Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 17/2024

Úrskurður nr. 17/2024

 

Þriðjudaginn 27. ágúst 2024 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með kæru, dags. 19. mars 2024, kærði […] (hér eftir kærandi) ákvörðun embættis landlæknis um að synja umsókn hans um sérfræðileyfi í hjartalækningum sem undirsérgrein við lyflækningar.

Kærandi krefst þess að ákvörðun embættis landlæknis verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir embætti landlæknis að veita kæranda sérfræðileyfi.

Málið er kært á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn.

Meðferð málsins hjá ráðuneytinu.

Ráðuneytinu barst kæra frá kæranda þann 19. mars 2024 á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn embættis landlæknis um kæruna sama dag. Embætti landlæknis óskaði eftir fresti til að skila umsögn en umsögn embættisins barst ráðuneytinu þann 30. apríl. Þann 2. maí var kæranda sent afrit af umsögn embættisins og honum boðið að gera athugasemdir við umsögnina. Ráðuneytinu bárust athugasemdir kæranda við umsögn embættis landlæknis þann 16. maí. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.

Málsatvik.

Kærandi útskrifaðist frá Læknadeild Háskóla Íslands árið 2008 og hlaut almennt lækningaleyfi árið 2009 á Íslandi. Kærandi hlaut síðan sérfræðileyfi í almennum lyflækningum í Svíþjóð og á Íslandi árið 2016. Stundaði kærandi frá þeim tíma skipulagt sérnám í hjartalækningum sem undirsérgrein við lyflækningar við Sahlgrenska Háskólasjúkrahúsið í Svíþjóð þar sem hann bjó. Kærandi flutti aftur til Íslands árið 2020 og sótti um sérfræðileyfi í hjartalækningum sem undirsérgrein við lyflækningar á Íslandi 7. maí 2021.

Umsókn kæranda var send sérfræðinefnd læknadeildar Háskóla Íslands sem skilaði inn umsögn til embættisins vegna umsóknarinnar þann 21. október 2021. Í kjölfarið óskaði kærandi eftir heimild til að leggja fram viðbótagögn sem hann og gerði 19. janúar 2022. Gögnin voru send sérfræðinefndinni og barst svar frá nefndinni þann 7. mars. Óskaði kærandi þá að nýju eftir fresti til að skila inn viðbótargögnum sem hann og gerði. Bárust svör frá nefndinni 10. október 2022. Í bæði skiptin taldi sérfræðinefndin að ekki væru forsendur fyrir því að samþykkja umsókn kæranda. Læknafélags Íslands gerði athugasemdir fyrir hönd kæranda eftir að svör bárust frá nefndinni en embættið taldi ekki þörf á að senda þær til nefndarinnar til umsagnar.

Kærandi hafði samband við embættið í apríl 2023 til að kanna stöðu umsóknar sinnar. Fékk kærandi símafund með embættinu og í kjölfarið var kæranda gefið færi á að afla frekari gagna frá Svíþjóð. Í kjölfarið óskaði embætti landlæknis eftir áliti sérfræðinefndar Læknadeildarinnar að nýju á umsókn kæranda og barst umsögn hennar þann 15. júní 2023. Í nýrri umsögn nefndarinnar kom fram að nefndin teldi að kærandi fullnægði mögulega skilyrðum til að hljóta sérfræðileyfið ef ljóst væri af tímalínu þess tíma sem hann stundaði nám í undirsérgreininni að enginn tími væri tvítalinn, þ.e. enginn tími í undirsérnáminu í hjartalækningum væri einnig tiltekinn sem tími í sérnáminu lyflækningum sem kærandi lauk árið 2016.

Embætti landlæknis taldi að enn vantaði staðfestingu á að kærandi hefði lokið formlega viðurkenndu sérnámi í hjartalækningum í Svíþjóð frá þar til bærum aðila. Óskaði kærandi eftir fresti á meðan hann kannaði hvort mögulegt væri að afla þeirra gagna.

Þann 29. október 2023 sendi kærandi embætti landlæknis tölvupóst með yfirlýsingu frá handleiðara í sérnámi sínu í undirsérgreininni hjartalækningum. Var umsókn kæranda í kjölfarið tekin til afgreiðslu og umsókn hans um sérfræðileyfið synjað á þeim grundvelli að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 3. mgr. 7. gr. og 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 467/2015, um menntun, réttindi og skyldur lækna til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi.

Málsástæður kæranda.

Kærandi telur að forsendur fyrir niðurstöðu embættisins um að synja honum um sérfræðileyfi séu rangar og í ósamræmi við fyrri framkvæmd við veitingu sérfræðileyfa lækna sem hafa stundað nám erlendis í hjartalækningum.

Kærandi heldur því í fyrsta lagi fram að allt sérnám hans hafi farið fram erlendis og því komi 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar er varðar marklýsingu fyrir sérgreininni hér á landi, ekki til álita í málinu.

Í öðru lagi kveður kærandi að vottorð liggi fyrir frá Sahlgrenska sjúkrahúsinu, kennslustjóra sjúkrahússins og handleiðara kæranda í sérnáminu, auk meðmælabréfa sem staðfesta að kærandi hafi tileinkað sér þá þætti sem krafist er fyrir viðkomandi sérgrein. Það sé því rangt að engin vottorð liggi fyrir um að kærandi hafi formlega lokið viðurkenndu námi í hjartalækningum.

Þá heldur kærandi í þriðja lagi fram að ákvæði um skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis hafi verið breytt með reglugerð nr. 856/2023, um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, sem kom í stað og felldi brott reglugerð nr. 467/2015, sem embætti landlæknis byggir synjun umsóknar kæranda á. Ákvæði um skilyrði fyrir sérfræðileyfi, sem er í 6. gr. núgildandi reglugerðar, kveði á um að framvísa beri námslokavottorði um staðfestingu náms eða sambærilegu vottorði um þjálfun í þeim atriðum sem máli skipta um sérnámið. Slík vottorð liggi fyrir í málinu og kærandi uppfylli því skilyrði núgildandi reglugerðar til að fá útgefið sérfræðileyfi.

Að lokum tekur kærandi fram að af gögnum málsins megi ráða að sérfræðinefnd læknadeildar hafi endurskoðað fyrri álit sín með bréfi dags. 15. júní 2023 og komist að þeirri niðurstöðu að kærandi hefði lokið tilskildum tíma, kæmi fram staðfesting sem sýndi enga skörun á tímabilum. Það hafi verið staðfest í þeim vottorðum sem kærandi aflaði frá handleiðara kæranda í sérnáminu. Þá hafi kærandi aflað annars vottorðs frá Sahlgrenska sjúkrahúsinu til staðfestingar á því að hann hafi lokið tilskildu námi sem og námstíma í greininni og hefur það verið lagt fram með kæru kæranda.

Umsögn embættis landlæknis.

Embætti landlæknis tekur fram að þar sem umsókn kæranda barst þann 26. júní 2021 gildi um hana reglugerð nr. 467/2015, með síðari breytingum. Í 3. mgr. 7. gr. þeirrar reglugerðar komi fram að aðeins sé heimilt að veita sérfræðileyfi hér á landi í þeim sérgreinum sem marklýsing fyrir sérnámið í heild hafi verið samþykkt af mats- og hæfisnefnd. Þó sé landlækni heimilt að staðfesta sérfræðileyfi frá öðru ríki. Kærandi hafi ekki sérfræðileyfi frá öðru ríki og ekki til marklýsing fyrir hjartalækningar á Íslandi.

Embættið heldur því jafnframt fram að hið nýja vottorð frá Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Svíþjóð sem liggi fyrir í málinu, og tiltekur að kærandi hafi lokið 24 mánaða námi í hjartalækningum við sjúkrahúsið, teljist ekki fullnægjandi heimild sem embættinu sé unnt að veita kæranda sérfræðileyfi í hjartalækningum sem undirsérgrein við lyflækningar vegna þar sem kærandi hafi ekki hlotið sérfræðileyfi í sérgreininni í Svíþjóð. Þá liggi ekki fyrir staðfesting frá þar til bærum aðila í Svíþjóð á því að nám kæranda myndi veita honum sérfræðileyfi í hjartalækningum. Kæranda væri í lófa lagið að fá slíkt sérfræðileyfi þar í landi sem embætti landlæknis gæti staðfest með vísan í 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 467/2015, hafi hann lokið umræddu námi.

Að mati embættisins sýna gögn málsins ekki fram á að kærandi hafi lokið formlegu viðurkenndu námi í hjartalækningum líkt og krafist er í 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 467/2015.

Athugasemdir kæranda við umsögn embættis landlæknis.

Kærandi ítrekar að ranglega sé staðhæft í umsögn embættisins að kærandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi lokið formlega viðurkenndu námi í undirsérgreininni líkt og krafist er samkvæmt reglugerð nr. 467/2015. Öll þau gögn sem lögð hafa verið fram í málinu staðfesti að kærandi hafi lokið tilskildu námi. Skýrasta staðfestingin sé vottorð frá Sahlgrenska sjúkrahúsinu sem beri yfirskriftina: „Certificate of completion of cardiology specialist training (ST)“ sem kærandi aflaði eftir að ákvörðun embættisins lá fyrir.

Þá heldur kærandi því fram að óumdeilt sé að hann hefði fengið útgefið sérfræðileyfi í Svíþjóð hefði hann sótt um það á þeim tíma sem hann dvaldi í Svíþjóð þar sem hann uppfyllir öll skilyrði. Kærandi hafi flutt heim vegna ófyrirsjáanlegra kringumstæðna sem sé ástæða fyrir því að hann hafi ekki sótt um leyfið.

Þá ítrekar kærandi að umsókn hans ætti að vera metin eftir núgildandi reglugerð nr. 856/2023, sem tók gildi eftir að kærandi sótti um sérfræðileyfi en áður en ákvörðun var tekin um synjun umsóknar hans, en ekki reglugerð nr. 467/2015. Í núgildandi ákvæði um umsókn sérfræðileyfis sé kveðið á um að umsækjandi geti skilað námslokavottorði eða sambærilegu vottorði um þjálfun í öðru ríki sem krafist er fyrir viðkomandi sérgrein. Kærandi uppfylli öll skilyrði núgildandi reglugerðar fyrir veitingu sérfræðileyfis í hjartalækningum sem undirsérgrein lyflækninga.

Engin marklýsing er fyrir hendi vegna sérnáms í hjartalækningum á Íslandi. Allir íslenskir hjartalæknar eru því menntaðir erlendis. Að mati kæranda er ekki forsvaranlegt af embætti landlæknis að gera þá kröfu að kærandi flytji erlendis til þess eins að sækja um sérfræðileyfi sem hann ætti skv. núgildandi reglugerð að fá á Íslandi.

Niðurstaða.

Í máli þessu er til skoðunar hvort ákvörðun embættis landlæknis um að synja kæranda um sérfræðileyfi í hjartalækningum sem undirsérgrein við lyflækningar hafi verið lögmæt.

Lagagrundvöllur

Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er öllum frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Því frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Hefur atvinnufrelsi í heilbrigðiskerfinu verið settar ýmsar skorður í lögum og reglugerðum með vísan til öryggis og hagsmuna sjúklinga og til að halda uppi gæðum í heilbrigðisþjónustu.

Meðal þeirra laga sem sett hafa verið vegna veitingu heilbrigðisþjónustu eru lög nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn. Kveða lögin m.a. á um ákveðnar skorður við frelsi til að starfa við heilbrigðisþjónustu en samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laganna er markmið þeirra að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra.

Í 5. og 6. gr. laganna er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfa og leyfi til að starfa sem heilbrigðisstarfsmenn á Íslandi. Þá kemur fram í 7. gr. þeirra að sá einn hefur rétt til að kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér landi sem fengið hefur til þess leyfi landlæknis. Í 8. gr. laganna er síðan kveðið á um skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis, en í 1. mgr. ákvæðisins segir að ráðherra geti kveðið á um löggildingu sérfræðigreina innan löggiltrar heilbrigðisstéttar með reglugerð, að höfðu samráði við landlækni, viðkomandi fagfélag og menntastofnun hér á landi. Í 2. mgr. 8. gr. er mælt fyrir um að í reglugerð um veitingu sérfræðileyfis skuli kveðið á um þau skilyrði sem uppfylla þurfi til að hljóta leyfi til að kalla sig sérfræðing innan löggiltrar heilbrigðisstéttar og starfa sem slíkur hér á landi. Miðað skuli við að lokið hafi verið formlegu viðbótarnámi á viðkomandi sérfræðisviði. Í reglugerð skuli m.a. kveða á um það sérfræðinám sem krafist sé til að hljóta sérfræðileyfi og um starfsþjálfun sé gerð krafa um hana. Enn fremur skuli kveðið á um í hvaða tilvikum skuli leitað umsagna menntastofnunar eða annarra aðila um það hvort umsækjandi uppfylli skilyrði um sérfræðinám.

Á grundvelli 8. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn setti ráðherra reglugerð nr. 467/2015, um menntun réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi en III. kafli reglugerðarinnar fjallar um sérfræðileyfi.

Skilyrði fyrir sérfræðileyfi koma fram í 7. gr. reglugerðar nr. 467/2015. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að sérfræðileyfi megi veita í sérgreinum læknisfræði samkvæmt 10. gr. Skilyrði er að sérnám umsækjanda sé skilgreint innan þeirrar sérgreinar sem umsókn um sérfræðileyfi tekur til.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skal læknir uppfylla eftirtaldar kröfur til að geta átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi skv. 6. gr; a. hafa lokið embættisprófi frá læknadeild Háskóla Íslands skv. 3. gr. eða hafa lokið sambærilegu námi erlendis, b. hafa hlotið almennt lækningaleyfi hér á landi skv. 2. gr. og c. hafa lokið viðurkenndu sérnámi, að meðtöldum sérnámsgrunni, og tileinkað sér þekkingu, klíníska og verklega færni og aðferðafræði sem krafist er fyrir viðkomandi sérgrein skv. 8. og 9. gr. Þá segir í 3. mgr. 7. gr. að aðeins er heimilt að veita sérfræðileyfi hér á landi í þeim sérgreinum þar sem marklýsing fyrir sérnámið í heild hefur verið samþykkt af mats- og hæfisnefnd, sbr. 15. gr. Þó sé landlækni heimilt að staðfesta sérfræðileyfi frá öðru ríki. Marklýsing hefur ekki verið samþykkt á Íslandi í tilfelli hjartalækninga.

Fram kemur í 2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar að til að hljóta sérfræðileyfi í undirsérgrein innan viðkomandi aðalgreinar skuli umsækjandi hafa hlotið sérfræðileyfi í viðkomandi aðalgrein og hafa lokið formlegu viðurkenndu sérnámi í undirgreininni. Með undirgrein er átt við frekari sérhæfingu á fræða- og starfssviði sem fellur innan viðkomandi aðalgreinar.

Með reglugerð nr. 856/2023, um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi, var reglugerð sama efnis, nr. 467/2015, felld brott. Með reglugerðinni voru ákvæði um sérfræðileyfi jafnframt endurskoðuð.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 856/2023 er nú fjallað um skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að til að læknir geti átt rétt á að öðlast sérfræðileyfi skuli hann uppfylla eftirtaldar kröfur; a. hafa lokið embættisprófi í læknisfræði frá læknadeild Háskóla Íslands skv. 4. gr. eða hafa lokið sambærilegu námi erlendis, b. hafa hlotið lækningaleyfi hér á landi skv. 3. gr., c. geta framvísað námslokavottorði sem staðfestir að læknir hafi lokið viðurkenndu sérnámi, að meðtöldum sérnámsgrunni, eða sambærilegu vottorði um þjálfun í öðru ríki, og tileinkað sér þá hæfni, færni og þekkingu sem krafist er fyrir viðkomandi sérgrein skv. 6., 19. og 21. gr. og að sérnám hans sé skilgreint innan þeirrar sérgreinar sem umsókn hans um sérfræðileyfi tekur til.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 856/2023 er síðan fjallað um þau skilyrði sem uppfylla þarf auk skilyrða 6. gr. fyrir veitingu sérfræðileyfis á grundvelli sérnáms frá öðru ríki. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að aðeins er heimilt að veita sérfræðileyfi á grundvelli sérnáms frá menntastofnun í öðru ríki enda uppfylli það marklýsingu fyrir sérgreinina hér á landi samkvæmt mati kennsluráðs. Þá segir í 2. málslið 1. mgr. að einnig er heimilt að viðurkenna sérfræðileyfi á grundvelli mats kennsluráðs viðkomandi sérgreinar eða framhaldsmenntunarráðs lækninga þess efnis að umsækjandi hafi lokið viðurkenndu sérnámi, sbr. 19. gr., í landi sem gerir sambærilegar kröfur um nám og gerðar eru í reglugerð nr. 856/2023, enda þótt námstilhögun sérnáms sé frábrugðin, þar með talið tímaákvæði. Sérnámið skal vera viðurkennt af heilbrigðisyfirvöldum hér á landi og heilbrigðisyfirvöldum námslands, skv. 3. málsl. Miða skal við samþykkta marklýsingu ef hún er til staðar í samræmi við 4. málsl. en ef ekki er í gildi samþykkt marklýsing og ekki er um að ræða sjálfkrafa viðurkenningu skv. tilskipun 2005/36/EB skal í umsögn framhaldsmenntunarráðs lækninga fjalla um hvort sérnám umsækjanda uppfylli í meginatriðum þau viðmið sem gerð eru hér á landi fyrir framkvæmd sérnáms, sbr. 5. málsl. Í lokamálslið greinarinnar segir að einnig skuli höfð hliðsjón af sérnámi í öðrum ríkjum, svo sem á Norðurlöndum eða í Bandaríkjunum.

Af 8. gr. reglugerðarinnar má því ráða að hægt sé að gefa út sérfræðileyfi á grundvelli sérnáms í öðru ríki í tveimur tilfellum. Annars vegar ef marklýsing er til fyrir fullt sérnám í sérgreininni hér á landi og nám umsækjanda uppfyllir hana að mati kennsluráðs sérgreinarinnar. Hins vegar á grundvelli sérfræðileyfis sem umsækjandi hefur þegar fengið útgefið frá öðru ríki sem byggist á sérnámi sem kennsluráð sérgreinarinnar eða framhaldsmenntunarráðs lækninga, eftir því sem við á, telur fullnægja skilyrðum um sérnám, þ.e. um viðurkennt sérnám þar sem gerðar séu sambærilegar kröfur og gerðar eru til sérnáms sem fram fer hér á landi.

Niðurstaða ráðuneytisins

Af gögnum þessa máls má ráða að kærandi hafi sótt um sérfræðileyfi á árinu 2021 þegar reglugerð nr. 467/2015 var í gildi og tók embættið ákvörðun um synjun um sérfræðileyfi á grundvelli reglugerðarinnar þann 20. desember 2023.

Eftir að kærandi sótti um sérfræðileyfi var reglugerð nr. 467/2015 felld úr gildi með reglugerð nr. 856/2023 um sama efni en seinni reglugerðin tók gildi þann 17. ágúst 2023. Hin nýja reglugerð tók því gildi eftir að kærandi sótti um sérfræðileyfi en áður en ákvörðun um synjun var tekin.

Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 467/2015 var embætti landlæknis einungis heimilt að veita sérfræðileyfi hér á landi vegna sérnáms í öðru landi í þeim sérgreinum sem marklýsing fyrir sérnámið í heild hefur verið samþykkt af mats- og hæfisnefnd, sbr. 15. gr. Einnig var landlækni heimilt að staðfesta sérfræðileyfi frá öðru ríki.

Samkvæmt núgildandi 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 856/2023 er heimilt að veita sérfræðileyfi á grundvelli sérnáms frá menntastofnun í öðru ríki enda uppfylli það marklýsingu fyrir sérgreinina á Íslandi samkvæmt mati kennsluráðs. Einnig er heimilt að veita sérfræðileyfi hér á landi með viðurkenningu á sérfræðileyfi frá öðru ríki, enda byggist það á viðurkenndu sérnámi sem uppfylli sambærilegar kröfur og gerðar eru til sérnáms hér á landi samkvæmt mati kennsluráðs viðkomandi sérgreinar eða framhaldsmenntunarráðs lækninga. Með viðurkenningu á sérfræðileyfi er átt við staðfestingu embættis landlæknis á sérfræðileyfi sem gefið var út í öðru ríki.

Kærandi hefur sótt um sérfræðileyfi í hjartalækningum sem undirsérgrein lyflækninga en ekki er fyrir að fara marklýsingu fyrir hjartalækningar sem undirsérgrein við lyflækningar á Íslandi. Þegar af þeim sökum kemur ekki til skoðunar að veita kæranda starfsleyfi á þeim grundvelli.

Þá verður einnig ráðið af gögnum málsins og framburði kæranda að hann hafi ekki fengið útgefið sérfræðileyfi í hjartalækningum sem undirsérgrein lyflækninga þar sem hann stundaði nám í sérgreininni, þ.e. í Svíþjóð. Vottorð sem kærandi hefur framvísað, frá Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Svíþjóð, um að hann hafi lokið námi við sjúkrahúsið, kemur ekki í stað útgefins sérfræðileyfis af þar til bærum aðila í Svíþjóð sem staðfestir að hann hafi lokið viðurkenndu námi í sérgreininni. Af þeim sökum eru skilyrði 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 467/2015 og 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 845/2023 fyrir staðfestingu eða viðurkenningu sérfræðileyfis í öðru ríki ekki uppfyllt.

Samkvæmt framansögðu er það mat ráðuneytisins að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 856/2023 né 3. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 467/2015 til að hljóta sérfræðileyfi í hjartalækningum sem undirsérgrein við lyflækningar á Íslandi. Skiptir því ekki máli hvort umsókn hans er afgreidd samkvæmt núgildandi reglugerð nr. 856/2023 eða eldri reglugerð, nr. 467/2015, sem var í gildi þegar kærandi sótti um sérfræðileyfi. Verður ákvörðun embættis landlæknis um að synja umsókn kæranda um sérfræðileyfi í hjartalækningum sem undirsérgrein við lyflækningar með vísan í framangreint staðfest.

Leiðbeiningarskylda og málshraði

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi sótti um sérfræðileyfi til embættis landlæknis þann 21. maí 2021 en ákvörðun embættis landlæknis, um að synja umsókn kæranda um sérfræðileyfi, var ekki tekin fyrr en 20. desember 2023, rúmlega tveimur og hálfu ári eftir að umsókn kæranda barst embættinu.

Ákvörðun embættis landlæknis byggði á því að umsóknin yrði metin á grundvelli reglugerðar nr. 467/2015 sem var í gildi þegar kærandi sótti um sérfræðileyfi. Þá kemur fram í ákvörðuninni að í 3. mgr. 7. gr. þeirrar reglugerðar komi fram að aðeins sé heimilt að veita sérfræðileyfi hér á landi í þeim sérgreinum þar sem marklýsing fyrir sérnámið í heild hefur verið samþykkt af mats- og hæfisnefnd. Þó væri landlækni heimilt að staðfesta sérfræðileyfi frá öðru ríki. Þar sem kærandi hefði ekki staðfestingu frá lögbæru stjórnvaldi í Svíþjóð um að kærandi hefði hlotið sérfræðileyfi í sérgreininni hjartalækningum, sem hann sótti um, var umsókn hans synjað.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi ítrekað óskað eftir frestum til að afla frekari gagna um námsvist sína erlendis og embætti landlæknis veitt slíkra fresti án undantekninga, og sent gögnin til sérfræðinefndar læknadeildar Háskóla Íslands til umsagnar, þrátt fyrir að það hafi legið fyrir að gögn um námslok kæranda við sjúkrahúsið myndu ekki skipta máli við ákvörðun í málinu. Þau gögn sem kærandi aflaði og lagði fram komu því ekki til með að skipta máli við málsmeðferðina enda ljóst af reglugerðum nr. 467/2015 og 856/2023 að hann þyrfti að fá útgefið sérfræðileyfi í Svíþjóð til að geta öðlast sérfræðileyfi á Íslandi enda væri ekki samþykkt marklýsing fyrir námið í heild sinni til staðar. Það er mat ráðuneytisins að embætti landlæknis hafi borið að leiðbeina kæranda með skýrari hætti um lagalega stöðu hans í málinu í samræmi við 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og benda honum eftir atvikum á að öflun frekari gagna, sem ekki væru sérfræðileyfi frá lögbæru stjórnvaldi í Svíþjóð, myndi eftir sem áður leiða til synjunar á umsókn hans. Embættið hafi af þeim sökum ekki uppfyllt leiðbeiningarskyldu sína gagnvart kæranda. Það hafi leitt til þess að málsmeðferðartími málsins varð nokkuð umfram það sem eðlilegt mætti teljast. Málsmeðferð embættisins hafi því ekki fyllilega samrýmst 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, þó hluta tafanna megi rekja til óska kæranda um að leggja fram frekari gögn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun embættis landlæknis, dags. 20. desember 2023, um að synja kæranda um sérfræðileyfi í hjartalækningum sem undirsérgrein við lyflækningar er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum