Synjun um rétt til að nota starfsheitið kennari
Fimmtudaginn 2. mars 2023, var kveðinn upp í mennta- og barnamálaráðuneytinu svofelldur
ÚRSKURÐUR
í stjórnsýslumáli nr. MRN22030206
I.
Kæra, kröfur og kæruheimild
Mennta- og barnamálaráðuneytinu barst hinn 29. mars 2022, stjórnsýslukæra A (hér eftir nefnd „kærandi“), dags. 29. mars 2022, vegna ákvörðunar Menntamálastofnunar, dags. 28. mars 2022, um að synja kæranda um rétt til að nota starfsheitið kennari samkvæmt 4. og 9. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019.
Af kærunni verður ráðið að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Menntamálastofnun verði gert skylt að gefa út leyfisbréf honum til handa.
Ákvörðun Menntamálastofnunar er kærð á grundvelli 4. mgr. 10. gr. laga, nr. 95/2019 og barst kæra innan kærufrests.
II.
Málsatvik
Samkvæmt gögnum málsins lauk kærandi BSc prófi í íþróttafræði með áherslu á íþróttaþjálfun frá Háskólanum í Reykjavík árið […] og MA í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn frá Háskóla Íslands árið […]. Þá hefur kærandi lokið 25 ECTS námseiningum á meistarastigi í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf frá Háskóla Íslands og 25 ECTS námseiningum á meistarastigi við sama skóla utan gráðu. Í kæru kemur fram sú afstaða kæranda að menntun hans og hæfni eigi að leiða til þess að hann fái útgefið leyfi til að nota starfsheitið kennari hér á landi samkvæmt lögum nr. 95/2019 um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.
III.
Málsmeðferð
Stjórnsýslukæran barst mennta- og barnamálaráðuneyti 29. mars 2022. Samkvæmt beiðni ráðuneytisins bárust gögn málsins og umsögn Menntamálastofnunar þann 24. október 2022. Kæranda var gefinn kostur á að bregðast við umsögn Menntamálastofnunar og bárust viðbótarupplýsingar frá kæranda þann 25. nóvember 2022.
IV.
Málsástæður
Í stjórnsýslukæru kemur fram sú afstaða kæranda að hann uppfylli hæfniskröfur samkvæmt lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019, til þess að fá útgefið leyfisbréf. Kærandi vísar til námsloka sinna frá Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands, ásamt námseininga sem hann hefur lokið í framhaldsnámi við Háskóla Íslands. Þá vísar kærandi einnig til […].
Í umsögn Menntamálastofnunar til ráðuneytisins, dags. 24. október 2022, kemur fram sú afstaða stofnunarinnar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 4. gr. laga, nr. 95/2019, um að hafa öðlast þá almennu hæfni sem veitir rétt til þess að nota starfsheitið kennari. Að mati Menntamálastofnunar hafi kærandi einungis lokið 43 einingum í uppeldis- og kennslufræðigreinum, sem falla innan hæfniramma skv. 4. gr. laganna, en þar kemur fram að miða skuli við að lágmarki 60 námseiningar. Í því sambandi vísar Menntamálastofnun til þess að kærandi hafi lokið námskeiðunum sérkennsla, raddbeiting og framkoma (6 ECTS), kennslufræði II (6 ECTS), hagnýt kennslufræði íþróttakennara, þjálfara og leiðtoga (6 ECTS), kenningar í félagsfræði og heimspeki menntunar (10 ECTS), persónuleg færni: jákvæð sálfræði og velferð (5 ECTS) og inngangur að foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf (10 ECTS).
V.
Rökstuðningur niðurstöðu
Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019, hefur sá einn rétt til að nota starfsheitið kennari og starfa við leik-, grunn- eða framhaldsskóla á vegum opinberra aðila eða aðra hliðstæða skóla sem til þess hefur leyfisbréf.
Til að öðlast leyfisbréf samkvæmt lögunum þarf umsækjandi annars vegar að búa yfir almennri hæfni samkvæmt 4. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Almenn hæfni er skilgreind í sjö töluliðum 1. mgr. 4. gr. laganna. Þá segir í 2. mgr. að til að öðlast þá almennu hæfni sem þar er skilgreind skuli miða við að lágmarki 60 námseiningar í uppeldis- og kennslufræðigreinum. Hins vegar þarf umsækjandi að hafa yfir að ráða sérhæfðri hæfni samkvæmt 5. gr. laganna.
Af gögnum málsins verður ráðið að umsókn kæranda um rétt til að nota starfsheitið kennari sé byggt á því að menntun hans uppfylli skilyrði 2. og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 95/2019 um almenna og sérhæfða hæfni. Í umsögn Menntamálastofnunar til ráðuneytisins, dags. 24. október 2022, kemur fram að kærandi uppfylli ekki skilyrði 4. gr. laga, nr. 95/2019, um að hafa lokið 60 námseiningum í uppeldis- og kennslufræðigreinum.
Eins og áður hefur komið fram var ákvörðun Menntamálastofnunar byggð á því að kærandi hefði lokið alls 43 einingum í uppeldis- og kennslufræðigreinum en að miða skuli við að lágmarki 60 námseiningar til að uppfylla skilyrði um almenna hæfni skv. 4. gr. laga nr. 95/2019. Í athugasemdum kæranda telur hann upp ýmis námskeið sem hann telur að eigi jafnframt að falla undir almenna hæfni. Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur farið yfir gögn málsins og telur að þau námskeið, sem kærandi vísar til og gögn málsins bera með sér að hann hafi þreytt, séu ekki þess eðlis að þau verði metin til almennrar hæfni samkvæmt 4. gr. laga nr. 95/2019. Í því sambandi er bent á að í greinargerð sem fylgdi 4. gr. laga nr. 95/2019 kemur fram að með almennri hæfni sé litið svo á að lagður sé grunnur að einu leyfisbréfi kennara, en af þessu leiðir að gera þarf ríkar kröfur til þess að námseiningar, sem taldar verða til almennrar hæfni, hafi í reynd almenna skírskotun til starfa kennara þvert á skólastig. Vegna athugasemda kæranda er jafnframt tekið fram að ekki er unnt að líta svo á að […].
Samkvæmt framansögðu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 9. gr. laga, nr. 95/2019, fyrir útgáfu leyfisbréfs kennara, sbr. 4. gr. laganna um almenna hæfni kennara. Af þeirri ástæðu er ekki ástæða til að leggja frekara mat á sérhæfða hæfni kæranda skv. 5. gr. laganna.
Hin kærða ákvörðun Menntamálastofnunar er staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ
Ákvörðun Menntamálastofnunar um að synja umsókn kæranda um útgáfu leyfisbréfs er staðfest.