Úrskurður nr. 16/2024
Úrskurður nr. 16/2024
Þriðjudaginn 24. september 2024 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ÚRSKURÐUR
Með kæru, móttekinni 27. desember 2023, kærði […] (hér eftir kærandi) ákvörðun embættis landlæknis, dags. 28. september 2023, um að svipta kæranda starfsleyfi samkvæmt 15. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.
Kærandi krefst þess að ákvörðun embættis landlæknis verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir embætti landlæknis að veita kæranda starfsleyfi að nýju.
Málið er kært á grundvelli 6. mgr. 15. gr. laga um landlækni og lýðheilsu og barst kæra innan kærufrests.
Meðferð málsins hjá ráðuneytinu.
Ráðuneytinu barst kæra frá kæranda þann 27. desember 2023 á grundvelli 6. mgr. 15. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn embættis landlæknis um kæruna þann 3. janúar 2024 og barst umsögn embættisins þann 24. janúar. Með tölvupósti, dags. 29. janúar, var kæranda veittur frestur til 12. febrúar til að koma athugasemdum sínum á framfæri við umsögn embættis landlæknis. Kærandi óskaði eftir fresti með tölvupóstum 1. febrúar, 28. febrúar og 17. mars til að skila athugasemdum sem ráðuneytið féllst á. Bárust athugasemdir kæranda ráðuneytinu þann 25. mars. Degi síðar var embætti landlæknis sent afrit af athugasemdum kæranda til kynningar. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.
Við meðferð málsins taldi ráðuneytið nauðsynlegt að óska eftir frekari upplýsingum frá embætti landlæknis og gerði það þann 7. maí 2024. Umbeðnar upplýsingar bárust frá embættinu þann 14. maí s.á. og voru þær sendar kæranda til athugasemda, en að beiðni kæranda var veittur frestur til 15. september. Athugasemdir kæranda við viðbótargögnin bárust 16. september.
Málsatvik.
Mál þetta má rekja til upplýsinga frá lögreglu til embættis landlæknis snemma árs 2023 þess efnis að lyf hafi verið leyst út í nafni […] sem staðfest er að hafi látist í Úkraínu í maí árið 2014.
Í kjölfar tilkynningu lögreglunnar tók embættið saman yfirlit yfir lyfjaávísanir sem gefnar voru út til […] frá andláti hennar. Í ljós kom að kærandi hefur gefið út fjölmargar lyfjaávísanir fyrir ávana- og fíknilyf í miklu magni til […] frá andláti hennar árið 2014 og allt til 16. febrúar 2023. Hefur kærandi á þeim tíma m.a. breytt lyfjameðferð, bætt við lyfjum og aukið skammta ávana- og fíknilyfja til hennar. Voru allar ávísanir kæranda til […] eftir andlát hennar leystar út á grundvelli umboðs […] til handa sambýlismanns hennar, […], sem einnig var sjúklingur hjá kæranda yfir langt skeið og fékk einnig útgefnar lyfjaávísanir fyrir miklu magni af ávana- og fíknilyfjum.
Í ljósi framangreinds stofnaði embætti landlæknis eftirlitsmál vegna lyfjaávísana kæranda. Auk […] og sambýlismanns hennar tók embættið til skoðunar lyfjaávísanir til tveggja annarra sjúklinga kæranda sem hann hafði ávísað miklu magni af ávana- og fíknilyfjum um langt tímabil. Óskaði embættið eftir upplýsingum frá kæranda um tilurð útgefinna lyfjaávísana til […] og lyfjameðferð allra sjúklinganna að öðru leyti.
Í svari kæranda til embættis landlæknis kom fram að hann hefði ekki haft vitneskju um að […] væri látin fyrr en honum bárust þær upplýsingar frá lögreglu árið 2023. […] hafi verið skjólstæðingur hans frá árinu 1997 en komið síðast til hans þann 20. mars 2014. Eftir það hafi sambýlismaður hennar, […], komið reglulega með umboð frá […] og upplýst kæranda um heilsufar hennar og ástand. […] hafi tjáð kæranda að […] héldi til í Úkraínu, heimalandi hennar, þar sem hún byggi hjá bróður sínum. Hún kæmi á milli til Íslands en treysti sér ekki til kæranda þegar hún væri á landinu. […] hafi því logið að kæranda og kærandi látið blekkjast.
í svari kæranda kom einnig fram að allir sjúklingarnir sem voru til skoðunar hjá embættinu væru með margþættan vanda, bæði andlegan og líkamlegan sem væri ástæða fjölþættrar lyfjameðferðar þeirra.
Þann 22. ágúst 2023 tilkynnti embætti landlæknis kæranda um fyrirhugaða sviptingu starfsleyfis, skv. 2. mgr. 15. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Í tilkynningunni kom fram að embættið hefði einnig aflað upplýsinga frá Sjúkratryggingum Íslands, hér eftir SÍ, þar sem óskað var eftir upplýsingum um framlagða reikninga vegna þeirrar heilbrigðisþjónustu sem kærandi veitti […]. Í svari SÍ kom fram að kærandi hafði sent stofnuninni 50 reikninga vegna viðtala við […] sem áttu að hafa átt sér stað eftir andlát hennar. Nam samanlögð upphæð þeirra 898.772 kr. Þá sendi SÍ embættinu einnig afrit af örorkumatsvottorði sem kærandi útbjó vegna […], dags. 27. janúar 2017, en þá hafði hún verið látin í þrjú ár. Í vottorðinu kom fram lýsing læknisskoðunar sem átti að hafa farið fram þann dag. Að auki sendi SÍ embættinu afrit af reikningi frá árinu 2016 sem stofnuninni barst í tilefni að eftirlitsmáli gagnvart kæranda en sá reikningur var undirritaður af […], sem hafði þá verið látin í tvö ár. Var kæranda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri vegna fyrirhugaðrar sviptingar en engar athugasemdir bárust vegna hennar. Óumdeilt er að kærandi fékk bréfið.
Kærandi var í kjölfarið sviptur starfsleyfi þann 28. september 2023 sem er hin kærða ákvörðun í máli þessu.
Málsástæður kæranda.
Kærandi heldur því fram að samkvæmt íslenskum lögum er öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa en skorður á slíku frelsi megi setja í lög enda krefjist almannahagsmunir þess, sbr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Strangar kröfur verði að gera til sviptingu atvinnuréttinda en ekki sé ljóst hver ástæða starfsleyfissviptingarinnar sé.
Kærandi gerir einnig athugasemd við að embættið hafi safnað upplýsingum um fjölda lyfjataflna, sem ávísað var á viðmiðunartímabili á fjóra sjúklinga. Slík vinnubrögð uppfylli ekki lögformleg skilyrði stjórnvaldsákvörðunar sem lúti að sviptingu starfsleyfis. Embættið hafi ekki gert tilraun til að upplýsa um viðurkennd heimiluð viðmið við lyfjaávísun umræddra lyfja. Af þeim sökum sé ekki ljóst á hvaða grundvelli embættið byggi mat sitt um að magn lyfja sem kærandi ávísaði á þá sjúklinga sem til skoðunar eru í málinu hafi verið of mikið eða hvort lyfjameðferðar þeirra hafi verið röng.
Jafnframt kveður kærandi að ekki sé hægt að gera frekari kröfur á hann en aðra opinbera aðila sem létu blekkjast. Embættið komi fram eins og kærandi hafi einn átt að ganga úr skugga um hvort […] væri lífs eða liðinn. Kærandi hafi þvert á móti mátt ganga að því sem vísu að […] væri á lífi meðan hún væri ekki skráð látin í þjóðskrá. Kærandi heldur því fram að ekki verði með afdráttarlausum hætti ráðið af ákvæðum laga og reglugerða að læknir skuli hitta sjúkling sinn augliti til auglitis við endurnýjun lyfseðla og mat á ástandi sjúklinga sinna. Þá sé venjan ekki slík. Daglega sinni læknar margvíslegri heilbrigðisþjónustu án þess að hitta viðkomandi sjúklinga. Á það sérstaklega við um þá sjúklinga sem læknar hafa sinnt lengi, líkt og í tilfelli kæranda og […]. Kærandi hafi þó hitt […] reglulega sem hafi upplýst kæranda um heilsufar hennar. Telur kærandi það ekki vera á sína ábyrgð að huga sérstaklega að því hvort sjúklingar hans séu látnir eða ekki, þegar opinberar upplýsingar gefa slíkt ekki til kynna.
Um útgáfu tilhæfulausra reikninga bendir kærandi á að […] hafi komið til hans með umboð frá […] sem engin ástæða hafi verið fyrir kæranda til að draga í efa. Þá hafi tímarnir jafnframt verið bókaðir í nafni […] og varðað hana sem sjúkling. Slíkar heimsóknir séu ekki óþekktar og ekki óeðlilegar. Ættingjar heilbilaðra fari að ræða við lækni án þess að sjúklingurinn sé viðstaddur. Kærandi var í góðri trú við útgáfu reikninganna enda taldi hann að hann væri að veita […] heilbrigðisþjónustu. Þá hafi upphæð og form reikninganna verið í samræmi við gildandi reglur á hverjum tíma.
Þá kveður kærandi að ekki komi fram með skýrum hætti að hann hafi framkvæmt líkamlega skoðun á […] við útgáfu umsóknar um örorkubætur. Alkunna sé að læknar gefi ítrekað út læknisvottorð vegna umsókna um örorkubætur fyrir sjúklinga án sérstakrar skoðunar. Þá bendi kærandi á að hvorki í 19. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, né í reglum nr. 586/1991, um útgáfu læknisvottorða sé gerð krafa um að við útgáfu læknisvottorða fari fram sérstök skoðun heldur einungis sé gerð sú krafa að við útgáfu vottorða gæti læknar varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni. Að mati kæranda leiki verulegur vafi á því að krafa sé gerð að lögum að læknum beri að skoða sjúklinga auglitis til auglitis áður en þeir gefa út læknisvottorð.
Að auki gerir kærandi margvíslegar athugasemdir við málsmeðferð embættis landlæknis í málinu og telur að embættið hafi brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins.
Umsögn embættis landlæknis.
Embætti landlæknis hafnar fullyrðingum kæranda í kæru hans. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga um landlækni og lýðheilsu hafi landlæknir heimild til að svipta heilbrigðisstarfsmann starfsleyfi án undangenginnar áminningar ef viðkomandi er talinn ófær um að gegna starfi sínu svo forsvaranlegt sé ef starfsmaður brýtur alvarlega gegn starfsskyldum sínum, svo sem með því að gefa út röng eða villandi vottorð, með því að veita umsagnir að órannsökuðu máli, með útgáfu rangra eða villandi reikningar eða með öðru atferli sem fer í bága við lög.
Embættið tekur einnig fram að tölugildi fjölda taflna eða hylkja sé ekki það sem ræður niðurstöðu rannsóknar í máli. Engu að síður séu tölugildi góð leið til að varpa ljósi á umfang og magn þeirra ávana- og fíknilyfja sem ávísað er. Einnig bendir embættið á að sama fyrirkomulag hafi verið notað í öðrum eftirlitsmálum og það látið athugasemdalaust. Þá hafnar embættið því jafnframt að kalla hefði átt hlutaðeigandi sjúklinga til skoðunar. Embættið hafi fengið greinargerð frá kæranda um þá heilbrigðisþjónustu sem hann veitti þeim sjúklingum sem til skoðunar voru ásamt sjúkraskrám þeirra. Þau gögn hafi legið til grundvallar og verið nóg við rannsókn málsins.
Embættið tekur fram að þrátt fyrir að lögfræðingur og landlæknir sjálf hafi undirritað ákvörðun um sviptingu starfsleyfis þá hafi fjöldi starfsmanna komið að rannsókn málsins. Ekki tíðkist að hver einasti starfsmaður undirriti bréf í nafni stofnunar sem komi að máli. Meðal þeirra sérfræðinga sem hafi komið að máli kæranda séu sérfræðilæknir og lyfjafræðingur.
Um staðhæfingu kæranda að aldrei hafi komið fram kvörtun vegna starfa kæranda áréttar embætti landlæknis að það er ekki rétt. Embættið hafi um árabil ítrekað fengið ábendingar um óeðlilegar og óhóflegar lyfjaávísanir kæranda til sjúklinga og brugðist við í hvívetna með bréfum, fundum og samtölum við hann. Kærandi hafi jafnframt tímabundið verið sviptur leyfi til að ávísa tilteknum ávanabindandi lyfjum vegna óhóflegra lyfjaávísana hans til fjölda sjúklinga.
Embættið tekur fram að örorkumatsvottorð […] sem kærandi útbjó árið 2017 hafi augljóslega verið orðað með þeim hætti að draga mætti þá ályktun að […] hafi komið í skoðun til kæranda. Kærandi hafi því vísvitandi gefið út rangt vottorð, enda hafði hann ekki sönnur um það sem hann vottaði og því skýlaust brotið gegn 19. gr. laga, nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn. Sama megi segja um þá reikninga sem kærandi gaf út til SÍ vegna viðtala við […] eftir andlát hennar á grundvelli reglugerðar nr. 1255/2018, um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Þau viðtöl geti ekki hafa átt sér stað. Kærandi hafi því gefið út ranga reikninga vegna viðtala við […] án þess að fá raunverulegar upplýsingar um heilsu […] fyrstu hendi né gert reka að því að nálgast slíkar upplýsingar, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.
Embættið heldur því fram að allt að einu hafi það við alla málsmeðferðina unnið samkvæmt málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins. Rannsókn málsins hafi verið fullnægjandi á öllum stigum málsins, gætt hafi verið að jafnræði og meðalhófi og andmælaréttur kæranda virtur í hvívetna. Brot kæranda hafi verið mörg og alvarleg sem ekki gætu réttlætt vægara úrræði en sviptingu starfsleyfis.
Athugasemdir kæranda við umsögn embættis landlæknis.
Kærandi ítrekar í athugasemdum sínum að rannsókn málsins hafi verið verulega ábótavant. Embætti landlæknis hafi ekki lagt mat á heimiluð viðmið vegna ávísana á ávana- og fíknilyf. Embættið hafi því ekki sýnt fram á að lyfjaávísanir kæranda til þeirra fjögurra sjúklinga sem rannsóknin beindist að hafi verið óhóflegar í tilfellum þeirra.
Einnig ítrekar kærandi að embættið hafi brotið gegn málsmeðferðarreglum sem lúta að meðalhófi, jafnræði og andmælarétti. Kærandi telur að í sambærilegum málum hafi ekki verið gripið til jafn íþyngjandi úrræða og í máli sínu. Í öðrum málum hafi embættið látið duga að veita einstaklingum áminningu eða svipta þá leyfi til að ávísa lyfjum. Vísar kærandi í fyrri úrskurði heilbrigðisráðuneytisins máli sínu til stuðnings.
Hvað varðar skyldu læknis til að byggja ákvarðanir sínar fyrst og fremst á samtali við sjúkling augliti til auglitis tekur kærandi fram að embætti landlæknis hafi í fyrri málum ekki talið að slíkt sé skylda í öllum tilvikum. Embættið hafi fallist á vottorð sem einungis eru byggð á fyrirliggjandi gögnum máls en ekki á skoðun og samtali. Vísar kærandi í dóma máli sínu til stuðnings.
Kærandi hafnar því að hafa gefið út tilhæfulausa og ranga reikninga. Reikningarnir hafi ekki verið rangir að því er varðar upphæð og form reikninganna enda í samræmi við gildandi reglur á hverjum tíma. Embættið hafi ekki dregið í efa að kærandi hafi átt viðtöl vegna viðkomandi sjúklings þó þau hafi ekki verið við hann. Af þeim sökum geti ekki verið um tilhæfulausa reikninga að ræða.
Kærandi telur að afskipti embættisins af störfum hans fyrir áratug sem fólst í tímabundinni sviptingu leyfis til að ávísa tilteknum lyfjum skipti ekki máli og ætti ekki að hafa áhrif í þessu máli. Þá hafi sviptingin verið afturkölluð skömmu síðar. Kærandi andmælir aftur á móti fullyrðingum um að embættið hafi um árabil ítrekað fengið ábendingar um óeðlilegar og óhóflegar lyfjaávísanir kæranda.
Að lokum ítrekar kærandi að hann er fórnarlamb blekkingar líkt og aðrir opinberir aðilar sem voru blekktir af […] um margra ára skeið. Hann hafi unnið sér traust kæranda og kærandi því síst sá sem ætti að sjá í gegnum blekkingarleik hans.
Af öllu framangreindu fer kærandi fram á að ákvörðun embættis landlæknis um að svipta hann starfsleyfi verði felld úr gildi og honum veitt starfleysi sitt að nýju.
Upplýsingabeiðni ráðuneytisins til embættis landlæknis
Við meðferð málsins taldi ráðuneytið nauðsynlegt að óska eftir frekari upplýsingum frá embætti landlæknis. Af þeim sökum sendi ráðuneytið embættinu upplýsingabeiðni þann 7. maí 2014 þar sem óskað var eftir upplýsingum um leiðbeiningar landlæknis um góða starfshætti lækna við ávísun ávana- og fíknilyfja og sögu slíkra leiðbeininga. Að auki óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum um hvort embættið hefði gefið út einhver önnur gögn sem gæfu til kynna hvernig læknir skyldi haga heilbrigðisþjónustu við ávísun lyfja til sjúklinga.
Embættið svaraði upplýsingabeiðni ráðuneytisins þann 14. maí s.á. Í svari embættisins kom fram að leiðbeiningarnar hefðu fyrst verið gefnar út árið 2017 og endurútgefnar ári síðar og fylgdu þær með bréfi embættisins. Þá tiltók embættið einnig aðrar leiðbeiningar um starfshætti lækna, upplýsingar úr Sérlyfjaskrá og siðareglur lækna sem stuðst væri við er metið væri hvort læknir starfaði í samræmi við þær kröfur sem gera verður til lækna við ávísun lyfja. Þá fylgdu erindinu einnig upplýsingar um afskipti embættisins að kæranda í átta skipti á árunum 2012 til 2016 vegna lyfjaávísana hans.
Kærandi gerði athugasemdir við svar landlæknis með bréfi þann 16. september. Þar kom fram að leiðbeiningar landlæknis hefðu ekkert gildi enda væru þær ekki birtar samkvæmt lögum nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað. Svipting starfsleyfis gæti því ekki verið byggð á umræddum leiðbeiningum. Sama mætti segja um upplýsingar úr Sérlyfjaskrá sem hefðu ekkert lagagildi. Er það mat kæranda að embættið hafi ekki sýnt fram á að lyfjaávísanir hans hafi farið fram úr þeim viðmiðum sem fram koma í sérlyfjaskrá eða hafi verið óhæfilegar. Að lokum hafnaði kærandi fyrri afskiptum embættisins að honum sem röngum enda liggi luktir málanna eða framgangur þeirra að öðru leyti ekki fyrir í máli þessu.
Niðurstaða.
Mál þetta varðar ákvörðun embættis landlæknis um að svipta kæranda starfsleyfi sínu sem læknir á grundvelli 15. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.
Lagagrundvöllur
Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Því frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Hefur atvinnufrelsi í heilbrigðiskerfinu verið settar ýmsar skorður í lögum og reglugerðum með vísan til öryggis og hagsmuna sjúklinga og til að halda uppi gæðum í heilbrigðisþjónustu. Þannig má engin nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar nema með leyfi frá landlækni, sbr. 4. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn.
Meðal hlutverka embættis landlæknis er að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum auk þess að hafa eftirlit með lyfjaávísunum og fylgjast með og stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun landsmanna, sbr. e. og f. lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Þá kemur fram í 2. mgr. 18. gr. að landlæknir skuli hafa sérstakt eftirlit með ávísunum lækna og tannlækna á ávana- og fíknilyf.
Í III. kafla laganna er fjallað um eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. hefur landlæknir eftirlit með störfum heilbrigðisstarfsmanna og fylgist með því að þeir fari að ákvæðum heilbrigðislöggjafar og ákvæðum annarra laga og stjórnvaldsfyrirmæla eftir því sem við á. Getur landlæknir á grundvelli 2. mgr. 13. gr. laganna krafist þess að heilbrigðisstarfsmaður gangist undir rannsókn sérfræðinga telji hann það nauðsynlegt til að meta hvort hann sé hæfur til að gegna starfi sínu.
Í 2. mgr. 15. gr. laganna er kveðið á um að landlæknir geti svipt heilbrigðisstarfsmann starfsleyfi án undangenginnar áminningar ef viðkomandi er talinn ófær um að gegna starfi sínu svo forsvaranlegt sé. Getur slík svipting átt sér stað ef heilbrigðisstarfsmaður brýtur alvarlega gegn starfsskyldum sínum, svo sem með því að gefa út röng og villandi vottorð, með því að veita umsagnir að órannsökuðu máli, með því að gefa út ranga og villandi reikninga, með því að rjúfa þagnarskyldu sem á honum hvílir, með því að sýna alvarlegt hirðuleysi í störfum sínum eða með öðru atferli sem fer í bága við lög. Um töku ákvörðunar um sviptingu starfsleyfis fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga, sbr. 4. mgr. 15. gr.
Samkvæmt athugasemdum við 15. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er meginreglan sú að áminning skuli vera undanfari sviptingar starfsréttinda. Aftur á móti geti aðstæður heilbrigðisstarfsmanns verið slíkar að óforsvaranlegt sé að hann haldi áfram störfum, m.a. vegna öryggis sjúklinga.
Landlæknir hefur einnig heimild til að svipta heilbrigðisstarfsmann rétti til að ávísa lyfjum í öllum eða einstökum flokkum, sbr. 1. mgr. 19. gr. laganna, ef ekki þykir ástæða til að svipta starfsmann starfsleyfi sínu. Af athugasemdum við 19. gr. frumvarps til laga um landlækni og lýðheilsu má ráða að gert er ráð fyrir að læknir sé að jafnaði áminntur áður en til sviptingar ávísunarréttar kemur. Aftur á móti sé heimild til að svipta heilbrigðisstarfsmann réttinum til bráðabirgða í einstökum tilvikum til verndar sjúklingum. Heimildinni til að svipta ávísunarrétti skuli þó alltaf beita af mikilli varfærni og ekki nema önnur úrræði séu ekki tiltæk eða líkleg til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.
Fjallað er um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna í III. kafla laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn. Í 13. gr. laganna, sem ber heitið faglegar kröfur og ábyrgð, koma fram þær faglegu kröfur sem heilbrigðisstarfsmenn þurfa að uppfylla hverju sinni í störfum sínum. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal heilbrigðisstarfsmaður sýna sjúklingi virðingu og sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við faglegar kröfur á hverjum tíma. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að heilbrigðisstarfsmanni beri að þekkja skyldur sínar og siðareglur, viðhalda þekkingu sinni og faglegri færni, tileinka sér nýjungar er varða starfið og kynna sér lög og reglugerðir sem gilda um heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma.
Samkvæmt 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn ber heilbrigðisstarfsmönnum að gæta varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni við útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna og votta það eitt er þeir vita sönnur á og er nauðsynlegt í hverju tilviki.
Í lyfjalögum, nr. 100/2020 er einnig kveðið á um eftirlitshlutverk embættis landlæknis með lyfjaávísunum en í 2. mgr. 49. gr. lyfjalaga kemur fram að embætti landlæknis hafi eftirlit með lyfjaávísunum lækna, sbr. einnig 75. gr. lyfjalaga. Hefur embætti landlæknis m.a. aðgang að lyfjagagnagrunni í þeim tilgangi að hafa almennt eftirlit með lyfjaávísunum og fylgjast með og stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun hér á landi, sbr. 1. mgr. 75. gr. lyfjalaga. Er eftirlit embættisins með ávana- og fíknilyfjum ítrekað.
Grundvöllur starfsleyfissviptingar
Af gögnum málsins má ráða að svipting starfsleyfis kæranda sé að meginstefnu til byggð á tveimur þáttum. Annars vegar byggir embætti landlæknis á því að kærandi hafi um langan tíma vísað óhóflegu magni af ávana- og fíknilyfjum til fjögurra sjúklinga hans yfir langt tímabil en embættið hafi einnig ítrekað gert athugasemdir við ávísunarvenjur kæranda yfir langan tíma og m.a. svipt hann til bráðabirgða rétti til að ávísa lyfjum í tilteknum lyfjaflokkum. Hefur embættið haft afskipti af kæranda með eftirlitsmálum í a.m.k. átta skipti, fyrst árið 2012 og fram til ársins 2016 en hann var jafnframt sviptur til bráðabirgða ávísunarrétti vegna tiltekinna lyfja í flokki ávana- og fíknilyfja árið 2014.
Hins vegar byggist sviptingin á því að einn af fjórum áðurgreindum sjúklingum kæranda, […], hafi verið látin frá árinu 2014 en kærandi hafi þrátt fyrir það ávísað lyfjum til […] í tæp tíu ár eftir andlát hennar fyrir tilstuðlan […] sem hafi haft umboð frá henni. Á þeim tíma hafi kærandi m.a. breytt lyfjameðferð […], bætt við lyfjum og aukið lyfjaskammta hennar á grundvelli munnlegra upplýsinga frá […]. Ávísað lyfjamagn ávana- og fíknilyfja til […] hafi margfaldast frá árinu 2015 og til ársins 2022 en […] þjáðist af alvarlegum fíknisjúkdóm á meðan hún lifði. Einnig hafi kærandi bætt við nýjum lyfjum í meðferðina án þess að hitta […] á tímabilinu og treysti eingöngu á lýsingar […] um heilsufar hennar við útgáfu lyfjaávísana til hennar. Allt hafi þetta farið gegn viðurkenndum meginreglum lyfjaávísana og lyfjameðferð við langvinnum kvíða- og lyndisröskunum. Þeir lyfjaskammtar sem kærandi hafi ávísað […] geti talist lífshættulegir einstaklingum. Lyfjaávísanir kæranda til hennar, og meint heilbrigðisþjónusta að öðru leyti, feli því í sér skýlaust brot á faglegum skyldum kæranda, skv. 13. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn.
Þar að auki gaf kærandi út reikninga til Sjúkratrygginga Íslands vegna komu […] í viðtal í 50 skipti eftir andlát hennar. Þau viðtöl geti eðli málsins samkvæmt ekki hafa farið fram. Kærandi hafi einnig útbúið umsókn um örorkubætur fyrir […] þremur árum eftir andlát hennar, þar sem hann lýsir ástandi hennar samkvæmt skoðun án þess að hafa hitt hana eða verið í samskiptum við hana um langan tíma. […], eða raunar […] á grundvelli umboðs frá […], hafi því þegið örorkubætur á grundvelli vottorðsins löngu eftir andlát […]. Taldi embætti landlæknis að framangreind háttsemi kæranda félli undir skilyrði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 41/2007 um sviptingu án undangenginnar áminningar.
Lyfjaávísanir og heilbrigðisþjónusta kæranda
Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi ávísað miklu magni af ávana- og fíknilyfjum yfir langt tímabil til að minnsta kosti fjögurra sjúklinga sinna. Kærandi telur að embætti landlæknis hafi borið að framkvæma skoðun á umræddum sjúklingum og meta þörf þeirra fyrir umrætt magn lyfja. Kærandi tiltekur að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið að baki ákvörðun embættisins við val á þeim skjólstæðingum kæranda sem ávísunarsaga var skoðuð hjá. Finna megi sjúklinga hjá flestum geðlæknum sem glíma við jafn fjölþætt og alvarleg vandamál og umræddir sjúklingar hans. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við að embættið hafi ekki gert tilraun til að sýna fram á hver viðmið þeirra dagskammta af lyfjum sem hann ávísaði séu. Einungis fjalli embættið um fjölda taflna sem kærandi ávísaði. Það sé ekki fullnægjandi.
Embætti landlæknis kveður að kærandi hafi brotið gegn góðum starfsháttum lækna og skýrum lagafyrirmælum um skyldur lækna gagnvart sjúklingum sínum og ávísunum ávana- og fíknilyfja. Kærandi hafi ávísað lyfjum sem virka ekki saman, ávísað lyfjum án nokkurrar eftirfylgni, breytt og bætt við lyfjameðferð án þess að fá upplýsingar fyrstu hendi frá sjúklingi eða skoða hann. Þá hafi kærandi ávísað lyfjum í framhaldsmeðferð sem ekki eru ætluð til framhaldsmeðferðar. Magn ávísaðra lyfja sé margfalt á við uppgefna dagsskammta samkvæmt sérlyfjaskrá en kærandi virðist aðhyllast meðferðir með ávana- og fíknilyfjum fram yfir önnur lyf við sömu meinum sem ekki eru í flokki ávana- og fíknilyfja.
Ráðuneytið hefur áður fjallað um lyfjaávísanir ávana- og fíknilyfja með háskammtameðferð í úrskurði ráðuneytisins nr. 4/2024. Í úrskurðinum kemur m.a. fram að í undantekningartilvikum geti lyfjameðferð í formi háskammtameðferðar gagnast sjúklingum og jafnvel verið nauðsynleg til að sjúklingur njóti fullnægjandi virkni lyfs. Við slíkar aðstæður verði þó ávallt að hafa náið eftirlit með sjúklingi og góða eftirfylgni.
Í máli þessu hefur kærandi sýnt fram á að umræddir sjúklingar, sem rannsókn embættisins náði til, eiga allir við margþættan vanda að stríða sem reynst geta flóknir viðureignar og kallað á meðferð sem samræmist ekki fyllilega þeim viðmiðum sem fram koma í sérlyfjaskrá. Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að kærandi hafi ávísað lyfjum til umræddra fjögurra sjúklinga sem virka ekki saman og að eftirfylgni með sjúklingunum hafi ekki verið fullnægjandi, svo sem mikilvægt er þegar meðferð er viðhöfð með ávana- og fíknilyfjum. Þá er sérstaklega mikilvægt að viðhafa góða eftirfylgni með sjúklingi í þeim tilvikum sem sjúklingur fær ávísað ávana- og fíknilyfjum umfram hámarksskammt samkvæmt sérlyfjaskrá. Sú var ekki raunin. Kærandi hafi þar að auki breytt lyfjameðferð og bætt við ávana- og fíknilyfjum án þess að eiga samskipti við sjúkling fyrstu hendi eða taka hann til skoðunar.
Samkvæmt framangreindu er það mat ráðuneytisins að embætti landlæknis hafi með fullnægjandi hætti, sýnt fram á að meðferðir kæranda til umræddra sjúklinga hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, sem kveður á um að sjúklingur eigi rétt á þjónustu sem miðast við ástand hans og horfur á hverjum tíma, svo og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn, sem mælir fyrir um að heilbrigðisstarfsmaður sinni störfum sínum í samræmi við faglegar kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma. Ávísanir kæranda hafi farið gegn leiðbeiningum embættis landlæknis um góðar ávísunarvenjur ávana- og fíknilyfja sem komu fyrst út árið 2017, góðum starfsháttum lækna, sem komu út árið 2005 og siðareglum lækna við ávísun lyfjanna. Þá hefur embætti landlæknis einnig bent á að kærandi hafi áður verið áminntur vegna lyfjaávísana árið 2014 og sviptur til bráðabirgða leyfi til að ávísa ávanabindandi lyfjum í tilteknum flokkum sama ár. Lyfjaávísanir kæranda hafi því ekki breyst til batnaðar þrátt fyrir beitingu landlæknis á umræddum úrræðum. Auk þess hefur embættið síðar haft afskipti af kæranda vegna ávísunarvenja hans. Telur ráðuneytið af þeim sökum að skilyrði séu fyrir hendi til að beita eftirlitsúrræðum sem landlækni er heimilt samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu.
Ráðuneytið telur að embætti landlæknis hefði átt að vísa í heimila hámarksskammta lyfja samkvæmt sérlyfjaskrá í ákvörðun sinni um sviptingu starfsleyfis. Engu að síður er það mat ráðuneytisins að embætti landlæknis hafi með fullnægjandi hætti sýnt fram á að lyfjaávísanir kæranda til handa umræddra fjögurra sjúklinga hafi verið óhóflegar í skilningi IV. kafla laga um landlækni og lýðheilsu, en gögn málsins bera það einnig með sér. Þá er einnig hægt er að bera saman töflufjölda tilgreindra lyfja við leyfilega hámarksskammta sem uppgefnir eru í sérlyfjaskrá.
Heilbrigðisþjónusta til látins einstaklings
Af ákvörðun embættis landlæknis má ráða að stór ástæða sviptingarinnar byggi á því að kærandi hafi ávísað óhóflegu magni af ávana- og fíknilyfjum um níu ára skeið til […] eftir andlát hennar. Kærandi hafi breytt og bætt við lyfjum, þ.á m. ávana- og fíknilyfjum, í lyfjameðferð hennar reglulega og ítrekað um langt skeið eftir andlát hennar.
Kærandi hefur gengist við því að hafa verið blekktur en telur aftur á móti að það geti ekki verið á hans ábyrgð að kanna hvort sjúklingar sínir séu lífs eða liðnir. Kærandi hafi verið fórnarlamb þaulskipulags svikavefs sem teygði anga sína til margra aðila og stofnana. Af þeim sökum geti það ekki talist kæranda til vanrækslu að hafa ávísað lyfjum á […] um áðurgreint tímabil eftir andlát hennar.
Samkvæmt gögnum málsins var […] sjúklingur kæranda frá árinu 1997. Af sjúkraskrárgögnum hennar verður ráðið að hún hafi komið reglulega til kæranda fyrir andlát hennar. […] mætti í síðasta skipti til kæranda þann 20. mars 2014 en hún lést í Úkraínu í maí sama ár. Engu að síður eru skráðar komur í sjúkraskrá […] u.þ.b. einu sinni í mánuði áfram frá andláti hennar og allt til 27. júlí 2022, sem er síðasta skráða færslan í sjúkraskrá hennar. Ætla má að skráðar endurkomur með sama millibili og á meðan hún lifði eftir andlát hennar séu, a.m.k. að hluta til, til marks um komu […] til kæranda á grundvelli umboðs frá […] til að fá áframhaldandi ávísun lyfja til hennar en […] var, líkt og áður greinir, einnig sjúklingur kæranda.
[…] tjáði kæranda þegar hann mætti í stað […] að hún dveldi í Úkraínu að mestu leyti en kæmi til Íslands inn á milli. Þegar hún kæmi til landsins treysti hún sér ekki til að hitta kæranda. […] hafi af þeim sökum komið til kæranda í umboði hennar og upplýst kæranda um ástand […]. Kærandi hafi því tekið ákvarðanir um lyfjaávísanir ávana- og fíknilyfja á grundvelli þeirra upplýsinga eingöngu. Kærandi heldur því fram að hann hafi talið sig vera veita […] heilbrigðisþjónustu á grundvelli upplýsinga frá þriðja aðila, eingöngu, um níu ára skeið án þess að gera nokkurn reka að því að eiga bein samskipti við […].
Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi ekki gert nokkurn reka að því að fá eða ná sambandi við […] til að fá upplýsingar um ástand eða líðan hennar eða að lyf sem hann ávísaði til hennar væru að skila sér eða virka sem skyldi eða hvernig lyfin væru að fara í hana að öðru leyti. Engu að síður gerði kærandi veigamiklar breytingar á lyfjaávísunum ávana- og fíknilyfja sem hann ávísaði til […] frá andláti hennar en samanlagður töflufjöldi sem kærandi ávísaði til […] fór úr 2 töflum á dag árið 2015 í 8 töflur á dag á árunum 2021 til 2022. Flest þeirra lyfja voru ávana- og fíknilyf sem ætlað er til notkunar í skamman tíma og kalla á gott eftirlit með sjúklingi.
Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn skal heilbrigðisstarfsmaður sýna sjúklingi virðingu og sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við faglegar kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma. Þá segir í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, að sjúklingar eigi rétt á fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma er völ á að veita. Í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að sjúklingur eigi jafnframt rétt á þjónustu sem miðast við ástand hans og horfur á hverjum tíma og bestu þekkingu sem völ er á. Starfsmaður skuli leitast við að koma traustu sambandi á milli sín og sjúklings.
Embætti landlæknis hefur gefið út leiðbeiningar um góða starfshætti við ávísun lyfja, þar sem ítarlegar leiðbeiningar eru um ávísun ávana- og fíknilyfja frá árinu 2017. Í núgildandi leiðbeiningunum kemur m.a. fram að almennt eigi ekki að ávísa ávana- og fíknilyfjum eða endurnýja þau nema eftir samtal læknis og sjúklings og að fyrir liggi skýr áætlun um lengd meðferðar og skammtastærðir. Einnig kemur fram að læknir ætti að hitta sjúkling reglulega til að meta árangur lyfjameðferðar. Það eigi sérstaklega við þegar lyfjameðferðar er þörf til lengri tíma. Þá segir að ef sjúklingur, sem er í meðferð með ávana- og fíknilyfjum, mætir ekki endurtekið í bókaða tíma sé ástæða til að endurskoða meðferðina. Einnig er talið mjög óheppilegt að læknir ávísi ávanabindandi lyfjum á sjúkling sem er búsettur fjarri starfsstöð hans. Þó vísað sé til nýjustu leiðbeininganna eiga framangreind atriði einnig stoð í eldri leiðbeiningum frá 2017 og 2018. Af framangreindu má ráða að kærandi hafi brotið ítrekað og alvarlega gegn fjölmörgum leiðbeiningum landlæknis. Þá er jafnframt til þess að líta að heilbrigðisþjónusta kæranda til handa […] var ekki í samræmi við siðareglur lækna og klínískar leiðbeiningar lyfja sem um ræddi í Sérlyfjaskrá né góða starfshætti í samræmi við leiðbeiningar landlæknis frá árinu 2005 um góða starfshætti lækna.
Samkvæmt gögnum málsins var samanlagt magn sex ávísaðra ávana- og fíknilyfja, þ.e. þriggja ópíóða og þriggja róandi lyfja, sem öllum var ávísað jafnhliða af kæranda til […], langt umfram það magn sem eðlilegt mætti teljast. Jafnvel svo mikið að það gæti ógnað heilsu sjúklings. […] var þar að auki með fjölkerfasjúkdóma sem jók á áhættu við ávísanir lyfjanna og glímdi við fíknisjúkdóm meðan hún lifði.
Samandregið hefur kærandi ávísað óhóflegu magni af ávana- og fíknilyfjum til […] í níu ár eftir andlát hennar. Kærandi hafi því ekki hitt hana á því tímabili eða átt samskipti við hana fyrstu hendi heldur treyst í einu og öllu á upplýsingar frá þáverandi sambýlismanni hennar, […], sem kom reglulega til kæranda sem sjúklingur og umboðsmaður […]. […] hafði tjáð kæranda að […] hefði flutt erlendis en kæmi til Íslands á milli og treysti sér þá ekki til hans. […] hafði fyrir þann tíma komið mjög reglulega til kæranda. Því var um verulega breytingu að ræða á meðferðarsambandi milli […] og kæranda. Engu að síður hélt kærandi áfram að ávísa á […] óhóflegu magni ávana- og fíknilyfja og gerði umfangsmiklar breytingar á meðferð sinni til handa […] þar sem hann jók verulega ávísað magn lyfja sem […] leysti út á grundvelli umboðs.
Kærandi hefði sem grandvar læknir mjög fljótlega átt að gera sér grein fyrir því að ekki væri allt með felldu. […], sem var mjög veik á meðan hún lifði, og hafði fram að ákveðnum tímapunkti komið reglulega til hans, hætti á einum tímapunkti að mæta og samkvæmt upplýsingum frá […] flutt af landinu og ekki treyst sér til kæranda þegar hún kom til Íslands. Alvarleg vanræksla fólst í því af hálfu kæranda að láta sem ekkert hafi í skorist og viðhaldið meðferð til handa […] með þeim hætti sem kærandi gerði. Meðferðarsamband í framhaldsmeðferð er veigamikill þáttur og mikilvægi þess að gott meðferðarsamband hafi myndast ótvírætt. Öllu þessu hafi kærandi litið fram hjá og ekki með nokkru móti gert tilraun til að kanna hvert raunverulegt ástand […] var á neinum tímapunkti eða hvort lyfin sem hann ávísaði henni skiluðu sér til Úkraínu þar sem […] átti að búa samkvæmt […] yfir níu ára tímabilið sem leið frá andláti hennar árið 2014 og þar til honum bárust upplýsingar um andlátið frá lögreglu árið 2023.
Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að kærandi hafi brotið með alvarlegum hætti gegn ákvæðum heilbrigðislöggjafar og starfsskyldum sínum sem heilbrigðisstarfsmaður með því að sýna alvarlegt hirðuleysi í störfum sínum auk þess að viðhafa atferli sem fór í bága við allar vísireglur og leiðbeiningar sem læknum ber að fylgja við framkvæmd starfa sinna.
Útgefnir reikningar til Sjúkratrygginga Íslands (SÍ)
Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi lagt fram 50 reikninga til SÍ vegna viðtala við […] eftir andlát hennar að fjárhæð 858.572 kr. á tímabilinu maí 2014 til 2022. En kærandi hefur haldið því fram að reikningarnir hafi verið gefnir út vegna heilbrigðisþjónustu við […] þrátt fyrir að hún hafi ekki mætt í umrædd viðtöl.
Kærandi heldur því fram að reikningarnir sem hann gaf út hafi verið vegna læknaviðtala hans við sambýlismann […], sem hafi komið fyrir hennar hönd. Kærandi bendir á að óumdeilt sé að […] hafi komið á stofu hans með umboð frá henni sem kærandi hafi ekki séð tilefni til að draga í efa. Viðtölin hafi ávallt verið bókuð í nafni […] og varðaði hana sem sjúkling. Slíkar heimsóknir séu hvorki óþekktar né óeðlilegar. Ættingjar heilabilaðra komi t.a.m. og ræði við lækni án þess að sjúklingurinn sé viðstaddur. Kærandi hafi allt að einu verið í góðri trú þegar hann gaf út umrædda reikninga og form þeirra og efni í samræmi við gildandi reglur á hverjum tíma.
Af orðalagi laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar og reglugerð nr. 1255/2018, um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, og eðli málsins samkvæmt, verður ekki annað ráðið en að við andlát falli niður sjúkratrygging einstaklinga samkvæmt lögunum og reglugerðinni. Hér að framan hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hafi sýnt alvarlegt hirðuleysi í störfum sínum þegar hann gerði engan reka að því að eiga samskipti við […] um níu ára tímabil eftir andlát hennar eða staðreyna raunverulega hagi hennar með nokkrum hætti. Telur ráðuneytið af þeim sökum svo og með hliðsjón af annars reglulegum komum […] til kæranda fyrir andlát hennar að kærandi geti ekki hafa talist vera í góðri trú við útgáfu reikninganna. Ekki verði jafnað saman einstaka tímum sjúklings hjá lækni og samfelldu 17 ára tímabili hjá sama lækni vegna viðvarandi veikinda. Þrátt fyrir að kærandi hafi talið sig vera veita […] heilbrigðisþjónustu þá fóru umræddir tímar ekki í að sannreyna eða meta raunverulegt ástand hennar heldur hitti kærandi […] og ákvað lyfjameðferð […] einungis út frá því sem hann sagði. Kærandi hefur bent á að slíkt geti viðgengist í tilfelli einstaklinga með heilabilun. Verður slíku ástandi sjúklinga að engu leyti jafnað við ástand […] sem kom, líkt og áður greinir, mjög reglulega til kæranda fram að tilteknum tímapunkti, en aldrei eftir það. Kærandi hafi engu að síður haldið áfram að bóka […] í tíma á nafni […] og gefið út reikninga vegna þeirra.
Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er heimilt að svipa heilbrigðisstarfsmann starfsleyfi án undangenginnar áminningar ef heilbrigðisstarfsmaður brýtur alvarlega gegn starfsskyldum sínum m.a. með útgáfu rangra eða villandi reikninga. Af ákvæðinu má ráða að það skuli litið alvarlegum augum ef læknir gefur út ranga eða villandi reikninga í starfi sínu. Þá verður jafnframt ráðið af athugasemdum við 15. gr. frumvarps þess er varð að lögum um landlækni og lýðheilsu að í ákvæðinu séu talin upp brot sem teljist sérstaklega ósamboðin viðkomandi heilbrigðisstétt þó að ekki sé um tæmandi talningu að ræða. Kæranda bar, líkt og atvikum máls þessa er háttað, að kanna ástand […] fyrstu hendi svo sem hann gerði ekki og lét sér í léttu rúmi liggja um raunverulegt ástand hennar og hvort frásögn […] af heilsu hennar væri rétt eða röng eða hvort hann vissi yfir höfuð hvert raunverulegt ástand hennar væri. Þá hafði kærandi ekki vitneskju hvort lyfin sem hann ávísaði á […] væru að skila sér til hennar erlendis og gerði ekki tilraun til að komast að því. Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að kærandi hafi brotið alvarlega gegn starfsskyldum sínum þegar hann gaf út fjölda reikninga til SÍ í nafni […] sem bentu til þess að hann hefði veitt henni heilbrigðisþjónustu í níu ár eftir andlát hennar.
Útgáfa örorkumatsvottorðs vegna umsóknar um örorkubætur
Í janúar árið 2017 gaf kærandi út örorkumatsvottorð fyrir […] vegna umsóknar um örorkubætur. Var umsóknin samþykkt með hliðsjón af vottorðinu. Fyrir liggur að kærandi hitti […] ekki fyrir útgáfu vottorðsins enda hafði hún þá þegar verið látin í þrjú ár.
Kærandi heldur því fram að ekki komi fram skýrum orðum að hann hafi framkvæmt líkamlega skoðun á […]. Kærandi kveður alkunna að læknar gefi út vottorð vegna umsókna um örorkubætur fyrir sjúklinga sem þeir hafa annast lengi án sérstakrar skoðunar. Þá bendir kærandi á að hvorki í 19. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn né í reglum nr. 586/1991, um útgáfu læknisvottorða er gerð krafa um að við útgáfu læknisvottorða fari fram sérstök skoðun heldur er einungis gerð sú krafa að við útgáfu vottorða skuli læknar gæta varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni. Verulegur vafi leiki á því að krafa sér gerð að lögum að læknum beri að skoða sjúklinga auglitis til auglitis.
Í 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn segir að heilbrigðisstarfsmönnum beri að gæta varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni við útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna og votta það eitt er þeir vita sönnur á og er nauðsynlegt í hverju tilviki, sbr. einnig 1. mgr. 1. gr. reglna nr. 586/1991, um gerð og útgáfu læknisvottorða
Þá segir í 2. mgr. 3. gr. reglnanna, að læknir skuli ekki staðhæfa annað í vottorði en það sem hann hefur sjálfur sannreynt. Læknir skal samkvæmt sömu málsgrein geta nákvæmlega þeirra heimilda sem vottorð kann að styðjast við. Greina skuli glögglega milli frásagnar annarra, eigin athugunar læknis og álita hans.
Af vottorðinu verður ekki annað ráðið en að kærandi hafi hitt […] og skoðað hana og gefið út vottorðið á þeim grundvelli. Líkt og áður greinir var það ekki mögulegt. Verður því ekki annað ráðið en að kærandi hafi ekki gætt að varkárni og nákvæmni og einungis vottað það sem hann vissi sönnur á við útgáfu vottorðsins. Þá hafi kærandi ekki greint á milli frásagnar annarra og eigin athugunar enda má ljóst vera að einu upplýsingarnar sem hann hefur fengið um ástand […] hafi komið frá […]. Engar af þeim upplýsingum sem fram komu í vottorðinu voru þó sannar hvaðan sem uppruni þeirra var.
Af því sem hér að framan greinir verður því ekki annað ráðið en að kærandi hafi gefið út rangt og villandi vottorð þegar hann vottaði í örorkumatsvottorði til um ástand og heilsufar […] í janúar árið 2017 enda var hún þá látin. Telur ráðuneytið því ljóst að kærandi hafi brotið alvarlega gegn starfsskyldum sínum við útgáfu örorkumatsvottorðsins vegna umsóknar um örorkulífeyri.
Samantekt
Af öllu því sem hér að framan hefur verið rakið er það niðurstaða ráðuneytisins að kærandi hafi brotið alvarlega gegn starfsskyldum sínum sem læknir með margvíslegum hætti og starfað þvert gegn þeim leiðbeiningum og fyrirmælum sem landlæknir hefur gefið út um störf og starfshætti lækna. Kærandi hafi ávísað óhóflegu magni af ávana- og fíknilyfjum til fjögurra sjúklinga. Kærandi hafi ávísað fjölda mismunandi lyfja án tillits til samvirkni þeirra eða hvort þau hafi verið æskileg til framhaldsmeðferðar án fullnægjandi eftirfylgni.
Einn af umræddum sjúklingum kæranda, […], hafi þar að auki verið látin í níu ár án þess að kærandi hafi stöðvað lyfjaávísanir til hennar. Þvert á móti hafi kærandi aukið verulega við magn ávísaðra lyfja til hennar auk þess sem hann hafi breytt lyfjameðferð hennar töluvert og bætt miklu magni ávana- og fíknilyfja við meðferð hennar, allt án þess að hafa haft samskipti við hana fyrstu hendi eða gera tilraun til að kanna raunverulega hagi hennar. Auk þess hafi kærandi gefið út reikninga til Sjúkratrygginga Íslands vegna viðtala við […], í 50 skipti, sem öll áttu að hafa átt sér stað eftir andlát hennar. Þá hafi kærandi gefið út örorkumatsvottorð vegna […] árið 2017, þremur árum eftir andlát hennar án þess að hafa sönnun fyrir því sem þar kom fram. Þar að auki fylgdi kærandi ekki þeim lagareglum sem gilda um útgáfu vottorða. Brot kæranda eru mörg og alvarleg og ná yfir langt tímabil.
Kærandi hefur vísað til þess að jafnræðissjónarmið eigi að leiða til þess að vægari eftirlitsúrræðum skuli beitt og að andmælaréttur hans hjá embætti landlæknis hafi að eins verið að forminu til. Að mati ráðuneytisins á mál kæranda sér ekki hliðstæðu í úrskurðarframkvæmd ráðuneytisins. Ekki hafi komið fyrir ráðuneytið mál sem varðar jafn mörg og alvarleg brot á starfsskyldum læknis, þó úrskurðað hafi verið um afmarkaða hluta þeirra brota sem kærandi hefur gerst sekur um. Af þeim sökum sé ekki hægt að hafa fordæmi ráðuneytisins til hliðsjónar í máli þessu eða styðja vægara eftirlitsúrræði við fyrri niðurstöður ráðuneytisins nema að litlum hluta. Þá er það mat ráðuneytisins að andmælaréttur kæranda verið virtur í hvívetna. Vinnubrögð kæranda eru með þeim hætti að með réttu megi efast um hæfni hans til að starfa sem læknir með þeim hætti sem nauðsynlegt er til að geta boðið upp á heilbrigðisþjónustu af þeim gæðum sem gerðar eru kröfur um og lög áskilja. Telur ráðuneytið af þeim sökum að skilyrði 2. mgr. 15. gr. laga um landlækni og lýðheilsu séu uppfyllt og að önnur og vægari úrræði komi ekki til greina í tilfelli kæranda. Er ákvörðun embættis landlæknis um að svipta kæranda starfsleyfi því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun embættis landlæknis, dags. 28. september 2023, um að svipta kæranda starfsleyfi, er staðfest.