Úrskurður nr. 27/2024
Úrskurður nr. 27/2024
Mánudaginn 25. nóvember 2024 var í heilbrigðisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R
Með kæru, dags. 30. október 2024, kærði […], hér eftir kærandi, málshraða embættis landlæknis í kjölfar athugasemda kæranda við þjónustu tilgreinds lýtalæknis, sem hér eftir verður vísað til sem lýtalæknirinn.
Kærandi krefst þess að málsmeðferðartími málsins hjá embættinu hafi verið óhóflegur.
Kæra kæranda byggir kæru sína á 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Meðferð málsins hjá ráðuneytinu
Kærandi kvartaði til heilbrigðisráðuneytisins yfir málsmeðferð embættis landlæknis þann 7. október 2024. Ráðuneytið ákvað í kjölfarið að óska eftir stöðu málsins hjá embættinu 14. október. Embættið svaraði ráðuneytinu tveimur dögum síðar auk þess að láta fylgja öll gögn málsins. Ráðuneytið sendi kæranda svar embættisins ásamt fylgigögnum til upplýsinga þar sem ráðuneytið taldi ekki tilefni til að aðhafast frekar að sinni í ljósi svars embættisins. Ráðuneytið benti kæranda þó á möguleika hans á að kæra málshraða embættisins teldi hann ástæðu til. Kærandi kærði þá málshraða embættisins 30. október. Lauk þá gagnaöflun og var málið tekið til úrskurðar.
Málsatvik
Mál þetta á rætur að rekja til kvörtunar kæranda til embættisins, dags. 7. september 2023, vegna samskipta sinna varðandi greiðslur fyrir aðgerð sem lýtalæknirinn hugðist framkvæma á kæranda.
Eftir yfirferð kvörtunarinnar hjá embætti landlæknis sendi embættið lýtalækninum kvörtun kæranda þar sem embættið taldi að um athugasemd við þjónustu væri að ræða, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, og óskaði eftir því að lýtalæknirinn svaraði kæranda eins fljótt og kostur væri. Óskaði embættið jafnframt eftir afriti af svari lýtalæknisins til kæranda.
Af gögnum málsins er ljóst að lýtalæknirinn svaraði kæranda ekki. Embættið hafi að auki ítrekað í nokkur skipti við lýtalækninn, eftir að kærandi innti embættið eftir svörum. Þar sem um lögbundna skyldu til að svara var að ræða tilkynnti embættið lýtalækninum um stofnun eftirlitsmáls gagnvart honum, vegna svarleysisins. Í kjölfarið, þann 30. október 2024, rúmu ári eftir að kvörtun kæranda barst, svaraði lýtalæknirinn kæranda og embætti landlæknis þar sem fram kom hans hlið á málinu.
Málsástæður kæranda
Kærandi kveður að embætti landlæknis hafi hundsað kvörtun sína gagnvart lýtalækninum.
Umsögn embættis landlæknis
Ráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá embætti landlæknis vegna kvörtunar kæranda þann 14. október 2024. Í svari embættisins tveimur dögum síðar kom fram að embættið teldi kvörtun kæranda vera athugasemd við þjónustu, sbr. 1. og 4. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga, sem ljúka ætti með svari lýtalæknisins til kæranda, enda uppfyllti kvörtunin ekki skilyrði 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu.
Niðurstaða
Í máli þessu er til athugunar hvort málsmeðferð embættis landlæknis í tilefni af kvörtun kæranda hafi verið lögum samkvæmt og samrýmst sjónarmiðum um málshraða.
Lagagrundvöllur
Í II. kafla laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, er fjallað um eftirlit með heilbrigðisþjónustu, en í 12. gr. laganna er kveðið á um kvörtun til landlæknis. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins er landlækni skylt að sinna erindum er varða samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu og leiðbeina þeim sem til hans leita um málefni heilbrigðisþjónustunnar. Á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laganna er heimilt að beina formlegri kvörtun til embættisins vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skal landlæknir að jafnaði afla umsagnar frá óháðum sérfræðingi þegar kvörtun lýtur að meintri vanrækslu eða mistökum við sjúkdómsgreiningu eða meðferð. Þá gefur landlæknir út skriflegt álit að lokinni málsmeðferð. Um meðferð kvartana gilda stjórnsýslulög að því leyti sem við getur átt samkvæmt sama ákvæði. Í 6. mgr. 12. gr. laganna er kveðið á um kæruheimild til ráðuneytisins en samkvæmt ákvæðinu er hægt að kæra málsmeðferð embættisins í kvörtunarmáli til ráðherra.
Fjallað er um rétt til að gera athugasemdir og kvarta í 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal athugasemdum sjúklings vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar. Í 2. mgr. er kveðið á um að vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð geti hann beint kvörtun til landlæknis. Starfsmönnum heilbrigðisstofnunar er skylt að leiðbeina sjúklingi eða vandamanni sem vill koma á framfæri athugasemd eða bera fram kvörtun, sbr. 3. mgr. 28. gr. Þá skal sjúklingur fá skrifleg svör við athugasemdum sínum og kvörtunum eins fljótt og auðir er samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins.
Í 9. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er fjallað um málshraða. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er. Dragist afgreiðsla máls óhæfilega er heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í máli verður kærð til, sbr. 4. mgr. ákvæðisins.
Niðurstaða ráðuneytisins
Líkt og áður greinir kærði kærandi málshraða embættisins til ráðuneytisins þann 17. október 2024 vegna þess að lýtalæknirinn sem hann hafði leitað til vegna aðgerðar, hafði ekki svarað fyrirspurn embættisins vegna erindis kæranda til embættisins frá 7. september 2023.
Í fyrsta lagi þarf að leggja mat á hvort erindi kæranda til embættisins uppfylli skilyrði kvörtunar, samkvæmt 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu eða hvort um athugasemd sé að ræða í samræmi við 1. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga. Umboðsmaður Alþingis hefur tekið fram að við mat á því hvort efni kvörtunar falli undir ákvæði 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu reyni annars vegar á hvort kvörtun beinist að veitingu heilbrigðisþjónustu og hins vegar hver teljist vera notandi slíkrar þjónustu eða njóti aðildar samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttarins. Fullnægi kvörtun þeim skilyrðum hafi verið litið svo á að hún falli undir 2. mgr. 12. gr. laganna og landlækni sé skylt að taka hana til meðferðar á þeim grundvelli.
Hugtakið heilbrigðisþjónusta er m.a. skilgreint í 1. tölul. 4. gr. laga nr. 40/2007, um heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt ákvæðinu er heilbrigðisþjónusta skilgreind sem: „hvers kyns heilsugæsla, lækningar, hjúkrun, sjúkrahúsþjónusta, sjúkraflutningar, hjálpartækjaþjónusta og þjónusta heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma og endurhæfa sjúklinga.“ Í athugasemdum um greinina í frumvarpi því er varð að lögum um heilbrigðisþjónustu segir að skilgreiningin á hugtakinu sé afar víðtæk en sé þó ætlað að marka tiltekin ramma um það hvaða þjónusta teljist heilbrigðisþjónusta í skilningi laganna.
Kvörtun kæranda lýtur að ágreiningi um endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu sem hann hugðist njóta hjá lýtalækninum nokkrum dögum síðar. Má rót ágreiningsins rekja til þess að kærandi taldi sig eiga njóta þjónustunnar að fullu án endurgjalds en lýtalæknirinn taldi þá hafa sammælst um að framkvæma tvær aðgerðir á kæranda, annars vegar aðgerð sem væri niðurgreidd af SÍ og hins vegar fegrunaraðgerð sem kærandi þyrfti að standa straum af kostnaði vegna. Kærandi hafnaði aftur á móti meðferðinni á þeim grundvelli að hann vildi ekki greiða fyrir þjónustu sem hann taldi að sætti fullri greiðsluþátttöku af hálfu Sjúkratrygginga Íslands fyrir.
Þrátt fyrir að skilgreining á hugtakinu heilbrigðisþjónusta sæti víðtækri túlkun getur hún ekki náð svo langt að fjalla um ágreining um greiðslur eða þóknun vegna tiltekinnar þjónustu sem aldrei fór fram. Raunar verður ekki annað séð en að um misskilning hafi verið að ræða milli kæranda og lýtalæknisins. Þar sem kærandi var ósáttur við þjónustu lýtalæknisins, sem var ekki heilbrigðisþjónusta, bar honum að beina athugasemd sinni til starfsstöðvarinnar sem lýtalæknirinn starfaði hjá í umrætt skipti í samræmi við 1. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga.
Kærandi sendi erindið sitt hins vegar til embættis landlæknis. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu ber landlækni skylda til að sinna erindum er varða samskipti almennings við veitendur heilbrigðisþjónustu og leiðbeina þeim sem til hans leita um málefni heilbrigðisþjónustunnar. Það gerði embættið þegar það áframsendi erindi kæranda til lýtalæknisins og óskaði eftir að hann svaraði kæranda við fyrsta tækifæri.
Athugasemd við þjónustu er ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og sæta ekki kæru til ráðuneytisins. Af því leiðir að ekki er unnt að kæra drátt á málinu til ráðuneytisins samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er máli þessu af þeim sökum vísað frá ráðuneytinu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru kæranda er vísað frá ráðuneytinu.