einkarétt á notkun almennra orða heldur sé hlutverk stofnunarinnar að tryggja að sama heiti sé ekki notað af tveimur aðilum með tilheyrandi ruglingshættu. Þá ítrekar kærandi að Einkaleyfastofa (nú Hugverkastofa) hafi hafnað umsókn [H] um einkaleyfi á heitinu [D] og bendir á að sú stofnun sé réttmætur aðili til að úrskurða um ágreining um einkaleyfi og vörumerki.
Beiðni um endurupptöku máls dags. 6. maí 2022 og andmæli dags. 25. ágúst 2022
Í endurupptökubeiðni fer kærandi fram á að ráðuneytið verði við tilmælum umboðsmanns Alþingis í áliti […] og taki að nýju upp mál það sem endaði með ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins (nú menningar- og viðskiptaráðuneytið), dags. 21. september 2019, og leysi úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í áliti umboðsmanns.
Í andmælum kæranda dags. 25. ágúst 2022 er gerð athugasemd við það að umsagnaraðili um stjórnsýslukæru kæranda leggi fram kröfur um niðurstöðu í málinu og andmæli þar kröfum kæranda í málinu. Kærandi telur slíkan málatilbúnað ekki samræmast stjórnsýslulögum nr. 37/1993 (hér eftir stjórnsýslulög) og fer fram á að ráðuneytið hundsi þær kröfur með öllu.
Kærandi áréttar áðurnefndar athugasemdir sínar við það að fyrirtækjaskrá hafi verið veitt færi á að gefa umsögn um málið í ljósi þess að skráin hafi þegar tjáð sig ítrekað um málið.
Gerðar eru athugasemdir við tilvísun fyrirtækjaskrár til ákvæðis 10. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð (hér eftir firmalög) í ljósi þess að umboðsmaður Alþngis hafi með greinargóðum rökstuðningi komist að þeirri niðurstöðu í áliti sínu […] að skráning firmaheitisins [D] væri glögglega greint frá öðrum skráðum firmaheitum.
Kærandi byggir á því að Hugverkastofa hafi með ákvörðun dags. […], sem síðar var staðfest með úrskurði áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar með úrskurði í máli […], hafnað því að [H] eigi nokkurn lögvarinn rétt á heitinu [H]. Ekki standi því lagaskilyrði fyrir því að meina kæranda að notast við firmaheiti sitt samkvæmt samþykktum félagsins.
Vísað er til áðurnefnds álits umboðsmanns Alþingis þar sem m.a. segir að firmaheitin [H] og [D] séu glögglega greind hvort frá öðru. Því standi ekki lagaskilyrði til að hafna skráningu á grundvelli 10. gr. firmalaga. Kærandi lítur svo á að með ólögmætri niðurstöðu sinni færi fyrirtækjaskrá [H] því einkarétt á heitinu [D]. Það sé réttur sem skráin hafi ekki heimild til að veita. Að endingu áréttar kærandi fyrri kröfur sínar sem umboðsmaður hafi tekið undir í áliti sínu […].
Andmæli kæranda dags. 15. nóvember 2022
Í andmælum kæranda dags. 15. nóvember 2022 eru gerðar athugasemdir við sjónarmið [H] dags. 25. október 2022. Kærandi heldur fram að [H] njóti í reynd ekki aðildar að stjórnsýslukærunni og þess fyrir hafi andmæli [H] legið fyrir í gögnum málsins þar sem andmælin komu fram við meðferð málsins hjá fyrirtækjaskrá.
Kærandi telur að á grundvelli málsmeðferðarreglna beri að líta á erindi [H] sem umsögn um málið. Bar ráðuneytinu engu að síður að óska eftir þeirri umsögn samhliða umsögn fyrirtækjaskrár í þessu máli.
Kærandi byggir á því að [H] eigi ekki rétt á að veita andmæli við andmæli kæranda þar sem [H] njóti ekki aðildar að málinu og hafi nú þegar fengið tækifæri til að tjá sig um efni þess í mun meira mæli en rúmast
innan lagaramma stjórnsýslulaga, hvort tveggja við upphaflega afgreiðslu fyrirtækjaskrár og svo við stjórnsýslukæru kæranda.
Vísað er til álits umboðsmanns Alþingis […] og því haldið fram að um einkaréttarlegan ágreining sé að ræða enda skorti fyrirtækjaskrá heimildir til útgáfu einkaleyfa og vörumerkja. Þeir aðilar sem hafi úrskurðarorð um málefnið að lögum hafi þegar hafnað málatilbúnaði [H], þ.e. Hugverkastofa og áfrýjunarnefnd hugverkaréttenda sem telja með réttu orðasambandið [D] skorta sérkenni til að teljast bært til skráningar og einkaleyfis. Einnig er byggt á því að Neytendastofa hafi vísað erindi [H] frá á þeim grundvelli að erindið varði ekki heildarhagsmuni. Þrátt fyrir að þeirri ákvörðun hafi verið áfrýjað fresti það ekki réttaráhrifum og telst hún því endanleg við úrlausn þess máls sem hér er til úrlausnar.
Líkt og umboðsmaður hefur staðfest á [H] ekki rétt til firmaheitisins [D] enda hefur [H] aldrei borið það firmaheiti heldur firmaheitið [H]. [H] á því engan rétt á aðkomu að stjórnsýslukæru kæranda og hefur enga lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.
Kærandi tekur fram að samþykktir [H] beri með sér að heiti félagsins sé [H]. Þá er gerð athugasemd við vísun [H] í erindum sínum til 1. og 2. mgr. 10. gr. firmalaga í ljósi þess að firmaheitið [D] sé glögglega greint frá firmaheitinu [H] líkt og umboðsmaður Alþingis hefur bent á.
Í andmælum greinir kærandi frá þeim kostnaði og tíma sem lagður hefur verið í þá vegferð að fá firmaheitið [D] skráð. Einnig er með ítarlegum hætti greint frá sjónarmiðum umboðsmanns í áliti sínu […].
Vísað er að nýju til áðurnefndrar niðurstöðu Hugverkastofu, sem staðfest var af áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda í máli […], um að hafna skráningu vörumerkisins [D], og umfjöllunar Neytendastofu um kvörtun [H] sem byggir á ákvæðum laga nr. 57/2005.
Byggt er á því hugtakið […] sé almennt heiti enda er það að finna í íslenskri orðabók sbr. viðmið fyrirtækjaskrár. Orðabókaskilgreining almennra orða veiti því ekki einkarétt á orðum og hugtökum. Fjölmörg félög séu skráð í fyrirtækjaskrá með almenna hugtakið […] í firmaheiti sínu. Kærandi nefnir einnig að nafnabreyting hans sé tilkomin vegna þess að félög […] skilgreini sig ekki sem […] og samsami sig því ekki við það heiti.
Hvað varðar tilvitnun [H] til […]laga telur kærandi þau engin tengsl hafa við firmalög sbr. áðurnefnt álit umboðsmanns. Kærandi byggir á því að félögin starfi ekki á sama sviði, skv. skráðum ÍSAT númerum, og hafnar með öllu þeim dæmum um ruglingshættu sem [H] segir nafnabreytinguna valda og telur engin marktæk dæmi til staðar um rugling eða ruglingshættu sem skapast hefur af nafnabreytingu kæranda.
Kærandi ítrekar að réttur [H] til firmaheitisins [D] sé ekki til staðar. Það hafi verið staðfest af Hugverkastofu (áður Einkaleyfastofu) og umboðsmanni Alþingis. Notkun auðkennisins af hálfu [H] hafi þannig ekki skapað félaginu rétt umfram aðra, sbr. niðurstaða Hugverkastofunnar. Þá sé af og frá að notkun aðila á nafninu [D] geti staðið í vegi fyrir réttri og lögmætri skráningu á firmaheiti kæranda sem sé þar að auki samsett úr almennum hugtökum sem ekki er unnt að banna öðrum notkun á. Kærandi telur notkun [H] á heitinu [D] fremur hafa staðið fyrir lýsingu á tilgangi þess enda er það ekki og hefur aldrei verið firmanafn [H].
Að endingu dregur kærandi fram viss atriði úr áðurnefndu áliti umboðsmanns Alþingis […] og vísar til fyrri málflutnings síns. Félagið áréttar einnig beiðni sína um að ráðuneytið og fyrirtækjaskrá bregðist hratt við svo koma megi málinu í lögformlegt ástand án tafa.
Um sjónarmið kæranda vísast að öðru leyti til þess sem fram kemur í kæru og framangreindum erindum.


Sjónarmið fyrirtækjaskrár
Með bréfi dags. 2. júlí 2018 óskaði ráðuneytið eftir umsögn fyrirtækjaskrár um kæruna. Jafnframt óskaði ráðuneytið eftir afriti af öllum gögnum málsins. Umsögn fyrirtækjaskrár barst með bréfi 8. ágúst 2018. Í kjölfari endurupptöku málsins barst ráðuneytinu einnig umsögn fyrirtækjaskrár dags. 7. júlí 2022.
Umsögn fyrirtækjaskrár dags. 8. ágúst 2018
Með umsögn fyrirtækjaskrár eru ítrekuð þau sjónarmið sem fram koma í ákvörðun skráarinnar frá 16. mars 2018.
Í ákvörðun fyrirtækjaskrár kemur fram að við úrlausn á því hvað teljist vera heiti annars manns sem ekki má nota án hans leyfis sé meginreglan sú að teljist heiti vera almennt þá er ekki hægt að banna öðrum notkun orðsins eða heitisins svo lengi sem hann aðgreini firmaheiti sitt frá því sem þegar kann að vera skráð með því heiti. Hvað almennt heiti varðar kemur fram að með almennu orði sé litið til íslensku orðabókarinnar sem og gagnagrunnsins www.snara.is.
Fyrirtækjaskrá vísar til ákvæða 8. og 10. gr. firmalaga en í 10. gr. firmalaga er m.a. kveðið á um að í firmaheiti megi ekki nota nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis. Fyrirtækjaskrá bendir á að markmiðið með ákvæðum um firmaheiti sé að tryggja það að viðskiptamaður félagsins fái ávallt þýðingarmiklar upplýsingar svo hann geti ætíð séð við hvern hann er að semja. Lögverndun firmaheitis hafi því mikla þýðingu fyrir eiganda þess.
Byggt er á ákvæði 15. gr. a laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, (hér eftir lög nr. 57/2005) þar sem fram kemur að óheimilt sé að nota í atvinnustarfsemi sinni firmaheiti, verslunarmerki eða því um líkt, sem sá hefur rétt til er notar, eða reka atvinnu undir heiti sem gefur villandi upplýsingar um eignarrétt eða ábyrgð vinnuveitanda. Í ákvæðinu kemur einnig fram að bannað sé að nota auðkenni sitt á þann hátt að leitt geti til þess að villst verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki notar með fullum rétti.
Þá vísar fyrirtækjaskrá til 3. gr. laga um vörumerki, nr. 45/1997, þar sem fram kemur að vörumerki geti stofnast með skráningu eða með notkun vörumerkis sem er og hefur verið notað hér á landi. Enn fremur vísar skráin til 4. gr. laganna sem segir að í vörumerkjarétti felist að aðrir en eigandi vörumerkis megi ekki heimildarlaust nota í atvinnustarfsemi sinni tákn sem eru eins eða lík vörumerki hans ef notkunin tekur til eins eða svipaðrar vöru eða þjónustu eða ef hætt er við ruglingi á merkjunum.
Í ákvörðun sinni vísar fyrirtækjaskrá til samþykkta [H] þar sem í 1. gr. kemur fram að [H] sé […] á Íslandi. Fyrirtækjaskrá vísar til skilgreiningar á orðinu […] í íslenskri orðabók og telur að ekki sé hægt að víkja þeirri skilgreiningu til hliðar með vísun til huglægrar túlkunar […] á hugtakinu. Fram kemur að fyrirtækjaskrá líti svo á að hin íslenska orðabók teljist vera hlutlæg heimild um merkingu orða í íslenskri tungu sem ekki verður vikið til hliðar með þeim rökum að […] túlki hugtakið […] á annan hátt en skilgreint er í orðabókinni. Fram kemur það mat fyrirtækjaskrár að einungis verði rekið eitt […] á hverjum tíma og að töluverð ruglingshætta skapist verði annað félag undir heitinu [D] skráð. Niðurstaða fyrirtækjaskrár hvað varðar breytingu á heiti félagsins var því að hafna skráningu tilkynningarinnar.
Umsögn fyrirtækjaskrár dags. 7. júlí 2022
Í umsögn fyrirtækjaskrár er tekið fram að ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 16. mars 2018, þar sem skráningu á tilkynningu um breytingu heiti kæranda var hafnað, hafi einkum verið byggð á því að heiti það sem kærandi tilkynnti um, [D], bryti gegn betri rétti félagsins [H] til heitisins. Var vísað til þess að í 1. gr. samþykkta [H] segi:„ […].“ Ákvæði samþykkta almennra félaga skipti miklu máli við túlkun á réttarstöðu auk þess sem meginreglur félagaréttar komi ávallt til skoðunar.
Við úrlausn fyrirtækjaskrár hafi sérstaklega verið skoðuð tilurð og skýring íslenskrar orðabókar á orðinu […]. Niðurstaðan var sú að einungis eitt […] yrði rekið á Íslandi hverju sinni. Þá var það mat fyrirtækjaskrár að með því að annað félag yrði skráð með heitinu [D], yrðu töluverðar líkur á að ruglingshætta skapist.
Tekið er fram að fyrirtækjaskrá hafi ávallt almennar reglur og sjónarmið um firmaheiti til hliðsjónar í ákvörðunum sínum sbr. t.d. meginreglu 10. gr. firmalaga. Skráin hafi þannig talið sér skylt að gæta að því við skráningu á firmaheiti, hvort það kunni að brjóta gegn rétti annars aðila, hvort sem ábending eða mótmæli gegn umbeðnu firmaheiti hefur komið fram eða ekki.
Að endingu fer fyrirtækjaskrá fram á að ráðuneytið hafni málsástæðum kæranda og að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Efnisleg niðurstaða umboðsmanns Alþingi breyti ekki þeirri niðurstöðu að mati skráarinnar.
Um sjónarmið fyrirtækjaskrár í málinu vísast að öðru leyti til þess sem segir í hinni kærðu ákvörðun og framangreindum umsögnum skrárinnar.


Sjónarmið [H]

Hinn 20. september 2022 barst ráðuneytinu erindi frá [I], lögmanni, fyrir hönd [H] þar sem þess var óskað að [H] fái að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu hafi málið verið endurupptekið með vísan til álits umboðsmanns Alþingis […]. Með bréfi dags. 30. september 2022 féllst ráðuneytið á að gefa [H] færi á að koma að sínum sjónarmiðum og gögnum í málinu. Með tölvubréfi dags. 14. október 2022 óskaði [I], lögmaður, fyrir hönd [H] eftir fresti til 25. október til að koma að athugasemdum í málinu. Ráðuneytið veitti umbeðinn frest samdægurs með tölvubréfi. Athugasemdir [H] bárust með bréfi dags. 25. október 2022.
Andmæli [H] dags. 20. september 2022
Í erindi [H] er greint frá því að 2. júlí sl. hafi félagið lagt fram kvörtun til Neytendastofu vegna notkunar kæranda á auðkenningu [D]. Með bréfi dags. 5. júlí sl. tilkynnti Neytendastofa að hún teldi umræddan ágreining ekki varða heildarhagsmuni neytenda heldur væri um að ræða ágreining tveggja félaga sem snerti hagsmuni neytenda með takmörkuðum hætti. Með vísan til 4. mgr. 4. gr., sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 57/2005 vísaði stofnunin því erindi [H] frá.
[H] greinir frá því að félagið hafi kært ákvörðun Neytendastofu til áfrýjunarnefndar neytendamála 25. júlí sl. þar sem því er haldið fram að ákvörðun stofnunarinnar um frávísun hafi ekki verið samkvæmt lögum. [H] telur að ráðuneytinu beri að taka mið af þeim sjónarmiðum er fram koma í umræddri kvörtun.
[H] telur að með notkun kæranda á auðkenninu [D] felist brot gegn ákvæðum laga nr. 57/2005, n.tt. ákvæðum 5., 14. og 15. gr. a laganna.
Andmæli [H] dags. 25. október 2022
Í erindi [H] er tekið undir niðurstöðu úrskurðar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins (nú menningar- og viðskiptaráðuneytisins) dags. 25. september 2019 og umsögn fyrirtækjaskrár dags. 7. júlí 2022 um að synja beri [A] um að fá firmaheiti sínu breytt í [D] í fyrirtækjaskrá.
Vísað er til 1. málsl. 8. gr. laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903 (lög nr. 42/1903) þar sem kveðið er á um að hver sá sem stundar atvinnurekstur skuli hlýða ákvæðum laganna um nafn það er hann notar við atvinnuna. Einnig er vísað til 1.-2. mgr. 10. gr. laga nr. 42/1903 þar sem í 1. mgr. er kveðið á um að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis. Í firma megi þá eigi nefna fyrirtæki, er ekki standa í sambandi við atvinnuna. Í 2. mgr. sama ákvæðis segir að firmu skuli greina glöggt hvert frá öðru ss. með viðauka við nafn sitt eða á annan hátt.
[H] byggir á því að samkvæmt athugasemdum í frumvarpi til firmalaga var markmiðið með setningu þeirra að gera almenningi kunnug um „hag og ástand félaga“ og þá sérstaklega hver hafi með höndum rekstur félagsins og hvernig ábyrgð þess er háttað, auk þess sem ákvæðum laganna var ætlað að tryggja almenning gegn því að heiti félaga gefi ranga hugmynd um starfssvið þeirra.
Tekið er fram að fyrirtækjaskrá beri einnig að líta til ákvæða vörumerkjalaga nr. 45/2987 (vörumerkjalög) og laga nr. 57/2005.
Í erindi [H] er vísað til skýringar á orðinu […] í íslenskri orðabók og byggt á því að þar sé með beinum hætti vísað til starfsemi félagsins en þar segir: „[…]).“ Í íslensku máli vísi orð þetta því ekki til […] með almennum hætti heldur til sérstakrar tegundar […] sem eru aðilar að [H].
Vísað er til þess að [H] hafi allt frá stofnun árið […] komið fram undir auðkenninu [D]. Þá segi í […] að [H] séu sjálfstæð félagasamtök á sviði […] og í […]lögum segir að […] ásamt [K] annist skiptingu og breytingu á […]. [H] hafi því lögbundið hlutverk á sviði […].
[H] telur ótvírætt að félagasamböndin tvö hafi á höndum svipaða starfsemi, þ.e. […]. Ruglingshætta sé ótvírætt til staðar og verulegar líkur séu á að almenningur telji tengsl á milli starfsemi sambandanna tveggja eða telji jafnvel um sama samband að ræða m.a. vegna merkingar orðsins […].
Það valdi [H] nú þegar töluvert miklum ama að kærandi komi fram opinberlega undir heitinu [D] og nú þegar hafi komið upp atvik þar sem kæranda hefur verið ruglað saman við [H] með tilheyrandi óþægindum.
Byggt er á því að breyting á skráningu kæranda í fyrirtækjaskrá myndi ganga gegn þeim tilgangi laganna að heiti félaga skuli gera almenningi kleift að átta sig á hver hafi með höndum þá starfsemi er félagið stendur fyrir. Skráningin myndi veita afar villandi upplýsingar til almennings og auka enn frekar á þann rugling sem þegar er fyrir hendi. Þar að auki myndi það brjóta gegn rétti [H] sem skapast hefur með notkun hans á auðkenningu.
Að endingu er þess krafist að beiðni kæranda um að breyta firmaheiti sínu í [D] verði hafnað á grundvelli þess að slík breyting myndi brjóta gegn betri rétti [H] til heitisins og skapa ruglingshættu í bága við 1. og 2. mgr. 10. gr. firmalaga.


Niðurstaða
I.
Stjórnsýslukæra sú sem mál þetta snýr að barst ráðuneytinu innan kærufrests og telst kæran því löglega fram komin. Eins og að framan greinir hlaut málið lögbundna umsagnarmeðferð á tímabilinu júlí 2018 til febrúar 2019 og úrskurðaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið (nú menningar- og viðskiptaráðuneytið) í málinu þann 25. september 2019.
Í áliti umboðsmanns Alþingis […] dags. […] 2022 komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að umræddur úrskurður ráðuneytisins hafi ekki verið til samræmis við lög. Í álitinu segir að rökstuðningur ráðuneytisins hafi ekki verið fyllilega í samræmi við þær kröfur sem gera verður til rökstuðnings stjórnvalda á kærustigi skv. 1. mgr. 22. gr., sbr. 4. tölul. 31. gr. stjórnsýslulaga. Þeim tilmælum er beint til ráðuneytisins að taka téð mál upp að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá kæranda, og leysa úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu.
Með tölvubréfi dags. 6. maí 2022 fór [B] fyrir hönd kæranda fram á að ráðuneytið verði við tilmælum umboðsmanns Alþingis um að taka málið upp að nýju. Í samræmi við álit umboðsmanns, 24. gr. stjórnsýslulaga, ólögfestar heimildir stjórnvalda til endurupptöku máls og með vísan til tölvubréfs kæranda, féllst ráðuneytið þann 12. maí 2022 á að taka upp þann þátt málsins er varðar skráningu á firmaheiti kæranda.
II.
Kærandi gerir athugasemd við það að [H] sé veittur andmælaréttur við stjórnsýslukæru hans og að auk þess hafi andmæli [H] legið fyrir í gögnum málsins.
Þegar tiltekin úrlausnarefni eru til meðferðar hjá stjórnvöldum og úr þeim er leyst með stjórnvaldsákvörðun er það aðili máls sem almennt á hagsmuna að gæta af þeirri ákvörðun. Þau sjónarmið sem vega þyngst við mat á því hvern ber að telja aðila máls eru hvort viðkomandi aðili á beinna, verulegra, sérstakra og lögvarinna hagsmuna að gæta. Ákvörðun fyrirtækjaskrár dags. 16. mars 2018 byggir m.a. á því að skráning firmaheitisins [D] myndi brjóta gegn betri rétti [H] til heitisins. Í ákvörðuninni er m.a. vísað til erindis [H] til fyrirtækjaskrár þar sem athygli er vakin á hugsanlegri ruglingshættu milli heita félaganna tveggja verði firmaheitið [D] skráð. Málið var tekið til ákvörðunar hjá fyrirtækjaskrá á grundvelli andmæla [H] og því ljóst að [H] var aðili málsins á lægra stjórnsýslustigi.
Með úrskurði ráðuneytisins dags. 25. september 2019 var ákvörðun fyrirtækjaskrár um að synja skráningu tilkynningar um breytingu á heiti [A] í [D] staðfest. Í forsendum úrskurðar ráðuneytisins segir m.a. að ráðuneytið líti svo á að ruglingshætta sé fyrir hendi milli heitanna [H] og [D]. Í ljósi framangreinds, með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga og þess að ráðuneytið hefur fallist á að endurupptaka málið sbr. álit umboðsmanns Alþingis […], er ekki unnt að fallast á það með kæranda að ekki skuli veita [H] andmælarétt við stjórnsýslukæru hans. Af gögnum málsins má ráða að [H] hafi hagsmuna að gæta af niðurstöðu þess og því lítur ráðuneytið svo á að taka skuli mið af þeim sjónarmiðum sem sett hafa verið fram af hálfu [H] við meðferð málsins.
Hvað varðar athugasemdir kæranda við það að fyrirtækjaskrá hafi verið veitt færi á að gefa umsögn um málið í ljósi þess að skráin hafi þegar tjáð sig ítrekað um það vísar ráðuneytið til þess að um málsmeðferð í málinu gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga. Í samræmi við framangreindar málsmeðferðarreglur var fyrirtækjaskrá því gefið færi á að veita umsögn um málið m.a. með hliðsjón af nefndu áliti umboðsmanns Alþingis og sjónarmiðum kæranda dags. 6. maí 2022.
III.
Í 1. og 2. mgr. laga nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá, segir að halda skuli fyrirtækjaskrá og að skráin skuli starfrækt af ríkisskattstjóra sem annist útgáfu á kennitölum til annarra en einstaklinga. Í 4. tölul. 2. gr. laganna segir m.a. að fyrirtækjaskrá skuli geyma upplýsingar um félög, samtök og aðila, aðra en einstaklinga, sem hafa með höndum eignaumsýslu, eru skattskyldir eða bera aðrar skattalegar skyldur og skv. 5. tölul. sömu greinar skal fyrirtækjaskrá geyma upplýsingar um aðra starfsemi sem ríkisskattstjóri sér ástæðu til að skrá í fyrirtækjaskrá. Í 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá eru talin upp þau atriði sem skrá skal í fyrirtækjaskrá en þar er í 1. tölul. tilgreint heiti félags.
Þegar ráðuneytið úrskurðar um heiti félaga í fyrirtækjaskrá er fyrst og fremst litið til firmalaga. Meðal þess sem einnig er litið til er hvort heiti félags innihaldi orð sem telst almennt og hvort heitið sé nægjanlega aðgreint frá heitum annarra félag svo ekki skapist ruglingshætta.
Í úrskurði ráðuneytisins dags. 25. september 2019, sem endurupptökumál þetta varðar, var jafnframt litið til vörumerkjalaga, laga nr. 57/2005 og […]laga nr. […] (hér eftir […]lög).
Í áðurnefndu áliti umboðsmanns […] er gerð athugasemd við rökstuðning ráðuneytisins á þeim grundvelli að tiltekin lagaákvæði og sjónarmið hafi verið reifuð án þess að fyllilega hafi verið skýrt hvaða þýðingu þau hefðu fyrir niðurstöðu málsins. Af því tilefni vill ráðuneytið árétta að þegar úrskurðað er um heiti félaga er fyrst og fremst litið til firmalaga en ávallt er þó litið heildstætt á hvert mál fyrir sig. Í ákvörðunum sínum lítur ráðuneytið því til þeirra lagaákvæða sem þýðingu hafa fyrir niðurstöðu þess máls sem er til skoðunar hverju sinni.
IV.
Í 8. gr. firmalaga segir að hver sá sem stundi atvinnurekstur skuli fara eftir þeim ákvæðum sem á eftir fylgi, um nafn það, sem hann notar við atvinnuna, og um undirskrift fyrir hana (firma), enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn, sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara.
Í 1. mgr. 10. gr. laganna segir að enginn megi í firma sínu hafa nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis. Þá segir að í firma megi eigi nefna fyrirtæki, er ekki standa í sambandi við atvinnuna; eigi má heldur halda firma því óbreyttu, er tilgreinir ákveðna atvinnugrein, ef veruleg breyting hefur verið gerð á henni. Í 2. mgr. sömu greinar segir að firmu þau, er sett eru á skrá fyrir sama kaupstað eða hrepp, skulu greina firma sitt glöggt frá hinu eldra firma með viðauka við nafn sitt eða á annan hátt. Sá, sem eigi tilkynnir firma, en ætlar að reka atvinnu með nafni sjálfs síns (sbr. 16. gr.), má ekki stæla skrásett firma, sem hefur sama nafn, með því að bæta við nafn sitt, fella úr því eða breyta.
V.
Með hugtakinu firma er átt við heiti tiltekins fyrirtækis sem stundar atvinnustarfsemi. Á það bæði við þegar starfsemin er rekin í nafni félags og í nafni einstaklings. Markmiðið með ákvæðum firmalaga um firmanöfn er að tryggja að ýmsar mikilvægar og réttar upplýsingar liggi fyrir um félag og að viðskiptamaður þess geti ávallt séð við hvern hann er að semja. Þau skilyrði sem firmu verða almennt að uppfylla til að verða viðurkennd og fást skráð eru að firmað samrýmist almennu íslensku málkerfi, að sérkenni þess séu nægjanleg til að skilja það frá öðrum, það segi sannleikann um starfsemi sína og að það brjóti ekki gegn rétti annarra. Í því síðast talda felst bæði að firma má ekki vera líkt heiti sem annað félag í svipuðum rekstri á betri rétt yfir né að brjóta gegn rétti til heitis sem annar á.
Lögverndun firmaheitis hefur mikla þýðingu fyrir eiganda firmaheitisins á þann hátt að vernda þá viðskiptavild sem hann hefur skapað firmanu með vinnu sinni og fjármunum, auk þess sem firmanafnið getur verið trygging almennings fyrir þeim afurðum sem firmað býður fram.
Með skráningu firmaheitis kann firmaeigandinn því að öðlast einkarétt til heitisins sem felst í því að öðrum er óheimilt að nota firmaheitið eða annað heiti sem því líkist á þann hátt að um ruglingshættu geti verið að ræða.
VI.
Hvað varðar málsástæðu [H] um að breyting firmaheitis kæranda í [D] myndi brjóta gegn rétti [H] til heitisins með vísan til 1.-2. mgr. 10. gr. firmalaga er rétt að taka fram að meginreglan er sú að teljist heiti almennt er ekki unnt að banna öðrum notkun orðsins eða heitisins, svo fremi sem hann aðgreini sitt firmaheiti frá því sem þegar kann að vera skráð með sama heiti.
Lagavernd firmaheitis er þannig háð því að heitið hafi þá eiginleika, þ.e. sérkenni, að fallist verði á að félag hafi með skráningu firmaheitisins öðlast einkarétt á því gagnvart öðrum. Kröfunni um sérkenni firmaheitis hefur þar af leiðandi ekki þótt fullnægt, ef aðalorðið í firmanu er almennt heiti. Þetta kemur fram í Hæstaréttardómi frá 16. maí 1947 í máli nr. 132/1946 þar sem félagið Fiskimjöl h/f stefndi Fiskimjöl Njarðvík h/f og krafðist þess að stefnda yrði dæmt óheimilt að nota firmanafnið Fiskimjöl Njarðvík. Í dómnum kemur fram að orðið fiskimjöl sé almennt vöruheiti og ekki séu nægileg sérkenni fólgin í firmaheiti áfrýjanda og var krafa hans því ekki tekin til greina.
Orðin […] og […] má bæði að finna í Íslenskri orðabók og teljast því almenn heiti sem ekki er unnt að banna öðrum notkun á svo fremi sem viðkomandi aðgreini sitt firmaheiti frá því firmaheiti sem þegar kann að vera skráð.
[H] byggir jafnframt á því að í skýringu á orðinu […] í Íslenskri orðabók sé með beinum hætti vísað til [H] en þar er orðið skilgreint sem […]. Í íslensku máli vísi orðið því ekki til […] með almennum hætti, heldur til sérstakrar tegundar félaga, […], sem eru aðilar að [H]. Því til stuðnings vísar [H] jafnframt til […]laga en þar segir […] og […] ásamt [J] annist skiptingu og breytingu á […].
Kærandi byggir á því að ýmsar orðabókaskilgreiningar sé að finna á orðinu […] og vísar til skilgreiningar hugtaksins í íslenskri nútímamálsorðabók stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en þar er hugtakið skilgreint á eftirfarandi hátt:
„…“ Telur kærandi þessar skilgreiningar falla vel að starfsemi sinni.“
Í úrskurði ráðuneytisins dags. 25. september 2019 var í forsendum niðurstöðukafla ráðuneytisins m.a. byggt á því að gert væri ráð fyrir starfsemi [H] í […]lögum og kveðið á um hlutverk þess. Félagsaðild að […] eigi […] landsins hvort sem er beint eða í gegnum […]og því var litið svo á að [H] væri […] á landinu.
Í áliti umboðsmanns Alþingis […] segir að lög kunni að mæla fyrir um að tiltekin starfsemi sé undirorpin einkarétti ákveðins aðila, svo sem ríkis eða lögaðila. Ekki sé því útilokað að hafna beri skráningu heitis sem eindregið gefi til kynna að viðkomandi aðili muni stunda nafngreinda starfsemi sem er háð einkarétti annars aðila. Í slíkum tilvikum verði þó að gera kröfu um að þær lagaheimildir sem veiti öðrum aðila slíkan rétt séu ótvíræðar þannig að fyrir liggi að starfsemi með ákveðnu heiti heyri undir hann einan samkvæmt lögum. Umboðsmaður komst að þeirri niðurstöðu að ákvæði […]laga hefðu því ekki þýðingu við úrlausn málsins.
Kærandi telur […]lög engin tengsl hafa við firmalög og tekur undir niðurstöðu umboðsmanns Alþingis þar um. Í erindi [H] og innsendum gögnum kemur fram að félagið hafi þó komið fram undir auðkenninu [D] allt frá stofnun þess árið 1907 eða í yfir 110 ár.
Það er mat ráðuneytisins að […] hafi ákveðnu lögbundnu hlutverki að gegna samkvæmt […]lögum. Aftur á móti er ekki með skýrum hætti kveðið á um það í ákvæðum […]laga að starfsemi undir heitinu [D] heyri aðeins undir [H] eitt, en hvorki er minnst á heitið í ákvæðum […]laga né í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögunum.
Hvað varðar athugasemd kæranda um að skilgreining orðsins […] í einni tiltekinni orðabók, n.tt. Íslenskri orðabók, geti ekki gengið framar firmalögum eða öðrum settum lögum er ljóst að þrátt fyrir skilgreiningu orðsins […] í íslenskri orðabók er mikill fjöldi firmaheita skráð í fyrirtækjaskrá með orðið […] í heiti sínu og enn fleiri með orðið […] í firmaheiti sínu. Ljóst er að orðið […] er því almennt hugtak sem ekki er unnt að banna öðrum að nota svo fremi sem heitið sem um ræðir er greint glöggt frá öðrum þegar skráðum firmaheitum.
Skráð firmaheiti [H] er [H] og er því ljóst að firmaheitið er ekki það sama og heitið [D] sem kærandi fer fram á að fá skráð í fyrirtækjaskrá. Ekki verður því séð að heitin séu þau sömu eða séu þess eðlis að ekki sé hægt að greina þau glöggt frá hvort öðru. Með vísan til þess sem að framan greinir fellst ráðuneytið á það með kæranda að [H] hafi hvorki öðlast einkarétt til notkunar heitisins [D] á grundvelli 1.-2. mgr. 10. gr. firmalaga, ákvæða […]laga né á grundvelli skilgreiningar á orðinu […] í orðabók.
VII.
Samkvæmt vottorði kæranda í fyrirtækjaskrá er tilgangur félagsins m.a. að vera samstarfs- og samráðsvettgangur […]. Samkvæmt ÍSAT atvinnugreinaflokkun félagsins er starfsemi kæranda skráð sem 94.99.9 Starfsemi annarra ótalinna félagasamtaka. Samkvæmt vottorði [H] í skránni er tilgangur félagsins ræktun […]og samkvæmt ÍSAT atvinnugreinaflokkun er starfsemi kæranda skráð sem 93.[…].
[H] byggir á því að ruglingshætta sé ótvírætt til staðar og telur verulegar líkur á að almenningur telji tengsl vera til staðar milli starfsemi kæranda og [H] vegna merkingar orðsins […] sbr. fyrri umfjöllun. Breyting á skráningu kæranda myndi því brjóta í bága við 1.-2. mgr. 10. gr. firmalaga. [H] lýsir því jafnframt að þegar hafi komið upp atvik þar sem félögunum hefur verið ruglað saman með tilheyrandi óþægindum en kærandi hafnar því þó alfarið.
[H] telur að fái kröfur kæranda fram að ganga myndi það ganga gegn tilgangi firmalaga um að heiti félaga skuli gera almenningi kleift að átta sig á hver hafi með höndum þá starfsemi er félagið stendur fyrir. Að mati ráðuneytisins hafa félögin tvö að einhverju leyti með höndum svipaða starfsemi almenns eðlis, þ.e. félagsstarf […]. Við mat á því hvort hætta sé fyrir hendi á ruglingi hefur ráðuneytið jafnan annars vegar litið til þess hversu lík firmaheiti eru og hins vegar til skyldleika starfsemi aðilanna. Ef litið er til starfsemi félaganna sem hér um ræðir í vottorðum fyrirtækjaskrár er skráð starfsemi þeirra skv. tilgangi og ÍSAT atvinnugreinaflokkun ekki sú sama. Við mat á framangreindu er óhjákvæmilegt að líta einnig til rökstuðnings áðurnefndrar synjunar Hugverkastofu á skráningu merkisins [D], dags. […] 2017, sem staðfest var af áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda hinn […] 2021 í máli […]. En í úrskurði áfrýjunarnefndarinnar segir að svo virðist sem hið umdeilda merki [D] hafi verið notað í áratugi sem almenn lýsing á starfsemi áfrýjanda. Hins vegar sýni gögn málsins ekki fram á að merkið hafi verið notað sem vörumerki heldur frekar sem undirheiti eða nánari lýsing á starfsemi sem starfrækt er undir heitinu [H].
Hvað varðar vísun [H] til 15. gr. a laga nr. 57/2005 er ákvæðinu aðallega ætlað að koma í veg fyrir að viðskiptavinir rugli saman fyrirtækjum en það kann að gerast þegar tvö eða fleiri fyrirtæki, sem starfa á sama sviði, nota sama eða lík auðkenni. Líkt og segir í áðurnefndu áliti umboðsmanns fer Neytendastofa, undir yfirstjórn ráðherra, með eftirlit samkvæmt lögum nr. 57/2005 í þágu neytenda og er hlutverk hennar m.a. að framfylgja boðum og bönnum laganna. Með hliðsjón af áliti umboðmanns tekur ráðuneytið því ekki afstöðu til þess hvort skráning á firmaheiti kæranda brjóti gegn betri rétti [H] skv. lögum nr. 57/2005. Rétt er að árétta það sem áður hefur komið fram að [H] lagði fram kvörtun til Neytendastofu vegna notkunar kæranda á auðkenninu [D]. Samkvæmt gögnum málsins tilkynnti stofnunin [H] með bréfi dags. 5. júlí sl. að hún teldi umræddan ágreining ekki varða heildarhagsmuni neytenda heldur væri um að ræða ágreining tveggja félaga sem snerti hagsmuni neytenda með takmörkuðum hætti. Með vísan til 3. mgr. 4. gr., sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 57/2005 vísaði stofnunin erindinu frá. Í gögnum málsins kemur fram að [H] hafi þegar kært þá ákvörðun til áfrýjunarnefndar neytendamála.
Þrátt fyrir að [H] nefni dæmi þar sem aðilum málsins hefur verið ruglað saman andmælir kærandi því alfarið. Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 132/1947 var því haldið fram af hálfu stefnanda að hann
hefði með notkun sinni á heitinu Fiskimjöl í 15 ár og löglegri skráningu á því öðlast einkarétt til heitisins. Þar sem þessari röksemd var ekki hreyft í forsendum dóms Hæstaréttar bera fræðiskrif í kjölfar dómsins með sér að Hæstiréttur hafi ekki talið þessa löngu notkun orðsins ,,fiskimjöl‘‘ sem firmaheiti nægja til að skapa einkarétt til þess heitis.
Í ljósi alls framangreinds og með vísan til áðurnefnds álits umboðsmanns Alþingis verður ekki fram hjá því litið að [H] hefur ekki skráð firmaheitið [D] með formlegum hætti og er það heldur ekki skráð vörumerki hjá Hugverkastofu. Að mati ráðuneytisins verður ekki annað séð en að heitið [D] gefi rétta mynd af „hag og ástandi“ kæranda enda um að ræða landssamband félaga sem starfa fyrir […] á fjölbreyttu sviði og að fjölbreyttum málefnum, þ.e. félög […].
Með vísan til þess sem áður hefur verið rakið um lagaleg skilyrði fyrir skráningu firmaheita og hlutverks fyrirtækjaskrár í því sambandi verður á það fallist með kæranda að firmaheitið [D] sé glögglega greint frá firmaheitinu [H] sbr. 2. mgr. 10. gr. firmalaga. Er því ekki á það fallist að [H] hafi öðlast einkarétt með notkun heitisins sem hvorki er skráð firmaheiti né vörumerki en líkt og kærandi bendir réttilega á í máli þessu eru fjölmörg firmaheiti þegar skráð í fyrirtækjaskrá með orðin […] og […] í heiti sínu.
Hvað varðar hugsanlega ruglingshættu milli auðkenna sem hvorki eru skráð firmaheiti né vörumerki er það Neytendastofa sem tekur afstöðu til slíkra mála en líkt og segir í áliti umboðsmanns felst almennt ekki í ákvörðun fyrirtækjaskrár um skráningu firma úrlausn stjórnvalds um lagalegan rétt hlutaðeigandi til að nota tiltekið heiti í atvinnuskyni.
Hvað varðar athugasemdir [H] og fyrirtækjaskrár um að í 1. gr. samþykkta [H] segi að [H] sé […] á Íslandi fellst ráðuneytið jafnframt ekki á að [H] hafi öðlast einkarétt til heitisins á þeim grundvelli enda ekki um skráð firmaheiti félagsins að ræða.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða ráðuneytisins í máli þessu að fella úr gildi ákvörðun fyrirtækjaskrár, dags. 16. mars 2018, að því er varðar synjun á skráningu tilkynningar um breytingu á heiti [A] í [B].
Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður sem koma fram í stjórnsýslukærunni og öðrum gögnum málsins hafi ekki þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls.


Úrskurðarorð

Ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra, dags. 16. mars 2018, um að hafna skráningu tilkynningar um breytingu á heiti [A] er hér með felld úr gildi. Lagt er fyrir fyrirtækjaskrá að skrá tilkynningu [A] frá 8. mars 2017 er varðar breytingu á heiti félagsins.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum