Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins

Úrskurður félags- og vinnumarkaðsráðuneytis 8/2024

Fimmtudaginn 29. ágúst 2024, var í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi:

 

ú r s k u r ð u r:

Með erindi til félagsmálaráðuneytis, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, sbr. forsetaúrskurð nr. 5/2022, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, dags. 10. september 2019, kærði […], lögmaður, fyrir hönd JG Bjór ehf., kt. 670616-1690, ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins nr. 8/2019, dags. 11. júní 2019, um bann við markaðssetningu og notkun bruggunarkúta af tiltekinni tegund á þrýstingi yfir 0,5 bör, en umræddir bruggunarkútar eru í eigu kæranda, sem og bann við markaðssetningu og notkun á öryggislokum sem fylgja fyrrnefndum bruggunarkútum, sem einnig eru í eigu kæranda.

I. Málavextir og málsástæður.

Mál þetta varðar ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins nr. 8/2019, dags. 11. júní 2019, um bann við markaðssetningu og notkun á bruggunarkútum af tegundinni 500L Beer Fermentation Tank, 1000L Beer Fermentation Tank og 1000L Brite Tank á þrýstingi yfir 0,5 bör, en umræddir bruggunarkútar eru í eigu kæranda, sem og bann við markaðssetningu og notkun á öryggislokum sem fylgja fyrrnefndum bruggunarkútum, sem einnig eru í eigu kæranda, en fyrrnefndur búnaður var framleiddur í Kína af Jinan Shun Long Machinery Co., Ltd.

Þeirri ákvörðun vildi kærandi ekki una og kærði hann ákvörðunina til ráðuneytisins með bréfi, dags. 10. september 2019, með vísan til 98. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Auk þess óskaði kærandi eftir að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað með vísan til 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Í erindi kæranda til ráðuneytisins kemur meðal annars fram að kærandi hafi flutt hingað til lands bruggunarkúta til bjórframleiðslu og að íslensk yfirvöld hafi skoðað búnaðinn, svo sem með því að tollskoða hann. Í kjölfar þess hafi búnaðinum verið hleypt inn í landið eftir að tilskilin gjöld hafi verið greidd, enda hafi allar merkingar og gögn verið í samræmi við hefðbundna staðla að því er kærandi sem og íslensk yfirvöld hafi talið á þeim tíma. Þá kemur fram að sýslumaður hafi gefið út leyfi fyrir starfsemi kæranda en nokkrum árum síðar hafi Vinnueftirlit ríkisins talið að umræddur búnaður stæðist ekki reglugerðarákvæði, væri hættulegur og að ekki mætti nota hann. Að mati kæranda hafi hann frá upphafi verið í góðri trú og reynt að finna lausn á málinu og tekur kærandi fram í því sambandi að hvorki fyrr né síðar hafi verið sýnt fram á að búnaðurinn væri hættulegur. Þá bendir kærandi á að um sé að ræða lítinn atvinnurekstur á landsbyggðinni sem feli í sér frumkvöðlastarf en að mati kæranda séu slík störf einstaklega mikilvæg samfélaginu vegna þeirrar nýsköpunar sem þau hafi í för með sér.

Í erindi kæranda kemur jafnframt fram að hann hafi með tölvubréfi, dags. 12. ágúst 2019, óskað eftir upplýsingum frá Vinnueftirliti ríkisins um öll gögn málsins eftir að ákvörðun í málinu hafi legið fyrir en engin svör hafi borist og því hafi honum ekki verið veittur aðgangur að gögnum málsins. Þá mótmælir kærandi niðurstöðu Vinnueftirlits ríkisins og bendir á að stofnunin hafi aldrei staðfest að umræddir bruggunarkútar hafi verið í notkun hjá kæranda né að þeir hafi unnið á þrýstingi yfir 0,5 bör. Sú grundvallarforsenda sem Vinnueftirlit ríkisins hafi gefið sér í ákvörðun sinni, dags. 11. júní 2019, hafi því að mati kæranda ekki verið byggð á öðru en óljósum getgátum stofnunarinnar. Því hafi kæranda verið sá einn vegur fær að kæra ákvörðunina til ráðuneytisins. 

Enn fremur kemur fram í erindi kæranda til ráðuneytisins að um sé ræða einstaklega flókið mál að mati kæranda og telur kærandi jafnframt að það sé eingöngu á færi nokkurra einstaklinga að meta hvort búnaðurinn standist öryggiskröfur. Auk þess bendir kærandi á að sambærilegir bruggunarkútar séu í notkun í yfir 20 öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins án athugasemda frá yfirvöldum í viðkomandi ríkjum eins og fram hafi komið í bréfi sem kærandi hafi sent til Vinnueftirlits ríkisins, dags. 3. júlí 2019, sbr. einnig ítrekunarbréf, dags. 8. júlí sama ár. Þá gerir kærandi athugasemdir við að Vinnueftirlit ríkisins slái því föstu að búnaðurinn sé hættulegur en hafi engin gögn lagt fram og felli þar með sönnunarbyrðina á kæranda til að sýna fram á að umræddir bruggunarkútar séu ekki hættulegir. Fram kemur að kærandi hafi fengið sérfræðing á sviði þrýstibúnaðar til að meta öryggi búnaðarins og að umræddur sérfræðingur hafi staðfest að búnaðurinn væri ekki hættulegur að hans mati en Vinnueftirlitið hafi ekki tekið tillit til þess þegar það hafi tekið umrædda ákvörðun.

Í erindinu kemur einnig fram sú afstaða kæranda að Vinnueftirlit ríkisins hafi af framangreindum ástæðum ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993, hvað varðar rétt kæranda til aðgangs að gögnum máls, sbr. 15. gr. laganna. Þá hafi andmælaréttur kæranda jafnframt verið skertur þar sem hann hafi átt erfitt með að nýta andmælarétt þar sem hann hafi hvorki fengið gögn málsins né þær leiðbeiningar sem hann hafi óskað eftir hjá Vinnueftirliti ríkisins. Að mati kæranda beri því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Með bréfi, dags. 18. september 2019, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Vinnueftirlits ríkisins og var sérstaklega óskað eftir umsögn stofnunarinnar í tengslum við beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Með bréfi, dags. 26. september 2019, barst ráðuneytinu umsögn Vinnueftirlits ríkisins hvað varðar beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Í kjölfarið kvað ráðuneytið upp úrskurð þar sem frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar Vinnueftirlits ríkisins nr. 8/2019, dags. 11. júní 2019, var hafnað, sbr. úrskurð ráðuneytisins, dags. 19. nóvember 2019, í máli nr. 10/2019.

Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins, dags. 26. september 2019, er varðar beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar, kemur meðal annars fram að tiltekinn starfsmaður Vinnueftirlitsins hafi þann 12. ágúst 2019 fengið sent tölvubréf frá lögmanni kæranda þar sem lögmaðurinn hafi óskað eftir afritum af öllum gögnum málsins. Umræddur starfsmaður Vinnueftirlitsins hafi hins vegar verið frá vinnu á þeim tíma sem tölvubréfið frá lögmanni kæranda hafi borist á netfang hans hjá stofnuninni og hafi lögmaðurinn því fengið sjálfvirkt svar við tölvubréfinu þar sem fram hafi komið að umræddur starfsmaður væri í orlofi. Í kjölfar tölvubréfs lögmanns kæranda til umrædds starfsmanns Vinnueftirlitsins hafi stofnunin átt í samskiptum við lögmanninn án þess að hann hafi minnst á að kæranda hafi ekki verið veittur aðgangur að gögnum málsins eða að áðurnefndu tölvubréfi hans, dags. 12. ágúst 2019, hafi ekki verið svarað af hálfu stofnunarinnar. Þá kemur fram í umsögninni að Vinnueftirlit ríkisins hafi 24. september 2019 afhent öll gögn málsins til lögmanns kæranda.

Með bréfi, dags. 29. október 2019, barst ráðuneytinu umsögn Vinnueftirlits ríkisins varðandi efnisatriði hinnar kærðu ákvörðunar. Í umsögninni kemur fram að 11. júní 2019 hafi Vinnueftirlit ríkisins tekið ákvörðun um að banna markaðssetningu á tilteknum bruggunarkútum og notkun þeirra á þrýstingi yfir 0,5 bör sem og notkun á öryggislokum sem fylgja umræddum bruggunarkútum en búnaðurinn sé í eigu kæranda. Í umsögninni bendir Vinnueftirlit ríkisins meðal annars á ummæli kæranda í erindi hans til ráðuneytisins, dags. 10. september 2019, þar sem fram hafi komið að við tollskoðun hafi ekki verið gerðar athugasemdir við umræddan búnað. Telur Vinnueftirlit ríkisins að hér gæti misskilnings hvað varðar hlutverk tollstjóra en við tollskoðun varnings fari almennt ekki fram markaðseftirlit heldur heyri það til undantekninga að markaðseftirlit fari fram við tollskoðun. Í raun þurfi lög að kveða skýrt á um að markaðseftirlit skuli fara fram við tollskoðun en slík lagaákvæði hafi ekki verið til staðar í máli þessu. Þá bendir Vinnueftirlitið á að ríkar skyldur hvíli á innflytjendum og framleiðendum þrýstibúnaðar þess efnis að tryggja að sá þrýstibúnaður sem settur sé á markað hér á landi samrýmist ákvæðum laga. 

Í umsögn Vinnueftirlits ríkisins vísar stofnunin enn fremur til ákvörðunar sinnar, dags. 11. júní 2019, þar sem fram hafi komið að kærandi teljist annaðhvort framleiðandi búnaðarins í skilningi 1. mgr. 4. gr. laga nr. 134/1995, um öryggi vöru og opinbera markaðsgæslu, sbr. breytingalög nr. 68/2004, eða innflytjandi í skilningi reglugerðar nr. 1022/2017, um þrýstibúnað, þar sem fyrirtækið hafi sjálft flutt búnaðinn til landsins frá landi utan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 3. gr. reglugerðarinnar. Í umsögninni kemur fram að skv. 1. mgr. 7. gr. eldri reglna nr. 571/2000, um þrýstibúnað, skuli framleiðandi þrýstibúnaðar láta fara fram samræmismat á hverri einingu búnaðarins samkvæmt einni aðferðareininganna við samræmismat eins og lýst sé í III. viðauka við reglurnar og í samræmi við skilyrðin sem sett séu í þeirri grein áður en búnaðurinn sé settur á markað. Þá kemur fram að samkvæmt fyrrnefndum III. viðauka við umræddar reglur skuli framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins, meðal annars festa CE-merki á hvert eintak þrýstibúnaðar sem og gefa út skriflega samræmisyfirlýsingu samkvæmt þeim aðferðareiningum sem eiga við um umræddan þrýstibúnað. Þá segi enn fremur í fyrrnefndum III. viðauka við reglurnar að framleiðandinn eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins skuli í minnst tíu ár eftir að síðasta eintak þrýstibúnaðar hafi verið framleitt geyma afrit af samræmisyfirlýsingu með tækniskjölunum samkvæmt þeim aðferðareiningum sem eigi við um þann þrýstibúnað sem við á hverju sinni.

Þá kemur fram í umsögn Vinnueftirlits ríkisins að skv. 1.-3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1022/2017, um þrýstibúnað, skuli innflytjandi aðeins setja þrýstibúnað eða samsetningu á markað sem uppfylli skilyrði ákvæða reglugerðarinnar. Áður en þrýstibúnaður eða samsetning skv. 1.-3. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar er sett á markað skuli innflytjandi ganga úr skugga um að framleiðandi hafi unnið samræmismat með viðeigandi aðferð, sbr. 16. gr. reglugerðarinnar. Þá skuli framleiðandinn jafnframt ganga úr skugga um að gerð tæknigagna uppfylli þær kröfur sem fram koma í 7. og 8. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar sem og tryggja að þrýstibúnaðurinn eða samsetningin beri CE-merki og að leiðbeiningar og upplýsingar um öryggismál séu tiltæk, sbr. 3.3. og 3.4. gr. I. viðauka við reglugerðina.

Í umsögn sinni bendir Vinnueftirlit ríkisins jafnframt á að skv. 48. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sé óheimilt að setja á markað eða taka í notkun tegundir véla, tækja eða annan búnað sem uppfyllir ekki kröfur um öryggi og formskilyrði samkvæmt lögunum, sérreglum sem settar eru á grundvelli laganna eða viðurkenndum stöðlum er gilda á sameiginlegum markaði ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins, svo sem hvað varðar merkingar, leiðbeiningar, vottorð, yfirlýsingar um samræmi eða prófunarskýrslur.

Þá vísar Vinnueftirlit ríkisins til þess í umsögn sinni að í erindi kæranda til ráðuneytisins, dags. 10. september 2019, hafi komið fram að Vinnueftirlitið hafi hvorki staðfest að umræddur búnaður sé í notkun hjá kæranda né að búnaðurinn hafi unnið á þrýstingi yfir 0,5 bör. Því mótmælir Vinnueftirlitið í umsögn sinni og bendir á að við eftirlitsskoðun stofnunarinnar hjá ótilgreindum bjórframleiðanda hafi starfsfólk stofnunarinnar tekið eftir því að þrýstibúnaður sem þar hafi verið í notkun hafi ekki verið CE-merktur og hafi þeir komið þeim upplýsingum til tæknideildar Vinnueftirlitsins. Í kjölfar þess hafi Vinnueftirlitið sent bréf til þeirra bjórframleiðenda sem grunur hafi verið uppi um að notuðu sambærilegan þrýstibúnað til bjórframleiðslu og óskað eftir samræmisyfirlýsingum fyrir búnaðinn en einn þeirra sem hafi svarað hafi verið kærandi. Kærandi hafi því svarað bréfi Vinnueftirlits ríkisins og látið stofnuninni í té gögn um þrýstibúnaðinn sem hann notar við bjórframleiðslu þar sem meðal annars hafi komið fram að búnaðinum væri ætlað að vinna á 1,5-2,0 bara þrýstingi. Að mati Vinnueftirlits ríkisins hafi því verið óumdeilt að kærandi framleiði bjór eða hafi framleitt bjór með þrýstibúnaði þar sem þrýstingur búnaðarins geti farið yfir 0,5 bör. Vinnueftirlit ríkisins geri því þá kröfu að ákvörðun stofnunarinnar, dags. 11. júní 2019, verði staðfest af ráðuneytinu.

Með bréfi ráðuneytisins til kæranda, dags. 22. nóvember 2019, var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri við ráðuneytið athugasemdum við umsögn Vinnueftirlits ríkisins, dags. 29. október 2019.

Erindi ráðuneytisins svaraði kærandi með tölvubréfi, dags. 12. maí 2020, þar sem kærandi ítrekar afstöðu sína sem fram kemur í erindi kæranda til ráðuneytisins, dags. 10. september 2019, meðal annars þess efnis að hann stundi frumkvöðlastarfsemi í afmörkuðum atvinnurekstri og því hafi ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins, dags. 11. júní 2019, veruleg íþyngjandi áhrif fyrir hann. Þá kemur fram að umræddur þrýstibúnaður sé CE-merktur og hafi kærandi afhent Vinnueftirliti ríkisins ljósmyndir sem sýni fram á slíkt en kærandi hafi þó ekki sérfræðikunnáttu til að meta réttmæti þeirra merkinga. Auk þess ítrekar kærandi það mat sitt að umræddur búnaður sé ekki hættulegur og bendir kærandi í því sambandi á að jafnan séu það eigendurnir sjálfir sem vinni við notkun búnaðarins. Jafnframt hafi umrædd tæki verið tollafgreidd til notkunar hér á landi og hið opinbera tekið gjald fyrir þá afgreiðslu en hafi ekki endursent búnaðinn úr landi. Þá kemur fram að Vinnueftirlit ríkisins hafi lagt bann við notkun og markaðssetningu á búnaðinum án þess að hafa fengið það staðfest að umræddur búnaður sé notaður við meiri þrýsting en 0,5 bör. Því hafi Vinnueftirlitið að mati kæranda ekki sannreynt hvort umræddur búnaður hafi verið notaður með þeim hætti sem óheimilt sé áður en ákvörðun stofnunarinnar hafi legið fyrir. Þá kemur fram að kærandi telji að aðrir notendur sambærilegs búnaðar hafi ekki fengið athugasemdir frá Vinnueftirliti ríkisins og því standist ákvörðun stofnunarinnar í máli þessu ekki jafnréttissjónarmið að mati kæranda.

II. Niðurstaða

Í 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, er kveðið á um að heimilt sé að kæra til ráðuneytisins ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina.

Með fyrrnefndum lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er leitast við að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi sem er í samræmi við félagslega og tæknilega þróun í þjóðfélaginu sem og að tryggja skilyrði fyrir því að innan vinnustaðanna sjálfra sé unnt að leysa öryggis- og heilbrigðisvandamál í samræmi við gildandi lög og reglur, í samræmi við ráðleggingar aðila vinnumarkaðarins og í samræmi við ráðleggingar og fyrirmæli Vinnueftirlits ríkisins, sbr. 1. gr. laganna. Í almennum athugasemdum við frumvarp það er varð að fyrrnefndum lögum kemur meðal annars fram að „í frumvarpinu er lögð á það megináhersla, að eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi verði sem allra mest innan fyrirtækjanna sjálfra og atvinnurekendur og starfsmenn skipuleggi sameiginlega ráðstafanir á vinnustöðum er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi.“

Hlutverk Vinnueftirlits ríkisins samkvæmt fyrrnefndum lögum er að hafa eftirlit með því að atvinnurekendur uppfylli skyldur sínar samkvæmt lögunum og reglugerðum sem og reglum sem settar eru á grundvelli laganna. Stofnuninni er meðal annars falið að hafa eftirlit með framkvæmd laganna sem og reglugerða og reglna sem settar eru á grundvelli laganna og fylgjast þannig með að atvinnurekendur, er lögin taka til, stuðli að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi fyrir starfsfólk sitt í starfi, sbr. 1. mgr. 82. gr. laganna.

Enn fremur skal Vinnueftirlit ríkisins sjá til þess að atvinnurekandi grípi til viðeigandi úrbóta í tilvikum er hann hefur ekki sinnt skyldum sínum á viðunandi hátt að mati stofnunarinnar, sbr. 84., 85. og 87. gr. laganna, en í framangreindum ákvæðum laganna er tekið fram til hvaða ráðstafana Vinnueftirlitið getur gripið þegar atvinnurekendur fara ekki að tilmælum stofnunarinnar um lagfæringar á vanbúnaði eða öðru ástandi sem brýtur gegn fyrrnefndum lögum, reglugerðum eða reglum. Er þannig í 1. mgr. 85. gr. laganna kveðið á um að telji Vinnueftirlitið að veruleg hætta sé á ferðum fyrir líf eða heilbrigði starfsmanna eða annarra geti stofnunin krafist þess að strax sé bætt úr skorti á nægjanlegu öryggi eða látið hætta vinnu í þeim hluta starfseminnar, sem þannig er á sig kominn.

Í máli þessu var kærð ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins nr. 8/2019, dags. 11. júní 2019, um bann við markaðssetningu og notkun á tilteknum þrýstibúnaði í eigu kæranda í ljósi þess að upplýsingar og gögn er kærandi hafi afhent stofnuninni sýni hvorki fram á að samræmismatsstofa (tilkynntur aðili) hafi gert samræmismat á umræddum búnaði í samræmi við kröfur sem gerðar séu í reglugerð um þrýstibúnað, nr. 1022/2017, og í eldri reglum um þrýstibúnað, nr. 571/2000, né hvaða aðferð var beitt við samræmismatið. Í fyrrnefndri ákörðun Vinnueftirlitsins er í þessu sambandi vísað til 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 48. gr. a laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem og til 4. gr. reglugerðar nr. 1022/2017, um þrýstibúnað, og 2. gr. reglna nr. 571/2000, um þrýstibúnað.

Í 1. mgr. 48. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er kveðið á um að óheimilt sé að setja á markað eða taka í notkun tegund véla, tækja eða annars búnaðar sem uppfyllir ekki reglur um öryggi og formskilyrði samkvæmt lögunum, sérreglum sem settar eru á grundvelli laganna eða viðurkenndra staðla er gilda á sameiginlegum markaði ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, svo sem um merkingar, leiðbeiningar, vottorð, yfirlýsingar um samræmi eða prófunarskýrslur, sem sett eru. Í athugasemdum með 13. gr. laga nr. 68/2003, um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem varð að 48. gr. síðarnefndu laganna kemur meðal annars fram að „þegar tegund véla, tækja eða annars búnaðar fullnægir ekki settum skilyrðum er óheimilt að markaðssetja hana í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og notkun hennar er bönnuð enda er markmiðið meðal annars að tryggja að þær tegundir sem seldar eru og notaðar á innri markaði fullnægi settum öryggiskröfum.“

Þá er í 1. mgr. 48. gr. a laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum kveðið á um að Vinnueftirliti ríkisins sé heimilt að banna markaðssetningu og notkun á þeim tegundum véla, tækja eða annars búnaðar sem fullnægja ekki ákvæðum laganna, annarra sérreglna sem settar eru á grundvelli þeirra eða viðurkenndra staðla er gilda á sameiginlegum markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Í ákvæðinu er tekið fram að áður en ákvörðun um bann sé tekin skuli atvinnurekanda, framleiðanda tegundar eða fulltrúa hans, eftir því sem við á, veittur hæfilegur frestur til að bæta úr annmörkum hennar. Í athugasemdum við 14. gr. laga nr. 68/2003, um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sem varð að 48. gr. a síðarnefndu laganna kemur meðal annars fram að mikilvægt sé „að stjórnvöld geti gripið til viðeigandi aðgerða þegar tegund er á markaði sem fullnægir ekki settum öryggiskröfum eða öðrum skilyrðum. Er því lagt til að Vinnueftirliti ríkisins verði falin heimild til að banna markaðssetningu og notkun tegunda véla, tækja eða annars búnaðar sem heyrir undir lögin og fullnægja ekki ákvæðum þeirra, annarra sérreglna sem settar eru með heimild í þeim eða viðurkenndra staðla er gilda á sameiginlegum markaði ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. Áður en gripið er til slíkra úrræða er gert ráð fyrir að Vinnueftirlit ríkisins veiti atvinnurekanda, framleiðanda tegundar tækis, vélar eða annars búnaðar eða fulltrúa hans, eftir því sem við á, tækifæri til að bæta úr annmörkum hennar innan hæfilegs frests í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga”. Í 5. mgr. 48. gr. a laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er kveðið á um að torveldi atvinnurekandi, framleiðandi eða dreifingaraðili sannanlega rannsókn og skoðun Vinnueftirlits ríkisins á viðkomandi tegund eða hefur ekki tiltæk fullnægjandi gögn um öryggi hennar sé stofnuninni heimilt að banna markaðssetningu og notkun hennar.

Í ákvæði til bráðabirgða í reglugerð, nr. 1022/2017, um þrýstibúnað, er kveðið á um að um þann þrýstibúnað eða samsetningar sem hafa verið framleidd fyrir gildistöku reglugerðarinnar skuli gilda þær reglur sem í gildi voru þegar umræddur búnaður var framleiddur nema annað leiði af ákvæðum reglugerðarinnar. Að mati ráðuneytisins verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að sá þrýstibúnaður sem um ræðir í máli þessu hafi verið framleiddur fyrir gildistöku fyrrnefndrar reglugerðar en reglugerðin tók gildi í nóvember 2017 og því gildi í máli þessu þær reglur sem voru í gildi fyrir gildistöku reglugerðarinnar eða reglur nr. 571/2000, um þrýstibúnað, sem settar voru með hliðsjón af ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, sem vísað er til í tilskipun 97/23/EB um samræmingu á lögum aðildarríkjanna varðandi þrýstibúnað.

Í 2. gr. reglna nr. 571/2000, um þrýstibúnað, er kveðið á um að Vinnueftirlit ríkisins geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að því aðeins verði heimilt að markaðssetja og taka í notkun þrýstibúnað og samsetningar, sem um getur í 1. gr. reglnanna, að heilsu og öryggi manna og, þar sem við eigi, húsdýra eða öryggi eigna starfi ekki hætta af þeim þegar þær eru settar upp á réttan hátt og haldið við sem skyldi og notaðar í þeim tilgangi sem ráð var fyrir gert. Í 1. gr. reglnanna er meðal annars kveðið á um að reglurnar gildi um þrýstibúnað sem ætlaður er til notkunar á vinnustöðum sem lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, gilda um sem og um hönnun, framleiðslu og samræmismat þrýstibúnaðar og samsetninga með leyfilegan hámarksþrýsting sem er yfir 0,5 bör en fram kemur í gögnum málsins að leyfilegur hámarksþrýstingur þess búnaðar sem um ræðir í máli þessu sé 2,0 bör.

Í III. viðauka fyrrnefndra reglna er kveðið á um aðferðir við samræmismat en þar er meðal annars tekið fram undir aðferðareiningu A að í aðferðareiningunni sé því lýst hvernig framleiðandi eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan EES, sem rækir þær skyldur sem kveðið sé á um í 2. lið aðferðareiningarinnar, sjái til þess og lýsi yfir að þrýstibúnaður fullnægi þeim kröfum reglnanna sem við hann eigi. Þá er tekið fram að framleiðandi skuli festa CE-merkið á hvert eintak þrýstibúnaðar og semja skriflega samræmisyfirlýsingu.

Í 2. lið fyrrnefndrar aðferðareiningar A í III. viðauka við umræddar reglur um þrýstibúnað kemur fram að „Framleiðandinn skal semja þau tækniskjöl sem er lýst í 3. lið og hann eða viðurkenndur fulltrúi hans með staðfestu innan EES skal hafa þau tiltæk til skoðunar fyrir viðeigandi yfirvöld í landinu í minnst tíu ár eftir að síðasta eintak þrýstibúnaðar hefur verið framleitt. Hafi hvorki framleiðandinn né viðurkenndur fulltrúi hans staðfestu innan EES þá hvílir sú skylda að hafa tækniskjölin tiltæk hjá þeim aðila sem setur þrýstibúnaðinn á markað innan EES.“ Í 3. lið aðferðareiningarinnar kemur fram að „Með tækniskjölunum skal vera unnt að meta samræmi þrýstibúnaðar við kröfur reglnanna. Þau skulu, að svo miklu leyti sem það skiptir máli fyrir slíkt mat, lýsa hönnun, framleiðslu og notkun þrýstibúnaðarins og innihalda: almenna lýsingu á þrýstibúnaðinum, heildarhönnunar- og framleiðsluteikningar og skýringarmyndir af íhlutum, undireiningum, rafrásum o.s.frv., lýsingar og skýringar við fyrrnefndar teikningar og skýringarmyndir um það hvernig þrýstibúnaðurinn vinnur, skrá yfir staðlana, sem um getur í 5. gr. reglnanna og beitt er að hluta eða öllu leyti, og lýsingu á þeim lausnum sem urðu fyrir valinu til þess að fullnægja grunnkröfum reglnanna þar sem stöðlunum, sem um getur í 5. gr., hefur ekki verið beitt, niðurstöður útreikninga við hönnun, upplýsingar um eftirlit o.s.frv. og prófunarskýrslur.“ Af framangreindu leiðir að mati ráðuneytisins að ríkar kröfur eru gerðar til framleiðenda þrýstibúnaðar um að gæta þess að viðeigandi tækniskjöl séu tiltæk varðandi þann búnað sem settur er á markað á Evrópska efnahagssvæðinu. Hafi aftur á móti hvorki framleiðandi búnaðarins né viðurkenndur fulltrúi framleiðandans staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu hvílir skylda þess efnis að hafa viðeigandi tækniskjöl tiltæk hjá þeim aðila sem setur þrýstibúnaðinn á markað innan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. framangreint.

Af gögnum málsins má að mati ráðuneytisins ráða að kærandi hafi keypt þann þrýstibúnað sem um ræðir í máli þessu af framleiðanda búnaðarins, sem sé með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins eða í Kína, og flutt búnaðinn til landsins. Að mati ráðuneytisins verður aftur á móti ekki ráðið af gögnum málsins að fyrrnefndur framleiðandi búnaðarins eða viðurkenndur fulltrúi hans hafi staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu og því hvílir að mati ráðuneytisins sú skylda á kæranda, sem hefur sett umræddan búnað á markað hér á landi í skilningi regla nr. 571/2000, um þrýstibúnað, að gæta þess að viðeigandi tækniskjöl séu tiltæk varðandi umræddan búnað, sbr. 2. lið aðferðareiningar A í III. viðauka fyrrnefndra reglna.

Í gögnum málsins kemur fram að Vinnueftirlit ríkisins hafi ítrekað óskað eftir að fá afhent tilskilin gögn og upplýsingar frá kæranda, sbr. 2. og 3. lið aðferðareiningar A í III. viðauka fyrrnefndra reglna nr. 571/2000, um þrýstibúnað. Í því sambandi hafi Vinnueftirlitið meðal annars sent erindi til kæranda, dags. 27. mars 2018, 12. júní 2018, 31. ágúst 2018 og 22. mars 2019. Jafnframt kemur fram í gögnum málsins að kærandi hafi 31. janúar 2018 og 24. september 2018 sent Vinnueftirliti ríkisins tilteknar upplýsingar í tengslum við umræddan búnað, þar með talið samræmisyfirlýsingu vegna búnaðarins gefna út af framleiðanda búnaðarins í Kína.

Það er mat ráðuneytisins að þau gögn sem kærandi hefur afhent Vinnueftirliti ríkisins í máli þessu uppfylli ekki þær kröfur sem gera skal til slíkra gagna skv. 3. lið aðferðareiningar A í III. viðauka reglna nr. 571/2000, um þrýstibúnað, þar sem á grundvelli gagnanna er að mati ráðuneytisins ekki unnt að meta samræmi þess búnaðar sem um ræðir við þær kröfur sem fyrrnefndar reglur gera til slíks búnaðar. Á það ekki síst við þar sem sú samræmisyfirlýsing sem kærandi hefur lagt fram í málinu uppfyllir að mati ráðuneytisins ekki þær kröfur sem gerðar eru til slíkra samræmisyfirlýsinga skv. VII. viðauka reglna nr. 571/2000, um þrýstibúnað, en meðal annars kemur ekki fram í fyrrnefndri samræmisyfirlýsingu frá kæranda hvaða aðferð var beitt við samræmismatið, svo dæmi sé tekið.

Með vísan til framangreinds og með vísan til þess að á kæranda hafi hvílt skylda til að gæta þess að viðeigandi tækniskjöl séu tiltæk, sbr. 2. og 3. lið aðferðareiningar A í III. viðauka reglna nr. 571/2000, um þrýstibúnað, sbr. einnig 48. gr. a laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, er það mat ráðuneytisins að umrædd ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins hafi byggst á málefnalegum sjónarmiðum.

Af öllu framangreindu virtu er það mat ráðuneytisins að kærandi hafi ekki veitt Vinnueftirliti ríkisins fullnægjandi upplýsingar og gögn í tengslum við markaðssetningu og notkun á bruggunarkútum af tegundinni 500L Beer Fermentation Tank, 1000L Beer Fermentation Tank og 1000L Brite Tank á þrýstingi yfir 0,5 bör, en umræddir bruggunarkútar eru í eigu kæranda, sem og öryggislokum sem fylgja fyrrnefndum bruggunarkútum sem einnig eru í eigu kæranda en fyrrnefndur búnaður var framleiddur í Kína af Jinan Shun Long Machinery Co., Ltd. Hafi kærandi þar með ekki gætt þess að mati ráðuneytisins að viðeigandi tækniskjöl séu tiltæk sem sýni fram á öryggi búnaðarins í samræmi við skyldur kæranda þess efnis skv. reglum nr. 571/2000, um þrýstibúnað. Það er því jafnframt mat ráðuneytisins að Vinnueftirliti ríkisins hafi verið heimilt að banna markaðssetningu og notkun á fyrrnefndum búnaði á grundvelli 5. mgr. 48. gr. a. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnueftirlits ríkisins nr. 8/2019, dags. 11. júní 2019, um bann við markaðssetningu og notkun á bruggunarkútum af tegundinni 500L Beer Fermentation Tank, 1000L Beer Fermentation Tank og 1000L Brite Tank á þrýstingi yfir 0,5 bör, en umræddir bruggunarkútar eru í eigu kæranda, sem og bann við markaðssetningu og notkun á öryggislokum sem fylgja fyrrnefndum bruggunarkútum, sem einnig eru í eigu kæranda, skal standa.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta