Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins

Úrskurður félags- og vinnumarkaðsráðuneytis 3/2024

Þriðjudaginn 2. júlí 2024, var í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r:

Með erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, dags. 8. febrúar 2023, kærði Auður Kolbrá Birgisdóttir, lögmaður, fyrir hönd Kópavogsbæjar, kt. 700169-3759, (hér eftir kærandi) ákvörðun þáverandi Fjölmenningarseturs, nú Vinnumálastofnun, dags. 13. desember 2022, um synjun á umsókn kæranda um endurgreiðslu á veittri aðstoð vegna erlendra ríkisborgara á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

I. Málavextir og málsástæður.
Mál þetta varðar ákvörðun þáverandi Fjölmenningarseturs, dags. 13. desember 2022, um synjun á umsókn kæranda um endurgreiðslu á veittri aðstoð vegna erlendra ríkisborgara á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Kærandi vildi ekki una fyrrnefndri ákvörðun Fjölmenningarseturs og kærði hann því ákvörðunina til ráðuneytisins með erindi, dags. 8. febrúar 2023, á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í erindi kæranda kemur meðal annars fram að kærandi telji ákvörðun Fjölmenningarseturs byggða á misskilningi þar sem stofnunin hafi tekið ákvörðun í tengslum við endurgreiðslukröfu kæranda að fjárhæð 66.278.472 kr. að hluta til á röngum lagagrundvelli. Í því sambandi bendir kærandi á að Fjölmenningarsetur hafi afgreitt kröfuna að mestu á grundvelli a-liðar 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og samþykkt endurgreiðslu að fjárhæð 62.250.892 kr. vegna ríkisborgara ríkja utan EES/EFTA en hafi hafnað að endurgreiða veitta aðstoð vegna tiltekinna einstaklinga með ríkisfang innan EES/EFTA ríkjanna. Það sé mat kæranda að Fjölmenningarsetur hafi hins vegar átt að afgreiða útistandandi kröfu kæranda á grundvelli b-liðar 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem óskað hafi verið eftir endurgreiðslu vegna veittrar aðstoðar til tiltekinna aðila sem eru ríkisborgarar ríkja innan EES/EFTA, sem átt hafi lögheimili hér á landi skemur en tvö ár. Þá sé að mati kæranda hvergi í ákvæðinu að finna heimild til að takmarka endurgreiðslu við aðstoð sem veitt er til ríkisborgara ríkja innan EES/EFTA.

Með bréfi ráðuneytisins til þáverandi Fjölmenningarseturs, dags. 1. mars 2023, var óskað eftir umsögn stofnunarinnar um erindi kæranda og barst ráðuneytinu umsögn stofnunarinnar þann 3. mars 2023. Þar kemur meðal annars fram að kærandi hafi þann 23. nóvember 2022 afhent Fjölmenningarsetri gögn vegna endurgreiðslukröfu kæranda á grundvelli reglna um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, í sérstökum tilvikum, við erlenda ríkisborgara og endurgreiðslur fjárhagsaðstoðar úr ríkissjóði, nr. 520/2021. Jafnframt kemur fram að Fjölmenningarsetur hafi við vinnslu uppgjörsins hafnað endurgreiðslu til kæranda að fjárhæð 2.537.315 kr. í tengslum við veitta aðstoð kæranda til fjögurra einstaklinga frá löndum innan EES/EFTA ríkjanna vegna framfærslustyrks og sálfræðiþjónustu. 

Í umsögn sinni tekur þáverandi Fjölmenningarsetur fram að stofnunin túlki fyrrnefndar reglur nr. 520/2021 á þann hátt að ríkisborgurum ríkja innan EES/EFTA, sem ekki uppfylla skilyrði 83., 84. og 89. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, eigi að vísa úr landi. Meti sveitarfélag að þörf á aðstoð sé nauðsynleg og að viðkomandi útlendingur falli undir a-lið 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þá sé að mati Fjölmenningarseturs heimilt að sækja um endurgreiðslu vegna aðstoðar við brottför viðkomandi frá landinu eða dvalar viðkomandi í landinu í sérstökum tilvikum, sbr. 4., 5. og 7. tölul. 3. gr. reglnanna. 

Enn fremur bendir Fjölmenningarsetur í umsögn sinni á að ríkisborgurum ríkja innan EES/EFTA beri að mati stofnunarinnar að skrá lögheimili sitt hér á landi skv. 89. gr. laga um útlendinga, í þeim tilvikum þegar þeir dvelja hér á landi lengur en þrjá mánuði á grundvelli 83. og 84. gr. laga um útlendinga. Vísar Fjölmenningarsetur jafnframt til þess að í 83. og 84. gr. laganna sé kveðið á um rétt til dvalar hér á landi svo lengi sem vera ríkisborgara ríkja innan EES/EFTA verði ekki ósanngjörn byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar meðan á dvöl stendur. Sé það mat Fjölmenningarseturs að heimild til endurgreiðslu til sveitarfélaga vegna aðstoðar til ríkisborgara ríkja innan EES/EFTA sé að mörgu leyti takmörkuð en þó séu ákveðnar undanþágur í reglum nr. 520/2021. Þá sé það mat Fjölmenningarseturs að kærandi hafi átt að sækja um endurgreiðslu til Fjölmenningarseturs á grundvelli reglna nr. 520/2021 hafi það verið mat kæranda að umræddir ríkisborgarar ríkis innan EES/EFTA þyrftu á aðstoð að halda og að skilyrði fyrir endurgreiðslu hafi verið uppfyllt. 

Með bréfi ráðuneytisins til kæranda, dags. 6. mars 2023, var óskað eftir athugasemdum kæranda við umsögn Fjölmenningarseturs og var frestur veittur til 13. mars 2023. Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda og er málið því tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu.

II. Niðurstaða.
Í 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er kveðið á um að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti fer með mál er varða þáverandi Fjölmenningarsetur, nú Vinnumálastofnun, þar á meðal málefni innflytjenda, flóttafólks og félagsþjónustu sveitarfélaga, sbr. f- og l-lið 2. tölul. 3. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Stjórnsýsla hér á landi byggist á því að ráðherra hvers málaflokks fer með yfirstjórn þeirra mála sem undir hann heyra samkvæmt gildandi forsetaúrskurði hverju sinni og sinnir hann jafnframt eftirliti með þeirri starfsemi sem fellur undir málefnasvið hans. Í ljósi framangreinds verður því að ætla að stjórnvaldsákvarðanir, þar á meðal ákvörðun um synjun á umsókn sveitarfélags um endurgreiðslu á veittri aðstoð til erlendra ríkisborgara á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sem teknar eru af þar til bæru stjórnvaldi sæti endurskoðun félags- og vinnumarkaðsráðuneytis í samræmi við meginreglu 26. gr. stjórnsýslulaga þar sem ekki hefur verið kveðið á um annað fyrirkomulag í öðrum lögum.

Í 1. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um að erlendum ríkisborgurum sem ekki eiga lögheimili í landinu skuli í sérstökum tilvikum veitt fjárhagsaðstoð hér á landi. Í 2. mgr. ákvæðisins er síðan kveðið á um skyldu ríkissjóðs til að endurgreiða sveitarfélagi veitta aðstoð í tilteknum tilvikum. Í því sambandi er annars vegar um að ræða aðstoð vegna erlendra ríkisborgara sem ekki eiga lögheimili í landinu og er í því samhengi vísað til 1. mgr. ákvæðisins, sbr. a-lið 2. mgr., og hins vegar vegna erlendra ríkisborgara skv. 12. og 13. gr. laganna sem átt hafa lögheimili í landinu skemur en tvö ár, sbr. b-lið 2. mgr. Fer það því eftir því hvort sá erlendi ríkisborgari, sem sveitarfélag hefur veitt aðstoð, hefur skráð lögheimili sitt hér á landi eða ekki hvort um skyldu ríkissjóðs til að endurgreiða sveitarfélagi fyrir veitta aðstoð vegna erlendra ríkisborgara fer skv. a- eða b-lið 2. mgr. 15. gr. laganna. Fari um skyldu ríkissjóðs til að endurgreiða sveitarfélagi fyrir veitta aðstoð vegna erlendra ríkisborgara skv. a-lið 2. mgr. 15. gr. laganna skal við endurgreiðsluna fara eftir reglum nr. 520/2021, um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, í sérstökum tilvikum, við erlenda ríkisborgara og endurgreiðslur fjárhagsaðstoðar úr ríkissjóði, sem settar eru með stoð í 1. mgr. 15. gr. laganna. Skylda ríkissjóðs til endurgreiðslu skv. b-lið 2. mgr. 15. gr. laganna takmarkast aftur á móti við erlenda ríkisborgara sem átt hafa lögheimili í landinu skemur en tvö ár. 

Í erindi kæranda kemur fram það mat kæranda að þáverandi Fjölmenningarsetur hafi að hluta til afgreitt endurgreiðslukröfu kæranda á röngum lagagrundvelli. Í því sambandi bendir kærandi á að óskað hafi verið eftir endurgreiðslu á veittri aðstoð til ríkisborgara ríkja innan EES/EFTA sem átt hafi lögheimili í landinu skemur en tvö ár eða á grundvelli b-liðar 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga en stofnunin hafi afgreitt umsóknina á grundvelli a-liðar 2. mgr. 15. gr. laganna. 

Af gögnum málsins má að mati ráðuneytisins ráða að þáverandi Fjölmenningarsetur, nú Vinnumálastofnun, hafi talið að eingöngu a-liður 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga hafi átt við í málinu. Hins vegar er að mati ráðuneytisins ekki að sjá af gögnum málsins að stofnunin hafi lagt mat á hvort b-liður 2. mgr. fyrrnefnds ákvæðis ætti við í máli þessu, að hluta eða öllu leyti, en ráðuneytið telur nauðsynlegt að slíkt mat liggi fyrir þannig að ráðuneytinu sé unnt að kveða upp efnislegan úrskurð í málinu.

Í ljósi framangreinds hefur að mati ráðuneytisins ekki verið tekin afstaða á lægra stjórnsýslustigi til þess hvort b-liður 2. mgr. 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga eigi við í máli þessu. Er það því niðurstaða ráðuneytisins að málsmeðferð á lægra stjórnsýslustigi sé ekki lokið í máli þessu og að vísa beri málinu til Vinnumálastofnunar, áður Fjölmenningarseturs, til nýrrar efnislegrar meðferðar í því skyni að tryggja að málið hljóti efnislega umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum, eftir því sem við á. 

Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða ráðuneytisins að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Vinnumálastofnun að taka málið til nýrrar efnislegrar meðferðar.

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist vegna mikilla anna í ráðuneytinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fjölmenningarseturs, nú Vinnumálastofnun, dags. 13. desember 2022, um synjun á endurgreiðslukröfu kæranda á veittri aðstoð við erlenda ríkisborgara á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, er felld úr gildi og lagt fyrir Vinnumálastofnun að taka málið til nýrrar efnislegrar meðferðar.

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta