Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir heilbrigðisráðuneytis

Úrskurður nr. 19/2024

Úrskurður nr. 19/2024

 

Fimmtudaginn 27. júní 2024 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

Með kæru, dags.7. maí 2024, kærði […], hér eftir kærandi, kt. […], málshraða embættis landlæknis í kvörtunarmáli á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að úrskurðað verði um að málsmeðferðartími embættis landlæknis í kvörtunarmáli kæranda, samkvæmt 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, sé óhóflegur.

Meðferð málsins hjá ráðuneytinu.

Ráðuneytinu barst kæra frá lögmanni kæranda með tölvupósti, dags. 7. maí 2024. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn embættis landlæknis vegna kærunnar degi síðar. Umsögn embættisins barst ráðuneytinu þann 29. maí. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.

Málsatvik.

Mál þetta má rekja til kvörtunar kæranda til embættis landlæknis frá 24. júní 2021 þar sem kærandi kvartaði yfir meintum mistökum og vanrækslu í meðferð hennar á Landspítala frá árinu 2015.

Af gögnum málsins verður ráðið að gagnaöflun hafi lokið af hálfu embættisins í mars árið 2022 og í maí sama ár var tekin ákvörðun um að óska eftir umsögn óháðs sérfræðings á grundvelli 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu vegna kvörtunarinnar.

Samkvæmt embætti landlæknis hefur málið ekki enn komist til óháðs sérfræðings en að vonir standi til að mál frá árinu 2021 fari á þessu ári í óháða umsögn.

Hefur kærandi því ekki fengið úrlausn kvörtunar sinnar enn þann dag í dag, rúmur þremur árum eftir að kvörtun var send til embættis landlæknis.

Málsástæður kæranda.

Kærandi heldur því fram að kvörtunarmál hennar hafi tafist verulega hjá embættinu en rúmlega þrjú ár séu liðin frá því að kvörtun var send til landlæknis og enn eigi eftir að afla umsagnar óháðs sérfræðings.

Kærandi byggir á því að ítrekað hafi verið óskað eftir að landlæknir hraði vinnslu málsins þar sem miklir hagsmunir eru í húfi fyrir hana. Kærandi hyggist óska eftir endurupptöku ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) um að synja henni um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2020, um sjúklingatryggingu. Telur kærandi að álit landlæknis muni leiða í ljós að um bótaskyldan atburð hafi verið að ræða, en SÍ hafi hafnað bótaskyldu. Nú eru níu ár frá því að atburður varð, en samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2000 fyrnist krafa eigi síðar en þegar tíu ár eru liðin frá atvikinu sem hafði tjón í för með sér.

Kærandi tekur fram að málsmeðferð hjá embætti landlæknis verði að líta til eðlis og alvarleika hvers máls fyrir sig. Ríkt tilefni sé til að taka mál hennar til flýtimeðferðar með tilliti til alvarleika máls hennar, umfangs líkamstjóns og þess tíma sem liðinn er frá því að atburður átti sér stað.

Af framangreindu röktu sé ljóst að málsmeðferð embættis landlæknis hafi dregist úr hófi fram.

Umsögn embættis landlæknis.

Embætti landlæknis byggir á því að nú séu yfir 440 kvörtunarmál til úrvinnslu hjá embættinu og af þeim sökum umtalsverðar tafir á allri málsmeðferð vegna málafjölda og manneklu.

Þá byggir embætti landlæknis á því að mál kæranda sé ásamt 36 öðrum málum frá árinu 2021 sem afla þurfi umsagnar óháðs sérfræðings til að málin teljist upplýst. Málið er því ekki komið til óháðs sérfræðings og ekki hægt að segja með fullvissu hvenær það gerist. Það ráðist fyrst og fremst af fjárheimildum embættisins til kaupa á umsögnum óháðs sérfræðings en einnig af því að finna þurfi hæfan sérfræðing til að taka málið að sér.

Þegar umsögn óháðs sérfræðings liggi fyrir verði hún kynnt fyrir málsaðilum og þeim gefin kostur á að koma athugasemdum á framfæri áður en landlæknir gefur út álit í málinu.

Hvað varðar málsástæðu kæranda um að forgangsraða ætti málum tekur embættið fram að heimild sjúklinga til að leggja fram kvörtun til embættisins, skv. 12. gr. laga um landlækni, er þáttur í eftirliti embættisins með heilbrigðisþjónustu, sbr. II. kafli laganna. Tilgangur þess eftirlits er að stuðla að bættum gæðum og öryggi sjúklinga í framtíðinni. Tilgangur rannsóknar embættisins er ekki að undirbyggja mögulegar bótakröfur eða leggja mat á hvort um sök eða bótaskyldu sé að ræða.

Embættið heldur því fram að mat sérfræðinga embættisins sé að málið sé ekki vaxið með þeim hætti að um forgangsmál sé að ræða en forgangsmál séu fyrst og fremst þau mál sem teljast verulega alvarleg, t.a.m. þar sem andlát hefur átt sér stað eða mál sem hafa einnig verið tilkynnt til embættisins sem óvænt alvarlegt atvik, sbr. 10. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Þá hafi það einnig áhrif við mat á forgangsröðun hvort niðurstaða í kvörtunarmáli leiði til úrbóta fyrir heilbrigðiskerfið almennt. Eðli kvörtunarmála séu einnig með þeim hætti að meirihluti þeirra má telja alvarlegar.

Niðurstaða.

Í máli þessu er til skoðunar hvort málsmeðferðartími embættis landlæknis í kvörtunarmáli, skv. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, sé óhóflegur, sbr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Lagagrundvöllur

Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Skal kvörtun vera skrifleg og þar skal koma skýrt fram hvert tilefni hennar er, sbr. 3. mgr. 12. gr. Í 5. mgr. ákvæðisins kemur fram að landlæknir skuli að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Þá segir í 3. málslið 5. mgr. að um meðferð kvartana gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Að lokinni málsmeðferð gefur landlæknir út skriflegt álit. Heimilt er að kæra málsmeðferð embættis landlæknis samkvæmt 6. mgr. 12. gr. til ráðherra.

Í 9. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um málshraða. Þar segir í 1. mgr. að ákvarðanir í málum skuli teknar svo fljótt sem unnt er. Samkvæmt 2. mgr. skal leita umsagnar við fyrsta hentugleika. Þá segir í 3. mgr. að þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Dragist afgreiðsla máls óhæfilega er heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.

Niðurstaða ráðuneytisins

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu gilda ákvæði stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt. Málshraðareglan í 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er grundvallarregla í stjórnsýslurétti og nær til stjórnsýslunnar í heild sinni en ákvæðið byggir á óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar sem hafi víðtækara gildissvið en umrætt lagaákvæði. Verður því að leggja til grundvallar að stjórnvöldum sé skylt, hvort sem um er að ræða ákvarðanir sem stjórnsýslulögin gilda um eða aðra stjórnsýsluframkvæmd, að haga afgreiðslu þeirra mála sem þau fjalla um í samræmi við meginregluna, sbr. álit umboðsmanns Alþingis nr. F124/2022 frá 6. maí 2024.

Af gögnum málsins verður ráðið að rúmlega þrjú ár séu liðin frá því að kvörtun barst embætti landlæknis og gagnaöflun hafi lokið hjá embætti landlæknis fyrir tveimur árum síðan. Frá þeim tíma hafi kvörtunin verið í biðstöðu þar sem ekki er búið að finna óháðan sérfræðing til að taka að sér að gera umsögn vegna kvörtunarinnar. Byggir embættið á því að fjöldi mála og ónógar fjárheimildir séu ástæða þess að málsmeðferðartími í kvörtunarmálum sé jafn langur og raun ber vitni.

Á heimasíðu landlæknis kemur fram að algengur tími rannsóknar í kvörtunarmálum er 12 til 24 mánuðir. Ljóst er að málsmeðferðartími í undirliggjandi kvörtunarmáli er kominn langt fram úr þeim tímamörkum sem telst algengur tími í kvörtunarmálum, samkvæmt landlækni, og jafnframt bendir allt til þess að nokkuð sé í að málinu ljúki af hálfu embættisins.

Í áliti UA nr. F124/2022 kemur fram að þegar stjórnvöldum hefur ekki verið settur ákveðinn frestur til málsmeðferðar með lögum er almennt miðað við að afgreiða beri mál í þeirri tímaröð sem þau berast. Þó þarf að hafa í huga að við mat á því hvort brotið hafi verið gegn málshraðareglu þurfi að hafa hliðsjón af atvikum máls, eðli þess og umfangi, ekki síst hversu mikilsverða hagsmuni málsaðila þau varða, sbr. einnig álit umboðsmanns Alþingis frá 4. október 2001 í máli nr. 2907/1999. Af því leiðir að forstöðumenn stofnana hafa heimildir til að forgangsraða málum, að því gefnu að slík ráðstöfun sé reist á málefnalegum sjónarmiðum.

Af gögnum málsins er ljóst að embættið beitir forgangsröðun kvörtunarmála af varfærni. Hefur embættið tekið fram að eðli kvörtunarmála sé slíkt að flest þeirra teljist alvarleg. Embættið forgangsraði þó eftir alvarleika mála að einhverju marki og eftir því hvort mál varði andlát, hafi verið tilkynnt sem alvarleg atvik af hálfu veitenda heilbrigðisþjónustu eða að niðurstaða álits leiði til aukinna gæða í veitingu heilbrigðisþjónustu. Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið ekki tilefni til að gera athugasemd við forgangsröðun embættisins á kvörtunarmálum.

Samkvæmt kæranda telur hún að kvörtun sín eigi að fá forgang hjá embætti landlæknis þar sem atvik sem kvörtun beinist að urðu fyrir að verða 10 árum. Af þeim sökum sé heimild hennar til að krefjast bóta úr sjúklingatryggingu að líða undir lok. Ráðuneytið tekur undir með embætti landlæknis að kvörtun sem lúti að undirbúningi mögulegrar bótakröfu geti ekki, eitt og sér, fallið í áðurgreindan flokk forgangsmála. Engu að síður er það mat ráðuneytisins að afgreiðslutími embættis landlæknis við meðferð kvörtunarmáls kæranda samrýmist ekki þeim kröfum sem gerðar eru til málshraða samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Telst málshraði embættisins í málinu af þeim sökum óhóflegur.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Málsmeðferð embættis landlæknis í kvörtunarmáli kæranda samrýmist ekki kröfum 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um málshraða. Lagt er fyrir embætti landlæknis að hraða afgreiðslu málsins eins og kostur er.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum