Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 24/2024

Úrskurður nr. 24/2024

 

Miðvikudaginn 4. september 2024 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með endurupptökubeiðni, dags. 24. júní 2024, óskaði […], f.h. […], hér eftir kærandi, eftir endurupptöku á úrskurði heilbrigðisráðuneytisins nr. 10/2023 sem kveðinn var upp 5. maí 2023 og varðaði kæru á málsmeðferð embættis landlæknis vegna kvörtunarmáls á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.

Beiðni um endurupptöku er lögð fram á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Meðferð málsins hjá ráðuneytinu.

Ráðuneytinu barst beiðni um endurupptöku frá kæranda þann 24. júní 2024 ásamt áliti umboðsmanns Alþingis frá 7. júní 2024 í máli nr. 12179/2023. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.

Málsatvik.

Kærandi kvartaði til embættis landlæknis þann 22. mars 2022 vegna þjónustu heilbrigðisstarfsmanns sem hann naut. Í bréfi embættis landlæknis til kæranda þann 10. janúar 2023 kom fram það mat embættisins að í kvörtuninni fælist athugasemd vegna þjónustu í skilningi 1. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, en slíkum erindum bæri að beina til yfirstjórnar heilbrigðisstofnunar. Lauk málsmeðferð embættisins án útgáfu álits. Kærandi kærði málsmeðferð embættisins í kvörtunarmáli sínu til heilbrigðisráðuneytisins á grundvelli 6. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.

Þann 5. maí 2023 kvað heilbrigðiráðuneytið upp úrskurð nr. 10/2023 vegna kæru kæranda. Í niðurstöðu ráðuneytisins kom fram að kvörtun kæranda hafi í meginatriðum lotið að því að kærandi hafi ekki fengið ávísað tilteknu lyfi auk þess sem hann gerði athugasemd við framkomu starfsmannsins. Var það mat ráðuneytisins, með vísan til þeirra gagna sem lágu fyrir í málinu, að ekki væru forsendur til annars en að fallast á með embætti landlæknis að kvörtunin hafi ekki varðað atvik sem lytu að meintum mistökum eða vanrækslu við veitingu heilbrigðisþjónustu sem leiða ættu til þess að embættinu bæri að taka málið til frekari meðferðar á grundvelli 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Þá hafi ráðuneytið talið að atriði kvörtunar sem lutu að framkomu heilbrigðisstarfsmanns í garð kæranda hafi ekki verið með þeim hætti að embættinu hafi borið að rannsaka málið á grundvelli sama ákvæðis eða að meðferð málsins hafi að öðru leyti brotið í bága við stjórnsýslulög.

Kærandi kvartaði til umboðsmanns Alþingis vegna úrskurðar ráðuneytisins þar sem hann taldi að úrskurðurinn væri ekki í samræmi við lög. Umboðsmaður gaf út álit sitt vegna úrskurðarins þann 7. júní sl. Í áliti umboðsmanns kom m.a. fram að kærandi hefði sótt sér tiltekna heilbrigðisþjónustu heilbrigðisstarfsmanns. Kærandi hafi talið að hann hafi orðið fyrir vanrækslu vegna hennar og nýtt sér lögbundin úrræði til að kvarta til landlæknis vegna meintrar vanrækslu. Var það mat umboðsmanns að efni kvörtunar kæranda hafi skýrlega fallið undir 2. mgr. 12. gr. laganna og embætti landlæknis því borið að taka hana til formlegrar meðferðar á þeim grundvelli. Að því virtu gat umboðsmaður ekki fallist á það með ráðuneytinu að kvörtun kæranda hafi þrátt fyrir það fallið utan téðrar lagagreinar. Það leiði til þess að landlækni beri að ljúka máli kæranda með formlegri afgreiðslu þar sem fram komi faglegt álit hans á atvikum málsins í samræmi við 12. gr. en það hafi hann ekki gert.

Málsástæður kæranda.

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á áliti umboðsmanns Alþingis nr. 12179/2023 sem umboðsmaður gaf út í kjölfar kvörtunar kæranda til umboðsmanns. Kærandi telur að af niðurstöðu umboðsmanns verði ráðið að úrskurður ráðuneytisins hafi ekki verið í samræmi við lög og ráðuneytinu beri af þeim sökum að endurupptaka úrskurðinn.

Niðurstaða.

Mál þetta varðar beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði ráðuneytisins nr. 10/2023, sem kveðinn var upp þann 5. maí 2023.

Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 7. júní 2024 í máli nr. 12179/2023 kom fram sú afstaða umboðsmanns að úrskurður ráðuneytisins nr. 10/2023 hafi ekki verið í samræmi við lög. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka málið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis, frá kæranda málsins, enda hafi hann aðild að kærumálinu. Kærandi byggir beiðni sína á áliti umboðsmanns.

Fjallað er um heimild til endurupptöku mála í 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef: ákvörðun byggðist á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul., eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. Í athugasemdum um 24. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum kemur jafnframt fram að aðili máls geti einnig átt rétt til endurupptöku máls í fleiri tilvikum en þessum tveimur, ýmist á grundvelli lögfestra reglna eða óskráðra. Hefur ráðuneytið t.a.m. áður fallist á endurupptöku máls í kjölfar tilmæla umboðsmanns þar um, sbr. úrskurður ráðuneytisins nr. 11/2023. Í ljósi niðurstöðu umboðsmanns í áliti nr. 12179/2023 telur ráðuneytið rétt að fallast á endurupptökubeiðni kæranda, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Ráðuneytið hefur farið yfir umrætt álit umboðsmanns. Eftir yfirferð þess fellst ráðuneytið á niðurstöðu umboðsmanns um að úrskurður ráðuneytisins, þar sem meðferð landlæknis í máli kæranda var staðfest, hafi ekki verið í samræmi við lög þar sem málsmeðferð embættis landlæknis var ekki í samræmi við 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu. Landlækni hafi borið að taka kvörtun kæranda til meðferðar í samræmi við 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Það hafi embætti landlæknis ekki gert heldur metið sem svo að um athugasemdir við þjónustu væri að ræða. Málsmeðferð embættis landlæknis er af þeim sökum ógildanleg enda fór hún ekki fram samkvæmt réttum lagagrundvelli. Er hún af þeim sökum felld úr gildi og lagt fyrir embættið að taka mál kæranda til meðferðar að nýju í samræmi við skilyrði 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málsmeðferð embættis landlæknis vegna kvörtunar kæranda, sem endaði með bréfi til kæranda, dags. 10. janúar 2023, er ógilt. Lagt er fyrir embætti landlæknis að taka mál kæranda til nýrrar meðferðar.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum