Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins

Úrskurður félags- og vinnumarkaðsráðuneytis 6/2024

Fimmtudaginn 4. júlí 2024 var í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ú r s k u r ð u r:

Með erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, dags. 28. ágúst 2022, kærði […], lögmaður, fyrir hönd Festu lífeyrissjóðs, kt. 571171-0239, ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 28. júní 2022, um synjun á ábyrgð sjóðsins á kröfu kæranda á hendur þrotabúi Rafneyjar ehf., kt. 521216-0930.

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa um synjun á ábyrgð sjóðsins á kröfu kæranda á hendur þrotabúi Rafneyjar ehf. um vangreidd lífeyrisiðgjöld af launum starfsmanna félagsins sem tekið var til gjaldþrotaskipta með úrskurði, dags. 3. september 2019.

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hann ákvörðunina til ráðuneytisins með erindi, dags. 28. ágúst 2022, með vísan til 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.

Í erindi kæranda kemur meðal annars fram að kærandi krefjist þess að ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa dags. 28 júní 2022, um að hafna ábyrgð Ábyrgðasjóðsins á kröfu lífeyrissjóðsins vegna gjaldþrots Rafneyjar ehf., verði felld úr gildi og að viðurkennd verði ábyrgð sjóðsins á kröfu kæranda að því leyti sem krafan falli innan kröfuflokka sem sjóðurinn ábyrgist greiðslu á samkvæmt lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa.

Fram kemur í erindi kæranda að 3. september 2019 hafi bú félagsins Rafneyjar ehf. verið tekið til gjaldþrotaskipta og að kærandi hafi átt kröfu á hendur félaginu um vangreidd lífeyrisiðgjöld af launum starfsmanna að fjárhæð kr. 3.025.071 en þeim hluta kröfunnar hafi verið lýst sem forgangskröfu í búið skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Einnig hafi verið lýst í búið kröfum um innheimtukostnað og útlagðan kostnað og hafi heildarfjárhæð forgangskrafna sem lýst hafi verið í búið numið kr. 3.316.603. Krafan hafi verið send skiptastjóra þrotabúsins með almennum pósti. Samhliða því að senda kröfulýsinguna til skiptastjóra hafi krafan verið send Ábyrgðasjóði launa þar sem krafist var viðurkenningar sjóðsins á greiðsluskyldu á þeim hluta kröfunnar sem sjóðurinn ábyrgist.

Í erindi kæranda kemur enn fremur fram að kröfulýsingin hafi ekki borist skiptastjóranum en á svipuðum tíma og kröfunni hafi verið lýst hafi skiptastjórinn flutt starfsstöð sína. Hvort það hafi verið ástæða þess að bréfið hafi ekki borist skiptastjóranum sé ómögulegt að segja að mati kæranda, en allt að einu hafi umrædd krafa ekki verið tekin upp í kröfuskrá þrotabúsins. Þá telur kærandi sig hafa upplýsingar um að aðrir kröfuhafar þrotabúsins hafi lent í svipuðum hremmingum. Endurrit kröfunnar, sem sent hafi verið Ábyrgðasjóði launa, hafi aftur á móti borist sjóðnum.

Jafnframt segir í erindi kæranda að rétt eftir lok kröfulýsingarfrests hafi kærandi óskað eftir afriti af kröfuskrá. Hafi þá komið í ljós að umrædd krafa hafi ekki borist skiptastjóra og því hafi hún ekki verið tekin upp í kröfuskrá. Þá hafi jafnframt komið í ljós að skiptum þrotabúsins hafi þá þegar verið lokið á grundvelli 1. mgr. 155. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., en skiptalok hafi átt sér stað 3. desember 2019. Um leið og þetta hafi komið í ljós hafi verið haft samband við Ábyrgðasjóð launa og leitað eftir afstöðu sjóðsins til greiðslu kröfunnar þrátt fyrir að krafan hafi týnst eftir að hún hafi verið send skiptastjóra. Töluverð samskipti hafi átt sér stað í kjölfarið milli kæranda og Ábyrgðasjóðs launa þar sem meðal annars hafi komið fram að fleiri sambærileg mál hafi komið upp við skipti á þessu sama þrotabúi.

Þá segir í erindi kæranda að umsagnar skiptastjóra um kröfuna hafi verið aflað að beiðni Ábyrgðasjóðs launa og að skiptastjóri hafi gefið út yfirlýsingu þess efnis að krafan hefði verði samþykkt við skiptin hefði hún borist áður en skiptum þrotabúsins hefði lokið.

Í erindi kæranda kemur enn fremur fram að þegar niðurstaða Ábyrgðasjóðs launa hafi legið fyrir hafi verið óskað eftir því við skiptastjóra að skiptin yrðu endurupptekin í því skyni að krafan yrði tekin upp í kröfuskrá sem forgangskrafa. Skiptastjóri hafi hafnað þeirri beiðni með þeim rökstuðningi að lagaskilyrði fyrir endurupptöku gjaldþrotaskiptanna á þeim grundvelli væru ekki fyrir hendi.

Þá segir í erindinu að af framansögðu leiði að kærandi fái ekki greidda kröfu sína úr umræddu þrotabúi vegna lögboðinna lífeyrisiðgjalda þrátt fyrir að kröfunni hafi verið lýst með þeim hætti sem að ofan greinir og skiptastjóri hafi lýst því yfir að krafan hefði verið samþykkt sem forgangskrafa við skipti á þrotabúinu hefði hún borist honum fyrir skiptalok.

Þá kemur fram í erindi kæranda að kæran sé byggð á tveimur meginmálsástæðum eða annars vegar að lagaskilyrði séu til að fallast á greiðslu kröfunnar úr Ábyrgðasjóði launa og hins vegar að afsakanlegt sé að krafan hafi ekki borist skiptastjóra og að ósanngjarnt sé að það bitni á kröfueiganda.

Í erindi sínu bendir kærandi á að skv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, sé ábyrgð sjóðsins háð því skilyrði að kröfur sem falli undir ákvæði laganna hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Bendir kærandi jafnframt á að í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem síðar varð að lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, sé fjallað um samspil laganna við ákvæði laga um gjaldþrotaskipti o.fl., meðal annars út frá því sjónarmiði að ekki njóti allar forgangskröfur samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. ábyrgðar hjá Ábyrgðasjóði launa. Þá sé einnig að finna í fyrrnefndum athugasemdunum umfjöllun um að kröfur sem ekki njóti stöðu forgangskrafna samkvæmt ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. geti eftir sem áður notið ábyrgðar sjóðsins. Viðurkenning skiptastjóra á forgangsrétti kröfu sé því að mati kæranda formskilyrði við mat Ábyrgðasjóðs launa á því hvort krafa njóti ábyrgðar sjóðsins, en ekki efnisskilyrði. Byggir kærandi á því að þetta skilyrði laganna sé uppfyllt í máli þessu. Afstaða skiptastjóra liggi fyrir jafnvel þó að hennar hafi verið aflað eftir að kröfulýsingarfresti og skiptum þrotabúsins hafi lokið. Skiptastjóri hafi viðurkennt kröfu kæranda og sé því formskilyrði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, uppfyllt í máli þessu að mati kæranda.

Í erindi kæranda er bent á að Ábyrgðasjóður launa sé ekki bundinn af afstöðu skiptastjóra heldur beri sjóðnum að kanna hvort formskilyrðið um viðurkenningu skiptastjóra á kröfunni sé uppfyllt en sjóðurinn skuli að öðru leyti taka sjálfstæða afstöðu til kröfunnar. Skuli sú afstaða sjóðsins byggja á efnislegri greiningu kröfunnar, þar með talið að hún sé til komin vegnar þeirra kröfuflokka sem sjóðurinn ábyrgist greiðslu á. Þar af leiðandi krefst kærandi þess að ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa verði hrundið og að sjóðnum verði gert að taka afstöðu til kröfunnar á þeim grundvelli að viðurkenning skiptastjóra á kröfunni liggi fyrir.

Þá kemur fram í erindi kæranda að kærandi byggi á því að það sé ósanngjörn niðurstaða fyrir kæranda að Ábyrgðasjóður launa hafni ábyrgð á kröfunni. Við mat á því hvort hafna beri ábyrgð sjóðsins á kröfunni þurfi að mati kæranda að líta fyrst til atvika málsins en svo virðist sem umrætt þrotabú hafi ratað illa til skiptastjóra búsins umrætt sinn þar sem viðkomandi hafi flutt starfsstöð sína á svipuðum tíma og viðkomandi hafi verið skipaður skiptastjóri í því þrotabúi sem hér um ræðir. Í tölvupósti frá starfsmanni Ábyrgðasjóðs launa til kæranda hafi komið fram að sjóðnum hafi borist sambærileg mál vegna þessa sama þrotabús. Að mati kæranda hafi aðstæður þannig verið óvenjulegar og ekki við kröfulýsanda að sakast að krafa hafi ekki borist skiptastjóra. Þessu til viðbótar liggi fyrir skýr fyrirmæli kæranda um að lýsa skuli kröfu í þrotabúið. Hafi það verið gert en fyrir mistök hafi krafan ekki borist skiptastjóra og það ekki uppgötvast fyrr en of seint. Verður að mati kæranda að telja þessa atburðarás verulega ósanngjarna í garð kæranda og ekki rétt að hann sitji uppi með tjón vegna hennar.

Erindi kæranda var sent Ábyrgðasjóði launa til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 1. september 2022, og var sjóðnum veittur frestur til 16. september sama ár til að veita ráðuneytinu umsögn sína. Þar sem umsögn Ábyrgðasjóðs launa barst ráðuneytinu ekki innan þess frests sem veittur hafði verið ítrekaði ráðuneytið beiðni sína um umsögn sjóðsins með bréfum, dags. 27. september og 4. nóvember 2022.

Í umsögn Ábyrgðasjóðs launa, dags. 7. nóvember 2022, kemur fram að umsókn kæranda vegna kröfu í þrotabú Rafneyjar ehf. hafi borist sjóðnum 22. október 2019. Að teknu tilliti til kröfu kæranda og framlagðra gagna hafi kröfunni verði hafnað en kröfunni hafi ekki verið lýst í þrotabú Rafneyjar ehf. en skiptalok hafi verið þann 3. desember 2019. Kæranda hafi verið send ákvörðun sjóðsins með bréfi, dags. 9. mars 2022, og rökstuðningur sendur samhliða. Í bréfinu hafi verið farið yfir málavexti og niðurstaða Ábyrgðasjóðs launa rökstudd.

Í umsögn Ábyrgðasjóðs launa kemur fram að lög nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, gildi um greiðslur til launamanna úr sjóðnum vegna vangoldinna krafna við gjaldþrot vinnuveitanda. Tekur sjóðurinn fram í umsögn sinni að skv. 2. mgr. 2. gr. laganna sé ábyrgð sjóðsins háð því skilyrði að kröfur hafi verið viðurkenndar sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., með fyrirvara um takmarkanir og frávik sem kveðið sé á um í II.-IV. kafla laga um Ábyrgðasjóð launa.

Þá segir í umsögninni að Ábyrgðasjóður launa sé ekki bundinn af afstöðu skiptastjóra til krafna sem lýstar eru í þrotabú gjaldþrota atvinnurekanda og sendar til Ábyrgðasjóðs launa og að sjóðurinn þurfi ávallt að framkvæma sjálfstætt mat á því hvort krafa njóti ábyrgðar sjóðsins og sé afstaða skiptastjóra og túlkun hans á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. aðeins hluti af heildarmati sem þurfi að fara fram en afstaða skiptastjóra bindi ekki hendur sjóðsins. Ein af forsendum þess að skiptastjóri viðurkenni kröfu sem forgangskröfu sé að kröfu sé lýst í þrotabú vinnuveitanda svo skiptastjóri geti tekið formlega afstöðu til hennar. Hafi afstaða skiptastjóra, dags. 10. janúar 2020, til kröfu kæranda verið þess efnis að hefði kröfunni verið lýst innan frests hefði hún verið samþykkt sem forgangskrafa því ekkert gildi í máli þessu.

Í umsögn Ábyrgðasjóðs launa kemur jafnframt fram að í kæru sé vísað til sambærilegra mála sem hafi komið upp. Hvað það varðar bendir sjóðurinn á að sambærileg mál hafi verið afgreidd með sama hætti af hálfu sjóðsins og er í því sambandi vísað til úrskurðar félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins nr. 4/2022 sem varðað hafi sambærilegt álitamál.

Loks kemur fram í umsögn Ábyrgðasjóðs launa að Rafney ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota þann 3. september 2019. Kröfulýsingarfrestur hafi verið til 10. nóvember 2019 og hafi skiptum verið lokið 3. desember 2019. Að mati Ábyrgðasjóðs launa liggi fyrir í máli þessu að kröfu kæranda hafi hvorki verið lýst innan kröfulýsingarfrests né áður en skiptum á þrotabúi Rafneyjar ehf. hafi lokið. Í ljósi þess sé það mat Ábyrgðasjóðs launa að krafan njóti því ekki ábyrgðar sjóðsins.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 10. nóvember 2022, var kæranda gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn Ábyrgðasjóðs launa og var frestur veittur til 24. nóvember sama ár. Þar sem athugasemdir kæranda höfðu ekki borist innan þess frests sem veittur hafði verið ítrekaði ráðuneytið beiðni sína með bréfi, dags. 6. desember 2022, þar sem tekið er fram að hafi ráðuneytinu ekki borist umbeðnar athugasemdir fyrir 14. desember 2022 muni ráðuneytið ljúka afgreiðslu málsins á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda og er málið því tekið til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu.

II. Niðurstaða.

Í 1. mgr. 16. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, er kveðið á um að heimilt sé að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir Ábyrgðasjóðs launa sem teknar eru á grundvelli laganna. Mál þetta lýtur að ágreiningi um ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa á kröfu kæranda á hendur þrotabúi atvinnurekanda.

Í 1. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa kemur fram að markmið laganna sé að tryggja launamönnum og lífeyrissjóðum greiðslur vegna vangoldinna krafna þeirra við gjaldþrot vinnuveitanda eða þegar dánarbú vinnuveitanda er til opinberra skipta og erfingjar ábyrgjast ekki skuldbindingar. Í 1. mgr. 2. gr. laganna er kveðið á um að starfrækja skuli Ábyrgðasjóð launa sem ábyrgist greiðslur á kröfum um vangoldin laun, bætur vegna slita á ráðningarsamningum, orlof, bætur vegna vinnuslysa og lífeyrisiðgjöld í bú vinnuveitanda sem hefur staðfestu og rekur starfsemi hér á landi. Kröfur sem njóta ábyrgðar Ábyrgðasjóðs launa eru síðan nánar skilgreindar í a-e lið 5. gr. laganna en skv. d-lið ákvæðisins tekur ábyrgð sjóðsins til tiltekinna krafna lífeyrissjóða um lífeyrisiðgjöld sem fallið hafa í gjalddaga á ábyrgðartímabili, sbr. 4. gr. laganna.

Í 2. mgr. 2. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa kemur fram það meginskilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins að kröfur hafi verið samþykktar sem forgangskröfur skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., með fyrirvara um takmarkanir og frávik sem kveðið er á um í II.-IV. kafla laga um Ábyrgðasjóð launa. Í athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, kemur meðal annars fram að með ákvæðinu sé „kveðið á um það meginskilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins að kröfur launamanna annars vegar og lífeyrissjóða hins vegar hafi verið samþykktar sem forgangskröfur skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Þar sem ábyrgð sjóðsins á einstökum kröfum endurspeglar ekki í einu og öllu ákvæði 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga er tekið fram að áskilnaður um viðurkenningu kröfu sem forgangskröfu er með fyrirvara um þau takmörk og frávik sem kveðið er nánar á um í II.–IV. kafla frumvarpsins. Er með þessu undirstrikuð sérstaða þeirra reglna sem hér um ræðir bæði að því er varðar sjálft gildissvið þeirra og nánari skilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins á einstökum kröfum.“ Í fyrrnefndum athugasemdum kemur jafnframt fram að við mat Ábyrgðasjóðs launa á því hvort krafa njóti ábyrgðar sjóðsins bindi viðurkenning skiptastjóra á forgangsrétti kröfu skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ekki hendur sjóðsins, enda sé gert ráð fyrir að sjóðurinn taki ávallt sjálfstæða afstöðu til þess hvort krafa njóti ábyrgðar sjóðsins samkvæmt þeim sérstöku reglum sem lögin kveði á um. Þá kemur fram að áskilnaður um viðurkenningu skiptastjóra á forgangsrétti kröfu gefi kröfunni, í þeim tilvikum þegar það á við, engu að síður ákveðið vægi við mat sjóðsins og það sé því hlutverk Ábyrgðasjóðs launa að meta sjálfstætt hvort kröfur í þrotabú skuli njóta ábyrgðar sjóðsins.

Í 13. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa er fjallað um umsögn skiptastjóra en samkvæmt ákvæðinu skal skiptastjóri í búi vinnuveitanda veita Ábyrgðasjóði launa umsögn svo fljótt sem auðið er um þá kröfu sem lýst hefur verið í búið sem til álita kemur að njóti ábyrgðar sjóðsins samkvæmt lögunum. Umsögn skiptastjóra skal fela í sér afstöðu hans til réttmætis kröfu og forgangsréttar hennar skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. án tillits til eignastöðu þrotabúsins. Í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að Ábyrgðasjóður launa geti óskað eftir frekari skýringum skiptastjóra á umsögn hans ef nauðsyn krefur. Í athugasemdum við 13. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, segir að við ,,afgreiðslu þeirra mála sem berast Ábyrgðasjóði launa er í meiri hluta tilvika byggt á mati skiptastjóra þrotabús um réttmæti kröfu og forgangsrétt hennar skv. 1. tölul. 1. mgr. 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Ábyrgðasjóður launa er engu síður ekki bundinn af umsögn skiptastjóra enda hefur stjórn sjóðsins sjálfstætt úrskurðarvald á grundvelli þeirra laga sem hann starfar eftir. Eru þess allmörg dæmi að sjóðurinn hafni ábyrgð á kröfu þótt skiptastjóri hafi viðurkennt forgangsrétt hennar en einnig hefur stjórn sjóðsins samþykkt að krafa njóti ábyrgðar þegar kröfuhafi hefur getað lagt fram gögn sem sýna fram á að lagaskilyrðum sé fullnægt enda þótt fyrir liggi neikvæð afstaða skiptastjóra.“ Af athugasemdunum má að mati ráðuneytisins ráða að þrátt fyrir að Ábyrgðasjóði launa beri ávallt að taka sjálfstæða ákvörðun um hvort krafa njóti ábyrgðar sjóðsins sé engu að síður í öllum tilfellum, með fyrirvara um takmarkanir og frávik sem kveðið er á um í II.–IV. kafla laganna, gert ráð fyrir að kröfu hafi verið lýst í það þrotabú sem í hlut á sem og að skiptastjóri hafi áður tekið afstöðu til þeirrar kröfu sem um ræðir hverju sinni.

Í máli þessu hafnaði Ábyrgðasjóður launa kröfu kæranda um ábyrgð sjóðsins vegna vangoldinna lífeyrisiðgjalda með vísan í 2. mgr. 2. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Samkvæmt ákvæðinu er ábyrgð sjóðsins háð því skilyrði að kröfur séu viðurkenndar sem forgangskröfur skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með fyrirvara um takmarkanir og frávik sem kveðið er á um í II.-IV. kafla laga um Ábyrgðasjóð launa. Af gögnum málsins má hins vegar ráða að kærandi hafi ekki lýst kröfu sinni í þrotabú hlutaðeigandi félags.

Að mati ráðuneytisins þykir ljóst að þar sem kröfu kæranda var ekki lýst í þrotabú hlutaðeigandi félags hafi skiptastjóri þrotabúsins ekki haft tækifæri til að veita Ábyrgðasjóði launa skriflega umsögn þar sem afstaða hans til réttmætis kröfunnar kemur fram, sbr. 13. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa. Jafnframt hafi skiptastjóri þrotabúsins ekki getað tekið afstöðu til þess hvort krafan skyldi viðurkennd sem forgangskrafa í þrotabúið skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, en slík viðurkenning er skilyrði fyrir ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa líkt og kveðið er á um í 2. mgr. 2. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa með fyrirvara um takmarkanir og frávik sem kveðið er á um í II.–IV. kafla laganna.

Meginskilyrði fyrir ábyrgð Ábyrgðasjóðs launa er því að mati ráðuneytisins að skiptastjóri þess þrotabús sem um ræðir hverju sinni hafi samþykkt kröfu sem forgangskröfu skv. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991. Að mati ráðuneytisins verður að ætla að ákvæði II.-IV. kafla laga um Ábyrgðasjóð launa um takmarkanir og frávik frá framangreindu meginskilyrði fyrir ábyrgð sjóðsins verði ekki túlkuð með svo rúmum hætti að þau nái yfir tilvik þar sem kröfu skv. d-lið 5. gr. laganna hefur ekki verið lýst í þrotabú hlutaðeigandi félags. Á það ekki síst við þar sem 5. gr. laganna gerir aðeins ráð fyrir að ábyrgð sjóðsins taki til tiltekinna krafna í bú atvinnurekanda auk þess sem almenn lögskýringarsjónarmið gera ráð fyrir að undantekningar frá meginreglum laga skuli túlka þröngri lögskýringu.

Í ljósi framangreinds þykir því ljóst að mati ráðuneytisins að Ábyrgðasjóði launa hafi borið að hafna ábyrgð sjóðsins á umræddri kröfu kæranda með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga um Ábyrgðasjóð launa.

Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að umrædd krafa kæranda í máli þessu uppfylli ekki skilyrði laga um Ábyrgðasjóð launa fyrir ábyrgð sjóðsins.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa, dags. 28. júní 2022, um synjun á ábyrgð á kröfu Festu lífeyrissjóðs um greiðslu vangoldinna lífeyrisiðgjalda vegna gjaldþrots Rafneyjar ehf., skal standa.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta