Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir landskjörstjórnar

Úrskurður 17/2024 Gildi ágreiningsseðla

Tilvísun: LKS2024060016

 

Ár 2024, 25. júní kl. 10:00 kemur landskjörstjórn saman á fundi Í Þjóðminjasafni Íslands til að úrskurða um gildi ágreiningsseðla og lýsa úrslitum forsetakjörs sem fram fór þann 1. júní sl.  

Fyrir er tekið að úrskurða um 57 ágreiningsseðla úr Reykjavíkurkjördæmi norður og kveðinn upp svofelldur

ú r s k u r ð u r  nr. 17/2024:

I.

Ágreiningsseðlarnir bárust landskjörstjórn frá yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmi norður þann 6. og 7. júní sl. Um ágreining er að ræða milli umboðsmanna og yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis norður og eru atkvæðin því send landskjörstjórn til úrskurðar, sbr. 3. mgr. 99. gr. kosningalaga.

Af 57 ágreiningsseðlum eru 53 þeirra kjörfundaratkvæði og fjögur utankjörfundaratkvæði, atkvæði skráð nr. 48, 49, 56 og 57. 

  1. Atkvæði skráð nr. 1. 

Um er að ræða einn kjörseðil þar sem á seðlinum er merking aftan við nafn frambjóðanda. Umboðsmaður taldi að ekki sé um auðkenning og því sé atkvæð gilt. Yfirkjörstjórn úrskurðaði kjörseðilinn ógildan með vísan þess að hann hafi verið auðkenndur, sbr. 102. gr. kosningalaga.

  1. Atkvæði skráð nr. 2-21.

Um er að ræða 20 kjörseðla þar sem á seðlana hafa verið ritaðar merkingar eða orð.  Umboðsmaður taldi að vilji kjósanda sé skýr og því sé atkvæðin gild. Yfirkjörstjórn úrskurðaði kjörseðlana ógilda með vísan þess að þeir hafi verið auðkenndir, en slíkt sé í andstöðu við 102. gr. kosningalaga.

  1. Atkvæði skrá nr. 22.

Um er að ræða einn kjörseðil sem er með merkingu inni í ferningi fyrir framan nafn frambjóðanda. Umboðsmaður taldi að atkvæðið sé auðkennandi og eigi að vera ógilt. Yfirkjörstjórn úrskurðaði atkvæðið gilt þar sem um er að ræða krossa sem séu inn í ferningnum og að kross sé gilt merki.

  1. Atkvæði skráð nr. 23.

Um er að ræða einn kjörseðil sem er með merkingu inni í ferningi fyrir framan nafn frambjóðanda. Umboðsmaður taldi að atkvæðið sé auðkennandi og eigi að vera ógilt. Yfirkjörstjórn úrskurðaði atkvæðið gilt þar sem krossar séu inni í ferningnum og vísaði til dæmis nr. 16 á bls. 18 í Mat á vafaatkvæðum í almennum kosningum, gefið út af dómsmálaráðuneytinu 2021.

  1. Atkvæði skráð nr. 24.

Um er að ræða einn kjörseðil sem er með aðra merkingu en X inn í ferningi fyrir framan nafn frambjóðanda. Umboðsmaður taldi að atkvæðið sé auðkennandi og eigi að vera ógilt. Yfirkjörstjórn úrskurðaði atkvæðið gilt þar sem vilji kjósanda væri skýr.

  1. Atkvæði skráð nr. 25-31.

Um er að ræða sjö kjörseðla þar sem eitt nafn frambjóðanda er skrifað á bakhlið hvers seðils. Umboðsmenn töldu atkvæðin vera gild, vilji kjósanda sé skýr þótt ekki sé merkt í ferning framan við nafn frambjóðanda, heldur nafn hans skrifað á bakhlið seðilsins. Yfirkjörstjórn úrskurðaði kjörseðlana ógilda með vísan til 102. gr. kosningalaga þar sem ekki hafi verið markað X í ferning við nafn frambjóðanda. 

  1. Atkvæði skráð nr. 32-43.

Um er að ræða 12 kjörseðla þar sem á seðlana hafa verið ritaðar merkingar eða orð. Umboðsmenn töldu atkvæðin vera gild, vilji kjósanda sé skýr og myndir eða tákn á seðlunum breyti því ekki. Yfirkjörstjórn úrskurðaði kjörseðlana ógilda með vísan til þess að þeir hafi verið auðkenndir, en slíkt sé í andstöðu við 102. gr. kosningalaga.

  1. Atkvæði skráð nr. 44-46.

Um er að ræða þrjá kjörseðla.  Á tveimur þeirra er strikað yfir nöfn annarra frambjóðenda en merkt virðist við og á einum kjörseðli er merkt við nafn frambjóðanda en að öðru leyti strikað yfir allan seðilinn. Umboðsmenn töldu atkvæðin vera gild. Yfirstrikanir á kjörseðli ógildi hann ekki og að vilji kjósanda komi skýrt fram þrátt fyrir að strikað sé yfir nafn annars frambjóðanda en þann sem kjósandi hafi merkt við. Yfirkjörstjórn úrskurðaði kjörseðlana ógilda með vísan til leiðbeininga og fordæmi í kveri um Mat á vafaatkvæðum í almennum kosningum.

  1. Atkvæði skráð nr. 47.

Um er að ræða einn kjörseðil þar sem merkt er X í ferning fyrir framan nafn eins frambjóðanda og skástrik (hálfur kross) í ferning fyrir framan nafn annars frambjóðanda. Umboðsmenn töldu að vilji kjósands sé skýr og atkvæðið eigi að vera gilt. Yfirkjörstjórn úrskurðaði atkvæðið ógilt með vísan til 102. gr. kosningalaga, leiðbeininga og fordæma í kveri um Mat á vafaatkvæðum í almennum kosningum og þess að vilji kjósandans sé ekki skýr. 

  1. Atkvæði skráð nr. 48.

Um er að ræða einn utankjörfundarseðil þar sem nafn frambjóðanda er stimplað á seðilinn, en auk þess virðist kjósand hafa ritað sitt eigið nafn á seðilinn. Umboðsmaður taldi atkvæðið gilt. Yfrikjörstjórn úrskurðaði atkvæðið ógilt með vísan til 103. gr. kosningalaga og leiðbeininga og fordæma í kveri um Mat á vafaatkvæðum í almennum kosningum, þar sem kjósandi hafi auðkennt seðilinn.

  1. Atkvæði skráð nr. 49.

Um er að ræða einn utankjörfundarseðil þar sem nafn ásamt heimilisfangi frambjóðanda er skrifað inn í þar til gerðan ramma á seðlinum. Umboðsmenn töldu atkvæðið gilt. Yfirkjörstjórn úrskurðaði atkvæðið ógilt með vísan til 103. gr. kosningalaga og leiðbeininga og fordæma í kveri um Mat á vafaatkvæðum í almennum kosningum, þar sem kjósandi hafi auðkennt seðilinn með því að skrifa heimilisfang frambjóðandans.

  1. Atkvæði skráð nr. 50-54.

Um er að ræða fimm kjörseðla þar sem á seðlana hafa verið rituð ýmis tákn. Umboðsmaður taldi atkvæðin vera gild, vilji kjósanda sé skýr þrátt fyrri að tákn séu rituð á kjörseðilinn. Yfirkjörstjórn úrskurðaði kjörseðlana ógilda með vísan til 102. gr. kosningalaga, leiðbeinininga og fordæma í kveri um Mat á vafaatkvæðum í almennum kosningum, þess að vilji kjósandi sé ekki skýr og atkvæðið hafi verið auðkennt. 

  1. Atkvæði skráð nr. 55.

Um er að ræða einn kjörseðil þar sem nafn frambjóðanda er skrifað á bakhlið seðilsins og merkt X í ferning fyrir framan nafn hans á framhlið seðilsins. Umboðsmaður taldi atkvæðið vera gilt, vilji kjósanda sé skýr en bæði sé skrifað aftan á kjröseðlin ásamt því að hakað sé við nafn frambjóðandas. Yfirkjörstjórn úrskurðaði kjörseðilinn ógildan með vísan til 102. gr. kosningalaga en ekki megi rita nafn aftan á kjörseðilinn. 

  1. Atkvæði skráð nr. 56.

Um er að ræða einn utankjörfundarseðil þar sem m.a. nöfn tveggja frambjóðanda hafi verið rituð á seðilinn og síðan strikað yfir annað nafnið. Umboðsmaður taldi atkvæðið vera gilt, þar sem nafn þess frambjóðanda sem kjósandi vill kjósa komi skýrt fram. Yfirkjörstjórn úrskurðaði kjörseðilinn ógildan með vísan til 103. gr. kosningalaga þar sem á kjörseðilinn hafi verið ritaður texti umfram nafn frambjóðanda. 

  1. Atkvæði skráð nr. 57.

Um er að ræða einn utankjörfundarseðil þar sem tákn er sett fyrir aftan nafn frambjóðanda sem ritað er á kjörseðilinn. Umboðsmaður taldi atkvæðið vera gilt, þrátt fyrir að tákn sé á seðlinum þar sem ótvírætt megi sjá vilja kjósanda. Yfirkjörstjórn úrskurðaði kjörseðilinn ógildan, atkvæðið sé auðkennt með vísan til 103. gr. kosningalaga og fordæma í kveri um Mat á vafaatkvæðum í almennum kosningum. 

II.

Landskjörsstjórn hefur farið yfir gögn málsins og er niðurstaðan eftirfarandi:

  1. Atkvæði skráð nr. 1. Landskjörstjórn staðfestir niðurstöðu yfirkjörstjórnar með vísan til röksemda hennar. 

  1. Atkvæði skráð nr. 2-21. Landskjörstjórn staðfestir niðurstöðu yfirkjörstjórnar með vísan til röksemda hennar.  

  1. Atkvæði skráð nr. 22. Landskjörstjórn staðfestir niðurstöðu yfirkjörstjórnar með vísan til röksemda hennar.

  1. Atkvæðiskráð nr. 23. Landskjörstjórn staðfestir niðurstöðu yfirkjörstjórnar með vísan til röksemda hennar.

  1. Atkvæði skrá nr. 24. Landskjörstjórn staðfestir niðurstöðu yfirkjörstjórnar með vísan til röksemda hennar.

  1. Atkvæði skráð nr. 25-31. Landskjörstjórn staðfestir niðurstöðu yfirkjörstjórnar með vísan til röksemda hennar og úrskurðar Alþingis 2013.1.3.B.

  1. Atkvæði skráð nr. 32-43Landskjörstjórn staðfestir niðurstöðu yfirkjörstjórnar með vísan til röksemda hennar. 

  1. Atkvæði skráð nr. 44-46. Landskjörstjórn staðfestir niðurstöðu yfirkjörstjórnar með vísan til röksemda hennar.

  1. Atkvæði skráð nr. 47. Landskjörstjórn staðfestir niðurstöðu yfirkjörstjórnar með vísan til b. og  c. liðar 102. gr. kosningalaga. 

  1. Atkvæði skráð nr. 48. Landskjörstjórn staðfestir niðurstöðu yfirkjörstjórnar með vísan til röksemda hennar.

  1. Atkvæði skráð nr. 49. Landskjörstjórn fellst ekki á þá niðurstöðu yfirkjörstjórnar að með því kjósandi hafi auðkennt kjörseðilinn með því að skrifa nafn og heimilsfang frambjóðanda inn í þar til gerðan ramma á kjörseðlinum. Auðkenningin nær til þess að auðkenna frambjóðandann en ekki kjósandann og verður fallist á að ákvæði c. liðar 103. gr. kosningalaga sé uppfyllt, þ.e. að kjósandi hafi ekki af ásettu ráði gert kjörseðilinn auðkennanlegan. Atkvæði skráð nr. 49 skal því meta gilt atkvæði greitt Höllu Tómasdóttur.

  1. Atkvæði skráð nr. 50-54. Landskjörstjórn staðfestir niðurstöðu yfirkjörstjórnar með vísan til röksemda hennar.

  1. Atkvæði skráð nr. 55. Landskjörstjórn staðfestir niðurstöðu yfirkjörstjórnar með vísan til röksemda hennar.

  1. Atkvæði skráð nr. 56. Landskjörstjórn staðfestir niðurstöðu yfirkjörstjórnar með vísan til röksemda hennar.

  1. Atkvæði skráð nr. 57.Landskjörstjórn staðfestir niðurstöðu yfirkjörstjórnar með vísan til röksemda hennar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður um gildi ágreiningsatkvæðis skráð nr. 1 er staðfest. 

Ákvörðun yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður um gildi ágreiningsatkvæða skráð nr. 2-21 er staðfest.

Ákvörðun yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður um gildi ágreiningsatkvæðis skráð nr. 22  er staðfest.

Ákvörðun yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður um gildi ágreiningsatkvæðis skráð nr. 24 er staðfest.

Ákvörðun yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður um gildi ágreiningsatkvæðis skráð nr. 25-31 er staðfest.

Ákvörðun yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður um gildi ágreiningsatkvæða skráð nr. 32-43 er staðfest.

Ákvörðun yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður um gildi ágreiningsatkvæða skráð nr. 44-46 er staðfest.

Ákvörðun yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður um gildi ágreiningsatkvæða skráð nr. 47 er staðfest.

Ákvörðun yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður um gildi ágreiningsatkvæða skráð nr. 48 er staðfest.

Ákvörðun yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður um gildi ágreiningsatkvæðis skráð nr. 49 er felld úr gildi og atkvæðið úrskurðar gilt og greitt Höllu Tómasdóttur.

Ákvörðun yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður um gildi ágreiningsatkvæða skráð nr. 50-54 er staðfest.

Ákvörðun yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður um gildi ágreiningsatkvæða skráð nr. 55 er staðfest.

Ákvörðun yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður um gildi ágreiningsatkvæða skráð nr. 56 er staðfest.

 

Ákvörðun yfirkjörstjórnar Reykjavíkurkjördæmis suður um gildi ágreiningsatkvæða skráð nr. 57 er staðfest.

 

Landskjörstjórn 

 

Kristín Edwald formaður

Arnar Kristinsson

Ebba Schram

Hulda Katrín Stefánsdóttir

Magnús Karel Hannesson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta