Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir mennta- og barnamálaráðuneytisins

Kæra vegna skólaaksturs fyrir barn frá grunnskóla sveitarfélags að heimili

 

Fimmtudaginn 18. júlí 2024 var kveðinn upp í mennta- og barnamálaráðuneytinu svohljóðandi

 

Úrskurður

í máli nr. MRN24020155

 

  1. Kæra, kröfur og kæruheimild

    Mennta- og barnamálaráðuneytinu barst hinn 27. febrúar 2024, framsend stjórnsýslukæra A (hér eftir nefnd „kærandi“), dags. 8. september 2023. Kæran er sett fram í fjórum liðum og varðar skipulag og fyrirkomulag skólaaksturs í [sveitarfélaginu Y] fyrir árin 2023–2028. Af kærunni má ráða að hún varði ákvörðun Y um að synja kæranda um skólaakstur fyrir barn kæranda til og frá heimili þess.

    Upphaflega framsendi innviðarráðuneytið kæruna 15. nóvember 2023 en vegna tæknilegra örðugleika varð dráttur á móttöku kærunnar sem barst ekki mennta- og barnamálaráðuneytinu fyrr en 27. febrúar 2024. Málið fékk númerið MRN24020155 í skjalastjórnunarkerfi ráðuneytisins.

    Af kærunni verður ráðið að kærendur krefjast þess að ákvörðun Y verði felld úr gildi.

    Ákvörðun Y er kærð á grundvelli 1. mgr. 47. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og barst kæra innan kærufrests.

  2. Málsatvik

    Kærandi býr í […] í sveitarfélaginu Y, ásamt barni kæranda sem gengur í einn af þeim grunnskólum sem reknir eru af sveitarfélaginu. Í Y eru þrír grunnskólar í þremur skólahverfum sem skilgreind eru í reglum sveitarfélagsins um skólasókn í öðru skólahverfi í Y. Gögn málsins bera með sér að árið 2014 hafi barni kæranda verið veitt undanþága frá meginreglunni um að sækja skóla innan skólahverfis og hefur barnið frá upphafi grunnskólagöngu sinnar sótt skóla í öðru skólahverfi. Frá skólaárinu 2014–2015 var skipulögð skólaakstursleið milli heimilis barns kæranda og skóla þess í öðru skólahverfi og til loka skólaársins 2022–2023, þ.e. þegar barnið var í 1.–9. bekk. Gögn málsins bera með sér að skólaakstur hafi verið með þessum hætti allt frá árinu 2013 í kjölfar erindis foreldra barna, þ. á m. kæranda, vegna barna búsett í […] og á […] og sóttu skóla utan síns skólahverfis.

    Samkvæmt fundargerð 11. fundar fræðslunefndar sveitarfélagsins frá 9. febrúar 2023 samþykkti nefndin að bjóða skólaakstur í dreifbýli út og vísa málinu til sveitarstjórnar þar sem fyrir lá að samningar um aksturinn voru að renna út 31. maí sama ár. Að auki kom fram í fundargerð að samhliða þyrfti að yfirfara breytingar á akstursleiðum og hugsanlega fyrirkomulagi. Bókun fræðslunefndarinnar var staðfest af byggðarráði og sveitarstjórn 15. febrúar 2023.

    Á 14. fundi fræðslunefndar sveitarfélagsins þann 9. maí 2023 voru á dagskrá annars vegar reglur um skólaakstur í dreifbýli Y og hins vegar reglur um skólasókn í öðru skólahverfi. Bókað er í fundargerð að reglur um skólaakstur í dreifbýli Y væru lagðar fram að nýju í tengslum við útboð á skólaakstri. Engar efnislegar breytingar voru gerðar á texta reglnanna við meðferð nefndarinnar en þær uppfærðar með tilliti til m.a. vísana í eldra útboð. Bókun fræðslunefndar var samþykkt í byggðaráði og í sveitarstjórn þann 10. maí 2023. Þá er bókað í fundargerð fræðslunefndar að reglur um skólasókn í öðru skólahverfi í Y hafi verið lagðar fram en breyting gerð á skólahverfi [skóla X] sem væri til samræmi við önnur ákvæði um skil skólahverfa. Bókunin var staðfest í byggðarráði þann 9. maí 2023 og í sveitarstjórn 7. júní 2023.

    Þann 12. maí 2023 birtist frétt á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem óskað er eftir tilboðum í skólaakstur í Y 2023–2028 og fjallað með almennum hætti um útboðið. Í útboðslýsingu frá apríl 2023 kemur fram að um er að ræða 13 aðalleiðir ásamt undirleiðum. Í aksturslýsingu fyrir leið […] fyrir árið 2023–2024 er gert ráð fyrir akstursleið að heimili barns kæranda. Útboðið var hins vegar fellt niður vegna formgalla og auglýst að nýju, sbr. bókun í fundargerð 16. fundar fræðslunefndar frá 15. júní 2023. Bókunin var staðfest í sveitarstjórn 28. júní 2023.

    Í frétt á heimasíðu sveitarfélagsins, dags. 5. júlí 2023, er óskað að nýju eftir tilboðum í skólaaksturinn og þar sé um að ræða skólaakstur milli heimilis og grunnskóla samkvæmt akstursáætlun sem samanstendur af 17 akstursleiðum sem skipt er upp í 17 samningshluta. Í aksturslýsingu með því útboði er ekki að finna akstursleið sem liggur að heimili barns kæranda. Í fundargerð 18. fundar fræðslunefndar frá 5. september 2023 er bókað um töku tilboða á grundvelli útboðs á skólaakstri. Á sama fundi undir sama dagskrárlið er bókuð athugasemd um að gerðar hafi verið efnislegar breytingar á skólaakstursleiðum þvert á það sem komi fram í fundargerð nefndarinnar frá 9. maí 2023. Þá hafi upplýsingamiðlun til foreldra um væntanlegar breytingar verið verulega ábótavant og því óskað eftir endurskoðun reglna um skólaaksturs í dreifbýli Y og að kannað verði hvort hægt sé að koma á móts við þá nemendur sem breytingarnar hafi veruleg áhrif á þannig að þjónusta við þá haldist óbreytt á yfirstandandi skólaári. Þeirri tillögu var hafnað af meiri hluta fræðslunefndarinnar m.a. með vísan til þess að þegar veitt er undanþága frá skólasókn í skólahverfi séu foreldrar barna upplýstir um að akstur sé ekki samþykktur samhliða námsvist í öðru skólahverfi enda taki akstursleiðir mið af skólahverfum. Í undanþágunni felist að foreldri þarf sjálft að sjá um akstur til viðkomandi skóla eða semja við bílstjóra viðkomandi leiðar. Sveitarfélagið hafi ekki milligöngu um og beri ekki ábyrgð á slíkum samningaviðræðum.

    Í samræmi við útboðið tók nýtt fyrirkomulag gildi skólaárið 2023–2024. Ekki er að sjá af gögnum málsins að endurskoðuð akstursáætlun hafi verið kynnt skólaráðum grunnskólanna í sveitarfélaginu. Gögn málsins bera með sér að daginn fyrir skólasetningu tilkynnti skólastjóri í skóla barns kæranda í tölvupósti, dags. 22. ágúst 2023, um fyrirkomulag skólaaksturs og að nú þurfi að keyra börn sem búsett eru utan akstursleiða til móts við skólabíl. Þegar nýtt fyrirkomulag á skólaakstursleiðum tók gildi var barn kæranda að fara að hefja nám í 10. bekk. Með nýju fyrirkomulagi var ekki lengur skipulögð akstursleið milli heimilis barns kæranda og grunnskóla þess sem er utan skólahverfi þess.

    Þann 24. ágúst 2023 er birt frétt á heimasíðu sveitarfélagsins um skólahverfi í Y og reglur um undanþágu fyrir skólasókn í öðru skólahverfi. Þar kemur m.a. fram skilgreining á skólahverfunum þremur, skipulag skólaaksturs og heimild til að veita undanþágu frá skólasókn í skólahverfi viðkomandi barns.

    Gögn málsins bera með sér að kærandi átti í samskiptum við sveitarfélagið í lok ágúst og byrjun september 2023, þ. á m. þar sem lögð er beiðni til fræðslunefndar sveitarfélagsins að endurskoða akstursleiðir í skólaakstri. Í fundargerð 20. fundar fræðslunefndarinnar frá 20. nóvember 2023 er tekið fyrir erindi kæranda um ósk kæranda um endurskoðun akstursleiða í skólaakstri. Tekið er fram að málið var áður á dagskrá 18. fundar fræðslunefndarinnar frá 5. september 2023 en þá fært í trúnaðarbók. Í fundargerð 20. fundar er birt bókun úr trúnaðarbókinni að beiðni kæranda þar sem kemur fram að erindi kæranda um endurskoðun akstursleiða í skólaakstri var hafnað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðun fræðslunefndar en af gögnum málsins má álykta að það hafi verið í september 2023.

    Þann 14. september 2023 birtist frétt á heimasíðu sveitarfélagsins um skólasókn í öðru skólahverfi innan Y og skólaakstur. Þar koma m.a. fram upplýsingar um fjölda barna á yfirstandandi skólaári sem sækja skóla utan síns skólahverfis og tekið fram að akstur er ekki samþykktur samhliða námsvist enda taki akstursleiðir mið af skólahverfum og foreldrum og forráðamönnum tilkynnt um slíkt fyrirkomulag þegar undanþága er veitt fyrir skólasókn í öðru skólahverfi. Þá kemur fram að sveitarfélögum landsins beri að gæta jafnræðis gagnvart íbúum sínum og því ekki hægt að veita sumum börnum akstur á milli skólahverfa en öðrum ekki. Að auki kom fram að almennt hafi sveitarfélög landsins ekki boðið upp á fljótandi skólahverfi enda myndi slíkt kalla á mikla skipulagningu, mjög breytilegan akstur og akstursleiðir á milli skólahverfa og mjög verulega aukinn kostnað við þá þjónustu.

  3. Málsmeðferð

    Stjórnsýslukæran barst innviðarráðuneyti þann 8. september 2023. Með tölvupósti til sveitarfélagsins, dags. 18. september 2023, óskaði ráðuneytið eftir umsögn sveitarfélagsins vegna kærunnar. Svar Y barst ráðuneytinu 6. október 2023. Kæranda var veitt tækifæri til að bregðast við umsögn sveitarfélagsins og bárust athugasemdir kæranda þann 27. október 2023.

    Kæran var framsend mennta- og barnamálaráðuneyti þann 15. nóvember 2023 en vegna tæknilegra örðugleika var kæran ekki móttekin í mennta- og barnamálaráðuneytinu fyrr en 27. febrúar 2024.

  4. Málsástæður

    Málsástæður kæranda

    Gögn málsins bera með sér að kærandi óski eftir því að sveitarfélagið skipuleggi áframhaldandi skólaakstur milli heimilis barns kæranda og grunnskóla, sem staðsettur er utan skilgreinds skólahverfis barnsins, líkt og áður hefur verið síðastliðin 10 ár. Í gögnum málsins gerir kærandi athugasemdir við það hvernig staðið var að breytingum á skólaakstri í sveitarfélaginu og skipulagi akstursleiðanna út frá skilgreindum skólahverfum sveitarfélagsins. Þá hafi breytingarnar ekki verið kynntar með fullnægjandi og tímanlegum hætti, hvorki fyrir foreldrum og forráðamönnum né skólasamfélaginu (skólum og skólaráðum), eða hvaða áhrif þau myndu hafa á börn sem sækja skóla utan síns skólahverfis. Þá bendir kærandi á að hvorki af fundargerðum sveitarfélagsins né tilkynningum á heimasíðu sveitarfélagsins um útboð á skólaakstri í Y megi ráða hvaða breytingar voru fyrirhugaðar á skólaakstursleiðum. Þvert á móti er notað sambærilegt og staðlað orðalag um útboð skólaakstursins líkt og var notað við útboð árin 2013 og 2018. Þá komi fram í fundargerðum sveitarfélagsins að engar efnislegar breytingar voru gerðar á reglum sveitarfélagsins um skólaakstur. Engar breytingar í tengslum við skólaaksturinn hafi verið kynntar af hálfu sveitarfélagsins fyrr en kærandi gerði athugasemdir við fyrirkomulagið í kjölfar skólasetningar 22. ágúst 2023, annars vegar með frétt á heimasíðu sveitarfélagsins 24. ágúst 2023 og hins vegar með frétt á heimasíðu sveitarfélagsins 14. september 2023.

     

    Kærandi telur að skipulag skólahverfa og skólaakstursleiða leiði til mismununar meðal grunnskólabarna innan sama sveitarfélags.

    Málsástæður Y

    Í svari Y er vísað til þess að frá 9. febrúar 2023 hafi legið fyrir að til stæði að bjóða skólaakstur í sveitarfélaginu út og þá hafi ákvarðanir um breytingu á tilhögun akstursins legið fyrir þegar á vormánuðum sem allir hlutaðeigandi gátu kynnt sér. Að auki hafi legið fyrir endurskoðun á reglum um skólaakstur í dreifbýli Y sem voru samþykktar 10. maí 2023. Í 3. gr. reglnanna  komi fram að daglegur skólaakstur verði í samræmi við útboðslýsingu frá apríl 2023 og að skólastjórnendum er falið að kynna akstursáætlun fyrir skólaráðum grunnskólanna, sbr. 8. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, og skal áætlunin vera aðgengileg íbúum á heimasíðu þeirra. Þá komi fram í 1. gr. reglnanna að skólaakstur miðist við akstur innan viðkomandi skólahverfis. Grunnskóli barns kæranda tilheyrir öðru skólahverfi en barn kæranda býðst skólaakstur í sínu skólahverfi, þ.e. í öðrum skóla en það sækir í dag. Slíkt fyrirkomulag er í samræmi við 3. gr. reglna um skólaakstur í grunnskóla, nr. 656/2009.

    Þá telur sveitarfélagið að þrátt fyrir að fyrirkomulag skólaaksturs hafi verið með öðrum hætti á árunum 2013–2023 bindi það ekki hendur sveitarfélagsins um að hafa aksturinn óbreyttan um ókomna tíð. Sveitarfélaginu beri að haga akstrinum með tilliti til staðsetningar skóla og nemenda með sem mestri hagkvæmni fyrir sveitarfélagið. Þá beri sveitarfélaginu að gæta jafnræðis og gæta hags sveitarfélagsins í heild sinni. Með nýju fyrirkomulagi skólaaksturs sé ætlunin að stuðla að skilvirkari og hagkvæmari þjónustu sveitarfélagsins. Skipulag skólaakstursleiða taki tillit til staðsetningar skóla og taki mið m.a. af fjölda nemenda, aldri, samsetningu nemendahóps og umhverfisástæðum. Akstursáætlanir séu endurskoðaðar reglulega við breyttar aðstæður.

    Þá bendir sveitarfélagið á að kjósi skólabarn að sækja skóla í öðru hverfi en því skólahverfi sem það býr í þurfi að sækja um það undanþágu og sé hún almennt veitt með fyrirvara um skólaakstur. Þannig sé ekki hægt að gera kröfu um að skólaakstur fylgi breyttu skólahverfi. Hafi kæranda verið þegar gerð grein fyrir því að fyrirvari væri um skólaakstur þegar kærandi á sínum tíma óskaði eftir flutningi milli skóla á árinu 2014.

  5. Niðurstaða

    Kæruheimild

    Í 4. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, er fjallað um yfirstjórn grunnskólamála. Þar segir m.a. að ráðherra fari með yfirstjórn þeirra málefna sem lögin taki til. Ráðuneytið hafi eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveði á um. Þá segir í 47. gr. laga um grunnskóla að ákvarðanir um réttindi og skyldur nemenda sem teknar eru á grundvelli laganna, að undanskildum ákvörðunum um námsmat, sbr. 9. gr. laga nr. 76/2016, séu kæranlegar til ráðherra.

    Samkvæmt 22. gr. laga um grunnskóla bera sveitarfélög ábyrgð á skipulagi skólaaksturs þar sem hann á við og standa straum af kostnaðinum. Á grundvelli þessa ákvæðis hafa verið settar reglur um skólaakstur í grunnskóla, nr. 656/2009. Í 8. gr. reglnanna er fjallað um meðferð ágreiningsmála. Þar segir að telji foreldri einhverju áfátt í fyrirkomulagi skólaaksturs eða að á rétti barns sé brotið getur foreldri leitað leiðréttingar hjá sveitarstjórn eða hlutaðeigandi skólastjóra.

    Í máli þessu liggur fyrir að í upphafi skólaárs 2023–2024 bar kærandi fram ósk við sveitarfélagið um endurskoðun akstursleiða í skólaakstri. Á fundi fræðslunefndar Y, dags. 5. september 2023, var málið tekið fyrir og fært í trúnaðarbók. Gögn málsins bera með sér að í kjölfar þess fundar hafi kæranda verið tilkynnt um að erindinu hafi verið hafnað. Að beiðni kæranda var niðurstaða nefndarinnar síðan bókuð í fundargerð nefndarinnar frá 18. nóvember 2023.

    Samkvæmt framansögðu leitaði kærandi leiðréttingar hjá fræðslunefnd sveitarfélagsins sem skv. 1. mgr. 6. gr. laga um grunnskóla fer með málefni grunnskóla í umboði sveitarstjórnar. Í bókun fræðslunefndar fólst formleg synjun á ósk kæranda um tiltekið fyrirkomulag skólaaksturs sem var beint að kæranda sérstaklega og fól í sér að af hálfu sveitarfélagsins var bundinn endir á þann þátt málsins. Að mati mennta- og barnamálaráðuneytisins fólst í þessari afgreiðslu stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sem er kæranleg til mennta- og barnamálaráðuneytis samkvæmt 47. gr. laga um grunnskóla.

    Synjun á beiðni kæranda um endurskoðun akstursleiða í skólaakstri

    Mál þetta varðar synjun Y á beiðni kæranda um að endurskoða skólaakstursleiðir, en kærandi hafði farið fram á að sveitarfélagið skipulegði skólaakstur milli heimilis barns kæranda og grunnskóla þess sem er í öðru skólahverfi en innan skilgreinds skólahverfis barnsins samkvæmt búsetu. Samkvæmt gögnum málsins má ráða að synjunin sé byggð á því að skólaakstur sé skipulagður út frá hverju skólahverfi innan sveitarfélagsins og sveitarfélagið telji sig því ekki bera ábyrgð á því að skipuleggja skólaakstur frá heimili að skóla í öðru skólahverfi. Þá telji sveitarfélagið sig hafa svigrúm til þess að ákveða fyrirkomulag skólaaksturs með tilliti til staðsetningar skóla og nemenda með sem mestri hagkvæmni fyrir sveitarfélagið að gættu jafnræði og hags sveitarfélagsins í heild sinni.

    Samkvæmt lögum um grunnskóla bera sveitarfélög ábyrgð á heildarskipan skólahalds, sbr. 5. gr. laganna. Á grundvelli laganna og almennra reglna um sjálfsstjórn sveitarfélaga, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar, hafa sveitarfélög nokkuð svigrúm til að skipuleggja skólastarf í grunnskólum, þ.m.t. að skilgreina skólasókn eftir búsetu barna innan sveitarfélagsins og hvernig farið er með ákvarðanir um hvaða skóla nemendur sækja. Sama á við um skólaakstur en samkvæmt 22. gr. laga um grunnskóla er það lögbundið hlutverk sveitarfélaga að skipuleggja skólaakstur þar sem hann á við og standa straum af kostnaði við hann. Af lagagrundvellinum leiðir að sveitarfélög hafa ákveðið svigrúm til að útfæra fyrirkomulag skólaaksturs að því gefnu að skipulagið sé byggt á málefnalegum sjónarmiðum og að öðru leyti í samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar, þar á meðal meðalhófsreglu og jafnræðisreglu.

    Í 2. mgr. 1. gr. reglna um skólaakstur í grunnskólum, nr. 656/2009, sem ráðherra hefur sett á grundvelli 22. gr. laga um grunnskóla, er að finna skilgreiningu á skólaakstri og heimili. Með skólaakstri er átt við akstur á milli heimilis og grunnskóla þar sem þess er þörf til að tryggja jafnan aðgang nemenda að grunnskólanámi. Þá merkir heimili skráð lögheimili eða annar staður þar sem barnið hefur fasta búsetu. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. bera sveitarfélög kostnað og ábyrgð á öryggi, velferð og hagsmunum nemenda í skólaakstri og að uppfylltar séu kröfur laga og reglugerða um umferðaröryggi. Í 3. gr. er kveðið á um fyrirkomulag skólaaksturs og akstursáætlun. Í 1. mgr. 3. gr. kemur fram að sveitarstjórn setji, að fenginni umsögn skólanefndar, reglur um fyrirkomulag skólaaksturs er taki m.a. mið af kennsluskipan, fjölda nemenda, aldri þeirra, samsetningu nemendahóps og umhverfisaðstæðum. Í 2. mgr. 3. gr. segir að skólanefnd skuli fyrir upphaf hvers skólaárs birta endurskoðaða áætlun um skólaakstur. Áætlunina skuli kynna skólaráðum og skal hún vera íbúum sveitarfélagsins aðgengileg. Sveitarstjórn er heimilt að skipuleggja akstursleiðir skólabifreiða með tilliti til staðsetningar skóla í sveitarfélaginu. Fjallað er um skipulag skólaaksturs í 4. gr. reglnanna. Í 1. mgr. 4. gr. reglnanna segir að skólaakstur skuli skipulagður í samræmi við þarfir nemenda með hliðsjón af öryggi þeirra, velferð og umhverfisaðstæðum, svo sem fjarlægðar milli heimilis og skóla. Sveitarfélag getur í reglum, sbr. 1. mgr. 3. gr., sett almenn viðmið um skipulag skólaaksturs. Séu umhverfisaðstæður með þeim hætti að ekki er ástæða til að óttast um öryggi og velferð nemenda er heimilt að skipuleggja skólaakstur með þeim hætti að skólabifreið aki samkvæmt áætlun og stöðvi á tilgreindum biðstöðvum, sbr. 2. mgr. 4. gr. Þá er sveitarstjórn heimilt að semja við foreldra um þátttöku þeirra í skólaakstri, sbr. 4. mgr. 4. gr.

    Eins og áður hefur komið fram hefur sveitarfélagið sett sér reglur um skólaakstur í dreifbýli Y sem samþykktar voru í sveitarstjórn þann 10. maí 2023. Í 1. gr. þeirra reglna er skólaakstur skilgreindur sem akstur á milli heimilis og grunnskóla innan skólahverfis. Heimili í reglunum merkir skráð lögheimili nemenda. Þá er í 3. gr. fjallað um fyrirkomulag og akstursáætlun og vísað til þess að daglegur skólaakstur sé í samræmi við útboðslýsingu sem gerð var í apríl 2023 og er skipulagður samkvæmt skólaakstursáætlun sem sérfræðingur á fjölskyldusviði sveitarfélagsins vinnur í samráði við skólastjórnendur. Jafnframt hefur sveitarfélagið sett sérstakar reglur um skólasókn í öðru skólahverfi í Y sem samþykktar voru í fræðslunefnd 9. maí 2023 og staðfestar í sveitarstjórn 9. júní sama ár. Eins og áður hefur komið fram rekur sveitarfélagið þrjá skóla og hver skóli er innan skilgreinds skólahverfis, sbr. 1. gr. reglnanna. Í 2. gr. reglnanna kemur fram að heimilt er að veita undanþágu frá þeirri meginreglu að barn á grunnskólaaldri sæki að jafnaði skóla í sínu skólahverfi ef fyrir liggja rík málefnaleg sjónarmið, fagleg eða félagsleg. Þá segir í 4. gr. reglnanna að umsókn um undanþágu er einungis samþykkt ef talin eru fullnægjandi fagleg eða félagsleg rök fyrir beiðninni, ef kostnaður vegna breytinganna er óverulegur (skólaakstur, launakostnaður o.s.frv.) og ef breyting veldur ekki umtalsverðri röskun á starfsemi hlutaðeigandi skóla.

    Í máli þessu liggur fyrir að barni kæranda var veitt undanþága frá meginreglunni um skólasókn í skólahverfi árið 2014 og hefur síðan sótt skóla utan síns skólahverfis. Naut barnið skólaaksturs frá heimili að skóla allt fram að gildistöku nýs fyrirkomulags skólaakstursleiða fyrir skólaárið 2023–2024. Eins og áður greinir virðist synjun sveitarfélagsins um að skipuleggja skólaakstur frá heimili kærenda að skólanum sem barnið sækir einkum byggð á því sjónarmiði að sveitarfélaginu beri ekki skylda til að skipuleggja skólaakstur milli heimilis og grunnskóla þegar barn sækir skóla í öðru skólahverfi innan sama sveitarfélags. Þá verður ekki annað ráðið af framangreindum reglum sveitarfélagsins en að skipulag skólaaksturs í sveitarfélaginu Y byggi á því að tryggja börnum skólaakstur milli heimilis og grunnskóla innan skilgreindra skólahverfa. Aftur á móti sé fyrirkomulagið ekki með þeim hætti að skipuleggja skólaakstur fyrir börn sem sækja grunnskóla utan skólahverfa sinna. Að auki bera gögn málsins með sér að forsendur sveitarfélagsins fyrir nýju fyrirkomulagi akstursleiða byggi m.a. á hagkvæmnis- og jafnræðissjónarmiðum sem taki tillit til staðsetningar skóla og taki mið m.a. af þeim sjónarmiðum sem talin eru upp í 1. mgr. 3. gr. reglna um skólaakstur í grunnskóla.

    Líkt og áður greinir bera sveitarfélög ábyrgð á heildarskipan skólahalds. Að mati mennta- og barnamálaráðuneytisins verður að leggja til grundvallar að framangreint skipulag skólahverfa út frá búsetu barna og skólaaksturs út frá skólahverfum sé innan þess svigrúms sem sveitarfélagið Y hefur til að skipuleggja skólastarf og skólaakstur samkvæmt lögum um grunnskóla. Í því sambandi lítur ráðuneytið m.a. til þess að af gögnum málsins má ráða að sum börn, en ekki öll, sem sóttu skóla í öðru skólahverfi gátu nýtt sér þær akstursleiðir líkt og fyrirkomulaginu var háttað áður en nýtt fyrirkomulag tók gildi skólaárið 2023–2024. Nýtt fyrirkomulag skólaaksturs var til þess fallið að jafna aðstæður barna að þessu leyti. Þá lítur ráðuneytið til þess að börn sem sækja skóla í öðru skólahverfi hafa möguleika á að nýta þær skólaakstursleiðir sem sveitarfélagið skipuleggur, þ.e. að foreldrar þeirra barna geti gert samkomulag við bílstjóra sem ekur viðkomandi leið en sveitarfélagið hafi ekki milligöngu um og beri ekki ábyrgð á slíkum samningaviðræðum. Enn fremur verður ráðið af gögnum málsins að skólaakstur standi til boða fyrir öll börn sem sækja skóla innan síns skólahverfis í Y, þurfi börn á slíkum akstri að halda. Fæst því ekki annað séð en að fyrirkomulag sveitarfélagsins á skólaakstri byggi á málefnalegum sjónarmiðum og sé innan þess lagaramma sem gildir um skólastarf og skólaakstur.

    Þá liggur fyrir í máli þessu að allt frá árinu 2014 hefur barni kæranda verið veitt undanþága frá skólasókn í sínu skólahverfi. Áður en undanþágan var veitt var nú þegar skipulagður skólaakstur alveg að heimili barns kæranda. Ákveðnar forsendur hafi því legið til grundvallar þegar undanþágan var veitt og þannig ljóst að nýtt fyrirkomulag á skólaakstri breytti þeim forsendum. Í ljósi breyttra forsenda telur mennta- og barnamálaráðuneytið að betur hefði farið á því að sveitarfélagið hefði frumkvæði að samtali við foreldra þeirra barna sem myndu ekki lengur njóta skólaaksturs vegna skólasóknar í öðru skólahverfi, til að mynda hvort grundvöllur væri fyrir viðkomandi barn að sækja skóla í sínu skólahverfi eða hvort breytingar akstursleiða myndi bjóða upp á annað fyrirkomulag eða útfærslur. Í þessu samhengi bendir ráðuneytið einnig á að það hefði verið ákjósanlegra ef aðstæður hefðu verið með þeim hætti að endurskoðuð áætlun um skólaakstur hefði verið birt og gerð aðgengileg með meiri fyrirvara en raun bar vitni í máli þessu. Þá bendir ráðuneytið á að þrátt fyrir að skólaráð veiti ekki lögbundna umsögn um áætlun um skólaakstur þá ber að kynna skólaráði slíka áætlun en gögn málsins bera með sér að svo hafi ekki verið gert. Að mati ráðuneytisins er þó ekki um slíkan annmarka á málsmeðferð sem leiðir til ógildingar á ákvörðun sveitarfélagsins enda gerir 3. gr. reglna um skólaakstur í grunnskólum, nr. 656/2009, eingöngu þá kröfu að fyrirkomulag skólaaksturs liggi fyrir fyrir upphaf hvers skólaárs. Hins vegar beinir ráðuneytið því til sveitarfélagsins Y að gæta framvegis að því að áætlun um skólaakstur sé kynnt skólaráðum í samræmi við 3. gr. reglna um skólaakstur í grunnskóla.

    Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða mennta- og barnamálaráðuneytisins að ákvörðun fræðslunefndar Y um að synja beiðni kærenda um að endurskoða skipulagningu skólaaksturs að heimili kæranda, dags. 5. september 2023, sem var tilkynnt kæranda í sama mánuði, hafi verið í samræmi við lög.

  6. Úrskurðarorð

Ákvörðun Y um að synja beiðni kærenda um skólaakstur fyrir barn þeirra frá grunnskóla sveitarfélagsins að heimili þeirra er staðfest.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum